Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Enn um ábyrgð

Um helgina sagði innanríkisráðherra Indlands af sér vegna hryðjuverkanna þar. Þó svo hann beri að sjálfsögðu ekki ábyrgð á gjörðum þeirra eða hafi komið að skipulagningu voðaverkanna, þá telur hann að siðferðilega beri hann ábyrgð. Einnig yfirmaður öryggismála í landinu og búast fréttaskýrendur við að fleiri ráðherrar skili inn uppsagnarbréfi sínu á komandi dögum.

Mikið vildi ég óska þess að ráðherrar á Íslandi hefðu sama siðferði og þeir á Indlandi.

Geir lýsti því yfir í viðtali við erlenda fréttastofu að hann bæri ekki ábyrgð á ástandinu, heldur voru það bankamenn sem gerðu allt vitlaust. Kannski ekki ólöglega hluti, en Geir bar þó ekki ábyrgð á regluverkinu. Hann er jú bara forsætisráðherra og var fjármálaráðherra í stjórn Davíðs þegar regluverkinu var komið á. Hann á bara enga sök á fjármálakrísunni hérlendis, því hún er annars vegar komin að utan og hins vegar vegna ofsafenginnar gróðafíknar bankamanna.

Hvað ætli þurfi að gerast til að Geir taki ábyrgð?

Ef hann ekur á ljósastaur, var það þá staurnum að kenna? Bílnum? Veginum? Veðrið slæmt? Ljósin biluð?

Ef hann lemur mann, var það þá manninum að kenna? Aðstæðum? Eða áðurnefndum ljósastaur?

Ég held, að Geir væri nær að læra svolítið af indversku starfsbræðrum sínum. Prófa að fletta upp í orðabók og lesa hvað orðið siðferði þýðir.

Geir ber siðferðislega ábyrgð á ástandinu og þarf að axla hana. Hann gerir sig sekan um ótrúlega blindu með því að neita því og ég leyfi mér að efast um, að Sjálfstæðisflokkurinn geti annars vegar setið í stjórn og hins vegar hlotið góða kosningu á meðan hann neitar þessari siðferðilegu ábyrgð sinni.


mbl.is Íslendingar muna vinargreiða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt fólk

Eftir umræðurnar á hinu háa Alþingi í gær, verð ég að viðurkenna, ef einhvern tíma mér hefur fundist að Sjálfstæðisflokkurinn ætti ekki að vera við völd, þá er það núna. Öðru eins hef ég ekki orðið vitni að áður, nema hugsanlega þegar ég var ennþá að kenna í grunnskóla. Mér fannst Geir í raun aldrei svara þeirri gagnrýni stjórnarandstöðunnar sem í vantrausttillögunni lá, heldur reyndi hann ítrekað að gera tillöguna sjálfa ótraustvekjandi og misskildi að mér sýndist vísvitandi hvað í henni fólst. Björn, að venju, var eins og sex ára strákur í sandkassaslag og var sjálfum sér, að venju, til skammar.

Er tillagan hafði verið felld mættu Steingrímur og Geir til Jóhönnu í stutt viðtöl. Steingrímur hélt ágætlega virðingu sinni, viðurkenndi að þessi orrusta hefði tapast en stríðið væri ekki búið. Það væri hlutverk stjórnarandstöðunnar að veita ríkisstjórninni aðhald, sérstaklega þegar um jafn óvinsæla stjórn er að ræða. Það væri bæði réttur þeirra og skylda. Geir hins vegar hélt áfram í sínum barnalega leik og þegar hann var spurður út í hvort stjórnarandstaðan gæti nú hugsanlega eitthvað haft til sín máls, þá brást hann ókvæða við og hálfpartinn hreytti í Jóhönnu svari, sem mér fannst hvorki fulg né fiskur.

Það var líka mjög áhugavert að fylgjast með þessum fundi í gær. Fyrir utan það hvað fundarstjórn var slæleg og að mörgu leyti léleg (spurning hvort fundarstjóri hefði ekki mátt vera örlítið minna ánægður með sjálfan sig) þá voru margir ræðumanna með áhugaverða punkta. Sérstaklega fannst mér gaman að sjá þegar Margrét lét fólk standa upp úr stólum sínum, til að sýna fram á hversu auðvelt það er fyrir menn að standa upp úr stólum sínum fyrir konu.

Í gærkvöld, þegar öllu þessu var lokið, þá sat ég með þá tilfinningu að ráðherrar okkar virðist telja að þeir séu of mikilvægir til að hægt sé að boða til kosninga. Ef boðað verði til kosninga þá muni allt fara hér til andskotans. Ætli einhver geti ekki bent þeim á, að það sé allt komið til andskotans? Sá hinn sami mætti líka segja þeim, að kirkjugarðar landsins eru stútfullir af mikilvægu fólk en landið og samfélagið er hins vegar hér enn.

Að lokum langar mig til að láta hér myndband með alþýðudúettinum Plató fylgja með. Á vel við á þessum tímum.


mbl.is „Þetta er þjóðin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bylting

Það getur stundum verið ágætt að skoða söguna í ljósi þeirra atburða sem eru að gerast hverju sinni. Okkar samfélag hefur, að mér sýnist, verið gegnumsýrt af spillingu og öðrum eins viðbjóði og ég held, að það sé erfitt að fullyrða að samfélag okkar standi óbreytt eftir það sem á undan er gengið. Misskipting auðsins hefur verið gríðarleg hérna og er um margt enn, og góðærið hefur verið ákaflega misjafnt hjá fólki. Svo þegar í harðbakkann slær, þá er það ekki þeirra sem stóðu að eyðslufylleríinu að borga, heldur almúgans og vilja stjórnmálamenn ekki heyra múkk úr þeirri átt.

Fyrir nokkrum öldum var mikil bylting í Frakklandi. Bylting sem hafði gríðarlegar breytingar í för með sér, ekki bara á samfélagshögum Frakka og nágrannaríkja, heldur líka breyting á stjórnarfari sem og hugsunarhætti. Aðstæður þar á þeim tíma voru um margt líkar þeim sem má finna hérlendis um þessar mundir og undanfarin misseri. Mætti ekki kalla útrásarvíkinga og stjórnmálamenn aðal þessa lands? Eru það ekki einmitt þessi hópur sem neitar að axla ábyrgð á gjörðum sínum, útrásarvíkingar benda hver á annan og stjórnmálamenn varpa afleiðingunum yfir á almúgann, sem er þó nú þegar ansi skattpíndur, t.d. í formi verðtryggingar.

Það er því ákveðinn vonarneisti sem kviknar hjá mér þegar ég hugsa til þess hvernig fór fyrir þeim sem áttu sök í Frakklandi á sínum tíma. Það fólk var handtekið af alþýðunni og gert höfðinu styttra opinberlega. Úr þeim umbrotum reis síðan nýtt Frakkland, mótað af hugmyndafræði sem hefur haft afgerandi áhrif á hinn vestræna heim.

Nú er ég ekki að mælast til þess að nokkur verði tekinn af lífi, en ég held, að stjórnmálamenn mættu gefa sér meiri tíma til að hlusta á fólkið í landinu. Geir, Ingibjörg og öll þau sem sitja í ríkisstjórn hafa, að ég tel, ekki lengur umboð þjóðarinnar og því hlýtur að koma að því að þjóðin rísi upp. Ég trúi hreinlega ekki öðru, miðað við hversu margir mótmæla á laugardögum á Austurvelli, á netinu og víðar.

Ég vil að minnsta kosti ekki lengur búa undir þessari stjórn og þeim skuldaböggum sem henni finnst sjálfsagt að leggja á mig og mína. Ég vil fá tækifæri til að kjósa nýja stjórn og á meðan hvorugur formaður stjórnarflokkanna tekur í mál ég fái það tækifæri, þá hlýtur það að kalla á aðgerðir af minni hálfu. Ég hlýt að standa upp og mæla, í anda Jóns Sigurðssonar: Ég mótmæli!

Kannski er bara kominn tími á byltingu. Kannski þurfum við að taka málin í okkar hendur. Úr því að stjórnvöld sitja blind á báðum og heyrnarlaus, í raun daufdumb og bera ekki hag okkar fyrir brjósti, þá eiga þau ekki völdin skilið.

Hingað og ekki lengra, segi ég!


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband