Að þykja vænt um sjálfan sig

Fyrir nokkru lenti ég í umræðum um sambandsmál. Ég var spurður af því hvers vegna ég ætti ekki kærustu. Í kjölfarið hef ég svolítið velt þessum málum fyrir mér. Hvernig sambands mál mín hafa þróast á undanförnum árum og þess háttar. Það er nefnilega ekki sama hvenær, hvernig eða með hverjum maður er hverju sinni. 

Ég hef ekki verið í sambandi síðan á síðasta ári. Eftir við barnsmóðir mín hættum saman, þá fór ég úr einu sambandi í annað, var svolítið ráðvilltur, einmana og átti erfitt með að átta mig hvað ég vildi, hvert ég stefndi eða hvað ég vildi fá út úr hlutunum. Kannski skiljanlegt, þar sem þau sambandsslit voru ákveðið skipsbrot fyrir mig. Hins vegar hef ég öðlast góða reynslu í kjölfarið og í dag sé ég alla þessa hluti í öðru ljósi, en ég gerði þá.

Eitt af því sem ég er sífellt meira farinn að hallast að, er að grunnforsenda þess að að eiga gott samband er að þykja vænt um sjálfan sig. Eflaust kemur þetta einhverjum spánskt fyrir sjónir, en þetta er engu að síður skoðun mín. Um leið og manni þykir vænt um sjálfan sig, þá er auðveldara að vera hamingjusamur af eigin hvötum, maður er ekki jafn háður því að hinn aðilinn geri mann hamingjusaman. Það hefur nefnilega ótrúlega mikið að segja, að geta náð því stigi að vera engum háður um hamingju eða lífsgleði. Það þýðir, að allt umfram mann eigin hamingju gerir hlutina bara betri.

Ef manni þykir ekki vænt um sig, kallar sífellt eftir því að aðrir tryggi hamingju manns, eða maður leitast eftir því að uppfylla þarfir annarra, þá fyrr eða síður, tel ég, rekst maður á vegg og þarf að horfast í augu við, að hamingja annarra er ekki sama og eigin hamingja. Auðvitað er hægt að upplifa gleði og sorgir með öðrum, gleðjast yfir góðum árangri eða hamingju barna eða annarra skyldmenna, en sú gleði eða hamingja ristir ekki jafn djúpt og sú sem er persónuleg, þ.e. ef þú ert ekki hamingjusamur fyrir.

Ég held líka, að einstaklingur sem þykir vænt um sig á auðveldara með að láta sér þykja vænt um aðra. Þú hefur eitthvað að gefa, ef þú eyðir ekki allri þinni orku að velta þér upp úr eigin óhamingju eða öðrum vandkvæðum. Maður þarf að geta notið eigin félagsskapar, átt sín áhugamál, drauma og markmið. Maður þarf að geta horfst í augu við sjálfan sig í speglinum brosandi, hvort sem einhver stendur manni við hlið eða ekki. Hið sama gildir um, hvort öðrum geti þótt vænt um mann. Ef maður á erfitt með að láta sér þykja vænt um sig, hvernig er hægt að krefjast þess af öðrum?

Þetta hangir allt saman og ekki hægt að fullyrða eitt eða neitt. Hins vegar, eftir gaumgæfilega umhugsun, er þetta niðurstaða mín. Á sínum tíma þótti mér ekki vænt um sjálfan mig og fyrir vikið átti ég erfitt í samböndum, hvað svo sem gildir um aðra. Í dag er ég að læra, læt mér þykja vænt um mig og nýt þess að vera einn með sjálfum mér og náttúrulega dóttur minni. Mér líður vel. Ég er hamingjusamur, þó svo allt sé ekki fullkomið. En hvenær er það svo? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Góður

Ómar Ingi, 24.1.2011 kl. 18:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband