Færsluflokkur: Vefurinn

Call of Cthulhu

cthulhu2

Call of Cthulhu eða Kall Cthulhu er smásaga eftir H.P. Lovecraft og kom hún fyrst út árið 1928 í tímaritinu Wierd Tales. Reyndar skrifaði Lovecraft söguna sumarið 1926 og er þetta eina sagan eftir hann þar sem lesa má um óvættina Cthulhu, sem á að hafa komið utan úr geimnum en sofi nú dauðasvefni í borginni R'lyeh, sem hvíldir á hafsbotni langt undir öldutoppum Kyrrahafsins. Upphaflega var sögunni hafnað af Wierd Tales en vinur Lovecraft ræddi við ritstjóra blaðsins og lét í veðri vaka að Lovecraft ætlaði að senda söguna í annað tímarit, sem varð til þess að ritstjórinn skipti um skoðun. 

Í sögunni er sagt frá Francis Wayland Thurston sem þarf að gera upp dánarbú frænda síns, Angells prófessors, en þar finnur hann nokkra hluti sem koma honum á slóð hryllilegs trúarsafnaðar og óvættarinnar Cthulhu. Frásagnarmátinn er í nokkurs konar skýrslustíl, Francis segir söguna og nálgast frásögn sína á svipaðan hátt og vísindamaður, reynir að segja hlutlægt frá rannsókn sinni og uppgötvunum en, eins og gefur að skilja, leggur vissulega eigið gildismat á þær persónur sem tengjast frásögninni. Frásögnin skiptir í þrjá hluta, Hryllileg leirmynd (e. Horror in the Clay), Frásögn Legrasse rannsóknarlögreglumanns (e. The Tale of Inspector Legrasse) og Martröð á hafi út (e. The Madness from the Sea). Fyrsti hlutinn er frásögn Thurstons af því sem hann hefur lesið úr skýrslu Angells prófessors, sem og segir frá því er hann hittir ungan listamann að nafni Wilcox, en sá bjó til leirmynd sem olli prófessornum miklu hugarangri. Í næstu köflum verður frásögnin marglaga, þ.e. sögð er saga innan sögu. Í fyrsta lagi er það frásögn Legrasse og hins vegar endursögn úr dagbók norsks stýrimanns.

Textinn er mjög Lovecraftískur, ef svo mætti að orði komast. Hann nýtir sér vel ríkan orðaforða sinn og eru myndlýsingar oft á tíðum hlaðnar og huglægar. Setningar eru oft langar og flóknar, eflaust til að draga enn frekar fram vísindalega nálgun aðalpersónunnar. Koma fyrir orð og orðtök sem kalla má forn eða óalgeng, jafnvel á þessum tíma, en eflaust má rekja það til áhuga hans á grískum goðsögum enda ber máls hans þess merki (þess má til gamans geta að afi Lovecraft var duglegur að halda slíku efni að barnabarni sínu og að segja honum furðusögur hvers konar, sem og gotneskar hryllingssögur í óþökk móður hans). Einnig eru vísanir í samtímalistamenn á borð við Clark Asthon Smith, Arthur Machen og jafnvel ýmsar fræðibækur, t.d. The Witch-Cult in Western Europe eftir Margaret A. Murray, en skrif hennar hafa haft áhrif á Wicca trúarbrögðin.  

Sjálfur var Lovecraft gagnrýninn á söguna, fannst hún hvorki alslæm né sérstaklega góð. Robert E. Howard, höfundur Conan, tók hins vegar sögunni fagnandi og sagði hana meistaraverk sem ætti eftir að hljóta sess meðal helstu bókmennta. Lítill vafi leikur þó á, að sagan hefur haft gríðarleg mikil áhrif, hvort sem um ræðir bókmenntir eða aðrar þætti menningarinnar. Gerð hafa verið útvarpsleikrit upp úr sögunni, hún hefur verið myndskreytt og gefin út með þeim hætti, einnig var á sínum tíma gerð kvikmynd eftir sögunni. Þungarokkshljómsveitir hafa vitnað óspart í söguna, t.d. Metallica og Cradle of Filth, en sú fyrrnefnda hefur t.d. gert lag sem heitir Call of Ktulu. Einnig hafa verið gerð spunaspil sem byggja m.a. á sögum Lovecraft en bera nafn sögunnar, ásamt því að tölvuleikir hafa verið gerðir með þessu nafni. Áhrifin hafa því verið býsna víðtæk, þá sérstaklega í Bandaríkjunum. 

Sagan er vel þess virði að lesa, hafirðu ekki gert það nú þegar. Hið hryllilega í henni er smátt og smátt lætt að lesanda og hann áttar sig á að hið hryllilega er hvorki goðsögulegt (t.d. vampírur eða varúlfar) né persónulegt (t.d. myrkfælni, geðveiki) heldur stjarnfræðileg óvætt sem ógnar öllu mannkyni. 


H.P. Lovecraft

Lovecraft

Ef ég man rétt, þá var ég nýbúinn með grunnskóla þegar ég komst fyrst í kynni við H.P. Lovecraft. Á þeim tíma vorum við nokkrir félagar duglegir að spila spunaspil og ákvað einn okkar að stjórna kerfi sem heitir Call of Cthulhu. Við spiluðum nokkur ævintýri og út frá þeim fór ég að kynna mér kerfið betur og komst að raun um að það væri byggt fyrst og fremst á skáldskap þessa höfundar. Ég sá að félagi minn, þessi sem ákvað að stjórna þessu kerfi, átti bækur eftir Lovecraft í bókahillunni hjá sér og fékk ég þær lánaðar. 

Eftir það varð ekki aftur snúið. Ég hef lesið nær allan skáldskap hans og ýmislegt meira til, þó ég hafi hingað til ekki haft það í mér að fara í gegnum öll bréfaskrif hans. Vissulega er Lovecraft ekki besti rithöfundur sem Bandaríkin hafa alið af sér, en arfleifð hans er hins vegar mikil og margir, ef ekki flestir, nútímahrollvekjuhöfundar nefna hann sem einn af áhrifavöldum sínum. Sögur hans hafa náð kannski meiri hylli á síðustu árum og t.d. skilst mér að kvikmynd sé í undirbúningi sem gera á eftir einni af lengri sögum hans, At the Mountains of Madness. Reyndar hafa verið gerðar kvikmyndir eftir sögum hans en fæstar þeirra náð vinsældum. Einna helst virðast myndir sem vísa óbeint til hans verða vinsælar, t.d. Event Horizon og In the mouth of madness, báðar með Sam Neill í aðalhlutverki.

Af hverju ætli sögur hans lifi svona góðu lífi meðal hrollvekjuunnenda? Ég tel að fyrir því séu tvær ástæður. Í fyrsta lagi þá var Lovecraft með afar frjótt ímyndunarafl og virðist hafa átt auðvelt með að sjá hið hryllilega fyrir sér. Það voru hvorki vampírur, varúlfar, draugar eða nokkur af hinum þjóðsagnakenndu verum sem jafnan einkenndu klassískar og gotneskar hrollvekjur þess tíma, heldur var hryllingur hans upphaflega meira í ætt við Poe og Algernon Blackwood. Svo þegar hann tekur að þróa Wierd-fiction þá breyttist hið hryllilega í ævafornar og illgjarnar verur utan úr geimnum, sbr. Cthulhu. Þannig gátu runnið saman í einni sögu hrollvekja, fantasía og vísindaskáldskapur. Ég held að hann, ásamt Poe o.fl., hafi þannig skapað nútímahrollvekjunni rými til að verða byggðar á einhverju öðru en klassískum og þjóðsagnakenndum hryllingi, hið hryllilega gat komið að innan (sbr. Tell-tale heart eftir Poe og Dr. Jekyll & Mr. Hyde eftir Stephenson), verið utanaðkomandi (sbr. Call of Cthulhu) eða eitthvað sem maðurinn hafði sjálfur skapað (sbr. Frankenstein eftir Shelley) og þaðan af verra. 

Í öðru lagi þá eru sögur hans í senn myndrænar og frásagnarstíllinn góður. Ég held að fæstir sem lesa t.d. Call of Cthulhu eigi erfitt með að sjá fyrir sér litlu leirmyndina, trylltan dans sértúarsafnaðarins í mýrlendinu við New Orleans eða heimsókn norska sjómannsins til R'lyeh. Lesandanum er sagt frá þessu í marglaga frásögn, þannig hann fer sífellt dýpra inn í frásögnina (nokkuð sem kvikmyndaunnendur ættu að kannast við úr myndinni Inception), þ.e. fyrst heyrum við af prófessornum, sem heyrði frásögn Legrasse rannsóknarlögreglumanns. Síðan fær aðalpersónan dagbók í hendur og þar leynist næsta frásögn. Þannig kynnist lesandinn hryllingnum í gegnum tvær frásagnir, fyrst af rannsakandanum og svo því sem hann les. Og allt sett frá á þann máta, í gegnum ríkan orðaforða og ofhlaðinn texta, að auðvelt er að sjá atburðina renna fyrir hugskotum sér.  

Sú saga sem ég held hvað mest uppá eftir Lovecraft er The Thing on the Doorstep. Í þeirri sögu er hann ekki fást við illar geimverur, heldur manneskjuna sjálfa. Sagan er kannski öllu hefðbundnari miðað við annað sem hann hefur lét frá sér, en þar koma fyrir illur seiðskratti, femme fatale og aðalpersóna sem hefur framið morð, en er að reyna réttlæta það fyrir sjálfum sér. Sjálf er hún á geðsjúkrahúsi, dæmd til að eyða árum sínum þar. Ef þú hefur ekki lesið söguna, mæli ég eindregið með henni. 

Lovecraft, sem átti afmæli í gær, þann 20. ágúst, hefur haft mikil áhrif á mig sem höfund. Ég held að það dyljist engum sem les sögurnar mínar og kannast eitthvað við Lovecraft. Mér þykir vænt um sögurnar hans og þrátt fyrir að hafa lesið þær margar aftur og aftur, þá kemur enn fyrir að ég dragi fram einhverja sögu eftir hann og lesi áður en ég fer að sofa, sérstaklega þegar tekur að hausta og nóttin fer aftur að verða dimm og drungaleg. 


Hversdagslegur hryllingur

Hið hryllilega er margslungið fyrirbæri og það getur verið svolítið erfitt að henda reiður á því hvað er hryllilegt og hvað ekki. Bæði er það persónubundið en eins getur það verið ólíkt milli menningarheima, samfélaga eða jafnvel kynja. Sem sagt, það sem fær hárin til að rísa hjá mér getur verið eitthvað allt annað en fær hárin til að rísa hjá þér. Fyrir þann sem skrifar hrollvekjur þá er það endalaus eltingarleikur að finna atriði sem höfða til sem flestra eða hafa sem víðtækasta skírskotun. 

Fyrir vikið er algengt að þess háttar höfundar taki fyrir þekkt þemu. Vampírur, varúlfar, uppvakningar og aðrar þjóðsagnakenndar verur birtast reglulega á síðum hryllingssagna. Poe og fleiri höfundar tóku hið yfirnáttúrulega til umfjöllunar, nokkuð sem Lovecraft útfærði enn frekar í wierd fiction sögum sínum. Stephen King, Shirley Jackson, Peter Wier og fleiri höfundar hafa síðan útfært hið yfirnáttúrulega enn frekar, sem og hið hversdagslega. Við þekkjum hið yfirnáttúrulega og þjóðsagnakennda úr mýmörgum verkum, t.d. úr bókunum Dracula, Darker than you think, I am legend og kvikmyndum á borð við Sleepy Hollow, Event Horison og An American werewolf in London. Auk þessara hryllingssagna ber að nefna þær sem kalla mætti sálartrylla (e. pshyco-thrillers), sögur á borð við Dr. Jekyll & Mr. Hyde, Pshyco o.s.frv.  

Þó svo að yfirnáttúruleg fyrirbæri hafi hvað víðtækasta skírskotunina, þá held ég að hverdagslegur hryllingur sé nokkuð sem tali mun sterkar til lesandans. Og í nútímahrollvekjunni, þá tel ég að hið hversdagslega sé að verða sterkara. Höfundar eru farnir að vinna þjóðsagnakennda og yfirnáttúrulega hrylling með öðrum hætti, jafnvel farnir að gera hvort um sig hversdagslegt. Hitchcock fjallaði sérstaklega vel um hið hversdagslega, t.d. í kvikmyndinni Birds. Stephen King hefur einnig gert í sínum bókum, en þar rennur oft saman hið hverdagslega og hið yfirnáttúrulega, t.d. í sögunum 8 gata Buick og Cell, hið sama gildir um margar japanskar hryllingsmyndir, t.d. The Ring. Eitthvað hefur einnig borið á því, að menn hafi reynt að gera hið yfirnáttúrlega eða þjóðsagnakennda hversdagslegt, þar fáum við að lesa eða sjá sögur t.d. sagðar af vampíru (t.d. Interview with a vampire eða sjónvarpsþáttaserían True Blood) en persónulega er ég á þeirri skoðun að slík yfirfærsla þarf að vera afar vel unnin til að ganga upp. Besta slíka yfirfærsla er að mínum dómi að finna í Frankenstein, þ.e. hvernig við fáum að kynnast því mannlega í sköpunarverkinu. Það í sjálfu sér er hryllilegt, að vera sem er fær um voðaverk og vera tilkomin af því er virðist af gott sem yfirnáttúrulegum ástæðum skuli vera fær um mannlegar kenndir en vera hafnað af samfélaginu (nokkuð sem enginn lesandi vill lenda í sjálfur). 

Við Íslendingar höfum ekki ríka hefð fyrir hinu hversdagslega í okkar annars fáu hrollvekjum í skáldsagnarlengd. Vissulega má finna sögur þar sem hið hversdagslega er hrollvekjandi eða það rennur saman við hið yfirnáttúrulega, t.d. Hrotur eftir Halldór Stefánsson eða Flugur eftir Þóri Bergsson. Í Börnunum í Húmdölum réð hið yfirnáttúrulega ferðinni, nokkurs konar Lovecraftískur hryllingur þar á ferð og í sögu Yrsu Sigurðardóttir, Ég man þig, er sagan meira í ætt við klassískar draugahússögur á borð við The hunting of House Hill eftir Shirley Jackson og The Shining eftir Stephen King. Sjálfur reyndi ég að nálgast þetta fyrirbæri á minn hátt í sögunni Dýrið, þar sem einföld sunnudagsmáltíð tekur óvænta stefnu. 

Þó svo að hversdagslegir hlutir hafi ekki jafn víðtæka skírskotun og yfirnáttúrulegir eða þjóðsagnakenndir, þá held ég að þeir hafi engu að síður sterk áhrif, sérstaklega á þann hóp sem getur hvað best sett sig í spor aðalpersónunnar. Vissulega er hættan sú, að slík saga missi marks hjá þeim sem ekki sjá sig í aðalpersónunni, en á slíkt hið sama ekki við um allar sögur? 

 


Upprisan

163731_10150135066167193_705122192_7670229_746590_n

Á undanförnum árum hafa íslenskar útgáfur verið tregar til að gefa út efni eftir íslenska höfunda sem fellur ekki að hugmyndum manna um hina íslensku skáldsögu. Spennusagan náði sem betur fer loks í gegn og síðastliðin jól hafa þess háttar bókmenntir verið stór hluti sölunnar. Og sú bylting hefur gert það að verkum, að augu útgefenda eru smátt og smátt að opnast fyrir þeim möguleika að gefa út eitthvað annað en sveitarómansa eða raunsæislegar nútímadramabókmenntir. 

Ég veit ekki hvort það er vegna þess að sífellt fleiri og betri höfundar eru farnir að halla sér að genrebókmentum. Kannski er sú raunin. Yrsa Sigurðardóttir skrifaði Ég man þig og seldist sú bók mjög vel. Reyndar var hún markaðssett sem spennubók en ég held að það dyljist engum sem lesi bókina að fyrst og fremst er um hrollvekju að ræða. Auk þess hafa tímarit á borð við Furðusögur gefið ungum höfundum færi á að sjá sögur sínar á prenti, sögur sem falla annars ekki inn í hinn fastmótaða ramma íslensku skáldsögunnar.

Gallinn er að mínu mati sá, að of lengi hefur skuggi Laxness hvílt á íslenskum rithöfundum. Hann var vissulega stórgóður rithöfundur á sínum tíma en ég held að alltof margir hafi reynt annað hvort að líkja eftir honum eða gert sitt best til að vera ekki eins og hann. Þannig hafi Laxness haft gríðarleg áhrif á menningu rithöfunda og það hafi í raun ekki verið fyrr en með tilkomu norrænu spennusögunnar hérlendis að höfundar og útgáfur sáu að hægt að var stíga fram undan skugganum og út í ljósið.

Fyrir nokkrum árum kom hrollvekjan Börnin í Húmdölum eftir Jökul Valsson út, svo síðustu jól Ég man þig og nú í vor kom út safn hryllingssagna eftir mig. Ég veit að það eru fleiri sem eru að skrifa hrollvekjur eða spennusögur með hrollvekjandi ívafi. Auk þess hefur fantasíunni vaxið ásmegin, í síðasta sunnudagsblaði Moggans var viðtal við ungan norðlenskan rithöfundum sem hefur skrifað fantasíur og mun fyrsta bók hans verða gefin út af Sögum nú í haust. Rósa Grímsdóttir er auk þess að gefa sjálf út fyrstu bókina í fantasíubókaflokki sínum. Í gegnum tíðina hafa verið gerðar tilraunir með vísindaskáldsöguna, t.d. Lovestar eftir Andra Snæ, en persónulega sakna ég þess að sjá vísindaskáldsögu sem gengur alla leið.

Ég held, að við munum sjá meira af þessu á komandi árum. Þessar genrebókmenntir eru í raun að rísa upp sem gjaldgengar bókmenntir og fyrir vikið munu bæði forlög og lesendur smátt og smátt víkka sjóndeildarhring sinn hvað lestrarefni varðar. Enda sýna sölutölur frá löndunum í kringum okkur að lesendur þar vilja þess háttar efni, t.d. eru Stephen King og Terry Pratchett með mest seldu höfundum í sínum löndum. Upprisa genrebókmennta er fyrir löngu tímabær hérlendis og vonandi mun jólabókaflóðið í ár verða enn fjölbreyttara en áður. 

Mig langar því til að hvetja sem flesta að gefa þeim bókum gaum sem út koma og falla ekki í hið klassíska form íslensku skáldsögunnar. Gefa ungum höfundum sem skrifa genre bókmenntir tækifæri. Meiri fjölbreytni í bókaskápnum getur ekki verið af hinu verra.  


Skólakerfið og ofvirkni

Fyrir nokkrum vikum fórum við barnsmóðir mín í foreldraviðtal. Var þar dóttur okkar hrósað fyrir góða frammistöðu en sett var út á, að hún ætti stundum erfitt með að sitja kyrr. Að lokum var hún beðin um að stíga fram og spurði kennarinn hvort við vildum að barnið yrði metið með tilliti til ofvirkni. Við samþykktum það þá. Síðar vorum við boðuð á fund með sálfræðingi og þá fóru að renna á mig tvær grímur. Ég hef jú unnið í skóla, ég hef áður fyllt út svona matsblöð en það sem sló mig var að sálfræðingurinn ætlaði sér ekki að hitta barnið oftar en einu sinni en var samt viss um að geta fengið úr því viðtali nægilega miklar upplýsingar (ásamt matsblöðum okkar foreldranna og kennarans) til að meta hvort barnið væri ofvirkt. Ég er ekki sálfræðimenntaður, en ég myndi telja að áður en slíkt mat eða greining er lögð fram, þá hljóti að þurfa að liggja að baki ítarlegri rannsóknir en sem nemur einum fundi og upplifun annarra á viðkomandi. Ég ræddi um þetta við barnsmóður mína og við ákváðum í framhaldinu að hafna greiningunni.

Dóttir mín er með mikla hreyfiþörf, við erum lík með það feðginin. Ég sit ekki lengi kyrr í sama sæti, ég verð að fá að standa upp öðru hvoru og hreyfa mig. Hún er eins, henni líður best ef hún fær að tjá sig með líkamanum, hún er í dansi og finnst bæði gaman að syngja og dansa og gerir mikið af því. Hún er fljót að læra nýja hluti og ef henni leiðist það sem verið er að gera, þarf að hafa sig allan við að halda henni við efnið. Rétt eins og svo mörg önnur börn þá líður henni best þegar hún hefur skýran ramma og fær skýr skilaboð um það sem er rétt og rangt. Hún er hvatvís, fljótfær, hávær og fullt annað einkennir hana sem einkennir ofvirk börn. Hún er líka klár, elskuleg, hjálpsöm, félagslega sterk, opin, hamingjusöm og hress og hefur heilan helling af öðrum kostum sem vega upp á móti göllum hennar.

Á Íslandi er um margt ágætt skólakerfi - fyrir flesta. Hins vegar ekki fyrir alla. Fyrir nokkrum árum var ég með nemanda í umsjónarbekk hjá mér sem var ekki mikið fyrir bókina. Eiginlega var bókin bara fyrir honum og áhugi hans á henni var álíka mikill og hjá bókinni á honum. Hann var hins vegar snillingur í að tengja saman raftæki, laga leiðslur og hugsa um hljóðkerfi og þess háttar. Það var hins vegar ekki kennt í skólanum. Hann valdi reyndar alltaf smíði sem valfag, en það voru kannski 2 tímar í viku. Restina af skólatímanum að leikfimi undanskilinni átti hann að sitja á rassinum og lesa í bók.

Skólakerfið, skólinn sem á að vera fyrir alla, er alls ekki fyrir alla. Hann er fyrir þá sem eiga auðvelt með að sitja á rassinum og lesa sér til upplýsingar í bók. Staðreyndin er hins vegar sú, að því fer fjarri að við endum öll í slíku starfi, þ.e. þar sem við sitjum á rassinum og lesum upplýsingar, sem við leggjum mat og bregðumst við. Stór hluti þeirra nemenda sem nú sitja í grunnskólum landsins eiga eftir að verða smiðir, bifvélavirkjar, dansarar, bilstjórar, flugmenn, leikskólakennarar, ruslamenn, götusóparar og svo mætti lengi telja. Störf þar sem málið er einmitt ekki að sitja allan liðlangan daginn og lesa úr bók eða af skjá.

Skoðum síðan hvernig skólakerfið endurspeglar þennan raunveruleika. Það þarf vissulega að kenna öllum að lesa, reikna og um menningu og sögu þessa lands. En í tíu ár er aðaláherslan lögð á að búa til þjóðfélagsþegna sem kunna fyrst og fremst að sitja kyrrir og lesa.

Hvernig fellur það síðan að þeim sem eru ofvirkir? Þeim sem hafa mikla hreyfiþörf? Þeim sem hafa mikla þörf fyrir útiveru og samvist við dýr? Þeim sem hafa mikla listræna sköpunarþörf? Hvað með þá sem fæðast með tónlist í blóðinu? 

Ef við lítum til kenninga Gardners um greindir þá leggur skólakerfið fyrst og fremst áherslu á tvær greindir, kannski þrjár. Rök- og stærðfræðigreind, samskiptagreind og nú á síðastliðnum árum með aukinni umræðu um einelti, sjálfsþekkingargreind. Þeir sem eru ofvirkir, og hafa þar af leiðir margir hverjir meiri hreyfiþörf, fá ekki lengri frímínútur, fara ekki oftar í leikfimi og fá enn síður annað námsefni sem hæfir frekar þeirra greindum. Það er ekki fyrr en námsörðugleikar bætast við greininguna, sem viðkomandi fær stuðningsfulltrúa.

Það er aum afsökun að benda á einn, kannski tvo tíma, á viku sem fara í að sinna öðrum greindum, t.d. einn tími í tónmennt fyrir tónlistargreind, 1-2 í leikfimi fyrir hreyfigreind, 1 tími í myndmennt fyrir rýmisgreind. Auðvitað er hægt að flétta þetta saman við venjulegt nám, ég gerði námsefni fyrir kennslu í Gísla sögu fyrir nokkrum árum þar sem nemendur gátu valið út frá hvaða greind þeir gerðu ákveðin verkefni. Það kallaði á breytt námsmat, breytta nálgun mína á efninu og aðrar kennsluaðferðir. Og eru grunnskólar landsins tilbúnir í slíkt?

Út frá þessum hugleiðingum finnst mér í raun alveg út í hött að skólakerfið skuli yfirhöfuð kalla eftir því að ákveðnir nemendur séu greindir ofvirkir. Sérstaklega ef staðan er sú, að það mun ekki breyta neinu fyrir viðkomandi. Skólakerfið okkar er enn, því miður, ekki í stakk búið til að mæta hverjum nemenda, hvort sem hann er með ofvirkni, athyglisbrest eða ekki, út frá hans forsendum. Við erum enn að reyna troða öllum í sama mótið, í stað þess að ýta undir, hlúa að og næra þá hæfileika sem búa í hverjum og einum.  


Netið er fjölmiðill

Stundum, þegar ég er að lesa facebook, twitter og blogg ýmis konar, þá undrar það mig hvað fólk skrifar. Jafnvel ósköp rólegir einstaklingar - sem í sínu daglega lífi eru ekki óvenjulegri en hver annar - virðast taka 180° beygju og umturnast í tröllvaxin fjöll neikvæðni, hroka og sjálfsupphafningar.

Nærtækt dæmi um þetta er nýafstaðin rimma á milli tveggja tískubloggara, þar sem annar aðilinn hefur gaman af því að fjalla um samskipti kynjanna, sambönd, tísku og förðun á meðan hinn aðilinn gerir út á það að gera grín að slíku, kallar það neysluvæðingu og gerir almennt lítið úr þeim sem blogga um kvennamálefni, ef svo mætti að orði komast. Í mínum huga væri þetta eins og ef einhver karlmaður gerði grín að öðrum karlmanni fyrir að halda úti bloggi um fótbolta.

Hvað fær fólk til að haga sér svona? Hvernig stendur á því, þegar fólk er sest fyrir framan tölvu og komið á netið, að það telur sig geta gert lítið úr samborgurum sínum? Mér sýnist nefnilega æði oft, að þetta sé gert til að fá athygli annars vegar og hins vegar til að upphefja sjálfan sig á kostnað þess sem fundið er að. Og hverju skilar það? Jú, vissulega eru einhverjir til í að taka þátt og kannski veitir það viðkomandi einhverja stundarfróun. Fá nokkurs konar egó-fullnægingu. 

Ég viðurkenni fúslega, að hafa tekið þátt í þessu hér áður fyrr. Þá gat ég fundið ýmislegt til að gera lítið úr á netinu, en ég tel að það hafi umfram allt sagt meira um mig en það sem ég var að nota til upphafningar á sjálfum mér.

Netið er hins vegar fjölmiðill og ólíkt mörgum öðrum, þá man netið allt sem hefur verið þar skrifað og sett fram. Við þurfum því að hugsa áður en við sláum inn, því maður þarf að geta staðið við, staðið og fallið með því sem skrifað og sagt er, rétt eins og í raunheimum. Jafnvel þó maður sé bara með 250 vini á Facebook, þá er það sem skrifað er í status þar auglýsing fyrir þeim öllum hvað manni finnst, hvað maður er að gera eða hugsa. Það er því oft ágætt þegar kemur að netskrifum, rétt eins og í öllum samskiptum manns við aðra, að hugsa fyrst og gera svo. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband