Bylting

Það getur stundum verið ágætt að skoða söguna í ljósi þeirra atburða sem eru að gerast hverju sinni. Okkar samfélag hefur, að mér sýnist, verið gegnumsýrt af spillingu og öðrum eins viðbjóði og ég held, að það sé erfitt að fullyrða að samfélag okkar standi óbreytt eftir það sem á undan er gengið. Misskipting auðsins hefur verið gríðarleg hérna og er um margt enn, og góðærið hefur verið ákaflega misjafnt hjá fólki. Svo þegar í harðbakkann slær, þá er það ekki þeirra sem stóðu að eyðslufylleríinu að borga, heldur almúgans og vilja stjórnmálamenn ekki heyra múkk úr þeirri átt.

Fyrir nokkrum öldum var mikil bylting í Frakklandi. Bylting sem hafði gríðarlegar breytingar í för með sér, ekki bara á samfélagshögum Frakka og nágrannaríkja, heldur líka breyting á stjórnarfari sem og hugsunarhætti. Aðstæður þar á þeim tíma voru um margt líkar þeim sem má finna hérlendis um þessar mundir og undanfarin misseri. Mætti ekki kalla útrásarvíkinga og stjórnmálamenn aðal þessa lands? Eru það ekki einmitt þessi hópur sem neitar að axla ábyrgð á gjörðum sínum, útrásarvíkingar benda hver á annan og stjórnmálamenn varpa afleiðingunum yfir á almúgann, sem er þó nú þegar ansi skattpíndur, t.d. í formi verðtryggingar.

Það er því ákveðinn vonarneisti sem kviknar hjá mér þegar ég hugsa til þess hvernig fór fyrir þeim sem áttu sök í Frakklandi á sínum tíma. Það fólk var handtekið af alþýðunni og gert höfðinu styttra opinberlega. Úr þeim umbrotum reis síðan nýtt Frakkland, mótað af hugmyndafræði sem hefur haft afgerandi áhrif á hinn vestræna heim.

Nú er ég ekki að mælast til þess að nokkur verði tekinn af lífi, en ég held, að stjórnmálamenn mættu gefa sér meiri tíma til að hlusta á fólkið í landinu. Geir, Ingibjörg og öll þau sem sitja í ríkisstjórn hafa, að ég tel, ekki lengur umboð þjóðarinnar og því hlýtur að koma að því að þjóðin rísi upp. Ég trúi hreinlega ekki öðru, miðað við hversu margir mótmæla á laugardögum á Austurvelli, á netinu og víðar.

Ég vil að minnsta kosti ekki lengur búa undir þessari stjórn og þeim skuldaböggum sem henni finnst sjálfsagt að leggja á mig og mína. Ég vil fá tækifæri til að kjósa nýja stjórn og á meðan hvorugur formaður stjórnarflokkanna tekur í mál ég fái það tækifæri, þá hlýtur það að kalla á aðgerðir af minni hálfu. Ég hlýt að standa upp og mæla, í anda Jóns Sigurðssonar: Ég mótmæli!

Kannski er bara kominn tími á byltingu. Kannski þurfum við að taka málin í okkar hendur. Úr því að stjórnvöld sitja blind á báðum og heyrnarlaus, í raun daufdumb og bera ekki hag okkar fyrir brjósti, þá eiga þau ekki völdin skilið.

Hingað og ekki lengra, segi ég!


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Hvað ertu að reyna að segja

Ómar Ingi, 21.11.2008 kl. 16:06

2 Smámynd: Þorsteinn Mar Gunnlaugsson

Haha....góður...:)

Þorsteinn Mar Gunnlaugsson, 21.11.2008 kl. 18:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband