Færsluflokkur: Bækur

Um ábyrgð einstaklinga

Í litlu afmælishófi sem ég hélt á þriðjudaginn, spannst umræða um það vald sem konur hafa í kynferðismálum. Sitt sýndist hverjum, sumum þótti það vera ægivald á meðan aðrir voru á því, að konur þyrftu að hafa einhverja leið til að koma umkvörtunum sínum í þessum efnum á framfæri. Ég geri mér grein fyrir að ég er að feta býsna þrönga slóð með því að koma hugleiðingum mínum um þessi mál á framfæri hérna á vefnum, en það verður bara að hafa það. Ég vona bara að lesendur séu uppfullir af gagnrýnni hugsun og hafi þeir eitthvað fram að færa eða vilja ræða þetta málefni í framhaldi af lestrinum, væri ég þakklátur fyrir að sú umræða færi fram á eðlilegu, vitrænu plani en ekki í formi upp- eða úthrópana eða þaðan af verra.

Ég held, að sú upplýsing sem hefur orðið í samfélaginu er varðar kynferðismál sé að mestu leyti af hinu góða. Um leið og samfélagið hefur þurft að horfast í augu við, að sumir meðlimir þess ganga ekki alveg heilir til skógar að því leyti, þá hefur sú umræða sem hefur skapast í kringum þetta gert fjölmörgum konum og körlum kleift að stíga fram og segja sögur sínar. Sumar hverjar eru hræðilegar og lýsa ótrúlegri illsku og getur maður ekki annað en fundið til með þeim einstaklingum. Sögur af ungum drengjum sem misnotaðir voru á fósturheimilum, stúlkum misnotuðum af einhverjum úr fjölskyldunni eða konum sem nauðgað hefur verið í bænum, allar eru hver um sig harmsaga og hafa slíkir atburðir mikil áhrif á líf þeirra sem koma við sögu hverju sinni. 

Allar þessar upplýsingar, sögur og umræður hafa þó einnig leitt til þess, að maður er í dag mun meðvitaðri um allt það sem maður gerir, segir eða gefur í skyn á einhvern hátt. Eflaust er það af hinu jákvæða, en ég held, að slík ofurmeðvitund geti og hljóti að vera af hinu verra til lengri tíma litið. Fyrr eða síðar, mun það verða til þess að samskipti manna á milli verða heft eða bæld umfram það sem góðu kann að gegna. 

Ég starfaði sem kennari í nokkur ár. Karlkynskennarar í unglingadeild þurfa að búa við það á hverjum degi, að kenna unglingsstelpum sem margar hverjar eru að uppgötva kynferðislegu hlið sína, klæða sig eftir því (stundum frekar frjálslega) og er hegðun þeirra oft á tíðum frekar kynferðisleg. Sumar þeirra prófa sig áfram í daðri og þess háttar á kennurum sínum. Ég ræddi þessi málefni stundum við deildarstýruna og sagði hún m.a. að hættan væri sú, og hún er mjög raunveruleg í huga manns þegar svona stendur á, að þessar stúlkur mis- eða rangtúlki hvaða gerðir manns sem er, klapp á bakið getur í þeirra huga orðið viðreynsla eða kynferðisleg áreitni, t.d. man ég eftir karlkynskennara sem kenndi mér í unglingadeild sem hafði mikla líkamlega nærveru, þ.e. hann lagði oft hönd á bak manns eða öxl þegar hann var að leiðbeina manni og var fyrir vikið uppnefndur perri af nemendum. Ef kvenkynsnemandi sakar karlkynskennara um kynferðislega áreitni, er kennarinn í raun sekur þar til hann er fundinn saklaus, því miður. Þessi ógn, þetta ægivald sem kvenkynsnemendur hafa, er raunverulegt og mjög ógnvekjandi. 

Nú er ég ekki að gera lítið úr þeim tilfellum sem hafa komið upp og reynst hefur að raunveruleg kynferðisleg áreitni hefur átt sér stað. Ég vil alls ekki að það skiljist þannig. Hins vegar hef ég lent í því, að nemandi hafi hótað að kæra mig fyrir kynferðislega áreitni og það var eingöngu fyrir, að biðja viðkomandi um að mæta klædda siðsamlega í skólann. Nemendur vita, að mínum dómi, af þessu vopni sínu og virðast óhræddir við að hóta því að beita því. Ég veit ekki hvernig viðkomandi nemandi talaði um mig við vini sína eftir þetta, eða foreldra, hvort ég hafi verið úthrópaður perri eða þaðan af verra. 

Ég held, að konur (og jafnvel karlar líka) viti af þessu valdi sínu, líkt og nemendurnir í ofangreindri frásögn. Mörk hvers og eins fyrir því hvað er kynferðislegt eru ólík og þar af leiðir getur einfalt klapp á bakið orðið kynferðislegt í huga eins en aðeins verið hugsað sem pepp eða eitthvað svipað. Fyrir vikið er mjög erfitt að sýna fram á kynferðislega áreitni annars vegar, en jafnframt erfitt að afsanna hana. Það gleymist nefnilega stundum í allri þessari umræðu, að fólk er fljótt að dæma og hefur þróunin verið sú, að dæma í hag þeim er sakar annan um slíka áreitni. Jafnvel þó að ekkert bendi til þess að slík hegðun hafi átt sér stað, getur mannorð einstaklings verið lagt í rúst. Að sama skapi hafa konur lent í því, eflaust oftar en við sem samfélag viljum horfast í augu við, að þeim hefur ekki verið trúað og tel ég það jafn slæmt og þegar mannorð saklausra manna eru eyðilögð í annarlegum tilgangi.

Fyrir skemmstu kom þáverandi yfirmaður rannsóknarlögreglunnar í kynferðismálum fram í fjölmiðlum og talaði um, að í misbeitingarmálum væri sönnunarbyrðin enn erfiðari en ella, sérstaklega í málum þar sem þolandi hefur verið útúrdrukkinn eða -dópaður, og man jafnvel ekki eftir verknaðinum. Biðlaði hann til fólks að taka ábyrgð á sér, sérstaklega þegar áfengi væri haft um hönd. Ég viðurkenni þó fúslega að hann komst einstaklega klaufalega að orði og þurfti að rýna svolítið í það sem hann sagði, til að fá þennan botn í það. Ég er hjartanlega sammála honum. Ég held, að fólk, bæði karlar og konur, geti með ábyrgðarfullri hegðun komið í veg fyrir að því sem nauðgað, það rænt eða jafnvel komist hjá barsmíðum og líkamsmeiðingum. Það hlýtur að liggja í augum uppi, að hver og einn einstaklingur þarf að taka ábyrgð á sjálfum sér. Þó svo að ábyrgð geranda sé alltaf alger, þá verður fólk að geta horfst í augu við þá staðreynd, að hægt hafi hugsanlega verið að koma með einhverjum hætti í veg fyrir viðkomandi atburð. 

Ábyrgðin nær jafnvel enn lengra, við þurfum að vera meðvituð um allt það er við gerum, segjum eða gefum í skyn. Það má þó ekki vera þannig, að sú ábyrgð nær bara til karlmanna. Konur sem ákveða að fara að skemmta sér í miðbæ Reykjavíkur, klæddar eins og Britney Spears í myndbandinu Toxic, eru að einhverju leyti að kalla á athygli. Og hvað er þessi athygli reynist einmitt ekki rétta athyglin? Heldur af mun neikvæðari toga? Að sama skapi þurfa karlmenn að bera ábyrgð á því, að haga sér skynsamlega, þrátt fyrir að standa frammi fyrir slíkum kvenmanni. Sem sagt, ábyrgðin er okkar allra og hver þarf að standa skil á sínu. 

Í dag hafa konur þetta vald yfir karlmönnum, á því held ég að leiki enginn vafi, að geta úthrópað þá sem perra eða þaðan af verra, fyrir sakir sem eru ýmist sannar eða ósannar. Að sama skapi hafa karlmenn enn líkamlegt vald yfir konum, margir þeirra hafa lært að nútímakonur fíla ekki að vera lamdar í hausinn með kylfu og dregnar heim í helli á hárinu. Þetta vald þarf að höndla á skynsamlegan og uppbyggilegan máta. Gallinn er hins vegar sá, að allt vald spillir. Karlmenn hafa kúgað konur í aldaraðir (feðrasamfélagið og allt það) en á undanförnum árum hafa konur sífellt öðlast meira og meira vald. Í dag hafa þær m.a. þetta vald, sem karlmönnum stendur mikil ógn af, því erfitt er að hreinsa sig af slíkum ásökunum. 

Auðvelt er að segja, að konur myndu aldrei misnota þetta vald og með því að segja slíkt, að það feli í sér kvenfyrirlitningu. Ég tel það rangt, rétt eins og örlítill hluti karlmanna vílar ekki fyrir sér að nota líkamlegt vald sitt yfir konum, þá hljóta að vera konur þarna úti sem víla ekki fyrir sér að nota það vald sem felst í slíkri úthrópun. Það er nefnilega misjafn sauður í öllu fé, óháð kyni, aldri, stöðu og reynslu. Rétt eins og með nemendur, þó svo langflestir séu skynsamir einstaklingar, eru alltaf undantekningar. Þegar karlkynskennarar reikna með því, að þær undantekningar séu til staðar í hverjum árgangi, felur það í sér nemendafyrirlitningu? Ég held ekki, heldur aðeins viðbrögð og forvarnir til að koma í veg fyrir annars leiðindamál. 

Og það er einmitt það sem allir þurfa að taka til sín, hvort sem það eru karlar eða konur. Við þurfum að bera ábyrgð á okkur, bregðast rétt við og reyna að koma í veg fyrir að aðstæður komi upp sem við viljum síður lenda í. Ef þær koma upp, er tilkynningaskylda vissulega fyrir hendi og ég tel að ekkert megi koma í veg fyrir hana. 

Að lokum, vil ég undirstrika, að ég tel að þolendur eigi aldrei sök á nauðgunum, misbeitingu eða öðrum þeim atburðum er kunna hafa hent þá. Það getur enginn borið ábyrgð á slíku annar en gerandi. Í þessum pistli er ég frekar að fjalla um annars vegar ábyrgð þá sem hvert okkar ber á okkur sjálfu og því valdi sem við höfum. 

 


Hringadróttinssaga hin íslenska

,,...One Ring to rule them all, One Ring to find them,
One Ring to bring them all and in the darkness bind them.."

Manni er eiginlega hætt að blöskra við að horfa á og lesa fréttir nú til dags. Sorinn og vitleysan sem fljóta upp á yfirborðið á hverjum degi eru orðin svo yfirgengileg, að það nær ekki nokkurri átt. Mér líður stundum eins og ég sé staddur í hrollvekju og bíð einhvern veginn eftir því að öll þessi vitneskja renni saman í eina risastóra heildarmynd, sem muni að lokum gera alla þá sem sjá hana geðveika. 

Undanfarna daga hefur verið fjallað um málefni starfsfólks gamla Baugs, sem fékk víst samanlagt einn milljarð að láni, til kaupa á bréfum í félaginu sjálfu. Samkvæmt því sem starfsfólkið segir, þá voru víst einu veðin fyrir lánunum bréfin sjálf (saga sem við höfum heyrt býsna oft í eftirmálum hrunsins) og má reikna með að þetta hafi allt saman verið kúlúlán til 40 ára eða jafnvel lengur. Skiptastjóri er þessu eitthvað ósammála og telur að starfsfólkið eigi að endurgreiða lánin, og sér þetta blessaða fólk nú fram á gjaldþrot vegna þessa. 

Það sem furðar mig í þessu öllu saman er þetta: Fékk starfsfólkið bréfin því á lánum, sem engin veð voru í önnur en bréfin sjálf, lán sem þau sáu eflaust aldrei fram á að endurgreiða en hirtu af allan arð? Í mínum huga heitir þetta bara að fá eitthvað gefins og eftir því sem ég kemst næst, þarf að greiða skatt af þess háttar gjöfum. Veit ekki hvort þetta fólk gerði það. 

Ég skil ekki, ef starfsfólkið hefur fengið arð greiddan af bréfunum (sem án efa hefur ekki verið lítil upphæð, enda hef ég á tilfinningunni að Jón Ásgeir hafi ekki sætt sig við lágmarksarðgreiðslur hverju sinni) af hverju það nýtti ekki arfinn til að gera upp lánin eða greiða inn á þau? Ef raunin er sú, að þetta starfsfólk hefur tekið arðinn og stungið honum í vasann, sem ég leyfi mér í fordómum mínum að gera ráð fyrir, af hverju ætti hið sama fólk ekki að bera neina ábyrgð á umræddum lánum? Það skrifaði upp á lánin, hirti ágóðann en ætlar síðan ekki að bera ábyrgð á þeim og kvartar undan því að hugsanlega verði það gjaldþrota ef gengið er eftir því fé sem lánað var. 

Snúum þessu upp á venjulegan skuldara, t.d bara sjálfan mig. Ég tók húsnæðislán í banka árið 2006 með veði í fasteign. Gefum okkur að bankinn hafi farið á hausinn (sem hann reyndar gerði), sama ár hefði fasteignin brunnið og væri ónýt. Hefði skiptastjóri innkallað þetta lán mitt í framhaldi af gjaldþrotinu. Hefði honum nægt að heyra, að hann mætti eiga fasteignina, sem væri lítið til einskis virði? Nei, ég hugsa að ég hefði verið eltur út fyrir gröf og dauða til að ná aftur þeim fjármunum sem bankinn hefði lánað mér. 

Það er ekki sama hvort er, Jón, Séra Jón eða Jón Ásgeir. Er ekki löngu kominn tími til að við sitjum öll við sama borð? Lán sem eru tekin, með veðum eða án veða, hljóta að vera á ábyrgð þeirra sem þau taka. Viljum við ekki að hver einstaklingur, félag eða fyrirtæki, taki ábyrgð á sér og sýni ábyrgðarfulla hegðun? Ef þú tekur lán upp á mörg hundruð milljónir, sama hvað veð liggur að baki, þú hlýtur að gera þér grein fyrir því, að það þarf að greiðast aftur á endanum. Og ef þú getur ekki greitt það, þá er bara eitt sem bíður þín. Gjaldþrot. 


Vandræði kirkjunnar

Þjóðkirkjan, líkt og svo margar aðrar stofnanir í samfélaginu í dag, á í vök að verjast. Hart er sótt að henni úr ýmsum áttum; mótmæli vegna tengsla hennar við ríkisvaldið, kynferðisbrotamál og nú síðast ummæli presta um þagnarskylduna. Í öllum þessum málum finnst mér kirkjan vera sjálfri sér verst, bæði virðast talsmenn hennar ekki nægilega vel skólaðir í framkomu í fjölmiðlum og hafa því miður lítið annað sagt en það sem virðist ýta að miklu leyti undir enn frekari óánægju.

Svona áður en lengra er haldið með þessa umræðu, þá finnst mér rétt að hafa nokkra hluti á hreinu. Fyrir það fyrsta, þá er ég trúlaus og ekki skráður í neitt trúfélag. Ég hef samt ekkert á móti trúarbrögðum, finnst reyndar mikilvægt að þau séu til staðar í samfélögum, þó svo ég hafi ekki þörf fyrir þau persónulega (rétt eins og það er þörf fyrir samgöngur með skipum, þó ég forðist eins og heitan eldinn að stíga um borð í slík farartæki). Ég er fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju, en fyrst og fremst á þeim forsendum, að ég tel að í landinu eigi að ríkja trúfrelsi og ríkisvaldið megi ekki, þrátt fyrir sögu, menningu og önnur rök, gera einu trúfélagi hærra undir höfði en öðrum. Með þessa fyrirvara í huga, lesist framhaldið. 

Þjóðkirkjan er býsna gömul stofnun. Siðaskipti urðu hér 1550 (óháð því hvað margir kristnir menn virðast halda, þá hefur lútherskur siður ekki verið hér við lýði í 1000 ár, heldur aðeins 460 ár, sem er skemur en sá kaþólski var við lýði) og má segja að hér hafi ríkt einn siður fram á 20. öld. Þá breyttist samfélagið, upplýsingar um önnur trúarbrögð urðu aðgengilegri og ýmsir sértrúarsöfnuðir, hvort sem þeir voru kristnir eða annarrar trúar, komu til sögunnar. Það má því segja, að með breyttri samfélagsgerð hafi trúarlíf landsmanna breyst og Þjóðkirkjan gefið eftir. Skilst mér að kaþólski söfnuðurinn sé sá næst stærsti hérlendis, en um 75-80% landsmanna séu skráð í Þjóðkirkjuna. Hlutfallið hefur því lækkað um a.m.k. 1/5 á síðastliðnum 100 árum. Það ber þó að taka fram, að skráning einstaklinga í Þjóðkirkjuna er sjálfvirk og segja þessar tölur því ekkert um fjölda þeirra sem trúa á Guð og iðka þá trú sína innan Þjóðkirkjunar. 

Eins og flestir vita, þá hefur kirkjan verið mikið í fréttum undanfarið vegna málum tengdum kynferðisbrotum, fyrst var þáverandi biskup sakaður um kynferðisofbeldi, loks sóknarpresturinn á Selfossi sakaður um ósiðlega tilburði gagnvart stúlkum og nú hefur Reykholtsklerkur stigið fram með þá skoðun sína að þagnarskylda presta sé landslögum æðri, hvort sem um ræðir smávægilegar syndir eða miklar. Í öllum þessum tilfellum hafa prestar verið duglegir við að gagnrýna hverjir annan og ef glögglega er rýnt, sem og tekið mið af fréttum af kirkjuþingum, má sjá að kirkjan er í raun klofin að innan. Í henni takast á valdablokkir, íhaldssemi á móti hófsemi og svo þeir sem standa mitt á milli. 

Þjóðkirkjan stendur á miklum krossgötum. Samfélagið hefur þróast, vaxið og dafnað, en kirkjan, sem í eðli sínu er íhaldssöm, hefur setið eftir og er í raun að úreldast. Viðhorf sem voru gjaldgeng fyrir 100 árum eru ekki viðurkennd í dag. Jafnvel Gunnar í Krossinum hefur séð villu sína og viðurkennt að hafa farið offari gegn samkynhneigðum í umfjöllun sinni um þá. Kirkjuþing felldi tillögu um áréttingu á tilkynningarskyldu presta í barnaverndarmálum árið 2007. Hvað segir það manni? Er Reykholtsklerkur bara talsmaður stórs hóps presta? Eru þeir kannski margir þeirrar skoðunar að ekki eigi að uppljóstra um brot gegn börnum sem viðmælendur þeirra treysta þeim fyrir, af því þagnarskyldan er æðri landslögum? 

Til að Þjóðkirkjan geti með réttu kallað sig það, verður hún að taka mið af því hvernig þjóðin er hverju sinni, hver þjóðin er hverju sinni og hvert þjóðin stefnir hverju sinni. Án þess að vera samnefnari þjóðarinnar, vera henni til fyrirmyndar og bjóða einmitt upp á allan þann kærleik sem Kristur kenndi, er Þjóðkirkjan kirkja útvalinna og tekur aðeins mið af gildum, viðmiðum og skoðunum þeirra. Þjóðin er breytt, hún er ekki eins og fyrir heilli öld. Sérstaklega á þessum tímum, þar sem reiði, úthrópanir og neikvæðni tröllríða öllu, er mikilvægt að kirkjan sé samnefnari alls þess besta sem kristni hefur upp á að bjóða, ef hún á að lifa af sem Þjóðkirkja. 

Prestar í Þjóðkirkjunni, líkt og starfsmenn margra ráðuneyta og stofnanna, þurfa að taka til í sínum ranni. Forsvarsmenn þurfa að vera hafnir yfir vafa, talsmenn þurfa að geta komið skilaboðum sínum áleiðis með réttum og skilmerkilegum hætti og starfsmenn þurfa að vera traustsins verðir. Svarta sauði þarf að flokka frá fénu. Það þarf að fara fram hreinsun, út með það gamla og inn með það nýja. Ef Þjóðkirkjan ræður ekki við það verkefni, er ég hræddur um að bæði munu margir skrá sig úr kirkjunni sem og verður krafan um aðskilnað enn háværari. Gangi hvort tveggja eftir, eru dagar Þjóðkirkjunnar þá ekki taldir? Og er það af hinu góða?


Lággjaldaflugfélag?

Ég kom heim frá Tenerife á mánudagsmorgun, eftir 2 vikna frábæra dvöl þar. Það eina sem setti blett á þessa skemmtilegu ferð var það að þurfa fljúga þangað út og heim aftur með lággjaldaflugfélaginu Iceland Express. Þvílíkt og annað eins rusl fyrirtæki! Ég hef flogið nokkuð víða og með nokkrum mismunandi flugfélögum, m.a. Aeroflot, en aldrei nokkurn tíma komist í kynni við jafn skelfilega lélega þjónustu og slappt flugfélag og Iceland Express. Fyrir þessari úthrópun minni eru nokkrar ástæður og mun ég fara yfir þær, hverja fyrir sig.

1. Þegar við lögðum af stað, var 5 tíma seinkun á vélinni. Þetta var á sunnudegi og var flugfélagið svo rausnarlegt að bjóða hverjum farþega 1500 kr. matarmiða í matsölunni á Keflavíkurflugvelli. Ef flugið hefði verið snemma morguns, hefði þetta verið ágæt lausn, en því miður var því seinkað til kl. 20, þannig úrvalið í matsölunni samanstóð af samlokum með majónessalötum, sykruðum mjólkurdrykkjum, gosi, bjór og sælgæti (annað var einfaldlega búið). Ég var með 6 ára dóttur mína með mér og þetta er kannski ekki alveg það sem maður vill bjóða börnum upp á fyrir flug. Annars mátti maður bara bíða, því allar búðir í fríhöfninni voru lokaðar. 

2. Í ferðinni út ætlaði ég að panta mat handa okkur feðginum. Við sátum í miðri vélinni, þannig við þurftum að bíða í hálfan þriðja klukkutíma eftir að flugfreyjurnar kæmu með matarvagnanna til okkar. Þegar loks kom að okkur þá pantaði ég úr bæklingnum þeirra, en hvorugt var til, hafði ekki verið tekið með. Nú, þá ætlaði ég að panta handa okkur samlokur en þær voru búnar. Þannig við enduðum á því að borða ávexti og ég keypti auk þess flatkökur en dóttir mín vildi þær ekki. Við biðum því aukalega á flugvellinum án þess að fá almennilegan mat og fengum heldur ekki að kaupa þann mat sem á annars að vera til sölu í flugvélinni (þetta er 5 tíma flug og við vorum mætt 2 tímum fyrir brottför sem auglýst hafði verið með SMS skeyti til farþega, þegar brottfarartíma var breytt snemma morguns, en þeim tíma var síðan seinkað um klukkustund). Þrátt fyrir að hafa borðað ágætlega áður en við lögðum af stað, þá vorum við býsna svöng þegar við komum til Tenerife, klukkan 04 að staðartíma en þá voru engir matsölustaðir opnir.

3. Flugið heim var þó sýnu verra. Í fyrsta lagi var fluginu seinkað um hálfa aðra klukkustund, án skýringa frá starfsfólki. Þær skýringar voru þó fyrir hendi í fyrra fluginu.

4. Við komum frekar seint um borð, enda leiðast mér langar biðraðir og sérstaklega ef þær samanstanda af Íslendingum. Let's face it, við kunnum ekki að standa í röð og berum litla virðingu fyrir þeim. Ég, enn með dóttur mína, leitaði að bæði kodda og teppi fyrir hana, svo hún gæti sofið á leiðinni (flugið lagði af stað um miðnætti) en sá hvergi. Aðeins voru örfáir farþegar með slíkt og þegar ég spurði flugfreyju um þetta, svaraði hún því til að fyrstir kæmu, fyrstir fengu. Ég spurði hvort börn og gamalmenni gengu ekki fyrir, fyrst ekki væri nóg fyrir alla. Flugfreyjan svaraði því til, að hún ætlaði ekki að fara ganga á fólk og taka teppin og koddana af þeim. Henni hefur eflaust þótt betra að hafa grenjandi börn og pirraða foreldra.

5. Flugferðin var frekar bumpy, ef svo mætti að orði komast. Sætisbeltaljósið var á svona 80% prósent af tímanum, með tilheyrandi vanlíðan af hálfu þeirra sem þola slíkt illa, t.a.m. hljóðaði fólk oftar en einu sinni þegar flugvélin skoppaði til og frá í loftinu. Systir mín er ein þeirra sem er mjög flughrædd. Eitt sinn er kveikt var á sætisbeltaljósinu, gengu flugfreyjurnar til að kanna hvort allir væru ekki örugglega með beltin spennt. Segir þá ein kona í sætaröðinni fyrir aftan okkur, að það sé óþarfi að spenna beltin svona í tíma og ótíma (eitthvað orðin pirruð á þessu). Svarar þá flugfreyjan því til, að ekki sé hægt að sjá fyrir hvað gæti komið fyrir, flugstjórinn gæti misst stjórn á vélinni og þá væri voðinn vís. Systir mín tapaði sér næstum af hræðslu við að heyra slíkar yfirlýsingar frá flugfreyjunni. Engin þeirra í þjónustuliðinu gekk um vélina til að róa farþega og aðeins heyrðist einu sinni í flugstjóranum, þar sem hann sagði að við þyrftum að fara í gegnum fleiri slíkar ókyrrðir. Myndi maður ekki ætla að það væri hlutverk þessara aðila að róa og tryggja að farþegum líði vel?

6. Mér var orðið frekar illt í maganum og bað flugfreyju um að færa mér vatn með klaka, þar sem mér finnst ágætt að sjúga klaka þegar svo er. Nei, það var ekki hægt, þar sem klakarnir væru allir bráðnaðir og aðeins hefðu verið teknir með 4 pokar af klökum frá Íslandi. Nú fór það ekki framhjá mér á Tenerife, en þar eru líka framleiddir klakar, þannig vel hefði mátt hugsa fyrir þessu, þar sem töf var hvort eð er orðin á brottför flugvélarinnar. Kannski bara óþarfa frekja í mér.

7. Dóttir mín fékk illt í eyrun á leiðinni út þannig ég var búinn að heyra frá Íslandi gott ráð við því á leiðinni heim, þ.e. að setja blautan pappír í botn tómra glasa og leggja yfir eyrun, það myndi minnka þrýstingin á þau. Ég tók glös með mér úr flugstöðinni og bað flugfreyju um að útvega mér blautan pappír. Í fyrstu horfði hún á mig og sagði: Blautan pappír? Áttu ekki til blautan pappír fyrir mig, svaraði ég, orðinn mjög pirraður. Hún sagði ég gæti farið inn á klósett og bleytt pappír þar, en því miður var kveikt á sætisólaljósinu. Ég útskýrði fyrir henni hvers vegna ég þyrfti blautan pappír og þá fyrst gat hún drullast til að redda þessu fyrir mig.

8. Allt gos kláraðist í fluginu á leiðinni heim, þannig aðeins var vatn í boði (ekki svo að skilja ég hafi eitthvað á móti vatni, þvert á móti, bara til að benda á fleiri atriði sem ekki voru í lagi í þessu flugi).

Nú auk þess væri hægt að tala um þrengslin í flugvélum þeirra, en mér finnst það bara vera hluti af því að ferðast með lággjaldaflugfélagi. Reyndar var það svo, í seinna fluginu að farþegar voru mjög pirraðir og heyrði ég oftar en einu sinni og oftar en tvisvar fólk rífast um hvort það væri hægt að halla sætum aftar og hvort það mætti.

Ef um alvöru lággjaldaflugfélag væri að ræða, þ.e. flugfélag sem býður upp á ferðir sem eru 30-50% ódýrari en hjá venjulegum flugfélögum, þá hefði ég ekkert út á þetta að setja. Flugferðin til Tenerife var hins vegar mjög dýr og almennt séð fæ ég ekki séð hvers vegna Iceland Express kallar sig lággjaldaflugfélag, þar sem verðmunur á þeim og Icelandair er ekki svo hróplegur (nema í einstökum tilfellum, t.d. sérstökum tilboðum á móti venjulegu sæti). Í raun er því þetta enn eitt dæmið um það þegar verið er að taka íslenska neytendur í bólinu.

Ég mun aldrei aftur, ótilneyddur, fljúga með Iceland Express. Þó ekki væri nema fyrir tilsvör flugfreyjunnar um ókyrrðina og nauðsyn sætisbelta, sem að mínu viti er brottrekstrarsök. Að láta farþegum sem líður illa fyrir líða enn verr, gengur svo ótrúlega gegn starfsviði flugfreyja að viðkomandi ætti að sýna sóma sinn í því að stíga ekki aftur upp í flugvél í því hlutverki. Ég hvet auk þess alla til að sniðganga þetta flugfélag, a.m.k. þangað til að þeir rísa undir nafni og bjóða ferðir á verði sem kallast getur lággjalda.  


Af góðum fréttum og fyrirætlunum

Það styttist sífellt í sumarfríið. Mikið er ég farinn að hlakka til að komast aðeins frá tölvunni, út, drekka bjór, veiða lax og lesa fullt af bókum. Njóta þess að vera með Urði og geta hreinlega gert það sem okkur langar til að gera. Annars hefur þessi mánuður verið alveg einstaklega góður, ég hef fengið alveg fullt af góðum fréttum og standa þó tvær alveg sérstaklega upp úr.

Í fyrsta lagi, þá var hringt í mig á mánudaginn fyrir viku síðan og mér tjáð, að ég hefði unnið smásagnasamkeppni. Vikan ákvað að halda ástarsagnasamkeppni og þó ég sé ekki beinlínis að skrifa þess háttar bókmenntir ákvað ég að senda inn sögu, þar sem ást tveggja einstaklinga kemur við sögu. Og viti menn, hún var talin best. Ég hafði í mesta lagi gert mér vonir um að fá birtingu í Vikunni, alltaf gott að fá eitthvað birt, en sagan féll dómnefndinni greinilega í geð. 

Ég var varla farinn að snerta jörðina eftir þessar fréttir þegar Ástrós, systir mín, og Hugi, kærasti hennar, ákváðu að bjóða mér og Urði til Tenerife í heila viku. Ég varð hreinlega orðlaus yfir góðmennsku þeirra og örlæti. Fyrir vikið hætti ég við að fara á Þjóðhátíð en er í staðinn á leið til Kanarí að sleikja sólina, leika mér í vatnsrennibrautagörðum, drekka bjór á ströndinni og njóta lífsins. 

Nú, síðan ákvað ég að hætta rembast í fótboltanum, er hvort eð er aldrei valinn í lið, sem er þó í 3. deild og neðst í sínum riðli síðast þegar ég vissi, sem ætti nú að segja sitthvað um hæfileika mína í þessari íþrótt. :D Þess í stað fer ég á hverjum degi og syndi 1 km. Ætlunin er að reyna vinna eitthvað á þessu sixpacki sem flúði fyrir löngu og í staðinn kom tunna sem er ekki alveg jafn vinsæl. Nú skal þó tekið á því og það kemur mér á óvart, hvað mér þykir þetta ekki leiðinlegt...amk. ekki jafn leiðinlegt og að fara út að skokka. Hugsanlega spilar það inn í, að geta sest í pottinn á eftir og skoðað ... mannlífið ;)

Annars er ég bara farinn í sumarfrí næsta föstudag og ætla mér að halda mig frá tölvum í þennan mánuð, amk. eins mikið og ég get. Sjáum til hversu vel það gengur :)


Landsins stærsti drullupollur

Um helgina skrapp ég niður í bæ og fékk mér ís. Síðan fór ég í göngutúr í kringum tjörnina, svona eins og gengur og gerist. Ég man þegar ég var yngri fór pabbi oft með okkur systkynin niður að tjörn á sunnudagsmorgnum og gáfum við öndunum brauð. Síðan var farið í morgunkaffi til ömmu heitinnar. Mig grunar að þetta hafi verið nokkurs konar samkomulag milli foreldra minna, þ.e. mamma fékk að sofa út á meðan við fórum með pabba. Ég minnist þessara stunda þó með ánægju og hlýju enda var pabbi oft mikið að vinna á þessum árum, bæði sína venjulegu vinnu sem og að spila á föstudags- og laugardagskvöldum. Þarna gafst okkur systkynunum því tækifæri til að vera með honum.

Þó svo við höfum oft verið komin býsna snemma niður að tjörn var það sjaldan svo, að við værum ein á ferð. Fjölmargir lögðu leið sína þangað til að fæða endurnar, sem hópuðust að horninu við Iðnó, gaggandi og ruddust hver fram fyrir aðra með tilheyrandi látum. Stundum voru þær svo svangar að þær átu beint úr lófa okkar.

Ég hef einu sinni farið með Urði þangað niður eftir í veikri von um að endurupplifa þessar sunnudagsferðir með pabba. Því miður flúðum við frá tjörninni, ekki undan öndunum heldur undan mávum hvers konar. Þá reyndi ég að telja sjálfum mér trú um, að þetta væri bara tímabundið ástand, eflaust lítið af fæði í sjónum fyrir mávana.

Um helgina blöskraði mér sú sýn sem mætti mér niðri við tjörn. Þessi staður, sem annars gæti verið hin mesta prýði, birtist mér sem heljarinnar drullupollur. Sólin skein og í bjartviðrinu sá maður vel til botns. Ruslið og draslið sem er þarna er svo yfirgengilegt að ég á fá orð til að lýsa hneykslan minni. Auk þess hefur mávum fjölgað þar svo um munar og ég sá ekki nema eina önd með unga, annað virðist mávurinn hafa étið. Einnig voru mávarnir svo aðgangsharðir og frekir við þá örfáu sem mætu með brauð, að það var ekki lifandi leið fyrir endurnar að komast að brauðinu. Ég prísaði mig sælan að mávarnir skyldu ekki drita á mig.

Mér finnst það vera nauðsynjaverk borgaryfirvalda að hreinsa tjörnina og fjarlægja mávana. Það er skelfilegt til þess að hugsa, að þessi annars skemmtilegi staður skuli hafa verið hertekin af þessum fljúgandi rottum og ekkert skuli vera gert til að stemma stigu við það. Bæði er hægt að skjóta varginn sem og eitra fyrir honum. Það hlýtur að vera borginni til gagns og íbúum hennar til gamans, að tryggja að tjörnin fái notið sín og sá skemmtilegi siður að gefa öndunum brauð leggist ekki niður.


Sólardagar

Við Urður skelltum okkur í sund í gær. Laugin var smekkfull af fólki og ég kom mér fyrir sólbekk skammt frá laugarbarminum á meðan hún lék sér í vatninu. Sólin skein og fólkið sem þarna var reyndi að njóta hennar sem allra best, m.a. með því að smyrja á sig hvers kyns kremum og olíum sem tryggja átti stórkostlegan brúnan og gylltan húðlit.

Sumarið hérna á Íslandi er alveg yndislegt. Þegar allt er orðið vel grænt, sólin farin að skína og hitinn kominn yfir 10 gráðurnar. Þá vaknar í manni þessi þrá, að komast út fyrir bæinn og slaka á í tjaldi eða við einhverja á eða vatn.

Þar sem ég lá á laugarbakkanum fann hve mig er farið að langa í sumarfrí. Sem betur fer eru ekki nema 2 vikur þangað til það hefst og við Urður ætlum að fara hringinn í kringum landið áður en skólinn hefst hjá henni. Planið er, að fara þetta bara í rólegheitum og reyna njóta þess að vera túristar á Íslandi, skoða svolítið vel í kringum okkur og gleyma svolítið hverdagsleikanum. Ég var jafnvel að spá í, að reyna komast í hvalaskoðun með henni. Síðan er ætlunin að láta hana hafa landakort þar sem hún getur merkt inn á hvar við erum hverju sinni, þannig hún læri nú eitthvað örlítið í leiðinni hvaða staðir eru hvar á landinu.

Ég hlakka mjög til að geta farið í þessa ferð með henni. Það er alltaf gott að komast aðeins út úr hinum fastmótaða hversdagsleika og gera eitthvað allt annað, eitthvað sem við erum ekki vön að gera. Bara flakka um landið með tjald og grill, lesa á kvöldin og skemmta okkur. Ég held að þetta verði mjög gaman.  


Naflaskoðun

 Á kvöldin finnst mér oft fínt að fara út að hjóla. Bruna niður Elliðaárdalinn, framhjá laxveiðimönnum, bleikum, brúnum og gráum hestum og tugum marglita kanína sem skoppa þar áhyggjulausar fram og aftur. Maður verður einhver veginn minna var við borgina, hún fjarlægist þrátt fyrir ég sé staddur í henni miðri og einmitt á þeim stundum finnst mér gott að hugsa.

Undanfarnar vikur hef ég stundað mikla naflaskoðun. Pælt í því hver ég sé, hvers vegna ég er eins og ég er og hvernig ég vil vera. Sumar af þeim hugleiðingum mínum hef ég birt hér á blogginu enda finnst mér mjög þægilegt að hugsa niður á blað, ef svo mætti að orði komast. Það kemst meira skipulag á pælingarnar og mér finnst líklegra að þannig skili þær mér einhverju.

Í kvöld fór ég í hjólatúr í úða og smá golu. Ég fór minn venjulega hring og fór að hugsa um, hvers vegna mér gengur illa að láta samböndin mín ganga upp. Það virðist vera mér erfitt að láta alla þessa litlu hluti smella saman. Ég þaut áfram á hjólinu og fór í höfðinu yfir öll þau sambönd sem má flokka sem alvarleg og reyndi að sjá hvað þau áttu sameiginlegt, eða öllu heldur, hvað fór úrskeiðis, yfir hverju kærusturnar kvörtuðu helst og hvar ég klikkaði. 

Það atriði sem kom hvað oftast upp var nánd. Ég á mjög erfitt með nánd og held fólki undantekningalítið í fjarlægð frá mér. Mig grunar að það komi líka oft út sem hroki, þó svo það sé ekki hugsað þannig. Mér finnst, einhverra hluta vegna, erfitt að hleypa fólki mjög nærri mér og hef auk þess sjálfur litla þörf fyrir nánd. Hugsanlega mætti segja að ég væri haldinn nándarfælni. Barnsmóðir mín var vön að segja að ég væri félagsfælinn. Mér finnst ekkert erfitt að sýna dóttir minni nánd, tilfinningar eða slíkt, en ég lendi í vanda með aðra. Þetta kemur eflaust út sem mikill kuldi, því ég sýni sjaldan hluttekningu, samúð eða slíkt. Ekki af því ég finn ekki til með fólki, heldur á ég bara erfitt með að tjá slíkar tilfinningar. Mér finnst ég hljóma undarlega, falskur og asnalega þegar ég reyni. 

Ég hef stundum velt þessu atriði fyrir mér, enda hefur þetta oft komið upp í mínum samböndum. Ég get orðið mjög kaldur, ætli rétta orðið sé ekki fráhrindandi, og innhverfur (ekki einhverfur!). Suma daga finnst mér bara betra að fá að vera í friði og pæla í hlutunum. Aðra daga á ég auðveldara með að gefa af mér, sem ég stundum reyni en eflaust mætti ég gera meira af því. Að minnstu kosti hefur hún móðir mín skammað mig fyrir að vera oft of kaldur við dóttur mína. 

Annað atriði sem kemur oft upp er hve erfitt sé að rökræða (lesist rífast) við mig. Ég er mjög kappsamur og því miður hættir alltof of oft að grípa til hroka og besserwissma í rökræðum mínum við fólk. Ég reyni að gera það ekki, en geri mér oft ekki grein fyrir því fyrr en of seint, að ég hafi gert lítið úr þeim sem ég rífst við hverju sinni. Ég hef reynt að komast hjá slíkum aðstæðum eins og mér er unnt, vegna þessa en því miður þá er það ekki alltaf hægt. 

Þriðja atriðið sem hefur títt verið nefnt er hve upptekinn ég er af sjálfum mér. Ég á mér mörg áhugamál, sem ég reyni að iðka eins vel og mér er unnt. Auk þess á ég dóttur sem ég reyni að sinna sómasamlega. Fyrir vikið hef ég ekki oft mikinn tíma aflögu fyrir kærustur og oft ekki verið tilbúinn að fórna of miklu. Hvað segir það manni? Jú, eflaust hef ég bara ekki verið nógu ástfanginn eða ég er bara svona sérstaklega sjálfselskur. Mér þykir jú vænt um áhugamálin mín og er kappsamur í þeim, eins og rökræðunum. Spurning hvort ég ætti ekki að vera jafn kappsamur í samböndunum?

Þetta er kannski ekkert sérstaklega spennandi mynd sem maður dregur upp af sjálfum sér; kaldur, fjarlægur, hrokafullur besserwisser sem hefur engan tíma fyrir neitt nema sjálfan sig. :D 

Ég held reyndar að ég hljóti líka að hafa einhverja kosti til að bera, en ætla að geyma það þar til seinna að pæla í þeim. :)


Örlítið um tilmæli

Nýleg tilmæli SÍ og FME vekja mikla furðu hjá mér, sérstaklega í ljósi þeirra raka sem þessar stofnanir nota til að réttlæta þau. Ég hreinlega skil ekki hvers vegna almenningur, heimilin í landinu fái aldrei notið vafans. Mig grunar að stjórnvöld líti á sömu augum á almenning eins og tannkremstúbu, það skal kreist og kreist, rúllað upp og beyglað til að ná hverjum einasta tannkremsdropa, í stað þess að fjölga tannkremstúbunum.

Lítum aðeins á rökin.

1. Ef samningsvextir myndu standa þyrfti að afskrifa 50-100 milljarða í kerfinu og hættan er sú, að þá þyrfti almenningur að leggja til fjármálastofnunum til nýtt eigið fé.

Í fyrsta lagi þá eru fjármálastofnanirnar að mestu leyti hlutafélög, mismikið í eigu ríkisins, sumar hverjar bara alls ekkert í eigu ríkisins. Það er auk þess hlutverk hluthafa/eigenda að tryggja fyrirtækjum nægt eigið fé, ekki almennings.

Í öðru lagi þá hafa verið afskrifaðar mörg hundruð milljarðar hjá fyrirtækjum, útrásarvíkingum og tengdum aðilum, en þegar það snýr að heimilum landsins, þá er hætta á að fjármálakerfið fari á hliðina.

Sbr: Vísir, 24. jún. 2010 11:17 - 274 milljarðar afskrifaðir
"Kaupþing fær 26 milljarða frá Tchenguiz
Skilanefnd Kaupþings fær aðgang að 137 milljónum punda eða um 26 milljörðum kr. samkvæmt samkomulagi því sem nefndin hefur gert við breska fjárfestinn Robert Tchenguiz.
Þetta kemur fram í frétt í Guardian um málið. Þessi upphæð var áður fryst inn á reikningi á eyjunni Tortóla en verður nú flutt yfir á bankareiking í London sem er á vegum skilanefndarinnar.
Robert Tchenguiz var stærsti lántakandi Kaupþings áður en bankinn féll haustið 2008. Tchenguiz hafði fengið 1,6 milljarða punda að láni frá bankanum fyrir fallið eða yfir 300 milljarða kr
."

Vísir, 11. feb. 2010 12:05 - 88 milljarðar afskrifaðir
"Skuldir Kjalars við Arion banka hafa verið afskrifaðar að nánast öllu leyti í bókum Arion banka en fyrirtækið skuldaði bankanum 88 milljarða króna á núvirði.
Samkvæmt lánabók Kaupþings banka skulduðu félög tengd Ólafi Ólafssyni alls 115 milljarða króna í september 2008.
Viðskiptablaðið greinir frá því í dag að skuldir Kjalars við Arion banka, sem voru 88 milljarðar króna, hafi nú verið afskrifaðar nánast að öllu leyti í efnahagsreikningi bankans. Áttatíu og átta milljarðar króna eru í grófum dráttum jafnvirði 2500 fjögurra herbergja íbúða á góðum stað í Reykjavík
. "

Vísir, 07. des. 2009 18:37 - 47 milljarðar afskrifaðir
"Íslandsbanki sendi í dag frá sér tilkynningu um afkomu bankans frá 15. október til 31. desember á síðasta ári. Hagnaður bankans eftir skatta nam rúmum 2,3 milljörðum króna. Í afkomutilkynningunni kemur fram að rekstrartekjur bankans, sem hafi að stærstum hluta verið tilkomnar vegna gengishagnaðar, hafi síðan verið að mestu leyti gjaldfærðar sem virðisrýrnun vegna skertrar greiðslugetu lántaka með tekjur í íslenskum krónum en lán í erlendum myntum. Þá hafi reynst nauðsynlegt að afskrifa lán um 47 milljarða vegna þessa."

2. Dómur Hæstaréttar skapaði mikla óvissu um hvernig túlka ætti gengistryggða samninga að öðru leyti.

Frank Michelssen hefur tekið saman ágætan pistil um þetta atriði.

http://www.vefblogg.com/2010/06/yfirtaka-framkvaemdavalds-a-doms-og-loggjafarvaldi/

Auk þess hafa lögfróðir menn tjáð sig um þetta atriði, þ.á m. fyrrum forseti Hæstaréttar:

Rökrétt niðurstaða í mínum huga er að upphaflegi höfuðstóllinn gildi. Það má ekki hækka hann eftir gengi gjaldmiðla og þeir vextir eiga að gilda áfram nema því aðeins að Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að það eigi að beita  einhverjum öðrum vöxtum. Þá verða fjármálafyrirtæki að fara í mál. Alþingi og ríkissjtórn geta ekki gert það,“ sagði Magnús.

Sjá: http://eyjan.is/2010/06/23/fyrrum-forseti-haestarettar-upphaflegur-hofudstoll-og-vaxtakjor-gildi/

3. Það verður að gæta sanngirni. Almannahagsmunir í húfi.

SÍ og FME rökstyðja þessi tilmæli sín m.a. með vísun í almannahagsmuni.

"Fjármálafyrirtæki geti notast við þetta viðmið, en þeim sé samt sem áður frjálst að semja við sína viðskiptavini sé þess kostur. Fylgi fjármálafyrirtæki þessum tilmælum "varðveitir það stöðugleika fjármálakerfisins." (sjá http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/06/30/i_thagu_almannahagsmuna/)

Hinir nýju forystumenn Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins hafa sent út tilmæli um gengistryggðu lánin, hversu með skuli fara þangað til dómstólar úrskurða annað. Annaðhvort séu notaðir lægstu vextir óverðtryggt eða lægstu vextir verðtryggt. Þetta er góð lína og einboðið að lánveitendur og lántakendur fari eftir þessu,“ segir Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, á heimasíðu sinni í dag. (sjá http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/06/30/skynsamlegt_og_sanngjarnt/)

Skoðun hvernig Samtök Fjármálafyrirtækja túlka þessi tilmæli og hversu miklir almannahagsmunir eru lagðir þar undir.

Í raun þarf að endurreikna lánið upp miðað við lægstu vexti einosg þeir hafa verið á hverjum tíma. Þeir hafa verið að breytast stöðugt, þannig að það geta verið allnokkrar tölur í einu og sama láninu á mismunandi tímabilum. Það væri 8,25% fyrir þennan síðasta tíma sem hefur gilt, en þeir voru 8,5% í næsta tímabili á undan, en vextirnir voru töluvert hærri fyrir nokkrum árum síðan og það myndi horfa til þeirra vaxta einsog þeir voru á hverjum tíma,“ sagði Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja í síðdegisútvarpi Rásar 2 nú áðan. (sjá http://eyjan.is/2010/06/30/gengislanin-vextir-samkvaemt-tilmaelum-geta-verid-um-eda-yfir-20/)

Á tímabili voru hér um og yfir 18% stýrivextir. Er fólk tilbúið að sætta sig við slíkt lán? Lán sem ber 18% vexti? Hver hefði tekið slíkt lán? Ekki nóg með að þeir skeina sér með pappírnum sem dómurinn var gefinn út á, heldur ætlast fjármögnunarfyrirtækin að lántakendur sleiki pappírinn að því loknu. Er það sanngjarnt? Hvar hafa þessi sanngirnissjónarmið verið undanfarin 2 ár? Þegar fólk hefur hrópað og kallað eftir leiðréttingum á höfuðstöl stökkbreyttra lána? Hvar var sanngirnin þá? Myndu þessir sömu menn sýna sanngirni ef fjármögnunarfyrirtækin hefðu verið uppvís að því að svíkja undan skatti? ¨

Skilaboðin eru skýr! Það er í lagi að brjóta á almenningi, það er í lagi að blóðmjólka hann og í því samhengi skiptir engu máli hvort farið sé að lögum eða ekki.

Ég verð að viðurkenna, ég hef sjaldan eftir hrun orðið jafn reiður og fundist jafn mikil þörf á að fara og grýta þetta fólk sem segist vera verja hagsmuni almennings. Það leikur enginn vafi á, að í þessu tilfelli er verið að pönkast allsvakalega á fólki, heimilunum í landinu og loksins þegar fólk var farið að sjá von, sjá að kerfið virkaði, þá er hún fjarlægð og stjórnvöld (lesist Jóhanna og Steingrímur) hafa ekki einu sinni manndóm í sér til að tilkynna þessa ákvörðun þjóðinni sjálf. Í mínum huga er það ekkert annað en aumingjaskapur og ótti við að taka ábyrgð á þessum verknaði.

Ég ætla ekki að greiða fjármögnunarfyrirtækjunum krónu meira en stendur í upphaflegum samningi. Í mínum huga gildir það sem dómstólar dæma og ef fyrirtækið sem ég skipti við sættir sig ekki við það, getur það farið í mál við mig. Ég hvet alla aðra til að gera slíkt hið sama. Nú er komið nóg. Við þurfum að standa saman sem þjóð gegn því arðráni sem á hér að fara fram. Laun okkar hafa hríðfallið að verðgildi, verðbólga hefur haft áhrif á verðlag til hins neikvæða á meðan eignir okkar hafa hrunið í verði og gert eigin fjárstöðu okkar neikvæða. Stjórnvöld virðast ekki hafa áhyggjur af því, halda áfram að hækka skatta, fjölga þeim og finna nýjar leiðir til að seilast ofan í vasa okkar, eftir því litla klinki sem þar eftir situr. Ég sætti mig ekki lengur við að, þurfa horfa upp á endalausar afskriftir hjá útrásarvíkingum á meðan eðlilegar leiðréttingar á lánum heimilanna koma ekki til greina. Ef stjórnmálamenn fara ekki að taka til í sínum ranni, er nauðsynlegt fyrir okkur að losa okkur við þá. Óhæft starfsfólk er rekið úti á hinum venjulega vinnumarkaði! Nú er kominn tími til að segja þessu liði öllu saman upp! 


Sumarfrí

Nú er Urður Ýr komin í sumarfrí, þ.e. næstu 5 vikurnar verður hún hjá mömmu sinni en kemur síðan til mín aftur og eyðir næstu 5 vikum með mér. Þetta er þriðja sumarið sem þetta er með þessum hætti og þó svo hún sé hjá okkur foreldrum sínum viku og viku til skiptis, þá fylgir sumarfríinu alltaf sérstök tilfinning. Í senn er þetta ákveðinn léttir, ég get jú bara gert það sem mig langar til að gera þegar mig langar til þess, en hins vegar líka söknuður, því þegar hún er hjá mér þá miðast nær mest allt við hana.

Ég fór út að skemmta mér á föstudagskvöldið, sem er vart í frásögur færandi. Vinnufélagi minn ákvað að bjóða fullt af fólki til sín og úr varð hið skemmtilegasta partý. Er því var lokið var haldið í bæinn og satt best að segja, þá var það bara alls ekki jafn skemmtilegt. Yfirleitt þykir mér ekki gaman að fara í bæinn, bara til að fara í bæinn, það er fínt með góðum hópi sem nær að halda sér nokkuð saman. Ég er ekki það félagslyndur að ég nenni eða yfirhöfuð þori að vinda mér upp að næstu manneskju og byrja spjalla. Einhvern veginn finnst mér það alltaf líta út eins og viðreynsla eða eitthvað þannig. Ég hugsa, ef Urður hefði verið hjá mér og þá væntanlega í pössun, þá hefði ég ekki farið niður eftir. Afsakað mig með því að þurfa að vakna snemma til að sækja hana.

Ég held, að hún sé sú manneskja sem mér finnst hvað allra þægilegast að hafa í kringum mig. Hún þekkir mig það vel, að láta mig bara vera þegar þannig liggur á mér en getur þó komið mér í gott skap á einfaldan hátt. Við eigum líka auðvelt með að skemmta okkur saman og mér finnst ég ekki þurfa að vera með neina tilgerð með henni. Enda væri það undarlegt, þar sem hún er jú dóttir mín.

Það er samt svo skrýtið, eftir reynslu mína sem kennari og knattspyrnuþjálfari, að margir foreldrar virðast mér stundum setja sig í ákveðnar stellingar gagnvart börnunum sínum. Auðvitað er þetta ábyrgðarhlutverk, að ala upp barn, en mér finnst að mesta ábyrgðin hljóti að felast í að barnið sér hamingjusamt og ánægt. Ég held, að sú hamingja sem byggist á einhverju sem er ekki alveg raunverulegt, hljóti að vera býsna brothætt.

Á morgun er átakið Til fyrirmyndar. Mér finnst þetta stórgóð hugmynd. Bæði vekur þetta mann til umhugsunar, hverjar eru fyrirmyndir mínar, hvað finnst mér til fyrirmyndar og hvernig get ég verið til fyrirmyndar. Ég hef áður skrifað um hversu mikilvægt mér það er, að vera Urði Ýr til fyrirmyndar, á svipaðan hátt og foreldrar mínir hafa alltaf verið mér til fyrirmyndar. Eftir hún fæddist og fór að læra tala, hef ég t.d. reynt að gæta betur að orðavali, því ég vil ekki hún blóti jafn mikið og ég var vanur að gera. Ég held, að börn hafi þessi áhrif á foreldra sína. Maður vill ekki að þau geri sömu mistök og maður sjálfur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband