Íslensku bókmenntaverðlaunin

Eitt af því sem mér finnst við Íslendingar ekki nógu duglegir að gera, þá er það að veita hverjir öðrum viðurkenningar. Hvort sem það er í formi klapps á bakið, viðurkenningarskjals, stimpils frá forseta Íslands eða milljón krónum, þá stundum við þetta afar lítið.

Bókaútgáfur keppast við að eigna höfundum aðalstitla, Arnaldur er kóngur, Yrsa drottning, Jón Hallur krónprins og Ævar Örn segist vera hirðfíflið. Vissulega ákveðin viðurkenning, en samt lít ég meira á þessa æfingar útgáfnanna sem hluta af markaðssetningu. Ég meina, ef allt gengur að óskum og bókin mín kemur út í vor, þá vona ég að ég verði titlaður Stórvesír hinnar dramatísku gotnesku hrollvekju. Langur og flottur titill sem enginn á nokkurn tíma eftir að nenna að bera fram eða skrifa. Hugsanlega gæti ég líka verið hundraðshöfðingi hundleiðinlegra vælusagna, en það myndi líklega ekki teljast sem viðurkenning á nokkurn hátt eða góð markaðssetning.

Íslensku bókmenntaverðlaunin eru því ágæt að ýmsu leyti. Þau vekja athygli á ákveðnum bókum, útgefendur geta límt miða á þær og auglýst þær með það til hliðsjónar, að bókin hafi hlotið tilnefningu. Mér finnst þessi verðlaun alveg frábær þó svo ég sé náttúrulega ekki alltaf sammála útnefningunum, en hver er það svo sem?

Mér finnst, að verðlaunin mættu vera fleiri. Jú, bóksalar velja sína uppáhaldsbók. Ég vil hins vegar sjá fleiri verðlaun. Hvers vegna er ekki valinn besta fyrsta bók höfundar á hverju ári? Hvers vegna ekki besta smásagnasafnið eða ljóðabókin? Þegar titlarnir eru orðnir svona margir, eins og raun ber vitni, þá hlýtur það að kalla á fleiri verðlaun.

Verðlaun eru ekki bara hvetjandi fyrir þann sem hlýtur þau, heldur líka frábært markaðstæki, eins og áður var komið inn á. Þetta þurfa ekki að vera peningaverðlaun í hvert sinn, þó þau séu vissulega vel þegin, heldur fyrst og fremst viðurkenning á því starfi sem höfundur hefur unnið.

Þess vegna skil ég ekki vælið í þeim sem eru að kvarta og kvabba yfir Íslensku bókmenntaverðlaununum. Er ekki betra að hafa þessi verðlaun heldur en ekki? Ég vil einmitt hafa Íslensku bókmenntaverðlaunin og vonast meira að segja einhvern tíma að taka við þeim, sem og fjölda annarra viðurkenninga á þeim ritstörfum sem ég hef lagt á mig.

...spurning hvort ég fari bara ekki að skrifa þakkarræðuna :P


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband