Þroski Þjóðkirkjunnar

Þegar dóttir mín fæddist ákváðum við foreldrar hennar að hún skildi alast upp við trúfrelsi. Ég er trúlaus og móðir hennar var á þeim tíma ekki mikið fyrir trú. Það kom vissulega mörgum spánskt fyrir sjónir innan fjölskyldunnar og var oft skotið á þetta atriði, að barnið skyldi vera óskírt, en við stóðum við ákvörðunina. Ef hún síðar meir vill skrá sig í trúfélag þá gerir hún það, en það verður þá ákvörðun sem hún tekur sjálf og vonandi verður sú ákvörðun upplýst og vel ígrunduð.

Ég lít á það sem mannréttindi hennar sem barns, að vera laus við hvers kyns trúboð og innleiðingu frá trúfélögum um það sem er rétt og rangt. Ég vil ekki að hún þurfi að sitja undir bænum, trúarlegum samsöng og öðrum tilbeiðsluaðferðum, sem eru að undirlagi talsmanna einhverra trúarbragða.

Þegar hún var á leikskóla í Breiðholti kom prestur úr Seljakirkju til að kenna börnunum að fara með bænir og syngja um Jesú. Ég kvartaði yfir þessu við bæði sóknarprestinn og leikskólastjóra, þar sem mér þótti óeðlilegt að í fyrsta lagi að jafnræðis væri ekki gætt (þ.e. að aðrir talsmenn trúarhópa fengu ekki sama aðgang að börnunum) og í öðru lagi að trúboð færi fram innan veggja leikskóla. Í fyrstu var mér andmælt, en þegar ég benti á, að hugsanlega þætti einhverjum foreldrum það óþægilegt ef hofgoði Ásatrúarfélagsins kæmi eða einhver prestur íslamska trúarfélagsins hérlendis, þá skildi leikskólastjórinn hvað ég ætti við. Ég er ekki viss um að Þjóðkirkjan væri sátt ef þessir aðilar fengu sama aðgang og prestar hennar hafa haft að leik- og grunnskólum. Um leið kæmi hún upp um raunverulegan tilgang heimsókna sinna. Var sá millivegur fundinn á málinu, að prestur fékk að koma í heimsókn en mátti í heimsóknum sínum ekki tala um Jesú eða kristna trú, heldur átti að spjalla við börnin um góð gildi og manngæsku.

Trúboð á ekki að fara fram innan veggja skóla. Skólar eru akademískar stofnanir og börn og foreldrar treysta á það. Við sem foreldrar viljum ala okkar börn upp eftir ákveðnum gildum og siðum, sem hvert fyrir sig og sitt barn ákveðum hver eiga að vera. Það getur verið mjög ólíkt á milli heimila hver þau gildi og hverjir þeir siðir eru og það er ekkert nema gott, því það eykur fjölbreytni mannlífsins. Prestar eiga ekkert erindi inn í skóla með slíka starfsemi, sama hvaða trúarbrögð þeir aðhyllast. Það fer fram kennsla í trúarbragðafræði á akademískum grundvelli en prestar eru óhæfir, starfs sín vegna, til að framkvæma þá kennslu. Að fá kristinn prest til að kenna trúarbragðafræði er eins og að fá þingmann Sjálfstæðisflokksins til að fjalla um flokkakerfið á Íslandi. Á slíkri umfjöllun verður alltaf ákveðin slagsíða og sú slagsíða er ekki akademísks eðlis.

Nýverið bókaði mannréttindaráð Reykjavíkurborgar að allt trúboð, trúarstarf hvers konar og tengsl við Þjóðkirkjuna í starfi skóla borgarinnar skyldi rofið. Þótt fyrr hefði verið, segi ég nú bara. Alltof lengi hefur Þjóðkirkjan í krafti stærðar sinnar haft aðgengi að skólum sem ekkert annað trúfélag hefur haft og notað óspart til að boða trú. Hversu sjúkt er það, að mæta í leikskóla, þar sem börn eru allt niður í 18 mánaða gömul, til að kenna þeim að vera kristin? Börn sem hafa enga gagnrýna hugsun? Margir gagnrýna það þegar stjórnmálaflokkar smala út af elliheimilum á kosningadögum og aka gömlu, elliæru fólki á kjörstað og hjálpa þeim að merkja á kjörseðilinn. Ég fæ ekki séð hvernig trúboð í leikskólum getur verið réttlætanlegt.

Auðvitað berst Þjóðkirkjan á hæl og hnakka og vill ekki gefa eftir þetta aðgengi sitt (sjá http://visir.is/tru,-bod-og-bonn/article/2010237111227). Þjóðkirkjan er á hraðri niðurleið. Krafan um aðskilnað ríkis og kirkju er hávær og ef skoðuð eru stefnumál margra þeirra sem bjóða sig fram til stjórnlagaþings sést að þetta mál er ofarlega á döfinni hjá mjög mörgum. Sífellt fleiri skrá sig úr Þjóðkirkjunni á hverju ári, enda hvert hneykslismálið rekið annað. Þetta bjákn er orðið úrelt en gerir sér ekki grein fyrir því sjálft. Þroski Þjóðkirkjunnar eru enginn í þessu máli, frekar en svo mörgum öðrum.

Í mínum huga er Þjóðkirkjan eins og gamalt, elliært gamalmenni. Tuðandi út í horni, rær sér fram og aftur ómeðvitað um það sem gerist í kringum sig, óhæft til að sjá um sig sjálft og getur með engu móti komið sér í takt við nútímann. Lifir í eigin heimi minninga og bíður þess að allt verði eins og þá. Nú þarf bara einhver að taka undir hendur þessa gamalmennis og leiða það út í dagsljósið. Hugsanlega opnar það augun og sér að tímarnir eru breyttir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég lenti í þessu með báða strákana mína; Fékk að vita að þeir hefðu verið í kirkju, að það hefði komið prestur, menn voru að gefa biblíur.
Ég var búinn að segja að þetta vildi ég ekki.

Erlendis eru menn að reka sig mikið á, því þar voru ókristin börn sett út á gang ámeðan kristnu börnin voru forrituð; Svo réðust litlu JesúBörnin á þá krakka sem voru ekki í heilaþvotti.

Það er glæpsamlegt athæft að leyfa prestum að lesa yfir börnum, það er verra en ef einhver banki kemur og aulgýsir sig og sína þjónustu.
Að prestar og trúboðar fái aðgengi að skólum, það er barnaníð

doctore (IP-tala skráð) 18.10.2010 kl. 09:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband