Bloggið er eini óháði fjölmiðillinn

Í dag er ekki hægt að sjá annað en að blogg sé eini óháði fjölmiðillinn. Nær allir aðrir fjölmiðlar eru seldir undir skoðanir og ítök eigenda sinna, sbr. hvernig farið hefur fyrir DV sem þó hefur stært sig af því að vera eini óháði fjölmiðillinn. Þetta mál er í raun eins klúðurslegt og hugsast getur orðið og ég fæ ekki séð hvernig báðir ritstjórarnir geti vel við unað eða þá setið áfram, þegar þeir verða uppvísir að því að ljúga annars vegar og hins vegar reyna sverta mannorð fyrrverandi starfsmanns. Ég held, að þeim væri nær að hætta bara. Ekki svo að skilja samt, að ég sé að bera blak af gjörðum blaðamannsins, alls ekki, heldur er málið einfaldlega stærra en þau svik.

Hversu oft á meðan góðærinu stóð voru fréttir stöðvaðar, af því þær voru óheppilegar fyrir eigendur og vini þeirra? Hversu margar fréttir birtust aldrei fyrir augum almennings? Hvernig stendur á því að ennþá er haldið hlífiskildi yfir því fólki sem á hvað mesta sök í hruninu hérna? Ég held, að til þess að komast að sannleikanum þurfa blaðamenn og fleiri að rannsaka þetta sjálfstætt og birta á netinu, helst á þeirra eigin bloggsíðum.

Bloggið er opið öllum og getur hver sem er skrifað skoðanir sínar á mönnum og málefnum umbúðalaust. Reyndar heyrir maður öðru hvoru af því að bloggum hafi verið lokað vegna öfgakenndra skoðana sem þar koma fram, en þeim pennum er viðhalda slíkri ritstefnu er frjálst að opna annað blogg annars staðar þar sem meira umburðarlyndi er gagnvart ólíkum skoðunum.

Við skulum nefnilega ekki gleyma að við búum ennþá í samfélagi þar sem er skoðanafrelsi, mál-, funda-, prent- og trúfrelsi, þó svo það séu hópar í samfélaginu sem vilja helst skerða þessi mannréttindi okkar. Við þurfum að halda þeim á lofti, sérstaklega á þessum tímum því við hljótum að vilja fá allt upp á borðið og tryggja að svona fari ekki aftur. Til þess að geta lært af þessari reynslu þurfum við að þekkja hvernig í pottinn var búið. Og nú er komið í ljós, svo um munar og skildi einhvern ekki hafa rennt í grun um að svona væri komið fyrir fjölmiðlum landsins, að þeir eru allir ofurseldir eigendum sínum og ganga erinda þeirra. Er mark takandi á slíkum fjölmiðlum?
mbl.is Íhugar málsókn gegn Kastljósi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Notum féð í eitthvað gagnlegt!

Úr því svo er, hvernig væri að mæta á Jólaball Ölgerðarinnar, kaupa Hvítöl og styðja með því Hjálparstarf kirkjunnar? Á laugardaginn kemur kl. 16 á Ingólfstorgi, allir að mæta.

jolaball5


mbl.is Þjóðin lúrir á milljörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensku bókmenntaverðlaunin

Eitt af því sem mér finnst við Íslendingar ekki nógu duglegir að gera, þá er það að veita hverjir öðrum viðurkenningar. Hvort sem það er í formi klapps á bakið, viðurkenningarskjals, stimpils frá forseta Íslands eða milljón krónum, þá stundum við þetta afar lítið.

Bókaútgáfur keppast við að eigna höfundum aðalstitla, Arnaldur er kóngur, Yrsa drottning, Jón Hallur krónprins og Ævar Örn segist vera hirðfíflið. Vissulega ákveðin viðurkenning, en samt lít ég meira á þessa æfingar útgáfnanna sem hluta af markaðssetningu. Ég meina, ef allt gengur að óskum og bókin mín kemur út í vor, þá vona ég að ég verði titlaður Stórvesír hinnar dramatísku gotnesku hrollvekju. Langur og flottur titill sem enginn á nokkurn tíma eftir að nenna að bera fram eða skrifa. Hugsanlega gæti ég líka verið hundraðshöfðingi hundleiðinlegra vælusagna, en það myndi líklega ekki teljast sem viðurkenning á nokkurn hátt eða góð markaðssetning.

Íslensku bókmenntaverðlaunin eru því ágæt að ýmsu leyti. Þau vekja athygli á ákveðnum bókum, útgefendur geta límt miða á þær og auglýst þær með það til hliðsjónar, að bókin hafi hlotið tilnefningu. Mér finnst þessi verðlaun alveg frábær þó svo ég sé náttúrulega ekki alltaf sammála útnefningunum, en hver er það svo sem?

Mér finnst, að verðlaunin mættu vera fleiri. Jú, bóksalar velja sína uppáhaldsbók. Ég vil hins vegar sjá fleiri verðlaun. Hvers vegna er ekki valinn besta fyrsta bók höfundar á hverju ári? Hvers vegna ekki besta smásagnasafnið eða ljóðabókin? Þegar titlarnir eru orðnir svona margir, eins og raun ber vitni, þá hlýtur það að kalla á fleiri verðlaun.

Verðlaun eru ekki bara hvetjandi fyrir þann sem hlýtur þau, heldur líka frábært markaðstæki, eins og áður var komið inn á. Þetta þurfa ekki að vera peningaverðlaun í hvert sinn, þó þau séu vissulega vel þegin, heldur fyrst og fremst viðurkenning á því starfi sem höfundur hefur unnið.

Þess vegna skil ég ekki vælið í þeim sem eru að kvarta og kvabba yfir Íslensku bókmenntaverðlaununum. Er ekki betra að hafa þessi verðlaun heldur en ekki? Ég vil einmitt hafa Íslensku bókmenntaverðlaunin og vonast meira að segja einhvern tíma að taka við þeim, sem og fjölda annarra viðurkenninga á þeim ritstörfum sem ég hef lagt á mig.

...spurning hvort ég fari bara ekki að skrifa þakkarræðuna :P


Jæja...

Ég verð eiginlega að viðurkenna að ég er orðinn leiður á þessu ástandi. Að hlusta á eintómar kreppufréttir, sífellt að velta þessu fyrir mér, hvaða lausnir eru á mínum málum og svo framvegis. Ég eiginlega sá það í hendi mér í gær, að ég gæti hæglega eyðilagt fyrir sjálfum mér jólin ef ég ætlaði að vera sífellt að velta mér upp úr þessu, alltaf að skoða fréttavefina, horfa á fréttatíma og umræðuþætti, þá myndi ég enda sem þunglyndissjúklingur. Þá væri nú erfitt fyrir mig að skrifa þær glaðlyndu hrollvekjur sem ég geri.

Nei, ég held að nær væri að láta þetta gott heita, að minnsta kosti fram yfir jól. Það verða líklega ekki neinar stórkostlegar breytingar fram yfir áramót. Stjórnmálamenn munu ekki allt í einu taka upp á því að axla ábyrgð, líkurnar á því að raunhæfar úrbætur komi fram fyrir okkur almenning eru afar litlar og þess vegna er bara betra að slappa aðeins af, kveikja á góðu þungarokki og tralla með í jólaumferðinni.

Ég get nú kannski byrjað á því að koma með eina góða frétt. Ég sá dollara í gær. Fékk hann meira að segja gefins. Er að hugsa um að selja hann þegar dollarinn fer yfir þúsund krónurnar. Já, það er kannski full mikil bjartsýni en það má alltaf vona. Við Íslendingar vonum alltaf og vonum, stundum gengur það eftir, t.d. fengum við silfur á ÓL eftir að hafa vonað í mörg ár. Íslenska landsliðið í fótbolta komst loks í lokakeppni, eins og við erum búin að vona í mörg ár. Reyndar voru það stelpurnar, en það kemur ekki að sök. Ég fór á leikinn gegn Írum hérna í frosti og kulda ásamt dóttur minni og við skemmtum okkur konunglega. Skiptir bara engu andskotans máli hvort það voru stelpurnar okkar eða strákarnir okkar.

Enn um ábyrgð

Um helgina sagði innanríkisráðherra Indlands af sér vegna hryðjuverkanna þar. Þó svo hann beri að sjálfsögðu ekki ábyrgð á gjörðum þeirra eða hafi komið að skipulagningu voðaverkanna, þá telur hann að siðferðilega beri hann ábyrgð. Einnig yfirmaður öryggismála í landinu og búast fréttaskýrendur við að fleiri ráðherrar skili inn uppsagnarbréfi sínu á komandi dögum.

Mikið vildi ég óska þess að ráðherrar á Íslandi hefðu sama siðferði og þeir á Indlandi.

Geir lýsti því yfir í viðtali við erlenda fréttastofu að hann bæri ekki ábyrgð á ástandinu, heldur voru það bankamenn sem gerðu allt vitlaust. Kannski ekki ólöglega hluti, en Geir bar þó ekki ábyrgð á regluverkinu. Hann er jú bara forsætisráðherra og var fjármálaráðherra í stjórn Davíðs þegar regluverkinu var komið á. Hann á bara enga sök á fjármálakrísunni hérlendis, því hún er annars vegar komin að utan og hins vegar vegna ofsafenginnar gróðafíknar bankamanna.

Hvað ætli þurfi að gerast til að Geir taki ábyrgð?

Ef hann ekur á ljósastaur, var það þá staurnum að kenna? Bílnum? Veginum? Veðrið slæmt? Ljósin biluð?

Ef hann lemur mann, var það þá manninum að kenna? Aðstæðum? Eða áðurnefndum ljósastaur?

Ég held, að Geir væri nær að læra svolítið af indversku starfsbræðrum sínum. Prófa að fletta upp í orðabók og lesa hvað orðið siðferði þýðir.

Geir ber siðferðislega ábyrgð á ástandinu og þarf að axla hana. Hann gerir sig sekan um ótrúlega blindu með því að neita því og ég leyfi mér að efast um, að Sjálfstæðisflokkurinn geti annars vegar setið í stjórn og hins vegar hlotið góða kosningu á meðan hann neitar þessari siðferðilegu ábyrgð sinni.


mbl.is Íslendingar muna vinargreiða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt fólk

Eftir umræðurnar á hinu háa Alþingi í gær, verð ég að viðurkenna, ef einhvern tíma mér hefur fundist að Sjálfstæðisflokkurinn ætti ekki að vera við völd, þá er það núna. Öðru eins hef ég ekki orðið vitni að áður, nema hugsanlega þegar ég var ennþá að kenna í grunnskóla. Mér fannst Geir í raun aldrei svara þeirri gagnrýni stjórnarandstöðunnar sem í vantrausttillögunni lá, heldur reyndi hann ítrekað að gera tillöguna sjálfa ótraustvekjandi og misskildi að mér sýndist vísvitandi hvað í henni fólst. Björn, að venju, var eins og sex ára strákur í sandkassaslag og var sjálfum sér, að venju, til skammar.

Er tillagan hafði verið felld mættu Steingrímur og Geir til Jóhönnu í stutt viðtöl. Steingrímur hélt ágætlega virðingu sinni, viðurkenndi að þessi orrusta hefði tapast en stríðið væri ekki búið. Það væri hlutverk stjórnarandstöðunnar að veita ríkisstjórninni aðhald, sérstaklega þegar um jafn óvinsæla stjórn er að ræða. Það væri bæði réttur þeirra og skylda. Geir hins vegar hélt áfram í sínum barnalega leik og þegar hann var spurður út í hvort stjórnarandstaðan gæti nú hugsanlega eitthvað haft til sín máls, þá brást hann ókvæða við og hálfpartinn hreytti í Jóhönnu svari, sem mér fannst hvorki fulg né fiskur.

Það var líka mjög áhugavert að fylgjast með þessum fundi í gær. Fyrir utan það hvað fundarstjórn var slæleg og að mörgu leyti léleg (spurning hvort fundarstjóri hefði ekki mátt vera örlítið minna ánægður með sjálfan sig) þá voru margir ræðumanna með áhugaverða punkta. Sérstaklega fannst mér gaman að sjá þegar Margrét lét fólk standa upp úr stólum sínum, til að sýna fram á hversu auðvelt það er fyrir menn að standa upp úr stólum sínum fyrir konu.

Í gærkvöld, þegar öllu þessu var lokið, þá sat ég með þá tilfinningu að ráðherrar okkar virðist telja að þeir séu of mikilvægir til að hægt sé að boða til kosninga. Ef boðað verði til kosninga þá muni allt fara hér til andskotans. Ætli einhver geti ekki bent þeim á, að það sé allt komið til andskotans? Sá hinn sami mætti líka segja þeim, að kirkjugarðar landsins eru stútfullir af mikilvægu fólk en landið og samfélagið er hins vegar hér enn.

Að lokum langar mig til að láta hér myndband með alþýðudúettinum Plató fylgja með. Á vel við á þessum tímum.


mbl.is „Þetta er þjóðin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bylting

Það getur stundum verið ágætt að skoða söguna í ljósi þeirra atburða sem eru að gerast hverju sinni. Okkar samfélag hefur, að mér sýnist, verið gegnumsýrt af spillingu og öðrum eins viðbjóði og ég held, að það sé erfitt að fullyrða að samfélag okkar standi óbreytt eftir það sem á undan er gengið. Misskipting auðsins hefur verið gríðarleg hérna og er um margt enn, og góðærið hefur verið ákaflega misjafnt hjá fólki. Svo þegar í harðbakkann slær, þá er það ekki þeirra sem stóðu að eyðslufylleríinu að borga, heldur almúgans og vilja stjórnmálamenn ekki heyra múkk úr þeirri átt.

Fyrir nokkrum öldum var mikil bylting í Frakklandi. Bylting sem hafði gríðarlegar breytingar í för með sér, ekki bara á samfélagshögum Frakka og nágrannaríkja, heldur líka breyting á stjórnarfari sem og hugsunarhætti. Aðstæður þar á þeim tíma voru um margt líkar þeim sem má finna hérlendis um þessar mundir og undanfarin misseri. Mætti ekki kalla útrásarvíkinga og stjórnmálamenn aðal þessa lands? Eru það ekki einmitt þessi hópur sem neitar að axla ábyrgð á gjörðum sínum, útrásarvíkingar benda hver á annan og stjórnmálamenn varpa afleiðingunum yfir á almúgann, sem er þó nú þegar ansi skattpíndur, t.d. í formi verðtryggingar.

Það er því ákveðinn vonarneisti sem kviknar hjá mér þegar ég hugsa til þess hvernig fór fyrir þeim sem áttu sök í Frakklandi á sínum tíma. Það fólk var handtekið af alþýðunni og gert höfðinu styttra opinberlega. Úr þeim umbrotum reis síðan nýtt Frakkland, mótað af hugmyndafræði sem hefur haft afgerandi áhrif á hinn vestræna heim.

Nú er ég ekki að mælast til þess að nokkur verði tekinn af lífi, en ég held, að stjórnmálamenn mættu gefa sér meiri tíma til að hlusta á fólkið í landinu. Geir, Ingibjörg og öll þau sem sitja í ríkisstjórn hafa, að ég tel, ekki lengur umboð þjóðarinnar og því hlýtur að koma að því að þjóðin rísi upp. Ég trúi hreinlega ekki öðru, miðað við hversu margir mótmæla á laugardögum á Austurvelli, á netinu og víðar.

Ég vil að minnsta kosti ekki lengur búa undir þessari stjórn og þeim skuldaböggum sem henni finnst sjálfsagt að leggja á mig og mína. Ég vil fá tækifæri til að kjósa nýja stjórn og á meðan hvorugur formaður stjórnarflokkanna tekur í mál ég fái það tækifæri, þá hlýtur það að kalla á aðgerðir af minni hálfu. Ég hlýt að standa upp og mæla, í anda Jóns Sigurðssonar: Ég mótmæli!

Kannski er bara kominn tími á byltingu. Kannski þurfum við að taka málin í okkar hendur. Úr því að stjórnvöld sitja blind á báðum og heyrnarlaus, í raun daufdumb og bera ekki hag okkar fyrir brjósti, þá eiga þau ekki völdin skilið.

Hingað og ekki lengra, segi ég!


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgð, ábyrgð og ábyrgð

Eitt af því sem slær mig svolítið í þessari ræðu Davíðs, er hvernig hann lítur á eigin ábyrgð. Hann virðist ekki sjá neitt rangt við þau störf sem hann hefur unnið á undanförnum misserum, þrátt fyrir mikla gagnrýni af hálfu fræðimanna, sem eru mun menntaðri í hagstjórnarfræðum en hann mun geta kallast. Eflaust er sú gagnrýni undan rifjum Jóns Ásgeirs runnin, enda á maður svo marga milljarða að hann hlýtur að geta greitt öllum snillingunum, prófessorunum og blaðamönnunum til að fara hörðum orðum um Davíð. Ég meina, JÁ hlýtur að hafa fengið Der Spiegel til að gera grín að Davíð og stjórn hans á Seðlabankanum.

Það er frábært að hann skuli vilja fá erlenda aðila til að skoða störf sín, ekkert nema gott um það að segja. Hann gerir sér vonandi grein fyrir að það muni taka nokkra mánuði, jafnvel nokkur ár og á meðan getur hann ekki setið í starfi. Það er kannski bara það sem hann vill, fá að sitja heima á feitum launum og fá síðan í ofanálag eftirlaunin úr frumvarpinu sem hann skóp handa sjálfum sér.

Skoðum aðeins embættisglöp Davíðs.

1. Hver var forsætisráðherra þegar bankarnir voru einkavæddir og stóð fyrir þeirri stefnu í hagstjórnarmálum sem hefur verið ríkjandi undanfarin ár? Jú, vissulega er ekki hægt að neita því að hér hefur verið mikið góðæri, en sé grannt skoðað þá kemur í ljós að það var á sandi byggt, eins og hús heimska mannsins, og reyndu bankar og ýmsir fræðimenn í útlöndum að benda okkur á þetta. Við hlógum að slíkri gagnrýni, sbr. viðbrögð Sigurjóns Árnasonar við gagnrýni Hollendinga á Icesave.

2. Hver bar ábyrgð á því að byggja upp gjaldeyrisvarasjóð, vegna útgáfu jöklabréfa og um leið, yfirvofandi sölu þeirra og streymi gjaldeyris úr landinu?

3. Hver bar ábyrgð, ásamt fjármálaráðherra, að nýta lagaheimild Alþingis til gjaldeyriskaupa síðasta vor?

4. Hver bar ábyrgð á yfirtöku Glitnis, sem lokaði á allar lánalínur til íslensku bankanna?

5. Hver bar ábyrgð á því að garga um víðan völl: Við borgum ekki, við borgum ekki! sem á eflaust, sama hvað Davíð gefur í skyn, sinn þátt í viðbrögðum Breta, hvort sem þau voru réttlætanleg eða ekki?

6. Hver bar ábyrgð á því að tilkynna að Rússar hefði lánað okkur fé þegar svo var ekki um að ræða?

7. Hver bar ábyrgð á hávaxtastefnu Seðlabanka Íslands, sem hefur augljóslega ekki skilað tilætluðum árangri?

8. Hver bar ábyrgð á fylgjast með bindisskyldu bankanna?

9. Hver bar ábyrgð á gengi íslensku krónunnar og þeim tilraunum sem gerðar hafa verið með hana undanfarnar vikur, nær allar árangurslausar?

10. Hver bar ábyrgð á að gefa Seðlabanka Bandaríkjanna nægar upplýsingar til að tryggja lánalínu þaðan?

Ég held, þegar farið er yfir þessar spurningar, þá er hægt að finna ýmislegt sem má rekja til stjórnar Seðlabanka Íslands, þó vissulega megi finna ýmsar aðrar skýringar á þeim málum sem um ræðir hverju sinni. Ég held hins vegar, að Davíð sé búinn að mála sig, og þar með okkur Íslendinga líka, út í horn á alþjóðlegum vettvangi og í raun er hann hafður að athlægi. Ég tel, að eigum við Íslendingar að geta rétt við og bætt almenningsálit þar ytra á Íslendingum þurfum við að losa okkur við þá sem eiga hlut í hruninu og þar er Davíð Oddsson nokkuð ofarlega á mínum lista.


mbl.is Fjölmiðlar í heljargreipum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

England, Holland og Þýskaland í startholunum

Jæja, nú er bara spurning hvort við getum ekki farið í taugarnar á Frökkum og Bandaríkjamönnum líka? Svo Kína og Rússland?

Ég legg til að við sendum Leoncie á alheimstónleikatúr, eins og Sigurrós. Sem sérstakur sendiherra okkar gæti hún skemmt Frökkum, Könum, Kínverjum og Rússum áður en hún heldur til Mars og Júpíter og um ókannaðar geimþokur.

(Ég skil sem sagt ekki hvernig múmínálfunum í Sigurrós tókst að fara Alheimstúr þegar NASA getur varla endurtekið það að senda menn til tunglsins!)

Hvað eigum við að gera í þessu icesave/edge dæmi? Það er ljóst að reikningseigendur í þessum löndum eru ekki sáttir, ekkert frekar en við værum ef dæmið vær omvendt. Ríkið er í raun gert ábyrgt fyrir gjörðum fárra manna eða fyrirtækja, sem sagt, við og komandi kynslóðir eigum að borga brúsann!

Það er ekki eins og hér sé um stríð að ræða. Þjóðverjar voru lengi að borga upp stríðsskaðabæturnar sem voru dæmdar á þá eftir heimsstyrjaldirnar en þetta er ekki það sama. Við erum að tala um sparnað fólks sem var, í raun, rænt af þeim.

Hvað gerum við þegar svo er í pottinn búið? Að einhverju hefur verið rænt? Jú, við reynum að finna þjófinn og draga hann fyrir dóm. Nú vitum við hverjir báru ábyrgð á þessu fé og við ættum líka að geta komist að (gefið að FME standi sig) hvert það fór. Sem sagt, við ættum að geta séð hvar sökin liggur.

Er þá ekki bara spurning um að framselja hina seku til þessarra landa og segja þeim að krefja þá um peningana sína, því brot þegna eru ekki á ábyrgð ríkisins, heldur lætur ríkið þegna sína taka sjálfir ábyrgð á eigin gjörðum?

Væri þá ekki málið leyst? Ég veit að íslenska ríkið framselur ekki þegna sína til annarra landa, en getum við ekki gert undanþágu fyrir þá? Svona eins og þegar reynt var að fella niður persónulegar skuldir þeirra?

Tja, ég spyr....


Ábyrgð

Það er mikið talað um ábyrgð í fréttum núna. Ríkisstjórnin segir að nú sé ekki tími til að finna sökudólga eða draga einhvern til ábyrgðar, á meðan almenningur og fjölmiðlar heimta blóð og opinberar krossfestingar. Tja, kannski ekki alveg í eiginlegri merkingu þess, en að minnsta kosti í yfirfærðri merkingu.

Þegar ég horfi yfir sviðið þá finnst mér eins og hvert sem litið er, þá sjái maður einhvern sem þarf að taka ábyrgð, en gerir það í raun ekki. Við höfum Davíð, sem erlendir fjölmiðlar líta á sem einhvern kjána (sbr. það grín sem gert er að honum í þýskum og mig minnir líka írskum fjölmiðlum), Geir en honum hefur ekki beint tekist að afla sér vinsælda undanfarið, Árni, Björn, Össur, Björgvin, Ólafur Ragnar og svo á hinum kantinum, Valgerði og Guðna. Ég læt vera að Vinstri grænir eða Frjálslyndir séu ábyrgir fyrir þessu, enda hefur enginn viljað vera í stjórn með þeim svo árum skiptir.

Davíð tekur ekki ábyrgð á sínum þætti í þessu öllu saman. Hann skóp jú þær aðstæður sem útrásarvíkingarnir og bankarnir nýttu sér með þeim hætti sem nú er orðið. Hann fór fremstur í flokki við að einkavinavæða ríkisfyrirtækin. Er það ekki ábyrgðarhluti?

Geir fer fyrir þeirri ríkisstjórn sem lenti í þessum málum og mér hefur sýnst að flestir hagfræðingar vera á þeim brókum að hún hafi ekki staðið sig sem skyldi. Ég held, þegar litið er um öxl, þá hafi öll viðvörunarljós logað ansi lengi án þess að nokkuð hafi verið að gert. Er ekki þörf að taka ábyrgð á því?

Árni hefur gerst svo oft sekur um vanhæfni að mínu mati að það tekur ekki að minnast á það lengur, sem og Björn. Ég skil ekki hvers vegna Össur hefur ekki verið látinn sæta ábyrgð á öllu því sem hann hefur sagt eða bloggað. Svo loks Björgvin sem á að heita ráðherra bankamála og undir verksvið hans fellur FME, sem hefur svo sannarlega ekki staðið sína vakt. Þarf enginn þeirra að axla ábyrgð?

Loks eru það Valgerður og Guðni sem virðast ætla sér að nýta ástandið til að afla Framsókn fylgi, en virðast hafa gleymt því að þau eiga svo stóra sök í þessu máli. Ætla þau að axla ábyrgð eða þurftu þau að gera það með því að missa ráðherrastólana sína í síðustu kosningum?

Svo til að kóróna allt saman, þá eru verkalýðsleiðtogar líka að gerast sekir um að hafa tekið þátt í leiknum og jafnvel tekið þátt í ákvörðunum sem virðast við fyrstu sín mjög á mörkum þess siðlega. Ætla þeir að axla ábyrgð?

Nýjasta málið er svo klúður Bjarna Harðar, sem verður að segjast er í senn hrikalega fyndið og ótrúlega klaufalegt. Valgerður segir í fréttum að hún ætli ekki að krefjast þess hann hætti í stjórnmálum, heldur höfða til samvisku hans.

Nú spyr ég: Finnst henni líklegt að stjórnmálamenn, eins og hún sjálf, hafi nokkra samvisku?

Það tekur enginn stjórnmálamaður ábyrgð á því sem hann gerir. Hugtakið er þeim, og henni, framandi. Ég legg til, að Valgerður líti sér nær. Hvar er samviska hennar? Af hverju stendur hún ekki upp og sýnir gott fordæmi? Segir að sökum samvisku, þá sjái hún sig tilneydda til að segja af sér, enda hluti af ástandinu á hennar ábyrgð.

Mig grunar, að þegar allt kemur til alls, þá muni enginn stjórnmálamaður, útrásarvíkingur (að Bakkabræðrum undanskildum) eða bankabruðlari standa upp og viðurkenna eigin ábyrgð. Það væri einfaldlega til of mikils ætlast af þeim. Hins vegar virðist, miðað við viðbrögð Valgerðar, þeim finnast sjálfsagt að aðrir taki ábyrgð og hagi sér eftir því sem samviska þeirra leyfir.

Það hlýtur því að þýða, að við sitjum uppi með sama liðið á þingi, sama liðið í ráðherrastólunum og sama liðið í Seðlabankanum og FME, og enginn þeirra mun kannast við að bera nokkra ábyrgð. Enda vöruðu jú allir við þessu, ekki satt?

Þetta er kannski of mikil einföldun á málinu, ég skil kannski ekki hversu flókin stjórnmál geta verið....ég veit það ekki!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband