Hroki og hleypidómar

Ég hugsa, að ég hafi ekki verið skemmtilegur nemandi í menntaskóla. Fyrir utan að vera óendanlegur besserwisser þá var ég sígjammandi og lék mér að því að vera á öndverðri skoðun við kennara mína og stundum samnemendur. Í raun mætti segja, að ég hafi verið afskaplega hrokafullur, drjúgur með mig og eflaust bara almennt leiðinleg týpa. Að viðurkenna mistök eða ég hefði rangt fyrir mér var nokkuð sem ég einfaldlega gerði ekki, enda hefði það eflaust þýtt skipsbrot sjálfsmyndar, sem var í raun byggð á sandi. Er það ekki kannski þannig með flesta þá sem fela sig á bakvið hroka og hleypidóma?

Stundum þegar ég fylgist með stjórnmálaumræðu sé ég sjálfan mig á þessum tíma speglast í pólitíkusum. Eftirsóknin í að hafa rétt fyrir sér, láta ekki væna sig um mistök eða að hafa beygt, túlkað og hagrætt sannleika sér í hag, er yfirgengileg og það virðist frekar vera regla en hitt, að koma fram af hroka og tala niður til fólks. Beita fyrir sig orðfæri sem alla jafna er fólki ekki tamt, tala svona fagmál gagngert til að láta áheyrendur finnast viðkomandi voða klárir og snjallir. Læknar gerðu þetta einu sinni og kennarar hafa verið að reyna auka „fagvitund" sína með því að tala svona fagmál. Við heyrum síoftar um Olweusar-áætlun, heildstæða móðurmálskennslu og einstaklingsmiðað nám. Án þess þó að gera okkur fyllilega grein fyrir hvað þessi hugtök og heiti þýða kinkum við kolli, hugsanlega til að koma í veg fyrir að koma upp um að við þekkjum ekki eða vitum ekki við hvað er átt. Hið sama gildir um stjórnmálaumræðuna. Hvað þýðir t.d. gegnsæ stjórnsýsla? Hvenær er stjórnsýsla ekki gegnsæ og hvernig verður hún gegnsæ? Annað sem hefur verið vinsælt hugtak er sjálfbært samfélag, t.d. hefur Reykjavíkurborg markað sér stefnu um sjálfbært samfélag í samráði við íbúa.

Ég viðurkenni fúslega að ég skil stundum ekki orðræðu stjórnmálamanna og finnst oft á tíðum sem þeir flæki vísvitandi mál sitt, til að tryggja að ég spyrji ekki óþægilegra spurninga eða nái að mynda mér skoðun, sem felur eitthvað annað í sér en að láta þetta bara eftir þeim, þar sem ég botna hvort eð er ekkert í þessu. Mér finnst það hins vegar óþægilegt, að sitja stundum undir því, að vera meinaður aðgangur að vitneskjunni sem felst í tungumálinu. Stjórnmálamenn, líkt og kennarar eða jafnvel pípulagningamenn, eiga sér sitt fagmál og þeir sem kunna fagmálið skilja um hvað er rætt hverju sinni. Þeir sem kunna ekki fagmálið, eru skildir út undan og eiga litla möguleika að komast inn í þennan málheim. Ég hefði haldið, að það væri einmitt stjórnmálamanna að tala mál sem allir skildu. Þannig næðu þeir frekar til fjöldans, sérstaklega á tímum sem við lifum nú. Ég held að ég sé ekkert heimskari en gengur og gerist hjá meðalmanni en mig dauðlangar oft á tíðum að skilja betur hvað stjórnmálamenn eru að tala um.

Ég eignaðist barn fyrir nokkrum árum, yndislega stelpu sem hefur kennt mér heilmargt og ekki eingöngu út frá einfaldasta skilningi orðsins kenna, heldur hefur tilvera hennar hjálpað mér að skilja hlutina öðruvísi og fengið mig til að endurskoða mig og mörg gilda minna. Eitt af því sem ég hef sérstaklega reynt að draga úr eftir fæðingu hennar eru hroki og hleypidómar. Ég hef reynt að venja mig af því að fara fram af besservískum krafti og einbeitt mér frekar að einfaldari og jákvæðari hlutum, þó vissulega ég megi gera enn betur í þeim efnum. Það hefur veitt mér betri sýn á hvernig maður ég vil vera, er ég hef verið að velta fyrir mér hvernig manneskju ég vil sjá í dóttur minni. Ég þarf jú að vera henni til fyrirmyndar.

Hugsanlega mættu stjórnmálamenn skoða málfar sitt og framkomu gagnvart kjósendum í þessu samhengi. Þeir eiga jú að vera okkur til fyrirmyndar á vissan hátt og því er mikilvægt að þeir komi rétt fram og tali mál sem við skiljum. Við breytum nefnilega ekki samfélaginu án þess að breyta okkur sjálfum fyrst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband