Lovecraft og græðgin

„The most merciful thing in the world, I think, is the inability of the human mind to correlate all its content.”

 

Svo hefst ein allra frægasta smásaga H.P. Lovecraft, sem var einn af brautryðjendum bókmenntastefnu sem jafnan er kennd við wierd fiction, eða furðusögur. Sögur þessar fjalla nær undantekningalítið um veruleika sem er mun meiri og stærri en við manneskjurnar getum og munum nokkrun tíma átta okkur á. Atburðir og verur sem voru svo framandi skilningi manna að aðeins geðveikin ein beið þeirra sem í þeim lentu.

Oftar en ekki er sagt frá einhverjum sem lendir í því, að upplifa stórkostlega breytingar á því hvernig hann upplifir veruleika sinn, hvort sem það var sökum átaka við yfirskilvitlegar verur eða geðsjúka meðlimi sértrúarsafna. Þessir sértrúarsöfnuðir dýrkuðu goð og guði sem voru flestum samfélögum löngu gleymd, til allrar hamingju, enda oftast nær illska holdi klædd, með einum eða öðrum hætti. Þó margar sögur úr þessum geira fjalli um sértrúarsöfnuði eða þess háttar fólk, þá fer því fjarri að þær fjalli allar um slíka hluti, en ég ætla ekki að fjalla um það hér.

 Í raun má segja, að þessi goð hafi staðið fyrir þau einkenni okkar mannanna sem við alla jafna reynum að forðast. Sum þeirra voru gráðug, kölluðu sífellt eftir mannfórnum eða annars slags fórnum, önnur gerðu menn geðveika, siðblinda og þaðan af verra. Fyrir goð sín og guði voru meðlimir sértrúarsöfnuðanna tilbúnir að myrða, svíkja, stunda pretti og stela. Jafnvel gengu sumir svo langt að geta með þeim afkvæmi.

Sem betur fer tekst söguhetjum þessara sagna undantekningalítið að uppræta og koma í veg fyrir illar áætlanir þessara sértrúarsafnaða og einstakra meðlima þeirra. Eftir situr þó vissan um, að ógnin er enn til staðar og verður svo lengi sem einhver er tilbúinn að gangast geðveikinni á hönd sem fylgir dýrkun slíkra guða.

 

Ég hef stundum horft á atburði líðandi stundar með svipuðum gleraugum og gagnrýni í huga og ég viðhef er ég les þessar sögur.

Var hópur útrásarvíkinganna (er yfirhöfuð hægt að vera víkingur án þess að stunda útrás? Er þetta heiti ekki svolítil tvítekning á sömu hugsun?) kannski eins og sértrúarsöfnuður í þessum skilningi? Stigu þau trylltan dans í kringum stallinn er guð þeirra, græðgin, sat á? Bjó þessi hópur kannski yfir sömu lagskiptingu og sértrúarsöfnuðir virðast oft gera? Voru bankastjórarnir æðstu prestar, sem gátu stýrt og tekið við fórnum annarra meðlima safnaðarins?

Þegar rennt er yfir fréttir og frásagnir af niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis, þá finnst mér hreint út sagt með ólíkindum að þessi hópur komst og gekk jafn langt og raun ber vitni. Hversu mikil var geðveikin? Hversu mikil var siðblindan? Var allt leyfilegt í ljósi þess að það þurfti að græða og róa þar með guðinn mikla, sem þó, eðli síns vegna, var aldrei til friðs og krafðist sífellt fleiri og stærri fórna? Jafnvel enn í dag neitar þetta fólk að nokkuð óeðlilegt hafi átt sér stað, lýgur (hvort sem það er að sjálfu sér eða öðrum) í von um að sleppa og jafnvel komast að kjötkötlunum aftur.

Þegar trúin á græðgina er sterk þá hlýtur eitthvað af siðferðinu að láta undan. Því ætti það ekki að koma á óvart, að einstaklingar skuli vera reiðubúnir að fórna býsna miklu til að græða meira og meira og enn meira. En er það eðlilegt? Og er eðlilegt að við skyldum láta þennan söfnuð komast upp með það?

Það er samt voðalega gott að vera vitur eftir á. Eins og fífl gleypti ég við glansmyndinni sem dregin var upp og var alveg laus við alla gagnrýni á það sem var í gangi. Í raun var það ekki fyrr en snemma árs 2008 að það læddist að manni grunur, eins og mörgum öðrum, um að ekki væri allt með felldu, eftir síendurtekin áhlaup bankanna á krónuna.

Eflaust átti ég samt að gefa meiri gaum að varnarorðum erlendra sérfræðinga. Stjórnvöld hérlendis sem og stjórnendur og talsmenn sértrúarsöfnuðarins voru engu að síður dugleg við að ráðast á viðkomandi gagnrýnanda, hvort sem það var á málefnalegan hátt eða ekki, allt til að halda uppi þessari tálsýn. Reykur og ljós, skuggamyndir og sjónhverfingar voru gott sem orðnar að iðngreinum innan þessa söfnuðar.

 

Ég hef ekki lesið skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Ég vil helst ekki gera það, þær fréttir sem hafa borist af efni hennar er í raun alveg nóg fyrir mig. Meira þarf ég ekki að vita, enda löngu hættur að botna í öllu því sem virðist hafa gengið hjá þessum undarlega söfnuði. Mig grunar þó  að ég megi þakka fyrir miskunnsemi þá sem Lovecraft minnist á í upphafi sögunnar Call of Cthulhu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband