Í gær lenti ég í umræðu um Wikileaks - umræðu þar sem mjög ólíkar skoðanir komu fram. Í megindráttum var rætt um hversu réttlætanlegt er, að birta stolin gögn. Hvenær eru lögbrot réttlætanleg og hvenær ekki? Hver er það sem metur slíkt? Hvaða upplýsingar eru svo mikilvægar, að réttlætanlegt er að fremja lögbrot til að komast yfir þær? Hvenær er ofbeldi; efnislegt, líkamlegt, kynferðislegt eða sálrænt; réttlætanlegt, og þá jafnvel út frá hagsmunum almennings?
Ég er mjög efins um tilgang og markmið Wikileaks, úr því þessi fréttaveita er tilbúin að styðja lögbrot. Hún hefur birt stolin gögn m.a. úr íslenska bankakerfinu. Er það réttlætanlegt? Af því þær upplýsingar varða almanna hagsmuni? Eða er slík upplýsingaveita réttlætanleg meðan það gagnast okkur persónulega?
Skoðun mín er sú, að það sé afskaplega hættulegt að bera fyrir sig almanna hagsmunum. Um leið er verið að gefa sér, að vitað sé hverjir þessir hagsmunir eru. Ég hef hvergi séð nokkra skilgreiningu á þeim, hvorki innlenda né alþjóðlega. Þetta hugtak er því notað til réttlætingar á, oft á tíðum, lögbrotum, mannréttindabrotum og jafnvel ofbeldi.
Það eru margar ríkisstjórnir sem bera fyrir sig almanna hagsmunum, þegar t.d. eru teknar ákvarðanir um að loka fyrir aðgang almennings að internetinu. Eru það almanna hagsmunir að loka fyrir slíka upplýsingaveitu sem netið er? Eða eru það hagsmunir ríkisins? Og er fólkið þá ekki ríkið? Hver er það sem skilgreinir þessa almanna hagsmuni í þessu tilfelli? Og hver er það sem metur það hjá Wikileaks, hvað varðar almanna hagsmuni? Er það kannski bara huglægt mat forsvarsmanna samtakanna hverju sinni? Mér þætti mjög gaman að sjá, rökstuðning þeirra fyrir því að birta lánabók Kaupþings á sínum tíma, sem og samskipti starfsmanna sendiráða við starfsmenn ráðuneyta hérlendis í partýum fyrir mörgum árum. Hvaða almanna hagsmunir voru þar í húfi?
Eflaust skilgreina margir almanna hagsmuni sem mannréttindi. Sérstaklega hér á Vesturlöndum. Ég vil þó minna á, að hvergi í mannréttindasáttmála Sameinuðu Þjóðanna stendur, að ríkjum beri að upplýsa þegna sína um allt það er fram fer innan ríkisstofnanna og ráðuneyta. Það eru ekki mannréttindi okkar. Ég er því þó mjög fylgjandi að leynd sé ekki eitthvað sem ríki og stofnanir þess eigi að viðhafa í sínum störfum, en geri mér þó grein fyrir að stundum er hún nauðsynleg, rétt eins og í starfi fyrirtækja eða jafnvel í daglegu lífi fólks. Hitt væri þó æskilegra og ég kýs það umfram leyndina, að allt ríkistengt starf sé uppi á borðum og öll gögn aðgengileg þegnum, á hvaða tíma sem er.
Sem færir okkur að þeim sem kalla má flautublásara. Um leið og það nauðsynlegt, að tryggja að flautublásarar hafi lögvernduð réttindi, ef þeir verða áskynja um lögbrot í fyrirtækjum eða stofnunum, þá verða þeir líka að gera sér grein fyrir því, að lögbrot á að tilkynna til réttra aðila. Auðvitað geta komið upp aðstæður, sem gera flautublásurum erfitt fyrir, en það réttlætir ekki, að lögbrotum sé hampað sem góðum og gildum, hvorki þeim sem ríki eiga hlut í né þeim sem ætla sér að koma upp um brot. Vigilantes, Hrói Höttur og svipaðar fígúrur fremja lögbrot en í göfugum tilgangi. Eru lögbrot réttlætanleg þá? Eða er þetta svolítið undir áhrifum frá ofurhetjusögum og bandarískum spennumyndum, þar sem ofurhetjan/aðalsöguhetjan myrðir fullt af vondum körlum, en í göfugum tilgangi. Hvernig myndi okkur verða við, ef einhver tæki upp á því að haga sér með þeim hætti í dag? Væri viðkomandi ekki bara stungið inn? Og ef við erum tilbúin að réttlæta slík lögbrot gegn ríkinu, af hverju ætti ríkið ekki að geta svarað í sömu mynt? Ef almenningur virðir ekki lögin, af hverju ætti ríkið að gera það?
Ég neita að trúa því, að fólk sé tilbúið að styðja lögbrot og mæla með þeim. Ég neita að trúa því, að þjófnaður sé gerður að einhverju öðru en hann er. Ég neita að trúa því, að kaup á þýfi séu réttlætanlega út frá óskilgreindum almannahagsmunum og enn síður, að réttlætanlegt sé að flagga þýfinu sigri hrósandi. Ef ríki eða fyrirtæki ástunda leynistarfsemi og baktjaldamakk, þar sem brotið er á réttindum almennings, þá er það enginn vindur í segl þeirra sem berjast gegn slíku, að brjóta þau lög sem gilda. Það dregur bara úr annars göfugu markmiði. Rétt eins og um leið og samtök sem berjast fyrir sjálfstæði einhverja landa eða héraða nota ofbeldi; mannrán, sprengingar, morð, vopnuð átök; þá umbreytast þau í hryðjuverkasamtök.
Tveir af helstu baráttumönnum síðustu aldar, einstaklingar sem talið er að hafi haft gríðarleg áhrif með baráttu sinni, voru Ghandi og Martin Luther King. Hvorugur mælti með ofbeldi. Báðir mæltu með borgaralegri óhlýðni, þ.e. að brjóta þessar óskrifuðu reglur og viðmið, til að vekja athygli á því sem barist var fyrir, s.br. þegar svartir menn settust í sæti merkt hvítum í strætisvögnum. Ég held, að nær væri að taka slíka menn til fyrirmyndar og baráttuaðferðir þeirra, en að hygla lögbrotum, því afleiðingar þess gætu orðið alvarlegri en okkur grunar.
Bækur | Miðvikudagur, 29. desember 2010 (breytt kl. 13:38) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég rakst á bloggfærslu á Eyjunni (http://blog.eyjan.is/gudrun/2010/12/21/eg-er-ekki-madur/) og það er nú ekki oft sem mig setur hljóðan við lestur, en þessi færsla er alveg með ólíkindum. Ég varð hreinlega svo gáttaður á henni að það hefur tekið mig nokkra daga að koma því í verk, að skrifa um hana.
Í þessu bloggi heldur höfundur því fram, að tungumálið sé í eðli sínu karlkyns. Hann tiltekur nokkur dæmi, þ.á m. orðið maður. Í íslensku er hefð fyrir því að tala um menn og eiga þá til jafns við um konur og karla. Þetta finnst höfundi ekki gott og er sjálfur hættur að nota orðið með þeim hætti, af því að konur eru ekki menn, segir hann og tekur skýrt fram að þessi afstaða er tilkomin óháð hver orðabókarskýring orðsins sé. Auk þess finnst höfundi mjög hvimleitt að vísa til Guðs sem föðursins eða sonarins. Fyrir utan að á samkomum skuli vera stundum sagt: Við erum hér samankomnir... Að lokum segir höfundur, að erfitt sé að finna kvenfrelsi ef tungumálið er karlkyns.
Fyrir það fyrsta, þá er ýmislegt til í því að tungumálið sé notað til að hafa áhrif á það hvernig við hugsum. Nærtækt dæmi væri notkun trúarbragða á orðum og orðfæri, sjáið t.d. hvernig ákveðin hugtök í Biblíunni birtast með greini (sannleikurinn, kærleikurinn, trúin, lífið) og í hvaða samhengi. Slíkt notkun gefur í skyn, að aðrir sannleikar eða kærleikar séu ekki hinir sönnu. Svolítið eins og ef einhver bruggverksmiðja tæki upp á því að auglýsa bjórinn! Þetta auknavægi sem ákveðinn greinir færir orðum er mjög merkingarbært.
Hins vegar, þegar rýnt er gaumgæfilega í þessi skrif viðkomandi blogghöfundar, þá finnst mér ljóst, að hann mætti kynna sér örlítið betur tungumálið og hvaða hugmyndir menn hafa um það. Í fyrsta lagi, þá er orðið maður afar slæmt dæmi hjá honum. Orðið í íslensku stendur fyrir tegund, við erum öll menn. Rétt eins og hundar eru hundar og kettir eru kettir. Þess vegna eru konur líka menn. Þær eru kvenkyns menn, eða kvenmenn. Stundum er notað orðið manneskja og vill höfundur frekar nota það orð. Kannski af því að það er kvenkyns?
Málið er bara það, að málfræðilegt kyn orða er oftast nær í engu samhengi við merkingu þeirra. Eru blokkir kvenlegar í eðli sínu? Eru skólar karlalegir? Hvernig hefur höfundur hugsað sér að leysa önnur vandamál er tengjast málfræðilegu kyni eða á þetta val hjá honum aðeins við um nafnorð? Hvað með lýsingarorð, sem geta tekið öll kyn? Sagnir í 3. persónu? Hvað með orð sem eru augljóslega í röngu kyni sé tekið mið af veruleikanum, t.d. bílvél? Mun fleiri karlar en konur vinna við bílvélar, ætti orðið því ekki að vera í karlkyni? Eða er þetta dæmi um pólitískan rétttrúnaðar hugsunarhátt, sem á fátt skylt við raunveruleikann? Og er slíkur hugsunarháttur til eftirbreytni?
Hvað varðar kristindóminn, þá vil ég hvetja höfund bloggsins til að lesa Biblíuna. Faðirinn á sér sínar skýringar, sem og sonurinn (takið eftir greininum). Jafnvel ég, guðslaus vesalingur, veit það. Auðvitað er ekkert mál að setja út á þessa framsetningu, enda barn síns tíma, en það breytir því ekki, að þetta stendur í þessari blessuðu bók og enn fremur stendur í henni, að hver sá sem breytir því sem þar stendur muni hljóta dvöl að eilífu á Hótel Lúsífer að þessu lífi loknu.
Eins er hitt dæmið, við erum hér samankomnir... ekki gott, þar sem ræðumenn sem nota slíkt orðfæri þar sem bæði kyn (líffræðileg) eru samankomin eru augljóslega ekki að nota tungumálið rétt, eða hreinlega ekki að ávarpa þá kvenmenn sem þar eru staddir. Segir slík notkun á tungumálinu ekki meira um þann sem mælir heldur en um tungumálið? Auðvitað væri réttara að segja: Við sem eru hér samankomin, því neitar enginn, þ.e. ef tilgangurinn er ávarpa á alla gesti óháð kyni. Það verður nefnilega að skoða segðir sem þessa í réttu samhengi. Voru allir gestir karlmenn? Var verið að ávarpa alla fundargesti? Er mælandi að tala á sínu móðurmáli eða mætti skrifa þessa villu, ef villa er, á vankunnáttu? Það kemur ekki fram hjá höfundi, bara að það sé rangt að ávarpa hóp með þessum hætti.
Nú er ég jafnréttisinni. Ég hef hins vegar litla trú á því, að jafnrétti náist með þeim aðferðum sem blogghöfundur leggur til, af ofangreindum ástæðum. Þrátt fyrir, að hægt sé að hafa áhrif á hvernig fólk hugsar með því að nota tungumálið, jafnvel nauðga því, þá er málið hins vegar nokkuð sem hefur verið í sífelldri þróun í margar aldir. Ég efast um, að þegar menn byrjuðu t.d. að nota orðið hetja, að þeir hafi gefið gaum að því hvert málfræðilegt kyn þess var. Ég efast líka um, að það hafi skipt þá máli. Jafnvel þó við myndum taka okkur til og ætla okkur að breyta tungumálinu, þurrka út karlkyn eða jafnvel allt málfræðilegt kyn, þá væri það í mínum huga eins og að reyna kæfa reyk til að slökkva eld. Til að slökkva eld er best að ráðast að rótum hans. Vandamálið er nefnilega samfélagslegs eðlis, ekki málfræðilegs.
PS. Höfundur þeirrar bloggfærslu sem hér er um rætt er kvenmaður. Notkun mín á karlkynsorðinu höfundur er með vilja gerð en hefur ekkert með afstöðu mína til kvenna að gera.
Dægurmál | Mánudagur, 27. desember 2010 (breytt 28.12.2010 kl. 08:14) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Kristnir menn trúa því að Jesús Kristur hafi fæðst um þetta leyti í Betlehem og því fagna þeir jólunum. Heiðnir menn fagna jólum af því sólin hefur sigrað myrkið og dag tekur því að lengja á ný. Eflaust hafa fleiri trúarbrögð sínar skýringar á þessum hátíðum, en fyrir mér eru jólin hátíð fjölskyldunnar. Mér er nokk sama hvaða ástæður fólk gefur sér til að setjast niður með ættingjum og vinum, gefa gjafir og njóta þess að vera saman, því tilgangurinn helgar meðalið, ekki satt?
Ég er mikið jólabarn. Þegar ég var yngri var ég friðlaus, sérstaklega þegar líða tók nær aðfangadegi og heldur mamma því fram, að svo hafi verið allt þar til ég varð 25 ára. Hún um það! Mér finnst hins vegar þessar hátíðir afskaplega skemmtilegar; smákökubakstur, jólagjafaleiðangrar, skreyta jólatréð og allt það er fylgir þessum tíma. Við systkynin máttum eiga von á góðum og fallegum gjöfum, foreldrum okkar finnst fátt skemmtilegra en að gleðja okkur og gefa okkur það er við óskuðum okkur heitast.
Þegar ég var 6 ára átti ég í desember víst mjög bágt með að ráða við mig. Eftirvæntingin var mikil og spennustigið eftir því. Aftur og aftur fékk ég að heyra, ef ég myndi ekki haga mér vel myndi pakkinn minn hreinlega minnka. Á aðfangadag, eftir búið var að keyra út pakkana, þá sá ég að undir jólatrénu var jólapakki sem var svipað stór og kassinn utan um það sem ég hafði helst óskað mér: Fálkinn úr Star Wars, farartæki Hans Óla. Tíminn hreinlega leið ekki fram að jólamatnum og ég gat varla borðað fyrir spenningi. Loks var búið að taka af borðinu og vaska upp. Systir mín las á stóra kassann og viti menn, hann var til mín. Ég var ekki lengi að rífa marglitan gjafapappírinn utan af kassanum og sá, að þetta var Fálkinn. Er ég opnaði pakkann, þá sá ég að hann var tómur! Vonbrigðin voru mikil og rétt eins og önnur 6 ára börn, þá átti ég erfitt með að ráða við tárin. Mamma og pabbi sögðu, að pakkinn minn hlyti að hafa minnkað svona mikið, vegna þess ég hefði verið svo óþægur í desember. Ekki bætti þessi skýring úr skák og ekki leið á löngu þar til ég var sendur inn í bókaherbergi, þar sem ég gæti grenjað í friði. Er ég kom þangað inn, stóð Fálkinn tilbúinn á skrifborði pabba. Ég stökk hæð mína af gleði og hljóp fram með gripinn. Þá hafði pabbi ákveðið að setja hann saman kvöldið áður, svo hann þyrfti ekki að nota aðfangadagskvöld í slíka vinnu.
Þó svo einhverjir muni eflaust reka upp stór augu við þessa sögu og þykja framkoma foreldra minna svolítið kvikindisleg, þá er þetta svolítið upp á teningnum hjá okkur í fjölskyldunni á jólunum. Við notum tækifærið til að stríða hvert öðru. Til dæmis mætti nefna, að á hverjum jólum fá allir sérstaka gjöf frá Hrekkjalómunum (sem enginn veit hverjir eru) og eru þær gjafir nær undantekningalítið eingöngu hugsaðar til að stríða. Eitt árið hafði systir mín mikið kvartað undan því að eiga ekki kærasta og því fóru hrekkjalómarnir og keyptu einn slíkan. Reyndar uppblásinn, en kærasti engu að síður. Annað árið fékk pabbi gjafakort á Bæjarins bestu, en það er uppáhalds veitingastaðurinn hans. Ég fékk fyrir nokkrum árum vottorð um að dóttir mín hefði verið skírð í Grafarvogskirkju, undirritað af sóknarprestinum og á bréfsefni kirkjunnar (verð að viðurkenna að í fyrstu hélt ég að ekki væri um grín að ræða). Öll höfum við fengið okkar skerf og hlægjum við dátt á kostnað hvers annars. Og stundum er mikið á sig lagt, til að gera brandarann sem skemmtilegastan. Allt er þetta þó í góðu gamni og enginn sár á eftir (nema ég í þetta skipti sem skírnarvottorðið kom :D ).
Nú er dóttir mín á þeim aldri að jólin eru alveg gríðarlega spennandi, hún vaknar eldsnemma og er friðlaus allan daginn. Mamma getur ekki annað en glott út í annað. Ég hef hins vegar gaman af þessu og tek þátt í þessu með henni. Reyndar vaknar hún stundum fullsnemma en við förum saman í leynilega jólagjafaleiðangra og hlægjum að því hvað við erum sniðug að velja gjafir. Hún er reyndar hjá mömmu sinni á aðfangadagskvöld en kemur til mín á jóladag og ef ég þekki hana rétt, þá verður hún vöknuð frekar snemma, móður sinni til mikillar armæðu. Nú þegar eru farnir að birtast pakkar undir trénu okkar og þeir vekja mikla athygli. Það má reyndar ekki lesa á gjafamiðana en það er samt rosalega freistandi, enda situr hún fyrir framan tréð og spáir í hvað sé í hverjum pakka og hver eigi þá.
Það er einmitt í gegnum þessa barnslegu gleði, eftirvæntingu og spennu sem ég nýt jólanna best. Allar pælingar um hvað eigi að gefa hverjum, hvaða pakki er minn og svoleiðis, eru svo skemmtilegar. Það er það sem gerir þetta að hátíð fyrir mér, svo ekki sé nú minnst á samverustundirnar með þeim sem manni þykir vænt um. Jólin eru jú til að gleðjast saman.
Af því sögðu, óska ég þér, lesandi góður, gleðilegra jóla.
Bækur | Miðvikudagur, 22. desember 2010 (breytt kl. 12:51) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég lenti í umræðum á Facebook í gær, þar sem verið var að fjalla um ákveðið blogg. Ég var ekki á því að viðkomandi bloggari væri mjög svo sniðugur, heldur hélt því fram að bloggið væri sorglegt vitni um þegar verið er að upphefja sjálfan sig á kostnað annarra. Þá var sagt, að ég bara skildi ekki bloggið. Ég hef áður lent í umræðum, þar sem sagt er við mig, að ég hreinlega skilji ekki við hvað er átt. Eflaust er margt til í því, ég gef mér ekki að skilji allt. Hins vegar er ég ágætlega læs, hef stautast í gegnum tvær eða þrjár bækur yfir ævina og tel sjálfum mér trú um, ég hafi ágætt skynbragð á texta. Ég er þó bara eins og aðrir og á alveg jafn auðvelt með að misskilja og mistúlka.
Það sem mér finnst merkilegt við svona athugasemdir, er að þær koma á vissan hátt upp um þann sem heldur slíku fram. Viðkomandi virðist á vissan hátt gera ráð fyrir, að aðeins sé hægt að skilja eitthvað á einn máta og þá á þann hátt sem hann skilur hlutinn. Ég held hins vegar, þegar vel er að gáð, þá búi textar yfir ótrúlega mörgum túlkunum, það sem einn skilur sem kaldhæðni finnst öðrum kjánalegt og sá þriðji tekur bókstaflega. Hver hefur rétt fyrir sér? Hvaða skilningur er sá hinn eini rétti? Hvaða mælistiku er hægt að leggja á slíkt?
Ég er þeirrar skoðunar, að allar túlkanirnar eigi rétt á sér. Allir lesendur tengja texta við reynsluheim sinn þannig úr verði merking. Og er það ekki af hinu góða? Það hefur í för með sér, að við sjáum enn skýrar hve ólík við erum, jafnvel þó líkamar okkar séu eins, jafnvel þó við byggjum sama land, búum í sama samfélagi og með sömu menningu. Jafnvel reynsluheimur tvíbura er ólíkur og því geta þeir lent í því, að lesa sama texta og skilja á mismunandi hátt. Ágætur vinur minn er bókmenntafræðingur og hefur stundum í gríni sagt, að bókmenntafræðingar viti betur en rithöfundar um hvað bækur þeirra fjalla. Kannski væri betra að segja, að bókmenntafræðingar viti betur en rithöfundar hvernig túlka megi bækur þeirra á mismunandi hátt, því stundum sjá rithöfundar bara þá túlkun sem þeir höfðu í huga er skrifuðu verk sitt.
Hið sama gildir um öll samskipti okkar mannanna. Merking orða getur verið á reiki; aðstæður, líkamstjáning, raddhæð og -beiting getur haft ótrúleg áhrif á hvernig við túlkum það sem okkur er sagt. Við sækjum í reynsluheim okkar og drögum túlkun og merkingu þaðan. Það hefur oft verið sagt, að um 70% af samskiptum okkar eigi sér ekki stað með orðum. Það er mikið til í því.
Þessi fjölbreytileiki er af hinu góða. Við ættum að fagna því, að við erum ekki öll eins. Við erum ekki eins og fjöldaframleidd klón, ræktuð til að sinna heilalausum störfum án þess að þurfa mynda okkur skoðun, draga ályktanir eða komast að niðurstöðum. Fjölbreytileikinn er af hinu góða.
Þess vegna finnst mér mjög leiðinlegt að sjá, bæði í almennum fjölmiðlum og víða á netinu hvernig fjallað er um málefni þeirra sem eru Íslamtrúar. Nú er ég trúlaus, eins og marg oft hefur komið fram á þessu bloggi, en það er ekki þar með sagt, að ég sé á móti trúarbrögðum. Mér finnst mjög mikilvægt, að þeir sem trúa hafi til þess frið og eigi sér afdrep til að sinna þeim skyldum er trú þeirra boðar. Kristnir menn fara í kirkjur, heiðnir í hof og múslimar í moskur.
Það er auk þess ýmislegt sem fylgir trúarbrögðum; hefðir, siðir og venjur sem jafnvel er ekki fjallað beint um í trúarritum. Sem dæmi mætti nefna, að jól eru haldin 24. desember ár hvert, þrátt fyrir að hvergi komi fram í Biblíunni að Kristur hafi fæðst á þeim tímapunkti og jafnvel verður að teljast mjög ólíklegt að svo hafi verið. Hins vegar er þetta dæmi um hefð hjá kristnum mönnum. Ég held, að þeir séu fáir ókristnir sem telja að jólahald sé kúgun meirihlutans. Hið sama má segja um klæðnað kvenna í íslömskum sið, þó hvergi sé skýrt tekið fram í Kóraninum hvernig konur eigi að klæðast þá er það hefð í þessum trúarbrögðum, að konur séu amk. með slæður. Þó eru þeir sem túlka það sem tákn um kúgun konunnar.
Nú er ég ekki að mæla með kvenfyrirlitningu, kynbundnu ofbeldi eða nokkru slíku, heldur að kalla eftir því að fjölbreytileiki sé virtur og ekki sé litið á breytingar eða annan skilning á veruleikanum sem ógn. Skilningur minn er ekki sá eini rétti. Það samfélag sem ég tek þátt í, er ekki það eina rétta. Þau viðmið og gildi sem ég styðst við eru ekki þau einu réttu. Heldur eru til mörg rétt viðmið og samfélög. Það er erfitt að heimta að borin sé virðing fyrir sér, ef maður getur ekki borið virðingu fyrir öðrum. Hvernig getum við ætlast til, að nýir Íslendingar, aðfluttir hvaðan æva úr heiminum, beri virðingu fyrir menningu okkar ef við berum ekki virðingu fyrir menningu þeirra? Hvernig getum við ætlast til að aðrir setji sig í okkar spor, tengi við reynsluheim okkar, ef við erum ekki tilbúin að gera slíkt hið sama?
Að lokum langar mig að minna á orð Ghandis: ,,Be the change you want to see in the world."
Heimspeki | Mánudagur, 20. desember 2010 (breytt kl. 14:11) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Einu sinni fyrir löngu síðan var konungur einn í ríki sínu. Átti hann eina dóttur, er þótti fögur og væn. Hafði hann hjá sér hirð mikla, þar á meðal vitring einn og hirðfífl. Vitringurinn hafði lært hjá helstu spekingum og fræðimunkum og þótti vís maður um marga hluti. Var hann konungnum til ráðgjafar um flest mál, auk þess sem hann hafði það hlutverk að kenna prinsessunni.
Eitt ár varð mikill uppskerubrestur í ríkinu. Var konungi mjög umhugað um þegna sína og hafði af þessu þungar áhyggjur. Fékk hann mörg ráð og góð frá vitringnum. Dagarnir voru honum langir og erfiðir. Á kvöldin fékk hann hirðfíflið til að leika listir sínar og létta sér stundir. Fíflið lék á als oddi, fór handahlaup og hafði uppi hin mestu kjánalæti, við fögnuð bæði konungs og prinsessu. Fór þetta í skapið á vitringnum, er lét ekkert færi framhjá sér fara, til að gera lítið úr fíflinu. Í hvert sinn er hirðfíflið skyldi skemmta hirðinni, andvarpaði vitringurinn hátt.
- Á nú enn að líta til fíflsins og skemmta sér yfir kjánalátum? Aldrei myndi ég haga mér svona, sagði hann. Gekk svo fram eftir vetri. Á daginn sótti konungur ráð til vitringsins en á kvöldin skemmtun til hirðfíflsins. Vitringurinn varð viðskotaillri við hirðfíflið eftir því sem tímar liðu fram.
- Aðeins forheimskandi kjánalæti og bjánaháttur sem þetta fífl hefur uppi. Ekki ætla ég að fylgjast með þessari skemmtun, ef skemmtun mætti kalla, sagði hann hátt svo aðrir í hirðinni heyrðu til. Ekki lét hirðfíflið þetta á sig fá, heldur hélt uppteknum hætti og létti konungi lundina.
Dag einn gat vitringurinn ekki lengur setið á sér og gekk á fund konungs og mælti:
- Hví eyðir yðar hátign tíma sínum í að horfa á og fylgjast með fíflalátum og kjánaskap? Hafið þér engin þarfari verk að vinna?
Konungur leit til vitringsins og brosti.
- Jafnvel í allri þinni visku, sérðu ekki að bros og hlátur eru besta lækning við því er hrjáir huga og hjarta, svaraði konungurinn.
Vitringurinn firrtist við og sagði:
- Ekki kann það góðri lukku að skýra, að láta prinsessuna fylgjast með þessu framferði fíflsins í stað þess að sinna lexíum sínum, eða trúir yðar hátign því? Varla er fíflaskapurinn til eftirbreytni?
Enn brosti konungur og svaraði:
- Ég kýs heldur, að prinsessan líti upp til þeirra sem í fávisku sinni gleðja aðra, fremur en að hún líti upp til þeirra sem í visku sinni gera lítið úr öðrum.
Bækur | Sunnudagur, 19. desember 2010 (breytt kl. 16:36) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Urður Ýr, 7 ára dóttir mín, hefur stundum eftir lagatexta á ensku og þó svo hún fari ágætlega hljóðrétt í gegnum orðin, veit hún ekkert hvað þau þýða (fyrir utan einstaka orð). Getur verið að nemendur séu oft í svipaðri stöðu með Íslendingasögur? Og er það eðlilegt og viðurkennt?
Íslendingasögur eru í senn frábær leið til að kynnast menningu, viðmiðum og gildum ásamt hugarfari annars vegar á Íslandi við landnám og fram að kristnitöku en eins gefa þær okkur ákveðna mynd tímanum er þær voru skrifaðar. Að mínu mati eru þær grunnur að íslenskri bókmenntahefð og því tel ég mikilvægt að þær séu kenndar vel.
Íslendingasögurnar eru að mínu mati, fyrir utan að vera hrein og klár lestrarkennsla, kennsluefni í menningarlestri, þ.e.a.s. af því að sögurnar gefa okkur sýn inn í aðra menningu, þá skiptir máli að kennarar geti kennt og þekki þá menningu sem um ræðir. Til dæmis væri til einksis ef kennari léti bekk lesa Flugdrekahlauparann ef viðkomandi kennari þekkti ekki inn á afganska menningu og gæti útskýrt fyrir bekknum hvers vegna sum atriði, sem virka smá, skipta miklu máli. Í þessum menningarlestri felst, til að geta sett sig í spor persóna og fengið samúð, skilning og samkennd með þeim og þeirra gjörðum, að lesendur viti hvaða kröfur samfélagið gerir, hvaða viðmið eigi við hverju sinni og hvers vegna samfélagið bregst við eins og það gerir.
Skoðum dæmi: Í upphafi Gísla sögu er sagt frá Birni nokkrum, sem fer á milli bæja og skorar menn á hólm vilji þeir ekki ganga að kröfum hans og vilja. Flestir gefa eftir, þar til kemur að bæ afa þeirra Súrsona. Þar er Ari skoraður á hólm af Birni sem vill eignast konu Ara og Ari gengur á hólm við Björn og fær bana af. Þá stígur Gísli á fætur og lætur sér ekki lynda við þessi málalok, vill ekki að góður kvenkostur gangi úr ættinni. Hann skorar Björn á hólm.
Í frásögninni er ekkert sagt frá því hvernig hólmgöngulög voru í Noregi (og síðar Íslandi) á þessum tíma, það er gengið út frá því að lesendur viti það. Ólíkt því sem sýnt er í kvikmyndum, þá voru mjög strangar reglur, t.d. um stærð hólmsins, hvernig leysa mátti sig undan skyldum hólmgöngunnar og svo mætti lengi telja. Ein af þessum reglum sneri um hver ætti fyrsta höggið og hvernig skyldi höggva. Sá er skoraður var á hólm fékk fyrsta höggið. Sem sagt, það sem gerði Björn hinn blakka svo ógurlegan var, að hann þoldi fyrsta höggið. Hann var góður bardagamaður sem kunni að taka við höggum og kunni að höggva þannig að það var erfitt að verjast því. Þess vegna létu bændur að vilja hans frekar en að ganga á hólm við hann. Setur þetta líka viðbrögð Ara í annað ljós og mun hetjurlegra.
Það eru svona atriði sem mér finnst mikilvægt að koma til nemenda. Að baki texta Íslendingasagna er samfélag sem er með alveg jafn skýrar reglur, gildi og viðmið og það samfélag er við búum í dag. Hlutverk kennara hlýtur að vera, að koma nemendum í skilning um það sem þeir eru að lesa. Alltof oft heyri ég af því, að kennarar hafi verið að kenna einhverra hinna stóru Íslendingasagna; Njálu, Eglu, Laxdælu osfrv.; og prófa upp úr þeim með krossaprófi sem mælir hversu vel nemendur muna hin minnstu smáatriði hverrar sögu fyrir sig. Líklega er þekktasta dæmið um spurningu á slíku prófi: Hvað hét hundur Gunnars?
Hvaða máli skiptir hvað hundurinn hét? Skiptir ekki miklu meira máli að koma nemendum í skilning um mikilvægi þeirra gjafa sem Ólafur pá gefur Gunnari? Hvers vegna menn voru að gefa hverjir öðrum gjafir og hvað þær þýddu? Í mínum huga er þessi þekkta spurning í raun ekkert annað en könnun á því hvort nemandi hafi lesið eða ekki, fremur en hvort hann hafi skilið söguna.
Í dag eru nemendur enn fjarlægari heimi Íslendinga-, konunga- og samtímasögum 12-13. aldar. Því er svo mikilvægt að hjálpa þeim að komast inn í þessa menningu, hjálpa þeim að skilja hana en ekki einblína á smáatriði texta - smáatriði sem bæta litlu við skilning þeirra. Ég er nefnilega viss um, að nemandi sem skilur mikilvægi gjafa Ólafs pá, muni óumbeðinn taka fram nafn hundsins. Lesskilningur er nefnilega ekki spurning um að geta páfagaukað heilu kaflana upp úr einhverri sögu, heldur að skilja hvaða drifkraftur er að baki hverrar persónu, hvaða réttlætingar viðkomandi hefur fyrir gjörðum sínum og hvers vegna samfélag persónanna er eins og það er.
PS. Hundur Gunnars hét Sámur.
Bækur | Fimmtudagur, 16. desember 2010 (breytt kl. 08:46) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég er single. Einhverra hluta vegna gengur mér erfiðlega að halda í sambönd. Mér liggur svo sem ekkert á að festa ráð mitt og er ekki í örvæntingarfullri leit að framtíðarmakanum, því mér líður bara ágætlega með að hafa hlutina eins og þeir eru núna.
Amma gamla var þó eitthvað að tala um þetta fyrir skemmstu, að við frændurnir værum einhleypir, eins og við værum nú miklir mannkostir. Og sú gamla kunni skýringar á því. Jú, við kynnum á þvottavélar og værum ágætir kokkar og þyrftum þar af leiðir ekki á konu að halda. Um leið og maður glotti út í annað yfir því, að hún hafi tekið 80 ára sögu kvenréttindabaráttu - eða hvað hún er löng - og afgreitt á einu bretti í einni setningu.
Það er þó eitt í þessari hugleiðingu hennar sem vakti mig til umhugsunar. Fyrir utan hve samfélagið hefur breyst á þessum tíma, slaknað á kröfum um hjónaband, barneignir og svoleiðis, þá er eins og kynin séu orðin svo sjálfstæð að þau þurfa vart hvort á öðru að halda nema til að viðhalda mannkyninu.
Í dag eru konur orðnar mjög svo sjálfstæðar, þörfin fyrir handlagna heimilisföðurinn er hverfandi (amk. í orði) og þvottavélar eru orðnar svo einfaldar að jafnvel þvottaheftustu karlmenn fara leikandi með að stilla á 30° og henda öllu saman í þvott.
Er þetta endilega jákvæð þróun?
Er það jákvætt að kynin verði svo óháð hvort öðru? Ég veit það ekki. Ég er kannski gamaldags og verð skotinn í kaf með það, en mér finnst stundum sem jafnréttisbaráttan sé komin fram úr sjálfri sér, þá að þessu leyti. Auðvitað er gott að hafa brotið upp þessi úr-sér-gengnu staðalmyndir og kynhlutverk, en undanfarið hef ég spurt sjálfan mig að þessu, hvort amma gamla hafi hreinlega rétt fyrir sér, með þar sem ég kann að elda, þvo þvott og allt það sem hún ólst upp við að væru hlutverk kvenmanna á heimili, sé ástæða þess að ég er í þeirri stöðu sem ég er í dag?
Bækur | Sunnudagur, 12. desember 2010 (breytt kl. 14:19) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stundum, þegar ég er að lesa facebook, twitter og blogg ýmis konar, þá undrar það mig hvað fólk skrifar. Jafnvel ósköp rólegir einstaklingar - sem í sínu daglega lífi eru ekki óvenjulegri en hver annar - virðast taka 180° beygju og umturnast í tröllvaxin fjöll neikvæðni, hroka og sjálfsupphafningar.
Nærtækt dæmi um þetta er nýafstaðin rimma á milli tveggja tískubloggara, þar sem annar aðilinn hefur gaman af því að fjalla um samskipti kynjanna, sambönd, tísku og förðun á meðan hinn aðilinn gerir út á það að gera grín að slíku, kallar það neysluvæðingu og gerir almennt lítið úr þeim sem blogga um kvennamálefni, ef svo mætti að orði komast. Í mínum huga væri þetta eins og ef einhver karlmaður gerði grín að öðrum karlmanni fyrir að halda úti bloggi um fótbolta.
Hvað fær fólk til að haga sér svona? Hvernig stendur á því, þegar fólk er sest fyrir framan tölvu og komið á netið, að það telur sig geta gert lítið úr samborgurum sínum? Mér sýnist nefnilega æði oft, að þetta sé gert til að fá athygli annars vegar og hins vegar til að upphefja sjálfan sig á kostnað þess sem fundið er að. Og hverju skilar það? Jú, vissulega eru einhverjir til í að taka þátt og kannski veitir það viðkomandi einhverja stundarfróun. Fá nokkurs konar egó-fullnægingu.
Ég viðurkenni fúslega, að hafa tekið þátt í þessu hér áður fyrr. Þá gat ég fundið ýmislegt til að gera lítið úr á netinu, en ég tel að það hafi umfram allt sagt meira um mig en það sem ég var að nota til upphafningar á sjálfum mér.
Netið er hins vegar fjölmiðill og ólíkt mörgum öðrum, þá man netið allt sem hefur verið þar skrifað og sett fram. Við þurfum því að hugsa áður en við sláum inn, því maður þarf að geta staðið við, staðið og fallið með því sem skrifað og sagt er, rétt eins og í raunheimum. Jafnvel þó maður sé bara með 250 vini á Facebook, þá er það sem skrifað er í status þar auglýsing fyrir þeim öllum hvað manni finnst, hvað maður er að gera eða hugsa. Það er því oft ágætt þegar kemur að netskrifum, rétt eins og í öllum samskiptum manns við aðra, að hugsa fyrst og gera svo.
Vefurinn | Þriðjudagur, 7. desember 2010 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eitt af því sem hefur verið mjög áhugavert að fylgjast með í kjölfar kosninga til stjórnlagaþings, er hvernig hinir mismunandi fræðimenn, lærðir og sjálfsskipaðir, hafa túlkað kjörsókn. Hún var í kringum 37%, eins og eflaust flestir vita. Ég viðurkenni fúslega, að mér hefði þótt gaman að sjá fleiri mæta á kjörstað, en segi líka, að það mættu þó yfir 83.000 þúsund manns.
Ég ætla ekki að að gefa mér ég viti eða geti ráðið í af hverju hin 63% mættu ekki. Fyrir því liggja eflaust mjög margar ástæður og það að ætla sér að rýna í það, án þess að hafa nokkrar rannsóknir eða fyrri reynslu til stuðnings, er eins og að fiska í gruggugu vatni. Allar þær niðurstöður sem slíkir fræðimenn komast að, segja í raun meira um þá en nokkurn tíma raunverulegar ástæður þess að fólk mætti ekki.
Yfir 500 frambjóðendur voru í framboði. Margir þeirra áttu og eiga fullt erindi á þetta þing. Af því sem mér sýndist þá voru flestir frambjóðendur heiðarlegir í sinni baráttu. Sjálfur kynnti ég mér stefnumál eflaust vel yfir 150 frambjóðenda og valdi á minn seðil eftir því. Ég held, að þetta sé einsdæmi í sögunni, að heil þjóð taki höndum saman með þessum hætti til að skrifa stjórnarskrá og því stórmerkileg tilraun, sem ég vona að takist vel.
Litla systir mín var í framboði og ég tók þátt í því af fullum krafti, með tilheyrandi böggi fyrir vini og vandamenn. Mér finnst hún hafa staðið sig gríðarlega vel, hún kom vel fyrir, fór víða til að tala við frambjóðendur, t.a.m. lagði hún land undir fót og heimsótti Borgarnes, Blönduós og Akureyri, ásamt því að heimsækja menntaskóla og elliheimili. Hún lagði ríka áherslu á stefnumál sín og féll ekki í þá gryfju að gagnrýna aðra frambjóðendur. Við fjölskyldan lögðumst öll á eitt með að aðstoða hana, hvert með sínum hætti. Og óháð því hvort hún endi sem þingmaður á stjórnlagaþingi eða ekki, þá finnst mér hún vera sigurvegari og er stoltur af henni.
Dægurmál | Mánudagur, 29. nóvember 2010 (breytt kl. 13:29) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Las þetta á Cheerios pakka og fannt þessi tilvitnun býsna skemmtileg, fyrir utan hvað hún hljómar vel. Ég hef nefnilega verið svolítið að pæla í svona hlutum undanfarið, í raun allt frá því í sumar. Svona naflaskoðun einskonar. Það kemur nefnilega margt sniðugt í ljós þegar maður horfir í spegilinn og rýnir framhjá þeirri glansmynd sem maður reynir stundum að draga upp af sjálfum sér.
Ég bloggaði síðast um Jón Gnarr og hvernig ég tel að hegðun hans og framkoma eigi eftir að hafa markandi áhrif á samfélag stjórnmálamanna og jafnvel víðar. Þetta óttaleysi hans við að vera hann sjálfur og að detta ekki inn í hlutverk eða rullu pólitíkusa. Hann er blátt áfram, ábyrgðarfullur og þorir að takast á við hinn almenna borgara, sbr. viðveru hans og dagbókar hans á Facebook.
Þegar ég stend og horfi á sjálfan mig í speglinum og rýni framhjá upphöfnum sjálfshugmyndum mínum, þá er ýmislegt jákvætt en jafnframt neikvætt sem ég sé. Það er kannski full langt og sjálfhverft að fara telja allt það upp enda ekki beinlínis það sem ég ætla að fjalla um. Hins vegar skila þessi augnablik mér oft ákveðinni uppljómun. Ég kemst vissulega í betri snertingu við sjálfan mig og skil betur hvað liggur að baki því sem ég geri, segi eða því sem mér finnst.
Það sem ég velti hins vegar oft fyrir mér er, hversu margir ætli stundi það að vera heiðarlegir við sjálfa sig? Hversu margir ætli setjist niður og leggi glansmyndina af sjálfum sér til hliðar og virkilega rýni í sjálfan sig? Og hversu heiðarlegur getur maður í raun verið?
Eitt er að sjá galla sína og kosti, annað að skilja hvers vegna maður er eins og maður er, það þriðja að finna leiðir og nota þær til að laga það sem manni líkar illa við. Ég held að það sé mjög hollt hverjum manni að fara nokkrum sinnum um ævina í gegnum nokkurs konar hreinsunareld, það er þroskandi. Og hvað er svona sjálfsrýni annað en hreinsunareldur?
Fyrir mörgum árum hringdi stelpa sem ég hafði verið að date'a í mig, hvort það var ekki hálfu öðru ári eftir við hættum að hittast. Hún hafði þá farið í AA og hringdi sérstaklega til að biðja mig afsökunar á hegðun sinni gagnvart mér við vinslit okkar. Ég hafði ekki þroska þá til að skilja hvað hún var í raun að gera, hvað hún var að ganga í gegnum. Í dag þykir mér vænt um þessa afsökunarbeiðni og þessi verknaður hennar kenndi mér, reyndar mörgum árum síðar, hve hreinsandi það er að biðjast afsökunar. Bæði fyrir þann sem þarf að biðjast afsökunar, enda þarf viðkomandi að skoða verk sín og gjörðir í gagnrýnu ljósi en eins þann er beðinn er fyrirgefningar. Til að sjá villur síns vegar í slíkum málum, þarf maður nefnilega að vera heiðarlegur við sjálfan sig.
Bækur | Miðvikudagur, 24. nóvember 2010 (breytt kl. 23:51) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar