Hvað hét hundur Gunnars?

Urður Ýr, 7 ára dóttir mín, hefur stundum eftir lagatexta á ensku og þó svo hún fari ágætlega hljóðrétt í gegnum orðin, veit hún ekkert hvað þau þýða (fyrir utan einstaka orð). Getur verið að nemendur séu oft í svipaðri stöðu með Íslendingasögur? Og er það eðlilegt og viðurkennt? 

Íslendingasögur eru í senn frábær leið til að kynnast menningu, viðmiðum og gildum ásamt hugarfari annars vegar á Íslandi við landnám og fram að kristnitöku en eins gefa þær okkur ákveðna mynd tímanum er þær voru skrifaðar. Að mínu mati eru þær grunnur að íslenskri bókmenntahefð og því tel ég mikilvægt að þær séu kenndar vel. 

Íslendingasögurnar eru að mínu mati, fyrir utan að vera hrein og klár lestrarkennsla, kennsluefni í menningarlestri, þ.e.a.s. af því að sögurnar gefa okkur sýn inn í aðra menningu, þá skiptir máli að kennarar geti kennt og þekki þá menningu sem um ræðir. Til dæmis væri til einksis ef kennari léti bekk lesa Flugdrekahlauparann ef viðkomandi kennari þekkti ekki inn á afganska menningu og gæti útskýrt fyrir bekknum hvers vegna sum atriði, sem virka smá, skipta miklu máli. Í þessum menningarlestri felst, til að geta sett sig í spor persóna og fengið samúð, skilning og samkennd með þeim og þeirra gjörðum, að lesendur viti hvaða kröfur samfélagið gerir, hvaða viðmið eigi við hverju sinni og hvers vegna samfélagið bregst við eins og það gerir.

Skoðum dæmi: Í upphafi Gísla sögu er sagt frá Birni nokkrum, sem fer á milli bæja og skorar menn á hólm vilji þeir ekki ganga að kröfum hans og vilja. Flestir gefa eftir, þar til kemur að bæ afa þeirra Súrsona. Þar er Ari skoraður á hólm af Birni sem vill eignast konu Ara og Ari gengur á hólm við Björn og fær bana af. Þá stígur Gísli á fætur og lætur sér ekki lynda við þessi málalok, vill ekki að góður kvenkostur gangi úr ættinni. Hann skorar Björn á hólm.

Í frásögninni er ekkert sagt frá því hvernig hólmgöngulög voru í Noregi (og síðar Íslandi) á þessum tíma, það er gengið út frá því að lesendur viti það. Ólíkt því sem sýnt er í kvikmyndum, þá voru mjög strangar reglur, t.d. um stærð hólmsins, hvernig leysa mátti sig undan skyldum hólmgöngunnar og svo mætti lengi telja. Ein af þessum reglum sneri um hver ætti fyrsta höggið og hvernig skyldi höggva. Sá er skoraður var á hólm fékk fyrsta höggið. Sem sagt, það sem gerði Björn hinn blakka svo ógurlegan var, að hann þoldi fyrsta höggið. Hann var góður bardagamaður sem kunni að taka við höggum og kunni að höggva þannig að það var erfitt að verjast því. Þess vegna létu bændur að vilja hans frekar en að ganga á hólm við hann. Setur þetta líka viðbrögð Ara í annað ljós og mun hetjurlegra.

Það eru svona atriði sem mér finnst mikilvægt að koma til nemenda. Að baki texta Íslendingasagna er samfélag sem er með alveg jafn skýrar reglur, gildi og viðmið og það samfélag er við búum í dag. Hlutverk kennara hlýtur að vera, að koma nemendum í skilning um það sem þeir eru að lesa. Alltof oft heyri ég af því, að kennarar hafi verið að kenna einhverra hinna stóru Íslendingasagna; Njálu, Eglu, Laxdælu osfrv.; og prófa upp úr þeim með krossaprófi sem mælir hversu vel nemendur muna hin minnstu smáatriði hverrar sögu fyrir sig. Líklega er þekktasta dæmið um spurningu á slíku prófi: Hvað hét hundur Gunnars?

Hvaða máli skiptir hvað hundurinn hét? Skiptir ekki miklu meira máli að koma nemendum í skilning um mikilvægi þeirra gjafa sem Ólafur pá gefur Gunnari? Hvers vegna menn voru að gefa hverjir öðrum gjafir og hvað þær þýddu? Í mínum huga er þessi þekkta spurning í raun ekkert annað en könnun á því hvort nemandi hafi lesið eða ekki, fremur en hvort hann hafi skilið söguna.

Í dag eru nemendur enn fjarlægari heimi Íslendinga-, konunga- og samtímasögum 12-13. aldar. Því er svo mikilvægt að hjálpa þeim að komast inn í þessa menningu, hjálpa þeim að skilja hana en ekki einblína á smáatriði texta - smáatriði sem bæta litlu við skilning þeirra. Ég er nefnilega viss um, að nemandi sem skilur mikilvægi gjafa Ólafs pá, muni óumbeðinn taka fram nafn hundsins. Lesskilningur er nefnilega ekki spurning um að geta páfagaukað heilu kaflana upp úr einhverri sögu, heldur að skilja hvaða drifkraftur er að baki hverrar persónu, hvaða réttlætingar viðkomandi hefur fyrir gjörðum sínum og hvers vegna samfélag persónanna er eins og það er. 

PS. Hundur Gunnars hét Sámur.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband