Ábyrgð

Það er mikið talað um ábyrgð í fréttum núna. Ríkisstjórnin segir að nú sé ekki tími til að finna sökudólga eða draga einhvern til ábyrgðar, á meðan almenningur og fjölmiðlar heimta blóð og opinberar krossfestingar. Tja, kannski ekki alveg í eiginlegri merkingu þess, en að minnsta kosti í yfirfærðri merkingu.

Þegar ég horfi yfir sviðið þá finnst mér eins og hvert sem litið er, þá sjái maður einhvern sem þarf að taka ábyrgð, en gerir það í raun ekki. Við höfum Davíð, sem erlendir fjölmiðlar líta á sem einhvern kjána (sbr. það grín sem gert er að honum í þýskum og mig minnir líka írskum fjölmiðlum), Geir en honum hefur ekki beint tekist að afla sér vinsælda undanfarið, Árni, Björn, Össur, Björgvin, Ólafur Ragnar og svo á hinum kantinum, Valgerði og Guðna. Ég læt vera að Vinstri grænir eða Frjálslyndir séu ábyrgir fyrir þessu, enda hefur enginn viljað vera í stjórn með þeim svo árum skiptir.

Davíð tekur ekki ábyrgð á sínum þætti í þessu öllu saman. Hann skóp jú þær aðstæður sem útrásarvíkingarnir og bankarnir nýttu sér með þeim hætti sem nú er orðið. Hann fór fremstur í flokki við að einkavinavæða ríkisfyrirtækin. Er það ekki ábyrgðarhluti?

Geir fer fyrir þeirri ríkisstjórn sem lenti í þessum málum og mér hefur sýnst að flestir hagfræðingar vera á þeim brókum að hún hafi ekki staðið sig sem skyldi. Ég held, þegar litið er um öxl, þá hafi öll viðvörunarljós logað ansi lengi án þess að nokkuð hafi verið að gert. Er ekki þörf að taka ábyrgð á því?

Árni hefur gerst svo oft sekur um vanhæfni að mínu mati að það tekur ekki að minnast á það lengur, sem og Björn. Ég skil ekki hvers vegna Össur hefur ekki verið látinn sæta ábyrgð á öllu því sem hann hefur sagt eða bloggað. Svo loks Björgvin sem á að heita ráðherra bankamála og undir verksvið hans fellur FME, sem hefur svo sannarlega ekki staðið sína vakt. Þarf enginn þeirra að axla ábyrgð?

Loks eru það Valgerður og Guðni sem virðast ætla sér að nýta ástandið til að afla Framsókn fylgi, en virðast hafa gleymt því að þau eiga svo stóra sök í þessu máli. Ætla þau að axla ábyrgð eða þurftu þau að gera það með því að missa ráðherrastólana sína í síðustu kosningum?

Svo til að kóróna allt saman, þá eru verkalýðsleiðtogar líka að gerast sekir um að hafa tekið þátt í leiknum og jafnvel tekið þátt í ákvörðunum sem virðast við fyrstu sín mjög á mörkum þess siðlega. Ætla þeir að axla ábyrgð?

Nýjasta málið er svo klúður Bjarna Harðar, sem verður að segjast er í senn hrikalega fyndið og ótrúlega klaufalegt. Valgerður segir í fréttum að hún ætli ekki að krefjast þess hann hætti í stjórnmálum, heldur höfða til samvisku hans.

Nú spyr ég: Finnst henni líklegt að stjórnmálamenn, eins og hún sjálf, hafi nokkra samvisku?

Það tekur enginn stjórnmálamaður ábyrgð á því sem hann gerir. Hugtakið er þeim, og henni, framandi. Ég legg til, að Valgerður líti sér nær. Hvar er samviska hennar? Af hverju stendur hún ekki upp og sýnir gott fordæmi? Segir að sökum samvisku, þá sjái hún sig tilneydda til að segja af sér, enda hluti af ástandinu á hennar ábyrgð.

Mig grunar, að þegar allt kemur til alls, þá muni enginn stjórnmálamaður, útrásarvíkingur (að Bakkabræðrum undanskildum) eða bankabruðlari standa upp og viðurkenna eigin ábyrgð. Það væri einfaldlega til of mikils ætlast af þeim. Hins vegar virðist, miðað við viðbrögð Valgerðar, þeim finnast sjálfsagt að aðrir taki ábyrgð og hagi sér eftir því sem samviska þeirra leyfir.

Það hlýtur því að þýða, að við sitjum uppi með sama liðið á þingi, sama liðið í ráðherrastólunum og sama liðið í Seðlabankanum og FME, og enginn þeirra mun kannast við að bera nokkra ábyrgð. Enda vöruðu jú allir við þessu, ekki satt?

Þetta er kannski of mikil einföldun á málinu, ég skil kannski ekki hversu flókin stjórnmál geta verið....ég veit það ekki!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jæja, Bjarni tók ábyrgð og sagði af sér! Hver var hans sök, jú hann sagði sannleikann og var of ragur til að gera það beint undir nafni!

Hvenær ætla hinir að axla ábyrgð....

Guðrún Halla Jónsdóttir (IP-tala skráð) 11.11.2008 kl. 10:20

2 Smámynd: Þorsteinn Mar Gunnlaugsson

Já, þrátt fyrir klúðrið, sem var vægast sagt stórt, þá hafði hann manndóm í sér að taka ábyrgð á því. Ég get ekki annað en tekið ofan fyrir því. Hann er með því, að minnsta kosti maður að meiri, ef ekki væri fyrir aðrar sakir en að taka ábyrgð á eigin klúðri.

Hvenær hinir sjá að sér er svo annað mál....

Þorsteinn Mar Gunnlaugsson, 11.11.2008 kl. 10:28

3 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Þorsteinn, er þessi pistill um bækur, hmm? Ertu að kalla þetta skáldskap kannski? Hrollvekju jafnvel ...?

Berglind Steinsdóttir, 11.11.2008 kl. 19:32

4 Smámynd: Ómar Ingi

Hryllingur er þetta

Ómar Ingi, 11.11.2008 kl. 19:38

5 Smámynd: Þorsteinn Mar Gunnlaugsson

Er ég eitthvað að klikka?

Tja, það er nú ekki mér að kenna, því eftirlitsaðilar hafa brugðist og ég þarf því ekki að taka neina ábyrgð. :P

Ég skal laga þetta. :)

Þorsteinn Mar Gunnlaugsson, 11.11.2008 kl. 19:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband