Kvenréttindi vs. jafnréttindi

Ég er fylgjandi jafnrétti. Ekki bara jafnrétti kynja, heldur jafnrétti yfir alla línuna. Jafnrétti milli trúar-, skoðana- og lífsspekihópa, kynþátta, íþrótta og svo framvegis. Ég skil í raun og veru ekki hvers vegna það þurfi yfirhöfuð að vera ræða slíka þætti, svo sjálfsagt finnst mér að slíkt jafnrétti sé við lýði. 

Það sem fer hins vegar oft í taugarnar á mér er barátta kvenréttindasamtaka. Þó vissulega sé margt sem slík samtök benda sé réttmætt er annað sem flokka mætti frekar sem öfga og frekar baráttu fyrir umfram réttindum til handa konum en baráttu til að jafna réttindi kynjanna.

Eitt af því sem fer mjög lítið fyrir í allri umræðu um jafnréttindi eru kynbundin störf og þá sérstaklega þau störf sem karlmenn veljast frekar til. Kvenréttindasamtök eru dugleg að benda á, að hinar svokölluðu kvennastéttir fái almennt lægri laun, jafnvel þó viðkomandi störf kalli á sérhæfða menntun. Eins er oft bent á, að téðar stéttir verði fyrr og frekar fyrir niðurskurði þegar herðir að.

Það er ýmislegt til í þeim málflutningi, en gefur samt ekki alveg nógu heildstæða mynd af raunveruleikanum, að mínu mati. Ef skoðuð eru helstu kvennastörfin, þá koma nokkrir þættir í ljós. Langflest eru þau innistörf, fela í sér litla líkamlega áhættu (að minnsta kosti mjög afmarkaða) og mörg þeirra henta vel með fjölskyldulífi, þó vissulega megi finna þar undantekningar á, t.d. vaktavinna hjúkrunarfræðinga. Séu þessi gæði (þetta eru vissulega gæði) borin saman við helstu karlastörfin, þá kemur í ljós að mörg þeirra er ekki að finna í þeim, t.d. eru mörg týpísk karlastörf útistörf, fela í sér talverða eða mikla líkamlega áhættu og henta mörg hver illa með fjölskyldulífi. Auðvitað er þetta mikil einföldun, en mér finnst mjög oft í umræðunni gleymast þau gæði sem fylgja hverju starfi eða hverri starfstétt fyrir sig. Það er töluverður gæðamunur á starfi einstaklings sem vinnur í við byggingu stíflu upp á heiði annars vegar og hins vegar einstaklings sem vinnur á leikskóla.

Nú finnst mér mjög mikilvægt að fólk fái greidd sömu laun fyrir sömu vinnu. Mér finnst eðlilegt að tveir kennarar með sömu menntun og reynslu standi til boða sömu laun fyrir sömu vinnu, óháð því hvort þeir séu báðir af sama kyni eða ekki. Að sama skapi finnst mér eðlilegt slíkt hið sama sé uppi á teningnum í störfum sem tengjast stíflugerð. Það sem er hins vegar merkilegt að skoða, er að konur kjósa í miklum meirihluta að sinna ekki störfum sem hafa ekki þau gæði sem hin týpísku kvennastörf hafa, þ.e. þær vilja frekar innistörf sem fela í sér litla líkamlega áhættu og henta vel með fjölskyldulífi. Kannski vegna þess að samfélagið krefst þess af þeim, kannski vegna þess að þær sjá fram á að leggja líkama sinn undir barneignir og velja því störf sem henta því betur sem og umönnun og uppeldi barna.

Þetta þýðir þó, að meðalaldur karla er lægri en hjá konum. Og eru það ekki gæði? Ég held nefnilega, að stundum hafi feminísk umræða slegið svolitlu ryki í augu okkar. Við höfum verið í sífelldri umræðu um kjör, réttindi og laun, að við höfum gleymt að setja hlutina í stærra samhengi. Sem sagt, dregin hefur verið upp ákveðin tálsýn sem við sjáum stundum ekki í gegnum. Talað hefur verið um að meðallaun karla séu svo og svo miklu hærri en kvenna, en þá gleymist kannski að taka inn í myndina að karlar vinna oft lengri vinnudaga, hættulegri störf sem sum henta afar illa með fjölskyldulífi. Ég efast ekki um, að margir karlmenn myndu meira en lítið vera til í að eyða meiri tíma með fjölskyldu sinni. En samfélagið hefur þróast þannig, að margir karlmenn fórna ákveðnum gæðum til að fá hærri laun. Að sama skapi fórna margar konur ekki þessum gæðum. Þó þessi gæði séu ekki metin til launa eða sem kjarabætur, þá mættu segja að þau séu innifalin í hinni duldu launaskrá. Og framhjá henni er alltof oft litið, finnst mér. 

Hvað varðar hinn punktinn, um að niðurskurður bitni oftast á þeim stéttum sem eru kvennastéttir. Ég veit svo sem ekki hvernig það lítur út í sögulegu ljósi, því geta einhverjir hagfræðingar svarað betur en ég. Hins vegar hefur verið áhugavert að fylgjast með allri umræðu um störf, niðurskurð og atvinnuleysi eftir hrunið. Við hrunið misstu mjög margir verkamenn vinnuna, bæði sérmenntaðir iðnmenn og almennir verkamenn. Hvort tveggja að miklu leyti karlastéttir. Auk þess drógu bankarnir saman seglin og var mörgum sagt upp þar, en ég reikna með að þar hafi kynjahlutfallið verið tiltölulega jafnt. Þó vissulega hafi verið mikið rætt um að skapa störf fyrir þá sem eru atvinnulausir, hefur lítið farið fyrir umræðu um kynskiptingu meðal atvinnulausra sem og hvaða stéttum þeir tilheyra. Hins vegar hefur umræða um niðurskurð í heilbrigðis- og menntakerfinu farið hátt undanfarið. Þó málefnið sé vissulega mikilvægt, er áhugavert að sjá hvernig umræða um niðurskurð hjá tveimur stórum kvennastéttum hefur farið hærra en hátt hlutfall atvinnulausra meðal stórra karlastétta. Hvort er það vegna þess að störf kvenna eru mikilvægari en karla eða vegna þess að eðlilegra sé að karlmenn velji sér störf sem eru ekki endilega alltaf örugg? Nú vil ég alls ekki gera lítið úr störfum sem tengjast þessari umræðu, heldur er ég að benda á með hvaða hætti umræðan er.

Ég held, að til að ná fram alvöru jafnrétti, þurfum við að skoða okkur sjálf, samfélagið og þetta tvennt saman með gagnrýnum augum. Það er ekki nóg, að benda bara á það sem hentar manni akúrat þá stundina. Þannig er maður hvorki heiðarlegur gagnvart sjálfum sér né öðrum.  

 


Að þykja vænt um sjálfan sig

Fyrir nokkru lenti ég í umræðum um sambandsmál. Ég var spurður af því hvers vegna ég ætti ekki kærustu. Í kjölfarið hef ég svolítið velt þessum málum fyrir mér. Hvernig sambands mál mín hafa þróast á undanförnum árum og þess háttar. Það er nefnilega ekki sama hvenær, hvernig eða með hverjum maður er hverju sinni. 

Ég hef ekki verið í sambandi síðan á síðasta ári. Eftir við barnsmóðir mín hættum saman, þá fór ég úr einu sambandi í annað, var svolítið ráðvilltur, einmana og átti erfitt með að átta mig hvað ég vildi, hvert ég stefndi eða hvað ég vildi fá út úr hlutunum. Kannski skiljanlegt, þar sem þau sambandsslit voru ákveðið skipsbrot fyrir mig. Hins vegar hef ég öðlast góða reynslu í kjölfarið og í dag sé ég alla þessa hluti í öðru ljósi, en ég gerði þá.

Eitt af því sem ég er sífellt meira farinn að hallast að, er að grunnforsenda þess að að eiga gott samband er að þykja vænt um sjálfan sig. Eflaust kemur þetta einhverjum spánskt fyrir sjónir, en þetta er engu að síður skoðun mín. Um leið og manni þykir vænt um sjálfan sig, þá er auðveldara að vera hamingjusamur af eigin hvötum, maður er ekki jafn háður því að hinn aðilinn geri mann hamingjusaman. Það hefur nefnilega ótrúlega mikið að segja, að geta náð því stigi að vera engum háður um hamingju eða lífsgleði. Það þýðir, að allt umfram mann eigin hamingju gerir hlutina bara betri.

Ef manni þykir ekki vænt um sig, kallar sífellt eftir því að aðrir tryggi hamingju manns, eða maður leitast eftir því að uppfylla þarfir annarra, þá fyrr eða síður, tel ég, rekst maður á vegg og þarf að horfast í augu við, að hamingja annarra er ekki sama og eigin hamingja. Auðvitað er hægt að upplifa gleði og sorgir með öðrum, gleðjast yfir góðum árangri eða hamingju barna eða annarra skyldmenna, en sú gleði eða hamingja ristir ekki jafn djúpt og sú sem er persónuleg, þ.e. ef þú ert ekki hamingjusamur fyrir.

Ég held líka, að einstaklingur sem þykir vænt um sig á auðveldara með að láta sér þykja vænt um aðra. Þú hefur eitthvað að gefa, ef þú eyðir ekki allri þinni orku að velta þér upp úr eigin óhamingju eða öðrum vandkvæðum. Maður þarf að geta notið eigin félagsskapar, átt sín áhugamál, drauma og markmið. Maður þarf að geta horfst í augu við sjálfan sig í speglinum brosandi, hvort sem einhver stendur manni við hlið eða ekki. Hið sama gildir um, hvort öðrum geti þótt vænt um mann. Ef maður á erfitt með að láta sér þykja vænt um sig, hvernig er hægt að krefjast þess af öðrum?

Þetta hangir allt saman og ekki hægt að fullyrða eitt eða neitt. Hins vegar, eftir gaumgæfilega umhugsun, er þetta niðurstaða mín. Á sínum tíma þótti mér ekki vænt um sjálfan mig og fyrir vikið átti ég erfitt í samböndum, hvað svo sem gildir um aðra. Í dag er ég að læra, læt mér þykja vænt um mig og nýt þess að vera einn með sjálfum mér og náttúrulega dóttur minni. Mér líður vel. Ég er hamingjusamur, þó svo allt sé ekki fullkomið. En hvenær er það svo? 


Hvaða mynd viltu draga upp af þér á netinu?

Eitt af því sem ég hef stunduð fjallað um, er hvernig fólk hagar sér á netinu. Sú mynd sem maður dregur upp af sjálfum sér á netinu getur í sumum tilfellum verið ansi ólík þeirri persónu sem maður er í raun í sínu daglega lífi. Nærtæk dæmi eru þeir sem falla í hlutverk trölla á spjallsvæðum eða þeir bloggarar sem gera út á það, að gera lítið úr öðrum til upphafningar á sjálfum sér.

Netið er eini fjölmiðilinn þar sem allar upplýsingar, allt sem fram kemur þar eða hefur verið hlaðið upp á netið, eru geymdar að eilífu. Tökum sem dæmi þetta blogg mitt. Jafnvel þó ég eyði út blogginu, fæ blog.is til að eyða öllum gögnum af serverum sínum, þá lifir það sem ég hef skrifað hér áfram. Jafnvel eru til sérstakar síður og vélar, sem eru helgaðar því að taka afrit af öllum vefsíðum á hverjum tíma.

Það er því mjög mikilvægt fyrir netnotendur að gera sér grein fyrir þessu og vinna á netinu út frá þessum upplýsingum. Það er ekki sama hvernig við komum fram, ekki sama hvað við segjum (jafnvel undir öðrum nöfnum) og enn síður sama hvað við gerum. Í raun mætti segja, að netnotendur þurfi að stunda ákveðna mörkun (e. branding) á sjálfum sér á netinu, þ.e. ákveða með sjálfum sér hvernig persóna þeir vilji að birtist á netinu, hvað mynd þeir vilja draga upp af sjálfum sér. Ekki ósvipað og allir sem eru í fjölmiðlum þurfa að gera. Hjá flestum gerist þetta sjálfkrafa, aðrir þurfa jafnvel aldrei að leiða huga að þessum málum þar sem hegðun þeirra á netinu er alla jafna góð. Hins vegar eru ekki allir þannig úr garði gerðir.

Til dæmis er það þekkt í Bretlandi að starfsmannastjórar skoða sífellt meira og ítarlegar umsækjendur um tilteknar stöður og hegðun þeirra á netinu. Ég reikna með, ef gerð væri rannsókn á þessu hérlendis myndi svipuð þróun koma í ljós. Þannig getur það komið í bakið á einhverjum ef viðkomandi hefur sótt um starf sem verkefnastjóri hjá Jafningjafræðslunni en er á sama tíma í Facebook-grúppunni Náðu í bjór, druslan þín - Staður konunnar er í eldhúsinu! Þannig mætti segja, um leið og netið hefur fjölgað leiðum okkar til tjáningar og stuðlað þannig að meira frelsi, þá er það frelsi vandmeðfarið. Vissulega öllum frjálst að hafa þær skoðanir sem þeir kjósa, en það er ekki víst að Jafningjafræðslan sé réttur staður fyrir einstakling sem þarf að vinna með unglingum, að hann sé með mjög ákveðnar, niðrandi skoðanir um kvenfólk. 

Ágætur félagi minn er oft og iðulega dæmdur harkalega fyrir framkomu sína á netinu. Þeir sem þekkja hann í raunheimum hafa þó oftast nær gott eitt um hann að segja. Hins vegar birtist manni oft önnur persóna á netinu, persóna sem ekki endilega hefur eftirsóknarverða eiginleika. Þannig er það með marga, sjálfur get ég fallið í þá gryfju. Ég velti stundum fyrir mér, hvort einhver myndi ráða mig í vinnu eingöngu út frá skrifum mínum og gjörðum á netinu. Hið sama gildir þegar ég sé fólk tröllast eða gera hluti sem eru á gráu svæði.

Þannig, ef þú hefur ekki hugsað um þessi mál áður, þá er kannski ekki seinna vænna. Prófaðu að gúggla þig, sjáðu hvað kemur upp. Bæði þig og þau notendanöfn sem þú notast venjulega við. Það getur verið mjög áhugavert að sjá hvað dúkkar up. Skoðaðu hvort allt sem upp kemur birtir þá mynd af þér sem er eins og sú sem þú vilt draga upp af þér. Kannski er þörf á að endurskoða hegðun sína, gjörðir og skrif.   


Göngum út frá því versta

Eitt af því sem ég velti stundum fyrir mér, er hvaða skilaboð starfsfólk ákveðinna fyrirtækja og stofnanna fá frá yfirmönnum sínum. Við búum í samfélagi um 300 þúsund einstaklinga og það hefur löngum loðað við þjóðina, að maður þekkir mann sem þekkir mann og þá er þjóðin öll á næsta leyti. Eða með öðrum orðum, samfélag okkar er svo lítið að það er frekar erfitt að ætla sér að komast upp með eitthvað kjaftæði til lengri tíma. 

Hins vegar virðist það vera lenska hjá sumum fyrirtækjum og stofnunum, sem nær flest öll selja þjónustu sína, að vantreysta viðskiptavinum sínum. Tökum sem dæmi tryggingarfélag. Gefum okkur að ég hafi lent í innbroti og öllu fémætu stolið, að undanskildum nærfatnaði og því sem var akkúrat þá stundina í þvottavélinni (hvaða þjófur dröslast út úr íbúð með blautan þvott?). Ég hringi að sjálfsögðu í lögregluna, tilkynni og kæri innbrotið en þar sem lögreglan upplýsir bara 14% innbrota í Reykjavík, þá segja þeir mér að litla líkur séu á því, ég endurheimti hlutina mína. Þá er að hringja í tryggingarfélagið. Jú, þeim þykir leitt að heyra þessa sorgarsögu mína og bjóða mér að koma með lista yfir þá hluti sem teknir voru. Ég rita samviskusamlega niður það sem ég á og mæti til þeirra nokkrum dögum eftir innbrotið. Já, í fyrsta lagi er sjálfsábyrgð, þ.e. ákveðin upphæð sem þeir bæta ekki. Í öðru lagi og hér hefst fjörið fyrir alvöru, þá reynir tryggingarfélagið allt hvað það getur til að komast undan því að borga mér, af því hugsanlega, já HUGSANLEGA, er ég að svindla á þeim. Þeir geta ekki verið vissir um, að það hafi ekki verið ég sem braust inn til mín og rændi sjálfan mig. Ha, var 20 cm breiður gluggi á 2. hæð ekki kræktur aftur. Enn leitt, þá færðu ekki neitt, enda getur bara kennt sjálfum þér um svona vanrækslu!

Samt virðast þeir ekki sýna sama vantraust í minn garð þegar ég mæti til að borga tryggingarnar mínar, það er ekki óskað eftir því ég sýni skilríki, ég þarf ekki að sýna fram á ég eigi þá hluti sem ég er að tryggja og hvað þá þeir segi, að komi eitthvað fyrir er það mitt að sýna fram á sakleysi mitt, svo ég geti fengið aftur greitt frá þeim ÞAÐ SEM ÉG HEF GREITT ÞEIM!

Sem sagt, tryggingarfélög ganga út frá því að verið sé að svindla á þeim, þegar það kemur að því að þau þurfi að borga út. Ég er að hugsa um, að senda tryggingarfélaginu mínu póst þegar rukkunin fyrir þetta ár birtist í póstkassanum mínum og biðja það um að staðfesta að um póst frá þeim sé að ræða og fá undirskrift þess aðila er sendir téða rukkun. Síðan mun ég kanna hvort viðkomandi aðili hafi leyfi til að senda rukkun í nafni tryggingarfélagsins og rukka tryggingarfélagið fyrir ómakið.

Annað svona dæmi er tollurinn. Gefum okkur ég eigi afmæli. Vinur minn sem býr í Útlandistan ákveður að gleðja mig með því að senda mér tölvuleik í afmælisgjöf. Hann merkir gjöfina sem afmælisgjöf en Tollurinn treystir ekki merkingum. Af því hugsanlega, já aftur HUGSANLEGA, gæti þetta verið einhvers konar útpælt tollasvindl af minni hálfu. Gjöfin er opnuð, sannreynt að um tölvuleik sé að ræða og síðan þegar mér er tjáð, að mér sé ekki treyst (af því það er bara gert í persónu hjá Tollinum) þá þarf ég að fylla út tollaskýrslu og greiða fullan toll af afmælisgjöfinni minni.

Enn og aftur, er mér sem neytanda ekki treyst af því, það eru til svartir sauðir. Þessum stofnunum og fyrirtækjum finnst þá auðveldara að mála alla svarta og láta þá síðan sanna að þeir séu hvítir og jafnvel þrátt fyrir sannanir, þá leyfa fyrirtækin sér samt að efast.

Síðasta dæmið, gefum okkur að ég sé að stofna fyrirtæki og sé í samskiptum við banka vegna þessa. Bankinn óskar eftir því að fá afrit af persónuskilríkjum mínum. Ég býðst til þess að skanna þau hjá mér og senda þeim í tölvupósti. Nei, það er ekki nógu gott, ég þarf gjörasovel og mæta í bankann þar sem persónuskilríki mín eru skönnuð. Ég hlýt því að gera ráð fyrir að það sé vegna þess að skannar þeirra séu svona sérstakir eða að sannreyna þurfi að sá sem heldur á téðum skilríkjum sé sá hinn sami og mætir í bankann. Því er þó ekki að heilsa, ég mæti með passann minn, þar sem er mynd af mér gleraugnalausum og nýrökuðum. Ég mæti hins vegar með gleraugu og fúlskeggjaður, rétti fram passann og hann er skannaður, vart án þess að á mig sé yrt. Sem sagt, mér er ekki einu sinni treyst til þess að skanna persónuskilríki.

Mér væri skapi næst, að senda bankanum rukkun vegna vinnutaps, bensínkostnaðar og afnot af persónuskilríkjunum mínum. Kannski væri það hreinlega eðlilegast!

Ég verð að viðurkenna, ég skil ekki hvers vegna fyrirtæki og stofnanir sem þær sem ég hef hér fjallað stuttlega um, hreinlega hætti ekki starfsemi úr því þær hafa svona litla trú á viðskiptavinum sínum. Mér líður svo oft þegar ég á viðskipti við íslensk fyrirtæki og stofnanir eins og ég sé að gera þeim óleik með því, í besta falli eru þau að aumka sig yfir mig með því að afgreiða mig. Mér finnst þjónustulund og þjónusta alltof margra svo léleg og undarlega dapurleg, að mig hreinlega skortir orð til að lýsa vanþóknun minni. Þau eru fleiri en bara þau sem ég nefni, t.d. væri hægt að taka heilt ár og blogga bara um LÍN. 

Er ekki kominn tími til að bankar, tryggingarfélög, ríkisstofnanir og aðrir sem hlut eiga að máli fari að átta sig á því, að það eru neytendur sem eru að gera þeim greiða með því að eiga viðskipti við viðkomandi? Að þjónusta eru gæði sem neytendur eru að kaupa? Hún er ekki eitthvað flott hugtak sem hægt er að læða með í kynningarbæklingum en enginn þarf að kannast við þegar á reynir, heldur raunveruleg gæði. 

PS. Öll þau dæmi sem ég nefni hér eru raunveruleg, þó svo ég hafi ekki lent í þeim persónulega.  


Fögur fyrirheit

Janúar er yndislegur mánuður. Fólk man skyndilega eftir íþróttaskónum, sem það keypti fyrir nákvæmlega ári síðan og hætti að nota fyrir 11 mánuðum, og flykkist í líkamsræktarstöðvar, í von um að fækka aukakílóum og skera niður óþarfa skvabb og hliðarvængi. Aðrir taka á sig stökk og skella sér í salsa eða jóga, enn aðrir lesa þarna bókaflokkinn sem allir voru tala um í fyrra eða hitteðfyrra, þarna eftir sænska gaurinn og myndirnar voru gerðar eftir. Svo eru þeir sem áttu alltaf eftir að prófa teygjustökk án atrennu, fljúga flugvél, læra að spila á gítar eða syngja dúett með Bubba Morthens. 

Ég er nákvæmlega þessi týpa. Horfi á sjálfan mig í speglinum, sístækkandi bumbuna, færri hár á höfðinu en fyrir ári síðan og jafnvel farið að glitta í grátt í skegginu. Hneykslast á því ég skuli ekki enn líta út eins og þegar ég var 18 ára. Hvar er sixpakkið, sem ég lofaði sjálfum mér að ná fram á síðasta ári? Hvað varð um öll markmiðin, öll fögru fyrirheitin? Hvar er draumurinn? Ég lagði upp með svo góð markmið og sjá mig nú! Sjá þetta þarna í speglinum. Sama hve reynt er að spenna magavöðvana, þá er eina leiðin til að bumban svo mikið sem líkist sixpack er að setjast og horfa á fellingarnar í speglinum. Hver þarf svo sem sixpack...nema náttúrulega það sem geyma má í ísskáp og geymir gullinn mjöð... Nei, svona á ekki að hugsa á nýju ári!

Auðvitað setti ég mér markmið fyrir þetta ár og auðvitað voru þau keimlík þeim sem ég setti mér á síðasta ári. Fara að hreyfa mig meira, borða minna, lesa meira, drekka minna, vera meira með stelpunni, vinna minna og svo mætti lengi telja. Og auðvitað á þessu ári mun ég ná öllum þessum markmiðum. Efast nokkur um annað? Hef ég einhver tíma ekki náð markmiðum mínum á þessu ári? 

Þetta er bjútíið við janúar. Við getum hent öllum gömlu markmiðunum, gömlu og hundleiðinlegu nýársheitunum frá því í fyrra og endurnýjað þau. Mætt síðan full af krafti, von og trú um að þetta ár er ÁRIÐ sem allt gerist. Auðvitað, hvað annað?

Nú, ef það gengur ekki, þá er alltaf 2012 bara rétt handan við hornið... 


Aftur til framtíðar

Undanfarna áratugi hafa orðið gríðarlega miklar breytingar á samfélagi okkar. Stundum, þegar ég hugsa til þess, þá óar mig og ég spyr mig, hvort við höfum í raun verið tilbúin og hvort við getum nokkurn tíma verið tilbúin. Þegar ég var í barnaskóla þá var ekki tölvuver í skólanum og ég man, að fyrstu ritgerðirnar sem ég skrifaði voru slegnar á ritvél, þar sem við áttum ekki tölvu heima. Ég man líka þegar við fengum netið fyrst, 56kb upphringimódem og möguleikarnir sem opnuðust fyrir manni þá. Eins hve svakalega flott þótti á sínum tíma að vera með símboða, við félagarnir vorum búnir að koma okkur upp númerakerfi, gátum komið ótrúlega miklum upplýsingum á milli með fáum númerasamsetningum. 

Í dag eru tölvur á öllum heimilum og börn í grunnskólum eiga síma, sem eru sumir hverjir álíka öflugir og litlar fartölvur. Þægindastuðull okkar og hjálpartæki hvers konar hafa gert líf okkar á margan hátt einfaldara en líka flóknara. Þessi tæki öll kalla á tækniþekkingu og um leið og netið þenst út, býr það til sífellt nýjar leiðir til að koma upplýsingum á framfæri. Ég spyr, hvernig er menntakerfið að bregðast við þessu?

Fyrir börnum og ungmennum er netið, farsímar, tölvur og þess háttar raunveruleiki sem þau sjá og upplifa alls staðar. Pappír, krítartöflur og þess háttar eru eitthvað sem þau þekkja nær eingöngu úr skólanum. Sem sagt inni í einhvers konar vernduðu umhverfi. Það hlýtur því að vera vafamál, hvort grunnskólinn sé í raun að undirbúa nemendur undir veruleikann. Í starfi mínu hef ég enn ekki þurft að skila af mér skýrslu í pappírsformi, þær sem ég þarf að senda frá mér eru geymdar í tölvukerfum, sendar með tölvupósti og oft ræddar á þeim vettvangi líka. Eru kennarar að kalla eftir slíkum vinnubrögðum frá nemendum?

Ég reikna ekki með að þess verði langt að bíða, að samfélagsmiðlar muni spila mun stærra hlutverk í innri starfsemi fyrirtækja, jafnvel að fyrirtæki verði með sína eigin samfélagsmiðla. Microsoft hefur í raun stigið ákveðið skref í þá átt, t.d. er Sharepoint með marga þætti sem minna um margt á það sem þekkist á netinu, t.a.m. sameiginleg skjalavinnsla yfir netið í anda Google docs. Eru kennarar að kenna börnum og ungmennum að umgangast og nota þess háttar tækni? Þar sem vitneskja verður sameiginleg nemendum, eins konar miðlægur gagnabrunnur, sem allir nemendur geta sótt í upplýsingar? Eða eru kennarar enn að berjast við að troða eins miklu í kollinn á hverjum og einum með aðferðum sem þau munu sjaldan ef nokkurn tíma nota?

Netið er stórkostlegur brunnur upplýsingar og aðferða, brunnur sem kostar yfirleitt ekkert að nota. Það er því ekki afsökun á þessum síðustu og versu hruntímum að fjármagn skorti til að kaupa forrit, tölvur og þess háttar. Nemendur eru með tölvurnar, þau kunna á tæknina og hugbúnaðurinn liggur á netinu. Í raun er þetta frekar spurning um hvort kennarar séu tilbúnir að snúa aftur til framtíðar, þó ekki væri nema til nútíðar, í stað þess að sitja fastir í sama fari, sömu kennsluaðferðum og voru notaðar þegar þeir voru í grunnskóla. Framtíðin er núna og ekki seinna að vænna að tileinka sér hana.  


Smásögur vs. skáldsögur ... og Furðusögur!

Í barnaskóla var ég einn af þeim sem lenti títt í því, að klára vikuáætlun sem kennarinn lagði fram, snemma á þriðjudegi. Þá var ekki til siðs að vera með aukaverkefni eða ítarefni fyrir þá sem áttu auðvelt með að læra námsefnið. Við máttum því annað hvort sitja og teikna myndir (sem ég hafði hvorki getu né áhuga á) eða lesa. Ég valdi því það síðarnefnda og má segja að ég hafi eytt miklum hluta af grunnskólaferli mínum á bókasafni að lesa. Ég las allt það er ég komst yfir; Frank og Jóa, Narníu-sögurnar, Dularfullu- og Fimm bækurnar og svo mætti lengi telja. Þegar ég varð unglingur, bæði í unglingadeild og menntaskóla, las ég áfram, bæði á íslensku og ensku, þegar ég náði góðum tökum á því. Í raun er það ekki fyrr en nú á síðari árum sem ég hef haft bæði minni tíma til að lesa en eins fundið minna sem heillar mig til lesturs. Kannski vegna þess ég hef tekið upp á því að skrifa sjálfur og hef oftar en ekki frekar sest við skriftir en við lestur.

Ein af þeim bókmenntategundum sem hefur heillað mig mest í gegnum tíðina eru hrollvekjur, einkum og sér í lagi þær sem skrifaðar voru um þar síðustu aldamót og á fyrsta aldarfjórðungi síðustu aldar, höfundar á borð við Edgar Allan Poe og H.P. Lovecraft. Sérstaklega hefur sá síðarnefndi haft áhrif á mig, en furðusögur hans (e. Wierd fiction); sérstaklega sögurnar um The Great Old Ones; þykja mér skemmtilegar. Undantekningalítið eru sögur þessara höfunda smásögur, þó vissulega eigi þeir hvor um sig skáldsögur, t.d. At the Mountains of Madness og Ævintýri Arthúrs Gordon Pyms. Höfundar sem fylgdu í kjölfar þeirra, hvort sem þeir skrifuðu hreinræktaðar hrollvekjur eða furðusögur, voru einstaklingar á borð við Shirley Jackson, Peter Straub, Stephen King og George R. R. Martin, en flestir hafa þessir höfundar lagt áherslu á skáldsögur. 

Hrollvekjan er nefnilega ekki eitt af þessum týpísku fagurbókmenntaformum, sérstaklega furðusögur. Þrátt fyrir það var Lovecraft virkilega fær rithöfundur, með orðaforða sem fáir gátu státað af á þeim tíma og jafnvel þótt síðar væri (þó svo það eitt og sér geri menn ekki að góðum höfundum). Smásögur Poes hafa líka löngum þótt vel skrifaðar og smásagan The Fall of House Usher er með frægari smásögum heimsins. Hins vegar er hrollvekjuformið ævafornt, sbr. allar þjóðsögur sem fjalla um hryllilega atburði eða óvætti hvers konar.

Hrollvekjur passa misvel í þessi form, þ.e. smásöguna og skáldsöguna, að mínu mati. Ég hef lagt mig fram um að lesa eins mikið af hrollvekjum og ég kemst yfir, óháð því hvaðan þær koma eða eftir hvern þær eru. Hrollvekjan á sér lengri hefð sem skáldsaga í ensku og um leið ákveðnari orðaforða eða menningarheim, ef svo mætti að orði komast. Þó svo við Íslendingar eigum okkur langa hefð þjóðsagna, þá hafa ekki verið skrifaðar margar hrollvekjur og þær sem hafa verið skrifaðar eru undantekningalítið smásögur. Þórbergur Þórðarson skrifaði nokkrar á sínum tíma, Þórir Bergsson á nokkrar ágætar og eins hafa aðrir reynt við formið, en enginn íslenskur rithöfundur hefur mér vitandi lagt formið fyrir sig og gert út á það. Fyrir nokkrum árum kom út bókin Börnin í Húmdölum eftir Jökul Valsson, ágæt bók að mörgu leyti en leið fyrir, hve lítið var gert út á hinn íslenska veruleika í henni.

Hrollvekjur seljast auk þess töluvert vel í enskumælandi löndum, sbr. Stephen King og George R. R. Martin. Báðir höfundar eru gríðarlega mikið seldir og gerir amk. annar höfundurinn út á hrollvekjur að langmestu leyti. Þeir eru mun fleiri höfundarnir sem hægt væri að nefna; Clive Barker, Ann Rice, osfrv.; og virðist manni sem markaðurinn þar sé mun móttækilegri en sá hér heima fyrir hrollvekjum. Eru Íslendingar kannski bara með nægan hrylling í bókmenntasögunni, þ.e. þjóð- og Íslendingasögum? Eða hafa útgáfurnar ekki trú á þessum bókmenntageira?

Mín kenning er sú, að íslenskir rithöfundar, þ.e. þeir sem hafa einblínt á þetta genre (ég meðtalinn), séu of uppteknir af því að skrifa skáldsögur. Íslenski bókamarkaðurinn fyrir hver jól inniheldur ekki mörg smásagnasöfn og ég sá ekki nema 4 (ef ég man rétt) fyrir síðustu jól. Hversu margar skáldsögur ætli séu gefnar út fyrir hvert smásagnasafn? Það er kannski ekki furða, þegar kröfur lesenda eða forlaga (hvort ætli komi á undan?) eru þær, að rithöfundar skrifi skáldsögur. Smásögur virðast bara ekki eiga upp á pallborðið. Smásagan tel ég henta íslenskum hrollvekjum betur, í menningu sem okkar, þar sem þjóðsögur eru nátengdar tungumálinu og íslenskum veruleika, til að koma þessu til skila, því þar lesandinn þarf ekki að vera jafn nátengdur aðalpersónum og í skáldsögum. Í síðarnefnda forminu er mikilvægt að veita lesendum færi á, að komast í snertingu við aðalpersónur, sjá sig í þeirra sporum og upplifa tengsl við þær. Í smásögum er mikilvægara að veita innsýn í lítinn heim, eitt augnablik, sem getur þó verið merkingarþrungið og mun stærra en orðin fela í sér. Þar er þessi tenging lesanda og aðalpersónu ekki jafn skýr og því geta íslenskir höfundar frekar leikið sér með menningararfinn (sérstaklega þjóðsögurnar), en ef um skáldsögu væri að ræða. 

Gott dæmi um þetta er tímaritið Furðusögur sem kom út nú fyrir skemmstu. Þar er að finna nokkrar mjög góðar sögur, sem hver fyrir sig og á sinn hátt leikur sér með þennan arf. Stundum er það hinn trúarlegi arfur, stundum er það frásagnarhátturinn, á öðrum stöðum verur, óvættir og jafnvel vísanir í þekktar persónur úr þjóðsögunum. Í blaðinu er hrollvekjunni í formi smásögu gert hátt undir höfði og hefur ekki verið svo síðan bókin Íslenskar hrollvekjur kom út árið 1985 í ritstjórn Matthíasar Viðars Sæmundssonar. Mér finnst þetta mjög ánægjuleg þróun og vona að forlög og útgáfur fari að opna augu sín fyrir þessum markaði. Hrollvekjur, draugasögur, furðusögur, gotneskar bókmenntir, jafnvel neo-gotneskar, allt eru þetta form sem mætti gera meira úr hérlendis, að mínu mati. 

Ef þú hefur ekki lesið blaðið, skaltu endilega reyna að komast yfir það og lesa Furðusögur. Ég á tvær sögur í blaðinu! Þær eru mjög ólíkar, aðra mætti kalla draugasögu - jafnvel klassíska draugasögu - þar sem náttúra Íslands spilar stórt hlutverk. Hin er nátengdari furðusögum Lovecrafts; draumfarir, óskilgreindir og óskiljanlegir óvættir.  


Vinsælar bókmenntir og gæði þeirra

Í gær átti ég í ágætu netspjalli við Eirík Nordahl, rithöfund, um hvort vinsældir bóka sé tákn um gæði þeirra. Hann kom með marga athyglisverða punkta, en hann er þeirrar skoðunar að svo sé ekki. Ég er ekki alveg sammála honum, þar sem ég tel, að vinsældir geti stundum verið merki um gæði. 

Hann kom með ágætt dæmi, þ.e. Da Vinci Lykilinn eftir Dan Brown. Bókin varð gríðarlega vinsæl en út frá fagurfræðilegu og bókmenntalegu sjónarmiði, þá er bókin ekkert sérstök, svo vægt sé til orða tekið. Meira að segja upplýsingarnar sem í henni birtast eru lélegar. Og af því, að ekki er hægt að setja samasemmerki á milli gæða og vinsælda, þá telur Eiríkur, hafi ég skilið hann rétt, að vinsældir geti ekki sagt til um gæði.

Það er margt til í þessu. Vinsæl bók getur orðið vinsæl fyrir svo margar aðrar sakir en vegna góðs texta eða góðrar sögu, t.d. ef markaðssetning heppnast vel, rithöfundur er vel þekktur og á sér marga lesendur, umfjöllunarefni er áhugavert og svo mætti lengi telja. Sem sagt, það er margt sem spilar inn í það hvort bók verður vinsæl.

Ég spurði Eirík út frá hvaða forsendum, öðrum en huglægum og persónulegum, hann mæti gæði bókmennta. Hann sagði að slíkt mat væri alltaf byggt á huglægum og persónulegum forsendum. Einmitt í þessu tel ég fullyrðingu Eiríks ekki ganga upp. Fólk, þ.e. þeir sem kaupa bækur, kaupir bækur út frá mörgum mismunandi forsendum. Ef við gefum okkur, að fólk versli aldrei bækur út frá fagurfræðilegum forsendum, s.s. að fólk kaupi aldrei bækur sem það veit að því finnst góðar eða hefur verið sagt að séu góðar, þá gengur fullyrðingin upp.

Gallinn er bara sá, að til þess þyrftum við að þekkja ástæður kaupa hjá nær öllum. Til eru þeir sem kaupa bækur út frá gæðatengdu persónulegu og huglægu gildismati. Slíkir einstaklingar hafa líka áhrif á vinsældir bóka.

Í samfélagi sem okkar, þar sem upplýsingaflæði er mikið; fjölmiðlar, samfélagsmiðlar á netinu, allir með farsíma og þess háttar; þá hlýtur að fréttast býsna hratt hvaða bækur eru góðar. Auk þess hafa rannsóknir sýnt, að fólk treystir best sínum nánustu til að fá meðmæli með vöru, síðan ókunnugum og auglýsingum/markaðssetningu mun síðar en hinum tveimur.

Sem sagt, bók getur orðið vinsæl fyrir sakir gæða af því gæðin spyrjast út. Auðvitað gerist það ekkert alltaf, langt í frá, og margir höfundar virðast selja bækur í bílförmum óháð því hvaða sorp þeir setja á blað. Að sama skapi virðast aðrir höfundar, sem mega vart leysa vind án þess að það sé samansett í texta á snilldarlegan hátt, lítið sem ekkert selja. Ég held þess vegna, að þetta sé ekki svo einhlítt, það sé hreinlega ekki hægt að setja þetta upp sem alhæfingu eða sem svart/hvítan raunveruleika. Ergo, þó margt sé til í þessari fullyrðingu, þá gengur hún ekki alltaf upp. Væri kannski réttar að setja hana svona upp: Vinsældir segja ekki alltaf til um gæði bóka. 

Hins vegar, er mjög áhugavert að skoða hvers lags bækur ná vinsældum. Hérlendis hafa spennusögur selst gríðarlega vel, oft á kostnað fagurbókmennta. Eru það skilaboð lesenda til höfunda? Þetta er það sem við viljum lesa? Eða eru það höfundar sem eiga að skrifa og segja fólki með útgáfum á bókum sínum, hvað það á að lesa? Eiga rithöfundar að eltast við að þóknast lesendum sínum eða bara sjálfum sér?

Auðvitað eiga rithöfundar að skrifa það sem þá langar til að skrifa, hins vegar er bara ekki alltaf markaður fyrir því. Og (því miður að mörgu leyti) útgáfur hugsa á markaðsfræðilegum nótum, þ.e. þær vilja helst gefa út bækur sem eiga möguleika á að standa undir útgáfukostnaði. Varla færi útgáfa að gefa út hvern bókartitilinn á fætur öðrum sem stendur ekki undir sér, því slík útgáfa færi fljótlega á hausinn. Þannig markaðurinn er farinn að stjórna heilmiklu, hvort sem höfundum líkar betur eða verr. 

Ég hef oft velt þessu fyrir mér, þar sem ég er í þeirri stöðu að skrifa sögur sem útgáfur telja ekki henta vel til útgáfu, þ.e. hrollvekjur. Vissulega hafa komið út þannig sögur hérlendis af og til með töluverðu millibili, t.d. Börnin í Húmdölum, en sala þeirra er yfirleitt ekki mikil. Er ég þá dæmdur til að þóknast markaðsöflunum, skrifa eitthvað annað til að hljóta náð fyrir augum forlaga?

Ég veit það ekki, ég vona ekki. Ég vona, að fá gefið út. Ég vona líka, að ef svo fer og ef bókin selst vel, að það sé vegna þess hún er góð, fólk vilji lesa hana og hún veki athygli vegna þessa. Í það skipti muni vinsældir og gæði fara hönd í hönd. Það má alltaf vona.  


Eru menntamál okkar í réttum farvegi?

Ég starfaði eitt sinn sem kennari. Fór í háskóla, lærði íslensku og tók kennsluréttindi og ætlaði mér að starfa við kennslu. Enda um margt mjög skemmtilegt og gefandi starf. Það er gaman að vinna með börnum og unglingum, þau eru fersk og ómótuð og því mikilvægt að gott fólk veljist til þessa starfs. Enda komst ég að raun um, að ég var ekki síður uppalandi nemenda minna eins og foreldrar þeirra. Allir þeir sem koma að félagsmótun barna taka meðvitað og ómeðvitað þátt í uppeldi þeirra, hvort sem það eru foreldrar, ömmur og afar, kennarar og íþróttaþjálfarar.

Að undanskildum foreldrum sínum eyða börn og unglingar líklega mestum tíma með kennurum sínum. Kennarar hafa því gríðarlega mikil áhrif á líf nemenda sinna og oft myndast tengsl sem eru ævarandi. Það verður því seint ofmetið mikilvægi þess að kennarar, hvort sem þeir kenna í leik-,grunn- eða menntaskóla, séu hæfir og vel menntaðir. Ég hugsa, að fæstir foreldrar myndu senda börn sín í skóla þar sem ekki væri krafist þess að kennarar væru menntaðir að neinu leyti eða þyrftu að sýna fram á hæfi sitt með öðrum hætti. Sem sagt, við treystum kennurum af því við vitum að þeir eru vel menntaðir og hafa gengið í gegnum þá eldskírn sem slík menntun felur í sér. Við treystum þeim fyrir því sem okkur er kærast – börnunum okkar.

Nú er verið að ræða breytingar á menntakerfinu, niðurskurð á kennslu og jafnvel að fækka skóladögum. Fyrir utan hvernig þetta bitnar á börnum, að þau fái skerta kennslu frá því sem áður var (og þar af leiðir minni fræðslu), þá er þetta enn einn naglinn í líkkistu þessa starfs, að vera kennari. Ég hætti að kenna 2007, mér buðust mun hærri laun fyrir starf sem krafðist engrar menntunar. Hvað segir það okkur um kjör kennara?

Þar sem ég var að kenna var ekki bruðlað með peninga, a.m.k. varð ég ekki var við að til væru digrir sjóðir sem hægt var að ganga í eftir hentisemi. Þvert á móti var ekkert gefið að til væru peningar fyrir því sem manni datt í hug að gera, t.d. hefði ég viljað stunda mun meira þróunarstarf en færi gafst til, enda tel ég t.d. kennslu Íslendingasagna að miklu leyti á algjörum villigötum. Launin voru heldur ekkert til að hrópa húrra fyrir, en við vorum tvær fyrirvinnurnar þá á heimilinu, þannig hlutirnir redduðust. Þegar það breyttist, voru allar forsendur fyrir því að ég væri kennari horfnar, því ekki átti ég nokkra möguleika á að lifa á þeim launum sem mér buðust í því starfi.

Ef þær breytingar sem nú er verið að fjalla um, t.d. 5-4-3 leiðin, ganga eftir, þýðir það enn frekari kjaraskerðingu kennara. Það leiðir í för með sér að sífellt færri velja að gerast kennarar og þeir sem það gera, fara í kennslu annað hvort af hugsjón eða vegna þess þeir telja sig ekki eiga möguleika á öðru. Og þegar það verður skortur á kennurum þurfa skólastjórar að ráða ófaglærða einstaklinga í stað þeirra kennara sem hætta.

Hvaða skilaboð eru þetta til okkar foreldra? Hvernig á ég, sem foreldri, að túlka þessar fyrirætlanir? Skipti barn mitt svo litlu máli, að það þurfi ekki sömu menntun og sömu tækifæri og ég fékk? Að skólinn þurfi ekki að sinna því eins og mér var sinnt? Um leið og tal um að fækka tímum hjá nemendum, kemur hækkun á gjöldum vegna dvalar í dagvist. Alls staðar er reynt að nurla saman krónum og aurum.

Hvaða skilaboð eru þetta til barnanna? Til kennara? Nú eiga kennarar að kenna sama efni á minni tíma, fyrir lægri laun og með minna af efni úr að moða. Er þetta eðlilegt? Er ekki kominn tími til að einhver komi vitinu fyrir þeim sem eru að ræða þessi mál fyrir hönd okkar hinna?

Ég hlýt að setja spurningarmerki við stjórnmálamenn ogsveitastjórnarmenn okkar tíma. Þvílíkt og annað eins vanhæfi! Að hægt skuli að setja heilt samfélag á hausinn, ekki bara ríki heldur líka hvert sveitarfélagið á fætur öðru, er afrek sem verður vonandi aldrei leikið eftir.  


Árið gert upp

Ég hugsa að síðasta ár, 2010, sé nokkuð sem ég mun minnast nokkuð lengi. Árið var mjög skemmtilegt og var rosalega mikið um eftirminnilega atburði og miklar fréttir. 

Við áramótin 2009-2010 voru blikur á lofti. Uppsagnir voru í desember 2009 í Ölgerðinni og því nokkur óvissa hjá mér, var ekki viss um að ég myndi halda starfinu ef til frekari uppsagna kæmi. Um leið og ég fann til með þeim sem var sagt upp, var þó ákveðinn léttir að vera ekki í þeim hópi. Hins vegar voru aðstæður þannig, að erfitt var að átta sig á, hvort eða hvenær fleira fólki yrði sagt upp. Sem betur fer kom þó ekki til þess og held ég að fyrirtækið standi enn betur að vígi nú en áður.

Mánuðirnir eftir jól einkenndust af mikilli vinnu og auraleysi. Það þurfti að greiða fyrir íbúðina í Tröllakór og því horft í hverja krónu. Í apríl hættum við Bergþóra saman, sem var leitt, en sem betur fer höfum við haldið góðu vinasambandi, sem ég er þakklátur fyrir. Eflaust hefur þetta allt spilað saman í að gera þessa fyrstu mánuði ársins frekar leiðinlega í minningunni. Ég var að minnsta kosti dauðfeginn þegar tók að vora.

Þann 1. maí var veiðidótið tekið úr geymslunni og sett í skottið á bílnum. Ég fór nokkuð oft í maí og júní í vötnin í kringum Reykjavík. Veiðin er alveg hrikalega góð hreinsun fyrir huga og sál, maður er einn með náttúrunni, bara þú, flugustöngin og vatnið, og akúrat það sem ég þurfti á þeim tíma. Suma morgna vaknaði ég eldsnemma til að kíkja á Þingvelli áður en ég þurfti að mæta í vinnuna, þeir morgnar veittu mér kannski þann drifkraft að fara að taka til hjá sjálfum mér.

Ég eyddi nefnilega heilmiklum tíma á þessu ári í nokkurs konar sjálfsskoðun. Sumt af henni hefur ratað hingað inn og má finna í eldri færslum. Ég held, að í það heila þá er ég mun sáttari við sjálfan mig, mér líður betur og á þarf að leiðir auðveldara með að gefa af mér. Sem hefur kannski skilað sér í því, að Urður sækir nú í mun meiri mæli að vera hérna hjá mér en áður.

Sumarið var í flesta staði frábært. Í júní fór fjölskyldan saman í útilegu í Vatnsdal. Þar var mikið hlegið og skemmt sér. Í júlí fór ég með Arnari, Jóhanni Inga og Stebba á Eistnaflug og var sú ferð öll alveg frábær. Ég held hreinlega ég hafi sjaldan hlegið jafn mikið. Um verslunarmannahelgina var ráðgert að fara á Þjóðhátíð, en Ástrós og Hugi buðu okkur Urði til Kanarí-eyja með skömmum fyrirvara, þannig Eyjar voru fljótlega slegnar út af borðinu. Ferðin til Tenerife var í einu orði sagt æðisleg. Fyrir utan það að geta legið í sólbaði daginn út og inn í 2 vikur, með tilheyrandi slökun, þá skemmti Urður sér konunglega og held ég geti seint fullþakkað þeim Ástrós og Huga fyrir þessa frábæru gjöf.

Laxveiðin var á sínum stað sem endra nær. Ég fór í nokkrar ferðir og kom aldrei fisklaus heim, sem var mjög ánægjulegt. Reyndar þurfti að hafa verulega fyrir þeim fiskum sem náðust á land og var lítið um að honum væri mokað upp. Ég hef hrikalega gaman af laxveiðinni og þeir túrar sem ég fór í þetta árið stóðu fyllilega undir væntingum.

Í júlí vann ég smásagnasamkeppni Vikunnar og birtist vinningssagan í því blaði. Einnig birtust tvær sögur eftir mig í nýju tímariti sem heitir Furðusögur. Ráðgert er að koma safni smásagna á prent á nýju ári og sjá hvort ekki takist að selja nokkur eintök af því. 

Sara eignaðist íbúð, kærasta (sem heitir Palli) og kött á árinu. Það hefur verið gaman að sjá hve hamingjusöm hún er orðin. Fljótlega kom barn undir hjá þeim en því miður missti Sara fóstrið. Þau lögðu þó ekki árar í bát heldur héldu áfram að reyna og nú er annað barn komið undir og Sara tútnar út um þessar mundir.

Ástrós bauð sig fram til stjórnlagaþings og lögðumst við í fjölskyldunni öll á eitt í stuðningi okkar. Allir fengu hlutverk og skilaði sú vinna sér í því, að hún komst inn á þing. Ég held, að ég hafi aldrei séð viðlíka fagnaðarlæti eins og þegar úrslitin voru tilkynnt. Við sátum öll saman í Leiðhömrum og fylgdumst með útsendingunni. Þegar nafn Ástrósar var lesið upp var stokkið á fætur, hrópað af fögnuði og mikil gleði.

Ekki var gleðin minni þegar þau Hugi tilkynntu svo um jólin að þau ættu líka von á barni. Það mun því fjölga um 2 í fjölskyldunni árið 2011. Þau eru þegar komin í hreiðurgerð, byrjuð að versla barnaföt og allt það sem þarf í uppeldi barna. Það er mjög merkilegt að fylgjast með muninum á þeim systrum í þessu. Sara vill helst fá allt lánað, á meðan Ástrós kaupir allt nýtt. Það munar einhverjum vikum á þeim, ekki svo mörgum, Sara er komin með myndarlega kúlu en það sést varla á Ástrós.

Urður byrjaði í 2. bekk í haust, stækkar hratt um þessar mundir sem hefur heldur bitnað á fataskápnum. Hún er öll að þroskast og komnir smá gelgjustælar í hana. Hún virðist ekki eiga í neinum vandræðum með að læra og stendur sig vel í skólanum. Einnig byrjaði hún í jazz-ballet í haust og virðist þar hafa fundið áhugamál sem hentar henni. Hún dansar voða mikið hérna heima, hendir sér í spíkat og splitt eins og ekkert sé og heimtar að ég geri það líka. Veit ekki hvort hún sé vísvitandi að reyna valda föður sínum ævarandi örkumlum! Hún eignaðist aðra systur núna í haust, sem dafnar vel, en hún átti fyrir systur á þriðja ári.

Í það heila hefur árið því verið gott. Ég kynntist fullt af fólki, endurnýjaði kynni við aðra og kynntist öðrum enn betur. Eflaust hef ég á síðasta ári stigið á einhverjar tær, móðgað, sært, gert lítið úr og böggað, eins og mér er einum lagið, og biðst velvirðingar á því. Vona ég, að enginn erfi slíkt við mig, a.m.k. ekki lengi.

Að lokum langar mig að óska þér, lesandi góður, gleðilegs nýs árs. Megi þér farnast vel og gæfan brosa við þér. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband