Ég held, að Jón Gnarr, þótt ótrúlegt megi virðast, eigi eftir að hafa stórkostleg áhrif á íslensk stjórnmál og jafnvel víðar. Í viðtali í Kastljósi á RÚV tókst honum að brjóta nær allar óskrifaðar reglur stjórnmálamanna og hefur án efa valdið miklum titringi þeirra á meðal. Jón baðst afsökunar í viðtalinu, ekki bara einu sinni heldur tvisvar. Hann sagðist ekki vita allt og reyndi ekki að klóra sig út úr spurningum sem hann ekki gat svarað með einhverjum óskiljanlegum hugtakaflaumi. Hann kom einfaldalega til dyra eins og hann var klæddur og svaraði af, að því er virtist, einlægni. Hann reyndi ekki að afsaka hækkanir á útsvari með því að kenna fyrri borgarstjórnum um, en ég efast ekki um að venjulegur stjórnmálamaður hefði gert það (allar slæmar ákvarðanir sem þarf að taka í stjórnmálum eru alltaf fyrri stjórnum að kenna og óráðsíu þeirra).
Spyrillinn, eins ókurteis og ömurlega leiðinleg hún var, reyndi að koma honum úr jafnvægi, en hann hélt bara áfram að svara eins og honum er einum lagið. Hann talaði í raun meira mál almennings, fremur en tyrfða tungu stjórnmálamanna. Hann, þrátt fyrir alla sína galla, hefur náð að fá fólk í lið með sér og það fer mjög í taugarnar á þeim sem eru hallir undir ákveðna flokka, eins og má sjá glögglega á mýmörgum bloggfærslum og uppfærslum á Facebook. Í raun bíða margir eftir því að sjá honum mistakast, svo þeir geti látið í sér hlakka yfir því. Gallinn er bara sá, að ég reikna með ef hann gerir mistök, þá reynir hann ekki að kenna öðrum um, heldur tekur ábyrgð á því sjálfur og biðst afsökunar. Sem er miklu mun meira en nokkur venjulegur stjórnmálamaður myndi gera. Því, eins og allir vita, þá gera stjórnmálamenn ekki mistök. Þeir eru alvitur ofurmenni!
Mín tilfinning er sú, að með því að sýna að hann er mannlegur, sé Jón að nálgast fólk á allt annan hátt en stjórnmálamenn hafa gert hingað til. Og mér finnst það mjög jákvætt. Óháð því hvað fólki kann að finnast um Jón, Besta flokkinn eða frammistöðu þeirra, þá er þessi framkoma, þessi hegðun, til eftirbreytni. Það getur ekki verið slæmt, að stjórnmálamenn stígi niður af hinum ímyndaða, upphafna stalli sínum. Þeir hafa einmitt verið gagnrýndir fyrir að hafa misst tengsl við kjósendur. Og Jón er einmitt eins og einn af okkur, hann gefur okkur færi á að taka þátt í gleði sinni og sorgum. Ég fann amk. fyrir því við að horfa á hann, að honum þótti útsvarshækkunin, uppsagnir í OR og aðrar breytingar sem hafa áhrif á okkur, leiðinlegar og tók þær nærri sér.
Jón birtist mér sem hann sé ekki að reyna spila einhvern annan en hann er. Hann er breyskur maður, með fullt af kostum og göllum. Í stað þess að reyna fela galla sína, þá dregur hann þá fram í dagsljósið og leyfir okkur kjósendum að vega hann og meta út frá því. Það er til fyrirmyndar. Ég er því ekki að kjósa upphafna og tilbúna glansmynd, útfærðri á auglýsingastofu og inni í bakherbergjum stjórnmálaflokka, heldur lifand persónu. Einstakling sem hefur það markmið að láta gott af sér leiða, þrátt fyrir eigin takmarkanir.
Mér finnst þetta mjög jákvætt og gott. Ég held, að við Íslendingar þurfum á þessu að halda, ekki bara stjórnmálamenn. Það er í lagi að vera þú sjálfur, þó svo þú hafir einhverja galla. Og skilaboðin eru einföld: Reynum að hafa það gaman saman. Forðumst að vera leiðinleg, forðumst leiðinlega fundi sem skila engu, nema nöldri og tuði. Ég vona, að fleiri stjórnmálamenn taki þetta til fyrirmyndar. Ég held, að það sé mikilvægt á þessum tímum, þó þeir séu erfiðir, að við reynum að taka þetta á brosinu. :)
Bækur | Miðvikudagur, 10. nóvember 2010 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í skólum Reykjavíkur fer fram trúarbragðakennsla. Allir í 8. bekk fá heimsókn, hver frá einu trúfélagi. Því eftir ítarlegar umræður um tillögu Mannréttindaráðs Reykjavíkur árið 2010 var ákveðið að leyfa öllum trúfélögum á landinu að fá óheftan aðgang að nemendum grunnskóla Reykjavíkur við mikinn fögnuð presta Þjóðkirkjunnar.
Í dag er miðvikudagur og er það opinber trúarbragðakennsludagur í Reykjavík. Til að stemma einhverja stigu við heimsóknum presta, goða og annarra fyrirmenna trúfélaga var ákveðið að skólinn yrði bara opinn einn dag í hverri viku.
Í Laugarnesskóla er prestur frá Þjóðkirkjunni. Hann lætur alla nemendur spenna greipar og fara með Faðir vorið, af því það er svo hollt og gott fyrir nemendur. Hann segir þeim líka frá Jesú og skoðunum kirkjunnar á syndum mannanna, t.d. að slæmt sé að myrða fólk, vera með húðflúr eða njóta lífsins. Krakkarnir kinka kolli fyllilega sammála þessum skrúðklædda manni.
Í Foldaskóla eru menn frá Gídeónfélaginu að dreifa Nýja-Testamentinu. Þeir biðja líka með börnunum og láta hvert barn fá bláa bók, vel merktri félaginu og enn kinka börnin kolli yfir þessum góða boðskap.
Í Hólabrekkuskóla er fólk frá Fíladelfíu. Þau mættu 4 saman og stilltu upp hljómsveit. Síðan leiddu þau börnin í söng um dýrð Drottins, mikilvægi fyrirgefningarinnar og guðsótta. Jesú hefði gefið líf sitt svo við gætum lifað án þess að þurfa óttast dauðann. Börnin kinka kolli glöð í bragði, enda skemmtilegt að fá heila hljómsveit í heimsókn.
Í Vesturbæjarskóla komu Vottar Jehóva í heimsókn. Þeir dreifðu riti til barnanna. Framan á því var mynd af Jörðinni og stórri halastjörnu að skella saman. Framan á því stendur: Heimsendir! Vottarnir segja börnunum frá því hvernig Guð hefur skipulagt heimsendi og ætlar aðeins Vottum eilíft líf. Eftir fyrirlesturinn kinka börnin kolli sammála.
Í Seljaskóla mættu múslimir og sögðu börnunum frá Íslam. Þeir boðuðu frið og einingu milli allra. Þeir dreifðu íslenskri þýðingu á Kóraninum og kenndu börnunum að biðja að íslömskum sið. Börnin kinka kolli og skilja vel hvað múslimarnir eiga við.
Í Árbæjarskóla komu goðar frá Ásatrúarfélaginu. Þeir kenndu börnunum að umgangast náttúruna, dýrka æsina og blóta. Þeir sögðu þeim frá hinum forna sið, hvernig fórnir fóru fram og hvert hlutverk goða er og var. Nemendurnir kinka kolli alveg sammála goðunum, þrátt fyrir fornlegan klæðnað þeirra.
Í Langholtsskóla mættu múslímskur öfgatrúarhópur. Reyndar neitaði forsvarsmaður þeirra að ganga inn í stofuna fyrr en stelpurnar í bekknum höfðu hulið höfuð sitt. Hann talaði um brenglaða stöðu konunnar í íslensku samfélagi og nauðsyn þess að allir karlmenn létu sér vaxa skegg. Auk þess kenndi hann börnunum um Jihad. Krakkarnir gengu út og kinkuðu kolli sammála honum, sérstaklega drengirnir.
Í Vesturbæjarskóla mættu svartklæddir Satanistar með þrjá ketti, sem þeir fórnuðu til dýrðar Leviathan. Reyndar köstuðu tveir nemendur upp en Satanistarnir sögðu að það væri af því þau væru veik og ráku þau út úr stofunni. Þeir ræddu við börnin um að þeir hæfustu kæmust af, aðeins þeir sterkustu ættu rétt á að lifa af og þeir sem væru stoltir af sjálfum sér. Krakkarnir, þ.e. þeir sem köstuðu ekki upp, fannst þetta frábær heimspeki og kinkuðu kolli sammála.
Þegar skóladeginum lýkur heldur hvert barn heim á leið og segir foreldrum sínum frá hinu frábæra, opna skólakerfi sem er nú við lýði í Reykjavík. Sumir foreldrar eru sáttir, aðrir hlusta bara rétt með öðru eyranu á frásagnir barns síns en svo eru þeir sem eru mjög ósáttir. En á Íslandi tíðkast ekki að virða rétt þeirra örfáu sem eru ósáttir, þannig þeir foreldrar verða að sætta sig við þetta, þó þeim finnist traðkað á réttindum sínum og telja að trúfélög, sama hvaða nafni þau heita eigi ekkert erindi með trúboð inn í skóla.
Bækur | Laugardagur, 6. nóvember 2010 (breytt kl. 17:24) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég verð oft hugsi yfir þeim miklu breytingum sem orðið hafa á undanförnum árum og hvort við sem samfélag séum í stakk búin til að taka við þeim öllum. Þrátt fyrir að við höfum ekki upplifað aðrar eins breytingar og ömmur okkar og afar, sem fluttu úr torfbæum í steinsteypt hús með rennandi vatni, heitu og köldu ásamt eldavélum, þvottavélum og útvarpstækjum, þá eru margar þær breytingar sem við erum að verða vitni að og þátttakendur í stórkostlegar en tekst samt að fara einhvern veginn undir radarinn, ef svo mætti að orði komast.
Netið er líklega einhver mesta samfélagsbreyting sem hefur orðið frá því samfélagið þróaðist úr því að vera bændasamfélag yfir í að vera borgarsamfélag. Netið er að breyta því hvernig við eigum í samskiptum hvert við annað. Netið er að breyta því hvernig við vinnum. Netið er að breyta öllu og stundum er eins og við gefum okkur ekki tækifæri til að bregðast við breytingunum.
Vissir þú að meðalmanneskjan eyðir um 26 klukkustundum í hverri viku á netinu? Hugsaðu þér, meðalmanneskjan er að eyða næstum heilum sólarhring af hverri viku bara í netið.
Sú spurning sem óhjákvæmilega rís hjá mér er, erum við að bregðast við því? Hvernig er samfélag okkar að bregðast við þessari staðreynd? Við vitum að þessi tala á bara eftir að hækka.
Eru grunnskólar farnir að huga að þessu? Hafa þeir tekið sig til og breytt námsskeiðum, kennsluaðferðum og markmiðum til að endurspegla þennan veruleika? Eru fyrirtæki og stofnanir í stakk búnar til að færa starfssemi sína sífellt meira inn á netið?
Það eru mörg fyrirtæki og margir skólar sem hafa gert vel í þeim efnum en því miður eru það undantekningarnar. Sá veruleiki sem blasir við ungu fólki í dag er allt annar veruleiki en birtist fólki af eldri kynslóðum. Yngri kynslóðir horfa t.d. minna á sjónvarp, þeim nægir að ná í sína uppáhaldsþætti á netið og streyma þeim jafnvel í tölvur sínar í stað þess að hlaða þeim niður. Tölvan er orðið mikilvægasta verkfæri nútímamannsins en þrátt fyrir það, eru kennarar ennþá að notast við krítartöflur eða sambærileg verkfæri í kennslu og slíkt hið sama mætti heimfæra upp á aðferðir margra fyrirtækja. Hugsaðu þér, krítartaflan var innleidd í kennslu, ef ég man rétt, á 19. öld.
Vandamálið er, sýnist mér, að breytingum fylgir sá galli, að þurfa tileinka sér þær. Í dag eru mörg fyrirtæki á Íslandi sem eyða frekar litlu púðri í markaðssetningu á netinu, það er afgangsstærð í hugum margra markaðsmanna. Þrátt fyrir allar ráðstefnur, fundi og tal um mikilvægi netsins, þá eru fyrirtæki mörg hver ekki að sinna þessum markaði sem skyldi. Gallinn er bara sá, að þau fyrirtæki eiga eftir að lenda í vandræðum. Þau þurfa, rétt eins og kennarar og kennsluaðferðir þurfa að taka mið af samtímanum hverju sinni, að laga markaðssókn sína að markhópnum og þegar markhópurinn er gott sem orðinn fráhuga sjónvarpi, þýðir eitthvað að auglýsa þar?
Í dag eru miklar breytingar að verða á símaeign landsmanna. Íslendingar, nýjungagjarnir sem þeir eru þegar kemur að tækni, eru nú upp til hópa að skipta út venjulegu gemsunum sínum fyrir 3g eða smartsíma. Nú er mikilvægt að hafa netið í símanum og helst síma sem getur tekið við hvers kyns viðbætum. Ég spyr aftur, erum við sem samfélag búin undir þetta? Eru skólar að færa sér þessa tækni í nyt? Eru fyrirtæki farin að notfæra sér þetta, eins og t.d. Lufthansa sem getur út mobile boarding pass?
Eða erum við kannski svolitlir flottræflar á þessu sviði? Finnst voða töff að eiga þetta en vitum ekkert hvað við eigum að gera við alla þessa tækni?
Ég held, að það sé gríðarlega mikilvægt að við kennum komandi kynslóðum á þessa tækni, allt sem henni fylgir, kosti og galla. Það leikur enginn vafi á að þetta er komið til að vera, netið fer ekkert og verður bara fyrirferðameira. Það þurfa allir, samfélagið í heild sinni, stofnanir, fyrirtæki, skólar og svo mætti lengi telja, taka mið af því.
Nemandi í háskóla í dag skrifar að jafnaði á milli 40-50 blaðsíður af verkefnum á hverri önn í námi sínu, en sendir um 500 blaðsíður af tölvupóstum á sama tíma. Hugsaðu þér þá hversu margar blaðsíður smáskilaboðin telja eða MSN samræðurnar. Hugsaðu þér síðan hversu mörgum blaðsíðum af texta þú hefur þurft að skila í vinnu þinni á móti hversu margar blaðsíður af tölvupóstum við skrifum í viku hverri. Þó svo það að skila verkefnum í háskóla með þessum hætti sé ágæt æfing, þá þurfum við engu að síður að breyta því hvernig við hugsum.
Times, they are a'changing söng Dylan og hafði alveg rétt fyrir sér. Hvort honum hafi órað fyrir þeim breytingum sem eru að verða núna á vestrænu samfélag skal ósagt látið. Spurningin sem situr eftir er, erum við tilbúin?
Bækur | Sunnudagur, 31. október 2010 (breytt kl. 20:37) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Það eru mörg falleg boðorð í Biblíunni og eftir þeim reyna flestir kristnir menn að lifa. Hins vegar eru líka þar tilteknar örfáar syndir, sem kristnum ber að forðast. Mig langar að draga saman svona nokkrar syndir. Það eru vissulega þær sjö stóru, en þegar maður les þessa annars merkilegu bók kemur maður auga á fleiri syndir, sem sumar hverjar hefur ekki farið mikið fyrir í umræðunni, hugsanlega af því þær falla ekki að nútímasamfélagi. Sumir þeir kristnu sem ég hef rætt við um þetta, koma með ýmsar útskýringar á því, viðkomandi syndir séu börn síns tíma, áttu bara við á þessum stað og í þessu samfélagi, sem í mínum huga hljómar bara eins og hver önnur réttlæting á vali og höfnun eftir eigin geðþótta (sem BTW er einmitt ein af syndunum, þ.e. að lifa ekki eftir öllu orði Guðs :D ). En hvað um það...hér er smá samantekt af þeim 667 syndum sem í Biblíunni má finna:
- Fóstureyðing (2. mósebók 21:22-25, Jere 1:4-5) Úff...heitt topic!
- Drýgja hór (Matt 19:18, Gen 39:7-9, 2. Mós 20:14) Ok...að drýgja hór, t.d. að stunda kynlíf utan hjónabands. Ég hef stundað það árum saman. Á meira að segja barn utan hjónabands. Hef reyndar aldrei verið giftur. Hvað þetta varðar er ég mjög syndugur. Skrýtið samt hvað maður heyrir presta Þjóðkirkjunnar tala lítið um þetta mál.
- Deila/Þræta (Okv 17:14, 18:6, Tit 3:9, 2. Tóm 2:23) Sekur! Stundað þetta oft og stundum mér til gamans. Hvað með prestana? Eru þeir kannski að þræta og deila á tillögur Mannréttindaráðs núna? Myndu þeir flokka það sem synd hjá sjálfum sér?
- Stjörnufræði (5. Móseb 4:19, 17:3-7, Jes 47:13-14, Postulasaga 7:42, Esek 8:16) Dauðarefsing liggur við að stunda stjörnufræði.
- Snerta þjón Guðs (Postulasaga 5:18, 35, 39) Heyrið það, prestar!
- Skilnaður (Matt 5:31-32) Jább, þið öll sem skiljið ... þetta er synd!
- Að hýða ekki óþægt barn (Okv 13:24) Líkamlegt ofbeldi gegn börnum er leyfilegt skv. Biblíunni.
- Að klæðast skarti, t.d. eyrnalokkum o.þ.h. (1. Tim 2:9, Jes 3:16-24). Heyrið það! Skart hvers konar er illa séð og syndugt.
- Að kvarta (Júd 16) Úpps!
- Að vera ekki ánægður með það sem þú átt (Heb 13:5) Haha! Kirkjan hefur kvartað (synd) yfir að fá ekki næga peninga til að reka sig, yfir því að fá ekki að stunda trúboð, yfir því að þurfa taka á kynferðisbrotamálum innan vébanda sinna. Greinilega ekki ánægð :D
- Að eiga í kjánalegum samræðum (Efe 5:4) Mig grunar að kirkjunnar menn lendi oft í kjánalegum samræðum, t.d. um hvernig heimurinn varð til ...
- Tala illa um fólk (Róm 1:29) Þeir eru nú ekki fáir sem tala illa um minnihlutahópinn sem er að reyna leggja menningu þessa lands í rúst með því að vega að rótum siðar, hefðar og menningar landsins og bola út trúboði úr skólum.
- Að dreyma sauruga drauma (Júd 8) Það er ekki auðvelt að koma í veg fyrir það.
- Að borða dýr sem hafa kafnað (Post 15:20) Hvernig veit maður það í dag?
- Að trúa þróunarkenningunni (Sálmarnir 100:3) Jább!
- Að nota svindlvogar (Okv 11:1) Barn síns tíma.
- Að óttast menn (Lúk 12:4-5) Maður á víst frekar að óttast djöfulinn.
- Að krossfesta ekki holdið (Gal 5:24) Þetta er svolítið tricky synd.
- Að spá fyrir öðrum (Post 16:16-18) Bíddu, bíddu...hvað heitir aftur síðasta bók biblíunnar...já, alveg rétt, Opinberunarbókin...þar sem kemur fram spádómur um hvernig heimsendir muni verða. Ég myndi flokka það sem spádóm.
- Að gera ekki allt sem Guð býður (Kol 3:23) Maður getur víst ekki bara valið og hafnað því sem hentar manni best. Ætli nútímakristnir menn viti af þessari synd?
- Að tilbiðja Guð án þess að þekkja hann (Post 17:23) Halló, Íslendingar!
- Vera hvorki heitur né kaldur (Opinb. 3:15-16) ...eins og flestir kristnir Íslendingar, held ég.
- Að treysta á sjálfan sig frekar en Guð (Hós 10:13) Eins og flestir nútímamenn gera, reikna ég með.
- Að hlusta frekar á eiginkonu sína en Guð (1. Mós 3:17) Já, heyrið það, konur!
- Að sparka/slá í pung manns (5. Mós 25:11-12) Á við um konur Hæfileg refsing er talin vera, að höggva af hönd konunnar.
- Að sinna eigin málum umfram málum Krists (Fil 2:21) Eins og flestir gera.
- Samkynhneigð (3. Mós 18:22, Róm 1:24-28. 1. Kór 6:9) Þetta fellur illa að ímynd kirkjunnar í dag og eru margir prestar að reyna milda þessa synd.
- Að heiðra ekki forsetann/konunginn/keisarann (1. Pét 2:17) Þið sem eruð kristinn og finnst Ólafur Ragnar ekki nógu góður, þið verðið að heiðra hann engu að síður.
- Að gantast, grínast eða fara með gamanmál og spaug (Efe 5:4) Jáhá, þar hafið þið það.
- Að færa Guði dýr með kláða sem fórn (3. Mós 22:6-7) Jább, engin kláðadýr!
- Að vera ekki góður (Kól 3:12) Já, er það synd í kristni, að vera ekki góður?
- Að vera latur (2. Þes 3:10-12) Ef einhver er latur, á hann ekki að fá mat. Bíddu, hvað varð um það að vera góður?
- Að elska sjálfan sig (2. Tím 3:2) Vandlifað!
- Fylgjast með dagatali og halda upp á ákveðna daga (Gal 4:10) Hvernig er annars hægt að halda upp á afmæli, jól og þess háttar?
- Muldra og nöldra (Júd 16:16, Fil 2:14) Úff...ég þekki alveg nokkra sem gætu tekið þetta til sín. Reyndar gæti ég það líka sjálfur :D
- Að vera ekki fullkominn (1. Mós 17:1, 1. Kon 8:61, 2. Kór 13:11) Það eru engar smá kröfur!
- Að ástunda heimspeki (Kól 2:8) Já, þetta er sem sagt synd, þannig þið sem eruð kristin í heimspeki í HÍ...shame on you!
- Að njóta lífsins (Jak 5:5) Nú, má það ekki heldur?
- Að biðja langra innihaldslausra bæna (Matt 23:14) Ekki vera trufla Guð að óþörfu :P
- Að hlýða ekki presti sínum (Heb 13:17) Jább, skv. biblíunni eru prestar víst svo skynsamir enda stýrt af heilögum anda. Þannig ef prestur segir þér að klæða þig úr og leggjast á hnén...
- Að predika þekkingu manna (1. Kór 2:13) Óþarfi að vera eitthvað að fást um vísindi og þess háttar
- Að sænga hjá hreinni mey (5. Mós 22:22-24) Ef hún er lofuð en kallar ekki á hjálp ber að grýta þau bæði til bana. En hún kallar á hjálp, þá nægir að drepa hann.
- Að sænga hjá skyldmenni (5. Mós 27:20-23) Reyndar er saga í Biblíunni sem mælir gegn þessu (sjá 1. Mós 19:30-36) þar sem dætur leggjast með föður sínum án þess að það sé bölvað! Reyndar fer ekkert vel fyrir afkomendum viðkomandi kvenna, en Biblían er yfirleitt ekki svo djúp að hún leggur ekki út fyrir lesendur hvernig beri að túlka hana.
- Húðflúr (3. mós 19:28) Ég er viss um að þið vissuð þetta ekki.
- Að borga ekki alla skatta sína (Lúk 20:25) Jább!
- Að vera norn (2. Mós 22:17) Dauðarefsing
- Að stunda kynmök með dýrum (2. Mós 22:18) Dauðarefsing
- Eiginkonur sem eru ekki undirgefnar eiginmönnum sínum (Efe 5:22) So much for equal rights!
- Að trúa ekki öll því sem stendur í Biblíunni (Jóh 8:47, 10:27, 12:48) Já, gjörasvovel og trúa öllu saman. Ekki velja og hafna.
- Að lesa ekki Biblíuna daglega (1. Pét 2:2, 1. Þes 1:8, 1. Tím 4:16) Hversu margir kristnir á Íslandi skyldu fylgja þessu eftir?
Þetta eru einungis 50 af þeim +660 syndum sem tilteknar eru í Biblíunni. Margar þeirra henta afskaplega illa í nútímasamfélagi, t.d. hugmyndir Biblíuritara um stöðu konunar, samkynhneigða, ofbeldi gegn börnum og svo mætti lengi telja. Hversu oft á síðastliðnum árum höfum við heyrt af einhverjum sem hefur verið grýttur til bana fyrir að sofa hjá hreinni mey? Það gengur bara ekki upp í okkar samfélagi, en gallinn er bara sá, að þegar þú ert á annað borð farinn að velja og hafna úr þessum flokki, hvað á við þig eða þitt samfélag, þá eru farinn að brjóta gegn því sem Guð boðar. Þú verður að fylgja öllum lögmálum hans til að teljast hólpinn. Og hversu margir Íslendingar ætli séu tilbúnir að fórna því lífi sem þeir lifa í dag, til að hefja nýtt líf sem sannkristnir einstaklingar og lifa eftir öllum boðum og bönnum Biblíunnar? Ég hugsa, að þeir sé ansi fáir.
Bækur | Fimmtudagur, 28. október 2010 (breytt kl. 17:22) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Eitthvert stórkostlegasta markaðssetningarbragð sem notað hefur verið, er notkun Biblíunnar á orðinu sannleikur. Kristnir menn hafa nefnilega geta beitt fyrir sig þeim rökum, að það sem þar stendur sé ekki bara sannleikur heldur sannleikurinn. Og þessi greinir gerir alveg ótrúlega margt. Hann útilokar aðra sannleika og felur í sér, að allir þeir sem mæla gegn þeim sem hafa sannleikann hljóti að fara með rangindi, lygar eða ósannindi.
Í allri orðræðunni um hvort banna eigi trúboð í skólum, hafa trúaðir svolítið beitt fyrir sig svipaðri aðferð, þ.e. látið sem þau rök sem þeir týni til séu sannleikurinn eini og sanni og önnur rök þurfi ekki til. Kirkjunnar menn tala í upphrópunum og með vægðarlausum hræðsluáróðri, sem eins og margur annar slíkur áróður á við fá, ef nokkur, rök að styðjast.
Mig langar aðeins að skoða þessi helstu rök þeirra og mun ég þá helst fara í gegnum ræðu hr. Karls Sigurbjörnssonar, biskups Þjóðkirkjunnar.
Trúfrelsi er skilgreint sem útilokun trúar frá hinu opinbera rými, uppeldi og kennslu. Sem mun þó einungis stuðla að fáfræði, fordómum og andlegri örbirgð.
Trúfrelsi er hluti af mannréttindum hvers og eins. Ísland hefur skrifað undir mannréttindasattmála Sameinuðu Þjóðanna og hvað svo sem hr. Karli kann að finnast um það skjal, þá eru það lögfest réttindi allra þegna landsins að búa við trú-, skoðana-, tjáninga-, prent- og fundafrelsi. Þessi réttindi okkar eru mikilvægur þáttur í vestrænu samfélagi og það er með ólíkindum, að sjá hvernig biskup úttalar sig um þessi mikilvægu réttindi. Hvernig hann hyggst færa rök fyrir því, að frelsi til að iðka þá trú sem hverjum og einum sýnist, komi til með að stuðla að fáfræði, fordómum og andlegri örbrigð. Er það trú biskups að þeir sem trúa ekki, eða er ekki boðuð trú í opinberum rýmum, uppeldi og kennslu, búi við andlega örbrigð?
Er þetta kannski enn sú leið sem við, sem höfum minniháttar tök á sögu Íslands og Evrópu, höfum séð kirkjuna nota í gegnum tíðina? Að fara fram með upphrópunum, fordæmingum á því sem kirkjan fær ekki að ráða eða getur ekki haft áhrif á? Er hér ekki alið á ótta fólks? Ef kirkjan fái ekki haldið hátterni sínu áfram, muni samfélagið verða enn fátækara, meiri fordómar og enn meiri fáfræði? Ég verð að viðurkenna, mér þætti mjög gaman að sjá við hvaða mælistiku hr. Karl miðar því ég hef ekki séð neinar rannsóknir sem sýnt hafa fram á, að samfélag þar sem ekki er stundað trúboð í skólum hafi hrunið að innan frá.
Mannréttindaráð vill í nafni mannréttinda banna það að Gídeonfélagið megi afhenda grunnskólabörnum Nýja testamentið að gjöf. Á vettvangi skólans skal börnunum meinað að kynnast því riti sem er lykillinn að skilningi á listum og bókmenntum heimsins, kristinni trú og sið Íslendinga.
Ég get tekið undir að Nýja Testamentið er lykill að skilningi á kristinni trú. Hins vegar finnst mér hr. Karl sýna fádæma fávisku er hann segir, að sú sama bók sér lykill að skilningi á listum og bókmenntum heimsins. Mig langar til að benda honum á, að bækur voru skrifaðar löngu áður en Biblían varð til, t.a.m. hafa forngrískar bókmenntir haft að mínu viti mun heilmikil áhrif á bókmenntasöguna og urðu þær til algjörlega án nokkurra áhrifa frá höfundum Biblíunnar. Auk þess er sá skilningur sem hr. Karl leggur í orðið bókmenntir afar þröngur, því bókmenntir eru svo miklu meira en bara það sem skrifað hefur verið. Við eigum t.d. alveg stórkostleg Eddukvæði; Hávamál, Völuspá o.s.frv.; sem urðu til flest án þess að kristni kæmi þar nokkurs staðar nærri (þó svo við getum þakkað kaþólskum munkum fyrir að hafa tryggt að þau hafi lifað í menningu okkar til dagsins í dag).
Hvað viðkemur sið Íslendinga, þá þætti mér gaman að sjá skilgreiningu á þeim sið. Nú eru Íslendingar almennt séð ekki trúræknir, sé tekið mið af kirkjusókn dagsins í dag. Hvað varðar sið Íslendinga í sögulegu ljósi, þá hafa ríkt þrír siðir á Íslandi; heiðni, kaþólska og lúthersk-evanglískur siður. Á hvern þeirra varpar Nýja Testamenti Gideonsfélagsins ljós? Ekki ásatrú. Ég er auk þess nokkuð viss um, að kaþólikar leggi ekki sama skilning í þá bók og þeir lúthersk-evanglísku, þó líkindi séu mörg.
Er það ekki siður margra Íslendinga, að trúa þegar það hentar þeim? Sem eru einmitt þeir sem Kristur gagnrýndi hvað harðast, þeir sem voru hvorki heitir né kaldir. Og sættir Þjóðkirkjan sig við það? Væri ekki nær, að Þjóðkirkjan læsi sjálf Nýja Testamentið og reyndi að fá meðlimi sína til að gera slíkt hið sama og breyta eftir þeim kenningum sem þar koma fram. Mig grunar, að ef það væri Þjóðkirkjunni hjartans mál að láta lesa þennan lykil að listum og bókmenntum heimsins, að mati hr. Karls, að töluvert fleiri myndu segja sig úr Þjóðkirkjunni og ég held, að kirkjunnar menn viti það. Kvenfyrirlitningin, hrokinn og mannvonskan sem þar má finna finnst mér oft skyggja á annars ágæt skilaboð Krists.
Það hefur verið gott að sjá að fjölmargir foreldrar og skólmenn hafa andmælt þessum hugmyndum. Guði sé lof fyrir það fólk sem heldur vöku sinni. Það er vegið að rótum trúar, siðar og hefðar. Við þurfum síst á því að halda á háskatímum.
Hér þykir hr. Karli skyndilega vænt um mannréttindi á ný. Ef þessir fjölmörgu foreldrar og skólamenn hefðu ekki rétt til að tjá sig, þá væri enginn farvegur fyrir þá að koma skoðunum sínum á framfæri. Það verður ekki bæði sleppt og haldið í þessum efnum. Annað hvort virðum við mannréttindi eða ekki. Trúfrelsi er jafn mikilvægt og tjáningarfrelsi.
Að tala um, að bann við trúboði í skólum, vegi að rótum trúar, siðar og hefðar er enn gott dæmi um gífuryrði. Hr. Karl virðist leggja að jöfnu, að trúboð í skólum sé grundvöllur trúar á Íslandi. Ef svo er, þá skil ég vel hann rjúki upp á nef sér í stresskasti og pirringi. Hins vegar er erfitt að halda slíku fram. Kirkjan ætti að vita það vel, að grundvöllur trúarinnar býr innra með hverjum og einum. Kristur virtist gera sér grein fyrir því, hann lagði mikla áherslu á að hver og einn ræktaði sína trú, að hver líkami væri musteri Guðs.
Ég hefði einmitt haldið, að áhugaleysi almennings um kristna trú og trúarlíf (sem kristallast í dræmri kirkjusókn og síauknum úrsögnum úr Þjóðkirkjunni) væri Þjóðkirkjunni mun meira áhyggjuefni. Að laga ímynd sína eftir hneykslismál undanfarinnar missera. Þetta er kannski leið þeirra til að beina athyglinni frá þeim og því getuleysi sem kirkjan virðist búa við til að taka á öllum þessum málum. Það held ég að vegi mun harðar að rótum trúar, siðar og hefðar. Ég held, að miklu fleiri hafi sagt sig úr Þjóðkirkjunni vegna þess hvernig hún hefur tekið á kynferðismálum, heldur en vegna trúboðs hennar í leik- og grunnskólum. Enn sýnist mér hr. Karl fara með hræðsluáróður sem er í engum tengslum við raunveruleikann.
Meirihluti landsmanna er kristinn og því er eðlilegt að kristin trú sé boðuð í skólum. Virða á lýðræðið.
Hvað er eðlilegt við það? Ef meirihluti landsmanna er fylgjandi því að kynferðisbrotamenn séu húðflettir á Lækjartorgi er það þá eðlileg framkoma yfirvalda gagnvart brotamönnum? Jafn mikið og það kann að fara í taugarnar á kristnum mönnum, þá er ekki hægt að taka þessa umræðu í þessa átt og það fyrir nokkrar sakir.
Í fyrsta lagi, þá snúast mannréttindi einmitt um, að meirihluti fái ekki tækifæri til að kúga minnihluta. Í kristnisögu er það einmitt kennt, að á fyrstu öldum kristninnar voru kristnir menn ofsóttir, kúgaðir, misþyrmt og drepnir, allt fyrir sakir trúar sinnar. Nú stöndum við frammi fyrir svipuðum hlut hérlendis, hópur trúlausra og þeirra sem iðka önnur trúarbrögð en kristni fer sífellt fjölgandi en nú sýnist mér á þessum rökum, að kristnum finnst eðlilegt að kúga þennan minnihlutahóp. Voru þá ofsóknir þær sem fjallað er um í m.a. Nýja Testamentinu, eðlilegar og réttlætanlegar? Fordæma ekki allir kristnir menn þær? Er samt í lagi að meirihluti kúgi minnihluta í dag? Ég skil ekki alveg hvernig kirkjan og kristnir ætla að halda þessu til streitu án þess að verða sjálfum sér til skammar.
Lýðræði á aldrei við þegar mannréttindi eiga í hlut. Það á ekki að vera hægt að kjósa í burtu tjáningarfrelsi, skoðanafrelsi eða hver þau önnur mannréttindi sem í umræðu eru hverju sinni. Við höfum mýmörg dæmi um það á nýliðinni öld hvernig farið getur þegar svo er gert. Skemmst er að minnast Þýskalands úr seinna stríði, Sovétríkjanna og svo mætti áfram lengi telja. Það er kannski það sem Þjóðkirkjan og kristnir ríkisborgarar þessa lands stefna að. Maður spyr sig.
Ísland hefur verið kristið í 1000 ár og eru kristin gildi grundvöllur samfélags okkar.
Nei, á Íslandi hefur ekki ríkt einn og sami siður í 1000 ár. Það er misskilningur. Hér ríkti kaþólskur siður í 550 ár en síðan þá (í 460 ár) hefur ríkt lúthersk-evanglískur siður. Þegar Lúther setti fram siðaboðskap sinn var hann ekki kaþólsku kirkjunni að skapi og samkvæmt söguskilningi mínum, þá var kaþólska kirkjan ekki á því að kalla þann boðskap kristinn, þó svo kirkjunni hafi ef til vill snúist hugur í dag. Þannig, þessi fullyrðing um að Ísland hafi verið kristið í 1000 ár er að mínu viti frekar á gráu svæði en hitt, að hún sé sönn og hvað þá sannleikurinn.
Hvort kristin gildi séu grundvöllur samfélags okkar, þá held ég að mörg þeirra gilda sem kristnir menn hafi eignað sér eigi sér mun eldri rætur, t.d. frá Grikklandi og Indlandi. Það er nefnilega svo, að Jesús Kristur fann ekki upp kærleikann, samúðina eða sannleikann. Sem sagt, áður en hann kom til sögunnar þá voru þessi gildi til. Jafnvel samfélög sem ekki höfðu orðið fyrir áhrifum kristni hafa sýnt af sér mikinn kærleik og samhjálp, t.a.m. voru heiðnir menn með fyrirkomulag sem tryggði þeim sem ekki gátu alið önn fyrir sjálfum sér ákveðna héraðshjálp og hefur lifað með íslensku þjóðinni allt fram til dagsins í dag. Hreppahjálpin er nefnilega mjög gamalt fyrirbæri í íslensku samfélagi. Ég hvet fólk til að kynna sér sögu hennar.
Auk þess langar mig til að benda á, að þau gildi sem svo oft er vísað til, þessi góðu grundvallar ,,kristnu" gildi, birtast að mér finnst alls ekki í þeirri hörðu afstöðu sem kristnir hafa tekið gegn þessum tillögum mannréttindaráðs. Það er lítið sem minnir á kærleika til náungans, samúð með þeim sem minni eru og virðingu. Trúlausir, eins og ég sjálfur, hafa fæstir áhuga á því að eyða kristni eða öðrum trúarbrögðum úr samfélaginu. Þvert á móti vil ég hafa sem flest trúarbrögð hérna á Íslandi. Mér finnst í fínu lagi þó fólk fari í kirkju og sunnudagaskóla, að það lesi Biblíuna og iðki sína trú í friði. Ég virði þetta fólk og þær ákvarðanir sem það tekur með trú sína í huga. Hins vegar þætti mér vænt um, að þetta sama fólk sýndi mér þá virðingu að vera ekki að boða trú í skólanum sem barnið mitt sækir. Ég vil ala upp mitt barn eftir mínum gildum, sem eru kannski ekki þau hin sömu og þeir kristnu og í skólanum má ekki myndast við-og-hinir stemning. Það er sá punktur sem flestir foreldrar óttast, hvort sem þeir eru kristnir eða ekki, hvort sem þeir tilheyra einhverjum minnihlutahópi eða ekki. Það vilja allir foreldrar að barnið sitt tilheyri hópnum í skólanum og það á ekki að setja skólann í þá stöðu, að kennarar og starfsfólk hans þurfi að aðgreina nemendur með svo skýrum hætti. Að setja barn út úr stofu á meðan trúboð fer fram, er ekkert annað en aðgreining. Og skólinn á að vera án aðgreiningar!
Dægurmál | Þriðjudagur, 26. október 2010 (breytt kl. 10:37) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þegar dóttir mín fæddist ákváðum við foreldrar hennar að hún skildi alast upp við trúfrelsi. Ég er trúlaus og móðir hennar var á þeim tíma ekki mikið fyrir trú. Það kom vissulega mörgum spánskt fyrir sjónir innan fjölskyldunnar og var oft skotið á þetta atriði, að barnið skyldi vera óskírt, en við stóðum við ákvörðunina. Ef hún síðar meir vill skrá sig í trúfélag þá gerir hún það, en það verður þá ákvörðun sem hún tekur sjálf og vonandi verður sú ákvörðun upplýst og vel ígrunduð.
Ég lít á það sem mannréttindi hennar sem barns, að vera laus við hvers kyns trúboð og innleiðingu frá trúfélögum um það sem er rétt og rangt. Ég vil ekki að hún þurfi að sitja undir bænum, trúarlegum samsöng og öðrum tilbeiðsluaðferðum, sem eru að undirlagi talsmanna einhverra trúarbragða.
Þegar hún var á leikskóla í Breiðholti kom prestur úr Seljakirkju til að kenna börnunum að fara með bænir og syngja um Jesú. Ég kvartaði yfir þessu við bæði sóknarprestinn og leikskólastjóra, þar sem mér þótti óeðlilegt að í fyrsta lagi að jafnræðis væri ekki gætt (þ.e. að aðrir talsmenn trúarhópa fengu ekki sama aðgang að börnunum) og í öðru lagi að trúboð færi fram innan veggja leikskóla. Í fyrstu var mér andmælt, en þegar ég benti á, að hugsanlega þætti einhverjum foreldrum það óþægilegt ef hofgoði Ásatrúarfélagsins kæmi eða einhver prestur íslamska trúarfélagsins hérlendis, þá skildi leikskólastjórinn hvað ég ætti við. Ég er ekki viss um að Þjóðkirkjan væri sátt ef þessir aðilar fengu sama aðgang og prestar hennar hafa haft að leik- og grunnskólum. Um leið kæmi hún upp um raunverulegan tilgang heimsókna sinna. Var sá millivegur fundinn á málinu, að prestur fékk að koma í heimsókn en mátti í heimsóknum sínum ekki tala um Jesú eða kristna trú, heldur átti að spjalla við börnin um góð gildi og manngæsku.
Trúboð á ekki að fara fram innan veggja skóla. Skólar eru akademískar stofnanir og börn og foreldrar treysta á það. Við sem foreldrar viljum ala okkar börn upp eftir ákveðnum gildum og siðum, sem hvert fyrir sig og sitt barn ákveðum hver eiga að vera. Það getur verið mjög ólíkt á milli heimila hver þau gildi og hverjir þeir siðir eru og það er ekkert nema gott, því það eykur fjölbreytni mannlífsins. Prestar eiga ekkert erindi inn í skóla með slíka starfsemi, sama hvaða trúarbrögð þeir aðhyllast. Það fer fram kennsla í trúarbragðafræði á akademískum grundvelli en prestar eru óhæfir, starfs sín vegna, til að framkvæma þá kennslu. Að fá kristinn prest til að kenna trúarbragðafræði er eins og að fá þingmann Sjálfstæðisflokksins til að fjalla um flokkakerfið á Íslandi. Á slíkri umfjöllun verður alltaf ákveðin slagsíða og sú slagsíða er ekki akademísks eðlis.
Nýverið bókaði mannréttindaráð Reykjavíkurborgar að allt trúboð, trúarstarf hvers konar og tengsl við Þjóðkirkjuna í starfi skóla borgarinnar skyldi rofið. Þótt fyrr hefði verið, segi ég nú bara. Alltof lengi hefur Þjóðkirkjan í krafti stærðar sinnar haft aðgengi að skólum sem ekkert annað trúfélag hefur haft og notað óspart til að boða trú. Hversu sjúkt er það, að mæta í leikskóla, þar sem börn eru allt niður í 18 mánaða gömul, til að kenna þeim að vera kristin? Börn sem hafa enga gagnrýna hugsun? Margir gagnrýna það þegar stjórnmálaflokkar smala út af elliheimilum á kosningadögum og aka gömlu, elliæru fólki á kjörstað og hjálpa þeim að merkja á kjörseðilinn. Ég fæ ekki séð hvernig trúboð í leikskólum getur verið réttlætanlegt.
Auðvitað berst Þjóðkirkjan á hæl og hnakka og vill ekki gefa eftir þetta aðgengi sitt (sjá http://visir.is/tru,-bod-og-bonn/article/2010237111227). Þjóðkirkjan er á hraðri niðurleið. Krafan um aðskilnað ríkis og kirkju er hávær og ef skoðuð eru stefnumál margra þeirra sem bjóða sig fram til stjórnlagaþings sést að þetta mál er ofarlega á döfinni hjá mjög mörgum. Sífellt fleiri skrá sig úr Þjóðkirkjunni á hverju ári, enda hvert hneykslismálið rekið annað. Þetta bjákn er orðið úrelt en gerir sér ekki grein fyrir því sjálft. Þroski Þjóðkirkjunnar eru enginn í þessu máli, frekar en svo mörgum öðrum.
Í mínum huga er Þjóðkirkjan eins og gamalt, elliært gamalmenni. Tuðandi út í horni, rær sér fram og aftur ómeðvitað um það sem gerist í kringum sig, óhæft til að sjá um sig sjálft og getur með engu móti komið sér í takt við nútímann. Lifir í eigin heimi minninga og bíður þess að allt verði eins og þá. Nú þarf bara einhver að taka undir hendur þessa gamalmennis og leiða það út í dagsljósið. Hugsanlega opnar það augun og sér að tímarnir eru breyttir.
Bækur | Mánudagur, 18. október 2010 (breytt kl. 09:11) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fyrir allnokkrum árum stóðu ákveðnir meðlimir STEF og kvörtuðu yfir því að á sumum rakarastofum hérna í Reykjavík væri kveikt á útvarpi á meðan starfsemi fór fram. Þeir héldu þeim rökum fram, að þar væri verið að dreifa tónlist og öðru höfundavörðu efni. Vissulega má það til sanns vegar færa, en á móti kemur, að Rúv greiðir býsna há STEFgjöld á hverju ári og í raun hafði þá þegar verið greitt af viðkomandi efni en þessir meðlmir vildu fá aftur greitt...fyrir sömu dreifingu í raun og veru, því ekki kusu rakararnir hvaða lög voru spiluð hverju sinni, en látum það liggja á milli hluta.
Þegar Netið varð loks að stóru fyrirbæri og í ljós kom, að notendur þess gátu deilt tónlist sín á milli stóðu meðlimir STEF aftur á fætur og kvörtuðu sáran. Nú skil ég alveg, að þeim geti sárnað að verða af heilmiklum tekjum sökum ólöglegrar dreifingar á höfundavörðu efni. Það er vissulega mikill tekjumissir af þessari starfsemi á netinu. Reyndar er ég ekki viss um að allir þeir sem hlaða niður og upp efni af netinu myndu kaupa viðkomandi efni, þannig hvort hægt sé að reikna hverja upphleðslu og niðurhleðslu sem tapaðar tekjur, finnst mér pínu hæpið. Hvað um það, STEF fékk því framgengt að allir óbrenndir geisladiskar og harðir diskar beri STEFgjöld. Rökin eru þau, að þetta er jú notað til að hlaða niður tónlist og diskarnir eru notaðir m.a. til að brenna á þá tónlist. Sem sagt, allir harðir diskar og geisladiskar, hvort þeir tengist niðurhleðslu á höfundarvörðu efni eða ekki, bera STEFgjöld, hversu sanngjarnt sem það kann að virðast.
Þetta er þó ekki nóg, því STEF hefur lagt til að nú verði lagður sérstakur netskattur á alla netnotendur, þ.e. að þeir greiði STEFgjöld, til að milda fjárhagslegs höggs sitt (STEFS) vegna ólöglegs niðurhals. Látum vera að STEF hljómi eins og siðblindur, fégráðugur útrásarvíkingur. Látum alveg vera að 99% netnotenda hafa nú þegar greitt STEF-gjöld af hörðum diskum sínum og óbrenndum geisladiskum. Látum líka vera að því fari fjarri að allir netnotendur hlaði niður eða deili tónlist. Skoðum frekar hvaða skoðun STEF hefur á almenningi.
STEF virðist einfaldleg ganga út frá því, allt frá dæminu um rakarana, að almenningur sé að snuða samtökin um ómælda fjármuni. Og þá fjármuni ætla samtökin sér að ná í með góðu eða illu. Oftast nær illu, því miður, því ég held að það starf sem þar er unnið er að mörgu leyti mjög mikilvægt. Hagsmunagæsla á borð við þessa er vissulega þörf og nauðsynleg, sérstaklega á þessum tímum þar sem Netið gengur út á deilingu efnis. Hins vegar eru þær aðferðir sem notaðar eru vægast sagt til þess fallnar að fá fólk upp á móti samtökunum, og sérstaklega þegar notaðar eru klisjur fengnar frá verstu fjárglæframönnum Íslandssögunnar.
STEF er tilbúið að ganga svo langt, að stimpla alla netnotendur þjófa. Og ekki nóg með það, þeir eru í raun orðnir þjófar áður en netnotkun þeirra hefst, því þeir þurfa jú að tryggja að þeir hafi aðgang að neti áður en netnotkunin hefst. Í stað þess að eltast við hina raunverulegu sakamenn, þá sem deila tónlist og öðru höfundavörðu efni, þá fá allir þennan dóm á bakið og greiða sekt í formi netskatts, sem er ekkert annað en rangnefni eða í versta falli nýyrði yfir innheimtu STEFgjalda. Og maður hlýtur að spyrja sig, úr því ég er búinn að greiða þessi gjöld, hvað stendur þá í vegi fyrir því að ég hlaði niður tónlist? Ég er jú búinn að greiða gjöldin!
Hugsum okkur svipað dæmi en snúum því að umferðinni. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ákveður að leggja svokallaðan hraðaskatt á alla einstaklinga í Reykjavík og nágrenni sem hafa bílpróf. Skatturinn er 5.000 kr. á mánuði og er innheimtur vegna þess að allir ökumenn keyra á einum eða öðrum tíma of hratt, en það er engin leið að ná öllum sem brjóta með þeim hætti af sér. Hvernig ætli dómstólar myndu túlka það, ef mál færi fyrir dómstóla, þar sem ökumaður hefur verið tekinn fyrir að aka of hratt en segist vera búinn að greiða sektina fyrirfram? Honum var jú sendur gíróseðill í hverjum mánuði og þar sem hann hefur greitt samviskusamlega gíróseðlana, þá hafa safnast upp sektargreiðslur upp á kr. 60.000 á einu ári. Hvernig ætli dómari myndi dæma í því máli? Ekki má sekta/dæma tvisvar fyrir sama brot, ef ég skil lögin rétt. Hægt er að þyngja og draga úr dómum, en aðeins á efri dómstigum.
Hvernig vilja STEF leysa þetta? Ætla samtökin að hætta að eltast við deilipunkta á borð við Pirate Bay, DC++, Torrent og hvað þetta allt nú heitir? Munu þau sætta sig við að allir, brotlegir og saklausir, greiði sinn internetskatt eða munu þau halda áfram að eltast við þá sem ganga hvað harðast fram í deilingu á höfundavörðu efni? Hvenær verða þau sátt við sinn árangur? Hversu langt eru þau tilbúin að ganga, úr því forsvarsmönnum þessara samtaka finnst í góðu lagi að þjófkenna heila þjóð?
Í þessu, eins og svo mörgu sem ég hef bloggað um, finnst mér skorta á hófsemi og sanngirni. Það er eins og samfélag okkar sé orðið svo gegnumsúrt af dómhörku, reiði og allir svo uppteknir að verja sitt, að fólk hefur misst sjónar á stóru myndinni, hlutir eru æ sjaldnar settir í víðara samhengi og fyrir vikið ríkir þröngsýni og oft á tíðum fáviska. Auðvitað er þetta vandamál risastórt, því neita ég ekki og það er synd að vita til þess að margir höfundar verða af háum STEFgjöldum, en að ætla sér að refsa allir þjóðinni fyrir það, er að mínu mati fáránleg hugmynd. Næstu skref í þá átt hljóta þá að vera enn meira út í hött og erum við tilbúin til þess? Erum við tilbúin að skattleggja öll möguleg, óunnin en áætluð afbrot?
Bækur | Sunnudagur, 10. október 2010 (breytt kl. 17:12) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ásbjörn Óttarsson stimplaði sig allhressilega inn í dægurmálaumræðuna nú í gær þegar hann lét þau orð falla á Alþingi, að laun til listamanna ætti að fella niður því hann skyldi ekki hvers vegna þetta fólk gæti ekki fengið sér almennilega vinnu, eins og venjulegt fólk. Auk þess bætti hann við, að hann teldi fjárausturinn í tónlistarhúsið Hörpu vera til óþurftar.
Mér fellust hreinlega hendur við að heyra þessi ummæli og hélt í fúlustu alvöru að allir Jónasar frá Hriflu hefðu verið gerðir útlægir úr íslenskri pólitík. Hann veit kannski miklu meira um þessi mál en ég, en ég get ekki komist hjá því að finnast þetta úrelt og gamaldags sjónarmið.
Það er nefnilega svo, að því fleiri störf sem við sköpum, óháð því hvaða greinum þau tengjast, tryggir að meira fé kemst í umferð. Mér finnst auk þess heldur í góðu lagi að styrkja listamenn til þess að iðka sína list, því undantekningalítið skapa þau störf fleiri störf (listmálarinn þarf að kaupa striga og málningu, rithöfundurinn þarf á bókaútgáfunni að halda o.s.frv.) og auka þar með veltu fés í samfélaginu. Við hljótum, jafnvel þó fólk sé öfgamenn á báðum vængjum, að sjá að það er einmitt það sem við þurfum í samfélagi okkar í dag, að meiri hreyfing komist á fé, að það skipti örar um hendur. Það skapar tekjur fyrir ríkissjóð. Því fleiri sem hafa fé milli handanna, því betra, því fleiri sem nota þetta fé, því betra og þannig er hægt að örva hagkerfið og koma því aftur af stað.
Listamenn, hverrar tegundar svo sem þeir kunna að vera, eru jafngildur þáttur í þessu hagkerfi og hver annar, þeir þurfa jú að fá greitt fyrir sína vinnu, líkt og aðrir svo þeir geti stundað hana. Fái þeir greitt fyrir hana, er virðisaukinn af þeirri vinnu ekki bara í formi aukinna tekna ríkissjóðs (í formi greiddra skatta, gjalda o.þ.h.) heldur einnig í formi líflegs menningarlífs. Ég er ekki viss um, að við værum tilbúin að vera án Íslendingasagna (sem allar voru skrifaðar á kostnað samfélagsins með einum eða öðrum hætti, t.d. ritaðar í klaustrum sem haldið var uppi af nærliggjandi bændum í formi tíundar og þess háttar eða Snorra Sturlusyni, sem bjó á og hafði tekjur af einni ríkustu kirkjujörð landsins. Ég er heldur ekki viss um, að við myndum vilja vera án myndlistarinnar, kvikmyndanna eða skáldskaparins. Nú er ég ekki að segja, að þessi menningarstarfsemi myndi leggjast af ef ríkið styrkti hana ekki, en ég tel það einfaldlega vera skyldu okkar sem samfélags að viðhalda menningu okkar og styrkja.
Öll saga okkar, þessi ríflegu 1100 ár, væru mun fátæklegri í hugum okkar ef við hefðum ekki menningu, ef menning okkar hefði öll miðast við hið veraldlega, snertanlega og það sem gefur af sér áþreifanlegan arð. Sem betur fer, þrátt fyrir alla Ásbirni og þá sem eru sammála honum, þá höfum við haldið áfram að láta listamenn hafa styrki til að sinna listsköpun sinni. Það má vel vera, að sitt sýnist hverjum um gildi listarinnar hverju sinni og í hverju tilfelli fyrir sig, en í því felst fegurðin við listina. Fegurð hennar felst í því hver áhorfandinn er.
Ásbjörn þessi hins vegar virðist telja og ég hef ekki betur séð en allmargir kjósendur Sjálfstæðisflokksins séu sammála honum, að listamenn séu í raun bara afætur sem vilja fá greitt fyrir að sinna áhugamálinu sínu. Auk þess þá dreymir flesta um, að starfa við áhugamálið sitt. Bíladellukarlar gerast bifvélavirkjar, flugáhugamenn flugmenn, hannyrðakonur fatahönnuðir, bíónerðir vinna í sjónvarpi og svo mætti lengi telja. Ég skil þess vegna ekki hvers vegna þessi rök eru týnd til, nema þá af þeim sem eru öfundsjúkir vegna þess að þeir geta ekki starfað við það sem þeir hafa áhuga á.
Í raun fæ ég ekki betur séð en að Ásbjörn sé í nákvæmlega sömu stöðu. Hann situr á þingi sem málsvari kvótaeigenda, það er kappsmál hans að tryggja réttindi og hag þeirra sem mesta, enda hluti af þeim hóp sjálfur, þ.e. hann vinnur við málaflokk sem hann hefur áhuga á. Skemmst er að minnast þess, er hann greiddi sjálfum sér 60 milljónir í arð út úr fyrirtæki sínu (sem starfaði í sjávarútvegi, eftir því sem ég kemst næst) en þó var fyrirtækið í bullandi tapi, með 150 milljónir í mínus. Ég spyr, ætli hann telji að hann hafi unnið almennilegt starf til þessara arðgreiðslna? Eða mun/var fyrirtækið verða lýst gjaldþrota í kjölfarið og þar með skuldirnar látnar falla á almenning?
Hversu margir listamenn ætli stundi slíka gjörninga? Stofni fyrirtæki utan um starfsemi sína og greiði sér síðan marga milljóna arð úr fyrirtæki sem í raun er gott sem gjaldþrota? Til þess eins að verðlauna sjálfa sig. Ég er ekki viss um að þeir séu svo margir.
Mig grunar nefnilega að flestir listamenn, sem hafa starfa af listsköpun, búi við mun krappari kjör en Ásbjörn og hafi þar af leiðir lært að komast af með minna en 60 milljónir á ári. Ég held, að Ásbirni væri hollt að prófa að starfa sem listamaður, þurfa að berjast við að koma sér á framfæri og lifa af þeim launum sem sá starfi felur í sér. Ég held að hann myndi skipta um skoðun og jafnvel leggja til, að framlög til listamanna væru hækkuð.
Séu hins vegar rökin þau, að gæta þurfi aðhalds í fjármálum snýr málið vissulega öðruvísi við. Það leikur enginn vafi á því, að fjárlögin fyrir næsta ár eru mikil sorgarsaga, gott sem hvar sem borið er niður. Ég skil vel, að Sjálfstæðismenn vilja skera niður óþarfa fitu til að viðhalda grunnþjónustu á borð við menntaskóla, sjúkrahús og samgöngukerfi. Hins vegar hlýt ég að setja spurningarmerki, um leið og Ásbjörn setur spurningarmerki við framlög til listamanna, við framlög til Þjóðkirkjunnar, til kynjaðrar hagstjórnar og til Fjölmiðlastofu. Bara þessi nýja eftirlitsstofnun (í boði vinstri manna, að sjálfsögðu) fær um 40 milljónir af næstu fjárlögum. Bara fyrir þann pening væri hægt að halda 15 listamönnum uppi í heilt ár. Þjóðkirkjan fær 1400 milljónir af fjárlögum næsta árs, þrátt fyrir það eru kirkjur landsins illa sóttar og eru þó meðlimir kirkjunnar látnir greiða fyrir skírnir, giftingar og jarðafarir (sem maður hefði haldið að þeir hefðu greitt með þessum 1400 milljónum!).
Ef skera á fitu af fjárlögum, þarf að gera það í fyrsta lagi á réttum grundvelli (rökin að listamenn eigi bara að fá sér almennilega vinnu eins og venjulegt fólk, eru ekki réttur grundvöllur og segir miklu meira um Ásbjörn en nokkurn tíma listamenn), í öðru lagi með sanngjörnum og réttmætum hætti og í þriðja lagi þannig að grunnstoðirnar haldi sér en gæluverkefni, tilraunir og slíkt sé lagt til hliðar, amk. á meðan kreppu stendur.
Bækur | Fimmtudagur, 7. október 2010 (breytt kl. 09:06) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Undanfarnir dagar hafa verið mjög sérstakir á Alþingi. Eins og flestir vita, þá var verið að kjósa um hvort kalla eigi saman Landsdóm og hvaða fyrrverandi ráðherra skyldi þá kæra. Að endingu var ljóst að kalla skyldi saman þennan rannsóknarrétt en aðeins var Geir H. Haarde einn ákærður. Ég ætla ekkert að fara nánar út í þetta mál eða hverjar mínar skoðanir í því eru, enda óþarft að bæta í þann hafsjó blogga, frétta og fréttaskýringa um það mál. Sitt sýnist hverjum og er það bara af hinu góða. Við skulum nefnilega ekki gleyma því, að við megum enn hafa hvert okkar skoðun og koma henni á framfæri með þeim hætti sem okkur sýnist og er ekki skaðleg á neinn hátt fyrir aðra.
Það sem hefur farið í taugarnar á mér hins vegar við þetta mál er hegðun stjórnmálamanna og ekki síst fjölmiðlamanna í kringum þetta mál. Um margt hafa Alþingismenn hagað sér eins og óþroskaðir unglingar, uppfullir af barnalegri reiði og réttlætiskennd, tilbúnir í slagsmál úti á skólavelli. Sjálfstæðismenn eru æfir yfir ,,svikum, loddaraskap og bakherbergjamakki Samfylkingarinnar" og hafa jafnvel sumir þeirra gengið svo langt að persónugera úrslit atkvæðagreiðslunnar og kenna ákveðnum þingmönnum um hvernig fór. Samfylkingin kemur vægast sagt illa út úr þessu, lítur út eins og óákveðinn hópur hálfvita sem veit vart í hvorn fótinn á að stíga, ,,hvort á að kæra Ingibjörgu eða Björgvin, úr því ekki er hægt að ákveða það þá sleppum við þeim báðum." Framsókn er vart marktæk í málinu, enda að mínu mati fyrir löngu búin að mála sig út í horn. Vinstri grænir eru uppfullir af sjálfskipuðum umvöndunarhroka sem svo langt er í að innistæða sé fyrir. Eins ótrúlegt og það kann að virðast, þá er eini flokkurinn sem mér finnst lenda með báða fætur á jörðinni eftir þetta Hreyfingin. Að minnsta kosti voru þau sjálfum sér samkvæm.
Fjölmiðlafólk gengur síðan upp í þessu, tekur þátt í vitleysunni og miðlar öllu þessu tilfinningarúnki yfir okkur almenning. Ég hef bara engan áhuga á að vita hvort Einar K. Guðfinnsson sé reiður yfir hvernig fór, mér finnst það ekki koma málinu við hvort hann eða aðrir þingmenn séu grenjandi, hlæjandi, æfareiðir eða sáttir við niðurstöðuna. Ekkert frekar en í öðrum þeim málum sem þingið hefur til umfjöllunar. Þessi fréttaflutningur er afar bandarískur og til háborinnar skammar að mínu mati. Hefur hér enn íslenskan fréttaflutning tekið niður og var þó langt fallinn fyrir.
Það er nefnilega svo, að okkur almenningi kemur ekkert við hvort þingmenn séu sáttir við niðurstöður atkvæðagreiðslna á Alþingi eða ekki. Það sem okkur kemur við er hvernig þingið starfar, hverju það kemur í verk og hvaða mál eru til umfjöllunar hverju sinni og með hvaða hætti. Ef fréttastofur ætla að taka upp á því að flytja hjartnæmar og tilfinningaþrungnar fréttir af öllum þingmálum, með sama hætti og af þessu máli, þá heyrðum við ekki annað, því það er, eðli málsins samkvæmt, alltaf einhver þingmaður sem er tilbúinn að grenja, býsnast af reiði eða skopast í sjónvarpinu, þó ekki væri nema til að koma fyrir í fréttum.
Ég legg til, að þingmenn okkar hætti að haga sér eins og óþroskuð börn, fari að fjalla um mál af fagmennsku og með hagsmuni almennings í fyrirrúmi. Ég er alveg kominn með ógeð á að sjá svona fréttir af Alþingi og finnst að þetta fólk sem þar situr í umboði okkar, eigi að taka sig saman í andlitinu og fara að sinna þeim verkum sem það var kosið til.
Og hananú!
Bækur | Fimmtudagur, 30. september 2010 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eins og svo margir aðrir rak ég upp stór augu þegar í fréttum kom, að Jón Gnarr hafi svarað því til í viðtali við franska sjónvarpsstöð, að hann nýtti netið aðallega til að skoða klám. Ég reyndar hló mig síðan máttlausan, enda duldist að minnsta kosti ekki mér, að hann væri bara að grínast. Mér finnst reyndar mjög gott að það skuli vera loksins kominn stjórnmálamaður sem þorir að ástunda ekki pólitískan rétttrúnað. Sú skelfilega krafa samfélagsins um að stjórnmálamenn séu í einu og öllu pólitískt réttir, gerir það að verkum að þeir eru allir eins og framleiddir í verksmiðju, mótaðir í form og oftar en ekki er hægt að geta sér til um fyrirfram hverju þeir muni svara eða hvernig þeir bregðast við hverju sinni.
Einna verstir eru þó stjórnmálamennirnir sjálfir. Þeir hafa einna hæst ef einhver úr þeirra röðum brýtur gegn þessu viðmiði, eins og sást glögglega á viðbrögðum Sóleyjar, uppáhaldsstjórnmálakonunnar minnar, Tómasardóttur. Hún stökk upp á nef sér, heimtaði fund um málið í borgarráði og eyddi þar með peningum borgarbúa í að reyna siða borgarstjóra til, svo hann fari nú ekki með gamanmál í viðtölum, síst af öllu um klám. Með fullri virðingu fyrir jafnréttisbaráttunni (ég reyndar tel Sóleyju vera kvenréttindakonu, sem er ekki alveg það sama og að berjast fyrir jafnrétti) þá held ég að aðalvígi þeirrar baráttu sé ekki að siða Jón Gnarr til, langt því frá. Eflaust má færa rök fyrir því, að talsmátinn einn og sér geti verið niðrandi fyrir konur, sem og það sem felst í þeirri gjörð sem lýst var. Ég get tekið undir hvort tveggja.
Skoðum samt aðeins þessi viðbrögð Sóleyjar í ljósi nýliðinna atburða. Fyrir skemmstu var aðstoðarmaður menntamálaráðherra uppvís að því að tala um að eitthvað atriði væri tussufínt. Samkvæmt mínum skilningi á orðinu tussa, þá getur það annars vegar merkt sköp kvenmanns, þ.e. píka eða átt við um einstaklega leiðinlegan kvenmann. Ég gef mér að þarna sé orðið notað til áherslu og í þessu tilfelli hafi viðkomandi átt við að eitthvað væri mjög fínt, eins og píka. Mig grunar að téður aðstoðarmaður hafi ekki hugsað þetta til enda, en mér er spurn, hvers vegna Sóley rauk ekki upp í ráðuneyti með her blaðamanna, heimtaði fund með ráðherra og aðstoðarmanninum til að kenna viðkomandi hvernig beita skal tungumálinu á pólitískt réttan máta.
Nokkru síðar lenti Þórunn Sveinbjarnardóttir í býsna neyðarlegu atviki, þar sem hún bað fréttamann RÚV fyrir kveðju til frænda þess og voru skilaboðin afar skýr og myndræn. Ekkert sagði Sóley í það skipti, ekki tók hún á sig stökk upp í Alþingi, enn með blaðamenn gjammandi um að svona tal væri niðrandi fyrir karlmenn og í raun hvern þann sem um væri rætt. Ætli hún hefði hlaupið af stað ef þetta hefði verið karlmaður sem bæði fyrir svipaðri kveðju til frænku einhvers?
Sem sagt, í öllu þessu máli þá hef ég á tilfinningunni að Sóley Tómasardóttir sé enn og aftur að skapa storm í vatnsglasinu sínu. Kvenréttindabaráttan er hennar krossför en líkt og með aðrar krossfarir, þá held ég hún hafi blindast á leiðinni og að baráttan sé orðin málstaðnum mikilvægari. Henni virðist mér það hugleiknara að vera sífellt að berjast fyrir kvenréttindum, en að ná slíkum réttindum, breytingum og bótum fram.
Gallinn er bara sá, að ég tel að allt það moldviðri sem hún rótar upp í kringum sig hafi þveröfug áhrif á fólk. Ég fæ æ oftar að heyra konur tala um, að þeim líki illa sú stefna sem Sóley stendur fyrir, sem og Femínistafélag Íslands. Að þær séu hallar undir jafnrétti en ekki undir það sem þessir tveir aðilar prédika. Og þegar hópurinn sem þú ert að berjast fyrir hefur ekki áhuga, hvar stendur þú þá?
Bækur | Sunnudagur, 12. september 2010 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar