Færsluflokkur: Bækur
Úr því svo er, hvernig væri að mæta á Jólaball Ölgerðarinnar, kaupa Hvítöl og styðja með því Hjálparstarf kirkjunnar? Á laugardaginn kemur kl. 16 á Ingólfstorgi, allir að mæta.
Þjóðin lúrir á milljörðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Fimmtudagur, 11. desember 2008 (breytt kl. 12:15) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eitt af því sem mér finnst við Íslendingar ekki nógu duglegir að gera, þá er það að veita hverjir öðrum viðurkenningar. Hvort sem það er í formi klapps á bakið, viðurkenningarskjals, stimpils frá forseta Íslands eða milljón krónum, þá stundum við þetta afar lítið.
Bókaútgáfur keppast við að eigna höfundum aðalstitla, Arnaldur er kóngur, Yrsa drottning, Jón Hallur krónprins og Ævar Örn segist vera hirðfíflið. Vissulega ákveðin viðurkenning, en samt lít ég meira á þessa æfingar útgáfnanna sem hluta af markaðssetningu. Ég meina, ef allt gengur að óskum og bókin mín kemur út í vor, þá vona ég að ég verði titlaður Stórvesír hinnar dramatísku gotnesku hrollvekju. Langur og flottur titill sem enginn á nokkurn tíma eftir að nenna að bera fram eða skrifa. Hugsanlega gæti ég líka verið hundraðshöfðingi hundleiðinlegra vælusagna, en það myndi líklega ekki teljast sem viðurkenning á nokkurn hátt eða góð markaðssetning.
Íslensku bókmenntaverðlaunin eru því ágæt að ýmsu leyti. Þau vekja athygli á ákveðnum bókum, útgefendur geta límt miða á þær og auglýst þær með það til hliðsjónar, að bókin hafi hlotið tilnefningu. Mér finnst þessi verðlaun alveg frábær þó svo ég sé náttúrulega ekki alltaf sammála útnefningunum, en hver er það svo sem?
Mér finnst, að verðlaunin mættu vera fleiri. Jú, bóksalar velja sína uppáhaldsbók. Ég vil hins vegar sjá fleiri verðlaun. Hvers vegna er ekki valinn besta fyrsta bók höfundar á hverju ári? Hvers vegna ekki besta smásagnasafnið eða ljóðabókin? Þegar titlarnir eru orðnir svona margir, eins og raun ber vitni, þá hlýtur það að kalla á fleiri verðlaun.
Verðlaun eru ekki bara hvetjandi fyrir þann sem hlýtur þau, heldur líka frábært markaðstæki, eins og áður var komið inn á. Þetta þurfa ekki að vera peningaverðlaun í hvert sinn, þó þau séu vissulega vel þegin, heldur fyrst og fremst viðurkenning á því starfi sem höfundur hefur unnið.
Þess vegna skil ég ekki vælið í þeim sem eru að kvarta og kvabba yfir Íslensku bókmenntaverðlaununum. Er ekki betra að hafa þessi verðlaun heldur en ekki? Ég vil einmitt hafa Íslensku bókmenntaverðlaunin og vonast meira að segja einhvern tíma að taka við þeim, sem og fjölda annarra viðurkenninga á þeim ritstörfum sem ég hef lagt á mig.
...spurning hvort ég fari bara ekki að skrifa þakkarræðuna :P
Bækur | Fimmtudagur, 4. desember 2008 (breytt kl. 15:30) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nei, ég held að nær væri að láta þetta gott heita, að minnsta kosti fram yfir jól. Það verða líklega ekki neinar stórkostlegar breytingar fram yfir áramót. Stjórnmálamenn munu ekki allt í einu taka upp á því að axla ábyrgð, líkurnar á því að raunhæfar úrbætur komi fram fyrir okkur almenning eru afar litlar og þess vegna er bara betra að slappa aðeins af, kveikja á góðu þungarokki og tralla með í jólaumferðinni.
Ég get nú kannski byrjað á því að koma með eina góða frétt. Ég sá dollara í gær. Fékk hann meira að segja gefins. Er að hugsa um að selja hann þegar dollarinn fer yfir þúsund krónurnar. Já, það er kannski full mikil bjartsýni en það má alltaf vona. Við Íslendingar vonum alltaf og vonum, stundum gengur það eftir, t.d. fengum við silfur á ÓL eftir að hafa vonað í mörg ár. Íslenska landsliðið í fótbolta komst loks í lokakeppni, eins og við erum búin að vona í mörg ár. Reyndar voru það stelpurnar, en það kemur ekki að sök. Ég fór á leikinn gegn Írum hérna í frosti og kulda ásamt dóttur minni og við skemmtum okkur konunglega. Skiptir bara engu andskotans máli hvort það voru stelpurnar okkar eða strákarnir okkar.
Bækur | Miðvikudagur, 3. desember 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Eitt af því sem slær mig svolítið í þessari ræðu Davíðs, er hvernig hann lítur á eigin ábyrgð. Hann virðist ekki sjá neitt rangt við þau störf sem hann hefur unnið á undanförnum misserum, þrátt fyrir mikla gagnrýni af hálfu fræðimanna, sem eru mun menntaðri í hagstjórnarfræðum en hann mun geta kallast. Eflaust er sú gagnrýni undan rifjum Jóns Ásgeirs runnin, enda á maður svo marga milljarða að hann hlýtur að geta greitt öllum snillingunum, prófessorunum og blaðamönnunum til að fara hörðum orðum um Davíð. Ég meina, JÁ hlýtur að hafa fengið Der Spiegel til að gera grín að Davíð og stjórn hans á Seðlabankanum.
Það er frábært að hann skuli vilja fá erlenda aðila til að skoða störf sín, ekkert nema gott um það að segja. Hann gerir sér vonandi grein fyrir að það muni taka nokkra mánuði, jafnvel nokkur ár og á meðan getur hann ekki setið í starfi. Það er kannski bara það sem hann vill, fá að sitja heima á feitum launum og fá síðan í ofanálag eftirlaunin úr frumvarpinu sem hann skóp handa sjálfum sér.
Skoðum aðeins embættisglöp Davíðs.
1. Hver var forsætisráðherra þegar bankarnir voru einkavæddir og stóð fyrir þeirri stefnu í hagstjórnarmálum sem hefur verið ríkjandi undanfarin ár? Jú, vissulega er ekki hægt að neita því að hér hefur verið mikið góðæri, en sé grannt skoðað þá kemur í ljós að það var á sandi byggt, eins og hús heimska mannsins, og reyndu bankar og ýmsir fræðimenn í útlöndum að benda okkur á þetta. Við hlógum að slíkri gagnrýni, sbr. viðbrögð Sigurjóns Árnasonar við gagnrýni Hollendinga á Icesave.
2. Hver bar ábyrgð á því að byggja upp gjaldeyrisvarasjóð, vegna útgáfu jöklabréfa og um leið, yfirvofandi sölu þeirra og streymi gjaldeyris úr landinu?
3. Hver bar ábyrgð, ásamt fjármálaráðherra, að nýta lagaheimild Alþingis til gjaldeyriskaupa síðasta vor?
4. Hver bar ábyrgð á yfirtöku Glitnis, sem lokaði á allar lánalínur til íslensku bankanna?
5. Hver bar ábyrgð á því að garga um víðan völl: Við borgum ekki, við borgum ekki! sem á eflaust, sama hvað Davíð gefur í skyn, sinn þátt í viðbrögðum Breta, hvort sem þau voru réttlætanleg eða ekki?
6. Hver bar ábyrgð á því að tilkynna að Rússar hefði lánað okkur fé þegar svo var ekki um að ræða?
7. Hver bar ábyrgð á hávaxtastefnu Seðlabanka Íslands, sem hefur augljóslega ekki skilað tilætluðum árangri?
8. Hver bar ábyrgð á fylgjast með bindisskyldu bankanna?
9. Hver bar ábyrgð á gengi íslensku krónunnar og þeim tilraunum sem gerðar hafa verið með hana undanfarnar vikur, nær allar árangurslausar?
10. Hver bar ábyrgð á að gefa Seðlabanka Bandaríkjanna nægar upplýsingar til að tryggja lánalínu þaðan?
Ég held, þegar farið er yfir þessar spurningar, þá er hægt að finna ýmislegt sem má rekja til stjórnar Seðlabanka Íslands, þó vissulega megi finna ýmsar aðrar skýringar á þeim málum sem um ræðir hverju sinni. Ég held hins vegar, að Davíð sé búinn að mála sig, og þar með okkur Íslendinga líka, út í horn á alþjóðlegum vettvangi og í raun er hann hafður að athlægi. Ég tel, að eigum við Íslendingar að geta rétt við og bætt almenningsálit þar ytra á Íslendingum þurfum við að losa okkur við þá sem eiga hlut í hruninu og þar er Davíð Oddsson nokkuð ofarlega á mínum lista.
Fjölmiðlar í heljargreipum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Þriðjudagur, 18. nóvember 2008 (breytt kl. 11:09) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég hef svolítið verið að fylgjast með þessum mótmælum sem hafa verið vikulega hérna í borginni. Mér finnst gott og blessað að fólk skuli nýta með þessu mannréttindi sín, tjáningar- og fundafrelsi, sem og stundi örlitla borgaralega óhlýðni. Mér finnst gott til þess að hugsa að það skuli vera til manneskjur hérlendis sem eru til í að eyða tíma sínum í að tjá skoðanir sínar með þessum hætti.
Eitt finnst mér þó alltaf svolítið undarlegt við þennan hóp. Ef sest er niður með Íslandssögu og þá helst sögu 20. aldar þá þarf að leita aftur til þriðja áratugsins til að finna mótmæli sem yfirvöld hafa tekið mark á, en það var Gúttóslagurinn. Þar mótmæltu verkamenn launakjörum þeim sem borgaryfirvöld höfðu ákveðið, mig minnir endilega að þau hafi verið lækkuð, og sló í brýnu þar á milli verkamanna og lögreglu. Reyndar var það svo að lögreglan var lúbarin af lýðnum og nokkrum dögum síðar ákváðu borgaryfirvöld að draga tilbaka þessa ákvörðun sína.
Skoðun síðan nokkur mótmæli 20. og 21. aldar.
Innganga Íslendinga í Nató var alltaf umdeild, t.d. mótmæltu ákaflega margir undirskriftinni á sínum tíma og þurfti lögreglan að beita táragasi. Á áratugunum sem fylgdu voru fjölmargar Keflavíkurgöngur en herinn sat sem fastast allt þar til það þóknaðist ekki lengur hinum bandarísku herrum að geyma tvær hundgamlar og einskinsnýtar herþotur upp á heiði. Við grétum reyndar sáran yfir því þeir skildu fara. Hlustuðu stjórnvöld þá?
Kárahnjúkamótmæli Ómar Ragnarssonar voru rosalega. Mörg þúsund manns í göngu niður Laugarveginn, allir á móti virkjun Kárahnjúka en allt kom fyrir ekki. Hið sama má segja um tilraunir Saving Iceland. Hafa stjórnvöld hlustað?
Vörubílstjóramótmælin...allt í lagi, þau voru kannski ekki þaulúthugsuð en mótmæli engu að síður. Var hlustað?
Núna eru mótmæli gegn framkvæmdavaldinu vegna bankahrunsins. Haldið þið að stjórnvöld hlusti nú?
Ég man ekki eftir einu skipti þar sem undirskriftalistar, útifundir, setu- eða hungurverkföll hafi náð eyrum stjórnmálamanna. Hér á landi virkar lýðræði bara einu sinni á fjögurra ára fresti. Stjórnmálamenn hafa sýnt það, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, að þeim er slétt sama um hvað okkur finnst. Þeir sitja sama hvað á dynur, eflaust af því þeir telja og trúa því að þeim sé þetta vald af Guði gefið og þeir séu útvaldir til að leiða þjóðina.
Ef við skoðum síðan öll þau mál sem hafa komið upp á síðastliðnum 17 árum, þar sem ekki er hægt að sjá annað en vinapólitík og einkavinavæðing hefur verið uppi á teningnum og hversu oft stjórnmálamenn hafa tekið ábyrgð á þeim aðgerðum, þá blasir afar dapurlegur sannleikur við okkur. Ráðning Jóns Steinars sem hæstaréttarlögmanns, ráðning Þorsteins Davíðssonar og sala Landsbankans eru bara örfá dæmi um nokkuð sem ég efast um að stjórnmálamenn í öðrum löndum hefðu getað haldið í stóla sína sem ráðherrar. Fyrir nokkrum mánuðum þurfti ráðherra í Svíþjóð að segja af sér vegna þess að barnfóstran hafði unnið svart hjá ráðherranum. Sagði Árni Matt af sér vegna búsetumálsins?
Nei, ég fæ ekki séð að stjórnmálamenn á Íslandi taki nokkuð mark á okkur, fólkinu. Hvorki þegar við söfnust saman og mótmælum né þegar við tjáum skoðanir okkar á opinberum vettvangi. Þeim er sama...nema einn dag á fjögurra ára fresti. Þá eru þeir allt í einu okkar besti vinir. Ég legg til að við temjum okkur minni fíla, ekki gullfiska, og refsum þeim grimmilega í næstu kosningum.
Bækur | Mánudagur, 10. nóvember 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Núna þegar eftirlitsstofnanir eru komnar á fullt við að rannsaka þrotabú gömlu bankanna, þá er ýmislegt að koma upp á yfirborðið sem má kalla skít. Það er ljóst að töluvert af drasli og viðbjóð hefur verið sópað undir teppið síðustu dagana fyrir hrun, sbr. fréttir af afskriftum lána og millifærslum upp á milljarða á óþekkta reikninga í löndum þar sem erfitt er að komast að því hver á þá reikninga.
Í allri þeirri umfjöllun er alltaf sagt að Fjármálaeftirlitið sé að rannsaka málið sem og skilanefndir. Auk þess er komin óháð rannsóknarnefnd að rýna í þessar afskriftir. Þetta er allt gott og blessað, þótt fyrr hefði verið segi ég nú bara. Ég hefði haldið að það væri nú bara hlutverk Fjármálaeftirlitsins að fylgjast með þessum málum og upplýsa rétta aðila (og almenning, vona ég) þegar eitthvað misjafnt á sér stað.
Ég verð samt að viðurkenna að mér þykir nokkuð undarlegt að láta stofnun sem ég fæ ekki betur séð en hafi ekki sinnt hlutverki sínu og í raun staðið sig nokkuð illa, rannsaka hrunið og í raun rannsaka um leið sjálfa sig og hvernig hún hefur staðið sig á undanförnum árum. Ef í ljós kemur að ekki var allt með felldu innan bankanna á síðustu árum, þá hlýtur FME að hafa átt að hafa eftirlit með því og koma upp um það.
Ef stofnunin upplýsir um stórfellt misferli er hún þá ekki um leið að fella dóm um eigin hæfi og störf á sama tíma?
Því sit ég uppi með þá spurningu, hver hefur eftirlit með eftirlitsstofnunum? Hver fylgist með því að FME sópi ekki líka undir teppið einhverju misjöfnu í starfi bankanna, sem er áfellisdómur á starf stofnunarinnar?
Ég held, að þörfin á því að fá erlenda rannsóknaraðila sé ansi sterk en um leið er það erfitt, því viðkomandi hafa ekki sömu þekkingu og FME á íslensku fjármálalífi. Þetta er með sönnu ákveðin dilema sem við stöndum í.
Er kannski bara spurning um að fá þingið til að rannsaka þetta? Er það einhverju skárra?
Ég veit það ekki. Ég held, að það verði margt í þessu sem muni ekki koma upp á yfirborðið og þurfum við, almenningur, að vera vel á verði.
Bækur | Fimmtudagur, 6. nóvember 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Á miðöldum voru þeir sem höfðu örlítið meira vit í kollinum og einhverja efnafræðikunnáttu oft kallaðir alkemistar eða gullgerðarmenn. Goðsagan segir að æðsta takmark þeirra var að búa til gull úr öðrum verðlausum eða verðminni efnum. Það var oftar en ekki ákveðin mystík sem var yfir þessum mönnum, þeir álitnir jafnvel galdramenn og þaðan af verra.
Þegar ég hugsa til þessara goðsagna af þessum mönnum, því þetta voru menn en ekki konur (þær voru einfaldlega bara nornir), þá get ég ekki annað en sett þetta í samhengi við Ísland. Ég veit ekki til þess að hér hafi verið gullgerðarmenn á miðöldum, í mesta lagi voru þeir sem kunnu einhverja rúnagaldra og slík þekking var þó ekki á hverju strái.
Fyrir utan hina augljósu tengingu, þ.e. að hér myndaðist stétt fólks, sem samanstóð að mestu af karlmönnum, sem bjó til gull eða pening úr engu og ákveðin mystík var yfir þessum hópi, þá er svolítið merkilegt að hugsa til þess að þetta er nokkuð sem var á miðöldum í Evrópu en á 21. öldinni hér.
Þegar ég held áfram að hugsa um þessa samlíkingu, þá sé ég að það er þó ekki allt sem stenst í henni. Sú þekking sem gullgerðarmennirnir komust yfir varð síðar meir að grunni fyrir efnafræði og mætti kalla þá fyrstu efnafræðingana. Þeir gerðu svo miklu meira en að rembast eins og rjúpan við staurinn að búa til gull, eins og þeir íslensku. Ástarlyf hvers konar, lækningar, eitur og eiturlyf eru bara örfá dæmi um það sem alkemistarnir dúlluðu sér við.
Ef grannt er skoðað kemst maður að raun um, að okkar auðmannastétt var kannski ekki svo lík gullgerðarmönnum. Í raun, sé mið tekið af viðskiptaháttum þeirra á milli sín (Pálmi og FL group með Sterling, afskriftir skulda stjórnenda Kaupþings), þá er líklegra að maður lítil til sjónhverfingamanna en alkemista. Hvað voru þessi viðskipti annað en sjónhverfingar? Reykur og ljós?
Er hægt að búa til eitthvað úr engu, án sjónhverfinga?
Bækur | Þriðjudagur, 4. nóvember 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þegar maður stendur frammi fyrir álíka viðburðum og umhleypingum og nú, þá vakna margar spurningar í kollinum á mér. Bankarnir hafa allir hlotið ný heiti, heita ný nýi þetta og nýi hitt, stjórnmálamenn tala um hið nýja Ísland. Nú sé tími tækifæra og framtíðin sé björt.
Ég spyr þó, hvað er það sem við ætlum að læra af þessu?
Ætlum við að hætta í einkavinavæðingunni? Geir Haarde virðist ekki á því máli, skipaði eiginkonu sína til forsætis í nefnd um Listahátíð. Davíð situr enn sem fastast og virðist ekkert á því að stíga af stóli.
Er tími ofurlauna liðinn? Tja, laun bankastjóra og forstjóra spítalanna eru langt umfram launum ráðherra, en ég teldi eðlilegt að ráðherrar væru hæst launuðu ríkisstarfsmennirnir.
Erum við laus við baktjaldamakk? Nei, það lítur ekki út fyrir það. Ef allt væri með felldu, þá væru stórkarlar á borð við stjórnendur og millistjórnendur í bönkunum langflestir farnir á hausinn. Hvað varð um skuldir þeirra?
Ég held þó, þegar upp verður staðið, þá munum við ekki líta aftur og skoða endilega þessi atriði. Mig grunar að þau verði gerð upp, fyrr eða síðar. Hins vegar eru það gildin sem hafa ríkt undanfarin ár sem ég tel að við þurfum að skoða kannski með hvað mestri gagnrýni, þ.e. þau gildi sem við höfum sjálf tekið þátt í að móta og fylgt.
Sú brjálæðislega efnishyggja sem við, kannski ekki öll, en flest, höfum sýnt er ekki til hins betra, að mínu mati. Er virkilega mikilvægara að eiga flatskjá, til að eyða kvöldinu fyrir framan, en að eiga heilbrigt og hamingjusamt barn? Eða 5 milljón króna jeppa? Er kapphlaupið um gæðin svo mikilvægt að við gleymdum okkur í því?
Ég viðurkenni fúslega að hafa tekið þátt í því. Ég keypti bíl á lánum, á flatskjá (reyndar ekki stóran, en flatskjá engu að síður), tölvur, fór utan og naut góðærisins til hins ítrasta. Eflaust meir en sumir en minna en aðrir. Ég á líka dóttur og var ekkert að spara í við hana. Hún er hjá mér aðra hverja viku og ég held, að sumpart hafi ég gleymt mér í því að eiga pening og geta keypt handa henni það sem hana langaði í, að vissu leyti svo ég væri ekki með samviskubit yfir því að leika mér í dótinu mínu. Var svo kannski um fleiri?
Hvað með virðingu? Ég held stundum, að við Íslendingar þekkjum ekki merkingu þessa orðs. Nærtækasta dæmið er einföld búðarferð í Bónus. Löng röð á kassa 1 og því er kassi 2 opnaður. Þá er kapphlaup þeirra er standa í röðinni að kassa 1 yfir á kassa 2, í stað þess að bera virðingu fyrir því að sá sem er búinn að standa lengst í röðinni sé fyrstur á kassa 2. Nei, við skulum flýta okkur og reyna komast fram fyrir í röðinni.
Unglingar bera ekki virðingu fyrir fullorðnum, kæra jafnvel kennara sína ef þeir skamma þá. Fólk ber almennt ekki virðingu fyrir hvort öðru, nema að mjög takmörkuðu leyti. Svo lengi sem það gagnast þeim, t.d. fólk ber virðingu fyrir yfirmönnum sínum, en ekki fyrir lögreglunni. Þetta er svolítið brenglað. Er það eitthvað sem við viljum hafa áfram? Er hið nýja Ísland land virðingarleysis?
Ábyrgð er annað hugtak sem ég held að merking hvers hefur glatast. Stjórnmálamenn bera ekki ábyrgð. Yfirmenn í bönkum bera ekki ábyrgð. Samt eru þessi menn í ábyrgðastöðum og fá greitt samkvæmt því. Meira að segja auðmenn og útrásarvíkingarnar bera ekki ábyrgð á ástandinu, heldur er það neysluhyggju almennings að kenna, skv. Björgólfi eldri.
Er þá mér að kenna að Icesave ruglið fór í gang? Af því ég vildi keyra bíl, horfa á sjónvarp og komast á internetið? Eins og venjulegt fólk í útlöndum gerir líka? Er það kannski líka mér að kenna, að bankamenn tóku lán fyrir hlutbréfkaupum, létu bankana borga fyrir sig í veiði og undir sig 10 milljón króna jeppa? Er það mér að kenna að útrásarvíkingarnir seldu og keyptu hver af öðrum, í þeim tilgangi einum að hækka verðgildi eigna sinna? Ber ég ábyrgð Davíð, Birni, Árna Matt og Árna Johnsen?
Tja, ég skal fúslega viðurkenna að ég get tekið ábyrgð á því síðasta, því ég kaus Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum. Ef það er eitthvað eitt sem ég mun taka með mér til hins nýja Íslands, þá er að læra af þeim mistökum.
Bækur | Mánudagur, 3. nóvember 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Aldrei þessu vant ætla ég ekki að segja sögu eða fjalla um hrollvekjur, þ.e. bókmenntalegar hrollvekjur. Í þetta skipti ætla ég að blogga um eitthvað mun alvarlegra og hryllilegra en nokkur skáldskapur nær yfir.
Það þarf víst ekki að fjölyrða um það ástand sem er núna á Íslandi og hvaða áhrif það hefur. Atvinnuleysi, verðbólga og verðhrun á fasteignum er nokkuð sem maður er orðinn gott sem ónæmur fyrir í fréttaflutningi fjölmiðla. Ég held að nær flestir þekki þetta og enginn á landinu muni komast ósnortinn frá þessu ástandi.
Auðvitað kemur þetta mismunandi niður á okkur. Sjálfur hef ég þurft að horfa á húsnæðis- og bílalánin hækka, líkt og nær allir í kringum mig. Það er nú þyngra en tárum taki að horfa á þá litlu eign sem maður var búinn að koma sér upp hverfa og verða að engu, en á meðan enginn deyr og allir í kringum mann fá að borða og halda vinnu, þá getur maður víst ekki kvartað.
Og þó...
Það er eitt sem ég vil kvarta yfir og mér finnst afar lélégt af stjórnvöldum, ef satt reynist. Nú var ég að heyra og lesa á nokkrum stöðum á netinu, að bankarnir væru að afskrifa þau lán sem starfsmenn og stjórnendur fengu til kaupa á hlutabréfum. Ástæðan ku vera sú, að ef þessi starfsmenn verða gjaldþrota þá mega þeir ekki starfa innan bankageirans.
Sjá: http://eyjan.is/silfuregils/2008/10/30/nokkur-lesendabref-i-vidbot/
Ég spyr: Er eðlilegt að afskrifa lán þessarar stéttar? Er eðlilegt að þeirra lán séu metin hærra en þau lán sem við hin, sem tilheyrum ekki þessari stétt, tókum til kaupa á húsnæði og bílum?
Mér finnst ansi hart, að vita til þess að bankinn ætlar að ganga hart eftir því ég greiði á mínum gjalddögum, lækka jafnvel yfirdráttarheimild mína að mér óspurðum, heimta veð og ég veit ekki hvað og hvað, þegar starfsmenn bankans þurfa ekki að sæta sömu meðferð.
Hvers vegna eru lán þeirra sem unnu innan bankageirans og hefðu, eðli hlutarins vegna, átt að vita manna best hver áhættan af slíkum lánum og þeim fjárfestingum sem þeim fylgdu, afskrifuð?
Þetta eru einna helst stjórnendur innan bankakerfisins, skilst mér. Einmitt þeir sem sögðu þjónustufulltrúum og verðbréfamiðlurum innan þeirra banka að ráðleggja viðskiptavinum að kaupa hlutabréf og leggja fé sitt í peningamarkaðssjóði. Af hverju eiga þeir ekki að gjalda fyrir þá áhættu sem þeir tóku? Á meðan eigum við að horfa upp á okkar lán hækka og hækka, afborgarnir hækka í takt við það.
Þetta finnst mér ákaflega óréttlátt og samrýmast engan veginn hugmyndum um jafnrétti og jafnræði.
Bækur | Föstudagur, 31. október 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Jæja, síðasta færslan í þessari sögu.
Elsku Sigga mín,
þungu fargi er af mér létt. Ég hef komist til botns í þessu. Þvílíkt glópalán!
Við Páll fórum ásamt nokkrum sjóliðum inn á heimili Hermanns og Katrínar. Við byrjuðum á heimili Katrínar og fundum þar lítið. Reyndar hirti Páll það litla sem við fundum sem hægt var að græða á. Það fór verulega í taugarnar á mér að fá ekki tækifæri til að skoða þessa hluti, sér í lagi einkabréfin hennar, áður en hann fór í gegnum þau. Eftir því sem liðið hefur á rannsóknina finnst mér hann hafa dregið úr mér og reynt að breiða yfir ýmislegt sem mér hefur þótt merkilegt.
Hús Hermanns var mun eftirtektarverðara. Þar var allt á rúi og stúi og augljóst að ekki hafði verið hugsað um heimilið í marga daga. Óhreinir diskar og bollar út um allt í eldhúsinu og stofan hálfpartinn á hvolfi, glerbrot út um allt. Ég get ekki lýst því nógu vel, en þar sem ég þekki vel hversu hreinlæti skiptir þig máli þá veit ég að þér hefði þótt viðbjóðslegt að koma þarna inn. Við leituðum í öllu húsinu og Páll heimtaði að ég færi niður í kjallara, en sjálfur ætlaði hann að sjá um efri hæðina og eflaust hugsað sér gott til glóðarinnar, vildi komast í svefnherbergin og leita þar.
Ég fór með semingi niður en bað einn sjóliðann um að hafa auga með honum. Þegar ég kom niður sá ég strax að Hermann hafði haldið sig þar af einhverjum ástæðum, ég skildi ekki af hverju þá. Ég leitaði bæði hátt og lágt þar niðri og fann nokkuð stórmerkilegt. Það voru lausar gólffjalir undir dýnu sem hann hafði komið fyrir undir stiganum. Ég tók þær úr og þar undir lágu margar stílabækur. Svo virðist vera sem Hermann hafi haldið dagbækur. Þær voru að minnsta kosti fimmtán. Ég blaðaði í gegnum þær og fann nýjustu fimm. Hinar lét ég Pál hafa en sagði honum ekki frá þeim nýjustu. Eftir að við höfðum rannsakað restina af húsinu þá héldum hvor okkar leið og eflaust hefur hann hugsað sér jafn gott til glóðarinnar og ég.
Svo virðist vera sem Hermann hafi truflast á geði. Hann sá skugga alls staðar og samkvæmt dagbókunum hefur hann myrt Hólmgeir, bæjarstjóra og loks öll börnin. Ég hitti reyndar Hólmgeir fyrir örfáum dögum, þannig það hefur varla getað verið satt. Hitt er hins vegar staðreynd, að skólinn brann og enginn annar en Hermann kemur nú til greina. Mér sýnist líka, að eflaust hefur það verið hann sem eitt vitnanna heyrði segja innan úr skólahúsinu á meðan það brann: - Þetta getur ekki verið. Þú átt ekki að vera hérna! Þetta er eina vitræna skýringin. Reyndar er margt sem ég hefði viljað skoða betur hér í þorpinu, það kemur svo ótalmargt spánskt fyrir sjónir. Fólkið hér er ekki eins og annars staðar. Mér stendur hreinlega stuggur af því. Enn meira nú eftir að ég er búinn að lesa dagbækur Hermanns.
Ég lét Pál vita að ég hefði lokið rannsókn minni og væri á leið aftur heim. Guði sé lof, þá kemst ég loksins úr þessu ömurlega þorpi. Skipstjórinn ætlar að leggja í hann strax í kvöld. Ég er því á leiðinni heim. Ég get ekki beðið eftir því að hitta ykkur Bjössa, fá að knúsa þig og kyssa. Mig er farið að dauðlanga til að leika við hann, hlægja með honum og hjálpa honum að taka fyrstu skrefin. Ég hlakka svo til að vera með ykkur ég fæ mig eiginlega ekki hamið.
Ástarkveðjur,
þinn að eilífu,
Jón Einarsson.
P.S. Helvítið hann Frikki. Týndi hann svo settinu? Hann skal fá að borga nýtt.
Bækur | Mánudagur, 20. október 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar