Fögur fyrirheit

Janúar er yndislegur mánuður. Fólk man skyndilega eftir íþróttaskónum, sem það keypti fyrir nákvæmlega ári síðan og hætti að nota fyrir 11 mánuðum, og flykkist í líkamsræktarstöðvar, í von um að fækka aukakílóum og skera niður óþarfa skvabb og hliðarvængi. Aðrir taka á sig stökk og skella sér í salsa eða jóga, enn aðrir lesa þarna bókaflokkinn sem allir voru tala um í fyrra eða hitteðfyrra, þarna eftir sænska gaurinn og myndirnar voru gerðar eftir. Svo eru þeir sem áttu alltaf eftir að prófa teygjustökk án atrennu, fljúga flugvél, læra að spila á gítar eða syngja dúett með Bubba Morthens. 

Ég er nákvæmlega þessi týpa. Horfi á sjálfan mig í speglinum, sístækkandi bumbuna, færri hár á höfðinu en fyrir ári síðan og jafnvel farið að glitta í grátt í skegginu. Hneykslast á því ég skuli ekki enn líta út eins og þegar ég var 18 ára. Hvar er sixpakkið, sem ég lofaði sjálfum mér að ná fram á síðasta ári? Hvað varð um öll markmiðin, öll fögru fyrirheitin? Hvar er draumurinn? Ég lagði upp með svo góð markmið og sjá mig nú! Sjá þetta þarna í speglinum. Sama hve reynt er að spenna magavöðvana, þá er eina leiðin til að bumban svo mikið sem líkist sixpack er að setjast og horfa á fellingarnar í speglinum. Hver þarf svo sem sixpack...nema náttúrulega það sem geyma má í ísskáp og geymir gullinn mjöð... Nei, svona á ekki að hugsa á nýju ári!

Auðvitað setti ég mér markmið fyrir þetta ár og auðvitað voru þau keimlík þeim sem ég setti mér á síðasta ári. Fara að hreyfa mig meira, borða minna, lesa meira, drekka minna, vera meira með stelpunni, vinna minna og svo mætti lengi telja. Og auðvitað á þessu ári mun ég ná öllum þessum markmiðum. Efast nokkur um annað? Hef ég einhver tíma ekki náð markmiðum mínum á þessu ári? 

Þetta er bjútíið við janúar. Við getum hent öllum gömlu markmiðunum, gömlu og hundleiðinlegu nýársheitunum frá því í fyrra og endurnýjað þau. Mætt síðan full af krafti, von og trú um að þetta ár er ÁRIÐ sem allt gerist. Auðvitað, hvað annað?

Nú, ef það gengur ekki, þá er alltaf 2012 bara rétt handan við hornið... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband