29. október
Ég lá andvaka langt fram eftir nóttu. Öðru hvoru skaust ég fram úr rúminu og laumaðist til að líta út um gluggann, en ég kom ekki auga á neinn fyrir utan. Ætli Skelmir sé hættur að láta fylgjast með mér? Kannski að atburðurinn í nótt hafi verið fyrir tilstilli hans. Að ætlunarverki hans sé formlega lokið. Samt finnst mér það ótrúverðug skýring. Ég fæ nefnilega ekki alveg séð hvernig þetta tvennt tengist, nema það sem Hólmgeir nefndi í bréfinu.
Eftir stuttan morgunverð klæddi ég mig og lagði síðan af stað til vinnu minnar. Katrínu hafði ég lofað að fylgja í skólann, þannig ég gekk sem leið lá til hennar. Ég var nokkuð snemma á ferðinni og því ekki margir á ferli, fyrir utan trillukarlana sem voru komnir á fætur langt á undan mér. Veður var stillt og himinn gott sem heiður, en fremur kalt. Það brakaði í snjónum undan fótum mér er ég gekk niður strætin, að öðru leyti var eiginlega þögn. Þar sem ég rölti einn með sjálfum mér fannst mér eins og allt sem hefur gerst undanfarna daga svo fjarlægt og óraunverulegt. Þorpið er einhvern veginn að komast í eðlilegt horf, orðið sjálfu sér líkt aftur.
Á sömu stund og ég átti leið framhjá gamla kaupmannshúsinu steig dr. Hannes út um útidyrnar, mér til mikillar undrunar. Hann var klæddur í hvítan slopp og með gleraugun á nefinu. Hann brosti alúðlega er hann tók eftir mér, þar sem ég stóð steinhissa á miðri götunni.
- Sæll, Hermann. Mikið ert þú snemma á fótum, sagði hann og sló kumpánlega á öxl mína. Ég starði gáttaður á hann um stund.
- Hvað í ósköpunum ertu að gera hér? Hvar hefur þú haldið þig undanfarna daga, spurði ég og viðurkenni fúslega, að mér hitnaði nokkuð í hamsi. Ég hef litið við hjá honum nokkrum sinnum eftir hann lét sig hverfa án þess að tala við kóng eða prest. Ég hef meira að segja beðið Pál um að líta eftir honum. Páll tók hins vegar fálega í það, eins og svo margt annað sem ég hef beðið hann um undanfarið.
- Alveg rólegur, vinur minn, á þessu eru röklegar og góðar skýringar. Hins vegar er hér hvorki staður né stund til að ræða það, sagði hann og horfði stíft í augu mér, eins og hann vildi segja mér eitthvað sérstakt en gæti það ekki þarna. Ég kinkaði kolli. Auðvitað var þetta rétt hjá honum, það er ýmislegt sem er betra að ræða undir fjögur augu, eins og til dæmis atburði næturinnar. Ef einhver gæti hugsanlega fundið út úr þeim haldbærar útskýringar þá er það hann, hugsaði ég með sjálfum mér um leið og ég kvaddi hann.
Skömmu síðar stóð ég fyrir utan hjá Katrínu. Út um opinn eldhúsgluggann heyrði ég hana bölsótast yfir einhverju. Án þess að banka gekk ég inn og fann hana við eldhúsvaskinn.
- Er ekki allt í lagi, spurði ég. Hún hrökk við, greip fyrir brjóstið og leit hvelft aftur fyrir sig, sem ætti hún von á að sjá einhvern djöful í dyragættinni.
- Guð minn eini, Hermann, þú mátt ekki gera mér svona bylt við, svaraði hún og gaf mér koss á vangann.
- Nei, veistu, ég skil þetta ekki. Þegar ég kom niður þá var fínn kraftur á vatninu, en núna lekur varla úr krananum. Gæturðu kannski athugað þetta fyrir mig, bætti hún síðan við. Ég er nú lítt handlaginn maður en get alveg bjargað mér með þá hluti sem bila á mínu heimili, svona oftast nær allavega. Ég opnaði skápinn undir vaskinum og athugaði hvort ekki væru öll rör í lagi, hvort nokkur leki væri en sá ekki neitt sem gæti hugsanlega verið bilað. Eftir um tíu mínútur ákváðum við að láta þetta eiga sig, fá einhvern sem hefur meira vit á pípulögnum en ég til að skoða þetta.
Er við komum í skólann tók ég strax eftir að Snorri, Bergdís, Þórarinn og örfáir aðrir nemendur voru ekki mættir. Ég ákvað vera ekkert að bíða þeirra, heldur hóf kennsluna þó svo stofan væri hálftóm. Hinir nemendurnir litu undrandi í kringum sig og skildu ekki almennilega hvers vegna þau voru ekki mætt og sjálfir kunni ég engar útskýringar á því. Það var ekki fyrr en eftir frímínútur að þau skiluðu sér í skólann. Ég fylgdist með þeim er þau komu gangandi í einum hnapp inn skólahliðið, Snorri og Þórarinn fremstir. Án þess svo mikið sem að biðjast afsökunar á fjarvistinni flýttu þau sér hvert til síns sætis þegar bjallan glumdi. Ég reyndi að krefjast svara en þau litu undan á Snorra, sem starði fjarrænn á svip út um gluggann yfir fjörðinn. Ég ákvað að láta þetta niður falla, minnugur atviksins síðustu nótt. Mér leikur meiri hugur á að fá skýringu á því en hvers vegna þessir nemendur mættu of seint.
Ég kom því bekknum af stað í stafsetningu en settist sjálfur niður til að fara yfir verkefnabækur. Í raun var það bara yfirskin, því öðru hvoru gjóaði ég augum þangað sem Snorri sat. Hann vann ekki neitt, heldur starði einbeittur út um gluggann. Munnvik hans voru örlítið beygð upp á við, sem gerði það að verkum mér sýndist hann glotta laumulega yfir einhverju. Hvað ég gæfi ekki fyrir að komast inn undir skelina hjá honum og öðlast stundarsýn á hvaða hugsanir svífa um í kolli hans. Það er eitthvað við þetta snyrtilega yfirbragð sem er ekki í lagi, eitthvað sem ég sé ekki og átta mig ekki alveg á. Nú á ég ekki við þá einföldu staðreynd að hann gjörbreyttist á einni nóttu, heldur útlit og yfirbragð hans í heild sinni. Það er hvernig hann brosir til mín, hvernig hann horfir á mig og hvernig hann lætur eins og sá sem valdið hefur. Hvað það er hins vegar sem fær hann til að vera svona, veit ég ekki hvað er.
Ég kláraði að fara yfir stafsetningaræfingar krakkanna, kastaði kveðju á Katrínu og hélt síðan til dr. Hannesar. Hann hafði verið mér ofarlega í huga í allan morgun. Þær voru ófáar spurningarnar sem ég hafði tilbúnar handa honum og þyrsti í svör. Ég tróð snjóinn á milli húsa til að fara stystu leið að lögreglustöðinni, það hefði ég betur látið ógert því minnstu munaði ég fengi í höfuðið stærðar grýlukerti er ég skaust fyrir hornið á Bláu Könnunni. Ég sá í hendi mér að ég hefði nær örugglega rotast hefði ég fengið það í mig, jafnvel höfuðkúpubrotnað. Mér var því frekar brugðið og eflaust hefur svipur minn sýnt það því er ég gekk inn á stöðina þögnuðu lögreglumennirnir sem sátu með hvorn sinn kaffibollann og spiluðu á spil. Ég reyndi að brosa til þeirra en þeir horfðu bara á eftir mér án þess að sýna nokkur svipbrigði. Það tók mig drykklanga stund að telja sjálfum mér trú um að í lagi væri að fara aftur inn í fangaklefann eftir það sem ég sá síðast.
Dr. Hannes var á kafi í vinnu er ég kom. Á borðinu fyrir framan hann var viðarkassi en á gólfinu við hlið hans stóðu tvær plastfötur, önnur rauð en hin hvít. Ég ræskti mig og hann leit á mig.
- Ah, Hermann, þú ert kominn. Þú verður að sjá þetta, sagði hann og benti mér á að koma nær. Ég gekk yfir til hans og laumaðist til að líta ofan í föturnar. Í annarri sá ég ekki betur en væru marglyttur, í þeirri hvítu voru þrjár litlar rottur.
- Sjáðu, sagði hann og opnaði kassann. Ofan í honum var hvítur bakki úr plasti og stóð dökk rotta í einu horninu. Um leið og hún sá okkur var sem rynni á hana æði. Hún hljóp um allt og reyndi að klifra upp til okkar, en dr. Hannes sló hana niður með mjórri spýtu. Ósjálfrátt varð mér hugsað til rottunnar sem marglyttan smaug inn í frammi fyrir sjónum mínum. Dr. Hannes hefur eflaust ráðið í svip minn, því hann kinkaði kolli og sagði:
- Já, þessi er með marglyttu í sér. Ekki nóg með það. Hún virðist óseðjandi. Ég hef látið tvær rottur í kassann með henni í dag og báðar hefur hún drepið og étið. Hún virðist eflast öll að styrk og hungrar enn frekar í meira.
- Hvað segirðu? Eflist hún að styrk við það að éta aðrar rottur, spurði ég gáttaður.
- Já, hún gerir það. Fylgstu með, svaraði hann og beygði sig eftir rottu úr fötunni. Eftir skamma stund hafði honum tekist að ná taki á einni og lét hana falla niður í viðarkassann. Ég tók eitt skref aftur því satt best að segja vildi ég ekki fylgjast með átveislunni. Hann leit á mig, brosti og lokaði kassanum. Ekki leið á löngu þar til kassinn kipptist til og þó nokkur hávaði heyrðist frá honum. Eftir hálfa mínútu eða svo dró mjög úr látunum. Ég leit hálfskelkaður á dr. Hannes sem virtist hafa mikla ánægju af þessu. Hann opnaði kassann og sagði upp úr eins manns hljóði:
- Hún lifir til að drepa og drepur til að lifa.
- Einfaldara verður það ekki, sagði ég og starði stjarfur á hann. Upp í hugann spratt samtal sem ég átti við hann skömmu eftir að Kolbrún fannst látin í lauginni. Ég fikraði mig hægt út úr fangaklefanum og hljóp síðan út. Það var aftur byrjað að snjóa, þungar flygsur sem svifu hægt til jarðar en samt var undarlegur seiður í loftinu. Ég veit ekki hvað það var, kannski var það minning mín um gærkvöldið sem hafði þessi áhrif á mig en mér fannst sem ég væri aftur farinn að finna fyrir stækjunni er kom þegar marglytturnar ráku á land. Sem í leiðslu gekk ég út eftir strætinu að götunni er lá niður að baðströndinni. Mér fannst sem allt væri hljótt. Ég tók ekki eftir neinu undarlegu í fyrstu, baðströndin var hulin snjó, líkt og allt annað, nema rétt niður við flæðarmálið. Ég stóð um stund og starði á bárurnar renna hægt upp í sandinn. Það var ekki fyrr en eftir nokkrar mínútur að ég tók eftir hvernig ljósið brotnaði í mjöllinni niðri í fjörunni. Ég tók nokkur skref nær og sá það, að marglyttur lágu þar í hundraða tali.
Ég hljóp við fót aftur upp á lögreglustöð til að láta Pál vita af þessu. Ég vissi að það þýddi ekkert að fara í ráðhúsið, þar myndi Skelmir eflaust gera lítið út öllu saman. Nei, Páll var rétti maðurinn og jafnvel dr. Hannes líka. Þegar ég kom aftur á lögreglustöðina mætti ég Snorra í dyrunum. Um varir hans lék sakleysislegt glott, en ég sá á grimmdinni í augum hans að ekki var allt með felldu.
- Snorri, hvað ert þú að gera hér, spurði ég. Hann leit upp til mín og reyndi að setja upp eins barnslegan og einlægan svip og honum var unnt.
- Hólmgeir bað okkur um að hjálpa sér. Ég var bara að koma með vatn því vatnsveitan er eitthvað í ólagi, svaraði hann og skokkaði á brott. Án þess að velta þessu eitthvað frekar fyrir mér flýtti ég mér inn á lögreglustöðina. Mennirnir tveir sátu þar enn við taflborðið og litu upp jafn hissa að sjá mig og áður. Ég flýtti mér fram fyrir borð þeirra, annar mannanna stóð upp og ætlaði að segja eitthvað en ég arkaði framhjá honum og inn að skrifstofu Páls. Áður en ég komst þangað kom ég auga á nokkuð sem olli því ég snarstansaði og fann hjartað hamast í brjósti mínu. Á gólfinu við hliðina á dyrunum inn til Páls stóð rauð plastfata! Hún var full af vatni, eða í fyrstu virtist svo vera. Ég starði um ofan í hana. Skyndilega sá ég örlitla hreyfingu. Hún var svo agnarsmá að mér finnst með ólíkindum ég skildi taka eftir henni. Dvergvaxin gára sem myndaðist og hvarf næstum eins og skot.
Ég greip andann á lofti. Upp í hugann skaut atburðinum frá því í gærkvöldi. Gat verið að þessi fata hafi komið þaðan? Ég beygði mig niður til að skoða hana nánar. Um leið heyrði ég einhvern skarkala koma innan úr skrifstofu Páls. Ég spratt á fætur og opnaði dyrnar. Páll stóð með hálftómt vatnsglas í annarri hendi og tók andköf. Hann var fölur í framan og augun rauð.
- Er ekki allt í lagi, spurði ég skelkaður.
Hann kinkaði kolli, bandaði mér frá sér og kláraði úr glasinu. Um leið og ég sá hann bera það að vörunum tók ég á mig stökk en var of seinn.
- Hvað ertu eiginlega að gera, spurði Páll hissa er hann sá mig koma aðvífandi.
- Ekki drekka vatnið, öskraði ég. Hann horfði á mig eins og ég væri sturlaður.
- Fullseint, svaraði hann og sneri glasinu við. Örfáir dropar fellur niður á gólf. Síðan spurði hann:
- Hvers vegna ætti ég ekki að drekka vatnið? Eitthvað verð ég að drekka.
Ég settist niður og greip fyrir andlit mitt. Hvað ef vatnið sem Snorri kom með var mengað? Hvað ef í því væru marglytturnar sem þau fiskuðu upp úr sjónum í nótt? Ég nuddaði gagnaugun og rétti úr mér.
- Ég veit ekki alveg hvernig ég get útskýrt þetta fyrir þér þannig þú trúir mér. Ég vona bara, vegna þess hve lengi þú hefur þekkt mig munir þú allavega gefa þér tíma til að hlusta á það sem ég hef að segja.
Páll kinkaði kolli. Hann gekk að dyrunum og lokaði þeim áður en hann settist niður. Hann var alvarlegur á svip er hann gaf mér merki um að byrja. Í fyrstu sagði ég honum frá öllu því er tengdist Hólmgeiri, bréfinu, uppgötvun dr. Hannesar um eiginleika marglyttanna og síðan grunsemdum mínum um að Skelmir léti fylgjast með mér. Að lokum sagði ég honum frá þeim breytingum sem ég hefði orðið vitni að hjá sumum nemenda minna og atburði næturinnar.
- Þetta tengist, þú hlýtur að sjá það, sagði ég og hallaði mér fram á skrifborð Páls. Skelmir hefur með einhverju móti náð að lokka til liðs við sig börnin. Í gervi Hólmgeirs hefur hann ábyggilega
Um leið og ég sleppti orðinu var sem svefn rynni á Pál. Augu hans lokuðust og höfuðið seig niður á bringu. Ég teygði mig yfir borðið og ýtti við honum. Hann rankaði við sér en um leið og hann lyfti höfðinu og sá mig, tók ég strax eftir að eitthvað var breytt. Augu hans voru dimm og í þeim grimmdarblik. Ég hrökklaðist aftur fyrir mig.
- Hermann, hvað ert þú að gera hér? Komstu inn á meðan ég dottaði, spurði hann og um varir hans lék lymskufullt glott. Án þess að svara hljóp ég eins hratt og mér var unnt út. Ég þaut eins og eldibrandur yfir skafla og grindverk alla leið heim til mín. Við dyrnar stóð hvít plastfata, full af því sem virtist vera vatn. Ég sparkaði henni um koll. Ég ætla ekki að láta eitra fyrir mér. Skelmi skal ekki takast að láta marglyttur taka líkama minn yfir. Ef ég verð þyrstur bræði ég snjó. Ég læsti öllum dyrum og gluggum. Öðru hvoru hef ég orðið var við mannaferðir fyrir utan. Ég efast ekki um að Skelmir gerir sér grein fyrir því, að honum mun ekki takast að gera mig að marglyttuþræl. Aldrei.
Bækur | Þriðjudagur, 14. október 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28. október
Ég svaf illa og vaknaði því seint. Ég hentist á fætur og sá á að ég hafði lítinn tíma til að borða. Eftir ég hafði klætt mig hljóp ég sem fætur toguðu í skólann, þrátt fyrir að mér væri meinilla við að mæta, því mér hefur sannarlega ekki liðið vel í vinnunni undanfarna daga. Á leið minni þurfti ég að klofa skafla sem náðu mér upp á miðja kálfa, ég var því bæði votur og sveittur er ég loks kom í skólahúsið. Ekki veit ég hvað Katrín heldur, ég hef bæði verið skelfilega undarlegur síðustu daga og auk þess furðulegur til fara. Einnig hef ég lítið náð að hitta hana vegna alls sem er að gerast. Á því verður þó bragarbót í kvöld.
Nemendur mínir týndust reyndar líka seint inn, eflaust má rekja það til færðarinnar. Þau voru einstaklega prúð í dag, en samt var einhver eftirvænting í þeim. Ég skil ekki alveg af hverju. Í hádegishléinu ræddi ég þetta við Katrínu og hún hafði orðið vör við það sama hjá sínum bekk. Reyndar hafði hún skýringu á þessu. Í námi hafði hún heyrt kennara sinn tala um áhrif gangs himintunglanna á líðan fólks og Katrín var viss um, að stórstreymið sem er væntanlegt á morgun orsakaði þennan spenning. Síðan talaði hún heillengi um rafsegulsvið jarðar og samspil plánetunnar og tunglsins. Ég hlustaði með öðru eyranu og kinkaði kolli af og til. Ég veit ekki hvað það var, en þegar hún minntist á að stórstreymt væri annað kvöld, þá var eins og allar viðvörunarbjöllur í hausnum á mér færu í gang. Kannski óttast ég að það færu fleiri marglyttur á land. Samt finnst mér eins og það sé eitthvað annað, ég geri mér bara ekki grein fyrir hvað það er.
Eftir að kennslunni var lokið sat ég um stund inni í stofunni minni og reyndi að ná einhverri yfirsýn á atburðina. Fyrst rak marglytturnar á land, þá fer einhver undarleg starfsemi í gang í kollinum á Skelmi og hann reynir að taka yfir líkama dóttur sinnar. Hólmgeir og Kolbrún ganga inn á þá athöfn og hann drepur Kolbrúnu fyrir vikið, kemur henni fyrir í sundlauginni ásamt nokkrum baneitruðum marglyttum, eflaust til að slá ryki í augu lögreglunnar. Nokkrum dögum síðar bankar hann upp á hjá mér og reynir að fá mig til að halda nemendum mínum frá ströndinni. Þá hverfur dr. Hannes og enginn virðist kippa sér upp við það. Því næst fékk ég bréfið frá Hólmgeiri og Páll vildi hvorki taka mark á því né viðvörunum mínum. Atburðarásin er einföld, en það eru svo margar spurningar sem sækja á mig. Hvernig kom Skelmir marglyttunum í laugina? Vissi hann af hæfileika þeirra til að smjúga inn í húð þeirra sem þær snerta? Var það þess vegna sem hann vildi ekki að börnin væru að fara niður á baðströnd? Ég fæ víst seint botn í þetta.
Við Katrín ákváðum sem sagt að eyða kvöldinu saman. Ég kvaddi hana áðan og gekk heim á leið, reyndar tók ég á mig krók til að sjá hvort Hólmgeir, eða Skelmir, væri hann í líkama Hólmgeirs, sæti á skrifstofu sinni. Þegar ég sá að svo var, taldi ég í mig kjark og heimsótti hann. Það kom mér á óvart að hann var einn á bæjarskrifstofunum. Hólmgeir virtist önnum kafinn þegar ég gekk inn til hans, hann grúfði sig yfir einhverja pappíra og fjölmargar bækur lágu opnar á borðinu fyrir framan hann. Sjálfur var hann klæddur í hvíta skyrtu og með blátt bindi, hann hafði losað aðeins um bindishnútinn og hneppt frá efstu tölunni ásamt því að bretta upp á ermarnar. Hárið var vatnsgreidd, eins og alltaf. Í raun sá ég ekkert sem benti til þess að það sem stóð í bréfinu ætti við rök að styðjast. Ég stóð í dyrunum og fylgdist með honum vinna um stund. Varir hans bærðust örlítið um leið og hann las úr þungri og rykugri skræðu. Ég ræskti mig og hann leit upp. Er hann sá mig brosti hann. Það var þó hvorki innilegt né gleðiríkt, heldur hungrað og grimmúðlegt. Mér brá í fyrstu en neyddi sjálfan mig til að halda áfram. Ég steig því varlega inn á skrifstofuna.
- Sæll, gamli vinur, sagði Hólmgeir og rétti úr sér í stólnum. Hann spennti greipar fyrir aftan hnakka.
- Já, blessaður og sæll, svaraði ég og stóð eins og illa gerður hlutur á miðju gólfinu. Hann benti mér á að setjast. Ég gerði eins og hann bauð, um leið reyndi ég að sjá hvað það væri sem hann var að gera með allar þessar gömlu bækur en ég náði ekki að sjá það nógu vel. Þó fékk ég ekki betur séð en þær væru útlenskar, mér gæti þó hafa missýnst. Eftir drykklanga stund og vandræðalega þögn tók ég til máls. Hann sat og fylgdist glottandi með mér. Mér leið hálfilla undir augnaráði hans.
- Er nokkuð að frétta af nýjum bókakosti fyrir skólann, spurði ég og reyndi að hljóma sakleysislega.
- Nei, svaraði hann eftir stutta umhugsun. Ég starði um stund á hann. Mér fannst eins og einhver birta hyrfi úr augu hans, líkt og þegar ský dregur snögglega fyrir sólu á björtum degi. Ég reyndi að láta á engu bera, þakkaði honum fyrir og stóð á fætur. Um leið og hann sá að ég var að gera mig kláran að fara, reis upp úr stólnum og sagði:
- Þakka þér fyrir komuna. Alda spurði um þig um daginn, þú ættir endilega að kíkja í mat eitthvert kvöldið.
- Já, kannski, svaraði ég, ekki þorði ég að spyrja hann út hvernig henni liði ef vera kynni hann skyldi gruna eitthvað. Ég gerði mig þess í stað líklegan til að hverfa á brott.
- Vertu sæll, Hólmgeir og þakka þér fyrir.
- Verið þér sælir!
Mér fannst eins og tíminn stæði í stað. Orðin köstuðust fram og aftur í kollinum á mér. Hólmgeir var ekki vanur að þéra mig en ég hef ekki umgengist Skelmi það mikið að ég geti sagt með vissu hvort hann hafi nokkurn tíma þérað mig, ég minnist þess þó ekki. Það er aðeins ein manneskja sem þérar mig. Alda. Hólmgeir sagði reyndar í bréfinu, að hún væri dáin. Hvernig getur þetta staðist? Hvers vegna ætli Skelmir taki upp á þessu? Kannski veit hann ekki, að við Hólmgeir vorum ekki vanir að sýna hvor öðrum slíka kurteisi, enda æskuvinir.
Þegar ég gekk út úr skrifstofunni fannst mér sem bergmál fótataka minna hljómuðu full hátt í gott sem yfirgefinni byggingunni. Er ég stóð við útidyrnar leit ég aftur fyrir mig og sá hvar Skelmir stóð íklæddur líkama fornvinar míns, hallaði sér með krosslagðar hendur upp að dyrastafnum og fylgdist með mér. Mig langaði einna helst til að öskra á hann. Hlaupa að honum og slá gerpið niður, neyða hann til að skila mér aftur þeim Hólmgeiri sem ég þekkti.
Jæja, nú fer klukkan að nálgast sjö og ég ætti að fara að drífa mig til Katrínar. Ég vona bara, að enginn elti mig þangað. Kannski er best að fara að öllu með gát og nota bakdyrnar. Ætti ég að dulbúa mig? Ég veit það ekki, ég vil ekki skjóta henni skelk í bringu, allavega ekki meir en komið er.
---
Er ég að missa vitið eða getur verið að hér séu að gerast atburðir sem eru svo ofar mínum veiklulega skilningi, að ég fæ ekki með nokkru móti séð hvernig þeir eiga við rök að styðjast? Eru augu mín kannski hætt að sjá og hugur minn fyllir upp í myrkrið með myndum sem í senn eru ógnvekjandi en jafnframt áhugaverðar í óútskýranleika sínum?
Kvöldverðurinn hjá Katrínu var með ágætum. Hún mætti mér í dyrunum klædd í rósótta sumarkjólinn sinn, þennan sem hún var svo oft í síðasta sumar. Hárið hafði hún flétt og hún hafði látið ilmvatn á sig. Um stund fannst mér ég hálfkjánalegur, því ég hafði ekki einu sinni farið í bað. Ég rétt skipti um föt. Einnig hefði ég kosið að hafa eitthvað meðferðis handa henni, eitthvað fallegt sem hefði glatt hana. Því miður þá man ég aldrei eftir svona löguðu, ég verð að bæta úr því. Hins vegar hrósaði ég henni fyrir hve falleg hún væri og það virtist gleðja hana. Að minnsta kosti kyssti hún mig þarna í forstofunni. Eftir matinn sátum við og spiluðum rommí fram til klukkan tíu. Á meðan við spiluðum ræddum við saman um ýmsa aðila í þorpinu, ætli ekki megi segja að við höfum verið að slúðra svolítið en það kemur ekki að sök. Hér vita allir allt um alla.
Ég þakkaði fyrir mig og bjóst til heimferðar. Um leið og hún hafði lokað að sér sá ég einhvern lítinn skugga speglast í rúðunni í hurðinni hjá henni. Ég sneri mér við og tók eftir hvar Þórarinn hvarf hlaupandi á milli húsa, ég þekkti hann á rauðum kollinum. Ég fékk ekki betur séð en hann væri með ljósa fötu í annarri hendinni. Ég ákvað að elta hann. Hann hljóp við fót troðinn slóða sem liggja á milli húsanna hér í þorpinu niður að ströndinni, þessi slóði er annars lítið notaður nú til dags, flestir fylgja gangstígunum þangað en hins vegar var hann notaður mun meira þegar ég var yngri. Yfir honum slútta tré og mér leið eins og þau mynduðu einskonar vírnet yfir mér. Ég fór að engu óðslega, því ég vildi ekki að hann kæmist að því ég væri skammt undan. Hann virtist ekki taka eftir mér og flýtti sér sem mest hann mátti, uns hann var kominn í sjónmál við ströndina. Hann leit um öxl, eins til að sjá hvort nokkur væri fyrir aftan hann. Ég kastaði mér í skjól. Þórarinn hélt áfram yfir grjótgarðinn og niður í fjörusandinn. Ég skreið áfram þar til ég sá vel yfir. Í fjöruborðinu stóðu ásamt honum þau Snorri, Bergdís og öll hin sem hafa undanfarið bæst í hóp þeirra. Einnig fékk ég ekki betur séð en með þeim væri einhver fullorðinn, hann var í þykkri úlpu með hettu á höfði en mér tókst ekki að komast nógu nálægt til að sjá andlit hans almennilega, líkami hans var þreklegur og þaðan sem ég horfði virkaði hann mikill um sig en þykk úlpan gæti hafa blekkt mig að einhverju leyti. Öll voru þau að þeim fullorðna undanskildum með rauðar eða hvítar fötur eða einhvers konar ílát. Þau stóðu þar um stund og ég held þau hafi verið að kyrja eitthvað, ómur af söng barst til mín og öll réru þau fram og aftur, sum þeirra héldust í hendur. Mér sýndist þau hreyfa sig í takt við öldurnar sem féllu að ströndinni. Ég fikraði mig örlítið nær. Öðru hvoru dró ský frá mána og daufa skímu lagði yfir vatnsflötinn. Þrátt fyrir hversu fáránleg mér þótti þessi samkoma og tilgangur hennar óskýr, þá var eitthvað sem hélt aftur af mér í því að fara niður grjótgarðinn.
Eftir nokkrar mínútur hættu þau að kyrja þennan lágstemmda söng og virtust bíða einhvers. Þau hreyfðu hvorki legg né lið, en störðu öll sem eitt út á fjörðinn. Ósjálfrátt leituðu augu mín þangað. Í sömu mund dró frá tunglinu, um leið og birtan jókst sýndist mér ég verða var við hreyfingu á haffletinum. Eins og eitthvað drægi sig hægt að ströndinni. Eitthvað segi ég, því satt best að segja veit ég ekki hvernig ég get lýst því öðruvísi. Það sem gerðist næst var ótrúlegt og ég er enn ekki sannfærður sjálfur um hvort mig hafi í raun dreymt þessa atburði eða ég hafi upplifað veruleika sem er jafn firrtur og óskiljanlegur og sá sem ég upplifði í kvöld.
Í daufu tunglsljósinu sá ég ekki betur en vera á stærð við hval risi upp úr sjónum skammt undan ströndinni. Litarhaft verunnar var þó í engu lík þeim stóru spendýrum, heldur var frekar marglitara, eins og þunn olíubrák á vatni. Risastór fálmari skaust upp úr vatninu og hóf sig hátt yfir öldurnar. Lýsingu Hólmgeirs á skugganum skaut niður í kollinn á mér. Börnin hófu söng að nýju og drógu með því athygli mína að sér. Þau voru aftur komin með föturnar í hendurnar, ég fékk ekki betur séð en þau væru að bíða einhvers. Sá fullorðni hélt báðum höndum upp í loft, sem væri hann að tilbiðja veruna. Skyndilega lét hún þreifiangann falla aftur í sjóinn með miklum gusum og skellum. Vatn gekk yfir þau öll sem á ströndinni stóðu. Ég þurfti að líta undan til að forðast að fá saltvatn í augun en þegar ég sneri mér aftur að hópnum, þá sá ég að allt umhverfis þau lágu nú hundruð marglytta. Að skipan þess fullorðna tókust nemendur mínir strax handa við að týna þær upp í föturnar með berum höndunum! Ferska vatnið hlýtur að virkja hæfileika holdýranna, nema að börnin séu öll orðin smituð! Er hver og einn hafði fyllt sína hlupu þau aftur í átt að þorpinu. Ég flýtti mér í burtu svo þau kæmu ekki auga á mig.
Bækur | Mánudagur, 13. október 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27. október
Ég get ennþá ekki sofið. Hvernig ætti ég svo sem að geta það? Ég er búinn að liggja í rúminu mínu og reyna festa svefn í hátt í fjórar klukkustundir. Það er sama hvað ég hef gert. Ég lá og starði upp í rjáfur og velti fyrir mér möguleikum mínum þegar ég heyrði svolítið undarlegt. Eins og einhver tæki í hurðarhúninn á útidyrunum. Þó ég væri á efri hæðinni, þá greindi ég samt hvað var að gerast. Ég spratt fram úr og kíkti niður. Mér sýndist enginn standa fyrir utan. Þá fannst mér sem einhver skarkali bærist innan úr eldhúsi. Ég tiplaði á tánum niður stigann og kveikti ljósið. Eitt augnablik fannst mér eins og einhver skuggaleg vera stykki í skjól við eldhúsgluggann. Ég flýtti mér að honum og leit út, en þar var enginn. Gat verið að ég hafi misst af þeim sem ætlaði að brjótast hér inn? Ætli það hafi verið Skelmir? Skyldi hann vita af bréfinu?
Eitt er víst, mér á ekki eftir að koma dúr á auga í nótt. Ég ætla að sitja fyrir honum, bíða hér í eldhúsinu með ljósin slökkt. Ég skal góma hann.
---
Þegar sólin reis hætti ég mér loksins út. Ég er nokkuð viss um að einhver var hér fyrir utan í alla nótt og fylgdist með húsinu mínu. Mér fannst ég verða nokkrum sinnum var við hreyfingu við hliðið og í garðinum. Kannski voru það bara kettir og smáfuglar, ég sá svo sem aldrei neinn, ekkert nema flöktandi skugga í næturmyrkrinu. Ég braut bréfið saman og stakk því í vasann. Síðan fór ég inn í fataskáp og fann gamlan frakka og klæddi mig í hann. Ég reyndi að hylja eins mikið af andliti mínu og mér var unnt, ég lét þess vegna á mig trefil og hatt. Ég fór út um bakdyrnar.
Þrátt fyrir að það væri byrjað að birta af degi, þá var útsýni lítið. Það var nokkuð stöðug ofankoma, snjókorn á stærð við býflugur sigu þunglamalega niður á hélaða jörðina. Ég tók á mig stökk og hentist yfir grindverkið í næsta garð. Þar beið ég um stund og reyndi að heyra hvort nokkur hefði tekið eftir mér eða væri á hælum mér. Svo virtist ekki vera. Ég hafði þó sterklega á tilfinningunni að einhver væri að fylgjast með mér. Á sama hátt og ég veit að í þessum töluðu orðum er einhver úti í rökkrinu og sér það logar ljós í svefnherberginu mínu einhver sem situr og bíður eftir að ég geri mistök.
Ég hélt áfram, ég smeygði mér á milli garða og reyndi eftir fremsta megni að komast hjá því að láta taka eftir mér. Þegar ég loks kom að lögreglustöðinni var ég orðinn holdvotur í fæturna en hafði ekki orðið var við neinar mannaferðir. Af og til fannst mér þó ég heyra í einhverjum fyrir aftan mig, en kom aldrei auga á hver það hefði getað verið, þó svo mig grunar nei, ég veit hver það var. Hann skal þó ekki komast upp með þetta.
Páll var ekki við þegar ég kom þangað. Ég athugaði einnig hvort Hannes væri inni hjá sér en hann hefur enginn séð í nokkra daga. Ég skil þetta ekki. Hvorugur lögregluþjónanna virtist kippa sér upp við hvarf Hannesar. Ég reyndi hvað ég gat til að sannfæra þá um að leita hans, en þeir horfðu bara hvor á annan og glottu út í bæði. Ég veit ekki hvað er að gerast. Ég flýtti mér aftur út og reyndi að hafa uppi á Páli, en allt kom fyrir ekki. Ætli hann sé horfinn líka?
Ég flýtti mér í vinnuna, þrátt fyrir mér væri það þvert um geð. Ég þurfti að telja í sjálfan mig kjark áður en ég steig inn í stofuna. Ég mætti vissulega töluvert seint og þar að auki til reika eins og útigangsmaður. Katrínu var brugðið við að sjá mig en ég útskýrði klæðaburð minn ekkert sérstaklega fyrir henni. Ég tel best, að vera ekki að blanda henni inn í þetta mál. Ég vil ekki að neitt slæmt hendi hana. Nei, það er skynsamlegast að halda henni fyrir utan þetta allt saman. Því minna sem hún veit, því betra, annars er hætt við að Skelmir ráðist gegn henni og Guð einn veit hvað getur gerst þá. Hún var samt ekki alveg sátt við þau svör sem hún fékk frá mér, ég sá það á henni.
Inni í stofunni minni var allt með kyrrum kjörum. Börnin litu varla upp úr bókunum þegar ég gekk inn. Snorri var búinn að færa sæti sitt og sat nú í öftustu röðinni og horfði dreyminn út um gluggann. Það er ágætis útsýni yfir fjörðinn úr skólahúsinu og ég fékk ekki betur séð en yfir honum væri einhvers konar værð eða ró, nokkuð sem ég hef ekki séð hjá honum undanfarið. Þegar hann tók eftir að ég var kominn, færðist sami kuldinn yfir augnaráð hans og yfirbragð hans breyttist til hins verra. Ég spurði hann hvers vegna hann hefði fært sig.
- Við Þórarinn ákváðum að skipta um sæti, svaraði hann og starði ákveðinn á mig.
- Og hver gaf ykkur leyfi til þess, spurði ég um hæl og reyndi mitt besta til að hljóma staðfastur. Snorri glotti út í annað.
- Nú, kærastan þín, sagði hann og hló við. Hinir krakkarnir flissuðu. Það var samt ekki gleðiríkur hlátur, heldur innantómur og tilfinningalaus. Ég leit í kringum mig. Skyndilega var sem ég fengi augnablikssýn inn í annan heim. Ég horfði yfir bekkinn, þar sem nemendurnir sátu prúðbúnir hver í sínu sæti, fyrir utan þá Snorra og Þórarinn, eins og gefur að skilja. Í fyrstu virtist allt eðlilegt, en síðan þyrmdi yfir mig nagandi efi og ótti. Í augun barnanna fann ég óendanlega grimmd, kulda og miskunnarleysi. Svipað því sem ég sá hjá rottunni sem dr. Hannes notaði í tilraun sinni með marglyttuna. Þá fannst mér eins og örfá sekúndubrot ég taka eftir óeðlilegum bjarma stafa af húð krakkanna, marglitur en umfram allt ógnvekjandi og ójarðneskur. Ég greip fyrir munn mér, til að hljóða ekki upp. Hönd mín leitaði aftur, til að finna eitthvað sem ég gat stutt mig við, því mér fannst eins og ég hefði misst allan mátt úr fótunum.
- Er ekki allt í lagi, Hermann, spurði Bergdís með sakleysislegum svip. Hún gjóaði augum á Snorra, sem mér sýndist brosa út í annað. Ég reyndi að hugsa upp afsökun í flýti, en ég veit ekki hversu trúverðug hún hefur hljómað.
- Jú. Eða nei, ég hlýt að vera orðinn lasinn, svaraði ég og strauk yfir enni mitt. Ég bað þau um að afsaka mig og flýtti mér fram á gang. Ég varð var við, að þau ræddu eitthvað sín á milli er ég gekk út úr stofunni en mér var svo mikið niðri fyrir að ég heyrði ekki orðaskil. Hins vegar komst ég ekki hjá því að heyra í Snorra, þar sem hann hló illkvittnilega. Ég fór fram á gang og inn til Katrínar. Henni brá þegar ég ruddist inn í stofuna hennar. Ég reyndi að koma frá mér heilli setningu en mér fannst eins og allt vit hefði verið sogað úr kollinum á mér. Hún starði forviða á mig, eins og ég væri genginn af göflunum og eflaust hef ég litið þannig út, ennþá í gamla frakkanum og augnaráð mitt villt og leitandi. Ég snerist á hæli og þaut út úr skólahúsinu, við hliðið leit ég um stund aftur fyrir mig og mér sýndist ég sjá Snorra og Bergdísi standa við dyrnar ásamt Katrínu og horfa á eftir mér. Var kannski rangt af mér að skilja hana eina eftir með þeim?
Ég er svefnvana og finn mér hvergi nægan frið til að slappa af, alls staðar er eitthvað sem kallar á athygli mína og dregur hana aftur að þeim atburðum sem ég hef lent í undanfarna daga. Þeir eru eins og svarthol í vitund minni.
Ég hljóp sem fætur toguðu í áttina að lögreglustöðinni. Þegar ég náði þangað stormaði ég inn á skrifstofu Páls og lokaði á eftir mér. Ég aðgætti hvort nokkur hefði elt mig eða hvort nokkur gæti hugsanlega legið á hleri. Páll sat undrandi á svip við skrifborðið sitt þegar ég sneri mér að honum.
- Hvað er eiginlega í gangi, spurði hann og hló við. Brosið á andliti hans hvarf þó skjótt er hann sá hve óttasleginn ég var.
- Þú verður að hjálpa mér, svaraði ég lágt. Ég hallaði mér að honum og hvíslaði í eyra hans.
- Ég er með nokkuð sem þú verður að sjá. Nokkuð sem varðar Hólmgeir, vin okkar, sagði ég og rétti honum síðan bréfið. Mér fannst um stund erfitt að láta hann hafa það, eins og ég væri að neyða upp á hann öðrum raunveruleika raunveruleika sem er mun verri en sá sem við höfum báðir búið í. Hvað var hann annað en tálsýn, listilega ofinn blekkingavefur? Allan þann tíma sem ég hef þekkt Hólmgeir, Öldu og Skelmi hefur mér aldrei dottið annað í hug en það væri allt eðlilegt hjá þeim. Sá veruleiki sem ég þekkti eitt sinn er að engu orðinn og hvað var ég að gera annað en að troða þessari upplifun minni upp á hann?
Páll las bréfið yfir og horfði síðan undrandi á mig.
- Hvar fékkstu þetta, spurði hann.
- Ég fann það á skrifborðinu mínu í skólanum í gærdag. Við verðum að gera eitthvað. Þú verður að handtaka Skelmi. Þú verður að gera eitthvað í þessu, Páll, sagði ég örvæntingarfullur. Hann horfði rannsakandi á mig.
- Ég get ekki handtekið hann bara sisvona. Ég verð að hafa til þess gildar og góðar ástæður.
- Hvað með bréfið? Þú hlýtur að sjá, að Skelmir er að drepa hann.
- Ég hitti Hólmgeir í morgun og hann var hinn hressasti, svaraði Páll. Eitthvað við hvernig hann horfði á mig og tóninn í röddu hans sló mig. Ég stóð á fætur, greip bréfið af borðinu og hljóp út. Fyrir aftan mig heyrði ég hann kalla nafn mitt en ég gaf því engan gaum og forðaði mér út af lögreglustöðinni. Þegar ég kom út á strætið hafði hvesst töluvert og bætt í snjókomuna. Ég hneppti að mér frakkanum og dró hattinn niður fyrir eyru. Bréfinu stakk ég aftur inn á mig. Eftir stuttan göngutúr stóð ég fyrir framan gamla kaupmannshúsið. Það leit ekki út eins og hús sem hýst hefur djöfullegar athafnir seiðskratta eða morðingja. Neðan úr þakskegginu hengu grýlukerti, þau minntu mig einna helst á beittar tennur hákarla. Snjór safnaðist í skafla við veggina. Ég stóð um stund við garðhliðið og fylgdist með húsinu, ég varð ekki var við að einhver væri heima. Ég leit í flýti í kringum mig, til að athuga hvort nokkur væri á ferli, sem betur fer var veðrið með því móti að vart sást á milli húsa. Ég tók á mig stökk og var kominn í einu hendingskasti aftur fyrir húsið. Þau hjónin eru ekki vön að læsa bakdyrunum. Ég tók varlega í hurðarhúninn, það kom mér ekkert sérstaklega á óvart að komast að raun um að sú leið væri mér ekki fær. Ég myndi líka læsa öllum dyrum og festa aftur glugga ef ég hefði eitthvað að fela. Eftir að hafa kannað hvort nokkurs staðar væri möguleiki á að komast inn og fullvissað mig um að svo var ekki, hélt ég aftur heim. Ég gætti þó að mér, því skömmu eftir að ég var kominn út úr garðinum fannst mér ég verða var við einhvern fyrir aftan mig. Það er einhver sem fylgist með mér dag og nótt, ég veit hins vegar ekki hver það er. Mig grunar þó, að það sé Skelmir, nema hann hafi snúið einhverjum á sitt band og láti viðkomandi elta mig hvert sem ég fer. Ég skal þó ná að sitja fyrir kauða og þegar ég kemst að því hver það er, þá næ ég í hnakkadrambið á honum og þá getur Páll ekki horft framhjá þessu lengur. Ég mun draga sannleikanum upp úr þeim sem eltir mig og skella honum á borðið hjá Páli. Þá verður réttvísinni fullnægt.
Mig langar líka til að sjá hvort Hólmgeir sé heima hjá sér, hvort það sem stendur í bréfinu sé allt saman rétt. Að hann sé smá saman að leysast upp og deyja í líkama Öldu. Ég verð að komast inn til hans. Kannski ég ætti að laumast þangað í kvöld, taka eitthvað af verkfærum með mér og brjótast inn. Ég þarf bara að vera viss um að enginn sé heima, ég vil síður rekast á einhvern á meðan þessari litlu rannsókn minni stendur.
---
Ég klæddi mig aftur í gamla frakkann um ellefu, stakk skrúfjárni í vasann og fór eins laumulega og mér var unnt út um bakdyrnar. Reyndar er ég nokkuð viss um að einhver hafi verið að fylgjast með húsinu mínu, því ég kom tvisvar sinnum auga á einhvern sniglast fyrir utan áður en ég lagði sjálfur af stað. Það var komið myrkur, ég rétt greindi útlínur viðkomandi en ég fékk ekki betur séð en sá hinn sami væri nokkuð stór og sterklega vaxinn. Ég veit ekki hver þetta er, ég man ekki eftir neinum sem tengist Skelmi sem gæti passað við þá lýsingu. Hver gæti þetta verið? Hann hlýtur að hafa fengið einhvern til liðs við sig, einhvern sem mig myndi aldrei gruna, geri ég ráð fyrir. Ég get þar af leiðandi ekki treyst neinum. Ég verð að leysa þetta mál sjálfur. Þar sem nú er einhver sem fylgist með mér, þá þurfti ég að gera ákveðnar ráðstafanir til að slá ryki í augu hans. Ég skyldi því eftir kveikt ljós í svefnherberginu mínu og reyndi að útbúa einhvers konar líkan af sjálfum mér við skrifborðið mitt. Það tók mig drykklanga stund að finna út hvernig ég gat komið því til svo þegar einhver liti inn upp í gluggann sæi viðkomandi útlínur mínar, en það tókst að lokum.
Ég læddist út og beið um stund í felum við grindverkið í garðinum mínum. Þegar ég var orðinn nokkuð viss um að enginn hefði orðið mín var, steig ég aftur á fætur og laumaðist á milli húsa í áttina að kaupmannshúsinu. Ég forðaðist einmanalegar ljóskeilur götuvitanna, birta þeirra megnaði ekki að lýsa upp sortann eða í gegnum hríðina. Húsið var almyrkt er ég kom þangað, ég rýndi eins og mér var unnt í snjóinn fyrir framan það til að sjá hvort nokkur hefði gengið þá leið inn en sá engin spor. Ég hafði svo sem ekki mikinn tíma til að rannsaka það, því sá sem þau sendu til að elta mig var eflaust á hælum mér og ég vildi ekki að hann fyndi mig fyrir framan hús þeirra. Ég kom heldur ekki auga á nein spor við bakdyrnar, því hætti ég á að taka í hurðarhúninn og kanna hvort það væri opið. Sem fyrr þá var læst, því tók ég skrúfjárnið úr vasanum og spennti upp lítinn glugga sem er við hliðina á dyrunum. Það gekk furðuvel og fyrr en varði var ég kominn inn fyrir. Ég klæddi mig úr skónum og fikraði mig hljóðlaust inn í dimmt húsið. Það fyrsta sem ég tók eftir, er ég kom inn var lyktin. Hún minnti einna helst á angan af söltum sæ og rotnandi þara. Ég veit ekki hversu oft ég hef gengið meðfram ströndinni og fundið einmitt þennan angan. Ég hélt á skrúfjárninu til öryggis. Stofan og eldhúsið var eins og vanalega, ég sá ekkert sem benti til nokkurs annars en að þar færi fram eðlilegt heimilislíf. Ég færði mig því upp á efri hæðina. Stiginn er að mestu klæddur gólfteppi og ég hélt mig á því. Hins vegar sleppti ég því að stíga á neðri stigapallinn, því ég þekki af reynslu að það hættir til að braka allhátt í honum.
Það var enginn heima. Ég fór inn í hvert herbergið á fætur öðru, þar voru rúm uppábúin og ef ég hefði ekki vitað betur, þá hefði ég allt eins getað haldið að þau væru einhvers staðar í ferðalagi, Hólmgeir og Alda. Ég rakst ekki á neitt grunsamlegt, fyrr en ég kom inn í baðherbergið. Í fyrstu tók ég ekki eftir neinu undarlegu, ég leit snögglega í kringum mig og sá ekki betur en þar væri allt eins og ég er vanur að sjá það. Ég var kominn aftur fram á gang þegar ég gerði mér skyndilega grein fyrir að baðið hafði verið fullt af vatni. Ég sneri því aftur inn og hætti á að kveikja ljós. Þegar augu mín höfðu vanist birtunni sá ég að svo var, baðið var barmafullt. Föt af Hólmgeiri lágu á gólfinu. Ég gekk rólega að baðkerinu. Ósjálfrátt stakk ég hönd minni ofan í það, til að kanna hvort vatnið væri volgt en svo var ekki. Ég þurrkaði af hönd minni og fór aftur niður. Ég klæddi mig aftur í skóna og fór sömu leið heim. Ég hlýt að hafa náð að stinga af þann sem á að fylgjast með mér, því ég varð hans ekki var. Hann er samt þarna úti einhvers staðar í myrkrinu, þó ég sjái hann ekki veit ég af honum en það skal ekki verða honum auðvelt að ná mér. Ég sé í gegnum þetta allt saman.
Bækur | Sunnudagur, 12. október 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26. október
Hvar skal byrja? Hvar skal hefjast handa? Það hefur svo ótalmargt gerst í dag, ég á satt best að segja erfitt með að koma nokkru lagi á hugsanir mínar. Ætli mér eigi nokkuð eftir að koma dúr á auga í nótt?
Bréf beið mín á skrifborðinu í skólastofunni þegar ég kom þangað. Það lá þar ósköp sakleysislega, rétt eins og hvert annað sendibréf, en ef ég hefði vitað þá hvert innihald þess var hefði ég líklega aldrei þorað að opna það, hvað þá renna augum mínum yfir texta þess. Ég sat gáttaður og kom ekki upp orði á meðan ég las bréfið, vissi hvorki í þennan heim né nokkurn annan, ef því er að skipta. Þegar ég hafði lokið mér af sat Snorri í sætinu sínu og horfði brosandi á mig. Mér snöggbrá því ég hafði ekki orðið var við hann kæmi inn.
- Líður þér ekki vel, Hermann, spurði hann smeðjulega. Mér stóð eiginlega stuggur af honum. Eitthvað við yfirbragð hans skelfdi mig, kaldur andlitssvipurinn og grimmd augnaráðsins var nokkuð sem ég átti erfitt með að þola einmitt þá stundina.
- Mér, svaraði ég og reyndi að sýnast eins rólegur og mér var unnt, en miðað við hversu forkastanlegar og stórfurðulegar fréttir ég hafði þá rétt lesið, var mér það ákaflega erfitt.
- Já, líður þér ekki vel, endurtók Snorri.
- Jú, mér líður ágætlega, Snorri minn, ekki sem verst.
- Þú ert eitthvað fölur.
- Er það, já?
- Já, heldur fölur. Eins og eitthvað sé ekki í lagi.
- Það er allt í lagi með mig. Hafðu ekki áhyggjur af mér, karlinn minn.
- Þær hef ég ekki, það get ég fullvissað þig um, svaraði hann. Ég leit á hann og glottið á andliti hans hafði stækkað svo um munar.
- Á meðan ég man, þá átti ég að bera þér kveðju vísindamannsins, sagði hann. Það var eitthvað við tóninn í rödd hans sem varð til þess ég fékk skyndilega áhyggjur af Hannesi. Ég hafði jú ekki séð hann síðan á laugardag.
- Nú, hvenær hittirðu hann, spurði ég kæruleysislega og þóttist vera taka til í blöðunum á borðinu mínu. Í raun var ég að fela bréfið.
- Ég rakst á hann í gær.
Lengra varð samtal okkar ekki, því nú voru flestir nemendur mínir mættir og kominn tími til að hefja kennsluna. Allan tímann á meðan henni stóð þögðu krakkarnir, nema þegar ég yrti á þau. Í síðustu kennslustundinni reyndi ég að vekja upp umræður um morðið á Kolbrúnu, en án árangurs. Þau sátu bara og störðu á mig. Mér leið sumpart eins og ég væri innan um hóp af hundum. Krakkarnir horfðu á mig með einhvers konar glampa í augum, glampa sem ég á erfitt með að skilgreina en hef séð í augum hunda er þeir bíða þess að vera gefið að éta. Ég sendi þau út talsvert áður en kennslustundinni var lokið. Síðastur til að hverfa á braut var Snorri, hann snéri sér við í dyrunum og sagði:
- Takk fyrir tímann, Hermann kennari. Eigðu góðan dag.
Mig langaði einna helst til að öskra á drenginn. Ég veit ekki hvað það er, en ég vildi óska þess hann væri enn skítugur og illa hirtur strákspjatti sem auðvelt var að eiga við. Ekki þetta snyrtilega, stjórnsama rándýr!
Þegar allir voru farnir gróf ég upp bréfið og las það einu sinni enn yfir, til að fullvissa mig um ég hefði lesið rétt í morgun. Það breytti engu, sama hversu oft ég rýndi í það var innihaldið hið sama. Var Hólmgeir genginn af göflunum? Ég greip bréfið og rauk út úr skólahúsinu. Ég þurfti að komast að hinu sanna. Fyrsti áfangastaður minn var gamla kaupmannshúsið. Er ég stóð fyrir utan rauðmálaða tvílyfta tréhúsið þyrmdi yfir mig. Hvernig gat ég verið viss? Án þess að komast að nokkurri niðurstöðu knúði ég dyra og beið. Eftir drykklanga stund bankaði ég á nýjan leik en fékk ekki svar. Því næst ákvað ég að fara á lögreglustöðina og athuga hvort Hannes væri við. Þegar ég kom þangað var mér tjáð að hann hefði ekki sést síðan á laugardag, samt var allt dótið hans enn niðri í fangaklefanum. Ég þorði ekki þangað inn, ef vera skyldi að rottan væri þar enn. Ég fór að hótelinu til að sjá hvort hann væri þar, en Kári sagði að hann hefði ekki séð hann síðan í gær.
Ég fór aftur út af hótelinu og hneppti jakkanum að mér. Kaldur vindur blés og snjóföl fauk eftir strætinu. Hrím lá yfir öllu og það var óvenju dimmt, frostrósir sprungu út og blómstruðu lífvana á rúðum húsanna. Ég gekk út götuna án þess þó að hafa neitt ákveðið að fara, þess frekar reyndi ég að róa hugann. Hálfpartinn í móki hélt ég áfram og rankaði ekki við mér fyrr en ég stóð við baðströndina. Ég leit yfir hana, hvergi var nokkra marglyttu að sjá. Svo virðist vera sem að allar hafi þær verið hreinsaðar upp eða þá að flóðið hafi tekið þær á ný. Ég stakk hendinni í frakkavasann og tók upp bréfið. Eftir að hafa lesið það enn einu sinni sá ég að það var lítið sem ég gat gert annað en að bíða eftir rétta tækifærinu. Ég flýtti mér heim og læsti að mér.
Bréfið
Kæri vinur,
ég veit ekki hvort þú munir trúa því sem þú átt eftir að lesa í þessu bréfi, en ef þú gerir það ekki þá veit ég ekki hvort nokkur annar muni gera það. Lyginni líkust er frásögn mín, svo ég varla trúi þessu enn sjálfur. En gerðu það fyrir mig, gerðu það fyrir sakir áralangs vinskapar okkar. Lestu með opnum huga og reyndu að trúa mér.
Lengi taldi ég mig gæfumann, vel giftan og sigla lygnan sæ. Hvarvetna naut ég velgengni, hvort sem það var í stjórnmálum, viðskiptum eða ástum. Ég vissi nefnilega ekki hversu mikla hættu ég setti mig í er ég giftist Öldu. Hún hefur engu að síður reynst mér vel, þó síðar hafi komið í ljós að hún var ekki öll þar sem hún var séð. Alda var viljalaust verkfæri föður síns. Var, segi ég, því hún er öll! Ívar myrti hana. Ég veit ekki hvernig ég get komið orðum að því, þannig þú trúir mér, en svo ótrúleg er frásögn mín. Ég vona bara að þú teljir mig ekki sturlaðan, því lengi vel hélt ég mig hafa tapað glórunni. Ívar hefur á einhvern hátt flutt sig; sálu sína eða sinni; yfir í líkama hennar. Hann skipti um líkama við dóttur sína! Hvers vegna skil ég ekki, mig grunar þó hann viti að hann eigi skammt eftir ólifað í líkama hennar, því ekki löngu eftir umskiptin sá ég hræðileg útbrot á líkamanum. Alda, sem er nú í kroppi Ívars, getur gott sem ekkert tjáð sig, hvað þá haft stjórn á hrumum útlimunum.
Skömmu eftir giftingu okkar létust foreldrar mínir, eins og þú veist. Lengi vel stóð ég í þeirri trú að tilviljun ein hefði hagað því þannig til að þau féllu frá í sama mánuði, en ég er ekki svo viss lengur. Ívar fór að venja komur sínar oftar á heimilið og Alda varð sífellt kaldranalegri í framkomu sinni við mig eftir því sem vikurnar, mánuðirnir og árin liðu og Ívar varð sífellt stjórnsamari. Ég reyndi að láta þetta ekki á mig fá og eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að nokkuð fréttist.
Ó, Guð, hefði ég aðeins vitað hvað í vændum var!
Eftir því sem leið á fór ég að fella hug til annarrar konu, Kolbrúnar og tók að draga mig eftir henni. Eitt kvöld var sem einhver stífla brysti og augnablik náðum við saman. Við reyndum eftir fremsta megni að halda sambandi okkar leyndu, enginn mátti vita neitt.
Ég veit að það er þér ekki auðvelt að lesa þetta, ég veit hvaða hug þú barst til hennar eitt sinn og mér þykir það leitt að hafa leynt þig þessu, en hvað gat ég annað gert? Við ákváðum að gera hreint fyrir okkar dyrum og saman fórum við á fund Öldu. Þegar við komum heim var þar einhver djöfulleg athöfn í gangi. Marglyttum hafði verið raðað allt í kringum Öldu, sem lá nakin á stofugólfinu. Það logaði á nokkrum kertum hér og þar í stofunni. Áður en ég vissi af féll Kolbrún fram á gólfið og skömmu síðar hlaut ég afar þungt höfuðhögg. Rétt áður fannst mér ég sjá skugga, - skugga sem líktist engu sem ég hef séð áður. Ég get ekki útskýrt það, en skugginn var eins og eitthvað sem er svo framandi en jafnframt svo illilegt, að ekkert mannlegt tungumál á til orð sem getur lýst því. Eins og eitthvað forsögulegt, viðbjóðslegt og djöfullegt. Samstundis hataði ég skuggann en jafnframt óttaðist ég hann meira en nokkuð sem ég hef áður komist í kynni við.
Þegar ég sá Kolbrúnu í lauginni uppgötvaði ég hvað hafði gerst. Hvað möguleika átti eða á ég svo sem? Varla get ég farið til Páls og reynt að selja honum þessa sögu, hann myndi aldrei trúa mér. Þú ert búinn að vera svo hamingjusamur með Katrínu, ég hef helst ekki viljað trufla þig en ég veit að ég á skammt eftir. Eitthvað fór úrskeiðis við athöfnina sem við Kolbrún gengum inn á og virðist líkami Öldu eldast óvenjulega hratt, trúðu mér, ég þekki það að eigin raun því ég er fastur í líkama hennar. Ívar hefur rænt kroppi mínum.
Kæri vinur, ég veit að þetta er ótrúlegt en þú verður að trúa mér. Ég segi þér sannleikann. Þetta er eins og í verstu skáldsögu, en því miður er þetta sá raunveruleiki sem ég þarf að búa við og það sem verra er, ég á ekki marga daga eftir ólifaða, líkami hennar þolir þetta ekki öllu mikið lengur. Þú verður að stöðva hann. Farðu til Páls og sannfærðu hann, þú einn getur það. Ég treysti á þig, því það er um seinan fyrir mig. Örlög mín eru í höndum Drottins.
H.
Bækur | Laugardagur, 11. október 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Elsku Sigga mín,
þú fyrirgefur mér vonandi ég hafi ekki skrifað eða hringt undanfarna 3 daga. Það hafa mörg vötn runnið til sjávar síðan ég skrifaði síðast og ég er ekki alveg viss um ég skilji til fullnustu merkingu alls þess sem ég hef heyrt eða orðið vitni að. Ég á erfitt með að sofna á kvöldin, myndir birtast í huga mér og ég finn fyrir miklum óróleika. Hvað er það við þetta þorp? Hvað er það við íbúa þess?
Ég er búinn að ræða við heilmarga. Það eru ekki margir sem sáu vel hvað gerðist. Ég er margsinnis búinn að spyrja Pál hvort hann hafi nokkurn grunaðan en hann segist vera kominn í öngstræti með rannsóknina. Það er skelfilegt til þess að hugsa að einhver í þorpinu hafi brennt inni hátt á þriðja tug barna og tvo fullorðna. Við skipslæknirinn fórum og skoðuðum líkin fyrir tveimur dögum, það var óskemmtileg lífsreynsla, nokkuð sem ég vil síður endurtaka. Þórarinn, læknirinn hér í Lönguströnd, tók á móti okkur. Það var heldur þungur bragur á því hjá honum, ekki furða, hann átti dreng í eldri bekknum. Samt var hann eins og svo margir aðrir í þessu þorpi, undarlegur og með óþægilega nærveru. Hann starði á mig eins og hann langaði einna helst að éta mig með augunum á meðan við skoðuðum líkin. Það er eitthvað fiskilegt við fólkið sem býr hérna, það minnir mig svo ótrúlega á eitthvað sjávarkyns. Húðin er slepjuleg og augun útstæð, næstum eins og karfar. Mér þykir leitt að grípa til svo stóryrða, en mér finnst íbúarnir hérna ógeðslegir.
Það var samt eitt sem kom fram í yfirheyrslunum, svolítið sem kom mér spánskt fyrir sjónir. Einn þeirra sem kom nokkuð snemma að eldsvoðanum sagði að hann hefði heyrt í kennara eldri bekkjanna hrópa í sífellu: - Þetta getur ekki verið. Þú átt ekki að vera hérna! Hvað ætli það merki? Hver var það sem ekki átti að vera þarna?
Ég er ekkert að ætlast til þess þú leysir málið, elskan mín. Ég er bara að hugsa á blaðið. Mér finnst það svo gott, hugsanir mínar öðlast einhvern veginn meira vægi. Þú lest bara hratt yfir þetta. Ég á náttúrulega ekkert að vera segja þér þetta, en þú þekkir starf mitt og veist að þetta er bara okkar á milli.
Takk kærlega fyrir bréfið. Mikið þótti mér vænt um að lesa söguna af Bjössa. Ég er með myndina af ykkur á litlum kolli við hliðina á kojunni minni og bréfin læt ég alltaf undir koddann minn. Þá finnst mér eins og þú sért hjá mér, bæði þú og Bjössi. Ég sakna þín ógurlega núna, ég vildi ég hefði þig til að styrkja mig og styðja. Þetta mál er mun erfiðara en ég átti von á. Það sækir á mig, hvort heldur sem er í svefni eða vöku og ég veit ekki hvort ég standi undir því. Kannski ég ætti að draga mig frá þessu.
Ég hlakka svo til að komast héðan. Það snjóar töluvert núna og það er orðið illfært um þorpið. Ég ætla að fara skoða hús kennarana og athuga hvort ég komist að einhverju þar. Mér skilst að þau hafi verið eitthvað að draga sig saman vikurnar fyrir eldsvoðann. Ég vona bara, að eitthvað fari nú að skýrast. Mér líður eins og ég vaði bara áfram í myrkri og það sé bara tilviljun ein hvort ég rekist á eitthvað.
Þinn ástkær eiginmaður,
Jón Einarsson
P.S. Segðu Friðriki að finna settið, ég vil síður týna því. Ef hann hefur gleymt því einhvers staðar, þá vil ég hann kaupi nýtt.
Bækur | Föstudagur, 10. október 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25. október
Skóladagurinn byrjaði ósköp sakleysislega. Ég kom krökkunum af stað í hópavinnu í sögu. Allan tímann fylgdist ég með Snorra, hann lét lítið á því bera en hann er orðinn stjórnandi þeirra. Þau hlýða skipunum hans umhugsunarlaust og þó hann sé ekkert að flíka því, þá hef ég á tilfinningunni hann viti að ég sé að fylgjast með honum og njóti athyglinnar. Hann fer leynt með stjórnsemina, augngotur og hvísl næga þó til að hinir krakkarnir stökkva til í hvert skipti sem hann sýnir einhver merki. Hvað á ég að gera við hann? Í frímínútunum spurði ég hann hvort hann hafi skilað til móður sinnar að ég hafi komið. Hann svaraði mér blátt áfram: - Nei! Eins og ekkert væri sjálfsagðara. Síðan gekk hann hægt út úr stofunni. Í dyrunum leit hann á mig og glotti. Mér finnst eins og hann sé að reyna espa mig upp.
Þegar nemendurnir voru rétt að klára nestistímann var bankað laust á stofuhurðina. Ég stóð á fætur og opnaði. Mér til mikillar furðu stóð Hólmgeir á ganginum.
- Sæll, mér datt í hug að líta við og spjalla aðeins við krakkana, sagði hann. Ég kinkaði kolli og steig til hliðar. Eins og venjur segja til um, spruttu krakkarnir öll sem eitt á fætur og stóðu bein í baki fyrir aftan stólana sína. Hólmgeir sló létt á öxl mína og gekk inn í stofuna.
- Sælir, krakkar mínir, sagði hann. Þau buðu honum góðan daginn, öll saman í kór.
- Mig langaði bara til að skoða skólann og rabba aðeins við ykkur, ef það er í lagi, sagði Hólmgeir og tyllti sér á hornið á borðinu mínu. Með handabendingu gaf hann þeim leyfi til að setjast aftur, sem þau gerðu.
- Það hefur aldeilis mikið gengið á hérna hjá okkur á Lönguströnd undanfarnar vikur. Ég veit ekki hvort Hermann hafi rætt eitthvað um það við ykkur en vonandi gerir hann það við gott tækifæri, sagði hann og leit á mig. Krakkarnir gutu augum á Snorra, sem sat fyrir miðju og fylgdist áhugasamur með Hólmgeiri.
Hann ræddi við nemendur mína um skólastarfið í nokkrar mínútur og ég fékk strax á tilfinninguna að þessi heimsókn hefði annan tilgang en þann að skoða starf nemendanna. Enda kom á daginn að svo var.
- Eins og þið vitið mæta vel, þá rak hér á land mörg þúsund marglyttur og hefur ströndin okkar góða verið gott sem ónýtileg vegna þessa. Hreinsunarstarf hefur gengið hægt en það horfir til betri vegar í þeim málum. Það sem mig langar til að biðja ykkur um er, að vera ekki að væflast niður á strönd. Það er betra að þið séuð að leika ykkur hér í þorpinu. Það er ekkert að sjá niður frá. Eruð þið ekki til í að gera þetta fyrir mig?
- Já, herra Hólmgeir, við skulum gera það fyrir þig, svaraði Snorri kokhraustur.
Skyndilega skaut heimsókn Skelmis til mín fyrir nokkru upp í huga mér. Ætli hann hafi verið að sinna svipuðum erindum í gærkvöldi í kaupmannshúsinu? Hólmgeir stóð á fætur og þakkaði fyrir sig. Hann tók í hönd mína og fór síðan fram á gang. Þar, heyrði ég, hann banka á hurðina hjá Katrínu. Um leið og ég lokaði dyrunum fór Snorri að hlæja. Hlátur hans var ekki smitandi, þvert á móti var hann andstyggilegur og illkvittinn. Ég hastaði á hann en hann lét það sem vind um eyru þjóta. Það var ekki fyrr en ég var kominn alveg upp að borði hans að hann hætti.
Eftir að kennslu lauk og krakkarnir voru farnir heim á leið rölti ég yfir til Katrínar. Við ræddum saman stuttlega um heimsókn Hólmgeirs, hún var undrandi á henni og varð enn meira hissa þegar ég sagði henni frá því sem ég sá í gærkvöldi. Við ákváðum að snæða saman heima hjá henni en ég vildi samt heilsa upp á Hannes áður en að matnum kæmi. Ég flýtti mér því að ganga frá og hélt síðan af stað á lögreglustöðina.
Þegar ég kom þangað sá ég strax að Hannes var ekki við, ljósið í klefanum hans var slökkt. Ég kíkti engu að síður niður til hans. Dyrnar voru lokaðar en ólæstar. Ég hleypti sjálfum mér inn. Ég leit í kringum mig, augu mín staðnæmdust við kassann sem rotturnar voru í. Ég varð ekki var við neina hreyfingu inni í honum, svo ég opnaði hann. Það sem ég sá var ólýsanlegt. Rottan sem Hannes hafði notað í tilraunina var að éta hina rottuna. Það stóðu litlir þreifarar út úr feldi hennar. Þá notaði hún til að halda hinni fastri á meðan hún át sig í gegnum húð hennar. Hin rottan reyndi að berjast um en án árangurs. Tilraunarottan sneri höfði sínu að mér. Blik augna hennar var kalt og yfirvegað. Eitthvað við það kom mér kunnuglega fyrir sjónir. Ég hljóðaði upp fyrir mig, henti kassanum frá mér og hljóp út. Ég linnti ekki ferð fyrr en ég var kominn út á götu. Í fyrstu reyndi ég að telja sjálfum mér í trú um mér hlyti að hafa missýnst eða dreymt þetta allt saman, en ég get engan veginn sætt mig það. Ég veit að það sem ég sá gerðist í raun og veru.
Þetta var þó ekki það eina sem var furðulegt í dag, þrátt fyrir að seinni atburðurinn sé engan veginn jafn sérkennilegur og sá með rottuna. Eftir að ég hafði jafnað mig á honum fór ég til Katrínar en sagði henni þó ekki frá þessu. Bæði efast ég um að hún trúi mér og ég vil ekki vera íþyngja henni með þessu, sérstaklega eftir allt sem hefur gengið á. Hver veit nema hún hrapi að röngum ályktunum? Telji jafnvel að ég sé hreinlega genginn af göflunum. Við borðuðum saman í ró og næði, síðan settumst við inn í stofu og hlustuðum á fréttir og framhaldssöguna í útvarpinu. Í fréttum var fátt meira rætt en stríðið á Kóreuskaga. Merkilegt hve mennirnir geta endalaust fundið sér ástæður til að drepa hver annan. Ég átti samt erfitt með að einbeita að lestri sögunnar, eins og gefur að skilja. Katrín varð þess áskynja að ég var annars hugar og spurði hvort ég væri þreyttur. Ég ákvað að nýta tækifærið og drífa mig heim, því ég hafði ekki eirð í mér að sitja þarna. Það voru svo margar hugsanir sem sóttu að mér, ég þurfti næði til að vinna úr þeim.
Ég var ekki lengi að hátta mig í rúmið eftir að ég kom heim. Ég var rétt búinn að koma mér fyrir með dagbókina þegar það var bankað nokkuð ákveðið. Hikandi fór ég fram úr og klæddi mig í náttslopp. Þá var aftur knúið dyra og í þetta skipti af meiri ákefð, núna myndi ég jafnvel segja örvæntingu, en það vissi ég ekki þá. Ég klifraði niður stigann ofan af lofti og á meðan var barið á dyrnar í þriðja sinn, jafn freklega og áður. Ég kíkti út um eldhúsgluggann og sá bara útlínur karlmanns í síðum frakka fyrir utan. Inn um opinn gluggann barst mér angan af slori og salti. Ég fór fram í forstofu og opnaði örlitla rifu á dyrnar. Mér til mikillar furðu stóð Hólmgeir fyrir utan. Hann hafði þó klætt sig í frakka Skelmis. Hann leit eins og undankomulaus flóttamaður í kringum sig. Hann virtist mér viti sínu fjær. Augun voru villt og þegar hann tók eftir mér, starði hann um stund á mig eins og hann þekkti mig ekki. Mér var hreinlega ekki um sel.
- Hermann, sagði hann og ég fann strax á röddu hans að hann var ákaflega skelkaður.
- Hermann, þú verður að hjálpa mér. Þau finna mig brátt. Þú verður að hjálpa mér.
- Hver? Hjálpa þér með hvað?
- Þau finna mig. Þú verður að hjálpa mér.
- Hvað er að, Hólmgeir? Komdu inn fyrir. Stattu ekki þarna úti, sagði ég, opnaði dyrnar og steig út til hans.
- Nei, svaraði hann og ýtti mér frá sér. Þau finna mig hér og ég vil ekki þau viti að ég hafi verið hér. Þá gæti farið fyrir þér eins og mér, eða verr.
Skyndilega leit hann til hliðar.
- Guð minn, hann kemur. Mundu bara, Hermann. Sá sem þú sérð í mér er ekki ég. Hann er líka að reyna taka yfir líkama minn.
Ég var orðlaus. Fyrir það fyrsta þá skildi ég vart hvað hann átti við og í öðru lagi þá var ekkert vit í því. Hólmgeir leit aftur í kringum sig, hallaði sér að mér og hvíslaði:
- Ég er fangi. Þú verður að hjálpa mér.
Síðan hvarf hann út í nóttina. Ég ætlaði að kalla á eftir honum, en þá heyrði ég fótatak nálgast. Ég lokaði dyrunum og reyndi að rýna í næturmyrkrið út um eldhúsgluggann en ég sá ekki neinn, þrátt fyrir að daufa birtuna frá ljósastaurunum. Ef Hólmgeir þarf á hjálp að halda, þá verð ég að gera eitthvað.
Hvað átti hann samt við? Getur verið að hann sé að tapa sér? Ætli atburðir undanfarna daga hafi haft svo sterk áhrif á hann? Ég veit til þess að menn hafi fengið taugaáfall við veigaminni tækifæri og sumir jafnvel sturlast yfir gott sem engu. Hann virtist ekki alveg með réttu ráði. Á móti kemur, hvernig ætli fólk myndi taka mér ef ég segði því frá rottunum tveimur og því sem ég sá í fangaklefa Hannesar. Hvað er eiginlega að gerast? Svo margir undarlegir atburðir og alltof margar spurningar. Hvar endar þetta eiginlega?
Bækur | Fimmtudagur, 9. október 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24. október
Ég svaf illa í nótt. Mig dreymdi í sífellu að marglyttur huldu líkama minn og smugu inn í hann. Ég hrökk upp með reglulegu millibili og er ég fór á fætur, langt fyrir allar aldir þá var ég löðursveittur. Mig dauðlangaði til að fara í sund en ég get ekki fengið mig til þess að fara ofan í laugina, ekki eftir allt sem hefur gengið á og sérstaklega þegar ekki hefur verið rannsakað almennilega hvernig marglytturnar komust þangað. Mikið vona ég að Páll fari að komast að því hver myrti Kolbrúnu. Minningarathöfn hennar var í dag og þar af leiðandi var börnunum gefið frí í skólanum. Ég klæddi mig í sparifötin, svarta ullarfrakkann og setti á mig hatt. Frakkinn er reyndar orðinn nokkuð snjáður og ég vona, ég geti verslað nýjan í vetur. Ég rölti heim til Katrínar og saman gengum við hægt að kirkjunni. Allt var hljótt utan við þunga tóna kirkjuklukknanna. Um stund fannst mér eins og þær væru að slá í takt við hjarta mitt. Ósjálfrátt leitaði hönd mín að hendi Katrínar, rétt eins og ég gerði þegar við mamma gengum upp að kirkjunni í minningarathöfnina um pabba. Ég hægði á mér. Mér fannst um stund eins og fætur mínir væru blýþungir og ég hefði ekki mátt til að lyfta þeim. Katrín leit á mig og þurrkaði tár sem runnið hafði niður kinn mína, án þess ég tæki eftir því. Hún strauk vanga minn og brosti. Ég leit í augu hennar og sá að henni var svipað innanbrjóst og mér. Hönd í hönd gengum við síðasta spölinn. Ég leit aftur fyrir mig og sá hvar íbúar þorpsins birtust á milli húsanna, tveir eða fleiri saman, og gengu í kyrrðinni upp stíginn að kirkjunni.
Hólmgeir sat ásamt öðrum fulltrúum bæjarstjórnar á fremsta bekk hægra megin, vinstra megin sat fólk sem ég hef ekki séð áður en komst að því að var fjölskylda Kolbrúnar. Ég sá hvergi Öldu en hinir voru allir ásamt eiginkonum sínum. Við Katrín fundum okkur sæti aftarlega. Athöfnin var hógvær og falleg, kórinn söng nokkra sálma og séra Tómas las úr Biblíunni ásamt því að ræða við söfnuðinn. Kistan verður grafin síðar meir í höfuðstaðnum að ósk fjölskyldu hennar.
Eftir athöfnina fóru margir á Bláu könnuna og þar á meðal við Katrín. Sem betur fer vorum við með þeim fyrstu og náðum í sæti, en margir þurftu að standa og satt best að segja var langt frá því nægt pláss inni á þessum litla stað fyrir alla. Á meðan við vorum þarna kom Páll til mín. Eftir stutt spjall hallaði hann sér að mér og hvíslaði:
- Hefurðu eitthvað hitt Hólmgeir undanfarna daga?
- Ekkert frá því við ræddum saman síðast, svaraði ég.
- Ekki ég heldur. Hann hefur lokað sig af. Mér skilst hann haldi sig einna mest heima við.
- Er ekki Alda eitthvað lasin? Vill hann ekki bara vera hjá henni?
- Ég hef ekki séð Öldu í þó nokkra daga og ég er nokkuð viss um hún er ekki heima veik.
Ég leit undrandi á Pál.
- Hvað áttu við?
Páll leit flóttalega í kringum sig.
- Ég ræddi við Sigríði gömlu, húshjálp þeirra hjóna, og hún sagði, að hún hefði ekki orðið vör við frúna í nokkra daga.
Ég starði gáttaður á Pál.
- Ekki eru öll kurl enn komin til grafar. Við þurfum að ræða aðeins saman við gott tækifæri. Ég þarf á hjálp þinni að halda. Þú þekkir Hólmgeir einna best.
Við sátum ekki lengi eftir að Páll kvaddi, við kláruðum úr kaffibollunum og héldum síðan heim á leið. Við ákváðum að fara heim til mín, við vildum hafa félagsskap hvort af öðru fremur en að sitja ein. Á leiðinni sá ég að ljósið í klefa Hannesar var slökkt og ég er því hálffeginn að hann skuli loksins hafa ákveðið að hvíla sig. Ég held, að hann hafi verið fullæstur í rannsóknum sínum, hann þarf eins og aðrir á hvíld og svefni að halda.
Þegar við vorum komin heim lögðum við okkur um stund. Það var notalegt að liggja við hlið Katrínar og finna hvernig brjóst hennar reis og hneig í takt við mitt. Ég hélt utan um hana uns ég sofnaði. Þegar ég vaknaði sat hún niðri í eldhúsi með kaffibolla fyrir framan sig og starði út um gluggann. Ég staldraði við í dyragættinni og horfði á hana, því hún vissi ekki af mér. Hún var búin að losa um hárið og það féll niður á axlir hennar, eins og foss sem um sólsetur slær gylltan blæ á. Skyndilega var sem hún yrði mín vör, því hún sneri sér snögglega að mér og brosti. Ég settist á móti henni og við ræddum saman um stund. Ég sagði henni frá því sem okkur Páli fór á milli inni á Bláu könnunni. Hún virtist ekki hissa.
- Það er svolítið sem ég hef aldrei sagt þér frá. Kolbrún tók af mér hátíðlegt loforð um ég myndi aldrei segja nokkrum manni það, sagði Katrín og velti kaffibollanum milli handa sér.
- Hún heimsótti mig af og til, enda ekki auðvelt að komast inn í þetta samfélag hérna. Það verður að segjast eins og er, að það er frekar lokað. Við komum báðar úr borginni og okkur varð ágætlega til vina. Hún treysti mér fyrir sínum leyndarmálum og ég henni fyrir mínum. Ætli ekki megi segja að hún hafi verið besta vinkona mín hérna, sagði hún og saug upp í nefið. Ég færði stól minn nær hennar og tók um hönd hennar.
- Kolbrún átti sér ástmann hér í þorpinu.
Ég hváði við. Ég vissi að margir höfðu rennt hýru auga til hennar, enda gullfalleg kona, en ég hafði ekki hugmynd um að hún væri í tygjum við einhvern.
- Hver var það, spurði ég forvitinn.
- Þú mátt alls ekki segja það neinum, Hermann. Lofaðu því, gerðu það, lofaðu að segja aldrei neinum, svaraði Katrín og starði svo undursamlega í augu mín, að ég gat ekki með neinu móti skorast undan.
- Ég lofa því, svaraði ég.
- Þú mátt alls ekki láta eins og þú vitir það eða gera nokkuð sem gæti varpað skugga á minningu Kolbrúnar.
Ég verð að viðurkenna, að þarna voru farnar að renna á mig tvær grímur. Ég vissi ekki alveg hvers vegna það var svo mikilvægt að halda því leyndu hver það var sem hún átti vingott við. Ég kinkaði hikandi kolli.
- Jæja, þú lofaðir og ég treysti þér, sagði Katrín og leit aftur á bollann á borðinu fyrir framan sig.
- Ef þú hugsar út í það, þá muntu eflaust skilja sjálfur hver það var. Hún hitti hann næstum daglega.
Ég starði á Katrínu. Í höfðinu fór ég yfir þá ungu menn í þorpinu sem hugsanlega gætu hafa átt erindi við Kolbrúnu á hverjum degi, en mér datt enginn í hug.
- Þetta var eitthvað sem gerðist. Hann er, sagði Katrín og hikaði eitt augnablik, - giftur!
Þá var eins og öll brotin kæmu saman í kollinum á mér, viðbrögð Hólmgeirs við líkfundinum, undarlegt háttalag hans og drykkja. Ég spratt upp úr stólnum, ég fann hvernig það var sem færi um mig rafstraumur.
- Alda hlýtur að hafa komist að því, hrópaði ég upp. Katrín starði á mig.
- Skilurðu ekki, Katrín? Kolbrún var myrt. Hólmgeir átti í ástarsambandi við hana og Alda hlýtur að hafa komist að því.
Um leið og ég gerði mér sífellt betur grein fyrir hvernig í þessu lá varð loforðið um að segja engum mér sífellt stærri þyrnir í augum. Katrín stóð á fætur og tók báðum höndum um andlit mitt. Það var sem hún læsi hugsanir mínar.
- Manstu, Hermann, þú lofaðir að segja engum frá. Ég veit að þetta er stór biti að kyngja, en Kolbrún vildi aldrei að þetta fréttist. Hún var ástfangin af Hólmgeiri en ég veit ekki hvort hann hafi elskað hana. Allavega minntist hún aldrei á það. Gerðu það, Hermann, gerðu það fyrir mig að segja aldrei neinum frá þessu.
Hún tók utan um mig. Ég muldraði eitthvað um ég myndi halda þessu út af fyrir mig. Samt finnst mér eins og mér beri skylda til að láta Pál vita. Ég þori því hins vegar ekki, ég vil ekki stefna sambandi mínu með Katrínu í hættu. Ætli ég geti dregið fram játningu hjá Hólmgeiri?
Klukkan var langt gengin í tíu þegar ég fylgdi Katrínu heim til sín. Eftir að ég hafði kvatt hana rölti ég aftur tilbaka og velti fyrir mér þessum nýju upplýsingum. Skyndilega snarstansaði ég. Í daufri birtunni frá götuvitunum fékk ég ekki betur séð en Skelmir færi inn bakdyramegin í gamla kaupmannshúsið. Ætli Alda sé þá heima eftir allt saman?
Bækur | Miðvikudagur, 8. október 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23. október
Það er svo margt undarlegt á sveimi þessa dagana. Nemendur mínir verða sífellt sérkennilegri og þó ég geti ekki bent nákvæmlega á hvað það er, nema ef vera kynni fyrir umbreytinguna á Snorra og Bergdísi, þá finn ég það um leið og ég geng inn í kennslustofuna að eitthvað er ekki eins og það á sér að vera. Mér líður eins ég sé einn á sundi innan um hákarla eða vöðu af mannætufiskum. Það er þó langt frá því að vera það furðulegasta sem ég hef orðið vitni að. Í dag gerðist nokkuð sem ég efast um að nokkur muni trúa.
Eftir að sunnudagsmessu lauk ákvað ég að heilsa upp á dr. Hannes þar sem ég hafði ekki náð að hitta hann í gær. Þegar ég kom niður í klefann til hans kom mér nokkuð á óvart að sjá hann. Hárið var illa hirt og augun þreytuleg. Undir þeim voru dökkir baugar og ég gat mér til um hann hefði ekki sofið mikið undanfarið, ekkert frekar en ég. Hann sat undir litlum glugga, sem stóð opinn en járnrimlar hömluðu því að hægt væri að opna hann til fulls. Ég kastaði kveðju á dr. Hannes, hann hrökk við og leit aftur fyrir sig á mig. Um stund var eins og hann gerði sér ekki fulla grein fyrir hver ég væri. Loks færðist bros yfir andlit hans og blik kom í augu hans, svipað því sem ég sé stundum hjá nemendum mínum þegar þeir hafa eitthvað merkilegt að segja eða sýna.
- Ég átti ekki von á þér, sagði hann, - en það er gott þú skulir vera kominn.
- Nú, svaraði ég undrandi.
- Já, ég hef gert stórmerkilega uppgötvun, sagði hann og andlitið ljómaði af æsingi. Ég komst ekki hjá því að verða forvitinn, enda var gleði hans og spenningur einlæg en umfram allt smitandi.
- Ertu búinn að komast að því hvað varð til þess að allar þessar marglyttur rak á land, spurði ég.
- Nei, ekki enn. Þær virðast ekki vera sýktar af neinum sjúkdómi. Mér dettur einna helst í hug að eitthvað í hegðunarmynstri þeirra hafi raskast. Og þó, nokkur fjöldi sjávardýra sækir á land, þrátt fyrir að vita að það muni verða þeim að fjörtjóni. Til að mynda syndir loðna upp í fjörur til að hrygna. Reyndar ekki hérlendis, en það skiptir svo sem ekki máli. Það er ekki það sem ég hef uppgötvað, heldur allt annað og miklu stórkostlegra.
Hann benti mér á að koma nær. Í einu horni klefans var trékassi með tveimur rottum. Önnur var dökkbrún en hin var svört, eða svo sýndist mér. Feldur hennar gæti hugsanlega hafa verið blautur.
- Páll útvegaði mér þessar, sagði Hannes og teygði sig eftir þeirri svörtu. Hann lagði hana á borðið fyrir framan sig. Hann sprautaði hana með róandi lyfi, sem hann hefur eflaust fengið hjá Gunnari lækni. Það sem gerðist næst var í senn stórkostlegt og hryllilegt, meira svo en nokkuð annað sem ég hef orðið vitni að. Hannes klæddi sig í hanska og tók eina af marglyttunum úr fötunni. Hann lagði hana varlega ofan á rottuna, þrátt fyrir lyfin virtist hún, eins og gefur að skilja, verða óróleg. Hvaða dýr eða maður, ef því er að skipta, yrði það ekki í þessum aðstæðum? Loks hellti Hannes vatni úr glasi yfir marglyttuna. Eins og áður tók hún að nötra og titra öll, en í þetta skipti gerðist svolítið sem ég á aldrei eftir að gleyma.
- Fylgstu vel með, sagði Hannes og ég fékk ekki betur séð en hann væri álíka eftirvæntingarfullur og sex ára nemandi á sínum fyrsta skóladegi. Augu hans ljómuðu og allt látbragð hans minnti mig á barn.
Frammi fyrir augum mér, og megi Guð og heilagar hersveitir engla vera mér til vitnis, hvarf marglyttan inn í rottuna og virtist renna saman við hana!
Hannes leit á mig sigri hrósandi.
- Finnst þér þetta ekki stórmerkilegt!?
Ég leit upp frá borðinu, þar sem aðeins var rottan nú, og starði orðlaus á Hannes. Ég gat ekki lýst hryllingi mínum með orðum en hann virtist ekki lesa úr svip mínum hversu andstyggilegt mér fannst þetta. Ég upplifði þetta sem eitthvað skelfilegt en hann sá þetta fyrir sér sem mikla líffræðilega uppgötvun, - uppgötvun sem átti eftir að koma honum sem fræðimanni á kortið. Ég trúði vart eyrum mínum er ég hlýddi á ræðu hans um rannsóknarstyrki og fyrirlestra í háskólum hér og þar um heiminn. Hann virtist algerlega blindur á hversu illa mér leið. Ég leit aftur á rottuna, sem var aftur farinn á stjá og hljóp nú um borðið í leit að einhverju ætilegu. Um stund staldraði hún við fyrir framan mig, reisti sig upp á afturfæturna og snusaði út í loftið. Ósjálfrátt tók ég tvö skref aftur á við. Ég verð að viðurkenna, að mér hreinlega stóð ógn af henni. Hver veit hvað þetta hefur gert henni?
Ég leið einhvern veginn út úr fangaklefanum, án þess að Hannes yrði þess var. Þegar ég stóð í stiganum frammi á gangi heyrði ég hann ennþá tala um hversu þessi uppgötvun myndi breyta sýn vísindamanna á marglyttur. Það var sem ég rankaði ekki við mér almennilega fyrr en ég var kominn út á götu. Næfurþunnur úði lagðist yfir andlit mitt og það var bæði hressandi og á vissan hátt hreinsandi. Það var logn úti og örlítil þoka, ljósin í húsunum spegluðust í blautri götunni og einhvern veginn var þessi skelfilega upplifun svo fjarri mér þar sem ég stóð fyrir utan lögreglustöðina. Ég gekk af stað án þess að hafa nokkurn fyrirfram ákveðinn leiðarenda, heldur rölti ég stefnulaust um þorpið.
Eftir um hálftíma kom ég auga á litla hjallinn hennar Höllu og ákvað að sinna því sem ég ákvað fyrir nokkrum dögum, að heimsækja hana og börnin. Ég opnaði hrörlegt hliðið og gekk inn í garðinn. Enginn hefur hugsað um hann í sumar, sölnað grasið náði mér upp á miðja kálfa og eini staðurinn þar sem það var ekki svo, var í kringum þvottasnúrurnar. Ég bankaði og beið eftir svari. Snorri kom skömmu síðar til dyra.
- Sæll, Snorri minn, sagði ég og reyndi að hljóma hress. Hann starði á mig og ekki varð ég hið minnsta var við að hann gleddist eða reyndi að sýnast ánægður með heimsókn mína. Hann svaraði kveðju minni ekki og eftir stutta en afar vandræðalega þögn bætti ég við:
- Er móðir þín heima?
- Nei.
- Mætti ég spyrja hvar hún er?
- Hún er í mat.
Ég leit undrandi á hann. Hver gæti hafa boðið Höllu í mat en ekki séð aumur á börnum hennar? Ég læt hér ósagt það sem flaug um huga mér.
-Jæja, þú lætur hana kannski vita að ég hafi komið. Mig langar til að eiga við hana nokkur orð, sagði ég. Snorri lokaði dyrunum án þess að svara. Mér fannst sem það kólnaði skyndilega og ég ákvað því að drífa mig heim.
Bækur | Þriðjudagur, 7. október 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22. október
Þegar ég rankaði við mér í morgun hafði hvesst töluvert og ég þurfti að klæða mig í þykkan frakka, trefil og húfu. Einhvern veginn fannst mér sá bragur á veðrinu að líklegt væri að það myndi byrja að snjóa innan skamms, en ofankoman lét á sér standa í allan dag. Skýin hafa bylt sér yfir firðinum og trén, sem eru að komin langleiðina með að fella allt lauf, svignuðu og bognuðu í rokinu. Gul, appelsínugul og rauð laufblöð dönsuðu trylltan dans út göturnar og ég átti allt eins von á því að sjá eitthvað annað rusl bætast í hóp þeirra.
Langflestir nemendur hafa nú snúið aftur í skólann. Aðeins þeir sem búa innar í firðinum voru heima í dag, ég skil það svo sem, foreldrar þeirra hafa haldið þeim inni við í dag. Ég leyfði nemendunum að vera inni í frímínútum og hafði opið fram á gang, svo ég gæti haft auga með þeim. Ég tók eftir svolitlu skrýtnu. Sífellt fleiri nemendur bætast í vinahóp Snorra. Samt virðast þau ekki vera eins og börn eiga að sér. Eitt sinn, eftir að ég hafði skotist fram í morgun, stóðu þau öll í einu horni stofunnar og fylgdust hljóð og alvarleg á svip með hinum krökkunum. Ég er farinn að fá illan bifur á þessum hópi. Ég hef einnig á tilfinningunni að hinir nemendurnir séu hræddir við hann.
Katrín bauð mér heim með sér eftir skóla, hún sagði að hún vildi elda fyrir mig og þar sem ég hafði ekkert betra að gera þáði ég boðið. Reyndar var ég himinlifandi, ég held nefnilega að eitthvað sé að gerast á milli okkar, en ég kem kannski betur að því á eftir. Við hittum Pál á leiðinni til hennar. Páll getur verið mjög sérstakur, einn daginn vill hann helst ekki vita af mér en þann næsta er honum í mun að ég sé inni í öllum hans málum. Hann stöðvaði mig og bað mig um að fylgja sér inn á lögreglustöð. Katrín gaf til kynna að sér væri það ekki á móti skapi, svo ég fór með Páli. Við flýttum okkur inn á skrifstofu til hans og hann kallaði eftir kaffi handa okkur. Síðan settist hann fyrir framan mig og horfði grafalvarlegur í augu mín.
- Hvernig er það, Hermann, hefur þú tekið eftir einhverju undarlegu í fari Hólmgeirs, spurði hann og ég fann strax á honum að eitthvað hafði komið Páli úr jafnvægi, jafnvel eitthvað sem hafði skotið honum skelk í bringu.
- Ég get ekki neitað því, svaraði ég. Reyndar þorði ég ekki að segja Páli strax frá öllu sem hefur farið í gegnum huga minn undanfarna daga, svona ef vera skyldi hann hefði einhverjar allt aðrar hugmyndir. Ég vildi ekki að hann héldi að ég væri að tapa glórunni.
- Ég leit til hans í gær og aftur í morgun. Hann hagar sér eins og hann er vanur, er kominn á fleygiferð í að skipuleggja hreinsun strandarinnar þvert ofan í óskir Hannesar. En það er eitthvað annað, ég veit ekki alveg hvað það. Ég finn það einna helst á því hve nærvera hans er breytt. Mér líður eitthvað svo asnalega í kringum hann, sagði Páll og ók sér til í sætinu.
- Ég var hjá honum í fyrradag og hann var frekar undarlegur, ég get svo sem ekki bent á eitthvað sérstakt en það var samt svo ólíkt honum.
- Já, augnaráð hans er breytt og til hins verra. Mér líður hreinlega illa þegar hann horfir á mig. Það er eitthvað svo dautt og kalt. Eins og hákarl myndi horfa á bráð sína, sagði hann og mér varð skyndilega hugsað til Snorra.
- Heldurðu að hann hafi orðið fyrir einhverju áfalli? Kannski hann sé að verða geðveikur?
- Hermann, hvað höfum við þrír þekkst lengi?
- Allt frá því við vorum börn.
- Einmitt. Heldurðu að hann myndi ekki leita til okkar ef eitthvað væri að?
- Ég vona það.
- Og heldurðu að við myndum ekki sjá það strax ef hann væri að fá áfall? Mér finnst, satt best að segja, að þetta séu ekki taugar hans sem eru að gefa sig. Það er meira eins og hann sjálfur sé ekki til staðar, heldur að þetta sé einhver allt önnur persóna. Ég meina, hann er að skipuleggja hreinsun strandarinnar og ætla að nota traktora með snúningstæki. Hannes varð svo reiður þegar hann heyrði þetta að ég var hræddur um hann myndi kýla Hólmgeir kaldan.
Við ræddum saman stutta stund í viðbót en komumst ekki að neinni niðurstöðu. Mig langaði til að kíkja á Hannes en þar sem Katrín beið eftir mér flýtti ég mér frekar til hennar. Ég get kíkt til hans á morgun. Það má mikið vera til að Páll taki það alvarlega. Hann hefur iðulega gert lítið úr umkvörtunum okkar Hólmgeirs, látið þær sem vind um eyru þjóta. Hólmgeir hefur breyst, á því leikur enginn vafi, en hvað er það sem vekur svo sterk viðbrögð hjá Páli? Hvað ætli hafi fengið viðvörunarbjöllurnar í höfði hans til að hringja? Hann sagði mér svo sem ekki hvað það hefði verið sérstaklega, nema að andrúmsloftið í kringum hann væri öðruvísi sem og augnaráðið? Eitthvað hefur samt orðið til þess hann fór að velta þessum atriðum fyrir sér.
Ég barðist í gegnum rokið heim til Katrínar. Hún hefur án efa séð mig út um eldhúsgluggann því hún opnaði dyrnar áður en ég náði að banka. Hún var með hvíta svuntu bundna um sig miðja og hafði losað um hárið. Ég var ekki lengi að koma mér inn fyrir dyrastafinn. Innan úr eldhúsi barst matarlykt en ég gerði mér ekki grein fyrir hvað hún var að elda. Hún bauð mér að setjast niður sem ég og gerði. Eldhúsið hjá henni er ekki stórt, ég settist við matarborðið sem stóð gegnt eldavélinni. Aðeins þrír stólar voru við borðið og hún hafði lagt á það auk þess að kveikja á hvítu kerti. Ég fylgdist með henni á meðan hún hrærði í pottum, af og til leit hún á mig og brosti. Ég held, að hún hafi notið þessa alveg jafn mikið og ég. Ég vona það að minnsta kosti. Eftir stutta stund var maturinn tilbúinn, lambalærisneiðar í brauðraspi og kartöflur. Við snæddum án þess að mæla orð frá vörum. Öðru hvoru mættust augu okkar og ég fann hvernig mér hitnaði í framan.
Eftir kvöldmatinn settumst við inn í stofu með kaffibolla og hlustuðum á útvarpið. Við spjölluðum saman um allt milli himins og jarðar. Þegar skólinn barst í tal minntist hún á breytinguna sem hefur orðið á sumum nemendum. Svo virðist vera sem einhverjir í yngri bekknum hafi líka umbreyst.
- Þau eru svo alvarleg, sagði Katrín og andvarpaði. Það er eins og þau vilji ekki leika sér, vilji ekki vera börn lengur, bætti hún síðan við. Ég sagði henni frá því sem ég sá fyrr í dag og hversu slæma tilfinningu ég hefði fyrir þessum hópi í mínum bekk. Hún var mér sammála um að við þyrftum að gefa góðan gaum að honum, til að tryggja að ekkert slæmt gerist. Nóg hefur nú þegar gerst.
Þegar ég stóð í anddyrinu og ætlaði að þakka fyrir mig, gerðist svolítið skrýtið. Ég hallaði mér fram til að kyssa hana á kinnina og hún hefur ábyggilega ætlað gera hið sama. Varir okkar mættust og við kysstumst. Kossinn var örstuttur og ég hrökk við. Hún horfði í augu mín og einhvern veginn fékk ég á tilfinninguna að þetta hefði ekki verið óvart. Hún tók í hönd mína og hélt um hana með báðum höndum sínum. Ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að bera mig að, enda langt síðan ég hef verið í þessari aðstöðu. Þetta var engu að síður yndislegur koss, eins og hún sjálf er.
- Takk fyrir kvöldið, Hermann, sagði hún loks og sleppti hendi minni.
Ég var sem í leiðslu er ég gekk heim. Ætli ég geti nokkuð sofnað? Er ég að verða ástfanginn?
---
Hvað er eiginlega að gerast hérna? Klukkan er núna korter gengin í eitt eftir miðnætti. Skelmir bankaði upp á hjá mér fyrir örfáum mínútum og var langt frá því í góðu skapi. Hann hefur haft fyrir því að rífa sig af stað í rokinu sem er úti, það hefur bætt í vindinn síðan fyrr í kvöld og það syngur hátt í mæninum. Ég rumskaði við að einhver knúði frekjulega dyra. Ég klæddi mig í náttslopp, brölti niður að útidyrunum og var varla vaknaður þegar hann tróð fæti í dyragættina og öskraði á mig. Ég veit reyndar ekki hvort hann hafi gert svo af reiði eða til að yfirgnæfa vindinn, engu að síður náði hann athygli minni svo um munaði.
- Hermann, haltu krakkaskömmunum frá ströndinni! Þau eiga þangað ekkert erindi, sagði hann og starði grimmúðlegur á mig. Hann var með hettu á hausnum, eða sjóhatt, ég sá ekki almennilega hvort var, og ljósið í forstofunni endurspeglaðist í heila auganu.
- Hvað bíddu, hvað áttu við, spurði ég og var enn ekki búinn að ná áttum.
- Þau eiga ekkert erindi niður á strönd, segi ég og þú átt að halda þessum vitleysingum frá henni. Annars gæti farið illa, sagði hann og ég lýg því ekki, en það fór svakalega um mig því eitthvað í tón Skelmis var hreint út sagt ógnvekjandi. Áður en ég náði svara hvarf hann út í myrkrið og rokið. Ég kallaði nokkrum sinnum á eftir honum án árangurs.
Nú á ég aldrei eftir að sofna.
Bækur | Mánudagur, 6. október 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21. október
Dagurinn var heldur tilbreytingarlítill. Ég mætti í vinnuna og reyndi að fylgjast með Snorra og Bergdísi. Ég fékk ekki betur séð en þau séu farin að blanda geði við hin börnin. Þórarinn var með þeim í allan dag. Katrínu er meinilla við þau eftir gærdaginn, ég veit ekki hvað hefur eiginlega gerst. Hún vill ekki segja mér meira en það sem kom fram í gær. Reyndar verð ég að viðurkenna, að mér finnst nærvera þeirra sérkennileg, eins og hún hafi breyst. Það er eitthvað sem er ekki eins og það á að vera, en samt get ég ekki komið auga á hvað það er. Jú, vissulega er ankanalegt að sjá þau mæta dag eftir dag hrein og fín í skólann, en þannig eru hinir nemendurnir alltaf og hvers vegna ætti ég að vera setja mig upp á móti því að þau séu eins og þeir?
Það var samt eitt atvik í dag, svona þegar ég fer að hugsa um það. Ég var að útskýra sterka og veika fallbeygingu lýsingarorða uppi á töflu og sneri að töflunni á meðan ég var að skrifa á hana. Þegar ég lít aftur fyrir mig fannst mér Snorri stara einbeittur á mig. Hann minnti mig á myndir af stóru kattardýrunum þegar þau eru á veiðum. Ef hann hafði haft rófu hefði hann eflaust sveiflað henni rólega fram og aftur. Augasteinarnir eins og tveir litlir kolamolar, helsvartir en einhver innri eldur brann í þeim. Hvað er það við þessi börn? Hvað er það við Snorra sem kemur mér svo spánskt fyrir sjónir?
Ég reyndi að hitta Pál eftir vinnu en hann var upptekinn. Ég held, hann hafi verið að forðast mig því ég hef heyrt að einhver hafi lekið út upplýsingum úr krufningarskýrslunni í gær. Að minnsta kosti tók ég eftir því hvernig allir laumuðust til að fylgjast með mér á meðan ég verslaði í matinn. Reyndar heyrði ég í versluninni að Alda sé eitthvað veik, hún hefur víst lítið sést undanfarna daga, kannski hún hafi fengið flensu eða jafnvel tekið morðið á Kolbrúnu inn á sig? Ég fór í göngutúr í kvöld og gekk framhjá gamla kaupmannshúsinu, sem þau Hólmgeir erfðu þegar foreldrar hans féllu frá. Mér virtist hvergi loga ljós í húsinu en þó var klukkan ekki nema rétt tæplega átta.
Ég bankaði upp á hjá Katrínu á leiðinni heim. Hún tók vel á móti mér og bauð mér upp á kaffi. Hún minntist á að henni þætti ég þreytulegur og spurði hvort ég svæfi ekki nógu vel. Ég get rétt ímyndað mér hvað aðrir þorpsbúar hugsa.
- Getur nokkur sofið vel þessa dagana, spurði ég á móti.
Hún leit í augu mín og ég fylltist mikilli depurð við það. Katrín þurfti ekki að svara, augnaráð hennar sagði mér allt sem segja þurfti. Hún hefur engu að síður reynst mér vel, þrátt fyrir allt umtalið í þorpinu þá hefur hún ekki haldið mér frá sér. Eflaust hefðu einhverjir ekki einu sinni hleypt mér inn, hvað þá boðið upp á kaffi eftir allt sem hefur gengið á. Við settumst hlið við hlið í sófann inni í stofu hjá henni. Hún dró fæturna undir sig og vafði marglitu teppi utan um axlir sínar.
- Ég hef aldrei verið myrkfælin, en núna mér finnst óþægilegt að sofna án þess að vera með kisu hjá mér, sagði hún og horfði út um gluggann á vaxandi tunglið fyrir ofan fjöllin hinum megin fjarðarins. Ég tók í hönd hennar og þá var eins og eitthvað brysti innan í henni, því hún féll í faðm minn og grét um stund. Eftir nokkrar mínútur hafði hún jafnað sig en hvíldi höfuðið enn á öxl minni. Ég hélt utan um hana og vanillulykt af hári hennar lék um vit mín.
- Ég vildi óska þess að Kolbrún væri hér enn, sagði Katrín loks.
- Já, það geri ég líka, svaraði ég.
Við sátum saman í sófanum þar til að stóra standklukkan í stofunni hjá henni sló nokkru síðar og lét okkur vita að hún væri orðin ellefu. Ég kvaddi hana og hélt heim.
Ég ætti að fara að drífa mig í rúmið, en gallinn er sá, að ég hef ekki náð að festa almennilega svefn undanfarnar nætur, eins og Katrín tók bersýnilega eftir. Ég hef dottað, bylt mér og snúið en ekki enn náð að sofna svo heitið geti. Ég veit ekki hvað það er, ég er dauðþreyttur, kannski er það undirmeðvitundin að kalla á athygli mína.
Bækur | Föstudagur, 3. október 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Ágúst 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar