Færsluflokkur: Bækur
Fyrir nokkrum dögum náði ég að stinga hönd upp úr snjónum. Ljós flæddi niður til mín og blindaði í fyrstu. Ég er enn að jafna mig af ofbirtunni en gleðin yfir því að sjá loksins ljós er fölskvalaus og innileg. Innan úr ísköldu myrkrinu heyri ég að fleiri en ég hafa upplifað hið sama. Nú þarf ég bara að koma líkamanum upp úr flóðinu.
Ég óttast hins vegar að flóðið hafi kaffært marga og sumir eigi ekki afturkvæmt. Og því miður hafi alltof margir komið sér hjá því að veita okkur í flóðinu hjálparhönd. Tækifærin til að moka ofan þeim sem lentu undir flóðinu hafi verið mörg en í stað þess að skipuleggja björgunaraðgerðir, hafi sumir staðið hjá, horft á snjó falla úr himnum ofan og skeytt engu um hróp hina bágstöddu á hjálp. Jafnvel gerst svo óforskammaðir að moka enn meira ofan á þá, til að kæfa raddir þeirra.
Sagan mun dæma þá og hefur fyrsti dómurinn nú þegar fallið.
Bækur | Sunnudagur, 20. júní 2010 (breytt kl. 12:33) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það kom stundum fyrir að við tíkin mín værum ekki alveg sammála um eitthvað er tengdist henni. Henni fannst t.d. að hún ætti að fá að komast oftar út og lengur í hvert skipti en það var vissulega misjafnt eftir dögum. Stundum kom ég kannski seint heim úr vinnu og hafði litla orku til að hlaupa upp fjöll og firnindi með henni, lét því oft duga að fara með hana út í garð. Hún átti þá stundum til að láta skoðun sína í ljós með afgerandi hætti, lagðist við fætur mínar, dæsti og vældi. Jafnvel kom fyrir hún gæfi skít í skoðanir mínar (í orðsins fyllstu merkingu).
Nú held ég að hún hafi ekki verið almennt þunglynd og hafi jafnan liðið vel hjá mér þó vissulega hafi komið fyrir að við værum ekki sammála um allt. Kosturinn hins vegar við hunda er sá, að þar er lífið allt mun einfaldara og samskiptin þar af leiðandi líka. Ef hún var ósátt þá vældi hún og lét þannig vita af sér, ef málið var alvarlegra en svo þá komst maður ekkert hjá því að finna fyrir því. Ef hún var glöð og ánægð, þá dillaði hún skottinu og sýndi gleði sína á þann hátt sem hundar gera. Þeir bera nefnilega tilfinningar sínar og líðan utan á sér.
Við manneskjurnar höfum búið okkur til svo flókið samskiptamynstur að oftar en ekki gerum við okkur sjálf ekki almennilega grein fyrir því hvernig okkur í raun og veru líður hverju sinni. Tungumálið er ótrúlega öflugt fyrirbæri en það setur okkur líka ákveðnar skorður og hömlur, svo ekki sé minnst á hvernig félagsleg viðmið, gildi og slíkt þröngvar okkur í ákveðin form. Það hefur vissulega sína kosti, en getur líka haft þau áhrif að við missum sjónar á því hver við erum í raun og veru og hvað við viljum standa fyrir. Hættan er alltaf sú, að við förum frekar í eltingarleik við það sem aðrir vilja við séum og stöndum fyrir og er það ekki bara tungumálinu að kenna, heldur samfélaginu í heild sinni sem og okkur sjálfum.
Fyrir skemmstu var sýnd kvikmyndin Meet the Fockers á Rúv, stórskemmtileg mynd í alla staði. Um leið og leikið er með vandræðaleg augnablik þá er telft fram tveimur fjölskyldumynstrum sem eru um margt ákaflega ólík. Annars vegar hefðbundin fjöldskylda (ef það er til eitthvað þannig) og hins vegar fjölskylda sem brýtur mjög gegn hinu hefðbundna. Þó svo við Íslendingar teljum okkur langt komna á vegi jafnréttis, þá var margt í þessari mynd sem fékk mig til að hugsa. Ég efast auk þess ekki um, að þessar andstæður eru jafnvel enn sterkari í bandarísku samfélagi.
Ég er alinn upp í mjög hefðbundnu fjölskyldumynstri. Ég á nokkrar systur og foreldrar mínir hafa hangið saman í gegnum árin, gegnum súrt og sætt. Þau viðmið og gildi sem okkur systkynunum voru kennd eru ekki ólík þeim er almennt þekkist. Í raun mætti segja að við höfum fengið vísitöluuppeldi. Æfðum íþróttir, lærðum á hljóðfæri, send til mennta o.s.frv. Í raun lagt upp með að koma okkur hamingjusömum til vits og ára, eins og er vonandi markmið flestra foreldra.
Hluti af uppvexti mínum fór, eins og hjá flestum, í að rökræða og rífast við foreldra mína. Pabbi er þannig gerður, að það er gríðarlega erfitt að rökræða við hann, bæði vegna þess að hann á mjög auðvelt með að finna sterk rök með máli sínu sem og vegna þess hann á það til að setja hlutina þannig fram, að manni finnst sem þau rök sem maður hefur séu einskis virði. Mér skilst á fólki sem þarf oft að rífast við mig að mér hættir til að gera þetta líka. Maður lærir víst það sem fyrir manni er haft, ekki satt?
Í þessu finnst mér oft samskipti okkar manna vera of flókin. Það er í raun alveg ótrúlegt, í senn bölvun og blessun, að hægt skuli að vera túlka samskipti á óendalega marga vegu. Og oft eru þessar túlkanir byggðar á fyrirfram mótuðum hugmyndum, viðmiðum eða gildum sem við höfum lært. Í senn flýtir það fyrir en oft flækir það hlutina um of, að mínu mati. Hver hefur ekki lent í því að þurfa leiðrétta misskilning sem er byggður fyrst og fremst á því hvernig samskipti voru túlkuð fremur en hvað í raun og veru kom fram?
Stundum sjáum við nefnilega ekki skýrt í gegnum samskiptamynstrið, líkt og í Meet the Fockers þá er búið að meitla í stein eitthvað mynstur og frávik ekki vel séð. Hins vegar getur frávikið verið alveg jafn gott og stundum jafnvel betra. Við sjáum dæmi um þetta t.d. í málefnum barna sem búa á tveimur heimilum foreldra sinna sem hafa sameiginlega forsjá með þeim. Fyrir nokkrum áratugum hefði þetta þótt óhugsandi, ólíðandi og hreint út sagt ómanneskjulegt gagnvart börnum. Maður verður jafnvel enn var við slíkan hugsunarhátt. Annað gott dæmi er viðhorf samfélagsins til samkynhneigðar og hvernig það hefur breyst á undanförnum árum, að mínu mati til hins betra.
Ég held nefnilega, að við sem manneskjur og sem samfélag verðum að þroskast. Líkt og tungumálið tekur breytingum með hverri kynslóð þarf samfélagið að þroskast og breytast. Á hverjum degi læri ég eitthvað nýtt, þá sérstaklega um sjálfan mig og mér finnst ég miklu nærri því að skilja sjálfan mig í dag en fyrir t.d. 15 árum. Og ég er viss um að ég muni standa enn nokkuð nálægt því eftir önnur 15 ár.
Bækur | Mánudagur, 14. júní 2010 (breytt kl. 16:16) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þegar ég var á aldur við dóttur mína fylgdist ég hugfanginn með þáttum Davids Attenboroughs. Fyrir utan áhuga minn á dýrum fannst mér heillandi að sjá í þættinum farið úr einu heimshorni í annað, allt með það að markmiði að upplýsa áhorfendur um einhver ótrúleg fyrirbrigði í náttúrunni. Og allt gert á þann hátt sem hefur orðið einkennandi fyrir David Attenborough, þ.e. frásögnin í senn upplýsandi, áhugaverð og upplifunin öll af áhorfinu hin ánægjulegasta. Að sjá hóp af háhyrningum ráðast á sandlægjukýr með kálf og drepa kálfinn, moskítóflugur étnar af froskum, gírafa slást um hylli lóða kvendýrs, allt sett fram svo maður sat á öndinni og ég ákvað snemma ég skyldi verða eins og David Attenborough, hann var mín helsta fyrirmynd. Ég ætlaði að verða dýralífsfræðingur og vera líka með þyrluflugmannsréttindi, svo ég gæti flogið með tökuliðið á milli staða.
Það varð nú lítið úr þessum framtíðaráætlunum mínum, en ég horfi enn með öndina í hálsinum á þætti sem Attenborough kemur nálægt. Meira að segja fæ ég enn bækur sem hann hefur skrifað í tengslum við þættina sína í jólagjöf frá fjölskyldu og vinum. Bækur tengjast samt þó næstu framtíðaráætlunum mínum.
Ég var svo heppinn að vera í grunnskóla í bekk sem var mjög misjafn að getu. Foreldrar mínir eru reyndar á því að það hafi alls ekki verið lán mitt, en ég held ég búi enn að þeim tíma. Kennari minn á þessum tíma var ekkert of upptekinn af því að skaffa okkur, sem vorum eitthvað örlítið hroðvirkari en bekkjarfélagar okkar, aukaverkefni. Enn síður vildi hann að við héldum áfram í námi okkar umfram það sem áætlun hans sagði til um. Það hefur eflaust ekki verið gaman, hvorki í grunnskóla né menntaskóla, að hafa mig verkefnalausan inni í tíma, reyndar efast ég líka um það hafi nokkuð verið gaman þegar ég hafði eitthvað að gera. Hef hugsanlega verið þolanlegur þegar ég svaf eða þagði. Hvað um það, téður kennari tók upp á því að senda okkur út úr tímum og niður á bókasafn. Í fyrstu fannst mér það frekar vera refsing en hitt, en smátt og smátt fór ég að finna mér bækur til að lesa. Mig grunar að ég hafi eytt stærstum hluta af minni grunnskólagöngu í lestur á hvers kyns bókum og las allt sem vakti minnsta áhuga hjá mér. Narnía, Frank og Jói, Tom Swift, Tolkien, Enid Blyton, Indriði Úlfsson og svo mætti lengi telja. Svo þegar ég fór að læra ensku tóku R.A. Salvatore, Terry Pratchett, Stephen King og fleiri höfundar við af barnabókahöfundunum. Þannig kynntist ég H.P. Lovecraft. Félagi minn átti dágott safn af smásögum eftir þennan merka hrollvekjuhöfund. Ég las þær af mikilli áfergju, sumar þeirra aftur og aftur og fann að þetta var eitthvað sem mig langaði til að gera. Að skrifa hrollvekjur.
Ólíkt draumnum um að verða dýralífsfræðingur, ákvað ég að eltast við þann draum að verða rithöfundur. Ég skráði mig í íslensku í HÍ og aldrei þessu vant reyndi að láta lítið fara fyrir mér og lagði mig jafnvel fram við námið. Ég sat alla þá kúrsa sem ég komst í er tengdust á einhvern hátt ritlist og reyndi að hlusta eftir hverju orði og tileinka mér það sem verið var að kenna. Þær voru ófáar næturnar sem fóru í skriftir og ég lét mig dreyma um að komast einhvern tíma í tölu þeirra rithöfunda sem eru gefnir út. Ég lagði einkum rækt við að skrifa hrollvekjur, svokallaðar furðusögur (weird fiction), stefna sem jafnan má rekja til Lovecrafts.
Því miður var áhugi útgefenda ekki jafn mikill og minn. Ég mætti með hvert handrit á fætur öðru til þeirra en fékk jafnharðan neitun, með þeim skilaboðum að handritið væri ekki nógu gott, þó efnilegt og vildu gjarnan fá að sjá meira. Vonir mínar glæddust er Börnin í Húmdölum eftir Jökul Valsson var gefin út, að hugsanlega væru útgefendur að opna augun fyrir einhverju öðru en spennusögum og dramatískum, íslenskum skáldskap. Allt kom fyrir ekki, enn fékk ég höfnun eftir höfnun á meðan rithöfundar fengu útgefið sem ég, í hroka mínum, taldi eftir lestur bóka þeirra ekki vera með jafn góð handrit og ég. Hugsanlega hefur þar spilað inn í hve ég hef litla rækt lagt við að tengja mig inn í þennan bókmenntaheim og enn minni áhuga hef ég haft á að koma mér á framfæri með öðrum hætti, t.d. í sjónvarpi, útvarpi. Þannig í raun er ég bara eins og hvert annað skúffuskáld með rithöfundadrauma og eflaust ekkert sérstakt sem slíkt.
Nú eftir hrunið hefur mér sýnst að áhugi útgáfna á að gefa út óþekkta rithöfunda vera annars frekar lítill. Hugsanlega fá einhver ungskáld gefið út en mín tilfinning er sú, að möguleikar mínir fari sífellt minnkandi. Og hvernig á ég að bregðast við því? Ég held, að ég sé ekkert endilega með verri handrit en hver annar, amk. fá þau ágæta dóma þeirra er lesa að útgáfum undanskildum. Á ég að halda áfram að skrifa fyrir skúffuna eða berja frekar höfðinu við steininn? Mæta ár eftir ár og banka upp á hjá útgáfustjórum sem eru eflaust flestir fyrir löngu hættir að lesa það sem ég sendi þeim? Eða ætti ég frekar bara að hætta þessu, taka bitra, fúla gaurinn á þetta og sýna þeim fingurinn fyrir að vilja ekki gefa mig út? Ég held ekki.
Ég er farinn að skoða þriðja möguleikann og hugsanlega verður það minn næsti draumur. Ég vona að hann rætist.
Bækur | Fimmtudagur, 10. júní 2010 (breytt kl. 15:42) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég kann ekki að tapa. Svo einfalt er það. Ég er óheyrilega tapsár og gildir einu hvers lags spil eða keppni um ræðir, ég reyni að vinna eftir fremsta megni. Sumar keppnir standa mér vissulega nærri en aðrar, en mér finnst engu að síður alltaf jafn leiðinlegt að tapa. Ég verð sár, pirraður út í sjálfan mig og jafnvel þá sem voru með mér í liði, ef svo ber undir. Áður fyrr átti ég erfitt með að leyna þessum tilfinningum mínum en eftir því sem árin hafa færst yfir hefur það svona komist í meiri vana, þó svo þeir sem þekkja mig vel sjái að ég verð fúll yfir tapi.
Ég get verið jafn leiðinlegur sigurvegari og ég er tapsár. Það hlakkar oft í mér og ég get velt mér lengi upp úr glæstum sigrum mínum á kostnað þeirra sem töpuðu. Einhverra hluta vegna nægir mér ekki bara að fá klapp á bakið og hamingjuóskir, ég verð að fá að strá salti í sárin og snúa fingri í þeim líka. Ég vona, að ég þekki mig nógu vel núorðið að geta haft aðeins meiri hemil á mér en áður. Maður myndi ætla að það væri kosturinn við að eldast. Eitthvað verður maður nú að græða á því.
Af þessum sökum fannst mér mjög gaman að hlusta á Sóleyju Tómasar tala í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Eins og gefur að skilja, þá er hún tapsár vegna gengis VG í síðastliðnum borgarstjórnarkosningum, en eins og sönnum stjórnmálamanni sæmir, þá er stórtap flokks hennar (þau töpuðu jú helming þeirra borgarstjórnarfulltrúa sem þau höfðu áður) ekki henni að kenna. Hún hafði skýringar á reiðum höndum, kjósendur vildu refsa fjórflokknum, það var ráðist hart gegn henni og hennar persónu og fullt af svona bla-bla skýringum.
Þetta hljómaði í mínum eyrum svolítið eins og þegar ég hef tapað fótboltaleik og kenni dómaranum, vellinum, meðspilurum, veðri og áhorfendum um ósigurinn. Gallinn við að vera tapsár, er oftast nær sá, að maður sér ekki að tapið er manni sjálfum að kenna. Það er enginn annar sem tapar leiknum nema maður sjálfur og því verður maður að bæta sig fyrir næsta leik, laga það sem gekk ekki og gagnrýna sjálfan sig.
Sóley heyrðist mér ekki vera á þeim buxunum. Þrátt fyrir að 8-9% kjósenda flokksins hafi strikað hana af lista hans, þá tók hún það ekki til sín. Enda skiptir það ekki máli. Það skiptir heldur ekki máli að flokkur hennar tapaði miklu fylgi í borginni undir hennar forystu. Það sem skipti máli og hún taldi höfuðástæðu þessa fylgistaps, var að VG er í ríkisstjórn, mikil innanflokksátök, ádeilur á feminíska áherslur og fleiri sem lágu ekki hjá henni persónulega.
Auk þess ætlar hún að kanna réttarstöðu sína gagnvart þeim sem gagnrýndu hana og fjölluðu um hana í aðdraganda kosninganna, því þar hlýtur jú að liggja enn ein ástæða þess hún tapaði svo miklu fylgi sem raun bar vitni. Mig grunar að umfjöllun DV um ummæli hennar um hún hafi óttast að eignast dreng, ummæli Agnesar Bragadóttur um að Sóley sé feministafastisti og fjölmargar bloggfærslur ásamt tilsvörum við þeim sé henni ofarlega í huga er varðar hugsanlegar málsóknir.
Ég held hins vegar að skýringin sé einfaldari. Mér finnst Sóley Tómasar koma illa fyrir og virkar mjög leiðinleg á mig, sama hve hún reynir að brosa. Það má vel vera að hún hafi frábær málefni og vatnsheld rök fyrir þeim, en hún er bara svo innilega fráhrindandi og öfgafull að ég gæti aldrei hugsað mér að kjósa hana, þó hún væri ein í framboði. Það má vel vera ég sé með fordóma og leiðindi, en mig langar bara ekkert til að kjósa þessa manneskju og hreinlega skil ekki hvernig nokkur getur gert það. Og hegðun hennar núna staðfestir enn frekar þá skoðun mína.
Bækur | Mánudagur, 7. júní 2010 (breytt kl. 13:05) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég stend mig stundum að því að hugsa hluti sem eru gjörsamlega út í hött. Hluti sem eru hreint út sagt heimskulegir. Fyrir einhverjar sakir dúkka þessar hugsanir upp í kollinum á mér, eiginlega eins og óboðnir gestir í lokuðu hófi. Stundum get ég glott út í annað að eigin hugsunum og sannast eflaust þar hið fornkveðna, að heimskur hlær að sjálfs sín hugsunum. Ég lá t.d. í baði fyrir skemmstu og var eitthvað að spá og spekúlera. Þá kom sú pæling upp í kollinum á mér, hvort maður gæti smitað sjálfan sig af HIV?
Sem betur fer er ég nú oftast einn þegar kjáninn kemur yfir mig, ef svo mætti að orði komast. Mig grunar, að ég gæti átt það á hættu að missa út úr mér eitthvað af þessum pælingum mínum ef einhver væri sífellt í kringum mig til áheyrnar og samræðna. Ég á reyndar hund, sem dvelur þessa dagana hjá Söru, systur minni, og ég hef átt alveg ótrúlegar samræður við hann. Þessi hundur, sem er reyndar tík, er líklega besti hlustandi sem nokkur getur átt, því hún mótmælir aldrei og finnst allt jafn afskaplega áhugarvert sem ég segi, óháð efni, stað og stund. Einu skiptin sem hún nennir ekki að hlusta á mig, er þegar hún fær að borða, enda upptekin og hundar tala ekki á meðan þeir borða.
Þegar ég var að alast upp var lögð á það rík áhersla að ég hugsaði áður en ég talaði og ef ég hefði ekkert jákvætt að segja, ætti ég að þegja. Því fer fjarri að ég hafi hlýtt þessu í einu öllu, eins og fjölmörg dæmi sýna en er óþarft að týna til, enda skipta þau sem slík ekki máli. Síðastliðin ár hef ég reynt að venja mig á þetta og stend mig að því að þegja býsna mikið. Dóttir mín talar stundum um, að það sé alltaf mjög sérstakur svipur á andliti mínu þegar ég er að hugsa, það myndist hrukka á milli augna minna og augabrúnirnar síga. Henni finnst þá sem ég hljóti að vera reiður.
Mér finnst reyndar ágætt að þurfa ekki að segja neitt, heldur fá bara að þegja. Fæst orð hafa minnsta ábyrgð. Það liggur líka betur fyrir mér að skrifa það sem ég er að hugsa en að tala um það. Mér finnst t.d. fínt að fara einn að veiða og standa út í vatni svo tímunum skiptir án þess að segja nokkurn skapaðan hlut. En svo koma stundir þar sem ég hef mikið að segja og finnst mikilvægt að koma því frá mér.
Undanfarið hef ég oft óskað þess að sumir sem tala í fjölmiðlum leggðu meiri rækt við það að þegja. Ég er t.d. alveg viss um, ef Dagur B. Eggertsson myndi sleppa því að tala svona í helming þeirra skipta sem hann fær tækifæri til þess og þegar hann kæmi í fjölmiðla myndi hann stytta mál sitt um svona aðeins meira en helming, þá væri hlustandi á hann.
Ég var á leið frá Þingvöllum í morgun eftir að hafa átt þar næðisstund með vatninu í nokkra klukkutíma og heyrði viðtal sem tekið var við hann í morgunþætti á Rás 2. Þar var hann m.a. spurður um hvort hann tæki til sín þá gagnrýni sem birst hefði víðsvegar í aðdraganda kosninganna og eftir þær, að hann væri froðusnakkur (það var ekki orðað nákvæmlega þannig, en merkingin fór ekkert á milli mála). Hann var hugsi um stund en svaraði því síðan játandi. Þar hefði hann átt á stoppa en hafði ekki vit á því. Þess frekar flutti hann fimm mínútna ræðu um innihald stjórnmála, nauðsyn breytinga og ábyrgð fjölmiðla og ég er viss um, ef hann hefði ekki svarað játandi í upphafi svarsins, þá hefði ég verið engu nær um afstöðu hans.
Og í morgun, eftir að hafa hlustað á Dag í útvarpinu, kom ein svona pæling upp í hausnum á mér. Hvernig ætli Dagur kveðji konuna sína á morgnana? Ætli honum nægi að segja bara bless?
Bækur | Fimmtudagur, 3. júní 2010 (breytt 4.6.2010 kl. 20:16) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um daginn lenti ég í samræðum um guð við dóttur mína. Við sátum í bílnum á leiðinni heim frá systur minni þegar hún tók skyndilega upp á því að spyrja mig hvort ég tryði á Guð. Sannleikanum samkvæmt svaraði ég því neitandi, ég hef aldrei fundið þörf fyrir trú eða æðri máttarvöld. Dóttir mín er sex ára gömul og trúði vart sínum eigin eyrum, að faðir hennar gæti verið svo ótrúlega óforskammaður að trúa ekki á guð, það stæði jú í Biblíunni að hann væri til. Við ræddum þetta um stund og það var gaman að sjá, að hún hefur skoðun á þessu og hikar ekki við að rökræða hana af fullri alvöru við foreldri sitt. Að lokum komumst við þó að þeirri niðurstöðu að það væri allt í lagi þó við værum ósammála og báðar skoðanir væru jafn góðar.
Dóttir mín er ekki skírð. Við foreldrar hennar ákváðum á sínum tíma að leyfa henni að stjórna trúmálum sínum alfarið sjálf. Við höfum ekki reynt að hafa áhrif á skoðanir hennar í þeim málum, ekki kennt henni bænir eða farið með hana í sunnudagaskóla, en hún hefur þó fengið eitthvað þess lags af fræðslu frá einhverjum af fjölmörgum ömmum og öfum sínum.
Þegar ég var í námi sat ég kúrsa hjá Nirði P. Njarðvík, sem ég er afar þakklátur fyrir, enda er hann einn stórkostlegasti kennari sem ég hef nokkurn tíma haft. Ekki nóg með hann gerði heiðarlega tilraun til að kenna mér að skrifa sæmilega, heldur fólst í kennslunni mikil naflaskoðun á eigin verkum og sú gagnrýni hefur nýst mér á öðrum sviðum. Eitt af því sem hann lagði ríka áherslu á, þegar hann var að kenna notkun myndmáls, væri áhersla á smáatriði umfram lýsingar almenns eðlis. Hann sagði m.a. að guð væri í smáatriðunum. Vissulega gömul klisja en samt alveg rétt og á ekki bara við um bókmenntir eða í ritlist.
Mér finnst nefnilega oft þessir litlu hlutir verða svo stórir þegar ég gef þeim gaum. Að vakna eldsnemma og vera mættur út í vatn eða á að veiða og hlusta á náttúruna vakna. Finna hvernig lífið fer á stjá og um leið og sólin tekur að verma allt. Eins að vakna á helgardegi, liggja uppi í rúmi og hlusta á dóttur mína syngja á meðan hún borðar morgunmat. Sitja úti á svölum á kvöldin og fram á nótt. Þessar stundir sem eru í raun ekki svo einstakar, en mér finnst eins og allt sé rétt, ef svo mætti að orði komast. Í þessum stundum, þessum smáatriðum finnst mér oft felast guð.
Eina skiptið hins vegar, sem ég hef upplifað eitthvað himneskt, eitthvað sem hefur gjörbreytt mér í einum vettvangi, var að upplifa það þegar dóttir mín opnaði augun í fyrsta skipti. Ég hélt á henni, örfáum mínútum eftir fæðinguna og hún leit á mig þessum stóru augum. Á einu augnabliki fannst mér ég hafa himin höndum tekið. Á þeirri stundu uppgötvaði ég að ég væri ekki lengur þungamiðjan í mínum heimi, heldur hún.
Það sem ég sagði dóttur minni ekki í þessum umræðum okkar um guð er þessi upplifun mín. Að eina tenging mín við æðri máttarvöld, hver svo sem þau kunna að vera, séu í gegnum fæðingu hennar. Að guð minn sé í raun tilvera hennar. Hún á vonandi einhvern tíma eftir að fá að kynnast þessu sjálf.
Bækur | Mánudagur, 31. maí 2010 (breytt kl. 17:16) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég hugsa, að ég hafi ekki verið skemmtilegur nemandi í menntaskóla. Fyrir utan að vera óendanlegur besserwisser þá var ég sígjammandi og lék mér að því að vera á öndverðri skoðun við kennara mína og stundum samnemendur. Í raun mætti segja, að ég hafi verið afskaplega hrokafullur, drjúgur með mig og eflaust bara almennt leiðinleg týpa. Að viðurkenna mistök eða ég hefði rangt fyrir mér var nokkuð sem ég einfaldlega gerði ekki, enda hefði það eflaust þýtt skipsbrot sjálfsmyndar, sem var í raun byggð á sandi. Er það ekki kannski þannig með flesta þá sem fela sig á bakvið hroka og hleypidóma?
Stundum þegar ég fylgist með stjórnmálaumræðu sé ég sjálfan mig á þessum tíma speglast í pólitíkusum. Eftirsóknin í að hafa rétt fyrir sér, láta ekki væna sig um mistök eða að hafa beygt, túlkað og hagrætt sannleika sér í hag, er yfirgengileg og það virðist frekar vera regla en hitt, að koma fram af hroka og tala niður til fólks. Beita fyrir sig orðfæri sem alla jafna er fólki ekki tamt, tala svona fagmál gagngert til að láta áheyrendur finnast viðkomandi voða klárir og snjallir. Læknar gerðu þetta einu sinni og kennarar hafa verið að reyna auka fagvitund" sína með því að tala svona fagmál. Við heyrum síoftar um Olweusar-áætlun, heildstæða móðurmálskennslu og einstaklingsmiðað nám. Án þess þó að gera okkur fyllilega grein fyrir hvað þessi hugtök og heiti þýða kinkum við kolli, hugsanlega til að koma í veg fyrir að koma upp um að við þekkjum ekki eða vitum ekki við hvað er átt. Hið sama gildir um stjórnmálaumræðuna. Hvað þýðir t.d. gegnsæ stjórnsýsla? Hvenær er stjórnsýsla ekki gegnsæ og hvernig verður hún gegnsæ? Annað sem hefur verið vinsælt hugtak er sjálfbært samfélag, t.d. hefur Reykjavíkurborg markað sér stefnu um sjálfbært samfélag í samráði við íbúa.
Ég viðurkenni fúslega að ég skil stundum ekki orðræðu stjórnmálamanna og finnst oft á tíðum sem þeir flæki vísvitandi mál sitt, til að tryggja að ég spyrji ekki óþægilegra spurninga eða nái að mynda mér skoðun, sem felur eitthvað annað í sér en að láta þetta bara eftir þeim, þar sem ég botna hvort eð er ekkert í þessu. Mér finnst það hins vegar óþægilegt, að sitja stundum undir því, að vera meinaður aðgangur að vitneskjunni sem felst í tungumálinu. Stjórnmálamenn, líkt og kennarar eða jafnvel pípulagningamenn, eiga sér sitt fagmál og þeir sem kunna fagmálið skilja um hvað er rætt hverju sinni. Þeir sem kunna ekki fagmálið, eru skildir út undan og eiga litla möguleika að komast inn í þennan málheim. Ég hefði haldið, að það væri einmitt stjórnmálamanna að tala mál sem allir skildu. Þannig næðu þeir frekar til fjöldans, sérstaklega á tímum sem við lifum nú. Ég held að ég sé ekkert heimskari en gengur og gerist hjá meðalmanni en mig dauðlangar oft á tíðum að skilja betur hvað stjórnmálamenn eru að tala um.
Ég eignaðist barn fyrir nokkrum árum, yndislega stelpu sem hefur kennt mér heilmargt og ekki eingöngu út frá einfaldasta skilningi orðsins kenna, heldur hefur tilvera hennar hjálpað mér að skilja hlutina öðruvísi og fengið mig til að endurskoða mig og mörg gilda minna. Eitt af því sem ég hef sérstaklega reynt að draga úr eftir fæðingu hennar eru hroki og hleypidómar. Ég hef reynt að venja mig af því að fara fram af besservískum krafti og einbeitt mér frekar að einfaldari og jákvæðari hlutum, þó vissulega ég megi gera enn betur í þeim efnum. Það hefur veitt mér betri sýn á hvernig maður ég vil vera, er ég hef verið að velta fyrir mér hvernig manneskju ég vil sjá í dóttur minni. Ég þarf jú að vera henni til fyrirmyndar.
Hugsanlega mættu stjórnmálamenn skoða málfar sitt og framkomu gagnvart kjósendum í þessu samhengi. Þeir eiga jú að vera okkur til fyrirmyndar á vissan hátt og því er mikilvægt að þeir komi rétt fram og tali mál sem við skiljum. Við breytum nefnilega ekki samfélaginu án þess að breyta okkur sjálfum fyrst.
Bækur | Föstudagur, 28. maí 2010 (breytt kl. 21:29) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nú er ég ekki með stjórnmálafræðimenntun eða nokkra aðra menntun á því sviði, en mig langar engu að síður að leggja nokkur orð í belg, þann sem fer sístækkandi um þessar mundir og snýr að borgarstjórnarkosningunum. Það er hart sótt að Besta flokknum úr öllum áttum, enda fjórflokkurinn að míga á sig af ótta við að missa völd sem hann virðist telja sín. Hvaðan stjórnmálamenn fá þá hugmynd, að þeim beri að hafa ákveðin völd er mér framandi, en eins og áður sagði, þá er ég ekki menntaður í þessum fræðum og botna þar af leiðir ekki mikið í hvað gengur um í kollinum á stjórnmálamönnum oft á tíðum. Segir það kannski meira um mig en þá. Mig langar engu að síður að koma nokkrum punktum á framfæri.
Hræðsluáróður fjórflokksins
Eitt af því sem mér hefur þótt einkenna tal margra forystumanna fjórflokksins undanfarna daga er þeir ráðast gegn Besta flokknum, er hræðsluáróður og ógnvekjandi mál þeirra. Skemmst er að minnast ummæla Sóleyjar Tómasardóttur, um að framtíð barna okkar væri í uppnámi kæmist Besti flokkurinn til valda. Ég veit ekki hvaðan hún dregur þá ályktun, að hún sé betur í stakk búin að fjalla um málefni barna en aðrir frambjóðendur, sér í lagi frambjóðendur Besta flokksins. Hún sjálf leyfði sér að standa í þeirri trú að það væri hræðilegt að eignast son! Hvernig á ég, sem karlmaður, að geta treyst konu fyrir málefnum barna og þá einkum drengja, þegar hún sér í þeim ógn og skelfingu svo mikla, að hún hafi talið það hræðileg örlög að eignast karlkyns barn?
Hið sama má segja um málflutning Sjálfstæðismanna, nú síðast í Morgunblaðinu í morgun fór Agnes Bragadóttir mikinn og sagði að nú væri komið nóg af brandaranum. Hvernig ættu borgarbúar að geta sætt sig við innantómt blaður, glens og grín næstu fjögur árin? Besti flokkurinn myndi aldrei geta stjórnað borginni, enda hefur enginn nokkurt vit þar á stjórnun stórs vinnustaðar, umsjón og sýslu með mikla fjármuni. Þarna er verið að tala niður til þeirra sem hafa lagt það á sig að bjóða sig fram í nafni Besta flokksins og láta sem enginn þar innanborðs sé hæfur til að stjórna borginni.
Ég spyr: Eru þetta viðbrögð fjórflokksins við Besta flokknum? Að standa upp með hræðsuáróður, ógnanir og láta sem hér muni allt loga stafna á milli ef flokkurinn kemst til valda? Mun þá næsta kjörtímabil einkennast af tíðum meirihlutaskiptum, fjórum borgarstjórum og öðru eins bulli?
Óþægileg hreinskilni eða lygi?
Það sem mér finnst einna markverðasta og skemmtilegasta tilbreytingin við Besta flokkinn er hreinskilni talsmanna hans. Þeir ætla sér að koma félögum sínum í stjórnir og nefndir, þeir ætla sér að lifa góðu lífi af þeim launum sem eru í boði fyrir borgarráðsmenn og ota sínum tota. Loforð þeirra eru gjörsamlega út í hött, vissulega framkvæmanleg, en samt út í hött og það fer ekkert á milli mála. Þeir hafa líst því yfir að þeir muni svíkja öll loforð að loknum kosningum og þar af leiðir þurfi ég ekki að taka neitt mark á þeim, sem almennur kjósandi. Þessi hreinskilni er vissulega óþægileg, sérstaklega fyrir hina stjórnmálamennina sem vilja láta taka sig alvarlega.
Fjórflokkurinn heldur hins vegar sínu striki, þeir lofa breytingum á breytingar ofan, slá um sig með frösum og hugtökum sem enginn einn skilur eins. Besta dæmið um slíkt loforð er satýra Besta flokksins, loforð um sjálfbært gegnsæi. Fjórflokkurinn heldur áfram að strá um sig glimmeri sem er ekkert annað en máttlaus tilraun til að fegra ímynd sína. Fjórflokkurinn hefur haft mörg ár til að standa við loforð sín, en um leið og atvinnustjórnmálamennirnir komast til valda og eru minntir á loforð sín, þá hafa forsendur breyst og taka verður tillit til annarra þátta, bla, bla, bla! Já, forsendurnar sem breyttust voru að viðkomandi komst til valda.
Verður borgin betur eða verr sett með Besta flokkinn við völd?
Sú spurning sem hlýtur að vefjast fyrir einhverjum kjósendum og er nokkuð sem fjórflokkurinn hamrar svolítið á, er hvort borgin endi í djúpum skít með leikara og aðra listamenn við stjórnvölinn. Við henni er einfalt svar og sem er ágætt að velta fyrir sér líka. Getur þetta versnað? Mun borgin undir stjórn Besta flokksins skarta fjórum borgarstjórum? Mun Besti flokkurinn bjóða upp á REI rugl? Mun Besti flokkurinn bjóða kjósendum sínum upp á það hið sama og var í boði í Reykjavík á síðasta kjörtímabili?
Mín skoðun er sú, að sama hvað fjórflokkurinn segir og hverju og hverjum hann kennir um að svo fór sem fór á síðasta kjörtímabili, þá skiptir engu máli þó Besti flokkurinn komist til valda. Vonbrigðin sem sá flokkur mun valda verða aldrei þau hin sömu og fjórflokkurinn bauð upp á síðasta kjörtímabili.
Vil ég atvinnustjórnmálamenn?
Það sem fer hvað mest í taugarnar á mér við stjórnmálin á Íslandi í dag, er sú staðreynd að fæstir okkar stjórnmálamanna hafa í raun unnið eitthvað af viti úti á hinum almenna markaði. Nær allir koma þeir beint úr annað hvort stúdentapólitík eða ræðuliðum menntaskólanna inn á svið stjórnmála og ætla sér að hasla sér völl þar. Nægir þar að nefna til dæmis menntamálaráðaherra, Sigurð Kára, Birgir Ármanns, Guðlaug Þór, Sóleyju Tómasar, Gísla Martein og svo mætti lengi telja áfram. Hvernig getur þetta fólk, sem sumhvert hefur tekið við milljónum á milljónir ofan í styrki frá fyrirtækjum og einstaklingum, ætlast til þess að almenningur líti á það sem talsmenn sína? Hefur Sóley staðið persónulega í því að segja upp starfsfólki? Hefur Gísli Marteinn staðið í þeim sporum að horfa á fjölda samstarfsmanna sinna missa vinnuna og ná vart endum saman fyrir það? Ætli hann hafi hugsað til þessa fólks þegar hann þáði laun á meðan hann var í námi í Skotlandi?
Þegar allt kemur til alls þá er Besti flokkurinn besta uppreisn sem hægt er að hugsa sér. Hún er án ofbeldis. Hún kemur skýrum skilaboðum á framfæri við atvinnustjórnmálamennina og fjórflokkinn. Hún gefur almenningi tækifæri á að refsa þeim harkalega sem sátu að völdum í hruninu. Hún er fyndin og skemmtileg. Hún er þó umfram allt jákvæð og uppbyggjandi, svolítið annað en sagt verður um fjórflokkinn og hegðun hans þessa síðustu daga fyrir kosningar.
Því miður virðast nær allir gera sér grein fyrir þessu, nema allra hörðustu stuðningsmenn fjórflokksins auk hans sjálfs.
Bækur | Laugardagur, 22. maí 2010 (breytt kl. 23:31) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
The most merciful thing in the world, I think, is the inability of the human mind to correlate all its content.
Svo hefst ein allra frægasta smásaga H.P. Lovecraft, sem var einn af brautryðjendum bókmenntastefnu sem jafnan er kennd við wierd fiction, eða furðusögur. Sögur þessar fjalla nær undantekningalítið um veruleika sem er mun meiri og stærri en við manneskjurnar getum og munum nokkrun tíma átta okkur á. Atburðir og verur sem voru svo framandi skilningi manna að aðeins geðveikin ein beið þeirra sem í þeim lentu.
Oftar en ekki er sagt frá einhverjum sem lendir í því, að upplifa stórkostlega breytingar á því hvernig hann upplifir veruleika sinn, hvort sem það var sökum átaka við yfirskilvitlegar verur eða geðsjúka meðlimi sértrúarsafna. Þessir sértrúarsöfnuðir dýrkuðu goð og guði sem voru flestum samfélögum löngu gleymd, til allrar hamingju, enda oftast nær illska holdi klædd, með einum eða öðrum hætti. Þó margar sögur úr þessum geira fjalli um sértrúarsöfnuði eða þess háttar fólk, þá fer því fjarri að þær fjalli allar um slíka hluti, en ég ætla ekki að fjalla um það hér.
Í raun má segja, að þessi goð hafi staðið fyrir þau einkenni okkar mannanna sem við alla jafna reynum að forðast. Sum þeirra voru gráðug, kölluðu sífellt eftir mannfórnum eða annars slags fórnum, önnur gerðu menn geðveika, siðblinda og þaðan af verra. Fyrir goð sín og guði voru meðlimir sértrúarsöfnuðanna tilbúnir að myrða, svíkja, stunda pretti og stela. Jafnvel gengu sumir svo langt að geta með þeim afkvæmi.
Sem betur fer tekst söguhetjum þessara sagna undantekningalítið að uppræta og koma í veg fyrir illar áætlanir þessara sértrúarsafnaða og einstakra meðlima þeirra. Eftir situr þó vissan um, að ógnin er enn til staðar og verður svo lengi sem einhver er tilbúinn að gangast geðveikinni á hönd sem fylgir dýrkun slíkra guða.
Ég hef stundum horft á atburði líðandi stundar með svipuðum gleraugum og gagnrýni í huga og ég viðhef er ég les þessar sögur.
Var hópur útrásarvíkinganna (er yfirhöfuð hægt að vera víkingur án þess að stunda útrás? Er þetta heiti ekki svolítil tvítekning á sömu hugsun?) kannski eins og sértrúarsöfnuður í þessum skilningi? Stigu þau trylltan dans í kringum stallinn er guð þeirra, græðgin, sat á? Bjó þessi hópur kannski yfir sömu lagskiptingu og sértrúarsöfnuðir virðast oft gera? Voru bankastjórarnir æðstu prestar, sem gátu stýrt og tekið við fórnum annarra meðlima safnaðarins?
Þegar rennt er yfir fréttir og frásagnir af niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis, þá finnst mér hreint út sagt með ólíkindum að þessi hópur komst og gekk jafn langt og raun ber vitni. Hversu mikil var geðveikin? Hversu mikil var siðblindan? Var allt leyfilegt í ljósi þess að það þurfti að græða og róa þar með guðinn mikla, sem þó, eðli síns vegna, var aldrei til friðs og krafðist sífellt fleiri og stærri fórna? Jafnvel enn í dag neitar þetta fólk að nokkuð óeðlilegt hafi átt sér stað, lýgur (hvort sem það er að sjálfu sér eða öðrum) í von um að sleppa og jafnvel komast að kjötkötlunum aftur.
Þegar trúin á græðgina er sterk þá hlýtur eitthvað af siðferðinu að láta undan. Því ætti það ekki að koma á óvart, að einstaklingar skuli vera reiðubúnir að fórna býsna miklu til að græða meira og meira og enn meira. En er það eðlilegt? Og er eðlilegt að við skyldum láta þennan söfnuð komast upp með það?
Það er samt voðalega gott að vera vitur eftir á. Eins og fífl gleypti ég við glansmyndinni sem dregin var upp og var alveg laus við alla gagnrýni á það sem var í gangi. Í raun var það ekki fyrr en snemma árs 2008 að það læddist að manni grunur, eins og mörgum öðrum, um að ekki væri allt með felldu, eftir síendurtekin áhlaup bankanna á krónuna.
Eflaust átti ég samt að gefa meiri gaum að varnarorðum erlendra sérfræðinga. Stjórnvöld hérlendis sem og stjórnendur og talsmenn sértrúarsöfnuðarins voru engu að síður dugleg við að ráðast á viðkomandi gagnrýnanda, hvort sem það var á málefnalegan hátt eða ekki, allt til að halda uppi þessari tálsýn. Reykur og ljós, skuggamyndir og sjónhverfingar voru gott sem orðnar að iðngreinum innan þessa söfnuðar.
Ég hef ekki lesið skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Ég vil helst ekki gera það, þær fréttir sem hafa borist af efni hennar er í raun alveg nóg fyrir mig. Meira þarf ég ekki að vita, enda löngu hættur að botna í öllu því sem virðist hafa gengið hjá þessum undarlega söfnuði. Mig grunar þó að ég megi þakka fyrir miskunnsemi þá sem Lovecraft minnist á í upphafi sögunnar Call of Cthulhu.
Bækur | Föstudagur, 21. maí 2010 (breytt kl. 19:54) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hversu oft á meðan góðærinu stóð voru fréttir stöðvaðar, af því þær voru óheppilegar fyrir eigendur og vini þeirra? Hversu margar fréttir birtust aldrei fyrir augum almennings? Hvernig stendur á því að ennþá er haldið hlífiskildi yfir því fólki sem á hvað mesta sök í hruninu hérna? Ég held, að til þess að komast að sannleikanum þurfa blaðamenn og fleiri að rannsaka þetta sjálfstætt og birta á netinu, helst á þeirra eigin bloggsíðum.
Bloggið er opið öllum og getur hver sem er skrifað skoðanir sínar á mönnum og málefnum umbúðalaust. Reyndar heyrir maður öðru hvoru af því að bloggum hafi verið lokað vegna öfgakenndra skoðana sem þar koma fram, en þeim pennum er viðhalda slíkri ritstefnu er frjálst að opna annað blogg annars staðar þar sem meira umburðarlyndi er gagnvart ólíkum skoðunum.
Við skulum nefnilega ekki gleyma að við búum ennþá í samfélagi þar sem er skoðanafrelsi, mál-, funda-, prent- og trúfrelsi, þó svo það séu hópar í samfélaginu sem vilja helst skerða þessi mannréttindi okkar. Við þurfum að halda þeim á lofti, sérstaklega á þessum tímum því við hljótum að vilja fá allt upp á borðið og tryggja að svona fari ekki aftur. Til þess að geta lært af þessari reynslu þurfum við að þekkja hvernig í pottinn var búið. Og nú er komið í ljós, svo um munar og skildi einhvern ekki hafa rennt í grun um að svona væri komið fyrir fjölmiðlum landsins, að þeir eru allir ofurseldir eigendum sínum og ganga erinda þeirra. Er mark takandi á slíkum fjölmiðlum?
Íhugar málsókn gegn Kastljósi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Þriðjudagur, 16. desember 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar