Færsluflokkur: Heimspeki

Fjölbreytileiki

Ég lenti í umræðum á Facebook í gær, þar sem verið var að fjalla um ákveðið blogg. Ég var ekki á því að viðkomandi bloggari væri mjög svo sniðugur, heldur hélt því fram að bloggið væri sorglegt vitni um þegar verið er að upphefja sjálfan sig á kostnað annarra. Þá var sagt, að ég bara skildi ekki bloggið. Ég hef áður lent í umræðum, þar sem sagt er við mig, að ég hreinlega skilji ekki við hvað er átt. Eflaust er margt til í því, ég gef mér ekki að skilji allt. Hins vegar er ég ágætlega læs, hef stautast í gegnum tvær eða þrjár bækur yfir ævina og tel sjálfum mér trú um, ég hafi ágætt skynbragð á texta. Ég er þó bara eins og aðrir og á alveg jafn auðvelt með að misskilja og mistúlka.

Það sem mér finnst merkilegt við svona athugasemdir, er að þær koma á vissan hátt upp um þann sem heldur slíku fram. Viðkomandi virðist á vissan hátt gera ráð fyrir, að aðeins sé hægt að skilja eitthvað á einn máta og þá á þann hátt sem hann skilur hlutinn. Ég held hins vegar, þegar vel er að gáð, þá búi textar yfir ótrúlega mörgum túlkunum, það sem einn skilur sem kaldhæðni finnst öðrum kjánalegt og sá þriðji tekur bókstaflega. Hver hefur rétt fyrir sér? Hvaða skilningur er sá hinn eini rétti? Hvaða mælistiku er hægt að leggja á slíkt?

Ég er þeirrar skoðunar, að allar túlkanirnar eigi rétt á sér. Allir lesendur tengja texta við reynsluheim sinn þannig úr verði merking. Og er það ekki af hinu góða? Það hefur í för með sér, að við sjáum enn skýrar hve ólík við erum, jafnvel þó líkamar okkar séu eins, jafnvel þó við byggjum sama land, búum í sama samfélagi og með sömu menningu. Jafnvel reynsluheimur tvíbura er ólíkur og því geta þeir lent í því, að lesa sama texta og skilja á mismunandi hátt. Ágætur vinur minn er bókmenntafræðingur og hefur stundum í gríni sagt, að bókmenntafræðingar viti betur en rithöfundar um hvað bækur þeirra fjalla. Kannski væri betra að segja, að bókmenntafræðingar viti betur en rithöfundar hvernig túlka megi bækur þeirra á mismunandi hátt, því stundum sjá rithöfundar bara þá túlkun sem þeir höfðu í huga er skrifuðu verk sitt.

Hið sama gildir um öll samskipti okkar mannanna. Merking orða getur verið á reiki; aðstæður, líkamstjáning, raddhæð og -beiting getur haft ótrúleg áhrif á hvernig við túlkum það sem okkur er sagt. Við sækjum í reynsluheim okkar og drögum túlkun og merkingu þaðan. Það hefur oft verið sagt, að um 70% af samskiptum okkar eigi sér ekki stað með orðum. Það er mikið til í því.

Þessi fjölbreytileiki er af hinu góða. Við ættum að fagna því, að við erum ekki öll eins. Við erum ekki eins og fjöldaframleidd klón, ræktuð til að sinna heilalausum störfum án þess að þurfa mynda okkur skoðun, draga ályktanir eða komast að niðurstöðum. Fjölbreytileikinn er af hinu góða.

Þess vegna finnst mér mjög leiðinlegt að sjá, bæði í almennum fjölmiðlum og víða á netinu hvernig fjallað er um málefni þeirra sem eru Íslamtrúar. Nú er ég trúlaus, eins og marg oft hefur komið fram á þessu bloggi, en það er ekki þar með sagt, að ég sé á móti trúarbrögðum. Mér finnst mjög mikilvægt, að þeir sem trúa hafi til þess frið og eigi sér afdrep til að sinna þeim skyldum er trú þeirra boðar. Kristnir menn fara í kirkjur, heiðnir í hof og múslimar í moskur.

Það er auk þess ýmislegt sem fylgir trúarbrögðum; hefðir, siðir og venjur sem jafnvel er ekki fjallað beint um í trúarritum. Sem dæmi mætti nefna, að jól eru haldin 24. desember ár hvert, þrátt fyrir að hvergi komi fram í Biblíunni að Kristur hafi fæðst á þeim tímapunkti og jafnvel verður að teljast mjög ólíklegt að svo hafi verið. Hins vegar er þetta dæmi um hefð hjá kristnum mönnum. Ég held, að þeir séu fáir ókristnir sem telja að jólahald sé kúgun meirihlutans. Hið sama má segja um klæðnað kvenna í íslömskum sið, þó hvergi sé skýrt tekið fram í Kóraninum hvernig konur eigi að klæðast þá er það hefð í þessum trúarbrögðum, að konur séu amk. með slæður. Þó eru þeir sem túlka það sem tákn um kúgun konunnar.

Nú er ég ekki að mæla með kvenfyrirlitningu, kynbundnu ofbeldi eða nokkru slíku, heldur að kalla eftir því að fjölbreytileiki sé virtur og ekki sé litið á breytingar eða annan skilning á veruleikanum sem ógn. Skilningur minn er ekki sá eini rétti. Það samfélag sem ég tek þátt í, er ekki það eina rétta. Þau viðmið og gildi sem ég styðst við eru ekki þau einu réttu. Heldur eru til mörg rétt viðmið og samfélög. Það er erfitt að heimta að borin sé virðing fyrir sér, ef maður getur ekki borið virðingu fyrir öðrum. Hvernig getum við ætlast til, að nýir Íslendingar, aðfluttir hvaðan æva úr heiminum, beri virðingu fyrir menningu okkar ef við berum ekki virðingu fyrir menningu þeirra? Hvernig getum við ætlast til að aðrir setji sig í okkar spor, tengi við reynsluheim okkar, ef við erum ekki tilbúin að gera slíkt hið sama? 

Að lokum langar mig að minna á orð Ghandis: ,,Be the change you want to see in the world." 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband