Mótmæli á Íslandi

Ég hef svolítið verið að fylgjast með þessum mótmælum sem hafa verið vikulega hérna í borginni. Mér finnst gott og blessað að fólk skuli nýta með þessu mannréttindi sín, tjáningar- og fundafrelsi, sem og stundi örlitla borgaralega óhlýðni. Mér finnst gott til þess að hugsa að það skuli vera til manneskjur hérlendis sem eru til í að eyða tíma sínum í að tjá skoðanir sínar með þessum hætti.

Eitt finnst mér þó alltaf svolítið undarlegt við þennan hóp. Ef sest er niður með Íslandssögu og þá helst sögu 20. aldar þá þarf að leita aftur til þriðja áratugsins til að finna mótmæli sem yfirvöld hafa tekið mark á, en það var Gúttóslagurinn. Þar mótmæltu verkamenn launakjörum þeim sem borgaryfirvöld höfðu ákveðið, mig minnir endilega að þau hafi verið lækkuð, og sló í brýnu þar á milli verkamanna og lögreglu. Reyndar var það svo að lögreglan var lúbarin af lýðnum og nokkrum dögum síðar ákváðu borgaryfirvöld að draga tilbaka þessa ákvörðun sína.

Skoðun síðan nokkur mótmæli 20. og 21. aldar.

Innganga Íslendinga í Nató var alltaf umdeild, t.d. mótmæltu ákaflega margir undirskriftinni á sínum tíma og þurfti lögreglan að beita táragasi. Á áratugunum sem fylgdu voru fjölmargar Keflavíkurgöngur en herinn sat sem fastast allt þar til það þóknaðist ekki lengur hinum bandarísku herrum að geyma tvær hundgamlar og einskinsnýtar herþotur upp á heiði. Við grétum reyndar sáran yfir því þeir skildu fara. Hlustuðu stjórnvöld þá?

Kárahnjúkamótmæli Ómar Ragnarssonar voru rosalega. Mörg þúsund manns í göngu niður Laugarveginn, allir á móti virkjun Kárahnjúka en allt kom fyrir ekki. Hið sama má segja um tilraunir Saving Iceland. Hafa stjórnvöld hlustað?

Vörubílstjóramótmælin...allt í lagi, þau voru kannski ekki þaulúthugsuð en mótmæli engu að síður. Var hlustað?

Núna eru mótmæli gegn framkvæmdavaldinu vegna bankahrunsins. Haldið þið að stjórnvöld hlusti nú?

Ég man ekki eftir einu skipti þar sem undirskriftalistar, útifundir, setu- eða hungurverkföll hafi náð eyrum stjórnmálamanna. Hér á landi virkar lýðræði bara einu sinni á fjögurra ára fresti. Stjórnmálamenn hafa sýnt það, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, að þeim er slétt sama um hvað okkur finnst. Þeir sitja sama hvað á dynur, eflaust af því þeir telja og trúa því að þeim sé þetta vald af Guði gefið og þeir séu útvaldir til að leiða þjóðina.

Ef við skoðum síðan öll þau mál sem hafa komið upp á síðastliðnum 17 árum, þar sem ekki er hægt að sjá annað en vinapólitík og einkavinavæðing hefur verið uppi á teningnum og hversu oft stjórnmálamenn hafa tekið ábyrgð á þeim aðgerðum, þá blasir afar dapurlegur sannleikur við okkur. Ráðning Jóns Steinars sem hæstaréttarlögmanns, ráðning Þorsteins Davíðssonar og sala Landsbankans eru bara örfá dæmi um nokkuð sem ég efast um að stjórnmálamenn í öðrum löndum hefðu getað haldið í stóla sína sem ráðherrar. Fyrir nokkrum mánuðum þurfti ráðherra í Svíþjóð að segja af sér vegna þess að barnfóstran hafði unnið svart hjá ráðherranum. Sagði Árni Matt af sér vegna búsetumálsins?

Nei, ég fæ ekki séð að stjórnmálamenn á Íslandi taki nokkuð mark á okkur, fólkinu. Hvorki þegar við söfnust saman og mótmælum né þegar við tjáum skoðanir okkar á opinberum vettvangi. Þeim er sama...nema einn dag á fjögurra ára fresti. Þá eru þeir allt í einu okkar besti vinir. Ég legg til að við temjum okkur minni fíla, ekki gullfiska, og refsum þeim grimmilega í næstu kosningum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiður Helgadóttir

Bara smákveðja

Heiður Helgadóttir, 10.11.2008 kl. 10:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband