Smásögur vs. skáldsögur ... og Furðusögur!

Í barnaskóla var ég einn af þeim sem lenti títt í því, að klára vikuáætlun sem kennarinn lagði fram, snemma á þriðjudegi. Þá var ekki til siðs að vera með aukaverkefni eða ítarefni fyrir þá sem áttu auðvelt með að læra námsefnið. Við máttum því annað hvort sitja og teikna myndir (sem ég hafði hvorki getu né áhuga á) eða lesa. Ég valdi því það síðarnefnda og má segja að ég hafi eytt miklum hluta af grunnskólaferli mínum á bókasafni að lesa. Ég las allt það er ég komst yfir; Frank og Jóa, Narníu-sögurnar, Dularfullu- og Fimm bækurnar og svo mætti lengi telja. Þegar ég varð unglingur, bæði í unglingadeild og menntaskóla, las ég áfram, bæði á íslensku og ensku, þegar ég náði góðum tökum á því. Í raun er það ekki fyrr en nú á síðari árum sem ég hef haft bæði minni tíma til að lesa en eins fundið minna sem heillar mig til lesturs. Kannski vegna þess ég hef tekið upp á því að skrifa sjálfur og hef oftar en ekki frekar sest við skriftir en við lestur.

Ein af þeim bókmenntategundum sem hefur heillað mig mest í gegnum tíðina eru hrollvekjur, einkum og sér í lagi þær sem skrifaðar voru um þar síðustu aldamót og á fyrsta aldarfjórðungi síðustu aldar, höfundar á borð við Edgar Allan Poe og H.P. Lovecraft. Sérstaklega hefur sá síðarnefndi haft áhrif á mig, en furðusögur hans (e. Wierd fiction); sérstaklega sögurnar um The Great Old Ones; þykja mér skemmtilegar. Undantekningalítið eru sögur þessara höfunda smásögur, þó vissulega eigi þeir hvor um sig skáldsögur, t.d. At the Mountains of Madness og Ævintýri Arthúrs Gordon Pyms. Höfundar sem fylgdu í kjölfar þeirra, hvort sem þeir skrifuðu hreinræktaðar hrollvekjur eða furðusögur, voru einstaklingar á borð við Shirley Jackson, Peter Straub, Stephen King og George R. R. Martin, en flestir hafa þessir höfundar lagt áherslu á skáldsögur. 

Hrollvekjan er nefnilega ekki eitt af þessum týpísku fagurbókmenntaformum, sérstaklega furðusögur. Þrátt fyrir það var Lovecraft virkilega fær rithöfundur, með orðaforða sem fáir gátu státað af á þeim tíma og jafnvel þótt síðar væri (þó svo það eitt og sér geri menn ekki að góðum höfundum). Smásögur Poes hafa líka löngum þótt vel skrifaðar og smásagan The Fall of House Usher er með frægari smásögum heimsins. Hins vegar er hrollvekjuformið ævafornt, sbr. allar þjóðsögur sem fjalla um hryllilega atburði eða óvætti hvers konar.

Hrollvekjur passa misvel í þessi form, þ.e. smásöguna og skáldsöguna, að mínu mati. Ég hef lagt mig fram um að lesa eins mikið af hrollvekjum og ég kemst yfir, óháð því hvaðan þær koma eða eftir hvern þær eru. Hrollvekjan á sér lengri hefð sem skáldsaga í ensku og um leið ákveðnari orðaforða eða menningarheim, ef svo mætti að orði komast. Þó svo við Íslendingar eigum okkur langa hefð þjóðsagna, þá hafa ekki verið skrifaðar margar hrollvekjur og þær sem hafa verið skrifaðar eru undantekningalítið smásögur. Þórbergur Þórðarson skrifaði nokkrar á sínum tíma, Þórir Bergsson á nokkrar ágætar og eins hafa aðrir reynt við formið, en enginn íslenskur rithöfundur hefur mér vitandi lagt formið fyrir sig og gert út á það. Fyrir nokkrum árum kom út bókin Börnin í Húmdölum eftir Jökul Valsson, ágæt bók að mörgu leyti en leið fyrir, hve lítið var gert út á hinn íslenska veruleika í henni.

Hrollvekjur seljast auk þess töluvert vel í enskumælandi löndum, sbr. Stephen King og George R. R. Martin. Báðir höfundar eru gríðarlega mikið seldir og gerir amk. annar höfundurinn út á hrollvekjur að langmestu leyti. Þeir eru mun fleiri höfundarnir sem hægt væri að nefna; Clive Barker, Ann Rice, osfrv.; og virðist manni sem markaðurinn þar sé mun móttækilegri en sá hér heima fyrir hrollvekjum. Eru Íslendingar kannski bara með nægan hrylling í bókmenntasögunni, þ.e. þjóð- og Íslendingasögum? Eða hafa útgáfurnar ekki trú á þessum bókmenntageira?

Mín kenning er sú, að íslenskir rithöfundar, þ.e. þeir sem hafa einblínt á þetta genre (ég meðtalinn), séu of uppteknir af því að skrifa skáldsögur. Íslenski bókamarkaðurinn fyrir hver jól inniheldur ekki mörg smásagnasöfn og ég sá ekki nema 4 (ef ég man rétt) fyrir síðustu jól. Hversu margar skáldsögur ætli séu gefnar út fyrir hvert smásagnasafn? Það er kannski ekki furða, þegar kröfur lesenda eða forlaga (hvort ætli komi á undan?) eru þær, að rithöfundar skrifi skáldsögur. Smásögur virðast bara ekki eiga upp á pallborðið. Smásagan tel ég henta íslenskum hrollvekjum betur, í menningu sem okkar, þar sem þjóðsögur eru nátengdar tungumálinu og íslenskum veruleika, til að koma þessu til skila, því þar lesandinn þarf ekki að vera jafn nátengdur aðalpersónum og í skáldsögum. Í síðarnefnda forminu er mikilvægt að veita lesendum færi á, að komast í snertingu við aðalpersónur, sjá sig í þeirra sporum og upplifa tengsl við þær. Í smásögum er mikilvægara að veita innsýn í lítinn heim, eitt augnablik, sem getur þó verið merkingarþrungið og mun stærra en orðin fela í sér. Þar er þessi tenging lesanda og aðalpersónu ekki jafn skýr og því geta íslenskir höfundar frekar leikið sér með menningararfinn (sérstaklega þjóðsögurnar), en ef um skáldsögu væri að ræða. 

Gott dæmi um þetta er tímaritið Furðusögur sem kom út nú fyrir skemmstu. Þar er að finna nokkrar mjög góðar sögur, sem hver fyrir sig og á sinn hátt leikur sér með þennan arf. Stundum er það hinn trúarlegi arfur, stundum er það frásagnarhátturinn, á öðrum stöðum verur, óvættir og jafnvel vísanir í þekktar persónur úr þjóðsögunum. Í blaðinu er hrollvekjunni í formi smásögu gert hátt undir höfði og hefur ekki verið svo síðan bókin Íslenskar hrollvekjur kom út árið 1985 í ritstjórn Matthíasar Viðars Sæmundssonar. Mér finnst þetta mjög ánægjuleg þróun og vona að forlög og útgáfur fari að opna augu sín fyrir þessum markaði. Hrollvekjur, draugasögur, furðusögur, gotneskar bókmenntir, jafnvel neo-gotneskar, allt eru þetta form sem mætti gera meira úr hérlendis, að mínu mati. 

Ef þú hefur ekki lesið blaðið, skaltu endilega reyna að komast yfir það og lesa Furðusögur. Ég á tvær sögur í blaðinu! Þær eru mjög ólíkar, aðra mætti kalla draugasögu - jafnvel klassíska draugasögu - þar sem náttúra Íslands spilar stórt hlutverk. Hin er nátengdari furðusögum Lovecrafts; draumfarir, óskilgreindir og óskiljanlegir óvættir.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband