Ég hef svolítið verið að fylgjast með þessum mótmælum sem hafa verið vikulega hérna í borginni. Mér finnst gott og blessað að fólk skuli nýta með þessu mannréttindi sín, tjáningar- og fundafrelsi, sem og stundi örlitla borgaralega óhlýðni. Mér finnst gott til þess að hugsa að það skuli vera til manneskjur hérlendis sem eru til í að eyða tíma sínum í að tjá skoðanir sínar með þessum hætti.
Eitt finnst mér þó alltaf svolítið undarlegt við þennan hóp. Ef sest er niður með Íslandssögu og þá helst sögu 20. aldar þá þarf að leita aftur til þriðja áratugsins til að finna mótmæli sem yfirvöld hafa tekið mark á, en það var Gúttóslagurinn. Þar mótmæltu verkamenn launakjörum þeim sem borgaryfirvöld höfðu ákveðið, mig minnir endilega að þau hafi verið lækkuð, og sló í brýnu þar á milli verkamanna og lögreglu. Reyndar var það svo að lögreglan var lúbarin af lýðnum og nokkrum dögum síðar ákváðu borgaryfirvöld að draga tilbaka þessa ákvörðun sína.
Skoðun síðan nokkur mótmæli 20. og 21. aldar.
Innganga Íslendinga í Nató var alltaf umdeild, t.d. mótmæltu ákaflega margir undirskriftinni á sínum tíma og þurfti lögreglan að beita táragasi. Á áratugunum sem fylgdu voru fjölmargar Keflavíkurgöngur en herinn sat sem fastast allt þar til það þóknaðist ekki lengur hinum bandarísku herrum að geyma tvær hundgamlar og einskinsnýtar herþotur upp á heiði. Við grétum reyndar sáran yfir því þeir skildu fara. Hlustuðu stjórnvöld þá?
Kárahnjúkamótmæli Ómar Ragnarssonar voru rosalega. Mörg þúsund manns í göngu niður Laugarveginn, allir á móti virkjun Kárahnjúka en allt kom fyrir ekki. Hið sama má segja um tilraunir Saving Iceland. Hafa stjórnvöld hlustað?
Vörubílstjóramótmælin...allt í lagi, þau voru kannski ekki þaulúthugsuð en mótmæli engu að síður. Var hlustað?
Núna eru mótmæli gegn framkvæmdavaldinu vegna bankahrunsins. Haldið þið að stjórnvöld hlusti nú?
Ég man ekki eftir einu skipti þar sem undirskriftalistar, útifundir, setu- eða hungurverkföll hafi náð eyrum stjórnmálamanna. Hér á landi virkar lýðræði bara einu sinni á fjögurra ára fresti. Stjórnmálamenn hafa sýnt það, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, að þeim er slétt sama um hvað okkur finnst. Þeir sitja sama hvað á dynur, eflaust af því þeir telja og trúa því að þeim sé þetta vald af Guði gefið og þeir séu útvaldir til að leiða þjóðina.
Ef við skoðum síðan öll þau mál sem hafa komið upp á síðastliðnum 17 árum, þar sem ekki er hægt að sjá annað en vinapólitík og einkavinavæðing hefur verið uppi á teningnum og hversu oft stjórnmálamenn hafa tekið ábyrgð á þeim aðgerðum, þá blasir afar dapurlegur sannleikur við okkur. Ráðning Jóns Steinars sem hæstaréttarlögmanns, ráðning Þorsteins Davíðssonar og sala Landsbankans eru bara örfá dæmi um nokkuð sem ég efast um að stjórnmálamenn í öðrum löndum hefðu getað haldið í stóla sína sem ráðherrar. Fyrir nokkrum mánuðum þurfti ráðherra í Svíþjóð að segja af sér vegna þess að barnfóstran hafði unnið svart hjá ráðherranum. Sagði Árni Matt af sér vegna búsetumálsins?
Nei, ég fæ ekki séð að stjórnmálamenn á Íslandi taki nokkuð mark á okkur, fólkinu. Hvorki þegar við söfnust saman og mótmælum né þegar við tjáum skoðanir okkar á opinberum vettvangi. Þeim er sama...nema einn dag á fjögurra ára fresti. Þá eru þeir allt í einu okkar besti vinir. Ég legg til að við temjum okkur minni fíla, ekki gullfiska, og refsum þeim grimmilega í næstu kosningum.
Bækur | Mánudagur, 10. nóvember 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Núna þegar eftirlitsstofnanir eru komnar á fullt við að rannsaka þrotabú gömlu bankanna, þá er ýmislegt að koma upp á yfirborðið sem má kalla skít. Það er ljóst að töluvert af drasli og viðbjóð hefur verið sópað undir teppið síðustu dagana fyrir hrun, sbr. fréttir af afskriftum lána og millifærslum upp á milljarða á óþekkta reikninga í löndum þar sem erfitt er að komast að því hver á þá reikninga.
Í allri þeirri umfjöllun er alltaf sagt að Fjármálaeftirlitið sé að rannsaka málið sem og skilanefndir. Auk þess er komin óháð rannsóknarnefnd að rýna í þessar afskriftir. Þetta er allt gott og blessað, þótt fyrr hefði verið segi ég nú bara. Ég hefði haldið að það væri nú bara hlutverk Fjármálaeftirlitsins að fylgjast með þessum málum og upplýsa rétta aðila (og almenning, vona ég) þegar eitthvað misjafnt á sér stað.
Ég verð samt að viðurkenna að mér þykir nokkuð undarlegt að láta stofnun sem ég fæ ekki betur séð en hafi ekki sinnt hlutverki sínu og í raun staðið sig nokkuð illa, rannsaka hrunið og í raun rannsaka um leið sjálfa sig og hvernig hún hefur staðið sig á undanförnum árum. Ef í ljós kemur að ekki var allt með felldu innan bankanna á síðustu árum, þá hlýtur FME að hafa átt að hafa eftirlit með því og koma upp um það.
Ef stofnunin upplýsir um stórfellt misferli er hún þá ekki um leið að fella dóm um eigin hæfi og störf á sama tíma?
Því sit ég uppi með þá spurningu, hver hefur eftirlit með eftirlitsstofnunum? Hver fylgist með því að FME sópi ekki líka undir teppið einhverju misjöfnu í starfi bankanna, sem er áfellisdómur á starf stofnunarinnar?
Ég held, að þörfin á því að fá erlenda rannsóknaraðila sé ansi sterk en um leið er það erfitt, því viðkomandi hafa ekki sömu þekkingu og FME á íslensku fjármálalífi. Þetta er með sönnu ákveðin dilema sem við stöndum í.
Er kannski bara spurning um að fá þingið til að rannsaka þetta? Er það einhverju skárra?
Ég veit það ekki. Ég held, að það verði margt í þessu sem muni ekki koma upp á yfirborðið og þurfum við, almenningur, að vera vel á verði.
Bækur | Fimmtudagur, 6. nóvember 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Á miðöldum voru þeir sem höfðu örlítið meira vit í kollinum og einhverja efnafræðikunnáttu oft kallaðir alkemistar eða gullgerðarmenn. Goðsagan segir að æðsta takmark þeirra var að búa til gull úr öðrum verðlausum eða verðminni efnum. Það var oftar en ekki ákveðin mystík sem var yfir þessum mönnum, þeir álitnir jafnvel galdramenn og þaðan af verra.
Þegar ég hugsa til þessara goðsagna af þessum mönnum, því þetta voru menn en ekki konur (þær voru einfaldlega bara nornir), þá get ég ekki annað en sett þetta í samhengi við Ísland. Ég veit ekki til þess að hér hafi verið gullgerðarmenn á miðöldum, í mesta lagi voru þeir sem kunnu einhverja rúnagaldra og slík þekking var þó ekki á hverju strái.
Fyrir utan hina augljósu tengingu, þ.e. að hér myndaðist stétt fólks, sem samanstóð að mestu af karlmönnum, sem bjó til gull eða pening úr engu og ákveðin mystík var yfir þessum hópi, þá er svolítið merkilegt að hugsa til þess að þetta er nokkuð sem var á miðöldum í Evrópu en á 21. öldinni hér.
Þegar ég held áfram að hugsa um þessa samlíkingu, þá sé ég að það er þó ekki allt sem stenst í henni. Sú þekking sem gullgerðarmennirnir komust yfir varð síðar meir að grunni fyrir efnafræði og mætti kalla þá fyrstu efnafræðingana. Þeir gerðu svo miklu meira en að rembast eins og rjúpan við staurinn að búa til gull, eins og þeir íslensku. Ástarlyf hvers konar, lækningar, eitur og eiturlyf eru bara örfá dæmi um það sem alkemistarnir dúlluðu sér við.
Ef grannt er skoðað kemst maður að raun um, að okkar auðmannastétt var kannski ekki svo lík gullgerðarmönnum. Í raun, sé mið tekið af viðskiptaháttum þeirra á milli sín (Pálmi og FL group með Sterling, afskriftir skulda stjórnenda Kaupþings), þá er líklegra að maður lítil til sjónhverfingamanna en alkemista. Hvað voru þessi viðskipti annað en sjónhverfingar? Reykur og ljós?
Er hægt að búa til eitthvað úr engu, án sjónhverfinga?
Bækur | Þriðjudagur, 4. nóvember 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þegar maður stendur frammi fyrir álíka viðburðum og umhleypingum og nú, þá vakna margar spurningar í kollinum á mér. Bankarnir hafa allir hlotið ný heiti, heita ný nýi þetta og nýi hitt, stjórnmálamenn tala um hið nýja Ísland. Nú sé tími tækifæra og framtíðin sé björt.
Ég spyr þó, hvað er það sem við ætlum að læra af þessu?
Ætlum við að hætta í einkavinavæðingunni? Geir Haarde virðist ekki á því máli, skipaði eiginkonu sína til forsætis í nefnd um Listahátíð. Davíð situr enn sem fastast og virðist ekkert á því að stíga af stóli.
Er tími ofurlauna liðinn? Tja, laun bankastjóra og forstjóra spítalanna eru langt umfram launum ráðherra, en ég teldi eðlilegt að ráðherrar væru hæst launuðu ríkisstarfsmennirnir.
Erum við laus við baktjaldamakk? Nei, það lítur ekki út fyrir það. Ef allt væri með felldu, þá væru stórkarlar á borð við stjórnendur og millistjórnendur í bönkunum langflestir farnir á hausinn. Hvað varð um skuldir þeirra?
Ég held þó, þegar upp verður staðið, þá munum við ekki líta aftur og skoða endilega þessi atriði. Mig grunar að þau verði gerð upp, fyrr eða síðar. Hins vegar eru það gildin sem hafa ríkt undanfarin ár sem ég tel að við þurfum að skoða kannski með hvað mestri gagnrýni, þ.e. þau gildi sem við höfum sjálf tekið þátt í að móta og fylgt.
Sú brjálæðislega efnishyggja sem við, kannski ekki öll, en flest, höfum sýnt er ekki til hins betra, að mínu mati. Er virkilega mikilvægara að eiga flatskjá, til að eyða kvöldinu fyrir framan, en að eiga heilbrigt og hamingjusamt barn? Eða 5 milljón króna jeppa? Er kapphlaupið um gæðin svo mikilvægt að við gleymdum okkur í því?
Ég viðurkenni fúslega að hafa tekið þátt í því. Ég keypti bíl á lánum, á flatskjá (reyndar ekki stóran, en flatskjá engu að síður), tölvur, fór utan og naut góðærisins til hins ítrasta. Eflaust meir en sumir en minna en aðrir. Ég á líka dóttur og var ekkert að spara í við hana. Hún er hjá mér aðra hverja viku og ég held, að sumpart hafi ég gleymt mér í því að eiga pening og geta keypt handa henni það sem hana langaði í, að vissu leyti svo ég væri ekki með samviskubit yfir því að leika mér í dótinu mínu. Var svo kannski um fleiri?
Hvað með virðingu? Ég held stundum, að við Íslendingar þekkjum ekki merkingu þessa orðs. Nærtækasta dæmið er einföld búðarferð í Bónus. Löng röð á kassa 1 og því er kassi 2 opnaður. Þá er kapphlaup þeirra er standa í röðinni að kassa 1 yfir á kassa 2, í stað þess að bera virðingu fyrir því að sá sem er búinn að standa lengst í röðinni sé fyrstur á kassa 2. Nei, við skulum flýta okkur og reyna komast fram fyrir í röðinni.
Unglingar bera ekki virðingu fyrir fullorðnum, kæra jafnvel kennara sína ef þeir skamma þá. Fólk ber almennt ekki virðingu fyrir hvort öðru, nema að mjög takmörkuðu leyti. Svo lengi sem það gagnast þeim, t.d. fólk ber virðingu fyrir yfirmönnum sínum, en ekki fyrir lögreglunni. Þetta er svolítið brenglað. Er það eitthvað sem við viljum hafa áfram? Er hið nýja Ísland land virðingarleysis?
Ábyrgð er annað hugtak sem ég held að merking hvers hefur glatast. Stjórnmálamenn bera ekki ábyrgð. Yfirmenn í bönkum bera ekki ábyrgð. Samt eru þessi menn í ábyrgðastöðum og fá greitt samkvæmt því. Meira að segja auðmenn og útrásarvíkingarnar bera ekki ábyrgð á ástandinu, heldur er það neysluhyggju almennings að kenna, skv. Björgólfi eldri.
Er þá mér að kenna að Icesave ruglið fór í gang? Af því ég vildi keyra bíl, horfa á sjónvarp og komast á internetið? Eins og venjulegt fólk í útlöndum gerir líka? Er það kannski líka mér að kenna, að bankamenn tóku lán fyrir hlutbréfkaupum, létu bankana borga fyrir sig í veiði og undir sig 10 milljón króna jeppa? Er það mér að kenna að útrásarvíkingarnir seldu og keyptu hver af öðrum, í þeim tilgangi einum að hækka verðgildi eigna sinna? Ber ég ábyrgð Davíð, Birni, Árna Matt og Árna Johnsen?
Tja, ég skal fúslega viðurkenna að ég get tekið ábyrgð á því síðasta, því ég kaus Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum. Ef það er eitthvað eitt sem ég mun taka með mér til hins nýja Íslands, þá er að læra af þeim mistökum.
Bækur | Mánudagur, 3. nóvember 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Aldrei þessu vant ætla ég ekki að segja sögu eða fjalla um hrollvekjur, þ.e. bókmenntalegar hrollvekjur. Í þetta skipti ætla ég að blogga um eitthvað mun alvarlegra og hryllilegra en nokkur skáldskapur nær yfir.
Það þarf víst ekki að fjölyrða um það ástand sem er núna á Íslandi og hvaða áhrif það hefur. Atvinnuleysi, verðbólga og verðhrun á fasteignum er nokkuð sem maður er orðinn gott sem ónæmur fyrir í fréttaflutningi fjölmiðla. Ég held að nær flestir þekki þetta og enginn á landinu muni komast ósnortinn frá þessu ástandi.
Auðvitað kemur þetta mismunandi niður á okkur. Sjálfur hef ég þurft að horfa á húsnæðis- og bílalánin hækka, líkt og nær allir í kringum mig. Það er nú þyngra en tárum taki að horfa á þá litlu eign sem maður var búinn að koma sér upp hverfa og verða að engu, en á meðan enginn deyr og allir í kringum mann fá að borða og halda vinnu, þá getur maður víst ekki kvartað.
Og þó...
Það er eitt sem ég vil kvarta yfir og mér finnst afar lélégt af stjórnvöldum, ef satt reynist. Nú var ég að heyra og lesa á nokkrum stöðum á netinu, að bankarnir væru að afskrifa þau lán sem starfsmenn og stjórnendur fengu til kaupa á hlutabréfum. Ástæðan ku vera sú, að ef þessi starfsmenn verða gjaldþrota þá mega þeir ekki starfa innan bankageirans.
Sjá: http://eyjan.is/silfuregils/2008/10/30/nokkur-lesendabref-i-vidbot/
Ég spyr: Er eðlilegt að afskrifa lán þessarar stéttar? Er eðlilegt að þeirra lán séu metin hærra en þau lán sem við hin, sem tilheyrum ekki þessari stétt, tókum til kaupa á húsnæði og bílum?
Mér finnst ansi hart, að vita til þess að bankinn ætlar að ganga hart eftir því ég greiði á mínum gjalddögum, lækka jafnvel yfirdráttarheimild mína að mér óspurðum, heimta veð og ég veit ekki hvað og hvað, þegar starfsmenn bankans þurfa ekki að sæta sömu meðferð.
Hvers vegna eru lán þeirra sem unnu innan bankageirans og hefðu, eðli hlutarins vegna, átt að vita manna best hver áhættan af slíkum lánum og þeim fjárfestingum sem þeim fylgdu, afskrifuð?
Þetta eru einna helst stjórnendur innan bankakerfisins, skilst mér. Einmitt þeir sem sögðu þjónustufulltrúum og verðbréfamiðlurum innan þeirra banka að ráðleggja viðskiptavinum að kaupa hlutabréf og leggja fé sitt í peningamarkaðssjóði. Af hverju eiga þeir ekki að gjalda fyrir þá áhættu sem þeir tóku? Á meðan eigum við að horfa upp á okkar lán hækka og hækka, afborgarnir hækka í takt við það.
Þetta finnst mér ákaflega óréttlátt og samrýmast engan veginn hugmyndum um jafnrétti og jafnræði.
Bækur | Föstudagur, 31. október 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Jæja, síðasta færslan í þessari sögu.
Elsku Sigga mín,
þungu fargi er af mér létt. Ég hef komist til botns í þessu. Þvílíkt glópalán!
Við Páll fórum ásamt nokkrum sjóliðum inn á heimili Hermanns og Katrínar. Við byrjuðum á heimili Katrínar og fundum þar lítið. Reyndar hirti Páll það litla sem við fundum sem hægt var að græða á. Það fór verulega í taugarnar á mér að fá ekki tækifæri til að skoða þessa hluti, sér í lagi einkabréfin hennar, áður en hann fór í gegnum þau. Eftir því sem liðið hefur á rannsóknina finnst mér hann hafa dregið úr mér og reynt að breiða yfir ýmislegt sem mér hefur þótt merkilegt.
Hús Hermanns var mun eftirtektarverðara. Þar var allt á rúi og stúi og augljóst að ekki hafði verið hugsað um heimilið í marga daga. Óhreinir diskar og bollar út um allt í eldhúsinu og stofan hálfpartinn á hvolfi, glerbrot út um allt. Ég get ekki lýst því nógu vel, en þar sem ég þekki vel hversu hreinlæti skiptir þig máli þá veit ég að þér hefði þótt viðbjóðslegt að koma þarna inn. Við leituðum í öllu húsinu og Páll heimtaði að ég færi niður í kjallara, en sjálfur ætlaði hann að sjá um efri hæðina og eflaust hugsað sér gott til glóðarinnar, vildi komast í svefnherbergin og leita þar.
Ég fór með semingi niður en bað einn sjóliðann um að hafa auga með honum. Þegar ég kom niður sá ég strax að Hermann hafði haldið sig þar af einhverjum ástæðum, ég skildi ekki af hverju þá. Ég leitaði bæði hátt og lágt þar niðri og fann nokkuð stórmerkilegt. Það voru lausar gólffjalir undir dýnu sem hann hafði komið fyrir undir stiganum. Ég tók þær úr og þar undir lágu margar stílabækur. Svo virðist vera sem Hermann hafi haldið dagbækur. Þær voru að minnsta kosti fimmtán. Ég blaðaði í gegnum þær og fann nýjustu fimm. Hinar lét ég Pál hafa en sagði honum ekki frá þeim nýjustu. Eftir að við höfðum rannsakað restina af húsinu þá héldum hvor okkar leið og eflaust hefur hann hugsað sér jafn gott til glóðarinnar og ég.
Svo virðist vera sem Hermann hafi truflast á geði. Hann sá skugga alls staðar og samkvæmt dagbókunum hefur hann myrt Hólmgeir, bæjarstjóra og loks öll börnin. Ég hitti reyndar Hólmgeir fyrir örfáum dögum, þannig það hefur varla getað verið satt. Hitt er hins vegar staðreynd, að skólinn brann og enginn annar en Hermann kemur nú til greina. Mér sýnist líka, að eflaust hefur það verið hann sem eitt vitnanna heyrði segja innan úr skólahúsinu á meðan það brann: - Þetta getur ekki verið. Þú átt ekki að vera hérna! Þetta er eina vitræna skýringin. Reyndar er margt sem ég hefði viljað skoða betur hér í þorpinu, það kemur svo ótalmargt spánskt fyrir sjónir. Fólkið hér er ekki eins og annars staðar. Mér stendur hreinlega stuggur af því. Enn meira nú eftir að ég er búinn að lesa dagbækur Hermanns.
Ég lét Pál vita að ég hefði lokið rannsókn minni og væri á leið aftur heim. Guði sé lof, þá kemst ég loksins úr þessu ömurlega þorpi. Skipstjórinn ætlar að leggja í hann strax í kvöld. Ég er því á leiðinni heim. Ég get ekki beðið eftir því að hitta ykkur Bjössa, fá að knúsa þig og kyssa. Mig er farið að dauðlanga til að leika við hann, hlægja með honum og hjálpa honum að taka fyrstu skrefin. Ég hlakka svo til að vera með ykkur ég fæ mig eiginlega ekki hamið.
Ástarkveðjur,
þinn að eilífu,
Jón Einarsson.
P.S. Helvítið hann Frikki. Týndi hann svo settinu? Hann skal fá að borga nýtt.
Bækur | Mánudagur, 20. október 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1. nóvember
Ég sofnaði í nótt en samt svaf ég ekki vel. Mér finnst eins og augnaráð Skelmis fylgi mér hvert sem ég fer. Er ég lokaði augum var sem ég sæi hann stara á mig með allri þeirri grimmd og græðgi sem honum var unnt. Það var kannski þetta myrka eðli, dýrið sem bjó í honum sem lifir áfram í minningu minni. Ég vildi óska þess ég gæti ýtt þessari tilfinningu frá mér, en það er eins og hluti af honum hafi náð að tóra áfram inni í mér. Ég vona bara, að þetta líði hjá.
Eftir ég hafði drukkið morgunkaffi ákvað ég að fara í göngutúr. Ég ætlaði að kíkja upp í kirkjugarð og fara að legsteinu pabba, hann er reyndar ekki grafinn, þar sem líkið fannst aldrei en séra Tómas vildi að við mamma ættum okkur stað í garðinum eins og aðrar fjölskyldur sem misst höfðu einhvern í hafið. Við létum gera fallegt sjóbarið grjót að legsteini og mamma valdi línu úr ljóði sem ég man ekki lengur hvað heitir. Reyndar var það aðeins yfirskin ferðar minnar, því mig langaði helst til að grafa það eina sem ég átti til minningar um Katrínu í helgri jörð. Ég stakk því rifna kuflinum inn á mig og rölti grunlaus af stað. Um leið og ég kom út þá fannst mér eins og ekkert hefði breyst. Bæjarbúar voru vel flestir risnir úr rekkju að mér sýndist og margir á ferli úti, enda fallegt veður, frost og stilla. Mér fannst eins og allir væru að fylgjast með mér. Ég reyndi eins og ég gat að láta sem ég tæki ekki eftir því, en hvert sem ég fór og hverjum sem ég mætti, þá horfðu allir undarlega á mig. Eins og ég hefði gert þeim eitthvað. Reiðin brann í augum þeirra. Er ég kom upp í kirkjugarð breyttist það. Umhverfis hann er gamalt járngrindverk, sem mér finnst alltaf eins og séu nokkur hundruð spjót sem hefur verið stungið í jörðina. Oddhvassar járnstangirnar eru sumar bognar og illa farnar. Einhvern tíma hefur grindverkið verið málað svart og þeim lit hefur það haldið á flestum stöðum. Inni í garðinum hafði snjór safnast saman milli leiða. Krossar af mismunandi stærðum og gerðum stóðu upp úr sköflum, skakkir og margir hverjir illa farnir og á sumum er ekki lengur hægt að lesa nafn þess er hvílir undir. Flestir legsteinarnir voru á kafi í snjó.
Ég gekk rakleiðis að legsteini pabba. Ég þurfti að hreinsa töluvert af snjó ofan af honum. Síðan settist ég niður og tók laumulega fram kuflinn. Ég leit í kringum til að gæta að hvort nokkur væri að fylgjast með. Þá sá ég hvar Snorri stóð hinu megin við grindverkið næst mér og starði mig. Augu hans voru full af heift, augasteinarnir eins og tveir litlir kolamolar sem brunnu af reiði og þrá til þess að rífa útlimi mína af búknum. Hann rétti upp höndina, á andlit hans kom illilegt glott og hann veifaði mér. Ég tróð kuflinum aftur inn á mig í flýti. Hann var klæddur í rauða úlpu og hárið snyrtilega greitt til hliðar. Ég flúði í ofboði úr garðinum. Hann elti mig og kallaði á eftir mér:
- Hermann kennari, Hermann kennari. Er ekki allt í lagi?
Hann reyndi að hljóma barnalega og græskulaus, en ég fann kaldhæðnina streyma yfir mig úr orðum hans. Ég veit, að hann hefur fundið fyrir því að ég drap Skelmi, það hljóta allir að hafa fundið fyrir því og hann vill ábyggilega koma fram hefndum. Honum skal þó ekki verða að ósk sinni. Ég hljóp við fót heim. Í hvert sinn sem ég leit við var hann fyrir aftan mig, á rólegum gangi en samt aldrei nema um fimm metra frá mér. Hann hefur einhverja yfirnáttúrulega hæfileika. Ég skeytti engu um viðbrögð annarra bæjarbúa, því margir þóttust reka upp stór augu er ég kom hlaupandi niður úr kirkjugarðinum.
- Hermann kennari, ég ætla bara að tala við þig. Er ekki allt í lagi, kallaði Snorri á eftir mér. Ég fann hvernig illkvittnin kraumaði undir og ég þorði varla lengur að líta um öxl. Ég flýtti mér aftur heim. Er ég stóð á tröppunum leit ég eitt augnablik aftur fyrir mig. Snorri stóð við garðhliðið og starði á mig. Brosgretta lék um varir hans. Í augum hans var návera sem ég átti alls ekki von á að finna, eins og eitthvað mun eldra og frumstæðara en ég er. Eins og Skelmir. Ég skellti strax í lás á eftir mér um leið og ég kom inn. Síðan setti ég glas upp á hurðarhúninn og þaut niður í kjallara og faldi mig með öxina hjá mér undir stiganum. Náði ég ekki að drepa Skelmi? Tókst honum með einhverjum hætti að flytja sig yfir í líkama Snorra áður en ég hjó í höfuð hans?
Hvað er þá til ráða? Verð ég að drepa alla til að frelsa heiminn frá þessum djöfulsskap?
---
Guð minn góður!
Þau ætla að éta mig. Þau hljóta hafa komist að því að ég drap Skelmi, eða gerði heiðarlega tilraun til þess. Hann hlýtur að hafa sett þeim það verkefni að gera út af við mig. Þau eru öll á eftir mér og vilja éta hold mitt. Þeim hefur ekki nægt að borða Katrínu, nú vilja þau ná mér.
Ég varð þess áskynja að einhver gekk heim tröðina. Ég greip um öxina og skreið aftur undir stigann, en það var aldrei bankað. Ég beið í hátt í fimmtán mínútur áður en ég fór aftur fram úr fylgsni mínu. Ég hafði ekki heyrt hvort sá sem gekk að húsinu hafi aftur horfið á braut. Mig grunaði því að einhver biði fyrir utan eftir tækifæri til að ráðast á mig. Ég fór varfærnislega upp úr kjallaranum og kíkti fram. Ég sá ekki neinn á ganginum. Ég lagðist á magann og dró mig áfram uns ég sá inn í stofu. Hún var mannlaus. Ég lyfti mér upp á fjóra fætur og flýtti mér yfir að glugganum. Varlega skaut ég höfðinu undir tjöldin og lyfti mér nægilega hátt upp til að sjá yfir gluggakistuna.
Fyrir utan gluggann stóð meira en tugur manns. Snorri var fremstur. Eða var það Skelmir? Öll störðu þau hungruð á mig. Augasteinarnir eins og títuprjónshausar. Blóðþorsti og hungur skein úr þeim. Þau opnuðu munninn og ég sá grilla í mjóa anga. Rúðan virtist svigna inn að mér vegna þrýstings frá fólkinu. Öll vildu þau ná mér. Þau teygðu sig eftir mér. Angarnir skutust úr munnum þeirra. Það small í rúðunni er þeir skullu á henni. Í gegnum gluggann fann ég stækjuna sem stafaði frá þeim. Snorri var með lokaðan munninn. Hann starði bara á mig. Ég reyndi að krafla mig í burtu en var sem lamaður af ótta. Ég fann hvernig augnaráð þeirra reyndi að bora sig inn í huga minn. Þau vildu éta mig, eins og þau átu Katrínu.
Mér tókst að lokum að skríða undan gardínunum. Ég stóð á fætur og ætlaði að hlaupa af stað, en datt um sófaborðið og velti því um koll. Ég hljóðaði upp fyrir mig, því ég átti allt eins von á þau myndu brjótast inn hvað úr hverju. Ég dró mig áfram eftir gólfinu, hálfkjökrandi af ótta, í átt að kjallaradyrunum. Eftir ég náði taki á hurðarhúninum stóð ég á fætur og læsti á eftir mér. Síðan hljóp ég niður brattan stigann og kom mér fyrir undir honum á leynistaðnum mínum. Þá uppgötvaði ég að mér hafði tekist að týna öxinni. Ég teygði mig í verkfærakassann og fann stóran hamar. Ég verð að láta hann duga ef þau skyldu ná að finna mig hér.
Um stund fannst mér ég heyra umgang uppi. Skelmir hefur ábyggilega látið einhvern fara um húsið í leit að mér og dagbókunum mínum. Hann vill eflaust að þær falli ekki í rangar hendur. Hvað get ég svo sem gert við þær? Ég þarf að fela þær einhvern veginn, ef honum tekst að gera mig að marglyttuþræl eru þær það eina sem stendur í vegi fyrir honum. Ætti ég að senda mömmu þær? Ég veit það ekki, þær upplýsingar sem bækurnar hafa að geyma myndu bara íþyngja henni. Ég hef heldur ekki verið nógu duglegur að gera mér ferð yfir heiðina til að heimsækja hana. Svo er það náttúrulega hann Róbert, afabróðir minn, en hann er orðinn svo ær af elli. Hann myndi síst skilja það sem hér stendur. Ég þarf að finna leið.
---
Hvernig gat ég verið svona blindur!?
Það er eitt afl í heiminum sem hreinsar betur en nokkuð annað. Eldur. Allt um lykjandi eldur. Brennandi eldur. Yndislegi eldur. Ég ætla að brenna drengdjöfulinn! Ég ætla að láta tungur eldsins sleikja allt hold af viðbjóðslegum beinum hans. Hitann sprengja augun í tóttunum. Og losa heiminn endanlega við Skelmi.
---
Ég er búinn að ákveða hvernig ég ætla að fara að þessu. Þetta er eina leiðin. Hún er ekki góð en ég verð að fara hana.
Ég ætla að kveikja í skólahúsinu á morgun á meðan kennslunni stendur. Það þýðir að fleiri börn munu deyja, en það er fórnarkostnaður sem ég er tilbúinn að greiða. Ef mér tekst að stöðva Skelmi þá er það ofar öllu. Ég verð að koma í veg fyrir að Skelmi takist að finna sér bólfestu í öðrum líkama. Hann má ekki sleppa. Ég mun líka verða eldinum að bráð, en ég hugga mig við það að síðar meir munu aðrir líta á mig sem hetju. Það er ekkert hér sem heldur í mig. Móðir mín er fyrir mörgum árum komin inn á geðsjúkrahús og hefur hvorki rænu né vit á að hafa samband. Fyrir utan Róbert gamla er hún eini eftirlifandi meðlimur fjölskyldunnar. Bæjarbúar átu konuna sem tók mér eins og ég er, konuna sem fékk hjarta mitt til að slá örar. Hvað er hér sem togar í mig? Ekkert.
Þau munu öll brenna. Ég vona, að foreldrar þeirra finni í hjarta sínu frið til að fyrirgefa mér. Ef þau vissu sannleikann, ef þau væru ekki marglyttuþrælar sjálf þá myndi þau þakka mér og jafnvel aðstoða mig við þetta. Ég held, að þegar Skelmir er allur, þegar mér hefur tekist að drepa helvítið á honum, þá frelsast allir undan áhrifum marglyttanna. Þau hljóta að skilja, að þetta er gert í þeirra þágu. Ég er ekki skúrkur, heldur hetja.
Ég ætla að verða mér úti um eldsneyti og koma fyrir í brúsum hér og þar um skólahúsið. Ég þarf að fara á eftir og negla aftur alla glugga, til að tryggja að enginn sleppi. Ég vil ekki eiga hættu á að Skelmi takist að komast undan. Þegar allir eru sestir í sæti sín, þá læsi ég öllum hurðum og kveiki í. Skólinn skal brenna til grunna.
---
Allt er klárt.
Bækur | Sunnudagur, 19. október 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31. október
Ég sat undir stiganum í nótt og beið. Það kom samt enginn. Ég veit þó, að þau voru úti, eins og úlfar sem elta uppi bráðina og bíða þess hún misstígi sig. Ég ætla að passa mig á að hleypa þeim ekki nálægt mér. Ef ég geri það, þá er voðinn vís. Þá gæti allt eins farið fyrir mér og Katrínu. Skelmi hefur tekist að koma fjórum fyrir kattarnef, þeim Kolbrúnu og Katrínu auk Hólmgeirs og Öldu. Ég veit ekki hvar þetta allt endar, en ég skal ekki láta hann komast upp með að myrða fleiri. Ég ætla að grípa í taumana, hvernig svo sem ég fer að því.
Hann sendi Pál til að fylgjast með mér í morgun. Í morgun varð ég var við að einhver væri að sniglast í kringum húsið. Ég sá ekki neinn þegar ég kíkti út um kjallaragluggann en það var einhver þar, ég er viss um það. Grunur minn var svo staðfestur þegar ég heyrði að bankað var á útidyrnar. Glasið sem var á hurðarhúninum small í gólfinu og ég greip með mér öxina áður en ég gekk hikandi upp stigann. Í fyrstu hélt ég að þetta væri eitthvað bragð hjá Skelmi, þykjast banka til að draga mig út úr felustaðnum og einhver sæti fyrir mér uppi. Ég fór því að öllu með gát en það var enginn sem beið eftir mér. Eflaust hafa þau ekki þorað að takast á við varnirnar sem ég hef komið upp. Ég hreinsaði glerbrotin frá dyrunum og opnaði litla rifu, þannig ég rétt sá út. Öxinni hélt ég í vinstri hönd og faldi fyrir aftan hurðina, þannig hann sæi hana ekki. Páll stóð kæruleysislega fyrir utan, ekki í lögreglubúninginum heldur í rauðri vinnuskyrtu og bláum buxum. Hann reyndi að líta kæruleysislega út en ég sá í gegnum hann. Vatnsgreitt hárið og grimmdarblikið í augum hans minntu mig samstundis á Snorra og ég vandaði um við mig, að ég væri í raun og veru ekki að tala við æskuvin minn heldur eitthvað mun hræðilegra, veru sem hugsaði ekki um neitt annað en að éta. Ég var fæðan.
- Sæll, Hemmi minn, sagði hann og steig upp í tröppurnar að dyrunum, eins og hann byggist við því ég myndi hleypa honum inn. Þegar hann sá ég ætlaði ekki að opna fyrir honum, kom örlítið hik á hann.
- Ég sá þig ekki í sundi í morgun, bætti hann síðan við hálfvandræðalega.
- Í sundi, spurði ég og reyndi að hljóma undrandi.
- Já, í sundi. Það er búið að opna laugina aftur.
Hvernig datt honum í hug ég vilji synda í þessum viðbjóði? Hélt hann virkilega að ég sæi ekki í gegnum þetta? Seinast þegar ég vissi var vatnsveitan í ólagi en nú er allt í einu allt í stakasta lagi og allir eiga að fara í sund. Ég er nú hræddur um ekki. Ég sá í gegnum þessi bellibrögð hans.
- Ég ákvað bara að sofa út, svaraði ég og reyndi að sjá hvort nokkur væri fyrir aftan hann. Mig var farið að gruna að þetta væri samantekin ráð hjá þeim Skelmi, til að sjá hvort ég væri orðinn einn af þeim. Páll horfði um stund á mig og ég sá hvernig hann dauðlangaði til að opna munninn og hleypa öngunum og þreifiörmunum út til að rífa holdið af beinum mínum.
- Heyrðu, vinur, sagði hann loks og setti upp eins einlægan svip og honum var unnt.
- Katrín kíkti til mín í gærkvöldi og hún hefur áhyggjur af þér. Þú hefur hagað þér frekar undarlega síðustu daga og þú kemur vægast sagt furðulega fyrir. Er ekki allt í lagi? Mér sýnist þú ekki hafa rakað þig svo dögum skiptir og hvað er langt síðan þú fórst í bað?
Ég horfði um stund á Pál. Mig langaði til að segja honum allt saman, en ég vissi sem var að hann myndi bara nota tækifærið til að ráðast á mig. Ég þrengdi því rifuna enn frekar.
- Ég er búinn að vera lasinn, sagði ég og lokaði.
Fara í bað? Hvernig í ósköpunum á ég að fara að því? Vatnsveitan biluð og ekki nenni ég að hita upp það mikinn snjó það myndi duga til að fylla baðkarið mitt. Auk þess treysti ég ekki vatninu, Skelmir gæti allt eins verið búinn að koma því þannig fyrir að marglytturnar berist í gegnum pípulagnirnar inn í hvert hús. Er það furða þó ég þori ekki að skrúfa frá?
Ég þarf að finna leið til stöðva Skelmi.
---
Ég er búinn að ákveða hvað ég ætla að gera. Ég lagðist undir feld niðri í kjallara og reyndi eins og ég gat að finna hvað væri best í stöðunni. Nú efast ég stórlega um að Skelmir vilji láta líkama Hólmgeirs af hendi, þannig það þarf með einhverjum ráðum að neyða hann út. Ég held - og það hryggir mig að segja það - að eini möguleikinn felist í að drepa líkamann. Þar með kemst Skelmir ekki lengra og ég hef stöðvað hann. Það er vissulega ekki góð leið, ég í raun dæmi einn af mínum elstu vinum til dauða en hvað get ég annað gert? Skelmir hefur myrt að minnsta kosti fjórar manneskjur, allt góðvini mína og Guð einn veit hversu margar þær eiga eftir að verða áður en yfir líkur.
Ég ætla að laumast yfir til hans í nótt. Hann verður vonandi einn heima. Ég ætla að taka öxina hans pabba með. Ég vona bara, að ég hafi styrk til þess þegar að hinni mikilvægu stund kemur. Hugsanir mínar munu dvelja hjá Katrínu. Ég mun gera þetta fyrir hana.
Ef eitthvað skyldi fara úrskeiðis þá vona ég að einhver taki upp þráðinn þar sem ég skyldi við hann. Ég ætla að fela dagbækurnar mínar undir gólfborðunum hér í kjallaranum. Kannski að einhver muni síðar meir finna þær, ef ég fell eða Skelmi tekst að gera mig að marglyttuviðbjóði. Kannski að þeim sama takist síðan að stöðva hann. Ég vona bara, að enginn af þeirra liði finni dagbækurnar og geri sér grein fyrir að ég veit allt saman. Þá er voðinn vís.
---
Guð minn góður! Ég næ varla andanum.
Ég laumaðist út um ellefuleytið. Ég klæddi mig í gamla frakkann enn á ný og var með bæði húfu og vettlinga. Það blés örlítið og skóf úr sköflum. Fyrir utan birtuna frá minnkandi mánanum þá var almyrkt. Svo virtist vera sem allir bæjarbúar væru farnir að sofa. Ég var því feginn, því þá var minni hætta á að einhver tæki eftir för minni. Ég þræddi krákustíga heim að gamla kaupmannshúsinu. Ég reyndi eins og mér var mögulegt að fylgja troðnum slóðum, en þar sem töluvert hefur skafið undanfarnar klukkustundir var það erfitt. Ég verð bara að vona að enginn taki eftir sporunum er ég skildi eftir. Ætli mjöllin setjist ekki í þau líka og hylji áður en nóttin er úti?
Er ég stóð fyrir framan hús Hólmgeirs og Öldu fann ég fyrir undarlegum ótta. Það var almyrkt fyrir utan ljóstýru í einum glugga á efri hæðinni, þar sem skrifstofa Hólmgeirs er. Að öðru leyti grúfðu myrkur og skuggar yfir þetta gamla og, það sem mér fannst eitt sinn, fallega hús. Grýlukerti héngu neðan úr þakskegginu, sum voru á lengd við framhandlegg fullvaxins karlmanns en önnur minni. Öll voru þau beitt og um stund fannst mér eins og þau biðu eftir því ég kæmi nógu nálægt, svo þau gætu fallið á mig, klofið hauskúpu mína. Vindurinn söng í mæninum og sendi þunnar fannarslæður ofan af þakinu. Ég opnaði hliðið og skaust inn í garðinn. Þar reyndi ég að halda mig í skugga hússins - en samt ekki of nálægt þar til ég kom að bakdyrunum. Þær voru ólæstar.
Ég opnaði dyrnar ofurvarlega. Ég reyndi eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að nokkur hávaði myndaðist. Þvottahúsið var myrkvað, líkt og flest herbergi hússins, en þar var nokkuð súr lykt. Stafli af óhreinum fötum var í einu horninu og mér var ljóst að enginn hafði sinnt þvottinum í þó nokkurn tíma. Ég hallaði á eftir mér og klæddi mig úr skónum. Ég fór í ullarsokka áður en ég lagði af stað, til að tryggja ég gæti gengið um hús Hólmgeirs eins hljóðlaust og unnt var, því ég vildi koma Skelmi að óvörum. Inni í eldhúsi var allt á rúi og stúi, leirtau lá eins og hráviði í vaskinum og óhreinir kaffibollar út um allt. Ég flýtti mér í gegn og inn á ganginn sem lá á milli stofunnar, eldhússins og anddyrisins. Það var þykkt teppi á gólfum sem dró enn frekar úr því litla sem heyrðist frá fótataki mínu. Mér kom hins vegar á óvart að finna hve rakt var inni í húsinu. Yfir öllu var einhver drungi, þung saggalykt og ég fann fljótlega að ég var orðinn votur í fæturna. Ég beygði mig niður og þreifaði á gólfteppinu. Það var rennandi blaut. Ég leit í kringum mig og tók þá eftir að veggfóðrið var bólgið, eins og það hefði orðið fyrir skemmdum vegna vatns. Breytingarnar síðan ég var þar síðast voru ótrúlegar, ábyggilega því að kenna að Skelmir var að ná betri tökum á líkamanum og gat þar af leiðandi leyft sér að breyta heimilinu, gera það líkara þeim viðbjóði sem hann vill að viðgangist hér. Ég ákvað að eyða ekki tíma í þetta, heldur halda áfram ótrauður ætlunarverki mínu.
Ég fikraði mig upp stigann. Lyktin á efri hæðinni var mun verri. Hún minnti mig um margt á óþefinn sem fylgdi marglyttunum, þegar þær lágu rotnandi á baðströndinni. Upp í hugann kom mynd af þeim er öldurnar báru þessi viðbjóðslegu dýr á land. Ég tók öxina upp úr frakkavasanum og gerði mig kláran. Er ég kom upp varð ég var við mannamál. Ég staldraði við og lagði við hlustir.
- gerðu það, Alda mín, snúðu nú aftur heim. Leggjum þetta mál til hliðar. Þú veist hversu leitt mér þykir þetta allt saman. Það eina sem ég þrái er að þú komir aftur, ég er ónýtur án þín, sagði Skelmir með rödd Hólmgeirs. Það var greinilegt hann vissi af mér og hefur eflaust ætlað að slá ryki í augu mín. Ég lét hann þó ekki blekkja mig, þetta var aum leið. Alda er fyrir löngu síðan látin, það stóð í bréfinu sem Hólmgeir sendi mér áður en hann þurfti að gefa eftir líkama sinn.
Það virtist enginn annar vera inni í skrifstofunni með Skelmi. Dyrnar stóðu opnar í hálfa gátt. Ég hætti á að kíkja inn. Hann sat í háum skrifborðsstól úr leðri og sneri baki í mig. Mér sýndist hann vera einn. Hann hélt á símtóli í vinstri hendinni. Hárið var ógreitt.
- Já, elskan mín, það er alveg rétt. Auðvitað særði ég þig og ég sé svo óendanlega eftir því. Ég vildi óska þess ég gæti tekið það allt saman tilbaka, en það er víst ómögulegt. Það eina sem ég get gert er að biðja þig afsökunar aftur og aftur, sagði hann. Ég lét það samt ekki stöðva mig. Hann var sniðugur og lúmskur eins og refur, en ég vissi betur. Ég læddist aftan að honum.
- Nei, það hef ég ekki gert. Ég er bara búinn að vera ónýtur maður síðan þú fórst. Hef varla getað hugsað um neitt nema þig. Páll kom hérna í morgun ásamt vísindamanninum, þeir voru að fara yfir niðurstöður Hannesar annars vegar og hvernig gengi að hreinsa ströndina hins vegar en ég gat ekki einbeitt mér að því. Alda, ég hef varla sofið dúr síðan þú fórst, það er vart hægt að segja ég hafi borðað nokkuð. Þú verður að koma aftur. Ég er ekkert ef þú ert ekki hér, sagði hann í símann um leið og ég kom mér vel fyrir með öxina á lofti fyrir aftan hann. Ég kippti í stólinn og sneri honum í hálfhring. Skelmi virtist brugðið.
- Hvað, sagði hann og starði á mig. Hann lék þetta vel en ég sá í gegnum hann.
Augnaráð hans var það sem sveik hann. Augasteinarnir voru pínulitlir og boruðu sig í gegnum sálu mína. Mér fannst eins og ég hyrfi aftur undan þeim ógnarkrafti sem í augum hans bjó. Eins og eitthvað mun eldra og frumstæðara byggi í þeim og neyddi mig til hlýðni. Augun voru heiðblá og minntu mig á hafið, stormasamt og villt, það var sem vitund mín sogaðist ofan í djúpið sem í þeim bjó. Ekkert nema ég og hafið allt um kring. Yfir mig helltist tilfinning um ég væri að drukkna og andardráttur minn varð ör. Ég herti tak mitt á öxinni. Þar var líka einhver skepna, skelfileg og blóðþyrst, samt einhvern veginn hamin eða króuð af og reiðin sauð í henni.
- Hólmgeir, sagði kvenmannsrödd í símanum. Eflaust einhver af marglyttuþrælunum sem Skelmir hefur fengið til að leika á móti sér.
Hann sat og starði á mig. Grimmdin og harkan í augnaráði hans var mér næstum um megn. Skelmir var að reyna beygja vilja minn undir sig. Upp í hugann skaut minningunni frá því í gærnótt, er hann lét bæjarbúa borða hana Katrínu mína. Mér fannst ég geta heyrt í henni tala til mín.
- Gerðu það fyrir mig. Dreptu hann. Gerðu það fyrir mig.
- Hólmgeir, ertu þarna, spurði kvenmannsröddin undrandi í símanum. Ég get ekki annað en viðurkennt að þetta var úthugsað hjá Skelmi. Hann hefur átt von á því ég myndi koma. Hins vegar misreiknaði hann sig í því hann myndi ná tökum á mér. Ég reiddi öxina til höggs. Þá var eins og hann gerði sér loks grein fyrir að hann hefði gert mistök. Hann sleppti símtólinu og reyndi að bera hendurnar fyrir sig. Enn ómaði rödd Katrínar í höfði mínu.
- Dreptu hann. Hann á það skilið. Dreptu hann.
Ég lét höggið falla.
Öxin stóð á kafi í höfðinu á Skelmi.
- Hólmgeir, var kallað í símtólinu.
Skelmir sat og starði á mig. Augnaráð hans var enn sem fyrr. Ég hörfaði aftur tvö skref. Vessi lak úr sárinu. Það var ekki blóð, heldur ljós næstum glær vökvi. Hann hrundi úr stólnum. Símtólið féll á gólfið. Ég tók það upp og lagði á. Síðan kippti ég öxinni úr undinni. Um leið var eins og marglytta læki út. Hún lá í teppinu um stund. Ég steig ofan á hana. Hún sprakk og rann saman við teppið. Líkami Hólmgeirs virtist dragast allur saman. Ég ákvað að flýta mér út. Ég stakk öxinni í vasann og fór sömu leið tilbaka.
Ég hef hefnt þín, Katrín. Ég er búinn að ná fram réttlætinu. Þetta hlýtur að stoppa núna. Skelmir er dauður. Þá hljóta marglytturnar að fara, ef enginn er lengur til að stjórna þeim.
Nú ætla ég að fara að sofa. Í fyrsta skipti í marga daga mun ég sofna rólegur.
Bækur | Föstudagur, 17. október 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30. október
Það hefur verið brotist inn hjá mér í nótt á meðan ég svaf! Þegar ég kom niður í morgun stóð hvít plastfata við eldhúsvaskinn. Mér krossbrá þegar ég sá hana. Ég hljóp um allt húsið og skoðaði hvort nokkuð væri horfið. Allt var á sínum stað, meira að segja dagbækurnar mínar lágu ósnertar á skrifborðinu mínu. Ég klæddi mig í og athugaði hvor nokkur ummerki væru í snjónum fyrir utan. Úti var töluverður kuldi og frostmistur hefur stigið upp af haffletinum og vafið þorpið í kaldar krumlur sínar. Ég hneppti að mér, dró húfuna sem ég var með á kollinum niður fyrir eyrun og leit í kringum mig. Það eina sem stakk í stúf voru lítil skref sem lágu aftur fyrir hús. Ég gerði því ráð fyrir að sá sem braust hér inn hafi farið inn um bakdyrnar. Ég fór því aftur inn og athugaði þær, en dyrnar voru harðlæstar.
Mig grunar sterklega að Skelmir hafi sent einhvern af krökkunum hingað með fötu með marglyttum handa mér. Hann hlýtur að vita að ég er búinn að sjá í gegnum allt saman. Ég veit hvað hann ætlar sér. Ég skal verða honum þyrnir í augum, ég mun aldrei drekka vatn mengað með þessum ógeðslegu verum. Þær skulu ekki fá að taka yfir líkama minn, líkt og hann hefur látið þær gera með aðra sem hér búa. Ég skil bara ekki hvers vegna fólk sér ekki í gegnum þetta. Aðrir íbúar þorpsins hljóta að spyrja sig hvers vegna vatn er borið í hús þegar allt er á kafi í snjó, ég trúi ekki öðru. Kannski ætti ég að reyna koma vitinu fyrir þeim.
Jæja, ég verð að drífa mig til vinnu. Ég vil ekki að Snorri eða þau hin beri þær fréttir í Skelmi ég mæti ekki í skólann. Ég má ekki láta á neinu bera. Kannski ef mér tekst að láta sem ekkert sé, heldur hann ég hafi drukkið vatnið og ég sé einn af þeim. Æ, hvað get ég gert? Hvað á ég að gera?
---
Guð minn góður! Hvað er að gerast? Er ég einn eftir? Sá eini sem eftir stendur?
Á leiðinni í skólann sá ég hvar fötur stóðu við flest hús. Þar sem ég gekk niður götuna mína tók ég eftir öðrum íbúum opna dyrnar og ná í þær. Til dæmis stóð Kári á náttslopp í dyragætt er ég átti leið framhjá og beygði sig eftir sinni fötu, um leið og hann sá mig brosti hann kumpánlega til mín í gegnum skeggbroddanna og hrósaði mér fyrir hversu vel nemendur mínir væru uppaldir og duglegir.
- Ég ímynda mér að þú eigir ekki litla sök á hversu fórnfúsir krakkarnir eru. Að vakna eldsnemma og bera vatn í hvert hús í þorpinu, sagði hann rámri röddu. Ég var svo gáttaður á þessum ummælum ég stóð orðlaus og starði á hóteleigandann. Hann blikkaði mig með öðru auga og lokaði síðan að sér. Ég var sem steini lostinn. Hvernig gat honum dottið í hug ég ætti einhvern þátt í þessu?
Ég reyndi að ýta öllum þessum hugsunum frá mér og halda áfram. Ég ætlaði að koma við hjá Katrínu og vara hana við, síst af öllu vildi ég að hún drykki mengaða vatnið. Eftir stutta göngu sá ég hvar Gunnar læknir stóð í dyrunum heima hjá sér, klæddur rauðri húfu og með skræpóttan trefil. Ég ætlaði að heilsa honum, en sá þá hvar hann hélt á vatnsglasi. Hann bar það upp að vörum sér. Ég öskraði til hans, hann leit á mig en drakk úr því. Hann lyfti upp hendinni og veifaði til mín. Ég hljóp af stað og þaut í einu hendingskasti sem leið lá til Katrínar.
Mér fannst sem kuldamistrið væri örlítið þéttara við húsið hennar. Hún á reyndar heima örlítið neðar í þorpinu en ég. Litla gula húsið hennar stóð eins og frosinn skuggi neðst í götunni. Það heyrðist lágt ískur í garðhliðinu er ég opnaði það. Það stóð engin fata við útidyrnar hjá henni. Ég fikraði mig að húsinu. Það brakaði í mjöllinni undir fótum mér, mér fannst sem hljóðið ætlaði að æra mig. Er ég kom að dyrunum sá ég inn um eldhúsgluggann. Þar stóð rauð fata á borðinu og tómt vatnsglas við hlið hennar. Ég greip fyrir munninn til að koma í veg fyrir ég hljóðaði upp fyrir mig. Um leið opnuðust dyrnar. Katrín starði gáttuð á mig.
- Er ekki allt í lagi, Hermann minn? Þú ert náfölur, eins og þú hafir séð draug, sagði hún og rétti út aðra höndina til að snerta mig. Ég skaust undan. Henni virtist bregða við það.
- Drakkstu það? Drakkstu vatnið, spurði ég.
- Já, svaraði hún og virtist ekki um sel.
- Guð minn eini, sagði ég. Hún horfði á mig um stund hugsi. Síðan svaraði hún ákveðið:
- Veistu, Hermann, ef þú ert að reyna að hræða mig, þá hefur það tekist. Mér er alls ekki um hvernig þú ert orðinn eða hvernig þú hefur hagað þér undanfarið. Þú ert alls ekki með sjálfum þér. Sjáðu útganginn á þér. Hvað er langt síðan þú rakaðir þig síðast eða greiddir þér almennilega? Mér líst alls ekkert á þessa breytingu. Þú ættir að fara hugsa þinn gang.
Síðan strunsaði hún framhjá mér og þrammaði sem leið lá niður í skóla, án þess svo mikið sem líta við. Ég stóð stjarfur eftir. Hvað gat ég sagt? Átti ég að segja henni sem var? Að Skelmir væri búinn að menga fyrir þorpsbúum og þar á meðal henni? Að marglytturnar væru gæddar einhvers konar ofurhæfileikum, gætu runnið saman við aðrar lifandi verur? Þær væru einhvers konar sníkjudýr sem breyttu persónuleika þeirra sem þær runnu saman við? Hver myndi trúa mér? Jafnvel nú, þegar ég sit hér einn inni í skáp, trúi ég varla sjálfur þessu. Sá raunveruleiki sem ég hef uppgötvað er svo miklu stærri og myrkari en sá sem ég hélt og trúði að væri sá hinn sanni.
Ég gekk í vinnuna líkt og uppvakningur. Tilfinningar mínar og hugsanir hurfu ofan í eitthvað svarthol og líkami minn hélt áfram með vanaföstum en tilgangslausum hreyfingum. Jafnvel í skólastofunni var eins og ég væri á sjálfstýringu, mér leið sem ég væri nokkurs konar tilbúningur og gengi fyrir vélbúnaði. Það var ekki fyrr en Snorri tók til máls, að ég kom aftur til sjálfs mín. Hann sat, sem fyrr, út við gluggann og starði annars hugar út. Síðan hóf hann upp raust sína. Röddin var hrjúf og köld.
- Heyrið hvernig hún kallar. Heyrið hvernig hún kallar. Heyrið hvernig hún kallar okkur til sín.
Krakkarnir litu við og störðu í sömu átt og hann. Í augum þeirra var sama fjarræna blikið og ég hafði svo oft séð í augum hans undanfarna daga. Þá leit Snorri á mig og örfá sekúndubrot fannst mér andlit hans breytast. Glottið og grimmdarlegt augnaráðið hvarf og í stað þeirra kom eitthvað búlduleitara, glitrandi og miklu, svo miklu eldra. Ég fann græðgina og hungrið stafa frá því. Skelkaður féll ég nokkur skref aftur.
- Skólinn er búinn í dag, þið megið fara, flýtti ég mér að segja og hljóp út úr stofunni. Að örfáum mínútum liðnum var ég kominn heim. Ég greip dagbækurnar mínar og faldi mig hér inni í fataskápnum mínum. Þau munu ekki ná mér. Ég skal aldrei verða eins og þau. Ég þarf bara að finna leið til að komast héðan, - til að stoppa þau. Stoppa Snorra. Stoppa Skelmi. Það verður einhver að gera. Er ég sá eini sem er með einhverju viti hérna?
---
Ég er búinn að snúa á þau. Ég útbjó rúmið með þeim hætti að það virðist sem einhver liggi þar. Síðan fór ég með nokkur teppi niður í kjallara ásamt dýnu úr rúminu í gestaherberginu og kom mér fyrir undir stiganum. Ég er einnig búinn að leggja glös ofan á hurðarhúna beggja útidyranna. Þeim skal ekki takast að ná mér líka. Ég mun fyrr deyja en að láta svona marglyttu taka yfir líkama minn. Ég ætla að vaka í nótt, ég er með öxina úr gamla verkfærasettinu hans pabba hér við höndina. Hver sá sem ætlar að brjótast hingað inn þarf að mæta mér.
Það er samt eitt sem ég skil ekki. Hvers vegna? Hvað fær Skelmi til að vilja gera þorpsbúum þetta? Hvers vegna vill hann að allir verði að svona marglyttufólki? Ég þarf að komast að því. Einhverjar ástæður hljóta að liggja þarna að baki, eitthvað sem ég hef ekki ennþá séð eða skilið. Hvað er það sem skeður þegar marglytta rennur saman við manneskju? Ég hef séð hvaða breytingar verða á fasi fólks, en ég hef ekki hugmynd um hvað gengur á í kollinum á því. Ætli allir breytist í marglyttur, grimmari en maður getur nokkurn tíma ímyndað sér? Ég veit það hreinlega ekki, ég get ábyggilega engan veginn gert mér í hugarlund hvað vakir fyrir Skelmi. Kannski að
---
Ég drep hann! Ég mun murka úr honum líftóruna. Ég skal drepa helvítið á honum. Djöfull skal ég rífa úr honum kolsvart hjartað og leyfa honum að sjá hvernig lífið fjarar úr því.
Áðan heyrði ég hvernig einhver rjátlaði við hurðina, því annað glasið small í gólfinu og fór í þúsund mola. Ég spratt á fætur með öxina í hendinni og hljóp upp stigann. Einhver hafði reynt að opna útidyrnar. Ég fór mér í engu óðslega og passaði mig á því að kveikja engin ljós. Ég fór á fjóra fætur og skreið inn í stofu. Ég þurfti að passa mig á glerbrotunum, en það var frekar dimmt og ég fékk eitt í höndina. Ég þurfti að bíta á jaxlinn til að hljóða ekki upp, því ég vildi ekki að neinn vissi ég væri heima. Er ég kom að stofuglugganum reyndi ég að færa þykkar gardínurnar örlítið frá eins varlega og mér var unnt. Ég smokraði höfðinu undir tjöldin og rétt kíkti upp fyrir gluggakistuna.
Fyrir utan streymdi fólk úr húsum, misjafnlega vel klætt. Sumir voru klæddir í þykk vetrarklæði, aðrir voru á náttfötunum. Það skipti engum togum hvert ég leit, nær alls staðar voru dyr opnar og íbúar þorpsins gengu, að mér virtist, svefndrukknir niður götuna. Það virtist enginn vera í garðinum hjá mér eða yfirhöfuð gefa mér nokkurn gaum. Ég lét mig falla aftur á gólfið. Ég vissi ekkert hvað var að gerast í þorpinu, en ákvað að kanna það frekar. Það hefði ég betur látið ógert.
Ég fann gamla frakkann og klæddi mig í hann. Ég stakk exinni í annan vasann, lét á mig ullarhúfu og læddist út um bakdyrnar, eftir að hafa gengið úr skugga um það væri enginn í bakgarðinum að fylgjast með mér. Um leið og ský sigldi fyrir mánann skaust ég út og hélt mig í skugga hússins. Það blés örlítið og snjóföl fauk á milli húsa, eins og hvít lök á þvottasnúrum að sumri til. Það var þó lítið annað sem minnti mig á sumar. Ég fann fljótlega að ég hefði átt að fara í vettlinga, en ákvað að halda áfram í stað þess að snúa við. Íbúar þorpsins liðu áfram, eins og draugar í gegnum vegg, þeir virtust ekki taka eftir mér, heldur héldu áfram af draumkenndum vana niður götuna og út að baðströndinni. Illur grunur fór að læðast að mér. Ég greip í þann sem gekk mér næst og reyndi að ná til hans. Því miður skipti engu máli hvað ég gerði eða sagði, allir voru sem dáleiddir og drógust að ströndinni. Ég stoppaði og fylgdist með bæjarbúum staulast síðasta spölinn. Þegar sá síðasti hvarf yfir steinkambinn ákvað ég að koma mér fyrir þannig ég gæti horft yfir samkunduna.
Ég fékk ekki betur séð en á ströndinni væru vel flestir bæjarbúar samankomnir. Þau stóðu í hálfhring og opnaðist hringurinn að hafinu. Í honum miðjum stóð Skelmir í líki Hólmgeirs og var að tala. Ég heyrði reyndar ekki hvað hann sagði en af og til svaraði hópurinn á tungumáli sem ég hef aldrei heyrt áður og vona ég þurfi aldrei að heyra aftur. Að stuttri stund liðinni tóku þau að syngja sama söng og ég heyrði krakkana kyrja fyrir tveimur dögum. Allir sem einn vögguðu til og frá. Minnugur hvað gerðist síðast leit ég í ótta út á svartan hafflötinn. Þá dró fyrir tunglsljósið og um stund varnaði næturmyrkrið sýn. Ég sá rétt niður að hópnum þar sem hann stóð og söng.
Þegar birtan jókst á ný stóð Skelmir ásamt Snorra í miðjum hringnum. Á milli þeirra var einhver manneskja klædd í svartan kufl með mikla hettu yfir höfðinu. Hún var á hæð við Skelmi, kannski ívið minni. Ég reyndi að skríða örlítið nær en það var erfitt að finna stað þar sem ég sá vel yfir. Skelmir hóf upp raust sína og söng eitthvað á þessu hræðilega tungumáli sem þau virtust öll kunna. Síðan kippti hann hettunni ofan. Þetta var Katrín! Ég var sem lamaður af ótta. Hún hreyfði hvorki legg né lið. Starði fram fyrir sig eins og hún væri uppstoppuð. Á sama augnabliki tóku öldurnar að bera fjöldann allan af marglyttum á land. Upp úr sjónum reis mikill griparmur. Bæjarbúar þrengdu hringinn um Katrínu og voru vel flestir mjög nálægt henni. Skelmir lyfti báðum höndum upp til himins, sem væri hann í einhvers konar tilbeiðslu. Griparmurinn teygði sig að Katrínu. Ég starði á í hljóðlausri skelfingu. Hvað gat ég gert? Hann vafðist um hana. Það fóru kippir um líkama hennar. Þá var eins og hún kæmist til sjálfrar sín. Hún leit í kringum sig. Griparmurinn tók um höfuð hennar. Skelmir reif kuflinn og kippti honum af henni. Hún stóð nakin fyrir framan bæjarbúa.
Ég stóð á fætur og tók öxina úr vasanum. Bæjarbúar opnuðu munninn hver á fætur öðrum. Út komu þreifiarmar og angar. Hver þeirra vafðist um útlimi Katrínar. Hún reyndi að berjast um en fjöldinn var of mikill. Ég reyndi að hrópa en þau virtust ekki heyra í mér. Síðan hvarf hún ofan í mannhafið. Ég greip fyrir munninn í hryllingi þegar ég gerði mér grein fyrir hvað þau voru að gera. Mér fannst allt hringsnúast í hausnum á mér og ég þurfti að leggjast niður. Ég hlýt að hafa sofnað eða fallið í yfirlið því þegar ég rankaði aftur við mér voru allir horfnir á bak og burt. Það var eitthvað sem togaði mig niður á ströndina. Það voru engin ummerki að sjá, hvorki tangur né tetur eftir af marglyttunum. Hvert sem ég leit, þá var eins og enginn hefði komið þangað í þó nokkurn tíma. Ég leitaði eftir sporum en fann engin önnur en mín eigin. Ég var því farinn að halda mig hefði dreymt þetta allt saman, gengið þangað niður eftir í svefni kannski. Á leið minni aftur heim fann ég hins vegar svolítið sem sannar að það sem ég sá var raunverulegt. Ég fann rifinn, svartan kufl hálfur á kafi í snjóskafli í bakgarði rétt hjá ströndinni.
Ég veit ekki hvernig Skelmir fór að því að afmá öll ummerki en hann skal ekki fá að njóta þessarar ánægju lengi. Ég mun drepa hann og koma í veg fyrir honum takist ætlunarverk sitt, hvert svo sem það er. Spurningin er bara hvernig. Læt það bíða til morguns. Nú þarf ég að vaka og tryggja þeim takist ekki að gera mig að marglyttuþræl.
Bækur | Fimmtudagur, 16. október 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Elsku Sigga,
ég veit ekki hvað það er en ég þoli ekki þennan stað öllu lengur. Þetta þorp, fólkið sem býr hér, umhverfið, allt saman hefur slík áhrif á mig ég fæ vart lagt augun aftur og slakað á. Það er ekkert eitt sem ég get bent á, heldur samspil alls þessa samspil sem minnir mig umfram allt á endalausan jarðarfaramars.
Í dag áttum við að rannsaka hús kennaranna, en Páll tók það ekki mál. Hann var búinn að samþykja dagskrána fyrir þó nokkru síðan en dró í land í morgun. Mig langaði einna helst til að kyrkja hann, enda setti þetta allt úr skorðum. Ég hefði eflaust látið það eftir mér, ef ég hefði nokkra löngun í að snerta slepjulega húð hans. Hann starði á mig sigri hrósandi og glotti. Mér finnst hann hreint út sagt ömurleg persóna. Þess í stað fór ég ásamt sjóliðunum aftur í skólahúsið og unnum þar þangað til að myrkur skall á.
Við ákváðum að borða á kaffihúsi þorpsins í stað þess í matsal varðskipsins. Um leið og við gengum inn sló þögn á gesti staðarins. Þau störðu á okkur, ég lýg því ekki en það fór hressilega um mig. Öll þessi augu, ögn útstæð og sum pínu tileygð. Okkur hefur orðið tíðrætt um þetta útlitseinkenni þorpsbúa hér um borð. Fæstir kunna á því aðrar skýringar en að hér hafi í gegnum tíðina verið of mikill skyldleiki meðal fólks. Við reyndum að láta fjandsamlega þögnina inni á kaffihúsinu ekki hafa áhrif á okkur, létum sem ekkert væri og spjölluðum saman yfir matardiskunum. Á leiðinni heim vorum við hins vegar flestir sammála um, að því fyrr sem þessari rannsókn lyki, því betra.
Er Bjössi eitthvað að koma til? Mér varð einmitt hugsað til síðasta sumars er ég las bréfið frá þér. Þegar við vorum úti í ey, manstu? Ég hélt ég yrði ekki eldri ég hló svo mikið. Hann hnerraði svo hryllilega hlægilega en samt af miklum krafti þrátt fyrir að vera bara pínulítill. Æ, mér leiðist svo að vera frá ykkur. Ég vildi óska þess ég lægi núna við hlið þér í rúminu okkar, í stað þess að húka í þessari óþægilegu koju og reyna að hripa eitthvað niður.
Mamma sendi mér örfáar línur fyrir skemmstu. Ég hafði ekki hugmynd um að Sissa og Haffi ættu í einhverjum vandræðum. Er allt upp í háaloft? Það væri synd ef þau myndu skilja. Hvernig það færi með strákana, ég er ekki viss um það myndi leggjast vel í þá. Þeir eru svo ungir. Ég vona, að þau finni einhverja leið út úr þessu.
Jæja, ég ætla að fara slökkva ljósið og reyna sofna. Ég sakna ykkar og hugsa til ykkar á hverjum degi. Knúsaðu Bjössa frá mér. Ég vildi ég gæti tekið utan um þig og kysst þig, en þú verður bara að loka augum og ímynda þér ég sé þarna hjá þér.
Ástarkveðjur,
þinn Jón Einarsson
PS. Værirðu til í að ganga svolítið eftir honum? Þú veist alveg hvernig Frikki er.
Bækur | Miðvikudagur, 15. október 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Ágúst 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar