Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Traustur vinur

Fyrir meira en áratug kynntist ég einstaklingi sem átti síðar eftir að vera afar kær vinur minn. Eða öllu heldur vinkona mín. Kolla. Hún flutti inn til mín, þá átti ég heima í Veghúsum og við nutum þess að fara saman í göngutúra, bæði þar í hverfinu sem og á útivistarsvæðum hér í kringum borgina. Við náðum ágætlega saman, hún var vön að hlusta af athygli á það sem ég hafði segja en eyddi ekki orku sinni í að rífast við mig. 

Þremur árum eftir hún flutti inn eignaðist ég dóttur, Urði Ýr, með þáverandi kærustu minni. Kolla tók fagnandi á móti okkur þegar við snerum heim af spítalanum og tók þátt af bestu getu í uppeldinu. Það sumar, þegar dóttir mín lá úti í vagni, fór Kolla oftar en ekki einnig út og sólaði sig, um leið og hún hafði vakandi auga með vagninum. Dóttir mín eltist og óx, ekki leið á löngu þar til þær Kolla urðu hinir mestu mátar. Virtist Kolla ekki setja það fyrir sig að leika við smábarn og tók með jafnaðargeði að vera klipin, bitin og rifið væri í hár hennar.   

Við barnsmóðir mín fluttum úr Grafarvogi í Seljahverfi og fylgdi Kolla okkur. Urður tók sín fyrstu skref þar í nýju íbúðinni okkar og fylgdist Kolla með jafn stolt og við foreldrarnir. Við Kolla héldum uppteknum hætti, fórum í göngutúra þegar vel viðraði og spjölluðum saman. Hún sýndi hinu kyninu lítinn áhuga og virtist alveg sátt við hlutina eins og þeir voru.

Þegar Urður var rétt að verða þriggja ára slitum við barnsmóðir hennar sambúð okkar og fluttum hvort á sinn staðinn. Við Kolla keyptum litla íbúð í Njörvasundi. Um margt var þetta erfiður tími, mér leið illa og átti erfitt með sjálfan mig. Kolla vissi þetta og oftar en ekki kom hún til mín og faðmaði mig. Gaf mér kannski koss á kinn. Hún virtist innilega finna til með mér og gerði það sem hún gat svo mér liði betur. Stundum lá hún við hlið mér í sófanum á meðan við horfðum á einhverja bíómynd, þegjandi og hljóðalaus, en á öðrum stundum reyndi hún að hressa mig við með einhverjum fíflalátum eða reyndi að draga mig í einhvern leik. Oftar en ekki hafði þetta góð áhrif á mig, eða eins og segir í laginu: Traustur vinur getur gert kraftaverk.

Ég kynntist síðan annarri konu. Í fyrstu leist þeim Kollu ekkert hvor á aðra, en eftir því sem þær kynntust urðu þær sífellt betri vinkonur. Við keyptum íbúð í Tröllakór og fluttum þangað. Kolla flutti hins vegar inn til systur minnar, Söru, og bjó þar um hríð, en kom svo aftur til mín.

Gallinn er bara sá, að Kolla má ekki búa hjá mér, af því hún er hundur. Reglurnar í blokkinni banna allt hundahald. 

Ég stend því frammi fyrir erfiðu vali. Annað hvort þarf ég að finna heimili fyrir Kollu eða láta svæfa hana. Hún er orðin gömul, greyið, og mun eflaust eiga erfitt með að aðlagast nýju fólki, nýjum reglum og þess vegna hef ég reynt að leita til þeirra sem hún þekkir best, en aðstæður eru erfiðar og fæstir sem geta tekið henni til frambúðar. Hugsanlega tímabundið eða eftir ákveðinn tíma, en vandinn er því miður í dag og verður eflaust áfram eftir ákveðinn tíma, þannig vandanum væri bara slegið á frest. Seinni kosturinn er þá að láta svæfa hana, sem mér finnst skelfileg tilhugsun. Að fara og láta drepa þennan vin minn, sem hefur fylgt mér í gegnum súrt og sætt, er vægast sagt erfitt. Kolla er meira en 10 ára gömul, er að nálgast elliárin. Hún er reyndar ennþá spræk og liðtæk í góðan göngutúr, þó svo hún nenni kannski ekki lengur að leika við smábörn. 

Þannig mér líður svolítið eins og ég þurfi að velja milli þess að láta sparka í punginn á mér eða stinga hendinni ofan í blandara.

225056_21311692192_705122192_545864_5774_n 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband