Færsluflokkur: Bækur

Call of Cthulhu

cthulhu2

Call of Cthulhu eða Kall Cthulhu er smásaga eftir H.P. Lovecraft og kom hún fyrst út árið 1928 í tímaritinu Wierd Tales. Reyndar skrifaði Lovecraft söguna sumarið 1926 og er þetta eina sagan eftir hann þar sem lesa má um óvættina Cthulhu, sem á að hafa komið utan úr geimnum en sofi nú dauðasvefni í borginni R'lyeh, sem hvíldir á hafsbotni langt undir öldutoppum Kyrrahafsins. Upphaflega var sögunni hafnað af Wierd Tales en vinur Lovecraft ræddi við ritstjóra blaðsins og lét í veðri vaka að Lovecraft ætlaði að senda söguna í annað tímarit, sem varð til þess að ritstjórinn skipti um skoðun. 

Í sögunni er sagt frá Francis Wayland Thurston sem þarf að gera upp dánarbú frænda síns, Angells prófessors, en þar finnur hann nokkra hluti sem koma honum á slóð hryllilegs trúarsafnaðar og óvættarinnar Cthulhu. Frásagnarmátinn er í nokkurs konar skýrslustíl, Francis segir söguna og nálgast frásögn sína á svipaðan hátt og vísindamaður, reynir að segja hlutlægt frá rannsókn sinni og uppgötvunum en, eins og gefur að skilja, leggur vissulega eigið gildismat á þær persónur sem tengjast frásögninni. Frásögnin skiptir í þrjá hluta, Hryllileg leirmynd (e. Horror in the Clay), Frásögn Legrasse rannsóknarlögreglumanns (e. The Tale of Inspector Legrasse) og Martröð á hafi út (e. The Madness from the Sea). Fyrsti hlutinn er frásögn Thurstons af því sem hann hefur lesið úr skýrslu Angells prófessors, sem og segir frá því er hann hittir ungan listamann að nafni Wilcox, en sá bjó til leirmynd sem olli prófessornum miklu hugarangri. Í næstu köflum verður frásögnin marglaga, þ.e. sögð er saga innan sögu. Í fyrsta lagi er það frásögn Legrasse og hins vegar endursögn úr dagbók norsks stýrimanns.

Textinn er mjög Lovecraftískur, ef svo mætti að orði komast. Hann nýtir sér vel ríkan orðaforða sinn og eru myndlýsingar oft á tíðum hlaðnar og huglægar. Setningar eru oft langar og flóknar, eflaust til að draga enn frekar fram vísindalega nálgun aðalpersónunnar. Koma fyrir orð og orðtök sem kalla má forn eða óalgeng, jafnvel á þessum tíma, en eflaust má rekja það til áhuga hans á grískum goðsögum enda ber máls hans þess merki (þess má til gamans geta að afi Lovecraft var duglegur að halda slíku efni að barnabarni sínu og að segja honum furðusögur hvers konar, sem og gotneskar hryllingssögur í óþökk móður hans). Einnig eru vísanir í samtímalistamenn á borð við Clark Asthon Smith, Arthur Machen og jafnvel ýmsar fræðibækur, t.d. The Witch-Cult in Western Europe eftir Margaret A. Murray, en skrif hennar hafa haft áhrif á Wicca trúarbrögðin.  

Sjálfur var Lovecraft gagnrýninn á söguna, fannst hún hvorki alslæm né sérstaklega góð. Robert E. Howard, höfundur Conan, tók hins vegar sögunni fagnandi og sagði hana meistaraverk sem ætti eftir að hljóta sess meðal helstu bókmennta. Lítill vafi leikur þó á, að sagan hefur haft gríðarleg mikil áhrif, hvort sem um ræðir bókmenntir eða aðrar þætti menningarinnar. Gerð hafa verið útvarpsleikrit upp úr sögunni, hún hefur verið myndskreytt og gefin út með þeim hætti, einnig var á sínum tíma gerð kvikmynd eftir sögunni. Þungarokkshljómsveitir hafa vitnað óspart í söguna, t.d. Metallica og Cradle of Filth, en sú fyrrnefnda hefur t.d. gert lag sem heitir Call of Ktulu. Einnig hafa verið gerð spunaspil sem byggja m.a. á sögum Lovecraft en bera nafn sögunnar, ásamt því að tölvuleikir hafa verið gerðir með þessu nafni. Áhrifin hafa því verið býsna víðtæk, þá sérstaklega í Bandaríkjunum. 

Sagan er vel þess virði að lesa, hafirðu ekki gert það nú þegar. Hið hryllilega í henni er smátt og smátt lætt að lesanda og hann áttar sig á að hið hryllilega er hvorki goðsögulegt (t.d. vampírur eða varúlfar) né persónulegt (t.d. myrkfælni, geðveiki) heldur stjarnfræðileg óvætt sem ógnar öllu mannkyni. 


H.P. Lovecraft

Lovecraft

Ef ég man rétt, þá var ég nýbúinn með grunnskóla þegar ég komst fyrst í kynni við H.P. Lovecraft. Á þeim tíma vorum við nokkrir félagar duglegir að spila spunaspil og ákvað einn okkar að stjórna kerfi sem heitir Call of Cthulhu. Við spiluðum nokkur ævintýri og út frá þeim fór ég að kynna mér kerfið betur og komst að raun um að það væri byggt fyrst og fremst á skáldskap þessa höfundar. Ég sá að félagi minn, þessi sem ákvað að stjórna þessu kerfi, átti bækur eftir Lovecraft í bókahillunni hjá sér og fékk ég þær lánaðar. 

Eftir það varð ekki aftur snúið. Ég hef lesið nær allan skáldskap hans og ýmislegt meira til, þó ég hafi hingað til ekki haft það í mér að fara í gegnum öll bréfaskrif hans. Vissulega er Lovecraft ekki besti rithöfundur sem Bandaríkin hafa alið af sér, en arfleifð hans er hins vegar mikil og margir, ef ekki flestir, nútímahrollvekjuhöfundar nefna hann sem einn af áhrifavöldum sínum. Sögur hans hafa náð kannski meiri hylli á síðustu árum og t.d. skilst mér að kvikmynd sé í undirbúningi sem gera á eftir einni af lengri sögum hans, At the Mountains of Madness. Reyndar hafa verið gerðar kvikmyndir eftir sögum hans en fæstar þeirra náð vinsældum. Einna helst virðast myndir sem vísa óbeint til hans verða vinsælar, t.d. Event Horizon og In the mouth of madness, báðar með Sam Neill í aðalhlutverki.

Af hverju ætli sögur hans lifi svona góðu lífi meðal hrollvekjuunnenda? Ég tel að fyrir því séu tvær ástæður. Í fyrsta lagi þá var Lovecraft með afar frjótt ímyndunarafl og virðist hafa átt auðvelt með að sjá hið hryllilega fyrir sér. Það voru hvorki vampírur, varúlfar, draugar eða nokkur af hinum þjóðsagnakenndu verum sem jafnan einkenndu klassískar og gotneskar hrollvekjur þess tíma, heldur var hryllingur hans upphaflega meira í ætt við Poe og Algernon Blackwood. Svo þegar hann tekur að þróa Wierd-fiction þá breyttist hið hryllilega í ævafornar og illgjarnar verur utan úr geimnum, sbr. Cthulhu. Þannig gátu runnið saman í einni sögu hrollvekja, fantasía og vísindaskáldskapur. Ég held að hann, ásamt Poe o.fl., hafi þannig skapað nútímahrollvekjunni rými til að verða byggðar á einhverju öðru en klassískum og þjóðsagnakenndum hryllingi, hið hryllilega gat komið að innan (sbr. Tell-tale heart eftir Poe og Dr. Jekyll & Mr. Hyde eftir Stephenson), verið utanaðkomandi (sbr. Call of Cthulhu) eða eitthvað sem maðurinn hafði sjálfur skapað (sbr. Frankenstein eftir Shelley) og þaðan af verra. 

Í öðru lagi þá eru sögur hans í senn myndrænar og frásagnarstíllinn góður. Ég held að fæstir sem lesa t.d. Call of Cthulhu eigi erfitt með að sjá fyrir sér litlu leirmyndina, trylltan dans sértúarsafnaðarins í mýrlendinu við New Orleans eða heimsókn norska sjómannsins til R'lyeh. Lesandanum er sagt frá þessu í marglaga frásögn, þannig hann fer sífellt dýpra inn í frásögnina (nokkuð sem kvikmyndaunnendur ættu að kannast við úr myndinni Inception), þ.e. fyrst heyrum við af prófessornum, sem heyrði frásögn Legrasse rannsóknarlögreglumanns. Síðan fær aðalpersónan dagbók í hendur og þar leynist næsta frásögn. Þannig kynnist lesandinn hryllingnum í gegnum tvær frásagnir, fyrst af rannsakandanum og svo því sem hann les. Og allt sett frá á þann máta, í gegnum ríkan orðaforða og ofhlaðinn texta, að auðvelt er að sjá atburðina renna fyrir hugskotum sér.  

Sú saga sem ég held hvað mest uppá eftir Lovecraft er The Thing on the Doorstep. Í þeirri sögu er hann ekki fást við illar geimverur, heldur manneskjuna sjálfa. Sagan er kannski öllu hefðbundnari miðað við annað sem hann hefur lét frá sér, en þar koma fyrir illur seiðskratti, femme fatale og aðalpersóna sem hefur framið morð, en er að reyna réttlæta það fyrir sjálfum sér. Sjálf er hún á geðsjúkrahúsi, dæmd til að eyða árum sínum þar. Ef þú hefur ekki lesið söguna, mæli ég eindregið með henni. 

Lovecraft, sem átti afmæli í gær, þann 20. ágúst, hefur haft mikil áhrif á mig sem höfund. Ég held að það dyljist engum sem les sögurnar mínar og kannast eitthvað við Lovecraft. Mér þykir vænt um sögurnar hans og þrátt fyrir að hafa lesið þær margar aftur og aftur, þá kemur enn fyrir að ég dragi fram einhverja sögu eftir hann og lesi áður en ég fer að sofa, sérstaklega þegar tekur að hausta og nóttin fer aftur að verða dimm og drungaleg. 


Hversdagslegur hryllingur

Hið hryllilega er margslungið fyrirbæri og það getur verið svolítið erfitt að henda reiður á því hvað er hryllilegt og hvað ekki. Bæði er það persónubundið en eins getur það verið ólíkt milli menningarheima, samfélaga eða jafnvel kynja. Sem sagt, það sem fær hárin til að rísa hjá mér getur verið eitthvað allt annað en fær hárin til að rísa hjá þér. Fyrir þann sem skrifar hrollvekjur þá er það endalaus eltingarleikur að finna atriði sem höfða til sem flestra eða hafa sem víðtækasta skírskotun. 

Fyrir vikið er algengt að þess háttar höfundar taki fyrir þekkt þemu. Vampírur, varúlfar, uppvakningar og aðrar þjóðsagnakenndar verur birtast reglulega á síðum hryllingssagna. Poe og fleiri höfundar tóku hið yfirnáttúrulega til umfjöllunar, nokkuð sem Lovecraft útfærði enn frekar í wierd fiction sögum sínum. Stephen King, Shirley Jackson, Peter Wier og fleiri höfundar hafa síðan útfært hið yfirnáttúrulega enn frekar, sem og hið hversdagslega. Við þekkjum hið yfirnáttúrulega og þjóðsagnakennda úr mýmörgum verkum, t.d. úr bókunum Dracula, Darker than you think, I am legend og kvikmyndum á borð við Sleepy Hollow, Event Horison og An American werewolf in London. Auk þessara hryllingssagna ber að nefna þær sem kalla mætti sálartrylla (e. pshyco-thrillers), sögur á borð við Dr. Jekyll & Mr. Hyde, Pshyco o.s.frv.  

Þó svo að yfirnáttúruleg fyrirbæri hafi hvað víðtækasta skírskotunina, þá held ég að hverdagslegur hryllingur sé nokkuð sem tali mun sterkar til lesandans. Og í nútímahrollvekjunni, þá tel ég að hið hversdagslega sé að verða sterkara. Höfundar eru farnir að vinna þjóðsagnakennda og yfirnáttúrulega hrylling með öðrum hætti, jafnvel farnir að gera hvort um sig hversdagslegt. Hitchcock fjallaði sérstaklega vel um hið hversdagslega, t.d. í kvikmyndinni Birds. Stephen King hefur einnig gert í sínum bókum, en þar rennur oft saman hið hverdagslega og hið yfirnáttúrulega, t.d. í sögunum 8 gata Buick og Cell, hið sama gildir um margar japanskar hryllingsmyndir, t.d. The Ring. Eitthvað hefur einnig borið á því, að menn hafi reynt að gera hið yfirnáttúrlega eða þjóðsagnakennda hversdagslegt, þar fáum við að lesa eða sjá sögur t.d. sagðar af vampíru (t.d. Interview with a vampire eða sjónvarpsþáttaserían True Blood) en persónulega er ég á þeirri skoðun að slík yfirfærsla þarf að vera afar vel unnin til að ganga upp. Besta slíka yfirfærsla er að mínum dómi að finna í Frankenstein, þ.e. hvernig við fáum að kynnast því mannlega í sköpunarverkinu. Það í sjálfu sér er hryllilegt, að vera sem er fær um voðaverk og vera tilkomin af því er virðist af gott sem yfirnáttúrulegum ástæðum skuli vera fær um mannlegar kenndir en vera hafnað af samfélaginu (nokkuð sem enginn lesandi vill lenda í sjálfur). 

Við Íslendingar höfum ekki ríka hefð fyrir hinu hversdagslega í okkar annars fáu hrollvekjum í skáldsagnarlengd. Vissulega má finna sögur þar sem hið hversdagslega er hrollvekjandi eða það rennur saman við hið yfirnáttúrulega, t.d. Hrotur eftir Halldór Stefánsson eða Flugur eftir Þóri Bergsson. Í Börnunum í Húmdölum réð hið yfirnáttúrulega ferðinni, nokkurs konar Lovecraftískur hryllingur þar á ferð og í sögu Yrsu Sigurðardóttir, Ég man þig, er sagan meira í ætt við klassískar draugahússögur á borð við The hunting of House Hill eftir Shirley Jackson og The Shining eftir Stephen King. Sjálfur reyndi ég að nálgast þetta fyrirbæri á minn hátt í sögunni Dýrið, þar sem einföld sunnudagsmáltíð tekur óvænta stefnu. 

Þó svo að hversdagslegir hlutir hafi ekki jafn víðtæka skírskotun og yfirnáttúrulegir eða þjóðsagnakenndir, þá held ég að þeir hafi engu að síður sterk áhrif, sérstaklega á þann hóp sem getur hvað best sett sig í spor aðalpersónunnar. Vissulega er hættan sú, að slík saga missi marks hjá þeim sem ekki sjá sig í aðalpersónunni, en á slíkt hið sama ekki við um allar sögur? 

 


Upprisan

163731_10150135066167193_705122192_7670229_746590_n

Á undanförnum árum hafa íslenskar útgáfur verið tregar til að gefa út efni eftir íslenska höfunda sem fellur ekki að hugmyndum manna um hina íslensku skáldsögu. Spennusagan náði sem betur fer loks í gegn og síðastliðin jól hafa þess háttar bókmenntir verið stór hluti sölunnar. Og sú bylting hefur gert það að verkum, að augu útgefenda eru smátt og smátt að opnast fyrir þeim möguleika að gefa út eitthvað annað en sveitarómansa eða raunsæislegar nútímadramabókmenntir. 

Ég veit ekki hvort það er vegna þess að sífellt fleiri og betri höfundar eru farnir að halla sér að genrebókmentum. Kannski er sú raunin. Yrsa Sigurðardóttir skrifaði Ég man þig og seldist sú bók mjög vel. Reyndar var hún markaðssett sem spennubók en ég held að það dyljist engum sem lesi bókina að fyrst og fremst er um hrollvekju að ræða. Auk þess hafa tímarit á borð við Furðusögur gefið ungum höfundum færi á að sjá sögur sínar á prenti, sögur sem falla annars ekki inn í hinn fastmótaða ramma íslensku skáldsögunnar.

Gallinn er að mínu mati sá, að of lengi hefur skuggi Laxness hvílt á íslenskum rithöfundum. Hann var vissulega stórgóður rithöfundur á sínum tíma en ég held að alltof margir hafi reynt annað hvort að líkja eftir honum eða gert sitt best til að vera ekki eins og hann. Þannig hafi Laxness haft gríðarleg áhrif á menningu rithöfunda og það hafi í raun ekki verið fyrr en með tilkomu norrænu spennusögunnar hérlendis að höfundar og útgáfur sáu að hægt að var stíga fram undan skugganum og út í ljósið.

Fyrir nokkrum árum kom hrollvekjan Börnin í Húmdölum eftir Jökul Valsson út, svo síðustu jól Ég man þig og nú í vor kom út safn hryllingssagna eftir mig. Ég veit að það eru fleiri sem eru að skrifa hrollvekjur eða spennusögur með hrollvekjandi ívafi. Auk þess hefur fantasíunni vaxið ásmegin, í síðasta sunnudagsblaði Moggans var viðtal við ungan norðlenskan rithöfundum sem hefur skrifað fantasíur og mun fyrsta bók hans verða gefin út af Sögum nú í haust. Rósa Grímsdóttir er auk þess að gefa sjálf út fyrstu bókina í fantasíubókaflokki sínum. Í gegnum tíðina hafa verið gerðar tilraunir með vísindaskáldsöguna, t.d. Lovestar eftir Andra Snæ, en persónulega sakna ég þess að sjá vísindaskáldsögu sem gengur alla leið.

Ég held, að við munum sjá meira af þessu á komandi árum. Þessar genrebókmenntir eru í raun að rísa upp sem gjaldgengar bókmenntir og fyrir vikið munu bæði forlög og lesendur smátt og smátt víkka sjóndeildarhring sinn hvað lestrarefni varðar. Enda sýna sölutölur frá löndunum í kringum okkur að lesendur þar vilja þess háttar efni, t.d. eru Stephen King og Terry Pratchett með mest seldu höfundum í sínum löndum. Upprisa genrebókmennta er fyrir löngu tímabær hérlendis og vonandi mun jólabókaflóðið í ár verða enn fjölbreyttara en áður. 

Mig langar því til að hvetja sem flesta að gefa þeim bókum gaum sem út koma og falla ekki í hið klassíska form íslensku skáldsögunnar. Gefa ungum höfundum sem skrifa genre bókmenntir tækifæri. Meiri fjölbreytni í bókaskápnum getur ekki verið af hinu verra.  


Bókaþjóðin mikla

Við Íslendingar teljum okkur trú um að við séum mikil bókaþjóð, enda blundar rithöfundur í að minnsta kosti hálfri þjóðinni. Svona meira eða minna. Hins vegar kemst ég ekki hjá því stundum að hugsa um hversu mikið þessi ágæta þjóð les í raun og veru, og þá sérstaklega þær kynslóðir sem eru að vaxa nú úr grasi. Auðvitað eru einhverjar bókmenntir, valdar af kostgæfni sem aðeins gæðir bókmennta- og íslenskufræðinga, lesnar í grunn- og menntaskólum, en bók sem þú lest af skyldurækni, er hún jafn ítarlega lesin og bók sem þú velur þér sjálfur eða þér einfaldlega finnst þú þurfa að lesa?

Ég hef nefnilega á tilfinningunni að lestur bóka fari minnkandi, hef reyndar ekkert fyrir mér í þeim efnum, engar sölutölur eða þannig (enda er vart hægt að segja að seld bók sé lesin bók). Ástæðan fyrir þessari upplifun, tilgátu eða hvað menn vilja kalla það, er tvíþætt. Annars vegar er sú hneigð fjölmiðla að matreiða hlutina sífellt einfaldar og knappar, helst þannig að hægt sé að segja fréttir í 160 stafabilum (sem mér skilst að sé meðal SMS lengd) og hins vegar sú, eftir að hafa starfað sem kennari í grunnskóla í nokkur ár, þá sýnist mér tilfinning fólks fyrir texta fara versnandi. Og það sem verra er, ekki bara ungs fólks, heldur líka þeirra sem eldri eru (ég undanskil ekki sjálfan mig).

Ef við byrjum á fyrra atriðinu, þessari SMS hneigð, þá hafa samfélagsmiðlarnir fært okkur margt ágætt, en þar hafa líka orðið ákveðin vatnaskil er varða samskipti fólks. Nær allir af þessum nýju miðlum; SMS, Facebook, Twitter, osfrv.; eru með staðlaða lengd á skilaboðum, t.d. stöðuuppfærslum. Fyrir fólk sem er ekki endilega að skrifa mikið meira á hverjum degi, en þá texta sem það lætur inn á slíka vefi eða í smáskilaboð, þá mótast mjög hugsunin og tilfinningin fyrir texta af því. Sér í lagi, ef það er einnig þeir nær einu textarnir sem lesnir eru. Þetta er farið að birtast manni í ýmsum myndum, t.d. eru leiðbeiningar orðnar mjög krappar oft á tíðum. Sem dæmi mætti nefna leiðbeiningar með spilinu Alias, þar er sérstaklega haft fyrir því að setja fram leiðbeiningarnar í styttri útgáfu og mér sýnist að þær myndu passa nokkurn veginn inn í Facebook status, eins undarlega og það hljómar. Ef framleiðendur þessa spils hefðu gengið út frá því, að tilvonandi leikmenn myndu lesa reglurnar, þá væri engin þörf á þessari styttu útgáfu af reglunum. Þess má til gamans geta, að reglurnar, sem eru mjög einfaldar, rúmast á hálfri annarri A4 blaðsíðu. Hið sama gildir um leiðbeiningar með hugbúnaði, t.d. bandarískum hugbúnaði, og maður finnur á netinu. Textinn er knappur og mjög einfaldur. Það er sem sagt í raun verið að venja málnotendur á þess háttar texta.

Þá er það seinna atriðið (hér kemur stutt heimur-versnandi-fer raus). Tilfinning okkar fyrir málinu fer versnandi. Ég held að flestir geti verið sammála um, að kröfurnar um hraðan fréttaflutning, sífelldar uppfærslur og meira krassandi fréttaefni geri það að verkum, að þeir sem skrifa inn á vefi og í tímarit gæta oft ekki að því, að það sem þeir skrifa sé málfræðilega rétt. Og þetta á ekkert bara við um fréttavefi eða tímarit. Þó margt megi segja ágætt um marga þá vefi er prófarkarlestri þar tilfinnanlega ábótavant. Orðatiltæki, málshættir og blæbrigði málsins eru einhvern veginn að hverfa ofan í pitt meðalmennsku og ég hef áhyggjur af því, ef fram heldur sem horfir muni vaxa upp kynslóðir Íslendinga sem hafa orðaforða upp á kannski 3000-4000 orð. Til dæmi hefur nokkuð verið rætt um á undanförnum misserum um það, hvort viðtengingarháttur sé að hverfa úr málinu. Hvernig ætlar kynslóð sem ekki hefur tök á viðtengingarhætti að lesa bókmenntir frá okkar tímum eða eldri?

Og hvað verður þá um bókaþjóðina miklu? Munu einstaklingar sem hafa afar fábreyttan orðaforða nenna að lesa bækur þar sem þeir skilja ekki þriðja hvert orð? Bækur þar sem þeim líður eins og þeir séu að lesa annað tungumál? Mig grunar nefnilega, að það sé upplifun margra unglinga í dag er þeir lesa Íslendingasögurnar, þrátt fyrir að orðaforði þeirra sagna sé frekar takmarkaður. Ég get ekki séð hvernig það sé jákvætt. Auðvitað þarf tungumálið að fá að þróast, auðvitað þarf það að fá að dafna og vaxa eftir því sem samfélagið breytist, en ég fæ ekki séð hvernig það getur verið góð þróun þegar við erum hætt að geta lesið bækur sökum skilningsleysis og skorts á orðaforða. Það hlýtur þá að hafa í för með sér að annað hvort verða bækur skrifaðar með þetta litlum orðaforða eða að ör- og smásögur verði ríkjandi form sagnalistarinnar.

Ég er kannski bara forn í hugsun eða svona gamaldags, en ég vil vernda íslensku. Mér finnst ég verða of oft var við áhrif frá ensku, jafnvel þó að verið sé að reyna halda sig við okkar ylhýra, þá skín ensk hugsun, jafnvel ensk máltæki, í gegn. Um daginn var ég að ræða við mann sem hafði verið að gelta upp í rangt tré. Í starfi mínu fæ ég alltof oft að sjá afleitar þýðingar á enskum slagorðum og sannast sagna, hryggir það mig að sjá hversu lítil tilfinning virðist sitja eftir hjá okkur fyrir tungumálinu okkar. Af þessum sökum hef ég áhyggjur, ég held að þetta sé ekki góð þróun. Mér finnst, að við ættum að gefa gaum að þeim breytingum sem eru að verða á tungumálinu og ef fram heldur sem horfir, þá munu barnabörn okkar hafa yfir mun fábreyttari orðaforða að skipa. 


Tekið af skarið

Ég er einn af þeim sem geng um með rithöfundadraum í maganum. Mér þykir mjög gaman að skrifa og geri mikið af því. Ég fæ líka mikla ánægju út úr því að lesa og reyni að koma því við eins og mögulegt er, en undanfarin ár hefur verið sífellt minni tími fyrir slíkt. Ég hef í gegnum tíðina skrifað bæði smásögur, ljóð og skáldsögur. Sumt af því hef ég sett saman í handrit og gengið á milli útgáfna, í þeirri veiku von að fá þetta útgefið, fá einhvers konar viðurkenningu fyrir þetta strögl mitt (eru höfundar einhvern tíma ekki í leit að viðurkenningu með einum eða öðrum hætti?). Hins vegar hefur mér verið hafnað aftur og aftur, með þeim skilaboðum að þetta séu frambærileg skrif, efnileg osfrv., en henti ekki til útgáfu að svo stöddu, eða búið er að ganga frá útgáfum þessa árs og næsta, endilega hafa samband aftur síðar. Ég held ég sé búinn að heyra nær allar útgáfur af afþökkunarskilaboðum forlaganna. Eflaust vill það starfsfólk vel sem þar starfar, en hins vegar hefur mér þótt leiðinlegt að fá sum handritin nær ólesin aftur í hendurnar frá sumum útgáfunum. 

Ég viðurkenni þó fúslega að nær allt sem ég skrifaði í upphafi, þessi fyrstu þrjú, kannski fjögur, handrit sem ég fór með á útgáfurnar voru langt frá því að vera útgáfuhæf. Ég sá það kannski ekki þá, en þetta er kannski kosturinn við að þroskast og eldast, maður öðlast reynslu og verður fyrir vikið gagnrýnni á sjálfan sig og það sem maður er að gera. Hins vegar á ég tvö handrit sem eru bæði hæf til útgáfu en hef þó ekki haft erindi sem erfiði. Reyndar held ég að bölvun hvíli á öðru þeirra, því útgáfa hér í borginni hafði samþykkt að gefa það út en áður til þess kom fór hún á hausinn. Ég fór þá með handritið til annarar útgáfu, sem var mjög heit fyrir handritinu en tókst líka að láta bankann loka á sig áður en niðurstaða fékkst í það mál.

Hvað á maður þá að gera? Ég er 32 ára gamall og mig langar, fyrr en síðar, að geta unnið við að skrifa skáldskap. Því miður er ég hins vegar í þeirri stöðu, að þurfa standa við skuldbindingar mínar gagnvart bankastofnunum, eins og svo margir Íslendingar, og á engan möguleika á að fá listamannalaun eða þvíumlíkt, þar sem ég hef ekki enn fengið bók útgefna. Sem sagt, þarna er ákveðinn vítahringur en eflaust hugsaður til þess að tryggja að hver sem er sæki ekki um þessa styrki. Auk þess virðist mér sama fólkið fá þessi laun svolítið oft og einhverjir hafa bent á það, að innan þessa geira er ákveðin klíka sem klappar sér og sínum. Ég ætla þó ekki að fara út í slíkar hugleiðingar, enda hefur það ekkert upp á sig. 

Þetta er því staðan. Á maður að gefast upp eða spýta í lófanna og láta smá mótvind ekkert á sig fá? Sannast sagna þá var ég farinn að hallast að því fyrrnefnda síðasta vetur. Sumarið var hins vegar ágætt, ég fékk tvær sögur útgefnar í Furðusögum, flottu tímariti um svokallaðan genre skáldskap, þ.e. furðusögur, hrollvekjur, vísindaskáldskap, fantasíur og þess háttar. Einmitt sögur sem alla jafna sést mjög lítið af hérlendis þá eftir Íslendinga. Það selst töluvert af slíkum skáldskapi eftir erlenda höfunda en einhverra hluta vegna virðast útgáfur tregar til að gefa út þess háttar íslenskan skáldskap. Á undanförnum árum hefur aðeins ein hreinræktuð hrollvekja komið út og það var Börnin í Húmdölum eftir Jökul Valsson. Hið sama gildir um fantasíur og vísindaskáldskap, þetta sést varla hérlendis nema þá sem erlendar kiljur og í besta falli þýðingar. Auk þess að fá sögurnar birtar í Furðusögum, þá vann saga eftir mig smásagnasamkeppni Vikunnar, sem ég tók þátt í af algerri tilviljun. Þetta tvennt varð þó til að blása smá lífi í drauminn um að verða rithöfundur og að sjá bækur eftir mig á prenti. 

Eftir umtalsverða umhugsun ákvað ég, í félagi við fólk sem stendur mér nærri, að stofna mína eigin útgáfu. Hugmyndin er sú, að leggja áherslu á þessar genre bókmenntir og fara inn á markaði sem eru ekki endilega höfuðmarkaðir íslenskrar bóksölu. Ég sé t.a.m. ekki mikla möguleika fyrst um sinn fyrir litla útgáfu að takast á við jólabókaflóðið með öllum þeim tilkostnaði sem því fylgir. Nei, hugmyndin er að setja stefnuna á kiljumarkaðinn og jafnvel raf- eða netbækur. Bjóða lesendum upp á eitthvað nýtt, ekki bækur úr jólabókaflóðinu sem eru nú í kilju í stað innbundnar. Bjóða lesendum upp á öðruvísi bókmenntir, hryllingssögur, fantasíur, furðusögur, draugasögur, vísindaskáldskap og allt þarna á milli. Það eru höfundar hérlendis sem skrifa svona bókmenntir, svo mikið veit ég, en fæstir þeirra fá útgefið hjá stóru forlögunum. Þar gæti minna forlag, sérhæfðara forlag, komið inn og náð að marka sig. 


Að þykja vænt um sjálfan sig

Fyrir nokkru lenti ég í umræðum um sambandsmál. Ég var spurður af því hvers vegna ég ætti ekki kærustu. Í kjölfarið hef ég svolítið velt þessum málum fyrir mér. Hvernig sambands mál mín hafa þróast á undanförnum árum og þess háttar. Það er nefnilega ekki sama hvenær, hvernig eða með hverjum maður er hverju sinni. 

Ég hef ekki verið í sambandi síðan á síðasta ári. Eftir við barnsmóðir mín hættum saman, þá fór ég úr einu sambandi í annað, var svolítið ráðvilltur, einmana og átti erfitt með að átta mig hvað ég vildi, hvert ég stefndi eða hvað ég vildi fá út úr hlutunum. Kannski skiljanlegt, þar sem þau sambandsslit voru ákveðið skipsbrot fyrir mig. Hins vegar hef ég öðlast góða reynslu í kjölfarið og í dag sé ég alla þessa hluti í öðru ljósi, en ég gerði þá.

Eitt af því sem ég er sífellt meira farinn að hallast að, er að grunnforsenda þess að að eiga gott samband er að þykja vænt um sjálfan sig. Eflaust kemur þetta einhverjum spánskt fyrir sjónir, en þetta er engu að síður skoðun mín. Um leið og manni þykir vænt um sjálfan sig, þá er auðveldara að vera hamingjusamur af eigin hvötum, maður er ekki jafn háður því að hinn aðilinn geri mann hamingjusaman. Það hefur nefnilega ótrúlega mikið að segja, að geta náð því stigi að vera engum háður um hamingju eða lífsgleði. Það þýðir, að allt umfram mann eigin hamingju gerir hlutina bara betri.

Ef manni þykir ekki vænt um sig, kallar sífellt eftir því að aðrir tryggi hamingju manns, eða maður leitast eftir því að uppfylla þarfir annarra, þá fyrr eða síður, tel ég, rekst maður á vegg og þarf að horfast í augu við, að hamingja annarra er ekki sama og eigin hamingja. Auðvitað er hægt að upplifa gleði og sorgir með öðrum, gleðjast yfir góðum árangri eða hamingju barna eða annarra skyldmenna, en sú gleði eða hamingja ristir ekki jafn djúpt og sú sem er persónuleg, þ.e. ef þú ert ekki hamingjusamur fyrir.

Ég held líka, að einstaklingur sem þykir vænt um sig á auðveldara með að láta sér þykja vænt um aðra. Þú hefur eitthvað að gefa, ef þú eyðir ekki allri þinni orku að velta þér upp úr eigin óhamingju eða öðrum vandkvæðum. Maður þarf að geta notið eigin félagsskapar, átt sín áhugamál, drauma og markmið. Maður þarf að geta horfst í augu við sjálfan sig í speglinum brosandi, hvort sem einhver stendur manni við hlið eða ekki. Hið sama gildir um, hvort öðrum geti þótt vænt um mann. Ef maður á erfitt með að láta sér þykja vænt um sig, hvernig er hægt að krefjast þess af öðrum?

Þetta hangir allt saman og ekki hægt að fullyrða eitt eða neitt. Hins vegar, eftir gaumgæfilega umhugsun, er þetta niðurstaða mín. Á sínum tíma þótti mér ekki vænt um sjálfan mig og fyrir vikið átti ég erfitt í samböndum, hvað svo sem gildir um aðra. Í dag er ég að læra, læt mér þykja vænt um mig og nýt þess að vera einn með sjálfum mér og náttúrulega dóttur minni. Mér líður vel. Ég er hamingjusamur, þó svo allt sé ekki fullkomið. En hvenær er það svo? 


Hvaða mynd viltu draga upp af þér á netinu?

Eitt af því sem ég hef stunduð fjallað um, er hvernig fólk hagar sér á netinu. Sú mynd sem maður dregur upp af sjálfum sér á netinu getur í sumum tilfellum verið ansi ólík þeirri persónu sem maður er í raun í sínu daglega lífi. Nærtæk dæmi eru þeir sem falla í hlutverk trölla á spjallsvæðum eða þeir bloggarar sem gera út á það, að gera lítið úr öðrum til upphafningar á sjálfum sér.

Netið er eini fjölmiðilinn þar sem allar upplýsingar, allt sem fram kemur þar eða hefur verið hlaðið upp á netið, eru geymdar að eilífu. Tökum sem dæmi þetta blogg mitt. Jafnvel þó ég eyði út blogginu, fæ blog.is til að eyða öllum gögnum af serverum sínum, þá lifir það sem ég hef skrifað hér áfram. Jafnvel eru til sérstakar síður og vélar, sem eru helgaðar því að taka afrit af öllum vefsíðum á hverjum tíma.

Það er því mjög mikilvægt fyrir netnotendur að gera sér grein fyrir þessu og vinna á netinu út frá þessum upplýsingum. Það er ekki sama hvernig við komum fram, ekki sama hvað við segjum (jafnvel undir öðrum nöfnum) og enn síður sama hvað við gerum. Í raun mætti segja, að netnotendur þurfi að stunda ákveðna mörkun (e. branding) á sjálfum sér á netinu, þ.e. ákveða með sjálfum sér hvernig persóna þeir vilji að birtist á netinu, hvað mynd þeir vilja draga upp af sjálfum sér. Ekki ósvipað og allir sem eru í fjölmiðlum þurfa að gera. Hjá flestum gerist þetta sjálfkrafa, aðrir þurfa jafnvel aldrei að leiða huga að þessum málum þar sem hegðun þeirra á netinu er alla jafna góð. Hins vegar eru ekki allir þannig úr garði gerðir.

Til dæmis er það þekkt í Bretlandi að starfsmannastjórar skoða sífellt meira og ítarlegar umsækjendur um tilteknar stöður og hegðun þeirra á netinu. Ég reikna með, ef gerð væri rannsókn á þessu hérlendis myndi svipuð þróun koma í ljós. Þannig getur það komið í bakið á einhverjum ef viðkomandi hefur sótt um starf sem verkefnastjóri hjá Jafningjafræðslunni en er á sama tíma í Facebook-grúppunni Náðu í bjór, druslan þín - Staður konunnar er í eldhúsinu! Þannig mætti segja, um leið og netið hefur fjölgað leiðum okkar til tjáningar og stuðlað þannig að meira frelsi, þá er það frelsi vandmeðfarið. Vissulega öllum frjálst að hafa þær skoðanir sem þeir kjósa, en það er ekki víst að Jafningjafræðslan sé réttur staður fyrir einstakling sem þarf að vinna með unglingum, að hann sé með mjög ákveðnar, niðrandi skoðanir um kvenfólk. 

Ágætur félagi minn er oft og iðulega dæmdur harkalega fyrir framkomu sína á netinu. Þeir sem þekkja hann í raunheimum hafa þó oftast nær gott eitt um hann að segja. Hins vegar birtist manni oft önnur persóna á netinu, persóna sem ekki endilega hefur eftirsóknarverða eiginleika. Þannig er það með marga, sjálfur get ég fallið í þá gryfju. Ég velti stundum fyrir mér, hvort einhver myndi ráða mig í vinnu eingöngu út frá skrifum mínum og gjörðum á netinu. Hið sama gildir þegar ég sé fólk tröllast eða gera hluti sem eru á gráu svæði.

Þannig, ef þú hefur ekki hugsað um þessi mál áður, þá er kannski ekki seinna vænna. Prófaðu að gúggla þig, sjáðu hvað kemur upp. Bæði þig og þau notendanöfn sem þú notast venjulega við. Það getur verið mjög áhugavert að sjá hvað dúkkar up. Skoðaðu hvort allt sem upp kemur birtir þá mynd af þér sem er eins og sú sem þú vilt draga upp af þér. Kannski er þörf á að endurskoða hegðun sína, gjörðir og skrif.   


Göngum út frá því versta

Eitt af því sem ég velti stundum fyrir mér, er hvaða skilaboð starfsfólk ákveðinna fyrirtækja og stofnanna fá frá yfirmönnum sínum. Við búum í samfélagi um 300 þúsund einstaklinga og það hefur löngum loðað við þjóðina, að maður þekkir mann sem þekkir mann og þá er þjóðin öll á næsta leyti. Eða með öðrum orðum, samfélag okkar er svo lítið að það er frekar erfitt að ætla sér að komast upp með eitthvað kjaftæði til lengri tíma. 

Hins vegar virðist það vera lenska hjá sumum fyrirtækjum og stofnunum, sem nær flest öll selja þjónustu sína, að vantreysta viðskiptavinum sínum. Tökum sem dæmi tryggingarfélag. Gefum okkur að ég hafi lent í innbroti og öllu fémætu stolið, að undanskildum nærfatnaði og því sem var akkúrat þá stundina í þvottavélinni (hvaða þjófur dröslast út úr íbúð með blautan þvott?). Ég hringi að sjálfsögðu í lögregluna, tilkynni og kæri innbrotið en þar sem lögreglan upplýsir bara 14% innbrota í Reykjavík, þá segja þeir mér að litla líkur séu á því, ég endurheimti hlutina mína. Þá er að hringja í tryggingarfélagið. Jú, þeim þykir leitt að heyra þessa sorgarsögu mína og bjóða mér að koma með lista yfir þá hluti sem teknir voru. Ég rita samviskusamlega niður það sem ég á og mæti til þeirra nokkrum dögum eftir innbrotið. Já, í fyrsta lagi er sjálfsábyrgð, þ.e. ákveðin upphæð sem þeir bæta ekki. Í öðru lagi og hér hefst fjörið fyrir alvöru, þá reynir tryggingarfélagið allt hvað það getur til að komast undan því að borga mér, af því hugsanlega, já HUGSANLEGA, er ég að svindla á þeim. Þeir geta ekki verið vissir um, að það hafi ekki verið ég sem braust inn til mín og rændi sjálfan mig. Ha, var 20 cm breiður gluggi á 2. hæð ekki kræktur aftur. Enn leitt, þá færðu ekki neitt, enda getur bara kennt sjálfum þér um svona vanrækslu!

Samt virðast þeir ekki sýna sama vantraust í minn garð þegar ég mæti til að borga tryggingarnar mínar, það er ekki óskað eftir því ég sýni skilríki, ég þarf ekki að sýna fram á ég eigi þá hluti sem ég er að tryggja og hvað þá þeir segi, að komi eitthvað fyrir er það mitt að sýna fram á sakleysi mitt, svo ég geti fengið aftur greitt frá þeim ÞAÐ SEM ÉG HEF GREITT ÞEIM!

Sem sagt, tryggingarfélög ganga út frá því að verið sé að svindla á þeim, þegar það kemur að því að þau þurfi að borga út. Ég er að hugsa um, að senda tryggingarfélaginu mínu póst þegar rukkunin fyrir þetta ár birtist í póstkassanum mínum og biðja það um að staðfesta að um póst frá þeim sé að ræða og fá undirskrift þess aðila er sendir téða rukkun. Síðan mun ég kanna hvort viðkomandi aðili hafi leyfi til að senda rukkun í nafni tryggingarfélagsins og rukka tryggingarfélagið fyrir ómakið.

Annað svona dæmi er tollurinn. Gefum okkur ég eigi afmæli. Vinur minn sem býr í Útlandistan ákveður að gleðja mig með því að senda mér tölvuleik í afmælisgjöf. Hann merkir gjöfina sem afmælisgjöf en Tollurinn treystir ekki merkingum. Af því hugsanlega, já aftur HUGSANLEGA, gæti þetta verið einhvers konar útpælt tollasvindl af minni hálfu. Gjöfin er opnuð, sannreynt að um tölvuleik sé að ræða og síðan þegar mér er tjáð, að mér sé ekki treyst (af því það er bara gert í persónu hjá Tollinum) þá þarf ég að fylla út tollaskýrslu og greiða fullan toll af afmælisgjöfinni minni.

Enn og aftur, er mér sem neytanda ekki treyst af því, það eru til svartir sauðir. Þessum stofnunum og fyrirtækjum finnst þá auðveldara að mála alla svarta og láta þá síðan sanna að þeir séu hvítir og jafnvel þrátt fyrir sannanir, þá leyfa fyrirtækin sér samt að efast.

Síðasta dæmið, gefum okkur að ég sé að stofna fyrirtæki og sé í samskiptum við banka vegna þessa. Bankinn óskar eftir því að fá afrit af persónuskilríkjum mínum. Ég býðst til þess að skanna þau hjá mér og senda þeim í tölvupósti. Nei, það er ekki nógu gott, ég þarf gjörasovel og mæta í bankann þar sem persónuskilríki mín eru skönnuð. Ég hlýt því að gera ráð fyrir að það sé vegna þess að skannar þeirra séu svona sérstakir eða að sannreyna þurfi að sá sem heldur á téðum skilríkjum sé sá hinn sami og mætir í bankann. Því er þó ekki að heilsa, ég mæti með passann minn, þar sem er mynd af mér gleraugnalausum og nýrökuðum. Ég mæti hins vegar með gleraugu og fúlskeggjaður, rétti fram passann og hann er skannaður, vart án þess að á mig sé yrt. Sem sagt, mér er ekki einu sinni treyst til þess að skanna persónuskilríki.

Mér væri skapi næst, að senda bankanum rukkun vegna vinnutaps, bensínkostnaðar og afnot af persónuskilríkjunum mínum. Kannski væri það hreinlega eðlilegast!

Ég verð að viðurkenna, ég skil ekki hvers vegna fyrirtæki og stofnanir sem þær sem ég hef hér fjallað stuttlega um, hreinlega hætti ekki starfsemi úr því þær hafa svona litla trú á viðskiptavinum sínum. Mér líður svo oft þegar ég á viðskipti við íslensk fyrirtæki og stofnanir eins og ég sé að gera þeim óleik með því, í besta falli eru þau að aumka sig yfir mig með því að afgreiða mig. Mér finnst þjónustulund og þjónusta alltof margra svo léleg og undarlega dapurleg, að mig hreinlega skortir orð til að lýsa vanþóknun minni. Þau eru fleiri en bara þau sem ég nefni, t.d. væri hægt að taka heilt ár og blogga bara um LÍN. 

Er ekki kominn tími til að bankar, tryggingarfélög, ríkisstofnanir og aðrir sem hlut eiga að máli fari að átta sig á því, að það eru neytendur sem eru að gera þeim greiða með því að eiga viðskipti við viðkomandi? Að þjónusta eru gæði sem neytendur eru að kaupa? Hún er ekki eitthvað flott hugtak sem hægt er að læða með í kynningarbæklingum en enginn þarf að kannast við þegar á reynir, heldur raunveruleg gæði. 

PS. Öll þau dæmi sem ég nefni hér eru raunveruleg, þó svo ég hafi ekki lent í þeim persónulega.  


Fögur fyrirheit

Janúar er yndislegur mánuður. Fólk man skyndilega eftir íþróttaskónum, sem það keypti fyrir nákvæmlega ári síðan og hætti að nota fyrir 11 mánuðum, og flykkist í líkamsræktarstöðvar, í von um að fækka aukakílóum og skera niður óþarfa skvabb og hliðarvængi. Aðrir taka á sig stökk og skella sér í salsa eða jóga, enn aðrir lesa þarna bókaflokkinn sem allir voru tala um í fyrra eða hitteðfyrra, þarna eftir sænska gaurinn og myndirnar voru gerðar eftir. Svo eru þeir sem áttu alltaf eftir að prófa teygjustökk án atrennu, fljúga flugvél, læra að spila á gítar eða syngja dúett með Bubba Morthens. 

Ég er nákvæmlega þessi týpa. Horfi á sjálfan mig í speglinum, sístækkandi bumbuna, færri hár á höfðinu en fyrir ári síðan og jafnvel farið að glitta í grátt í skegginu. Hneykslast á því ég skuli ekki enn líta út eins og þegar ég var 18 ára. Hvar er sixpakkið, sem ég lofaði sjálfum mér að ná fram á síðasta ári? Hvað varð um öll markmiðin, öll fögru fyrirheitin? Hvar er draumurinn? Ég lagði upp með svo góð markmið og sjá mig nú! Sjá þetta þarna í speglinum. Sama hve reynt er að spenna magavöðvana, þá er eina leiðin til að bumban svo mikið sem líkist sixpack er að setjast og horfa á fellingarnar í speglinum. Hver þarf svo sem sixpack...nema náttúrulega það sem geyma má í ísskáp og geymir gullinn mjöð... Nei, svona á ekki að hugsa á nýju ári!

Auðvitað setti ég mér markmið fyrir þetta ár og auðvitað voru þau keimlík þeim sem ég setti mér á síðasta ári. Fara að hreyfa mig meira, borða minna, lesa meira, drekka minna, vera meira með stelpunni, vinna minna og svo mætti lengi telja. Og auðvitað á þessu ári mun ég ná öllum þessum markmiðum. Efast nokkur um annað? Hef ég einhver tíma ekki náð markmiðum mínum á þessu ári? 

Þetta er bjútíið við janúar. Við getum hent öllum gömlu markmiðunum, gömlu og hundleiðinlegu nýársheitunum frá því í fyrra og endurnýjað þau. Mætt síðan full af krafti, von og trú um að þetta ár er ÁRIÐ sem allt gerist. Auðvitað, hvað annað?

Nú, ef það gengur ekki, þá er alltaf 2012 bara rétt handan við hornið... 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband