Færsluflokkur: Bækur

Aftur til framtíðar

Undanfarna áratugi hafa orðið gríðarlega miklar breytingar á samfélagi okkar. Stundum, þegar ég hugsa til þess, þá óar mig og ég spyr mig, hvort við höfum í raun verið tilbúin og hvort við getum nokkurn tíma verið tilbúin. Þegar ég var í barnaskóla þá var ekki tölvuver í skólanum og ég man, að fyrstu ritgerðirnar sem ég skrifaði voru slegnar á ritvél, þar sem við áttum ekki tölvu heima. Ég man líka þegar við fengum netið fyrst, 56kb upphringimódem og möguleikarnir sem opnuðust fyrir manni þá. Eins hve svakalega flott þótti á sínum tíma að vera með símboða, við félagarnir vorum búnir að koma okkur upp númerakerfi, gátum komið ótrúlega miklum upplýsingum á milli með fáum númerasamsetningum. 

Í dag eru tölvur á öllum heimilum og börn í grunnskólum eiga síma, sem eru sumir hverjir álíka öflugir og litlar fartölvur. Þægindastuðull okkar og hjálpartæki hvers konar hafa gert líf okkar á margan hátt einfaldara en líka flóknara. Þessi tæki öll kalla á tækniþekkingu og um leið og netið þenst út, býr það til sífellt nýjar leiðir til að koma upplýsingum á framfæri. Ég spyr, hvernig er menntakerfið að bregðast við þessu?

Fyrir börnum og ungmennum er netið, farsímar, tölvur og þess háttar raunveruleiki sem þau sjá og upplifa alls staðar. Pappír, krítartöflur og þess háttar eru eitthvað sem þau þekkja nær eingöngu úr skólanum. Sem sagt inni í einhvers konar vernduðu umhverfi. Það hlýtur því að vera vafamál, hvort grunnskólinn sé í raun að undirbúa nemendur undir veruleikann. Í starfi mínu hef ég enn ekki þurft að skila af mér skýrslu í pappírsformi, þær sem ég þarf að senda frá mér eru geymdar í tölvukerfum, sendar með tölvupósti og oft ræddar á þeim vettvangi líka. Eru kennarar að kalla eftir slíkum vinnubrögðum frá nemendum?

Ég reikna ekki með að þess verði langt að bíða, að samfélagsmiðlar muni spila mun stærra hlutverk í innri starfsemi fyrirtækja, jafnvel að fyrirtæki verði með sína eigin samfélagsmiðla. Microsoft hefur í raun stigið ákveðið skref í þá átt, t.d. er Sharepoint með marga þætti sem minna um margt á það sem þekkist á netinu, t.a.m. sameiginleg skjalavinnsla yfir netið í anda Google docs. Eru kennarar að kenna börnum og ungmennum að umgangast og nota þess háttar tækni? Þar sem vitneskja verður sameiginleg nemendum, eins konar miðlægur gagnabrunnur, sem allir nemendur geta sótt í upplýsingar? Eða eru kennarar enn að berjast við að troða eins miklu í kollinn á hverjum og einum með aðferðum sem þau munu sjaldan ef nokkurn tíma nota?

Netið er stórkostlegur brunnur upplýsingar og aðferða, brunnur sem kostar yfirleitt ekkert að nota. Það er því ekki afsökun á þessum síðustu og versu hruntímum að fjármagn skorti til að kaupa forrit, tölvur og þess háttar. Nemendur eru með tölvurnar, þau kunna á tæknina og hugbúnaðurinn liggur á netinu. Í raun er þetta frekar spurning um hvort kennarar séu tilbúnir að snúa aftur til framtíðar, þó ekki væri nema til nútíðar, í stað þess að sitja fastir í sama fari, sömu kennsluaðferðum og voru notaðar þegar þeir voru í grunnskóla. Framtíðin er núna og ekki seinna að vænna að tileinka sér hana.  


Smásögur vs. skáldsögur ... og Furðusögur!

Í barnaskóla var ég einn af þeim sem lenti títt í því, að klára vikuáætlun sem kennarinn lagði fram, snemma á þriðjudegi. Þá var ekki til siðs að vera með aukaverkefni eða ítarefni fyrir þá sem áttu auðvelt með að læra námsefnið. Við máttum því annað hvort sitja og teikna myndir (sem ég hafði hvorki getu né áhuga á) eða lesa. Ég valdi því það síðarnefnda og má segja að ég hafi eytt miklum hluta af grunnskólaferli mínum á bókasafni að lesa. Ég las allt það er ég komst yfir; Frank og Jóa, Narníu-sögurnar, Dularfullu- og Fimm bækurnar og svo mætti lengi telja. Þegar ég varð unglingur, bæði í unglingadeild og menntaskóla, las ég áfram, bæði á íslensku og ensku, þegar ég náði góðum tökum á því. Í raun er það ekki fyrr en nú á síðari árum sem ég hef haft bæði minni tíma til að lesa en eins fundið minna sem heillar mig til lesturs. Kannski vegna þess ég hef tekið upp á því að skrifa sjálfur og hef oftar en ekki frekar sest við skriftir en við lestur.

Ein af þeim bókmenntategundum sem hefur heillað mig mest í gegnum tíðina eru hrollvekjur, einkum og sér í lagi þær sem skrifaðar voru um þar síðustu aldamót og á fyrsta aldarfjórðungi síðustu aldar, höfundar á borð við Edgar Allan Poe og H.P. Lovecraft. Sérstaklega hefur sá síðarnefndi haft áhrif á mig, en furðusögur hans (e. Wierd fiction); sérstaklega sögurnar um The Great Old Ones; þykja mér skemmtilegar. Undantekningalítið eru sögur þessara höfunda smásögur, þó vissulega eigi þeir hvor um sig skáldsögur, t.d. At the Mountains of Madness og Ævintýri Arthúrs Gordon Pyms. Höfundar sem fylgdu í kjölfar þeirra, hvort sem þeir skrifuðu hreinræktaðar hrollvekjur eða furðusögur, voru einstaklingar á borð við Shirley Jackson, Peter Straub, Stephen King og George R. R. Martin, en flestir hafa þessir höfundar lagt áherslu á skáldsögur. 

Hrollvekjan er nefnilega ekki eitt af þessum týpísku fagurbókmenntaformum, sérstaklega furðusögur. Þrátt fyrir það var Lovecraft virkilega fær rithöfundur, með orðaforða sem fáir gátu státað af á þeim tíma og jafnvel þótt síðar væri (þó svo það eitt og sér geri menn ekki að góðum höfundum). Smásögur Poes hafa líka löngum þótt vel skrifaðar og smásagan The Fall of House Usher er með frægari smásögum heimsins. Hins vegar er hrollvekjuformið ævafornt, sbr. allar þjóðsögur sem fjalla um hryllilega atburði eða óvætti hvers konar.

Hrollvekjur passa misvel í þessi form, þ.e. smásöguna og skáldsöguna, að mínu mati. Ég hef lagt mig fram um að lesa eins mikið af hrollvekjum og ég kemst yfir, óháð því hvaðan þær koma eða eftir hvern þær eru. Hrollvekjan á sér lengri hefð sem skáldsaga í ensku og um leið ákveðnari orðaforða eða menningarheim, ef svo mætti að orði komast. Þó svo við Íslendingar eigum okkur langa hefð þjóðsagna, þá hafa ekki verið skrifaðar margar hrollvekjur og þær sem hafa verið skrifaðar eru undantekningalítið smásögur. Þórbergur Þórðarson skrifaði nokkrar á sínum tíma, Þórir Bergsson á nokkrar ágætar og eins hafa aðrir reynt við formið, en enginn íslenskur rithöfundur hefur mér vitandi lagt formið fyrir sig og gert út á það. Fyrir nokkrum árum kom út bókin Börnin í Húmdölum eftir Jökul Valsson, ágæt bók að mörgu leyti en leið fyrir, hve lítið var gert út á hinn íslenska veruleika í henni.

Hrollvekjur seljast auk þess töluvert vel í enskumælandi löndum, sbr. Stephen King og George R. R. Martin. Báðir höfundar eru gríðarlega mikið seldir og gerir amk. annar höfundurinn út á hrollvekjur að langmestu leyti. Þeir eru mun fleiri höfundarnir sem hægt væri að nefna; Clive Barker, Ann Rice, osfrv.; og virðist manni sem markaðurinn þar sé mun móttækilegri en sá hér heima fyrir hrollvekjum. Eru Íslendingar kannski bara með nægan hrylling í bókmenntasögunni, þ.e. þjóð- og Íslendingasögum? Eða hafa útgáfurnar ekki trú á þessum bókmenntageira?

Mín kenning er sú, að íslenskir rithöfundar, þ.e. þeir sem hafa einblínt á þetta genre (ég meðtalinn), séu of uppteknir af því að skrifa skáldsögur. Íslenski bókamarkaðurinn fyrir hver jól inniheldur ekki mörg smásagnasöfn og ég sá ekki nema 4 (ef ég man rétt) fyrir síðustu jól. Hversu margar skáldsögur ætli séu gefnar út fyrir hvert smásagnasafn? Það er kannski ekki furða, þegar kröfur lesenda eða forlaga (hvort ætli komi á undan?) eru þær, að rithöfundar skrifi skáldsögur. Smásögur virðast bara ekki eiga upp á pallborðið. Smásagan tel ég henta íslenskum hrollvekjum betur, í menningu sem okkar, þar sem þjóðsögur eru nátengdar tungumálinu og íslenskum veruleika, til að koma þessu til skila, því þar lesandinn þarf ekki að vera jafn nátengdur aðalpersónum og í skáldsögum. Í síðarnefnda forminu er mikilvægt að veita lesendum færi á, að komast í snertingu við aðalpersónur, sjá sig í þeirra sporum og upplifa tengsl við þær. Í smásögum er mikilvægara að veita innsýn í lítinn heim, eitt augnablik, sem getur þó verið merkingarþrungið og mun stærra en orðin fela í sér. Þar er þessi tenging lesanda og aðalpersónu ekki jafn skýr og því geta íslenskir höfundar frekar leikið sér með menningararfinn (sérstaklega þjóðsögurnar), en ef um skáldsögu væri að ræða. 

Gott dæmi um þetta er tímaritið Furðusögur sem kom út nú fyrir skemmstu. Þar er að finna nokkrar mjög góðar sögur, sem hver fyrir sig og á sinn hátt leikur sér með þennan arf. Stundum er það hinn trúarlegi arfur, stundum er það frásagnarhátturinn, á öðrum stöðum verur, óvættir og jafnvel vísanir í þekktar persónur úr þjóðsögunum. Í blaðinu er hrollvekjunni í formi smásögu gert hátt undir höfði og hefur ekki verið svo síðan bókin Íslenskar hrollvekjur kom út árið 1985 í ritstjórn Matthíasar Viðars Sæmundssonar. Mér finnst þetta mjög ánægjuleg þróun og vona að forlög og útgáfur fari að opna augu sín fyrir þessum markaði. Hrollvekjur, draugasögur, furðusögur, gotneskar bókmenntir, jafnvel neo-gotneskar, allt eru þetta form sem mætti gera meira úr hérlendis, að mínu mati. 

Ef þú hefur ekki lesið blaðið, skaltu endilega reyna að komast yfir það og lesa Furðusögur. Ég á tvær sögur í blaðinu! Þær eru mjög ólíkar, aðra mætti kalla draugasögu - jafnvel klassíska draugasögu - þar sem náttúra Íslands spilar stórt hlutverk. Hin er nátengdari furðusögum Lovecrafts; draumfarir, óskilgreindir og óskiljanlegir óvættir.  


Vinsælar bókmenntir og gæði þeirra

Í gær átti ég í ágætu netspjalli við Eirík Nordahl, rithöfund, um hvort vinsældir bóka sé tákn um gæði þeirra. Hann kom með marga athyglisverða punkta, en hann er þeirrar skoðunar að svo sé ekki. Ég er ekki alveg sammála honum, þar sem ég tel, að vinsældir geti stundum verið merki um gæði. 

Hann kom með ágætt dæmi, þ.e. Da Vinci Lykilinn eftir Dan Brown. Bókin varð gríðarlega vinsæl en út frá fagurfræðilegu og bókmenntalegu sjónarmiði, þá er bókin ekkert sérstök, svo vægt sé til orða tekið. Meira að segja upplýsingarnar sem í henni birtast eru lélegar. Og af því, að ekki er hægt að setja samasemmerki á milli gæða og vinsælda, þá telur Eiríkur, hafi ég skilið hann rétt, að vinsældir geti ekki sagt til um gæði.

Það er margt til í þessu. Vinsæl bók getur orðið vinsæl fyrir svo margar aðrar sakir en vegna góðs texta eða góðrar sögu, t.d. ef markaðssetning heppnast vel, rithöfundur er vel þekktur og á sér marga lesendur, umfjöllunarefni er áhugavert og svo mætti lengi telja. Sem sagt, það er margt sem spilar inn í það hvort bók verður vinsæl.

Ég spurði Eirík út frá hvaða forsendum, öðrum en huglægum og persónulegum, hann mæti gæði bókmennta. Hann sagði að slíkt mat væri alltaf byggt á huglægum og persónulegum forsendum. Einmitt í þessu tel ég fullyrðingu Eiríks ekki ganga upp. Fólk, þ.e. þeir sem kaupa bækur, kaupir bækur út frá mörgum mismunandi forsendum. Ef við gefum okkur, að fólk versli aldrei bækur út frá fagurfræðilegum forsendum, s.s. að fólk kaupi aldrei bækur sem það veit að því finnst góðar eða hefur verið sagt að séu góðar, þá gengur fullyrðingin upp.

Gallinn er bara sá, að til þess þyrftum við að þekkja ástæður kaupa hjá nær öllum. Til eru þeir sem kaupa bækur út frá gæðatengdu persónulegu og huglægu gildismati. Slíkir einstaklingar hafa líka áhrif á vinsældir bóka.

Í samfélagi sem okkar, þar sem upplýsingaflæði er mikið; fjölmiðlar, samfélagsmiðlar á netinu, allir með farsíma og þess háttar; þá hlýtur að fréttast býsna hratt hvaða bækur eru góðar. Auk þess hafa rannsóknir sýnt, að fólk treystir best sínum nánustu til að fá meðmæli með vöru, síðan ókunnugum og auglýsingum/markaðssetningu mun síðar en hinum tveimur.

Sem sagt, bók getur orðið vinsæl fyrir sakir gæða af því gæðin spyrjast út. Auðvitað gerist það ekkert alltaf, langt í frá, og margir höfundar virðast selja bækur í bílförmum óháð því hvaða sorp þeir setja á blað. Að sama skapi virðast aðrir höfundar, sem mega vart leysa vind án þess að það sé samansett í texta á snilldarlegan hátt, lítið sem ekkert selja. Ég held þess vegna, að þetta sé ekki svo einhlítt, það sé hreinlega ekki hægt að setja þetta upp sem alhæfingu eða sem svart/hvítan raunveruleika. Ergo, þó margt sé til í þessari fullyrðingu, þá gengur hún ekki alltaf upp. Væri kannski réttar að setja hana svona upp: Vinsældir segja ekki alltaf til um gæði bóka. 

Hins vegar, er mjög áhugavert að skoða hvers lags bækur ná vinsældum. Hérlendis hafa spennusögur selst gríðarlega vel, oft á kostnað fagurbókmennta. Eru það skilaboð lesenda til höfunda? Þetta er það sem við viljum lesa? Eða eru það höfundar sem eiga að skrifa og segja fólki með útgáfum á bókum sínum, hvað það á að lesa? Eiga rithöfundar að eltast við að þóknast lesendum sínum eða bara sjálfum sér?

Auðvitað eiga rithöfundar að skrifa það sem þá langar til að skrifa, hins vegar er bara ekki alltaf markaður fyrir því. Og (því miður að mörgu leyti) útgáfur hugsa á markaðsfræðilegum nótum, þ.e. þær vilja helst gefa út bækur sem eiga möguleika á að standa undir útgáfukostnaði. Varla færi útgáfa að gefa út hvern bókartitilinn á fætur öðrum sem stendur ekki undir sér, því slík útgáfa færi fljótlega á hausinn. Þannig markaðurinn er farinn að stjórna heilmiklu, hvort sem höfundum líkar betur eða verr. 

Ég hef oft velt þessu fyrir mér, þar sem ég er í þeirri stöðu að skrifa sögur sem útgáfur telja ekki henta vel til útgáfu, þ.e. hrollvekjur. Vissulega hafa komið út þannig sögur hérlendis af og til með töluverðu millibili, t.d. Börnin í Húmdölum, en sala þeirra er yfirleitt ekki mikil. Er ég þá dæmdur til að þóknast markaðsöflunum, skrifa eitthvað annað til að hljóta náð fyrir augum forlaga?

Ég veit það ekki, ég vona ekki. Ég vona, að fá gefið út. Ég vona líka, að ef svo fer og ef bókin selst vel, að það sé vegna þess hún er góð, fólk vilji lesa hana og hún veki athygli vegna þessa. Í það skipti muni vinsældir og gæði fara hönd í hönd. Það má alltaf vona.  


Árið gert upp

Ég hugsa að síðasta ár, 2010, sé nokkuð sem ég mun minnast nokkuð lengi. Árið var mjög skemmtilegt og var rosalega mikið um eftirminnilega atburði og miklar fréttir. 

Við áramótin 2009-2010 voru blikur á lofti. Uppsagnir voru í desember 2009 í Ölgerðinni og því nokkur óvissa hjá mér, var ekki viss um að ég myndi halda starfinu ef til frekari uppsagna kæmi. Um leið og ég fann til með þeim sem var sagt upp, var þó ákveðinn léttir að vera ekki í þeim hópi. Hins vegar voru aðstæður þannig, að erfitt var að átta sig á, hvort eða hvenær fleira fólki yrði sagt upp. Sem betur fer kom þó ekki til þess og held ég að fyrirtækið standi enn betur að vígi nú en áður.

Mánuðirnir eftir jól einkenndust af mikilli vinnu og auraleysi. Það þurfti að greiða fyrir íbúðina í Tröllakór og því horft í hverja krónu. Í apríl hættum við Bergþóra saman, sem var leitt, en sem betur fer höfum við haldið góðu vinasambandi, sem ég er þakklátur fyrir. Eflaust hefur þetta allt spilað saman í að gera þessa fyrstu mánuði ársins frekar leiðinlega í minningunni. Ég var að minnsta kosti dauðfeginn þegar tók að vora.

Þann 1. maí var veiðidótið tekið úr geymslunni og sett í skottið á bílnum. Ég fór nokkuð oft í maí og júní í vötnin í kringum Reykjavík. Veiðin er alveg hrikalega góð hreinsun fyrir huga og sál, maður er einn með náttúrunni, bara þú, flugustöngin og vatnið, og akúrat það sem ég þurfti á þeim tíma. Suma morgna vaknaði ég eldsnemma til að kíkja á Þingvelli áður en ég þurfti að mæta í vinnuna, þeir morgnar veittu mér kannski þann drifkraft að fara að taka til hjá sjálfum mér.

Ég eyddi nefnilega heilmiklum tíma á þessu ári í nokkurs konar sjálfsskoðun. Sumt af henni hefur ratað hingað inn og má finna í eldri færslum. Ég held, að í það heila þá er ég mun sáttari við sjálfan mig, mér líður betur og á þarf að leiðir auðveldara með að gefa af mér. Sem hefur kannski skilað sér í því, að Urður sækir nú í mun meiri mæli að vera hérna hjá mér en áður.

Sumarið var í flesta staði frábært. Í júní fór fjölskyldan saman í útilegu í Vatnsdal. Þar var mikið hlegið og skemmt sér. Í júlí fór ég með Arnari, Jóhanni Inga og Stebba á Eistnaflug og var sú ferð öll alveg frábær. Ég held hreinlega ég hafi sjaldan hlegið jafn mikið. Um verslunarmannahelgina var ráðgert að fara á Þjóðhátíð, en Ástrós og Hugi buðu okkur Urði til Kanarí-eyja með skömmum fyrirvara, þannig Eyjar voru fljótlega slegnar út af borðinu. Ferðin til Tenerife var í einu orði sagt æðisleg. Fyrir utan það að geta legið í sólbaði daginn út og inn í 2 vikur, með tilheyrandi slökun, þá skemmti Urður sér konunglega og held ég geti seint fullþakkað þeim Ástrós og Huga fyrir þessa frábæru gjöf.

Laxveiðin var á sínum stað sem endra nær. Ég fór í nokkrar ferðir og kom aldrei fisklaus heim, sem var mjög ánægjulegt. Reyndar þurfti að hafa verulega fyrir þeim fiskum sem náðust á land og var lítið um að honum væri mokað upp. Ég hef hrikalega gaman af laxveiðinni og þeir túrar sem ég fór í þetta árið stóðu fyllilega undir væntingum.

Í júlí vann ég smásagnasamkeppni Vikunnar og birtist vinningssagan í því blaði. Einnig birtust tvær sögur eftir mig í nýju tímariti sem heitir Furðusögur. Ráðgert er að koma safni smásagna á prent á nýju ári og sjá hvort ekki takist að selja nokkur eintök af því. 

Sara eignaðist íbúð, kærasta (sem heitir Palli) og kött á árinu. Það hefur verið gaman að sjá hve hamingjusöm hún er orðin. Fljótlega kom barn undir hjá þeim en því miður missti Sara fóstrið. Þau lögðu þó ekki árar í bát heldur héldu áfram að reyna og nú er annað barn komið undir og Sara tútnar út um þessar mundir.

Ástrós bauð sig fram til stjórnlagaþings og lögðumst við í fjölskyldunni öll á eitt í stuðningi okkar. Allir fengu hlutverk og skilaði sú vinna sér í því, að hún komst inn á þing. Ég held, að ég hafi aldrei séð viðlíka fagnaðarlæti eins og þegar úrslitin voru tilkynnt. Við sátum öll saman í Leiðhömrum og fylgdumst með útsendingunni. Þegar nafn Ástrósar var lesið upp var stokkið á fætur, hrópað af fögnuði og mikil gleði.

Ekki var gleðin minni þegar þau Hugi tilkynntu svo um jólin að þau ættu líka von á barni. Það mun því fjölga um 2 í fjölskyldunni árið 2011. Þau eru þegar komin í hreiðurgerð, byrjuð að versla barnaföt og allt það sem þarf í uppeldi barna. Það er mjög merkilegt að fylgjast með muninum á þeim systrum í þessu. Sara vill helst fá allt lánað, á meðan Ástrós kaupir allt nýtt. Það munar einhverjum vikum á þeim, ekki svo mörgum, Sara er komin með myndarlega kúlu en það sést varla á Ástrós.

Urður byrjaði í 2. bekk í haust, stækkar hratt um þessar mundir sem hefur heldur bitnað á fataskápnum. Hún er öll að þroskast og komnir smá gelgjustælar í hana. Hún virðist ekki eiga í neinum vandræðum með að læra og stendur sig vel í skólanum. Einnig byrjaði hún í jazz-ballet í haust og virðist þar hafa fundið áhugamál sem hentar henni. Hún dansar voða mikið hérna heima, hendir sér í spíkat og splitt eins og ekkert sé og heimtar að ég geri það líka. Veit ekki hvort hún sé vísvitandi að reyna valda föður sínum ævarandi örkumlum! Hún eignaðist aðra systur núna í haust, sem dafnar vel, en hún átti fyrir systur á þriðja ári.

Í það heila hefur árið því verið gott. Ég kynntist fullt af fólki, endurnýjaði kynni við aðra og kynntist öðrum enn betur. Eflaust hef ég á síðasta ári stigið á einhverjar tær, móðgað, sært, gert lítið úr og böggað, eins og mér er einum lagið, og biðst velvirðingar á því. Vona ég, að enginn erfi slíkt við mig, a.m.k. ekki lengi.

Að lokum langar mig að óska þér, lesandi góður, gleðilegs nýs árs. Megi þér farnast vel og gæfan brosa við þér. 


Réttlætanlegt ofbeldi?

Í gær lenti ég í umræðu um Wikileaks - umræðu þar sem mjög ólíkar skoðanir komu fram. Í megindráttum var rætt um hversu réttlætanlegt er, að birta stolin gögn. Hvenær eru lögbrot réttlætanleg og hvenær ekki? Hver er það sem metur slíkt? Hvaða upplýsingar eru svo mikilvægar, að réttlætanlegt er að fremja lögbrot til að komast yfir þær? Hvenær er ofbeldi; efnislegt, líkamlegt, kynferðislegt eða sálrænt; réttlætanlegt, og þá jafnvel út frá hagsmunum almennings?

Ég er mjög efins um tilgang og markmið Wikileaks, úr því þessi fréttaveita er tilbúin að styðja lögbrot. Hún hefur birt stolin gögn m.a. úr íslenska bankakerfinu. Er það réttlætanlegt? Af því þær upplýsingar varða almanna hagsmuni? Eða er slík upplýsingaveita réttlætanleg meðan það gagnast okkur persónulega?

Skoðun mín er sú, að það sé afskaplega hættulegt að bera fyrir sig almanna hagsmunum. Um leið er verið að gefa sér, að vitað sé hverjir þessir hagsmunir eru. Ég hef hvergi séð nokkra skilgreiningu á þeim, hvorki innlenda né alþjóðlega. Þetta hugtak er því notað til réttlætingar á, oft á tíðum, lögbrotum, mannréttindabrotum og jafnvel ofbeldi.

Það eru margar ríkisstjórnir sem bera fyrir sig almanna hagsmunum, þegar t.d. eru teknar ákvarðanir um að loka fyrir aðgang almennings að internetinu. Eru það almanna hagsmunir að loka fyrir slíka upplýsingaveitu sem netið er? Eða eru það hagsmunir ríkisins? Og er fólkið þá ekki ríkið? Hver er það sem skilgreinir þessa almanna hagsmuni í þessu tilfelli? Og hver er það sem metur það hjá Wikileaks, hvað varðar almanna hagsmuni? Er það kannski bara huglægt mat forsvarsmanna samtakanna hverju sinni? Mér þætti mjög gaman að sjá, rökstuðning þeirra fyrir því að birta lánabók Kaupþings á sínum tíma, sem og samskipti starfsmanna sendiráða við starfsmenn ráðuneyta hérlendis í partýum fyrir mörgum árum. Hvaða almanna hagsmunir voru þar í húfi? 

Eflaust skilgreina margir almanna hagsmuni sem mannréttindi. Sérstaklega hér á Vesturlöndum. Ég vil þó minna á, að hvergi í mannréttindasáttmála Sameinuðu Þjóðanna stendur, að ríkjum beri að upplýsa þegna sína um allt það er fram fer innan ríkisstofnanna og ráðuneyta. Það eru ekki mannréttindi okkar. Ég er því þó mjög fylgjandi að leynd sé ekki eitthvað sem ríki og stofnanir þess eigi að viðhafa í sínum störfum, en geri mér þó grein fyrir að stundum er hún nauðsynleg, rétt eins og í starfi fyrirtækja eða jafnvel í daglegu lífi fólks. Hitt væri þó æskilegra og ég kýs það umfram leyndina, að allt ríkistengt starf sé uppi á borðum og öll gögn aðgengileg þegnum, á hvaða tíma sem er.

Sem færir okkur að þeim sem kalla má flautublásara. Um leið og það nauðsynlegt, að tryggja að flautublásarar hafi lögvernduð réttindi, ef þeir verða áskynja um lögbrot í fyrirtækjum eða stofnunum, þá verða þeir líka að gera sér grein fyrir því, að lögbrot á að tilkynna til réttra aðila. Auðvitað geta komið upp aðstæður, sem gera flautublásurum erfitt fyrir, en það réttlætir ekki, að lögbrotum sé hampað sem góðum og gildum, hvorki þeim sem ríki eiga hlut í né þeim sem ætla sér að koma upp um brot. Vigilantes, Hrói Höttur og svipaðar fígúrur fremja lögbrot en í göfugum tilgangi. Eru lögbrot réttlætanleg þá? Eða er þetta svolítið undir áhrifum frá ofurhetjusögum og bandarískum spennumyndum, þar sem ofurhetjan/aðalsöguhetjan myrðir fullt af vondum körlum, en í göfugum tilgangi. Hvernig myndi okkur verða við, ef einhver tæki upp á því að haga sér með þeim hætti í dag? Væri viðkomandi ekki bara stungið inn? Og ef við erum tilbúin að réttlæta slík lögbrot gegn ríkinu, af hverju ætti ríkið ekki að geta svarað í sömu mynt? Ef almenningur virðir ekki lögin, af hverju ætti ríkið að gera það? 

Ég neita að trúa því, að fólk sé tilbúið að styðja lögbrot og mæla með þeim. Ég neita að trúa því, að þjófnaður sé gerður að einhverju öðru en hann er. Ég neita að trúa því, að kaup á þýfi séu réttlætanlega út frá óskilgreindum almannahagsmunum og enn síður, að réttlætanlegt sé að flagga þýfinu sigri hrósandi. Ef ríki eða fyrirtæki ástunda leynistarfsemi og baktjaldamakk, þar sem brotið er á réttindum almennings, þá er það enginn vindur í segl þeirra sem berjast gegn slíku, að brjóta þau lög sem gilda. Það dregur bara úr annars göfugu markmiði. Rétt eins og um leið og samtök sem berjast fyrir sjálfstæði einhverja landa eða héraða nota ofbeldi; mannrán, sprengingar, morð, vopnuð átök; þá umbreytast þau í hryðjuverkasamtök.

Tveir af helstu baráttumönnum síðustu aldar, einstaklingar sem talið er að hafi haft gríðarleg áhrif með baráttu sinni, voru Ghandi og Martin Luther King. Hvorugur mælti með ofbeldi. Báðir mæltu með borgaralegri óhlýðni, þ.e. að brjóta þessar óskrifuðu reglur og viðmið, til að vekja athygli á því sem barist var fyrir, s.br. þegar svartir menn settust í sæti merkt hvítum í strætisvögnum. Ég held, að nær væri að taka slíka menn til fyrirmyndar og baráttuaðferðir þeirra, en að hygla lögbrotum, því afleiðingar þess gætu orðið alvarlegri en okkur grunar.  


Jólablogg

Kristnir menn trúa því að Jesús Kristur hafi fæðst um þetta leyti í Betlehem og því fagna þeir jólunum. Heiðnir menn fagna jólum af því sólin hefur sigrað myrkið og dag tekur því að lengja á ný. Eflaust hafa fleiri trúarbrögð sínar skýringar á þessum hátíðum, en fyrir mér eru jólin hátíð fjölskyldunnar. Mér er nokk sama hvaða ástæður fólk gefur sér til að setjast niður með ættingjum og vinum, gefa gjafir og njóta þess að vera saman, því tilgangurinn helgar meðalið, ekki satt?

Ég er mikið jólabarn. Þegar ég var yngri var ég friðlaus, sérstaklega þegar líða tók nær aðfangadegi og heldur mamma því fram, að svo hafi verið allt þar til ég varð 25 ára. Hún um það! Mér finnst hins vegar þessar hátíðir afskaplega skemmtilegar; smákökubakstur, jólagjafaleiðangrar, skreyta jólatréð og allt það er fylgir þessum tíma. Við systkynin máttum eiga von á góðum og fallegum gjöfum, foreldrum okkar finnst fátt skemmtilegra en að gleðja okkur og gefa okkur það er við óskuðum okkur heitast.

Þegar ég var 6 ára átti ég í desember víst mjög bágt með að ráða við mig. Eftirvæntingin var mikil og spennustigið eftir því. Aftur og aftur fékk ég að heyra, ef ég myndi ekki haga mér vel myndi pakkinn minn hreinlega minnka. Á aðfangadag, eftir búið var að keyra út pakkana, þá sá ég að undir jólatrénu var jólapakki sem var svipað stór og kassinn utan um það sem ég hafði helst óskað mér: Fálkinn úr Star Wars, farartæki Hans Óla. Tíminn hreinlega leið ekki fram að jólamatnum og ég gat varla borðað fyrir spenningi. Loks var búið að taka af borðinu og vaska upp. Systir mín las á stóra kassann og viti menn, hann var til mín. Ég var ekki lengi að rífa marglitan gjafapappírinn utan af kassanum og sá, að þetta var Fálkinn. Er ég opnaði pakkann, þá sá ég að hann var tómur! Vonbrigðin voru mikil og rétt eins og önnur 6 ára börn, þá átti ég erfitt með að ráða við tárin. Mamma og pabbi sögðu, að pakkinn minn hlyti að hafa minnkað svona mikið, vegna þess ég hefði verið svo óþægur í desember. Ekki bætti þessi skýring úr skák og ekki leið á löngu þar til ég var sendur inn í bókaherbergi, þar sem ég gæti grenjað í friði. Er ég kom þangað inn, stóð Fálkinn tilbúinn á skrifborði pabba. Ég stökk hæð mína af gleði og hljóp fram með gripinn. Þá hafði pabbi ákveðið að setja hann saman kvöldið áður, svo hann þyrfti ekki að nota aðfangadagskvöld í slíka vinnu. 

Þó svo einhverjir muni eflaust reka upp stór augu við þessa sögu og þykja framkoma foreldra minna svolítið kvikindisleg, þá er þetta svolítið upp á teningnum hjá okkur í fjölskyldunni á jólunum. Við notum tækifærið til að stríða hvert öðru. Til dæmis mætti nefna, að á hverjum jólum fá allir sérstaka gjöf frá Hrekkjalómunum (sem enginn veit hverjir eru) og eru þær gjafir nær undantekningalítið eingöngu hugsaðar til að stríða. Eitt árið hafði systir mín mikið kvartað undan því að eiga ekki kærasta og því fóru hrekkjalómarnir og keyptu einn slíkan. Reyndar uppblásinn, en kærasti engu að síður. Annað árið fékk pabbi gjafakort á Bæjarins bestu, en það er uppáhalds veitingastaðurinn hans. Ég fékk fyrir nokkrum árum vottorð um að dóttir mín hefði verið skírð í Grafarvogskirkju, undirritað af sóknarprestinum og á bréfsefni kirkjunnar (verð að viðurkenna að í fyrstu hélt ég að ekki væri um grín að ræða). Öll höfum við fengið okkar skerf og hlægjum við dátt á kostnað hvers annars. Og stundum er mikið á sig lagt, til að gera brandarann sem skemmtilegastan. Allt er þetta þó í góðu gamni og enginn sár á eftir (nema ég í þetta skipti sem skírnarvottorðið kom :D ).

Nú er dóttir mín á þeim aldri að jólin eru alveg gríðarlega spennandi, hún vaknar eldsnemma og er friðlaus allan daginn. Mamma getur ekki annað en glott út í annað. Ég hef hins vegar gaman af þessu og tek þátt í þessu með henni. Reyndar vaknar hún stundum fullsnemma en við förum saman í leynilega jólagjafaleiðangra og hlægjum að því hvað við erum sniðug að velja gjafir. Hún er reyndar hjá mömmu sinni á aðfangadagskvöld en kemur til mín á jóladag og ef ég þekki hana rétt, þá verður hún vöknuð frekar snemma, móður sinni til mikillar armæðu. Nú þegar eru farnir að birtast pakkar undir trénu okkar og þeir vekja mikla athygli. Það má reyndar ekki lesa á gjafamiðana en það er samt rosalega freistandi, enda situr hún fyrir framan tréð og spáir í hvað sé í hverjum pakka og hver eigi þá.  

Það er einmitt í gegnum þessa barnslegu gleði, eftirvæntingu og spennu sem ég nýt jólanna best. Allar pælingar um hvað eigi að gefa hverjum, hvaða pakki er minn og svoleiðis, eru svo skemmtilegar. Það er það sem gerir þetta að hátíð fyrir mér, svo ekki sé nú minnst á samverustundirnar með þeim sem manni þykir vænt um. Jólin eru jú til að gleðjast saman.

Af því sögðu, óska ég þér, lesandi góður, gleðilegra jóla.  


Vitringurinn og hirðfíflið

Einu sinni fyrir löngu síðan var konungur einn í ríki sínu. Átti hann eina dóttur, er þótti fögur og væn. Hafði hann hjá sér hirð mikla, þar á meðal vitring einn og hirðfífl. Vitringurinn hafði lært hjá helstu spekingum og fræðimunkum og þótti vís maður um marga hluti. Var hann konungnum til ráðgjafar um flest mál, auk þess sem hann hafði það hlutverk að kenna prinsessunni. 

Eitt ár varð mikill uppskerubrestur í ríkinu. Var konungi mjög umhugað um þegna sína og hafði af þessu þungar áhyggjur. Fékk hann mörg ráð og góð frá vitringnum. Dagarnir voru honum langir og erfiðir. Á kvöldin fékk hann hirðfíflið til að leika listir sínar og létta sér stundir. Fíflið lék á als oddi, fór handahlaup og hafði uppi hin mestu kjánalæti, við fögnuð bæði konungs og prinsessu. Fór þetta í skapið á vitringnum, er lét ekkert færi framhjá sér fara, til að gera lítið úr fíflinu. Í hvert sinn er hirðfíflið skyldi skemmta hirðinni, andvarpaði vitringurinn hátt.

- Á nú enn að líta til fíflsins og skemmta sér yfir kjánalátum? Aldrei myndi ég haga mér svona, sagði hann. Gekk svo fram eftir vetri. Á daginn sótti konungur ráð til vitringsins en á kvöldin skemmtun til hirðfíflsins. Vitringurinn varð viðskotaillri við hirðfíflið eftir því sem tímar liðu fram.

- Aðeins forheimskandi kjánalæti og bjánaháttur sem þetta fífl hefur uppi. Ekki ætla ég að fylgjast með þessari skemmtun, ef skemmtun mætti kalla, sagði hann hátt svo aðrir í hirðinni heyrðu til. Ekki lét hirðfíflið þetta á sig fá, heldur hélt uppteknum hætti og létti konungi lundina.

Dag einn gat vitringurinn ekki lengur setið á sér og gekk á fund konungs og mælti:

- Hví eyðir yðar hátign tíma sínum í að horfa á og fylgjast með fíflalátum og kjánaskap? Hafið þér engin þarfari verk að vinna?

Konungur leit til vitringsins og brosti.

- Jafnvel í allri þinni visku, sérðu ekki að bros og hlátur eru besta lækning við því er hrjáir huga og hjarta, svaraði konungurinn.

Vitringurinn firrtist við og sagði:

- Ekki kann það góðri lukku að skýra, að láta prinsessuna fylgjast með þessu framferði fíflsins í stað þess að sinna lexíum sínum, eða trúir yðar hátign því? Varla er fíflaskapurinn til eftirbreytni?

Enn brosti konungur og svaraði:

- Ég kýs heldur, að prinsessan líti upp til þeirra sem í fávisku sinni gleðja aðra, fremur en að hún líti upp til þeirra sem í visku sinni gera lítið úr öðrum. 


Hvað hét hundur Gunnars?

Urður Ýr, 7 ára dóttir mín, hefur stundum eftir lagatexta á ensku og þó svo hún fari ágætlega hljóðrétt í gegnum orðin, veit hún ekkert hvað þau þýða (fyrir utan einstaka orð). Getur verið að nemendur séu oft í svipaðri stöðu með Íslendingasögur? Og er það eðlilegt og viðurkennt? 

Íslendingasögur eru í senn frábær leið til að kynnast menningu, viðmiðum og gildum ásamt hugarfari annars vegar á Íslandi við landnám og fram að kristnitöku en eins gefa þær okkur ákveðna mynd tímanum er þær voru skrifaðar. Að mínu mati eru þær grunnur að íslenskri bókmenntahefð og því tel ég mikilvægt að þær séu kenndar vel. 

Íslendingasögurnar eru að mínu mati, fyrir utan að vera hrein og klár lestrarkennsla, kennsluefni í menningarlestri, þ.e.a.s. af því að sögurnar gefa okkur sýn inn í aðra menningu, þá skiptir máli að kennarar geti kennt og þekki þá menningu sem um ræðir. Til dæmis væri til einksis ef kennari léti bekk lesa Flugdrekahlauparann ef viðkomandi kennari þekkti ekki inn á afganska menningu og gæti útskýrt fyrir bekknum hvers vegna sum atriði, sem virka smá, skipta miklu máli. Í þessum menningarlestri felst, til að geta sett sig í spor persóna og fengið samúð, skilning og samkennd með þeim og þeirra gjörðum, að lesendur viti hvaða kröfur samfélagið gerir, hvaða viðmið eigi við hverju sinni og hvers vegna samfélagið bregst við eins og það gerir.

Skoðum dæmi: Í upphafi Gísla sögu er sagt frá Birni nokkrum, sem fer á milli bæja og skorar menn á hólm vilji þeir ekki ganga að kröfum hans og vilja. Flestir gefa eftir, þar til kemur að bæ afa þeirra Súrsona. Þar er Ari skoraður á hólm af Birni sem vill eignast konu Ara og Ari gengur á hólm við Björn og fær bana af. Þá stígur Gísli á fætur og lætur sér ekki lynda við þessi málalok, vill ekki að góður kvenkostur gangi úr ættinni. Hann skorar Björn á hólm.

Í frásögninni er ekkert sagt frá því hvernig hólmgöngulög voru í Noregi (og síðar Íslandi) á þessum tíma, það er gengið út frá því að lesendur viti það. Ólíkt því sem sýnt er í kvikmyndum, þá voru mjög strangar reglur, t.d. um stærð hólmsins, hvernig leysa mátti sig undan skyldum hólmgöngunnar og svo mætti lengi telja. Ein af þessum reglum sneri um hver ætti fyrsta höggið og hvernig skyldi höggva. Sá er skoraður var á hólm fékk fyrsta höggið. Sem sagt, það sem gerði Björn hinn blakka svo ógurlegan var, að hann þoldi fyrsta höggið. Hann var góður bardagamaður sem kunni að taka við höggum og kunni að höggva þannig að það var erfitt að verjast því. Þess vegna létu bændur að vilja hans frekar en að ganga á hólm við hann. Setur þetta líka viðbrögð Ara í annað ljós og mun hetjurlegra.

Það eru svona atriði sem mér finnst mikilvægt að koma til nemenda. Að baki texta Íslendingasagna er samfélag sem er með alveg jafn skýrar reglur, gildi og viðmið og það samfélag er við búum í dag. Hlutverk kennara hlýtur að vera, að koma nemendum í skilning um það sem þeir eru að lesa. Alltof oft heyri ég af því, að kennarar hafi verið að kenna einhverra hinna stóru Íslendingasagna; Njálu, Eglu, Laxdælu osfrv.; og prófa upp úr þeim með krossaprófi sem mælir hversu vel nemendur muna hin minnstu smáatriði hverrar sögu fyrir sig. Líklega er þekktasta dæmið um spurningu á slíku prófi: Hvað hét hundur Gunnars?

Hvaða máli skiptir hvað hundurinn hét? Skiptir ekki miklu meira máli að koma nemendum í skilning um mikilvægi þeirra gjafa sem Ólafur pá gefur Gunnari? Hvers vegna menn voru að gefa hverjir öðrum gjafir og hvað þær þýddu? Í mínum huga er þessi þekkta spurning í raun ekkert annað en könnun á því hvort nemandi hafi lesið eða ekki, fremur en hvort hann hafi skilið söguna.

Í dag eru nemendur enn fjarlægari heimi Íslendinga-, konunga- og samtímasögum 12-13. aldar. Því er svo mikilvægt að hjálpa þeim að komast inn í þessa menningu, hjálpa þeim að skilja hana en ekki einblína á smáatriði texta - smáatriði sem bæta litlu við skilning þeirra. Ég er nefnilega viss um, að nemandi sem skilur mikilvægi gjafa Ólafs pá, muni óumbeðinn taka fram nafn hundsins. Lesskilningur er nefnilega ekki spurning um að geta páfagaukað heilu kaflana upp úr einhverri sögu, heldur að skilja hvaða drifkraftur er að baki hverrar persónu, hvaða réttlætingar viðkomandi hefur fyrir gjörðum sínum og hvers vegna samfélag persónanna er eins og það er. 

PS. Hundur Gunnars hét Sámur.  


Single

Ég er single. Einhverra hluta vegna gengur mér erfiðlega að halda í sambönd. Mér liggur svo sem ekkert á að festa ráð mitt og er ekki í örvæntingarfullri leit að framtíðarmakanum, því mér líður bara ágætlega með að hafa hlutina eins og þeir eru núna. 

Amma gamla var þó eitthvað að tala um þetta fyrir skemmstu, að við frændurnir værum einhleypir, eins og við værum nú miklir mannkostir. Og sú gamla kunni skýringar á því. Jú, við kynnum á þvottavélar og værum ágætir kokkar og þyrftum þar af leiðir ekki á konu að halda. Um leið og maður glotti út í annað yfir því, að hún hafi tekið 80 ára sögu kvenréttindabaráttu - eða hvað hún er löng - og afgreitt á einu bretti í einni setningu.

Það er þó eitt í þessari hugleiðingu hennar sem vakti mig til umhugsunar. Fyrir utan hve samfélagið hefur breyst á þessum tíma, slaknað á kröfum um hjónaband, barneignir og svoleiðis, þá er eins og kynin séu orðin svo sjálfstæð að þau þurfa vart hvort á öðru að halda nema til að viðhalda mannkyninu.

Í dag eru konur orðnar mjög svo sjálfstæðar, þörfin fyrir handlagna heimilisföðurinn er hverfandi (amk. í orði) og þvottavélar eru orðnar svo einfaldar að jafnvel þvottaheftustu karlmenn fara leikandi með að stilla á 30° og henda öllu saman í þvott.

Er þetta endilega jákvæð þróun?

Er það jákvætt að kynin verði svo óháð hvort öðru? Ég veit það ekki. Ég er kannski gamaldags og verð skotinn í kaf með það, en mér finnst stundum sem jafnréttisbaráttan sé komin fram úr sjálfri sér, þá að þessu leyti. Auðvitað er gott að hafa brotið upp þessi úr-sér-gengnu staðalmyndir og kynhlutverk, en undanfarið hef ég spurt sjálfan mig að þessu, hvort amma gamla hafi hreinlega rétt fyrir sér, með þar sem ég kann að elda, þvo þvott og allt það sem hún ólst upp við að væru hlutverk kvenmanna á heimili, sé ástæða þess að ég er í þeirri stöðu sem ég er í dag?


Að vera fullkomnlega heiðarlegur við sjálfan sig er góð æfing

Las þetta á Cheerios pakka og fannt þessi tilvitnun býsna skemmtileg, fyrir utan hvað hún hljómar vel.  Ég hef nefnilega verið svolítið að pæla í svona hlutum undanfarið, í raun allt frá því í sumar. Svona naflaskoðun einskonar. Það kemur nefnilega margt sniðugt í ljós þegar maður horfir í spegilinn og rýnir framhjá þeirri glansmynd sem maður reynir stundum að draga upp af sjálfum sér.

Ég bloggaði síðast um Jón Gnarr og hvernig ég tel að hegðun hans og framkoma eigi eftir að hafa markandi áhrif á samfélag stjórnmálamanna og jafnvel víðar. Þetta óttaleysi hans við að vera hann sjálfur og að detta ekki inn í hlutverk eða rullu pólitíkusa. Hann er blátt áfram, ábyrgðarfullur og þorir að takast á við hinn almenna borgara, sbr. viðveru hans og dagbókar hans á Facebook. 

Þegar ég stend og horfi á sjálfan mig í speglinum og rýni framhjá upphöfnum sjálfshugmyndum mínum, þá er ýmislegt jákvætt en jafnframt neikvætt sem ég sé. Það er kannski full langt og sjálfhverft að fara telja allt það upp enda ekki beinlínis það sem ég ætla að fjalla um. Hins vegar skila þessi augnablik mér oft ákveðinni uppljómun. Ég kemst vissulega í betri snertingu við sjálfan mig og skil betur hvað liggur að baki því sem ég geri, segi eða því sem mér finnst. 

Það sem ég velti hins vegar oft fyrir mér er, hversu margir ætli stundi það að vera heiðarlegir við sjálfa sig? Hversu margir ætli setjist niður og leggi glansmyndina af sjálfum sér til hliðar og virkilega rýni í sjálfan sig? Og hversu heiðarlegur getur maður í raun verið?

Eitt er að sjá galla sína og kosti, annað að skilja hvers vegna maður er eins og maður er, það þriðja að finna leiðir og nota þær til að laga það sem manni líkar illa við. Ég held að það sé mjög hollt hverjum manni að fara nokkrum sinnum um ævina í gegnum nokkurs konar hreinsunareld, það er þroskandi. Og hvað er svona sjálfsrýni annað en hreinsunareldur? 

Fyrir mörgum árum hringdi stelpa sem ég hafði verið að date'a í mig, hvort það var ekki hálfu öðru ári eftir við hættum að hittast. Hún hafði þá farið í AA og hringdi sérstaklega til að biðja mig afsökunar á hegðun sinni gagnvart mér við vinslit okkar. Ég hafði ekki þroska þá til að skilja hvað hún var í raun að gera, hvað hún var að ganga í gegnum. Í dag þykir mér vænt um þessa afsökunarbeiðni og þessi verknaður hennar kenndi mér, reyndar mörgum árum síðar, hve hreinsandi það er að biðjast afsökunar. Bæði fyrir þann sem þarf að biðjast afsökunar, enda þarf viðkomandi að skoða verk sín og gjörðir í gagnrýnu ljósi en eins þann er beðinn er fyrirgefningar. Til að sjá villur síns vegar í slíkum málum, þarf maður nefnilega að vera heiðarlegur við sjálfan sig. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband