Bókaþjóðin mikla

Við Íslendingar teljum okkur trú um að við séum mikil bókaþjóð, enda blundar rithöfundur í að minnsta kosti hálfri þjóðinni. Svona meira eða minna. Hins vegar kemst ég ekki hjá því stundum að hugsa um hversu mikið þessi ágæta þjóð les í raun og veru, og þá sérstaklega þær kynslóðir sem eru að vaxa nú úr grasi. Auðvitað eru einhverjar bókmenntir, valdar af kostgæfni sem aðeins gæðir bókmennta- og íslenskufræðinga, lesnar í grunn- og menntaskólum, en bók sem þú lest af skyldurækni, er hún jafn ítarlega lesin og bók sem þú velur þér sjálfur eða þér einfaldlega finnst þú þurfa að lesa?

Ég hef nefnilega á tilfinningunni að lestur bóka fari minnkandi, hef reyndar ekkert fyrir mér í þeim efnum, engar sölutölur eða þannig (enda er vart hægt að segja að seld bók sé lesin bók). Ástæðan fyrir þessari upplifun, tilgátu eða hvað menn vilja kalla það, er tvíþætt. Annars vegar er sú hneigð fjölmiðla að matreiða hlutina sífellt einfaldar og knappar, helst þannig að hægt sé að segja fréttir í 160 stafabilum (sem mér skilst að sé meðal SMS lengd) og hins vegar sú, eftir að hafa starfað sem kennari í grunnskóla í nokkur ár, þá sýnist mér tilfinning fólks fyrir texta fara versnandi. Og það sem verra er, ekki bara ungs fólks, heldur líka þeirra sem eldri eru (ég undanskil ekki sjálfan mig).

Ef við byrjum á fyrra atriðinu, þessari SMS hneigð, þá hafa samfélagsmiðlarnir fært okkur margt ágætt, en þar hafa líka orðið ákveðin vatnaskil er varða samskipti fólks. Nær allir af þessum nýju miðlum; SMS, Facebook, Twitter, osfrv.; eru með staðlaða lengd á skilaboðum, t.d. stöðuuppfærslum. Fyrir fólk sem er ekki endilega að skrifa mikið meira á hverjum degi, en þá texta sem það lætur inn á slíka vefi eða í smáskilaboð, þá mótast mjög hugsunin og tilfinningin fyrir texta af því. Sér í lagi, ef það er einnig þeir nær einu textarnir sem lesnir eru. Þetta er farið að birtast manni í ýmsum myndum, t.d. eru leiðbeiningar orðnar mjög krappar oft á tíðum. Sem dæmi mætti nefna leiðbeiningar með spilinu Alias, þar er sérstaklega haft fyrir því að setja fram leiðbeiningarnar í styttri útgáfu og mér sýnist að þær myndu passa nokkurn veginn inn í Facebook status, eins undarlega og það hljómar. Ef framleiðendur þessa spils hefðu gengið út frá því, að tilvonandi leikmenn myndu lesa reglurnar, þá væri engin þörf á þessari styttu útgáfu af reglunum. Þess má til gamans geta, að reglurnar, sem eru mjög einfaldar, rúmast á hálfri annarri A4 blaðsíðu. Hið sama gildir um leiðbeiningar með hugbúnaði, t.d. bandarískum hugbúnaði, og maður finnur á netinu. Textinn er knappur og mjög einfaldur. Það er sem sagt í raun verið að venja málnotendur á þess háttar texta.

Þá er það seinna atriðið (hér kemur stutt heimur-versnandi-fer raus). Tilfinning okkar fyrir málinu fer versnandi. Ég held að flestir geti verið sammála um, að kröfurnar um hraðan fréttaflutning, sífelldar uppfærslur og meira krassandi fréttaefni geri það að verkum, að þeir sem skrifa inn á vefi og í tímarit gæta oft ekki að því, að það sem þeir skrifa sé málfræðilega rétt. Og þetta á ekkert bara við um fréttavefi eða tímarit. Þó margt megi segja ágætt um marga þá vefi er prófarkarlestri þar tilfinnanlega ábótavant. Orðatiltæki, málshættir og blæbrigði málsins eru einhvern veginn að hverfa ofan í pitt meðalmennsku og ég hef áhyggjur af því, ef fram heldur sem horfir muni vaxa upp kynslóðir Íslendinga sem hafa orðaforða upp á kannski 3000-4000 orð. Til dæmi hefur nokkuð verið rætt um á undanförnum misserum um það, hvort viðtengingarháttur sé að hverfa úr málinu. Hvernig ætlar kynslóð sem ekki hefur tök á viðtengingarhætti að lesa bókmenntir frá okkar tímum eða eldri?

Og hvað verður þá um bókaþjóðina miklu? Munu einstaklingar sem hafa afar fábreyttan orðaforða nenna að lesa bækur þar sem þeir skilja ekki þriðja hvert orð? Bækur þar sem þeim líður eins og þeir séu að lesa annað tungumál? Mig grunar nefnilega, að það sé upplifun margra unglinga í dag er þeir lesa Íslendingasögurnar, þrátt fyrir að orðaforði þeirra sagna sé frekar takmarkaður. Ég get ekki séð hvernig það sé jákvætt. Auðvitað þarf tungumálið að fá að þróast, auðvitað þarf það að fá að dafna og vaxa eftir því sem samfélagið breytist, en ég fæ ekki séð hvernig það getur verið góð þróun þegar við erum hætt að geta lesið bækur sökum skilningsleysis og skorts á orðaforða. Það hlýtur þá að hafa í för með sér að annað hvort verða bækur skrifaðar með þetta litlum orðaforða eða að ör- og smásögur verði ríkjandi form sagnalistarinnar.

Ég er kannski bara forn í hugsun eða svona gamaldags, en ég vil vernda íslensku. Mér finnst ég verða of oft var við áhrif frá ensku, jafnvel þó að verið sé að reyna halda sig við okkar ylhýra, þá skín ensk hugsun, jafnvel ensk máltæki, í gegn. Um daginn var ég að ræða við mann sem hafði verið að gelta upp í rangt tré. Í starfi mínu fæ ég alltof oft að sjá afleitar þýðingar á enskum slagorðum og sannast sagna, hryggir það mig að sjá hversu lítil tilfinning virðist sitja eftir hjá okkur fyrir tungumálinu okkar. Af þessum sökum hef ég áhyggjur, ég held að þetta sé ekki góð þróun. Mér finnst, að við ættum að gefa gaum að þeim breytingum sem eru að verða á tungumálinu og ef fram heldur sem horfir, þá munu barnabörn okkar hafa yfir mun fábreyttari orðaforða að skipa. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband