Með sannleikann að vopni

Eitthvert stórkostlegasta markaðssetningarbragð sem notað hefur verið, er notkun Biblíunnar á orðinu sannleikur. Kristnir menn hafa nefnilega geta beitt fyrir sig þeim rökum, að það sem þar stendur sé ekki bara sannleikur heldur sannleikurinn. Og þessi greinir gerir alveg ótrúlega margt. Hann útilokar aðra sannleika og felur í sér, að allir þeir sem mæla gegn þeim sem hafa sannleikann hljóti að fara með rangindi, lygar eða ósannindi.

Í allri orðræðunni um hvort banna eigi trúboð í skólum, hafa trúaðir svolítið beitt fyrir sig svipaðri aðferð, þ.e. látið sem þau rök sem þeir týni til séu sannleikurinn eini og sanni og önnur rök þurfi ekki til. Kirkjunnar menn tala í upphrópunum og með vægðarlausum hræðsluáróðri, sem eins og margur annar slíkur áróður á við fá, ef nokkur, rök að styðjast. 

Mig langar aðeins að skoða þessi helstu rök þeirra og mun ég þá helst fara í gegnum ræðu hr. Karls Sigurbjörnssonar, biskups Þjóðkirkjunnar. 

Trúfrelsi er skilgreint sem útilokun trúar frá hinu opinbera rými, uppeldi og kennslu. Sem mun þó einungis stuðla að fáfræði, fordómum og andlegri örbirgð.

Trúfrelsi er hluti af mannréttindum hvers og eins. Ísland hefur skrifað undir mannréttindasattmála Sameinuðu Þjóðanna og hvað svo sem hr. Karli kann að finnast um það skjal, þá eru það lögfest réttindi allra þegna landsins að búa við trú-, skoðana-, tjáninga-, prent- og fundafrelsi. Þessi réttindi okkar eru mikilvægur þáttur í vestrænu samfélagi og það er með ólíkindum, að sjá hvernig biskup úttalar sig um þessi mikilvægu réttindi. Hvernig hann hyggst færa rök fyrir því, að frelsi til að iðka þá trú sem hverjum og einum sýnist, komi til með að stuðla að fáfræði, fordómum og andlegri örbrigð. Er það trú biskups að þeir sem trúa ekki, eða er ekki boðuð trú í opinberum rýmum, uppeldi og kennslu, búi við andlega örbrigð? 

Er þetta kannski enn sú leið sem við, sem höfum minniháttar tök á sögu Íslands og Evrópu, höfum séð kirkjuna nota í gegnum tíðina? Að fara fram með upphrópunum, fordæmingum á því sem kirkjan fær ekki að ráða eða getur ekki haft áhrif á? Er hér ekki alið á ótta fólks? Ef kirkjan fái ekki haldið hátterni sínu áfram, muni samfélagið verða enn fátækara, meiri fordómar og enn meiri fáfræði? Ég verð að viðurkenna, mér þætti mjög gaman að sjá við hvaða mælistiku hr. Karl miðar því ég hef ekki séð neinar rannsóknir sem sýnt hafa fram á, að samfélag þar sem ekki er stundað trúboð í skólum hafi hrunið að innan frá. 

Mannréttindaráð vill í nafni mannréttinda banna það að Gídeonfélagið megi afhenda grunnskólabörnum Nýja testamentið að gjöf. Á vettvangi skólans skal börnunum meinað að kynnast því riti sem er lykillinn að skilningi á listum og bókmenntum heimsins, kristinni trú og sið Íslendinga. 

Ég get tekið undir að Nýja Testamentið er lykill að skilningi á kristinni trú. Hins vegar finnst mér hr. Karl sýna fádæma fávisku er hann segir, að sú sama bók sér lykill að skilningi á listum og bókmenntum heimsins. Mig langar til að benda honum á, að bækur voru skrifaðar löngu áður en Biblían varð til, t.a.m. hafa forngrískar bókmenntir haft að mínu viti mun heilmikil áhrif á bókmenntasöguna og urðu þær til algjörlega án nokkurra áhrifa frá höfundum Biblíunnar. Auk þess er sá skilningur sem hr. Karl leggur í orðið bókmenntir afar þröngur, því bókmenntir eru svo miklu meira en bara það sem skrifað hefur verið. Við eigum t.d. alveg stórkostleg Eddukvæði; Hávamál, Völuspá o.s.frv.; sem urðu til flest án þess að kristni kæmi þar nokkurs staðar nærri (þó svo við getum þakkað kaþólskum munkum fyrir að hafa tryggt að þau hafi lifað í menningu okkar til dagsins í dag). 

Hvað viðkemur sið Íslendinga, þá þætti mér gaman að sjá skilgreiningu á þeim sið. Nú eru Íslendingar almennt séð ekki trúræknir, sé tekið mið af kirkjusókn dagsins í dag. Hvað varðar sið Íslendinga í sögulegu ljósi, þá hafa ríkt þrír siðir á Íslandi; heiðni, kaþólska og lúthersk-evanglískur siður. Á hvern þeirra varpar Nýja Testamenti Gideonsfélagsins ljós? Ekki ásatrú. Ég er auk þess nokkuð viss um, að kaþólikar leggi ekki sama skilning í þá bók og þeir lúthersk-evanglísku, þó líkindi séu mörg.

Er það ekki siður margra Íslendinga, að trúa þegar það hentar þeim? Sem eru einmitt þeir sem Kristur gagnrýndi hvað harðast, þeir sem voru hvorki heitir né kaldir. Og sættir Þjóðkirkjan sig við það? Væri ekki nær, að Þjóðkirkjan læsi sjálf Nýja Testamentið og reyndi að fá meðlimi sína til að gera slíkt hið sama og breyta eftir þeim kenningum sem þar koma fram. Mig grunar, að ef það væri Þjóðkirkjunni hjartans mál að láta lesa þennan lykil að listum og bókmenntum heimsins, að mati hr. Karls, að töluvert fleiri myndu segja sig úr Þjóðkirkjunni og ég held, að kirkjunnar menn viti það. Kvenfyrirlitningin, hrokinn og mannvonskan sem þar má finna finnst mér oft skyggja á annars ágæt skilaboð Krists.

Það hefur verið gott að sjá að fjölmargir foreldrar og skólmenn hafa andmælt þessum hugmyndum. Guði sé lof fyrir það fólk sem heldur vöku sinni. Það er vegið að rótum trúar, siðar og hefðar. Við þurfum síst á því að halda á háskatímum. 

Hér þykir hr. Karli skyndilega vænt um mannréttindi á ný. Ef þessir fjölmörgu foreldrar og skólamenn hefðu ekki rétt til að tjá sig, þá væri enginn farvegur fyrir þá að koma skoðunum sínum á framfæri. Það verður ekki bæði sleppt og haldið í þessum efnum. Annað hvort virðum við mannréttindi eða ekki. Trúfrelsi er jafn mikilvægt og tjáningarfrelsi.

Að tala um, að bann við trúboði í skólum, vegi að rótum trúar, siðar og hefðar er enn gott dæmi um gífuryrði. Hr. Karl virðist leggja að jöfnu, að trúboð í skólum sé grundvöllur trúar á Íslandi. Ef svo er, þá skil ég vel hann rjúki upp á nef sér í stresskasti og pirringi. Hins vegar er erfitt að halda slíku fram. Kirkjan ætti að vita það vel, að grundvöllur trúarinnar býr innra með hverjum og einum. Kristur virtist gera sér grein fyrir því, hann lagði mikla áherslu á að hver og einn ræktaði sína trú, að hver líkami væri musteri Guðs.

Ég hefði einmitt haldið, að áhugaleysi almennings um kristna trú og trúarlíf (sem kristallast í dræmri kirkjusókn og síauknum úrsögnum úr Þjóðkirkjunni) væri Þjóðkirkjunni mun meira áhyggjuefni. Að laga ímynd sína eftir hneykslismál undanfarinnar missera. Þetta er kannski leið þeirra til að beina athyglinni frá þeim og því getuleysi sem kirkjan virðist búa við til að taka á öllum þessum málum. Það held ég að vegi mun harðar að rótum trúar, siðar og hefðar. Ég held, að miklu fleiri hafi sagt sig úr Þjóðkirkjunni vegna þess hvernig hún hefur tekið á kynferðismálum, heldur en vegna trúboðs hennar í leik- og grunnskólum. Enn sýnist mér hr. Karl fara með hræðsluáróður sem er í engum tengslum við raunveruleikann. 

Meirihluti landsmanna er kristinn og því er eðlilegt að kristin trú sé boðuð í skólum. Virða á lýðræðið.

Hvað er eðlilegt við það? Ef meirihluti landsmanna er fylgjandi því að kynferðisbrotamenn séu húðflettir á Lækjartorgi er það þá eðlileg framkoma yfirvalda gagnvart brotamönnum? Jafn mikið og það kann að fara í taugarnar á kristnum mönnum, þá er ekki hægt að taka þessa umræðu í þessa átt og það fyrir nokkrar sakir. 

Í fyrsta lagi, þá snúast mannréttindi einmitt um, að meirihluti fái ekki tækifæri til að kúga minnihluta. Í kristnisögu er það einmitt kennt, að á fyrstu öldum kristninnar voru kristnir menn ofsóttir, kúgaðir, misþyrmt og drepnir, allt fyrir sakir trúar sinnar. Nú stöndum við frammi fyrir svipuðum hlut hérlendis, hópur trúlausra og þeirra sem iðka önnur trúarbrögð en kristni fer sífellt fjölgandi en nú sýnist mér á þessum rökum, að kristnum finnst eðlilegt að kúga þennan minnihlutahóp. Voru þá ofsóknir þær sem fjallað er um í m.a. Nýja Testamentinu, eðlilegar og réttlætanlegar? Fordæma ekki allir kristnir menn þær? Er samt í lagi að meirihluti kúgi minnihluta í dag? Ég skil ekki alveg hvernig kirkjan og kristnir ætla að halda þessu til streitu án þess að verða sjálfum sér til skammar.

Lýðræði á aldrei við þegar mannréttindi eiga í hlut. Það á ekki að vera hægt að kjósa í burtu tjáningarfrelsi, skoðanafrelsi eða hver þau önnur mannréttindi sem í umræðu eru hverju sinni. Við höfum mýmörg dæmi um það á nýliðinni öld hvernig farið getur þegar svo er gert. Skemmst er að minnast Þýskalands úr seinna stríði, Sovétríkjanna og svo mætti áfram lengi telja. Það er kannski það sem Þjóðkirkjan og kristnir ríkisborgarar þessa lands stefna að. Maður spyr sig.

Ísland hefur verið kristið í 1000 ár og eru kristin gildi grundvöllur samfélags okkar. 

Nei, á Íslandi hefur ekki ríkt einn og sami siður í 1000 ár. Það er misskilningur. Hér ríkti kaþólskur siður í 550 ár en síðan þá (í 460 ár) hefur ríkt lúthersk-evanglískur siður. Þegar Lúther setti fram siðaboðskap sinn var hann ekki kaþólsku kirkjunni að skapi og samkvæmt söguskilningi mínum, þá var kaþólska kirkjan ekki á því að kalla þann boðskap kristinn, þó svo kirkjunni hafi ef til vill snúist hugur í dag. Þannig, þessi fullyrðing um að Ísland hafi verið kristið í 1000 ár er að mínu viti frekar á gráu svæði en hitt, að hún sé sönn og hvað þá sannleikurinn. 

Hvort kristin gildi séu grundvöllur samfélags okkar, þá held ég að mörg þeirra gilda sem kristnir menn hafi eignað sér eigi sér mun eldri rætur, t.d. frá Grikklandi og Indlandi. Það er nefnilega svo, að Jesús Kristur fann ekki upp kærleikann, samúðina eða sannleikann. Sem sagt, áður en hann kom til sögunnar þá voru þessi gildi til. Jafnvel samfélög sem ekki höfðu orðið fyrir áhrifum kristni hafa sýnt af sér mikinn kærleik og samhjálp, t.a.m. voru heiðnir menn með fyrirkomulag sem tryggði þeim sem ekki gátu alið önn fyrir sjálfum sér ákveðna héraðshjálp og hefur lifað með íslensku þjóðinni allt fram til dagsins í dag. Hreppahjálpin er nefnilega mjög gamalt fyrirbæri í íslensku samfélagi. Ég hvet fólk til að kynna sér sögu hennar.

Auk þess langar mig til að benda á, að þau gildi sem svo oft er vísað til, þessi góðu grundvallar ,,kristnu" gildi, birtast að mér finnst alls ekki í þeirri hörðu afstöðu sem kristnir hafa tekið gegn þessum tillögum mannréttindaráðs. Það er lítið sem minnir á kærleika til náungans, samúð með þeim sem minni eru og virðingu. Trúlausir, eins og ég sjálfur, hafa fæstir áhuga á því að eyða kristni eða öðrum trúarbrögðum úr samfélaginu. Þvert á móti vil ég hafa sem flest trúarbrögð hérna á Íslandi. Mér finnst í fínu lagi þó fólk fari í kirkju og sunnudagaskóla, að það lesi Biblíuna og iðki sína trú í friði. Ég virði þetta fólk og þær ákvarðanir sem það tekur með trú sína í huga. Hins vegar þætti mér vænt um, að þetta sama fólk sýndi mér þá virðingu að vera ekki að boða trú í skólanum sem barnið mitt sækir. Ég vil ala upp mitt barn eftir mínum gildum, sem eru kannski ekki þau hin sömu og þeir kristnu og í skólanum má ekki myndast við-og-hinir stemning. Það er sá punktur sem flestir foreldrar óttast, hvort sem þeir eru kristnir eða ekki, hvort sem þeir tilheyra einhverjum minnihlutahópi eða ekki. Það vilja allir foreldrar að barnið sitt tilheyri hópnum í skólanum og það á ekki að setja skólann í þá stöðu, að kennarar og starfsfólk hans þurfi að aðgreina nemendur með svo skýrum hætti. Að setja barn út úr stofu á meðan trúboð fer fram, er ekkert annað en aðgreining. Og skólinn á að vera án aðgreiningar! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband