Árið gert upp

Ég hugsa að síðasta ár, 2010, sé nokkuð sem ég mun minnast nokkuð lengi. Árið var mjög skemmtilegt og var rosalega mikið um eftirminnilega atburði og miklar fréttir. 

Við áramótin 2009-2010 voru blikur á lofti. Uppsagnir voru í desember 2009 í Ölgerðinni og því nokkur óvissa hjá mér, var ekki viss um að ég myndi halda starfinu ef til frekari uppsagna kæmi. Um leið og ég fann til með þeim sem var sagt upp, var þó ákveðinn léttir að vera ekki í þeim hópi. Hins vegar voru aðstæður þannig, að erfitt var að átta sig á, hvort eða hvenær fleira fólki yrði sagt upp. Sem betur fer kom þó ekki til þess og held ég að fyrirtækið standi enn betur að vígi nú en áður.

Mánuðirnir eftir jól einkenndust af mikilli vinnu og auraleysi. Það þurfti að greiða fyrir íbúðina í Tröllakór og því horft í hverja krónu. Í apríl hættum við Bergþóra saman, sem var leitt, en sem betur fer höfum við haldið góðu vinasambandi, sem ég er þakklátur fyrir. Eflaust hefur þetta allt spilað saman í að gera þessa fyrstu mánuði ársins frekar leiðinlega í minningunni. Ég var að minnsta kosti dauðfeginn þegar tók að vora.

Þann 1. maí var veiðidótið tekið úr geymslunni og sett í skottið á bílnum. Ég fór nokkuð oft í maí og júní í vötnin í kringum Reykjavík. Veiðin er alveg hrikalega góð hreinsun fyrir huga og sál, maður er einn með náttúrunni, bara þú, flugustöngin og vatnið, og akúrat það sem ég þurfti á þeim tíma. Suma morgna vaknaði ég eldsnemma til að kíkja á Þingvelli áður en ég þurfti að mæta í vinnuna, þeir morgnar veittu mér kannski þann drifkraft að fara að taka til hjá sjálfum mér.

Ég eyddi nefnilega heilmiklum tíma á þessu ári í nokkurs konar sjálfsskoðun. Sumt af henni hefur ratað hingað inn og má finna í eldri færslum. Ég held, að í það heila þá er ég mun sáttari við sjálfan mig, mér líður betur og á þarf að leiðir auðveldara með að gefa af mér. Sem hefur kannski skilað sér í því, að Urður sækir nú í mun meiri mæli að vera hérna hjá mér en áður.

Sumarið var í flesta staði frábært. Í júní fór fjölskyldan saman í útilegu í Vatnsdal. Þar var mikið hlegið og skemmt sér. Í júlí fór ég með Arnari, Jóhanni Inga og Stebba á Eistnaflug og var sú ferð öll alveg frábær. Ég held hreinlega ég hafi sjaldan hlegið jafn mikið. Um verslunarmannahelgina var ráðgert að fara á Þjóðhátíð, en Ástrós og Hugi buðu okkur Urði til Kanarí-eyja með skömmum fyrirvara, þannig Eyjar voru fljótlega slegnar út af borðinu. Ferðin til Tenerife var í einu orði sagt æðisleg. Fyrir utan það að geta legið í sólbaði daginn út og inn í 2 vikur, með tilheyrandi slökun, þá skemmti Urður sér konunglega og held ég geti seint fullþakkað þeim Ástrós og Huga fyrir þessa frábæru gjöf.

Laxveiðin var á sínum stað sem endra nær. Ég fór í nokkrar ferðir og kom aldrei fisklaus heim, sem var mjög ánægjulegt. Reyndar þurfti að hafa verulega fyrir þeim fiskum sem náðust á land og var lítið um að honum væri mokað upp. Ég hef hrikalega gaman af laxveiðinni og þeir túrar sem ég fór í þetta árið stóðu fyllilega undir væntingum.

Í júlí vann ég smásagnasamkeppni Vikunnar og birtist vinningssagan í því blaði. Einnig birtust tvær sögur eftir mig í nýju tímariti sem heitir Furðusögur. Ráðgert er að koma safni smásagna á prent á nýju ári og sjá hvort ekki takist að selja nokkur eintök af því. 

Sara eignaðist íbúð, kærasta (sem heitir Palli) og kött á árinu. Það hefur verið gaman að sjá hve hamingjusöm hún er orðin. Fljótlega kom barn undir hjá þeim en því miður missti Sara fóstrið. Þau lögðu þó ekki árar í bát heldur héldu áfram að reyna og nú er annað barn komið undir og Sara tútnar út um þessar mundir.

Ástrós bauð sig fram til stjórnlagaþings og lögðumst við í fjölskyldunni öll á eitt í stuðningi okkar. Allir fengu hlutverk og skilaði sú vinna sér í því, að hún komst inn á þing. Ég held, að ég hafi aldrei séð viðlíka fagnaðarlæti eins og þegar úrslitin voru tilkynnt. Við sátum öll saman í Leiðhömrum og fylgdumst með útsendingunni. Þegar nafn Ástrósar var lesið upp var stokkið á fætur, hrópað af fögnuði og mikil gleði.

Ekki var gleðin minni þegar þau Hugi tilkynntu svo um jólin að þau ættu líka von á barni. Það mun því fjölga um 2 í fjölskyldunni árið 2011. Þau eru þegar komin í hreiðurgerð, byrjuð að versla barnaföt og allt það sem þarf í uppeldi barna. Það er mjög merkilegt að fylgjast með muninum á þeim systrum í þessu. Sara vill helst fá allt lánað, á meðan Ástrós kaupir allt nýtt. Það munar einhverjum vikum á þeim, ekki svo mörgum, Sara er komin með myndarlega kúlu en það sést varla á Ástrós.

Urður byrjaði í 2. bekk í haust, stækkar hratt um þessar mundir sem hefur heldur bitnað á fataskápnum. Hún er öll að þroskast og komnir smá gelgjustælar í hana. Hún virðist ekki eiga í neinum vandræðum með að læra og stendur sig vel í skólanum. Einnig byrjaði hún í jazz-ballet í haust og virðist þar hafa fundið áhugamál sem hentar henni. Hún dansar voða mikið hérna heima, hendir sér í spíkat og splitt eins og ekkert sé og heimtar að ég geri það líka. Veit ekki hvort hún sé vísvitandi að reyna valda föður sínum ævarandi örkumlum! Hún eignaðist aðra systur núna í haust, sem dafnar vel, en hún átti fyrir systur á þriðja ári.

Í það heila hefur árið því verið gott. Ég kynntist fullt af fólki, endurnýjaði kynni við aðra og kynntist öðrum enn betur. Eflaust hef ég á síðasta ári stigið á einhverjar tær, móðgað, sært, gert lítið úr og böggað, eins og mér er einum lagið, og biðst velvirðingar á því. Vona ég, að enginn erfi slíkt við mig, a.m.k. ekki lengi.

Að lokum langar mig að óska þér, lesandi góður, gleðilegs nýs árs. Megi þér farnast vel og gæfan brosa við þér. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband