Ómetanlegur tími

Undanfarið hef ég séð nokkuð að skrifum um foreldra og þá sérstaklega um feður í svipaðri stöðu og ég. Bæði skrifaði Hlín Einars um þetta fyrir skemmstu og var henni svarað af Ölmu Geirdal. Þar sem ég tel mér málið nokkuð skylt langar mig til að segja aðeins frá því hvernig það snýr að mér. 

Við barnsmóðir mín slitum samvistum okkar árið haustið 2006 eftir nokkurra ára samband. Í kjölfarið komu upp miklar umræður, rökræður og deilur um hvernig umgengni, forræði og öllum þeim málum skyldi háttað. Dóttir mín var 3 ára á þeim tíma. Við höfðum fest kaup á íbúð um tveimur árum áður. Ég vann því mikið á þeim tíma, var bæði að kenna og þjálfa fótbolta. Einnig var ég í námi og af hreinræktaðri sjálfelsku og eigingirni eyddi ég oft frítíma mínum, þeim litla sem var, í eigin áhugamál. Það má því sannlega segja að ég hafi hrakið þær mæðgur frá mér á tveimur árum og þó að barnið mitt muni ekki eftir þeim tíma og þurfi því ekki að fyrirgefa mér það, þá gat barnsmóðir mín ekki lifað við þær aðstæður, sem ég skil mæta vel.

Hvað um það, við tókumst á um hvernig hlutum skildi háttað með stelpuna. Ég var býsna þrjóskur með að hafa þetta viku og viku fyrirkomulag. Ég bauð jafnvel barnsmóður minni að eiga allt það sem við höfðum fest á kaup saman, svo lengi sem þetta fyrirkomulag yrði ofan á. Þessi sókn mín í þetta fyrirkomulag kom henni í opna skjöldu og sagði jafnvel, að hún skildi mig ekki, þar sem ég hefði ekki sýnt dóttur okkar mikinn áhuga fram til þessa. Að lokum gaf hún þó eftir og síðan í október 2006 höfum við skipst á að hafa dóttur okkar, hvort um sig viku í senn. Undantekning er gerð á sumrin, en þá höfum við stelpuna hjá okkur í sumarfríum og hefur sú hefð skapast að ég er í fríi í ágúst en barnsmóðin mín í júlí.

Til að svona fyrirkomulag gangi þarf að vera ágætt samkomulag. Það er nokkuð langt frá því, að alltaf hafi verið gott samkomulag á milli okkar foreldranna. Við höfum vissulega haft skoðanir á því sem hinn aðilinn er að gera hverju sinni og oftar en ekki átt erfitt með að liggja á þeim. Jafnvel hefur komið til þess að mál hafa farið inn til sýslumanns. Ég held, að við séum þó bæði öll af góðum vilja gerð og viljum sjá hag dóttur okkar sem mestan og bestan. Gallinn er bara sá, að stundum erum við ekki sammála um hvaða leiðir skuli farið til að tryggja hag hennar.

Í dag, 5 árum eftir skilnað okkar, eru hlutirnir orðnir nokkuð vel smurðir og ganga vel. Er á meðan er. Dóttir okkar er hamingjusöm, enda búum við foreldrar hennar skammt hvort frá öðru og hún nýtur þess besta á báðum stöðum. Barnsmóðir mín er búin að eignast 2 börn á þessum tíma og hefur verið með sama manninum frá því nokkrum vikum eftir við skildum. Ég hef hins vegar ekki fundið mig í samböndum, þannig við dóttir mín erum bara tvö til heimilis. Hún fær því að vera með fjölskyldu sinni, systrum tveim aðra hverja viku og hins vegar fær hún að vera prinsessan mín hina vikuna. Þetta virðist henta henni vel og hún vaknar glöð og hamingjusöm hvern dag.

Dóttir mín er heppin. Hún á foreldra sem hafa tekist á um hvort þeirra fær að vera meira með henni, foreldra sem báðir vilja eyða tíma með henni og vita að þessi tími, þegar hún er barn, kemur aldrei aftur. Þessi tími er í raun ómetanlegur því á þessum árum mynda foreldrar og börn hvað sterkustu tengslin. Ég get ekki hugsað mér að fá ekki að vera þátttakandi í lífi hennar, fá ekki að taka þátt í uppeldi hennar. Það eru hins vegar ekki öll börn í þeirri stöðu. Sumir foreldrar hafa ekki jafn ríka þörf fyrir að vera með barninu sínu. Enn aðrir foreldrar hafa þá þörf, en komast ekki til að uppfylla þá löngun, t.d. vegna stirðs sambands, fjarlægðar eða annarra þátta. 

Ég held að það sem er mikilvægt að foreldrar geri sér grein fyrir, er að þeir bera sjálfir ábyrgð á sambandi sínu við barn sitt. Ég heyri títt af málum, þar sem feður og mæður berjast fyrir því að fá að hitta barnið sitt og hef ég fulla samúð með þeim, það að halda barni frá öðru foreldri sínu er mikil mannvonska og mun eflaust koma verst niður á þeim sem er gerandi í slíkum málum. Eins fær maður að heyra af foreldrum sem ekki sýna barninu sínu mikinn áhuga. Í raun kemur það á sama stað niður, það er enginn annar en ég sem ber ábyrgð á samband mínu og barnsins míns. Enda sér maður í málum þar sem umgengni er hömluð af öðrum aðilanum (sem getur verið af mismunandi ástæðum, misalvarlegar þó), að þar sækir annað foreldrið hart að fá að taka þá ábyrgð á herðar sér. Þessi mál eru þó jafn fjölbreytt og þau eru mörg og því erfitt að leggja einn og sama dóm á þau öll. 

Börn, sérstaklega á leikskóla- og barnaskólaaldri hafa hvorki þroska né getu til að halda slíku sambandi gangandi ein og óstudd. Þau finna fyrir þeirri gleði og ástúð sem maður getur veitt þeim með nærveru sinni og umhyggju. Að sama skapi finna þau fyrir höfnun og sorg þegar maður sýnir þeim ekki áhuga. Þau bregðast við því sem maður gerir. Ábyrgðin er því mín, sem fullorðins einstaklings. Ég ber ekki ábyrgð á sambandi dóttur minnar við móður sína, jafnvel ef staðan væri sú að móðir hennar sýndi henni ekki nægilegan áhuga eða vildi ekki vita af henni. Ég sem foreldri á nóg með mig og ef ég þarf að einbeita mér að því að vera bæði móðir og faðir, þá kemur það óhjákvæmilega niður á báðum hlutverkum og er það eitthvað betra?

Þessi tími er ómetanlegur. Þessi ár koma aldrei aftur. Það er jú hægt að byggja upp samband síðar meir, en þau ár þegar börn eru að þroskast, vaxa upp og verða fullorðin skipta rosalega miklu máli. Þau leita sér að fyrirmyndum og sækja helst til foreldra sinna. Þannig er foreldri sem ekki sýnir barni sínu áhuga á vissan hátt fyrirmynd líka, bara slæm fyrirmynd, en börnin læra það sem fyrir þeim er haft. Börn eiga rétt á, að þekkja foreldra sína. Það er á ábyrgð foreldra að tryggja að barnið þekki þau, hvort sem um ræðir feður eða mæður. Það er ég sem ber ábyrgð á því að barnið mitt þekki mig og geti verið með mér, enginn annar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flott grein hjá þér og hverju orði sannara.

Halldóra Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 25.2.2011 kl. 20:11

2 identicon

Þú ert mjög hreinskilinn í þessari grein og það gerir hana ennþá betri fyrir vikið. Gæti ekki verið meira sammála þér. Fott grein

Ragnhildur gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 26.2.2011 kl. 14:20

3 Smámynd: Þorsteinn Mar Gunnlaugsson

Takk fyrir það :)

Þorsteinn Mar Gunnlaugsson, 26.2.2011 kl. 22:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband