Færsluflokkur: Bækur

Undrin við Lönguströnd

 

1. nóvember

 

Ég sofnaði í nótt en samt svaf ég ekki vel. Mér finnst eins og augnaráð Skelmis fylgi mér hvert sem ég fer. Er ég lokaði augum var sem ég sæi hann stara á mig með allri þeirri grimmd og græðgi sem honum var unnt. Það var kannski þetta myrka eðli, dýrið sem bjó í honum sem lifir áfram í minningu minni. Ég vildi óska þess ég gæti ýtt þessari tilfinningu frá mér, en það er eins og hluti af honum hafi náð að tóra áfram inni í mér. Ég vona bara, að þetta líði hjá.

Eftir ég hafði drukkið morgunkaffi ákvað ég að fara í göngutúr. Ég ætlaði að kíkja upp í kirkjugarð og fara að legsteinu pabba, hann er reyndar ekki grafinn, þar sem líkið fannst aldrei en séra Tómas vildi að við mamma ættum okkur stað í garðinum eins og aðrar fjölskyldur sem misst höfðu einhvern í hafið. Við létum gera fallegt sjóbarið grjót að legsteini og mamma valdi línu úr ljóði sem ég man ekki lengur hvað heitir. Reyndar var það aðeins yfirskin ferðar minnar, því mig langaði helst til að grafa það eina sem ég átti til minningar um Katrínu í helgri jörð. Ég stakk því rifna kuflinum inn á mig og rölti grunlaus af stað. Um leið og ég kom út þá fannst mér eins og ekkert hefði breyst. Bæjarbúar voru vel flestir risnir úr rekkju að mér sýndist og margir á ferli úti, enda fallegt veður, frost og stilla. Mér fannst eins og allir væru að fylgjast með mér. Ég reyndi eins og ég gat að láta sem ég tæki ekki eftir því, en hvert sem ég fór og hverjum sem ég mætti, þá horfðu allir undarlega á mig. Eins og ég hefði gert þeim eitthvað. Reiðin brann í augum þeirra. Er ég kom upp í kirkjugarð breyttist það. Umhverfis hann er gamalt járngrindverk, sem mér finnst alltaf eins og séu nokkur hundruð spjót sem hefur verið stungið í jörðina. Oddhvassar járnstangirnar eru sumar bognar og illa farnar. Einhvern tíma hefur grindverkið verið málað svart og þeim lit hefur það haldið á flestum stöðum. Inni í garðinum hafði snjór safnast saman milli leiða. Krossar af mismunandi stærðum og gerðum stóðu upp úr sköflum, skakkir og margir hverjir illa farnir og á sumum er ekki lengur hægt að lesa nafn þess er hvílir undir. Flestir legsteinarnir voru á kafi í snjó.

Ég gekk rakleiðis að legsteini pabba. Ég þurfti að hreinsa töluvert af snjó ofan af honum. Síðan settist ég niður og tók laumulega fram kuflinn. Ég leit í kringum til að gæta að hvort nokkur væri að fylgjast með. Þá sá ég hvar Snorri stóð hinu megin við grindverkið næst mér og starði mig. Augu hans voru full af heift, augasteinarnir eins og tveir litlir kolamolar sem brunnu af reiði og þrá til þess að rífa útlimi mína af búknum. Hann rétti upp höndina, á andlit hans kom illilegt glott og hann veifaði mér. Ég tróð kuflinum aftur inn á mig í flýti. Hann var klæddur í rauða úlpu og hárið snyrtilega greitt til hliðar. Ég flúði í ofboði úr garðinum. Hann elti mig og kallaði á eftir mér:

- Hermann kennari, Hermann kennari. Er ekki allt í lagi?

Hann reyndi að hljóma barnalega og græskulaus, en ég fann kaldhæðnina streyma yfir mig úr orðum hans. Ég veit, að hann hefur fundið fyrir því að ég drap Skelmi, það hljóta allir að hafa fundið fyrir því og hann vill ábyggilega koma fram hefndum. Honum skal þó ekki verða að ósk sinni. Ég hljóp við fót heim. Í hvert sinn sem ég leit við var hann fyrir aftan mig, á rólegum gangi en samt aldrei nema um fimm metra frá mér. Hann hefur einhverja yfirnáttúrulega hæfileika. Ég skeytti engu um viðbrögð annarra bæjarbúa, því margir þóttust reka upp stór augu er ég kom hlaupandi niður úr kirkjugarðinum.

- Hermann kennari, ég ætla bara að tala við þig. Er ekki allt í lagi, kallaði Snorri á eftir mér. Ég fann hvernig illkvittnin kraumaði undir og ég þorði varla lengur að líta um öxl. Ég flýtti mér aftur heim. Er ég stóð á tröppunum leit ég eitt augnablik aftur fyrir mig. Snorri stóð við garðhliðið og starði á mig. Brosgretta lék um varir hans. Í augum hans var návera sem ég átti alls ekki von á að finna, eins og eitthvað mun eldra og frumstæðara en ég er. Eins og Skelmir. Ég skellti strax í lás á eftir mér um leið og ég kom inn. Síðan setti ég glas upp á hurðarhúninn og þaut niður í kjallara og faldi mig með öxina hjá mér undir stiganum. Náði ég ekki að drepa Skelmi? Tókst honum með einhverjum hætti að flytja sig yfir í líkama Snorra áður en ég hjó í höfuð hans?

Hvað er þá til ráða? Verð ég að drepa alla til að frelsa heiminn frá þessum djöfulsskap?

 

---

 

Guð minn góður!

Þau ætla að éta mig. Þau hljóta hafa komist að því að ég drap Skelmi, eða gerði heiðarlega tilraun til þess. Hann hlýtur að hafa sett þeim það verkefni að gera út af við mig. Þau eru öll á eftir mér og vilja éta hold mitt. Þeim hefur ekki nægt að borða Katrínu, nú vilja þau ná mér.

Ég varð þess áskynja að einhver gekk heim tröðina. Ég greip um öxina og skreið aftur undir stigann, en það var aldrei bankað. Ég beið í hátt í fimmtán mínútur áður en ég fór aftur fram úr fylgsni mínu. Ég hafði ekki heyrt hvort sá sem gekk að húsinu hafi aftur horfið á braut. Mig grunaði því að einhver biði fyrir utan eftir tækifæri til að ráðast á mig. Ég fór varfærnislega upp úr kjallaranum og kíkti fram. Ég sá ekki neinn á ganginum. Ég lagðist á magann og dró mig áfram uns ég sá inn í stofu. Hún var mannlaus. Ég lyfti mér upp á fjóra fætur og flýtti mér yfir að glugganum. Varlega skaut ég höfðinu undir tjöldin og lyfti mér nægilega hátt upp til að sjá yfir gluggakistuna.

Fyrir utan gluggann stóð meira en tugur manns. Snorri var fremstur. Eða var það Skelmir? Öll störðu þau hungruð á mig. Augasteinarnir eins og títuprjónshausar. Blóðþorsti og hungur skein úr þeim. Þau opnuðu munninn og ég sá grilla í mjóa anga. Rúðan virtist svigna inn að mér vegna þrýstings frá fólkinu. Öll vildu þau ná mér. Þau teygðu sig eftir mér. Angarnir skutust úr munnum þeirra. Það small í rúðunni er þeir skullu á henni. Í gegnum gluggann fann ég stækjuna sem stafaði frá þeim. Snorri var með lokaðan munninn. Hann starði bara á mig. Ég reyndi að krafla mig í burtu en var sem lamaður af ótta.  Ég fann hvernig augnaráð þeirra reyndi að bora sig inn í huga minn. Þau vildu éta mig, eins og þau átu Katrínu.

Mér tókst að lokum að skríða undan gardínunum. Ég stóð á fætur og ætlaði að hlaupa af stað, en datt um sófaborðið og velti því um koll. Ég hljóðaði upp fyrir mig, því ég átti allt eins von á þau myndu brjótast inn hvað úr hverju. Ég dró mig áfram eftir gólfinu, hálfkjökrandi af ótta, í átt að kjallaradyrunum. Eftir ég náði taki á hurðarhúninum stóð ég á fætur og læsti á eftir mér. Síðan hljóp ég niður brattan stigann og kom mér fyrir undir honum á leynistaðnum mínum. Þá uppgötvaði ég að mér hafði tekist að týna öxinni. Ég teygði mig í verkfærakassann og fann stóran hamar. Ég verð að láta hann duga ef þau skyldu ná að finna mig hér.

Um stund fannst mér ég heyra umgang uppi. Skelmir hefur ábyggilega látið einhvern fara um húsið í leit að mér og dagbókunum mínum. Hann vill eflaust að þær falli ekki í rangar hendur. Hvað get ég svo sem gert við þær? Ég þarf að fela þær einhvern veginn, ef honum tekst að gera mig að marglyttuþræl eru þær það eina sem stendur í vegi fyrir honum. Ætti ég að senda mömmu þær? Ég veit það ekki, þær upplýsingar sem bækurnar hafa að geyma myndu bara íþyngja henni. Ég hef heldur ekki verið nógu duglegur að gera mér ferð yfir heiðina til að heimsækja hana. Svo er það náttúrulega hann Róbert, afabróðir minn, en hann er orðinn svo ær af elli. Hann myndi síst skilja það sem hér stendur. Ég þarf að finna leið.

 

---

 

Hvernig gat ég verið svona blindur!?

Það er eitt afl í heiminum sem hreinsar betur en nokkuð annað. Eldur. Allt um lykjandi eldur. Brennandi eldur. Yndislegi eldur. Ég ætla að brenna drengdjöfulinn! Ég ætla að láta tungur eldsins sleikja allt hold af viðbjóðslegum beinum hans. Hitann sprengja augun í tóttunum. Og losa heiminn endanlega við Skelmi.

 

---

 

Ég er búinn að ákveða hvernig ég ætla að fara að þessu. Þetta er eina leiðin. Hún er ekki góð en ég verð að fara hana.

Ég ætla að kveikja í skólahúsinu á morgun á meðan kennslunni stendur. Það þýðir að fleiri börn munu deyja, en það er fórnarkostnaður sem ég er tilbúinn að greiða. Ef mér tekst að stöðva Skelmi þá er það ofar öllu. Ég verð að koma í veg fyrir að Skelmi takist að finna sér bólfestu í öðrum líkama. Hann má ekki sleppa. Ég mun líka verða eldinum að bráð, en ég hugga mig við það að síðar meir munu aðrir líta á mig sem hetju. Það er ekkert hér sem heldur í mig. Móðir mín er fyrir mörgum árum komin inn á geðsjúkrahús og hefur hvorki rænu né vit á að hafa samband. Fyrir utan Róbert gamla er hún eini eftirlifandi meðlimur fjölskyldunnar. Bæjarbúar átu konuna sem tók mér eins og ég er, konuna sem fékk hjarta mitt til að slá örar. Hvað er hér sem togar í mig? Ekkert.

Þau munu öll brenna. Ég vona, að foreldrar þeirra finni í hjarta sínu frið til að fyrirgefa mér. Ef þau vissu sannleikann, ef þau væru ekki marglyttuþrælar sjálf þá myndi þau þakka mér og jafnvel aðstoða mig við þetta. Ég held, að þegar Skelmir er allur, þegar mér hefur tekist að drepa helvítið á honum, þá frelsast allir undan áhrifum marglyttanna. Þau hljóta að skilja, að þetta er gert í þeirra þágu. Ég er ekki skúrkur, heldur hetja.

Ég ætla að verða mér úti um eldsneyti og koma fyrir í brúsum hér og þar um skólahúsið. Ég þarf að fara á eftir og negla aftur alla glugga, til að tryggja að enginn sleppi. Ég vil ekki eiga hættu á að Skelmi takist að komast undan. Þegar allir eru sestir í sæti sín, þá læsi ég öllum hurðum og kveiki í. Skólinn skal brenna til grunna.

 

---

 

Allt er klárt.


Undrin við Lönguströnd

31. október

 

Ég sat undir stiganum í nótt og beið. Það kom samt enginn. Ég veit þó, að þau voru úti, eins og úlfar sem elta uppi bráðina og bíða þess hún misstígi sig. Ég ætla að passa mig á að hleypa þeim ekki nálægt mér. Ef ég geri það, þá er voðinn vís. Þá gæti allt eins farið fyrir mér og Katrínu. Skelmi hefur tekist að koma fjórum fyrir kattarnef, þeim Kolbrúnu og Katrínu auk Hólmgeirs og Öldu. Ég veit ekki hvar þetta allt endar, en ég skal ekki láta hann komast upp með að myrða fleiri. Ég ætla að grípa í taumana, hvernig svo sem ég fer að því.

Hann sendi Pál til að fylgjast með mér í morgun. Í morgun varð ég var við að einhver væri að sniglast í kringum húsið. Ég sá ekki neinn þegar ég kíkti út um kjallaragluggann en það var einhver þar, ég er viss um það. Grunur minn var svo staðfestur þegar ég heyrði að bankað var á útidyrnar. Glasið sem var á hurðarhúninum small í gólfinu og ég greip með mér öxina áður en ég gekk hikandi upp stigann. Í fyrstu hélt ég að þetta væri eitthvað bragð hjá Skelmi, þykjast banka til að draga mig út úr felustaðnum og einhver sæti fyrir mér uppi. Ég fór því að öllu með gát en það var enginn sem beið eftir mér. Eflaust hafa þau ekki þorað að takast á við varnirnar sem ég hef komið upp. Ég hreinsaði glerbrotin frá dyrunum og opnaði litla rifu, þannig ég rétt sá út. Öxinni hélt ég í vinstri hönd og faldi fyrir aftan hurðina, þannig hann sæi hana ekki. Páll stóð kæruleysislega fyrir utan, ekki í lögreglubúninginum heldur í rauðri vinnuskyrtu og bláum buxum. Hann reyndi að líta kæruleysislega út en ég sá í gegnum hann. Vatnsgreitt hárið og grimmdarblikið í augum hans minntu mig samstundis á Snorra og ég vandaði um við mig, að ég væri í raun og veru ekki að tala við æskuvin minn heldur eitthvað mun hræðilegra, veru sem hugsaði ekki um neitt annað en að éta. Ég var fæðan.

- Sæll, Hemmi minn, sagði hann og steig upp í tröppurnar að dyrunum, eins og hann byggist við því ég myndi hleypa honum inn. Þegar hann sá ég ætlaði ekki að opna fyrir honum, kom örlítið hik á hann.

- Ég sá þig ekki í sundi í morgun, bætti hann síðan við hálfvandræðalega.

- Í sundi, spurði ég og reyndi að hljóma undrandi.

- Já, í sundi. Það er búið að opna laugina aftur.

Hvernig datt honum í hug ég vilji synda í þessum viðbjóði? Hélt hann virkilega að ég sæi ekki í gegnum þetta? Seinast þegar ég vissi var vatnsveitan í ólagi en nú er allt í einu allt í stakasta lagi og allir eiga að fara í sund. Ég er nú hræddur um ekki. Ég sá í gegnum þessi bellibrögð hans.

- Ég ákvað bara að sofa út, svaraði ég og reyndi að sjá hvort nokkur væri fyrir aftan hann. Mig var farið að gruna að þetta væri samantekin ráð hjá þeim Skelmi, til að sjá hvort ég væri orðinn einn af þeim. Páll horfði um stund á mig og ég sá hvernig hann dauðlangaði til að opna munninn og hleypa öngunum og þreifiörmunum út til að rífa holdið af beinum mínum.

- Heyrðu, vinur, sagði hann loks og setti upp eins einlægan svip og honum var unnt.

- Katrín kíkti til mín í gærkvöldi og hún hefur áhyggjur af þér. Þú hefur hagað þér frekar undarlega síðustu daga og þú kemur vægast sagt furðulega fyrir. Er ekki allt í lagi? Mér sýnist þú ekki hafa rakað þig svo dögum skiptir og hvað er langt síðan þú fórst í bað?

Ég horfði um stund á Pál. Mig langaði til að segja honum allt saman, en ég vissi sem var að hann myndi bara nota tækifærið til að ráðast á mig. Ég þrengdi því rifuna enn frekar.

- Ég er búinn að vera lasinn, sagði ég og lokaði.

Fara í bað? Hvernig í ósköpunum á ég að fara að því? Vatnsveitan biluð og ekki nenni ég að hita upp það mikinn snjó það myndi duga til að fylla baðkarið mitt. Auk þess treysti ég ekki vatninu, Skelmir gæti allt eins verið búinn að koma því þannig fyrir að marglytturnar berist í gegnum pípulagnirnar inn í hvert hús. Er það furða þó ég þori ekki að skrúfa frá?

Ég þarf að finna leið til stöðva Skelmi.

 

---

 

Ég er búinn að ákveða hvað ég ætla að gera. Ég lagðist undir feld niðri í kjallara og reyndi eins og ég gat að finna hvað væri best í stöðunni. Nú efast ég stórlega um að Skelmir vilji láta líkama Hólmgeirs af hendi, þannig það þarf með einhverjum ráðum að neyða hann út. Ég held - og það hryggir mig að segja það - að eini möguleikinn felist í að drepa líkamann. Þar með kemst Skelmir ekki lengra og ég hef stöðvað hann. Það er vissulega ekki góð leið, ég í raun dæmi einn af mínum elstu vinum til dauða en hvað get ég annað gert? Skelmir hefur myrt að minnsta kosti fjórar manneskjur, allt góðvini mína  og Guð einn veit hversu margar þær eiga eftir að verða áður en yfir líkur.

Ég ætla að laumast yfir til hans í nótt. Hann verður vonandi einn heima. Ég ætla að taka öxina hans pabba með. Ég vona bara, að ég hafi styrk til þess þegar að hinni mikilvægu stund kemur. Hugsanir mínar munu dvelja hjá Katrínu. Ég mun gera þetta fyrir hana.

Ef eitthvað skyldi fara úrskeiðis þá vona ég að einhver taki upp þráðinn þar sem ég skyldi við hann. Ég ætla að fela dagbækurnar mínar undir gólfborðunum hér í kjallaranum. Kannski að einhver muni síðar meir finna þær, ef ég fell eða Skelmi tekst að gera mig að marglyttuviðbjóði. Kannski að þeim sama takist síðan að stöðva hann. Ég vona bara, að enginn af þeirra liði finni dagbækurnar og geri sér grein fyrir að ég veit allt saman. Þá er voðinn vís.

 

---

 

Guð minn góður! Ég næ varla andanum.

Ég laumaðist út um ellefuleytið. Ég klæddi mig í gamla frakkann enn á ný og var með bæði húfu og vettlinga. Það blés örlítið og skóf úr sköflum. Fyrir utan birtuna frá minnkandi mánanum þá var almyrkt. Svo virtist vera sem allir bæjarbúar væru farnir að sofa. Ég var því feginn, því þá var minni hætta á að einhver tæki eftir för minni. Ég þræddi krákustíga heim að gamla kaupmannshúsinu. Ég reyndi eins og mér var mögulegt að fylgja troðnum slóðum, en þar sem töluvert hefur skafið undanfarnar klukkustundir var það erfitt. Ég verð bara að vona að enginn taki eftir sporunum er ég skildi eftir. Ætli mjöllin setjist ekki í þau líka og hylji áður en nóttin er úti?

Er ég stóð fyrir framan hús Hólmgeirs og Öldu fann ég fyrir undarlegum ótta. Það var almyrkt fyrir utan ljóstýru í einum glugga á efri hæðinni, þar sem skrifstofa Hólmgeirs er. Að öðru leyti grúfðu myrkur og skuggar yfir þetta gamla og, það sem mér fannst eitt sinn, fallega hús. Grýlukerti héngu neðan úr þakskegginu, sum voru á lengd við framhandlegg fullvaxins karlmanns en önnur minni. Öll voru þau beitt og um stund fannst mér eins og þau biðu eftir því ég kæmi nógu nálægt, svo þau gætu fallið á mig, klofið hauskúpu mína. Vindurinn söng í mæninum og sendi þunnar fannarslæður ofan af þakinu. Ég opnaði hliðið og skaust inn í garðinn. Þar reyndi ég að halda mig í skugga hússins - en samt ekki of nálægt – þar til ég kom að bakdyrunum. Þær voru ólæstar.

Ég opnaði dyrnar ofurvarlega. Ég reyndi eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að nokkur hávaði myndaðist. Þvottahúsið var myrkvað, líkt og flest herbergi hússins, en þar var nokkuð súr lykt. Stafli af óhreinum fötum var í einu horninu og mér var ljóst að enginn hafði sinnt þvottinum í þó nokkurn tíma. Ég hallaði á eftir mér og klæddi mig úr skónum. Ég fór í ullarsokka áður en ég lagði af stað, til að tryggja ég gæti gengið um hús Hólmgeirs eins hljóðlaust og unnt var, því ég vildi koma Skelmi að óvörum. Inni í eldhúsi var allt á rúi og stúi, leirtau lá eins og hráviði í vaskinum og óhreinir kaffibollar út um allt. Ég flýtti mér í gegn og inn á ganginn sem lá á milli stofunnar, eldhússins og anddyrisins. Það var þykkt teppi á gólfum sem dró enn frekar úr því litla sem heyrðist frá fótataki mínu. Mér kom hins vegar á óvart að finna hve  rakt var inni í húsinu. Yfir öllu var einhver drungi, þung saggalykt og ég fann fljótlega að ég var orðinn votur í fæturna. Ég beygði mig niður og þreifaði á gólfteppinu. Það var rennandi blaut. Ég leit í kringum mig og tók þá eftir að veggfóðrið var bólgið, eins og það hefði orðið fyrir skemmdum vegna vatns. Breytingarnar síðan ég var þar síðast voru ótrúlegar, ábyggilega því að kenna að Skelmir var að ná betri tökum á líkamanum og gat þar af leiðandi leyft sér að breyta heimilinu, gera það líkara þeim viðbjóði sem hann vill að viðgangist hér. Ég ákvað að eyða ekki tíma í þetta, heldur halda áfram ótrauður ætlunarverki mínu.

Ég fikraði mig upp stigann. Lyktin á efri hæðinni var mun verri. Hún minnti mig um margt á óþefinn sem fylgdi marglyttunum, þegar þær lágu rotnandi á baðströndinni. Upp í hugann kom mynd af þeim er öldurnar báru þessi viðbjóðslegu dýr á land. Ég tók öxina upp úr frakkavasanum og gerði mig kláran. Er ég kom upp varð ég var við mannamál. Ég staldraði við og lagði við hlustir.

- …gerðu það, Alda mín, snúðu nú aftur heim. Leggjum þetta mál til hliðar. Þú veist hversu leitt mér þykir þetta allt saman. Það eina sem ég þrái er að þú komir aftur, ég er ónýtur án þín, sagði Skelmir með rödd Hólmgeirs. Það var greinilegt hann vissi af mér og hefur eflaust ætlað að slá ryki í augu mín. Ég lét hann þó ekki blekkja mig, þetta var aum leið. Alda er fyrir löngu síðan látin, það stóð í bréfinu sem Hólmgeir sendi mér áður en hann þurfti að gefa eftir líkama sinn. 

Það virtist enginn annar vera inni í skrifstofunni með Skelmi. Dyrnar stóðu opnar í hálfa gátt. Ég hætti á að kíkja inn. Hann sat í háum skrifborðsstól úr leðri og sneri baki í mig. Mér sýndist hann vera einn. Hann hélt á símtóli í vinstri hendinni. Hárið var ógreitt.

- Já, elskan mín, það er alveg rétt. Auðvitað særði ég þig og ég sé svo óendanlega eftir því. Ég vildi óska þess ég gæti tekið það allt saman tilbaka, en það er víst ómögulegt. Það eina sem ég get gert er að biðja þig afsökunar aftur og aftur, sagði hann. Ég lét það samt ekki stöðva mig. Hann var sniðugur og lúmskur eins og refur, en ég vissi betur. Ég læddist aftan að honum.

- Nei, það hef ég ekki gert. Ég er bara búinn að vera ónýtur maður síðan þú fórst. Hef varla getað hugsað um neitt nema þig. Páll kom hérna í morgun ásamt vísindamanninum, þeir voru að fara yfir niðurstöður Hannesar annars vegar og hvernig gengi að hreinsa ströndina hins vegar en ég gat ekki einbeitt mér að því. Alda, ég hef varla sofið dúr síðan þú fórst, það er vart hægt að segja ég hafi borðað nokkuð. Þú verður að koma aftur. Ég er ekkert ef þú ert ekki hér, sagði hann í símann um leið og ég kom mér vel fyrir með öxina á lofti fyrir aftan hann. Ég kippti í stólinn og sneri honum í hálfhring. Skelmi virtist brugðið.

- Hvað, sagði hann og starði á mig. Hann lék þetta vel en ég sá í gegnum hann.

Augnaráð hans var það sem sveik hann. Augasteinarnir voru pínulitlir og boruðu sig í gegnum sálu mína. Mér fannst eins og ég hyrfi aftur undan þeim ógnarkrafti sem í augum hans bjó. Eins og eitthvað mun eldra og frumstæðara byggi í þeim og neyddi mig til hlýðni. Augun voru heiðblá og minntu mig á hafið, stormasamt og villt, það var sem vitund mín sogaðist ofan í djúpið sem í þeim bjó. Ekkert nema ég og hafið allt um kring. Yfir mig helltist tilfinning um ég væri að drukkna og andardráttur minn varð ör. Ég herti tak mitt á öxinni. Þar var líka einhver skepna, skelfileg og blóðþyrst, samt einhvern veginn hamin eða króuð af og reiðin sauð í henni.  

- Hólmgeir, sagði kvenmannsrödd í símanum. Eflaust einhver af marglyttuþrælunum sem Skelmir hefur fengið til að leika á móti sér.

Hann sat og starði á mig. Grimmdin og harkan í augnaráði hans var mér næstum um megn. Skelmir var að reyna beygja vilja minn undir sig. Upp í hugann skaut minningunni frá því í gærnótt, er hann lét bæjarbúa borða hana Katrínu mína. Mér fannst ég geta heyrt í henni tala til mín.

- Gerðu það fyrir mig. Dreptu hann. Gerðu það fyrir mig.

- Hólmgeir, ertu þarna, spurði kvenmannsröddin undrandi í símanum. Ég get ekki annað en viðurkennt að þetta var úthugsað hjá Skelmi. Hann hefur átt von á því ég myndi koma. Hins vegar misreiknaði hann sig í því hann myndi ná tökum á mér. Ég reiddi öxina til höggs. Þá var eins og hann gerði sér loks grein fyrir að hann hefði gert mistök. Hann sleppti símtólinu og reyndi að bera hendurnar fyrir sig. Enn ómaði rödd Katrínar í höfði mínu.

- Dreptu hann. Hann á það skilið. Dreptu hann.

Ég lét höggið falla.

Öxin stóð á kafi í höfðinu á Skelmi.

- Hólmgeir, var kallað í símtólinu.

Skelmir sat og starði á mig. Augnaráð hans var enn sem fyrr. Ég hörfaði aftur tvö skref. Vessi lak úr sárinu. Það var ekki blóð, heldur ljós – næstum glær – vökvi. Hann hrundi úr stólnum. Símtólið féll á gólfið. Ég tók það upp og lagði á. Síðan kippti ég öxinni úr undinni. Um leið var eins og marglytta læki út. Hún lá í teppinu um stund. Ég steig ofan á hana. Hún sprakk og rann saman við teppið. Líkami Hólmgeirs virtist dragast allur saman. Ég ákvað að flýta mér út. Ég stakk öxinni í vasann og fór sömu leið tilbaka.

Ég hef hefnt þín, Katrín. Ég er búinn að ná fram réttlætinu. Þetta hlýtur að stoppa núna. Skelmir er dauður. Þá hljóta marglytturnar að fara, ef enginn er lengur til að stjórna þeim.

Nú ætla ég að fara að sofa. Í fyrsta skipti í marga daga mun ég sofna rólegur.


Undrin við Lönguströnd

30. október

 

Það hefur verið brotist inn hjá mér í nótt á meðan ég svaf! Þegar ég kom niður í morgun stóð hvít plastfata við eldhúsvaskinn. Mér krossbrá þegar ég sá hana. Ég hljóp um allt húsið og skoðaði hvort nokkuð væri horfið. Allt var á sínum stað, meira að segja dagbækurnar mínar lágu ósnertar á skrifborðinu mínu. Ég klæddi mig í og athugaði hvor nokkur ummerki væru í snjónum fyrir utan. Úti var töluverður kuldi og frostmistur hefur stigið upp af haffletinum og vafið þorpið í kaldar krumlur sínar. Ég hneppti að mér, dró húfuna sem ég var með á kollinum niður fyrir eyrun og leit í kringum mig. Það eina sem stakk í stúf voru lítil skref sem lágu aftur fyrir hús. Ég gerði því ráð fyrir að sá sem braust hér inn hafi farið inn um bakdyrnar. Ég fór því aftur inn og athugaði þær, en dyrnar voru harðlæstar.

Mig grunar sterklega að Skelmir hafi sent einhvern af krökkunum hingað með fötu með marglyttum handa mér. Hann hlýtur að vita að ég er búinn að sjá í gegnum allt saman. Ég veit hvað hann ætlar sér. Ég skal verða honum þyrnir í augum, ég mun aldrei drekka vatn mengað með þessum ógeðslegu verum. Þær skulu ekki fá að taka yfir líkama minn, líkt og hann hefur látið þær gera með aðra sem hér búa. Ég skil bara ekki hvers vegna fólk sér ekki í gegnum þetta. Aðrir íbúar þorpsins hljóta að spyrja sig hvers vegna vatn er borið í hús þegar allt er á kafi í snjó, ég trúi ekki öðru. Kannski ætti ég að reyna koma vitinu fyrir þeim.

Jæja, ég verð að drífa mig til vinnu. Ég vil ekki að Snorri eða þau hin beri þær fréttir í Skelmi ég mæti ekki í skólann. Ég má ekki láta á neinu bera. Kannski ef mér tekst að láta sem ekkert sé, heldur hann ég hafi drukkið vatnið og ég sé einn af þeim. Æ, hvað get ég gert? Hvað á ég að gera?

 

---

 

Guð minn góður! Hvað er að gerast? Er ég einn eftir? Sá eini sem eftir stendur?

Á leiðinni í skólann sá ég hvar fötur stóðu við flest hús. Þar sem ég gekk niður götuna mína tók ég eftir öðrum íbúum opna dyrnar og ná í þær. Til dæmis stóð Kári á náttslopp í dyragætt er ég átti leið framhjá og beygði sig eftir sinni fötu, um leið og hann sá mig brosti hann kumpánlega til mín í gegnum skeggbroddanna og hrósaði mér fyrir hversu vel nemendur mínir væru uppaldir og duglegir.

- Ég ímynda mér að þú eigir ekki litla sök á hversu fórnfúsir krakkarnir eru. Að vakna eldsnemma og bera vatn í hvert hús í þorpinu, sagði hann rámri röddu. Ég var svo gáttaður á þessum ummælum ég stóð orðlaus og starði á hóteleigandann. Hann blikkaði mig með öðru auga og lokaði síðan að sér. Ég var sem steini lostinn. Hvernig gat honum dottið í hug ég ætti einhvern þátt í þessu?

Ég reyndi að ýta öllum þessum hugsunum frá mér og halda áfram. Ég ætlaði að koma við hjá Katrínu og vara hana við, síst af öllu vildi ég að hún drykki mengaða vatnið.  Eftir stutta göngu sá ég hvar Gunnar læknir stóð í dyrunum heima hjá sér, klæddur rauðri húfu og með skræpóttan trefil. Ég ætlaði að heilsa honum, en sá þá hvar hann hélt á vatnsglasi. Hann bar það upp að vörum sér. Ég öskraði til hans, hann leit á mig en drakk úr því. Hann lyfti upp hendinni og veifaði til mín. Ég hljóp af stað og þaut í einu hendingskasti sem leið lá til Katrínar.

Mér fannst sem kuldamistrið væri örlítið þéttara við húsið hennar. Hún á reyndar heima örlítið neðar í þorpinu en ég. Litla gula húsið hennar stóð eins og frosinn skuggi neðst í götunni. Það heyrðist lágt ískur í garðhliðinu er ég opnaði það. Það stóð engin fata við útidyrnar hjá henni. Ég fikraði mig að húsinu. Það brakaði í mjöllinni undir fótum mér, mér fannst sem hljóðið ætlaði að æra mig. Er ég kom að dyrunum sá ég inn um eldhúsgluggann. Þar stóð rauð fata á borðinu og tómt vatnsglas við hlið hennar. Ég greip fyrir munninn til að koma í veg fyrir ég hljóðaði upp fyrir mig. Um leið opnuðust dyrnar. Katrín starði gáttuð á mig.

- Er ekki allt í lagi, Hermann minn? Þú ert náfölur, eins og þú hafir séð draug, sagði hún og rétti út aðra höndina til að snerta mig. Ég skaust undan. Henni virtist bregða við það.

- Drakkstu það? Drakkstu vatnið, spurði ég.  

- Já, svaraði hún og virtist ekki um sel.

- Guð minn eini, sagði ég. Hún horfði á mig um stund hugsi. Síðan svaraði hún ákveðið:

- Veistu, Hermann, ef þú ert að reyna að hræða mig, þá hefur það tekist. Mér er alls ekki um hvernig þú ert orðinn eða hvernig þú hefur hagað þér undanfarið. Þú ert alls ekki með sjálfum þér. Sjáðu útganginn á þér. Hvað er langt síðan þú rakaðir þig síðast eða greiddir þér almennilega? Mér líst alls ekkert á þessa breytingu. Þú ættir að fara hugsa þinn gang.

Síðan strunsaði hún framhjá mér og þrammaði sem leið lá niður í skóla, án þess svo mikið sem líta við. Ég stóð stjarfur eftir. Hvað gat ég sagt? Átti ég að segja henni sem var? Að Skelmir væri búinn að menga fyrir þorpsbúum og þar á meðal henni? Að marglytturnar væru gæddar einhvers konar ofurhæfileikum, gætu runnið saman við aðrar lifandi verur? Þær væru einhvers konar sníkjudýr sem breyttu persónuleika þeirra sem þær runnu saman við? Hver myndi trúa mér? Jafnvel nú, þegar ég sit hér einn inni í skáp, trúi ég varla sjálfur þessu. Sá raunveruleiki sem ég hef uppgötvað er svo miklu stærri og myrkari en sá sem ég hélt og trúði að væri sá hinn sanni.

Ég gekk í vinnuna líkt og uppvakningur. Tilfinningar mínar og hugsanir hurfu ofan í eitthvað svarthol og líkami minn hélt áfram með vanaföstum en tilgangslausum hreyfingum. Jafnvel í skólastofunni var eins og ég væri á sjálfstýringu, mér leið sem ég væri nokkurs konar tilbúningur og gengi fyrir vélbúnaði. Það var ekki fyrr en Snorri tók til máls, að ég kom aftur til sjálfs mín. Hann sat, sem fyrr, út við gluggann og starði annars hugar út. Síðan hóf hann upp raust sína. Röddin var hrjúf og köld.

- Heyrið hvernig hún kallar. Heyrið hvernig hún kallar. Heyrið hvernig hún kallar okkur til sín.

Krakkarnir litu við og störðu í sömu átt og hann. Í augum þeirra var sama fjarræna blikið og ég hafði svo oft séð í augum hans undanfarna daga. Þá leit Snorri á mig og örfá sekúndubrot fannst mér andlit hans breytast. Glottið og grimmdarlegt augnaráðið hvarf og í stað þeirra kom eitthvað búlduleitara, glitrandi og miklu, svo miklu eldra. Ég fann græðgina og hungrið stafa frá því. Skelkaður féll ég nokkur skref aftur.

- Skólinn er búinn í dag, þið megið fara, flýtti ég mér að segja og hljóp út úr stofunni. Að örfáum mínútum liðnum var ég kominn heim. Ég greip dagbækurnar mínar og faldi mig hér inni í fataskápnum mínum. Þau munu ekki ná mér. Ég skal aldrei verða eins og þau. Ég þarf bara að finna leið til að komast héðan, - til að stoppa þau. Stoppa Snorra. Stoppa Skelmi. Það verður einhver að gera. Er ég sá eini sem er með einhverju viti hérna?

 

---

 

Ég er búinn að snúa á þau. Ég útbjó rúmið með þeim hætti að það virðist sem einhver liggi þar. Síðan fór ég með nokkur teppi niður í kjallara ásamt dýnu úr rúminu í gestaherberginu og kom mér fyrir undir stiganum. Ég er einnig búinn að leggja glös ofan á hurðarhúna beggja útidyranna. Þeim skal ekki takast að ná mér líka. Ég mun fyrr deyja en að láta svona marglyttu taka yfir líkama minn. Ég ætla að vaka í nótt, ég er með öxina úr gamla verkfærasettinu hans pabba hér við höndina. Hver sá sem ætlar að brjótast hingað inn þarf að mæta mér.

Það er samt eitt sem ég skil ekki. Hvers vegna? Hvað fær Skelmi til að vilja gera þorpsbúum þetta? Hvers vegna vill hann að allir verði að svona marglyttufólki? Ég þarf að komast að því. Einhverjar ástæður hljóta að liggja þarna að baki, eitthvað sem ég hef ekki ennþá séð eða skilið. Hvað er það sem skeður þegar marglytta rennur saman við manneskju? Ég hef séð hvaða breytingar verða á fasi fólks, en ég hef ekki hugmynd um hvað gengur á í kollinum á því. Ætli allir breytist í marglyttur, grimmari en maður getur nokkurn tíma ímyndað sér? Ég veit það hreinlega ekki, ég get ábyggilega engan veginn gert mér í hugarlund hvað vakir fyrir Skelmi. Kannski að …

 

---

 

Ég drep hann! Ég mun murka úr honum líftóruna. Ég skal drepa helvítið á honum. Djöfull skal ég rífa úr honum kolsvart hjartað og leyfa honum að sjá hvernig lífið fjarar úr því.

Áðan heyrði ég hvernig einhver rjátlaði við hurðina, því annað glasið small í gólfinu og fór í þúsund mola. Ég spratt á fætur með öxina í hendinni og hljóp upp stigann. Einhver hafði reynt að opna útidyrnar. Ég fór mér í engu óðslega og passaði mig á því að kveikja engin ljós. Ég fór á fjóra fætur og skreið inn í stofu. Ég þurfti að passa mig á glerbrotunum, en það var frekar dimmt og ég fékk eitt í höndina. Ég þurfti að bíta á jaxlinn til að hljóða ekki upp, því ég vildi ekki að neinn vissi ég væri heima. Er ég kom að stofuglugganum reyndi ég að færa þykkar gardínurnar örlítið frá eins varlega og mér var unnt. Ég smokraði höfðinu undir tjöldin og rétt kíkti upp fyrir gluggakistuna.

Fyrir utan streymdi fólk úr húsum, misjafnlega vel klætt. Sumir voru klæddir í þykk vetrarklæði, aðrir voru á náttfötunum. Það skipti engum togum hvert ég leit, nær alls staðar voru dyr opnar og íbúar þorpsins gengu, að mér virtist, svefndrukknir niður götuna. Það virtist enginn vera í garðinum hjá mér eða yfirhöfuð gefa mér nokkurn gaum. Ég lét mig falla aftur á gólfið. Ég vissi ekkert hvað var að gerast í þorpinu, en ákvað að kanna það frekar. Það hefði ég betur látið ógert.

Ég fann gamla frakkann og klæddi mig í hann. Ég stakk exinni í annan vasann, lét á mig ullarhúfu og læddist út um bakdyrnar, eftir að hafa gengið úr skugga um það væri enginn í bakgarðinum að fylgjast með mér. Um leið og ský sigldi fyrir mánann skaust ég út og hélt mig í skugga hússins. Það blés örlítið og snjóföl fauk á milli húsa, eins og hvít lök á þvottasnúrum að sumri til. Það var þó lítið annað sem minnti mig á sumar. Ég fann fljótlega að ég hefði átt að fara í vettlinga, en ákvað að halda áfram í stað þess að snúa við. Íbúar þorpsins liðu áfram, eins og draugar í gegnum vegg, þeir virtust ekki taka eftir mér, heldur héldu áfram af draumkenndum vana niður götuna og út að baðströndinni. Illur grunur fór að læðast að mér. Ég greip í þann sem gekk mér næst og reyndi að ná til hans. Því miður skipti engu máli hvað ég gerði eða sagði, allir voru sem dáleiddir og drógust að ströndinni. Ég stoppaði og fylgdist með bæjarbúum staulast síðasta spölinn. Þegar sá síðasti hvarf yfir steinkambinn ákvað ég að koma mér fyrir þannig ég gæti horft yfir samkunduna.

Ég fékk ekki betur séð en á ströndinni væru vel flestir bæjarbúar samankomnir. Þau stóðu í hálfhring og opnaðist hringurinn að hafinu. Í honum miðjum stóð Skelmir í líki Hólmgeirs og var að tala. Ég heyrði reyndar ekki hvað hann sagði en af og til svaraði hópurinn á tungumáli sem ég hef aldrei heyrt áður og vona ég þurfi aldrei að heyra aftur. Að stuttri stund liðinni tóku þau að syngja sama söng og ég heyrði krakkana kyrja fyrir tveimur dögum. Allir sem einn vögguðu til og frá. Minnugur hvað gerðist síðast leit ég í ótta út á svartan hafflötinn. Þá dró fyrir tunglsljósið og um stund varnaði næturmyrkrið sýn. Ég sá rétt niður að hópnum þar sem hann stóð og söng.

Þegar birtan jókst á ný stóð Skelmir ásamt Snorra í miðjum hringnum. Á milli þeirra var einhver manneskja klædd í svartan kufl með mikla hettu yfir höfðinu. Hún var á hæð við Skelmi, kannski ívið minni. Ég reyndi að skríða örlítið nær en það var erfitt að finna stað þar sem ég sá vel yfir. Skelmir hóf upp raust sína og söng eitthvað á þessu hræðilega tungumáli sem þau virtust öll kunna. Síðan kippti hann hettunni ofan. Þetta var Katrín! Ég var sem lamaður af ótta. Hún hreyfði hvorki legg né lið. Starði fram fyrir sig eins og hún væri uppstoppuð. Á sama augnabliki tóku öldurnar að bera fjöldann allan af marglyttum á land. Upp úr sjónum reis mikill griparmur. Bæjarbúar þrengdu hringinn um Katrínu og voru vel flestir mjög nálægt henni. Skelmir lyfti báðum höndum upp til himins, sem væri hann í einhvers konar tilbeiðslu. Griparmurinn teygði sig að Katrínu. Ég starði á í hljóðlausri skelfingu. Hvað gat ég gert? Hann vafðist um hana. Það fóru kippir um líkama hennar. Þá var eins og hún kæmist til sjálfrar sín. Hún leit í kringum sig. Griparmurinn tók um höfuð hennar. Skelmir reif kuflinn og kippti honum af henni. Hún stóð nakin fyrir framan bæjarbúa.

Ég stóð á fætur og tók öxina úr vasanum. Bæjarbúar opnuðu munninn hver á fætur öðrum. Út komu þreifiarmar og angar. Hver þeirra vafðist um útlimi Katrínar. Hún reyndi að berjast um en fjöldinn var of mikill. Ég reyndi að hrópa en þau virtust ekki heyra í mér. Síðan hvarf hún ofan í mannhafið. Ég greip fyrir munninn í hryllingi þegar ég gerði mér grein fyrir hvað þau voru að gera. Mér fannst allt hringsnúast í hausnum á mér og ég þurfti að leggjast niður. Ég hlýt að hafa sofnað  eða fallið í yfirlið því þegar ég rankaði aftur við mér voru allir horfnir á bak og burt. Það var eitthvað sem togaði mig niður á ströndina. Það voru engin ummerki að sjá, hvorki tangur né tetur eftir af marglyttunum. Hvert sem ég leit, þá var eins og enginn hefði komið þangað í þó nokkurn tíma. Ég leitaði eftir sporum en fann engin önnur en mín eigin. Ég var því farinn að halda mig hefði dreymt þetta allt saman, gengið þangað niður eftir í svefni kannski. Á leið minni aftur heim fann ég hins vegar svolítið sem sannar að það sem ég sá var raunverulegt. Ég fann rifinn, svartan kufl hálfur á kafi í snjóskafli í bakgarði rétt hjá ströndinni.

Ég veit ekki hvernig Skelmir fór að því að afmá öll ummerki en hann skal ekki fá að njóta þessarar ánægju lengi. Ég mun drepa hann og koma í veg fyrir honum takist ætlunarverk sitt, hvert svo sem það er. Spurningin er bara hvernig. Læt það bíða til morguns. Nú þarf ég að vaka og tryggja þeim takist ekki að gera mig að marglyttuþræl.


Undrin við Lönguströnd

Elsku Sigga,

 

ég veit ekki hvað það er en ég þoli ekki þennan stað öllu lengur. Þetta þorp, fólkið sem býr hér, umhverfið, allt saman hefur slík áhrif á mig ég fæ vart lagt augun aftur og slakað á. Það er ekkert eitt sem ég get bent á, heldur samspil alls þessa – samspil sem minnir mig umfram allt á endalausan jarðarfaramars.

Í dag áttum við að rannsaka hús kennaranna, en Páll tók það ekki mál. Hann var búinn að samþykja dagskrána fyrir þó nokkru síðan en dró í land í morgun.  Mig langaði einna helst til að kyrkja hann, enda setti þetta allt úr skorðum. Ég hefði eflaust látið það eftir mér, ef ég hefði nokkra löngun í að snerta slepjulega húð hans. Hann starði á mig sigri hrósandi og glotti. Mér finnst hann hreint út sagt ömurleg persóna. Þess í stað fór ég ásamt sjóliðunum aftur í skólahúsið og unnum þar þangað til að myrkur skall á.

Við ákváðum að borða á kaffihúsi þorpsins í stað þess í matsal varðskipsins. Um leið og við gengum inn sló þögn á gesti staðarins. Þau störðu á okkur, ég lýg því ekki en það fór hressilega um mig. Öll þessi augu, ögn útstæð og sum pínu tileygð. Okkur hefur orðið tíðrætt um þetta útlitseinkenni þorpsbúa hér um borð. Fæstir kunna á því aðrar skýringar en að hér hafi í gegnum tíðina verið of mikill skyldleiki meðal fólks. Við reyndum að láta fjandsamlega þögnina inni á kaffihúsinu ekki hafa áhrif á okkur, létum sem ekkert væri og spjölluðum saman yfir matardiskunum. Á leiðinni heim vorum við hins vegar flestir sammála um, að því fyrr sem þessari rannsókn lyki, því betra.

Er Bjössi eitthvað að koma til? Mér varð einmitt hugsað til síðasta sumars er ég las bréfið frá þér. Þegar við vorum úti í ey, manstu? Ég hélt ég yrði ekki eldri ég hló svo mikið. Hann hnerraði svo hryllilega hlægilega en samt af miklum krafti þrátt fyrir að vera bara pínulítill. Æ, mér leiðist svo að vera frá ykkur. Ég vildi óska þess ég lægi núna við hlið þér í rúminu okkar, í stað þess að húka í þessari óþægilegu koju og reyna að hripa eitthvað niður.

Mamma sendi mér örfáar línur fyrir skemmstu. Ég hafði ekki hugmynd um að Sissa og Haffi ættu í einhverjum vandræðum. Er allt upp í háaloft? Það væri synd ef þau myndu skilja. Hvernig það færi með strákana, ég er ekki viss um það myndi leggjast vel í þá. Þeir eru svo ungir. Ég vona, að þau finni einhverja leið út úr þessu.

Jæja, ég ætla að fara slökkva ljósið og reyna sofna. Ég sakna ykkar og hugsa til ykkar á hverjum degi. Knúsaðu Bjössa frá mér. Ég vildi ég gæti tekið utan um þig og kysst þig, en þú verður bara að loka augum og ímynda þér ég sé þarna hjá þér.

 

                           Ástarkveðjur,

                                       þinn Jón Einarsson

 

 

PS. Værirðu til í að ganga svolítið eftir honum? Þú veist alveg hvernig Frikki er.


Undrin við Lönguströnd

29. október

 

 Ég lá andvaka langt fram eftir nóttu. Öðru hvoru skaust ég fram úr rúminu og laumaðist til að líta út um gluggann, en ég kom ekki auga á neinn fyrir utan. Ætli Skelmir sé hættur að láta fylgjast með mér? Kannski að atburðurinn í nótt hafi verið fyrir tilstilli hans. Að ætlunarverki hans sé formlega lokið. Samt finnst mér það ótrúverðug skýring. Ég fæ nefnilega ekki alveg séð hvernig þetta tvennt tengist, nema það sem Hólmgeir nefndi í bréfinu.

Eftir stuttan morgunverð klæddi ég mig og lagði síðan af stað til vinnu minnar. Katrínu hafði ég lofað að fylgja í skólann, þannig ég gekk sem leið lá til hennar. Ég var nokkuð snemma á ferðinni og því ekki margir á ferli, fyrir utan trillukarlana sem voru komnir á fætur langt á undan mér. Veður var stillt og himinn gott sem heiður, en fremur kalt. Það brakaði í snjónum undan fótum mér er ég gekk niður strætin, að öðru leyti var eiginlega þögn. Þar sem ég rölti einn með sjálfum mér fannst mér eins og allt sem hefur gerst undanfarna daga svo fjarlægt og óraunverulegt. Þorpið er einhvern veginn að komast í eðlilegt horf, orðið sjálfu sér líkt aftur.

Á sömu stund og ég átti leið framhjá gamla kaupmannshúsinu steig dr. Hannes út um útidyrnar, mér til mikillar undrunar. Hann var klæddur í hvítan slopp og með gleraugun á nefinu. Hann brosti alúðlega er hann tók eftir mér, þar sem ég stóð steinhissa á miðri götunni.

- Sæll, Hermann. Mikið ert þú snemma á fótum, sagði hann og sló kumpánlega á öxl mína. Ég starði gáttaður á hann um stund.

- Hvað í ósköpunum ertu að gera hér? Hvar hefur þú haldið þig undanfarna daga, spurði ég og viðurkenni fúslega, að mér hitnaði nokkuð í hamsi. Ég hef litið við hjá honum nokkrum sinnum eftir hann lét sig hverfa án þess að tala við kóng eða prest. Ég hef meira að segja beðið Pál um að líta eftir honum. Páll tók hins vegar fálega í það, eins og svo margt annað sem ég hef beðið hann um undanfarið.

- Alveg rólegur, vinur minn, á þessu eru röklegar og góðar skýringar. Hins vegar er hér hvorki staður né stund til að ræða það, sagði hann og horfði stíft í augu mér, eins og hann vildi segja mér eitthvað sérstakt en gæti það ekki þarna. Ég kinkaði kolli. Auðvitað var þetta rétt hjá honum, það er ýmislegt sem er betra að ræða undir fjögur augu, eins og til dæmis atburði næturinnar. Ef einhver gæti hugsanlega fundið út úr þeim haldbærar útskýringar þá er það hann, hugsaði ég með sjálfum mér um leið og ég kvaddi hann.

Skömmu síðar stóð ég fyrir utan hjá Katrínu. Út um opinn eldhúsgluggann heyrði ég hana bölsótast yfir einhverju. Án þess að banka gekk ég inn og fann hana við eldhúsvaskinn.

- Er ekki allt í lagi, spurði ég. Hún hrökk við, greip fyrir brjóstið og leit hvelft aftur fyrir sig, sem ætti hún von á að sjá einhvern djöful í dyragættinni.

- Guð minn eini, Hermann, þú mátt ekki gera mér svona bylt við, svaraði hún og gaf mér koss á vangann.

- Nei, veistu, ég skil þetta ekki. Þegar ég kom niður þá var fínn kraftur á vatninu, en núna lekur varla úr krananum. Gæturðu kannski athugað þetta fyrir mig, bætti hún síðan við. Ég er nú lítt handlaginn maður en get alveg bjargað mér með þá hluti sem bila á mínu heimili, svona oftast nær allavega. Ég opnaði skápinn undir vaskinum og athugaði hvort ekki væru öll rör í lagi, hvort nokkur leki væri en sá ekki neitt sem gæti hugsanlega verið bilað. Eftir um tíu mínútur ákváðum við að láta þetta eiga sig, fá einhvern sem hefur meira vit á pípulögnum en ég til að skoða þetta.

Er við komum í skólann tók ég strax eftir að Snorri, Bergdís, Þórarinn og örfáir aðrir nemendur voru ekki mættir. Ég ákvað vera ekkert að bíða þeirra, heldur hóf kennsluna þó svo stofan væri hálftóm. Hinir nemendurnir litu undrandi í kringum sig og skildu ekki almennilega hvers vegna þau voru ekki mætt og sjálfir kunni ég engar útskýringar á því. Það var ekki fyrr en eftir frímínútur að þau skiluðu sér í skólann. Ég fylgdist með þeim er þau komu gangandi í einum hnapp inn skólahliðið, Snorri og Þórarinn fremstir. Án þess svo mikið sem að biðjast afsökunar á fjarvistinni flýttu þau sér hvert til síns sætis þegar bjallan glumdi. Ég reyndi að krefjast svara en þau litu undan á Snorra, sem starði fjarrænn á svip út um gluggann yfir fjörðinn. Ég ákvað að láta þetta niður falla, minnugur atviksins síðustu nótt. Mér leikur meiri hugur á að fá skýringu á því en hvers vegna þessir nemendur mættu of seint.

Ég kom því bekknum af stað í stafsetningu en settist sjálfur niður til að fara yfir verkefnabækur. Í raun var það bara yfirskin, því öðru hvoru gjóaði ég augum þangað sem Snorri sat. Hann vann ekki neitt, heldur starði einbeittur út um gluggann. Munnvik hans voru örlítið beygð upp á við, sem gerði það að verkum mér sýndist hann glotta laumulega yfir einhverju. Hvað ég gæfi ekki fyrir að komast inn undir skelina hjá honum og öðlast stundarsýn á hvaða hugsanir svífa um í kolli hans. Það er eitthvað við þetta snyrtilega yfirbragð sem er ekki í lagi, eitthvað sem ég sé ekki og átta mig ekki alveg á. Nú á ég ekki við þá einföldu staðreynd að hann gjörbreyttist á einni nóttu, heldur útlit og yfirbragð hans í heild sinni. Það er hvernig hann brosir til mín, hvernig hann horfir á mig og hvernig hann lætur eins og sá sem valdið hefur. Hvað það er hins vegar sem fær hann til að vera svona, veit ég ekki hvað er. 

Ég kláraði að fara yfir stafsetningaræfingar krakkanna, kastaði kveðju á Katrínu og hélt síðan til dr. Hannesar. Hann hafði verið mér ofarlega í huga í allan morgun. Þær voru ófáar spurningarnar sem ég hafði tilbúnar handa honum og þyrsti í svör. Ég tróð snjóinn á milli húsa til að fara stystu leið að lögreglustöðinni, það hefði ég betur látið ógert því minnstu munaði ég fengi í höfuðið stærðar grýlukerti er ég skaust fyrir hornið á Bláu Könnunni. Ég sá í hendi mér að ég hefði nær örugglega rotast hefði ég fengið það í mig, jafnvel höfuðkúpubrotnað. Mér var því frekar brugðið og eflaust hefur svipur minn sýnt það því er ég gekk inn á stöðina þögnuðu lögreglumennirnir sem sátu með hvorn sinn kaffibollann og spiluðu á spil. Ég reyndi að brosa til þeirra en þeir horfðu bara á eftir mér án þess að sýna nokkur svipbrigði. Það tók mig drykklanga stund að telja sjálfum mér trú um að í lagi væri að fara aftur inn í fangaklefann eftir það sem ég sá síðast.

Dr. Hannes var á kafi í vinnu er ég kom. Á borðinu fyrir framan hann var viðarkassi en á gólfinu við hlið hans stóðu tvær plastfötur, önnur rauð en hin hvít. Ég ræskti mig og hann leit á mig.

- Ah, Hermann, þú ert kominn. Þú verður að sjá þetta, sagði hann og benti mér á að koma nær. Ég gekk yfir til hans og laumaðist til að líta ofan í föturnar. Í annarri sá ég ekki betur en væru marglyttur, í þeirri hvítu voru þrjár litlar rottur.

- Sjáðu, sagði hann og opnaði kassann. Ofan í honum var hvítur bakki úr plasti og stóð dökk rotta í einu horninu. Um leið og hún sá okkur var sem rynni á hana æði. Hún hljóp um allt og reyndi að klifra upp til okkar, en dr. Hannes sló hana niður með mjórri spýtu. Ósjálfrátt varð mér hugsað til rottunnar sem marglyttan smaug inn í frammi fyrir sjónum mínum. Dr. Hannes hefur eflaust ráðið í svip minn, því hann kinkaði kolli og sagði:

- Já, þessi er með marglyttu í sér. Ekki nóg með það. Hún virðist óseðjandi. Ég hef látið tvær rottur í kassann með henni í dag og báðar hefur hún drepið og étið. Hún virðist eflast öll að styrk og hungrar enn frekar í meira.

- Hvað segirðu? Eflist hún að styrk við það að éta aðrar rottur, spurði ég gáttaður.

- Já, hún gerir það. Fylgstu með, svaraði hann og beygði sig eftir rottu úr fötunni. Eftir skamma stund hafði honum tekist að ná taki á einni og lét hana falla niður í viðarkassann. Ég tók eitt skref aftur því satt best að segja vildi ég ekki fylgjast með átveislunni. Hann leit á mig, brosti og lokaði kassanum. Ekki leið á löngu þar til kassinn kipptist til og þó nokkur hávaði heyrðist frá honum. Eftir hálfa mínútu eða svo dró mjög úr látunum. Ég leit hálfskelkaður á dr. Hannes sem virtist hafa mikla ánægju af þessu. Hann opnaði kassann og sagði upp úr eins manns hljóði:

- Hún lifir til að drepa og drepur til að lifa. 

- Einfaldara verður það ekki, sagði ég og starði stjarfur á hann. Upp í hugann spratt samtal sem ég átti við hann skömmu eftir að Kolbrún fannst látin í lauginni. Ég fikraði mig hægt út úr fangaklefanum og hljóp síðan út. Það var aftur byrjað að snjóa, þungar flygsur sem svifu hægt til jarðar en samt var undarlegur seiður í loftinu. Ég veit ekki hvað það var, kannski var það minning mín um gærkvöldið sem hafði þessi áhrif á mig en mér fannst sem ég væri aftur farinn að finna fyrir stækjunni er kom þegar marglytturnar ráku á land. Sem í leiðslu gekk ég út eftir strætinu að götunni er lá niður að baðströndinni. Mér fannst sem allt væri hljótt. Ég tók ekki eftir neinu undarlegu í fyrstu, baðströndin var hulin snjó, líkt og allt annað, nema rétt niður við flæðarmálið. Ég stóð um stund og starði á bárurnar renna hægt upp í sandinn. Það var ekki fyrr en eftir nokkrar mínútur að ég tók eftir hvernig ljósið brotnaði í mjöllinni niðri í fjörunni. Ég tók nokkur skref nær og sá það, að marglyttur lágu þar í hundraða tali.

Ég hljóp við fót aftur upp á lögreglustöð til að láta Pál vita af þessu. Ég vissi að það þýddi ekkert að fara í ráðhúsið, þar myndi Skelmir eflaust gera lítið út öllu saman. Nei, Páll var rétti maðurinn og jafnvel dr. Hannes líka. Þegar ég kom aftur á lögreglustöðina mætti ég Snorra í dyrunum. Um varir hans lék sakleysislegt glott, en ég sá á grimmdinni í augum hans að ekki var allt með felldu.

- Snorri, hvað ert þú að gera hér, spurði ég. Hann leit upp til mín og reyndi að setja upp eins barnslegan og einlægan svip og honum var unnt.

- Hólmgeir bað okkur um að hjálpa sér. Ég var bara að koma með vatn því vatnsveitan er eitthvað í ólagi, svaraði hann og skokkaði á brott. Án þess að velta þessu eitthvað frekar fyrir mér flýtti ég mér inn á lögreglustöðina. Mennirnir tveir sátu þar enn við taflborðið og litu upp jafn hissa að sjá mig og áður. Ég flýtti mér fram fyrir borð þeirra, annar mannanna stóð upp og ætlaði að segja eitthvað en ég arkaði framhjá honum og inn að skrifstofu Páls. Áður en ég komst þangað kom ég auga á nokkuð sem olli því ég snarstansaði og fann hjartað hamast í brjósti mínu. Á gólfinu við hliðina á dyrunum inn til Páls stóð rauð plastfata! Hún var full af vatni, eða í fyrstu virtist svo vera. Ég starði um ofan í hana. Skyndilega sá ég örlitla hreyfingu. Hún var svo agnarsmá að mér finnst með ólíkindum ég skildi taka eftir henni. Dvergvaxin gára sem myndaðist og hvarf næstum eins og skot. 

Ég greip andann á lofti. Upp í hugann skaut atburðinum frá því í gærkvöldi. Gat verið að þessi fata hafi komið þaðan? Ég beygði mig niður til að skoða hana nánar. Um leið heyrði ég einhvern skarkala koma innan úr skrifstofu Páls. Ég spratt á fætur og opnaði dyrnar. Páll stóð með hálftómt vatnsglas í annarri hendi og tók andköf. Hann var fölur í framan og augun rauð.

- Er ekki allt í lagi, spurði ég skelkaður.

Hann kinkaði kolli, bandaði mér frá sér og kláraði úr glasinu. Um leið og ég sá hann bera það að vörunum tók ég á mig stökk en var of seinn.

- Hvað ertu eiginlega að gera, spurði Páll hissa er hann sá mig koma aðvífandi.

- Ekki drekka vatnið, öskraði ég. Hann horfði á mig eins og ég væri sturlaður.

- Fullseint, svaraði hann og sneri glasinu við. Örfáir dropar fellur niður á gólf. Síðan spurði hann:

- Hvers vegna ætti ég ekki að drekka vatnið? Eitthvað verð ég að drekka.

Ég settist niður og greip fyrir andlit mitt. Hvað ef vatnið sem Snorri kom með var mengað? Hvað ef í því væru marglytturnar sem þau fiskuðu upp úr sjónum í nótt? Ég nuddaði gagnaugun og rétti úr mér.

- Ég veit ekki alveg hvernig ég get útskýrt þetta fyrir þér þannig þú trúir mér. Ég vona bara, vegna þess hve lengi þú hefur þekkt mig munir þú allavega gefa þér tíma til að hlusta á það sem ég hef að segja.

Páll kinkaði kolli. Hann gekk að dyrunum og lokaði þeim áður en hann settist niður. Hann var alvarlegur á svip er hann gaf mér merki um að byrja. Í fyrstu sagði ég honum frá öllu því er tengdist Hólmgeiri, bréfinu, uppgötvun dr. Hannesar um eiginleika marglyttanna og síðan grunsemdum mínum um að Skelmir léti fylgjast með mér. Að lokum sagði ég honum frá þeim breytingum sem ég hefði orðið vitni að hjá sumum nemenda minna og atburði næturinnar.

- Þetta tengist, þú hlýtur að sjá það, sagði ég og hallaði mér fram á skrifborð Páls. – Skelmir hefur með einhverju móti náð að lokka til liðs við sig börnin. Í gervi Hólmgeirs hefur hann ábyggilega …

Um leið og ég sleppti orðinu var sem svefn rynni á Pál. Augu hans lokuðust og höfuðið seig niður á bringu. Ég teygði mig yfir borðið og ýtti við honum. Hann rankaði við sér en um leið og hann lyfti höfðinu og sá mig, tók ég strax eftir að eitthvað var breytt. Augu hans voru dimm og í þeim grimmdarblik. Ég hrökklaðist aftur fyrir mig.

- Hermann, hvað ert þú að gera hér? Komstu inn á meðan ég dottaði, spurði hann og um varir hans lék lymskufullt glott. Án þess að svara hljóp ég eins hratt og mér var unnt út. Ég þaut eins og eldibrandur yfir skafla og grindverk alla leið heim til mín. Við dyrnar stóð hvít plastfata, full af því sem virtist vera vatn. Ég sparkaði henni um koll. Ég ætla ekki að láta eitra fyrir mér. Skelmi skal ekki takast að láta marglyttur taka líkama minn yfir. Ef ég verð þyrstur bræði ég snjó. Ég læsti öllum dyrum og gluggum. Öðru hvoru hef ég orðið var við mannaferðir fyrir utan. Ég efast ekki um að Skelmir gerir sér grein fyrir því, að honum mun ekki takast að gera mig að marglyttuþræl. Aldrei.


Undrin við Lönguströnd

28. október

 

Ég svaf illa og vaknaði því seint. Ég hentist á fætur og sá á að ég hafði lítinn tíma til að borða. Eftir ég hafði klætt mig hljóp ég sem fætur toguðu í skólann, þrátt fyrir að mér væri meinilla við að mæta, því mér hefur sannarlega ekki liðið vel í vinnunni undanfarna daga. Á leið minni þurfti ég að klofa skafla sem náðu mér upp á miðja kálfa, ég var því bæði votur og sveittur er ég loks kom í skólahúsið. Ekki veit ég hvað Katrín heldur, ég hef bæði verið skelfilega undarlegur síðustu daga og auk þess furðulegur til fara. Einnig hef ég lítið náð að hitta hana vegna alls sem er að gerast. Á því verður þó bragarbót í kvöld.

Nemendur mínir týndust reyndar líka seint inn, eflaust má rekja það til færðarinnar. Þau voru einstaklega prúð í dag, en samt var einhver eftirvænting í þeim. Ég skil ekki alveg af hverju. Í hádegishléinu ræddi ég þetta við Katrínu og hún hafði orðið vör við það sama hjá sínum bekk. Reyndar hafði hún skýringu á þessu. Í námi hafði hún heyrt kennara sinn tala um áhrif gangs himintunglanna á líðan fólks og Katrín var viss um, að stórstreymið sem er væntanlegt á morgun orsakaði þennan spenning. Síðan talaði hún heillengi um rafsegulsvið jarðar og samspil plánetunnar og tunglsins. Ég hlustaði með öðru eyranu og kinkaði kolli af og til. Ég veit ekki hvað það var, en þegar hún minntist á að stórstreymt væri annað kvöld, þá var eins og allar viðvörunarbjöllur í hausnum á mér færu í gang. Kannski óttast ég að það færu fleiri marglyttur á land. Samt finnst mér eins og það sé eitthvað annað, ég geri mér bara ekki grein fyrir hvað það er.

Eftir að kennslunni var lokið sat ég um stund inni í stofunni minni og reyndi að ná einhverri yfirsýn á atburðina. Fyrst rak marglytturnar á land, þá fer einhver undarleg starfsemi í gang í kollinum á Skelmi og hann reynir að taka yfir líkama dóttur sinnar. Hólmgeir og Kolbrún ganga inn á þá athöfn og hann drepur Kolbrúnu fyrir vikið, kemur henni fyrir í sundlauginni ásamt nokkrum baneitruðum marglyttum, eflaust til að slá ryki í augu lögreglunnar. Nokkrum dögum síðar bankar hann upp á hjá mér og reynir að fá mig til að halda nemendum mínum frá ströndinni. Þá hverfur dr. Hannes og enginn virðist kippa sér upp við það. Því næst fékk ég bréfið frá Hólmgeiri og Páll vildi hvorki taka mark á því né viðvörunum mínum. Atburðarásin er einföld, en það eru svo margar spurningar sem sækja á mig. Hvernig kom Skelmir marglyttunum í laugina? Vissi hann af hæfileika þeirra til að smjúga inn í húð þeirra sem þær snerta? Var það þess vegna sem hann vildi ekki að börnin væru að fara niður á baðströnd? Ég fæ víst seint botn í þetta.

Við Katrín ákváðum sem sagt að eyða kvöldinu saman. Ég kvaddi hana áðan og gekk heim á leið, reyndar tók ég á mig krók til að sjá hvort Hólmgeir, eða Skelmir, væri hann í líkama Hólmgeirs, sæti á skrifstofu sinni. Þegar ég sá að svo var, taldi ég í mig kjark og heimsótti hann. Það kom mér á óvart að hann var einn á bæjarskrifstofunum. Hólmgeir virtist önnum kafinn þegar ég gekk inn til hans, hann grúfði sig yfir einhverja pappíra og fjölmargar bækur lágu opnar á borðinu fyrir framan hann. Sjálfur var hann klæddur í hvíta skyrtu og með blátt bindi, hann hafði losað aðeins um bindishnútinn og hneppt frá efstu tölunni ásamt því að bretta upp á ermarnar. Hárið var vatnsgreidd, eins og alltaf. Í raun sá ég ekkert sem benti til þess að það sem stóð í bréfinu ætti við rök að styðjast. Ég stóð í dyrunum og fylgdist með honum vinna um stund. Varir hans bærðust örlítið um leið og hann las úr þungri og rykugri skræðu. Ég ræskti mig og hann leit upp. Er hann sá mig brosti hann. Það var þó hvorki innilegt né gleðiríkt, heldur hungrað og grimmúðlegt. Mér brá í fyrstu en neyddi sjálfan mig til að halda áfram. Ég steig því varlega inn á skrifstofuna.

- Sæll, gamli vinur, sagði Hólmgeir og rétti úr sér í stólnum. Hann spennti greipar fyrir aftan hnakka.

- Já, blessaður og sæll, svaraði ég og stóð eins og illa gerður hlutur á miðju gólfinu. Hann benti mér á að setjast. Ég gerði eins og hann bauð, um leið reyndi ég að sjá hvað það væri sem hann var að gera með allar þessar gömlu bækur en ég náði ekki að sjá það nógu vel. Þó fékk ég ekki betur séð en þær væru útlenskar, mér gæti þó hafa missýnst. Eftir drykklanga stund og vandræðalega þögn tók ég til máls. Hann sat og fylgdist glottandi með mér. Mér leið hálfilla undir augnaráði hans.

- Er nokkuð að frétta af nýjum bókakosti fyrir skólann, spurði ég og reyndi að hljóma sakleysislega.

- Nei, svaraði hann eftir stutta umhugsun. Ég starði um stund á hann. Mér fannst eins og einhver birta hyrfi úr augu hans, líkt og þegar ský dregur snögglega fyrir sólu á björtum degi. Ég reyndi að láta á engu bera, þakkaði honum fyrir og stóð á fætur. Um leið og hann sá að ég var að gera mig kláran að fara, reis upp úr stólnum og sagði:

- Þakka þér fyrir komuna. Alda spurði um þig um daginn, þú ættir endilega að kíkja í mat eitthvert kvöldið.

- Já, kannski, svaraði ég, ekki þorði ég að spyrja hann út hvernig henni liði ef vera kynni hann skyldi gruna eitthvað. Ég gerði mig þess í stað líklegan til að hverfa á brott.

- Vertu sæll, Hólmgeir og þakka þér fyrir.

- Verið þér sælir!

Mér fannst eins og tíminn stæði í stað. Orðin köstuðust fram og aftur í kollinum á mér. Hólmgeir var ekki vanur að þéra mig en ég hef ekki umgengist Skelmi það mikið að ég geti sagt með vissu hvort hann hafi nokkurn tíma þérað mig, ég minnist þess þó ekki. Það er aðeins ein manneskja sem þérar mig. Alda. Hólmgeir sagði reyndar í bréfinu, að hún væri dáin. Hvernig getur þetta staðist? Hvers vegna ætli Skelmir taki upp á þessu? Kannski veit hann ekki, að við Hólmgeir vorum ekki vanir að sýna hvor öðrum slíka kurteisi, enda æskuvinir.

Þegar ég gekk út úr skrifstofunni fannst mér sem bergmál fótataka minna hljómuðu full hátt í gott sem yfirgefinni byggingunni. Er ég stóð við útidyrnar leit ég aftur fyrir mig og sá hvar Skelmir stóð íklæddur líkama fornvinar míns, hallaði sér með krosslagðar hendur upp að dyrastafnum og fylgdist með mér. Mig langaði einna helst til að öskra á hann. Hlaupa að honum og slá gerpið niður, neyða hann til að skila mér aftur þeim Hólmgeiri sem ég þekkti.

Jæja, nú fer klukkan að nálgast sjö og ég ætti að fara að drífa mig til Katrínar. Ég vona bara, að enginn elti mig þangað. Kannski er best að fara að öllu með gát og nota bakdyrnar. Ætti ég að dulbúa mig? Ég veit það ekki, ég vil ekki skjóta henni skelk í bringu, allavega ekki meir en komið er.

 

---

 

Er ég að missa vitið eða getur verið að hér séu að gerast atburðir sem eru svo ofar mínum veiklulega skilningi, að ég fæ ekki með nokkru móti séð hvernig þeir eiga við rök að styðjast? Eru augu mín kannski hætt að sjá og hugur minn fyllir upp í myrkrið með myndum sem í senn eru ógnvekjandi en jafnframt áhugaverðar í óútskýranleika sínum?

Kvöldverðurinn hjá Katrínu var með ágætum. Hún mætti mér í dyrunum klædd í rósótta sumarkjólinn sinn, þennan sem hún var svo oft í síðasta sumar. Hárið hafði hún flétt og hún hafði látið ilmvatn á sig. Um stund fannst mér ég hálfkjánalegur, því ég hafði ekki einu sinni farið í bað. Ég rétt skipti um föt. Einnig hefði ég kosið að hafa eitthvað meðferðis handa henni, eitthvað fallegt sem hefði glatt hana. Því miður þá man ég aldrei eftir svona löguðu, ég verð að bæta úr því. Hins vegar hrósaði ég henni fyrir hve falleg hún væri og það virtist gleðja hana. Að minnsta kosti kyssti hún mig þarna í forstofunni. Eftir matinn sátum við og spiluðum rommí fram til klukkan tíu. Á meðan við spiluðum ræddum við saman um ýmsa aðila í þorpinu, ætli ekki megi segja að við höfum verið að slúðra svolítið en það kemur ekki að sök. Hér vita allir allt um alla.

Ég þakkaði fyrir mig og bjóst til heimferðar. Um leið og hún hafði lokað að sér sá ég einhvern lítinn skugga speglast í rúðunni í hurðinni hjá henni. Ég sneri mér við og tók eftir hvar Þórarinn hvarf hlaupandi á milli húsa, ég þekkti hann á rauðum kollinum. Ég fékk ekki betur séð en hann væri með ljósa fötu í annarri hendinni. Ég ákvað að elta hann. Hann hljóp við fót troðinn slóða sem liggja á milli húsanna hér í þorpinu niður að ströndinni, þessi slóði er annars lítið notaður nú til dags, flestir fylgja gangstígunum þangað en hins vegar var hann notaður mun meira þegar ég var yngri. Yfir honum slútta tré og mér leið eins og þau mynduðu einskonar vírnet yfir mér. Ég fór að engu óðslega, því ég vildi ekki að hann kæmist að því ég væri skammt undan. Hann virtist ekki taka eftir mér og flýtti sér sem mest hann mátti, uns hann var kominn í sjónmál við ströndina. Hann leit um öxl, eins til að sjá hvort nokkur væri fyrir aftan hann. Ég kastaði mér í skjól. Þórarinn hélt áfram yfir grjótgarðinn og niður í fjörusandinn. Ég skreið áfram þar til ég sá vel yfir. Í fjöruborðinu stóðu ásamt honum þau Snorri, Bergdís og öll hin sem hafa undanfarið bæst í hóp þeirra. Einnig fékk ég ekki betur séð en með þeim væri einhver fullorðinn, hann var í þykkri úlpu með hettu á höfði en mér tókst ekki að komast nógu nálægt til að sjá andlit hans almennilega, líkami hans var þreklegur og þaðan sem ég horfði virkaði hann mikill um sig en þykk úlpan gæti hafa blekkt mig að einhverju leyti. Öll voru þau að þeim fullorðna undanskildum með rauðar eða hvítar fötur eða einhvers konar ílát. Þau stóðu þar um stund og ég held þau hafi verið að kyrja eitthvað, ómur af söng barst til mín og öll réru þau fram og aftur, sum þeirra héldust í hendur. Mér sýndist þau hreyfa sig í takt við öldurnar sem féllu að ströndinni. Ég fikraði mig örlítið nær. Öðru hvoru dró ský frá mána og daufa skímu lagði yfir vatnsflötinn. Þrátt fyrir hversu fáránleg mér þótti þessi samkoma og tilgangur hennar óskýr, þá var eitthvað sem hélt aftur af mér í því að fara niður grjótgarðinn.

Eftir nokkrar mínútur hættu þau að kyrja þennan lágstemmda söng og virtust bíða einhvers. Þau hreyfðu hvorki legg né lið, en störðu öll sem eitt út á fjörðinn. Ósjálfrátt leituðu augu mín þangað. Í sömu mund dró frá tunglinu, um leið og birtan jókst sýndist mér ég verða var við hreyfingu á haffletinum. Eins og eitthvað drægi sig hægt að ströndinni. Eitthvað segi ég, því satt best að segja veit ég ekki hvernig ég get lýst því öðruvísi. Það sem gerðist næst var ótrúlegt og ég er enn ekki sannfærður sjálfur um hvort mig hafi í raun dreymt þessa atburði eða ég hafi upplifað veruleika sem er jafn firrtur og óskiljanlegur og sá sem ég upplifði í kvöld.

Í daufu tunglsljósinu sá ég ekki betur en vera á stærð við hval risi upp úr sjónum skammt undan ströndinni. Litarhaft verunnar var þó í engu lík þeim stóru spendýrum, heldur var frekar marglitara, eins og þunn olíubrák á vatni. Risastór fálmari skaust upp úr vatninu og hóf sig hátt yfir öldurnar. Lýsingu Hólmgeirs á skugganum skaut niður í kollinn á mér. Börnin hófu söng að nýju og drógu með því athygli mína að sér. Þau voru aftur komin með föturnar í hendurnar, ég fékk ekki betur séð en þau væru að bíða einhvers. Sá fullorðni hélt báðum höndum upp í loft, sem væri hann að tilbiðja veruna. Skyndilega lét hún þreifiangann falla aftur í sjóinn með miklum gusum og skellum. Vatn gekk yfir þau öll sem á ströndinni stóðu. Ég þurfti að líta undan til að forðast að fá saltvatn í augun en þegar ég sneri mér aftur að hópnum, þá sá ég að allt umhverfis þau lágu nú hundruð marglytta. Að skipan þess fullorðna tókust nemendur mínir strax handa við að týna þær upp í föturnar með berum höndunum! Ferska vatnið hlýtur að virkja hæfileika holdýranna, nema að börnin séu öll orðin smituð! Er hver og einn hafði fyllt sína hlupu þau aftur í átt að þorpinu. Ég flýtti mér í burtu svo þau kæmu ekki auga á mig.


Undrin við Lönguströnd

27. október

 

Ég get ennþá ekki sofið. Hvernig ætti ég svo sem að geta það? Ég er búinn að liggja í rúminu mínu og reyna festa svefn í hátt í fjórar klukkustundir. Það er sama hvað ég hef gert. Ég lá og starði upp í rjáfur og velti fyrir mér möguleikum mínum þegar ég heyrði svolítið undarlegt. Eins og einhver tæki í hurðarhúninn á útidyrunum. Þó ég væri á efri hæðinni, þá greindi ég samt hvað var að gerast. Ég spratt fram úr og kíkti niður. Mér sýndist enginn standa fyrir utan. Þá fannst mér sem einhver skarkali bærist innan úr eldhúsi. Ég tiplaði á tánum niður stigann og kveikti ljósið. Eitt augnablik fannst mér eins og einhver skuggaleg vera stykki í skjól við eldhúsgluggann. Ég flýtti mér að honum og leit út, en þar var enginn. Gat verið að ég hafi misst af þeim sem ætlaði að brjótast hér inn? Ætli það hafi verið Skelmir? Skyldi hann vita af bréfinu?

Eitt er víst, mér á ekki eftir að koma dúr á auga í nótt. Ég ætla að sitja fyrir honum, bíða hér í eldhúsinu með ljósin slökkt. Ég skal góma hann.

 

---

 

Þegar sólin reis hætti ég mér loksins út. Ég er nokkuð viss um að einhver var hér fyrir utan í alla nótt og fylgdist með húsinu mínu. Mér fannst ég verða nokkrum sinnum var við hreyfingu við hliðið og í garðinum. Kannski voru það bara kettir og smáfuglar, ég sá svo sem aldrei neinn, ekkert nema flöktandi skugga í næturmyrkrinu. Ég braut bréfið saman og stakk því í vasann. Síðan fór ég inn í fataskáp og fann gamlan frakka og klæddi mig í hann. Ég reyndi að hylja eins mikið af andliti mínu og mér var unnt, ég lét þess vegna á mig trefil og hatt. Ég fór út um bakdyrnar.

Þrátt fyrir að það væri byrjað að birta af degi, þá var útsýni lítið. Það var nokkuð stöðug ofankoma, snjókorn á stærð við býflugur sigu þunglamalega niður á hélaða jörðina. Ég tók á mig stökk og hentist yfir grindverkið í næsta garð. Þar beið ég um stund og reyndi að heyra hvort nokkur hefði tekið eftir mér eða væri á hælum mér. Svo virtist ekki vera. Ég hafði þó sterklega á tilfinningunni að einhver væri að fylgjast með mér. Á sama hátt og ég veit að í þessum töluðu orðum er einhver úti í rökkrinu og sér það logar ljós í svefnherberginu mínu – einhver sem situr og bíður eftir að ég geri mistök.

Ég hélt áfram, ég smeygði mér á milli garða og reyndi eftir fremsta megni að komast hjá því að láta taka eftir mér. Þegar ég loks kom að lögreglustöðinni var ég orðinn holdvotur í fæturna en hafði ekki orðið var við neinar mannaferðir. Af og til fannst mér þó ég heyra í einhverjum fyrir aftan mig, en kom aldrei auga á hver það hefði getað verið, þó svo mig grunar – nei, ég veit hver það var. Hann skal þó ekki komast upp með þetta.

Páll var ekki við þegar ég kom þangað. Ég athugaði einnig hvort Hannes væri inni hjá sér en hann hefur enginn séð í nokkra daga. Ég skil þetta ekki. Hvorugur lögregluþjónanna virtist kippa sér upp við hvarf Hannesar. Ég reyndi hvað ég gat til að sannfæra þá um að leita hans, en þeir horfðu bara hvor á annan og glottu út í bæði. Ég veit ekki hvað er að gerast. Ég flýtti mér aftur út og reyndi að hafa uppi á Páli, en allt kom fyrir ekki. Ætli hann sé horfinn líka?

Ég flýtti mér í vinnuna, þrátt fyrir mér væri það þvert um geð. Ég þurfti að telja í sjálfan mig kjark áður en ég steig inn í stofuna. Ég mætti vissulega töluvert seint og þar að auki til reika eins og útigangsmaður. Katrínu var brugðið við að sjá mig en ég útskýrði klæðaburð minn ekkert sérstaklega fyrir henni. Ég tel best, að vera ekki að blanda henni inn í þetta mál. Ég vil ekki að neitt slæmt hendi hana. Nei, það er skynsamlegast að halda henni fyrir utan þetta allt saman. Því minna sem hún veit, því betra, annars er hætt við að Skelmir ráðist gegn henni og Guð einn veit hvað getur gerst þá. Hún var samt ekki alveg sátt við þau svör sem hún fékk frá mér, ég sá það á henni.

Inni í stofunni minni var allt með kyrrum kjörum. Börnin litu varla upp úr bókunum þegar ég gekk inn. Snorri var búinn að færa sæti sitt og sat nú í öftustu röðinni og horfði dreyminn út um gluggann. Það er ágætis útsýni yfir fjörðinn úr skólahúsinu og ég fékk ekki betur séð en yfir honum væri einhvers konar værð eða ró, nokkuð sem ég hef ekki séð hjá honum undanfarið. Þegar hann tók eftir að ég var kominn, færðist sami kuldinn yfir augnaráð hans og yfirbragð hans breyttist til hins verra. Ég spurði hann hvers vegna hann hefði fært sig.

- Við Þórarinn ákváðum að skipta um sæti, svaraði hann og starði ákveðinn á mig.

- Og hver gaf ykkur leyfi til þess, spurði ég um hæl og reyndi mitt besta til að hljóma staðfastur. Snorri glotti út í annað.

- Nú, kærastan þín, sagði hann og hló við. Hinir krakkarnir flissuðu. Það var samt ekki gleðiríkur hlátur, heldur innantómur og tilfinningalaus. Ég leit í kringum mig. Skyndilega var sem ég fengi augnablikssýn inn í annan heim. Ég horfði yfir bekkinn, þar sem nemendurnir sátu prúðbúnir hver í sínu sæti, fyrir utan þá Snorra og Þórarinn, eins og gefur að skilja. Í fyrstu virtist allt eðlilegt, en síðan þyrmdi yfir mig nagandi efi og ótti. Í augun barnanna fann ég óendanlega grimmd, kulda og miskunnarleysi. Svipað því sem ég sá hjá rottunni sem dr. Hannes notaði í tilraun sinni með marglyttuna. Þá fannst mér eins og örfá sekúndubrot ég taka eftir óeðlilegum bjarma stafa af húð krakkanna, marglitur en umfram allt ógnvekjandi og ójarðneskur. Ég greip fyrir munn mér, til að hljóða ekki upp. Hönd mín leitaði aftur, til að finna eitthvað sem ég gat stutt mig við, því mér fannst eins og ég hefði misst allan mátt úr fótunum.

- Er ekki allt í lagi, Hermann, spurði Bergdís með sakleysislegum svip. Hún gjóaði augum á Snorra, sem mér sýndist brosa út í annað. Ég reyndi að hugsa upp afsökun í flýti, en ég veit ekki hversu trúverðug hún hefur hljómað.

- Jú. Eða nei, ég hlýt að vera orðinn lasinn, svaraði ég og strauk yfir enni mitt. Ég bað þau um að afsaka mig og flýtti mér fram á gang. Ég varð var við, að þau ræddu eitthvað sín á milli er ég gekk út úr stofunni en mér var svo mikið niðri fyrir að ég heyrði ekki orðaskil. Hins vegar komst ég ekki hjá því að heyra í Snorra, þar sem hann hló illkvittnilega. Ég fór fram á gang og inn til Katrínar. Henni brá þegar ég ruddist inn í stofuna hennar. Ég reyndi að koma frá mér heilli setningu en mér fannst eins og allt vit hefði verið sogað úr kollinum á mér. Hún starði forviða á mig, eins og ég væri genginn af göflunum og eflaust hef ég litið þannig út, ennþá í gamla frakkanum og augnaráð mitt villt og leitandi. Ég snerist á hæli og þaut út úr skólahúsinu, við hliðið leit ég um stund aftur fyrir mig og mér sýndist ég sjá Snorra og Bergdísi standa við dyrnar ásamt Katrínu og horfa á eftir mér. Var kannski rangt af mér að skilja hana eina eftir með þeim?

Ég er svefnvana og finn mér hvergi nægan frið til að slappa af, alls staðar er eitthvað sem kallar á athygli mína og dregur hana aftur að þeim atburðum sem ég hef lent í undanfarna daga. Þeir eru eins og svarthol í vitund minni.

Ég hljóp sem fætur toguðu í áttina að lögreglustöðinni. Þegar ég náði þangað stormaði ég inn á skrifstofu Páls og lokaði á eftir mér. Ég aðgætti hvort nokkur hefði elt mig eða hvort nokkur gæti hugsanlega legið á hleri. Páll sat undrandi á svip við skrifborðið sitt þegar ég sneri mér að honum.

- Hvað er eiginlega í gangi, spurði hann og hló við. Brosið á andliti hans hvarf þó skjótt er hann sá hve óttasleginn ég var.

- Þú verður að hjálpa mér, svaraði ég lágt. Ég hallaði mér að honum og hvíslaði í eyra hans.

- Ég er með nokkuð sem þú verður að sjá. Nokkuð sem varðar Hólmgeir, vin okkar, sagði ég og rétti honum síðan bréfið. Mér fannst um stund erfitt að láta hann hafa það, eins og ég væri að neyða upp á hann öðrum raunveruleika – raunveruleika sem er mun verri en sá sem við höfum báðir búið í. Hvað var hann annað en tálsýn,  listilega ofinn blekkingavefur? Allan þann tíma sem ég hef þekkt Hólmgeir, Öldu og Skelmi hefur mér aldrei dottið annað í hug en það væri allt eðlilegt hjá þeim. Sá veruleiki sem ég þekkti eitt sinn er að engu orðinn og hvað var ég að gera annað en að troða þessari upplifun minni upp á hann?

Páll las bréfið yfir og horfði síðan undrandi á mig.

- Hvar fékkstu þetta, spurði hann.

- Ég fann það á skrifborðinu mínu í skólanum í gærdag. Við verðum að gera eitthvað. Þú verður að handtaka Skelmi. Þú verður að gera eitthvað í þessu, Páll, sagði ég örvæntingarfullur. Hann horfði rannsakandi á mig.

- Ég get ekki handtekið hann bara sisvona. Ég verð að hafa til þess gildar og góðar ástæður.

- Hvað með bréfið? Þú hlýtur að sjá, að Skelmir er að drepa hann.

- Ég hitti Hólmgeir í morgun og hann var hinn hressasti, svaraði Páll. Eitthvað við hvernig hann horfði á mig og tóninn í röddu hans sló mig. Ég stóð á fætur, greip bréfið af borðinu og hljóp út. Fyrir aftan mig heyrði ég hann kalla nafn mitt en ég gaf því engan gaum og forðaði mér út af lögreglustöðinni. Þegar ég kom út á strætið hafði hvesst töluvert og bætt í snjókomuna. Ég hneppti að mér frakkanum og dró hattinn niður fyrir eyru. Bréfinu stakk ég aftur inn á mig. Eftir stuttan göngutúr stóð ég fyrir framan gamla kaupmannshúsið. Það leit ekki út eins og hús sem hýst hefur djöfullegar athafnir seiðskratta eða morðingja. Neðan úr þakskegginu hengu grýlukerti, þau minntu mig einna helst á beittar tennur hákarla. Snjór safnaðist í skafla við veggina. Ég stóð um stund við garðhliðið og fylgdist með húsinu, ég varð ekki var við að einhver væri heima. Ég leit í flýti í kringum mig, til að athuga hvort nokkur væri á ferli, sem betur fer var veðrið með því móti að vart sást á milli húsa. Ég tók á mig stökk og var kominn í einu hendingskasti aftur fyrir húsið. Þau hjónin eru ekki vön að læsa bakdyrunum. Ég tók varlega í hurðarhúninn, það kom mér ekkert sérstaklega á óvart að komast að raun um að sú leið væri mér ekki fær. Ég myndi líka læsa öllum dyrum og festa aftur glugga ef ég hefði eitthvað að fela. Eftir að hafa kannað hvort nokkurs staðar væri möguleiki á að komast inn og fullvissað mig um að svo var ekki, hélt ég aftur heim. Ég gætti þó að mér, því skömmu eftir að ég var kominn út úr garðinum fannst mér ég verða var við einhvern fyrir aftan mig. Það er einhver sem fylgist með mér dag og nótt, ég veit hins vegar ekki hver það er. Mig grunar þó, að það sé Skelmir, nema hann hafi snúið einhverjum á sitt band og láti viðkomandi elta mig hvert sem ég fer. Ég skal þó ná að sitja fyrir kauða og þegar ég kemst að því hver það er, þá næ ég í hnakkadrambið á honum og þá getur Páll ekki horft framhjá þessu lengur. Ég mun draga sannleikanum upp úr þeim sem eltir mig og skella honum á borðið hjá Páli. Þá verður réttvísinni fullnægt.

Mig langar líka til að sjá hvort Hólmgeir sé heima hjá sér, hvort það sem stendur í bréfinu sé allt saman rétt. Að hann sé smá saman að leysast upp og deyja í líkama Öldu. Ég verð að komast inn til hans. Kannski ég ætti að laumast þangað í kvöld, taka eitthvað af verkfærum með mér og brjótast inn. Ég þarf bara að vera viss um að enginn sé heima, ég vil síður rekast á einhvern á meðan þessari litlu rannsókn minni stendur.

 

---

 

Ég klæddi mig aftur í gamla frakkann um ellefu, stakk skrúfjárni í vasann og fór eins laumulega og mér var unnt út um bakdyrnar. Reyndar er ég nokkuð viss um að einhver hafi verið að fylgjast með húsinu mínu, því ég kom tvisvar sinnum auga á einhvern sniglast fyrir utan áður en ég lagði sjálfur af stað. Það var komið myrkur, ég rétt greindi útlínur viðkomandi en ég fékk ekki betur séð en sá hinn sami væri nokkuð stór og sterklega vaxinn. Ég veit ekki hver þetta er, ég man ekki eftir neinum sem tengist Skelmi sem gæti passað við þá lýsingu. Hver gæti þetta verið? Hann hlýtur að hafa fengið einhvern til liðs við sig, einhvern sem mig myndi aldrei gruna, geri ég ráð fyrir. Ég get þar af leiðandi ekki treyst neinum. Ég verð að leysa þetta mál sjálfur. Þar sem nú er einhver sem fylgist með mér, þá þurfti ég að gera ákveðnar ráðstafanir til að slá ryki í augu hans. Ég skyldi því eftir kveikt ljós í svefnherberginu mínu og reyndi að útbúa einhvers konar líkan af sjálfum mér við skrifborðið mitt. Það tók mig drykklanga stund að finna út hvernig ég gat komið því til svo þegar einhver liti inn upp í gluggann sæi viðkomandi útlínur mínar, en það tókst að lokum.

Ég læddist út og beið um stund í felum við grindverkið í garðinum mínum. Þegar ég var orðinn nokkuð viss um að enginn hefði orðið mín var, steig ég aftur á fætur og laumaðist á milli húsa í áttina að kaupmannshúsinu. Ég forðaðist einmanalegar ljóskeilur götuvitanna, birta þeirra megnaði ekki að lýsa upp sortann eða í gegnum hríðina. Húsið var almyrkt er ég kom þangað, ég rýndi eins og mér var unnt í snjóinn fyrir framan það til að sjá hvort nokkur hefði gengið þá leið inn en sá engin spor. Ég hafði svo sem ekki mikinn tíma til að rannsaka það, því sá sem þau sendu til að elta mig var eflaust á hælum mér og ég vildi ekki að hann fyndi mig fyrir framan hús þeirra. Ég kom heldur ekki auga á nein spor við bakdyrnar, því hætti ég á að taka í hurðarhúninn og kanna hvort það væri opið. Sem fyrr þá var læst, því tók ég skrúfjárnið úr vasanum og spennti upp lítinn glugga sem er við hliðina á dyrunum. Það gekk furðuvel og fyrr en varði var ég kominn inn fyrir. Ég klæddi mig úr skónum og fikraði mig hljóðlaust inn í dimmt húsið. Það fyrsta sem ég tók eftir, er ég kom inn var lyktin. Hún minnti einna helst á angan af söltum sæ og rotnandi þara. Ég veit ekki hversu oft ég hef gengið meðfram ströndinni og fundið einmitt þennan angan. Ég hélt á skrúfjárninu til öryggis. Stofan og eldhúsið var eins og vanalega, ég sá ekkert sem benti til nokkurs annars en að þar færi fram eðlilegt heimilislíf. Ég færði mig því upp á efri hæðina. Stiginn er að mestu klæddur gólfteppi og ég hélt mig á því. Hins vegar sleppti ég því að stíga á neðri stigapallinn, því ég þekki af reynslu að það hættir til að braka allhátt í honum.

Það var enginn heima. Ég fór inn í hvert herbergið á fætur öðru, þar voru rúm uppábúin og ef ég hefði ekki vitað betur, þá hefði ég allt eins getað haldið að þau væru einhvers staðar í ferðalagi, Hólmgeir og Alda. Ég rakst ekki á neitt grunsamlegt, fyrr en ég kom inn í baðherbergið. Í fyrstu tók ég ekki eftir neinu undarlegu, ég leit snögglega í kringum mig og sá ekki betur en þar væri allt eins og ég er vanur að sjá það. Ég var kominn aftur fram á gang þegar ég gerði mér skyndilega grein fyrir að baðið hafði verið fullt af vatni. Ég sneri því aftur inn og hætti á að kveikja ljós. Þegar augu mín höfðu vanist birtunni sá ég að svo var, baðið var barmafullt. Föt af Hólmgeiri lágu á gólfinu. Ég gekk rólega að baðkerinu. Ósjálfrátt stakk ég hönd minni ofan í það, til að kanna hvort vatnið væri volgt en svo var ekki. Ég þurrkaði af hönd minni og fór aftur niður. Ég klæddi mig aftur í skóna og fór sömu leið heim. Ég hlýt að hafa náð að stinga af þann sem á að fylgjast með mér, því ég varð hans ekki var. Hann er samt þarna úti einhvers staðar í myrkrinu, þó ég sjái hann ekki veit ég af honum en það skal ekki verða honum auðvelt að ná mér. Ég sé í gegnum þetta allt saman.


Undrin við Lönguströnd

26. október

 

Hvar skal byrja? Hvar skal hefjast handa? Það hefur svo ótalmargt gerst í dag, ég á satt best að segja erfitt með að koma nokkru lagi á hugsanir mínar. Ætli mér eigi nokkuð eftir að koma dúr á auga í nótt?

Bréf beið mín á skrifborðinu í skólastofunni þegar ég kom þangað. Það lá þar ósköp sakleysislega, rétt eins og hvert annað sendibréf, en ef ég hefði vitað þá hvert innihald þess var hefði ég líklega aldrei þorað að opna það, hvað þá renna augum mínum yfir texta þess. Ég sat gáttaður og kom ekki upp orði á meðan ég las bréfið, vissi hvorki í þennan heim né nokkurn annan, ef því er að skipta. Þegar ég hafði lokið mér af sat Snorri í sætinu sínu og horfði brosandi á mig. Mér snöggbrá því ég hafði ekki orðið var við hann kæmi inn.

- Líður þér ekki vel, Hermann, spurði hann smeðjulega. Mér stóð eiginlega stuggur af honum. Eitthvað við yfirbragð hans skelfdi mig, kaldur andlitssvipurinn og grimmd augnaráðsins var nokkuð sem ég átti erfitt með að þola einmitt þá stundina.

- Mér, svaraði ég og reyndi að sýnast eins rólegur og mér var unnt, en miðað við hversu forkastanlegar og stórfurðulegar fréttir ég hafði þá rétt lesið, var mér það ákaflega erfitt.

- Já, líður þér ekki vel, endurtók Snorri.

- Jú, mér líður ágætlega, Snorri minn, ekki sem verst.

- Þú ert eitthvað fölur.

- Er það, já?

- Já, heldur fölur. Eins og eitthvað sé ekki í lagi.

- Það er allt í lagi með mig. Hafðu ekki áhyggjur af mér, karlinn minn.

- Þær hef ég ekki, það get ég fullvissað þig um, svaraði hann. Ég leit á hann og glottið á andliti hans hafði stækkað svo um munar.

- Á meðan ég man, þá átti ég að bera þér kveðju vísindamannsins, sagði hann. Það var eitthvað við tóninn í rödd hans sem varð til þess ég fékk skyndilega áhyggjur af Hannesi. Ég hafði jú ekki séð hann síðan á laugardag.

- Nú, hvenær hittirðu hann, spurði ég kæruleysislega og þóttist vera taka til í blöðunum á borðinu mínu. Í raun var ég að fela bréfið.

- Ég rakst á hann í gær.

Lengra varð samtal okkar ekki, því nú voru flestir nemendur mínir mættir og kominn tími til að hefja kennsluna. Allan tímann á meðan henni stóð þögðu krakkarnir, nema þegar ég yrti á þau. Í síðustu kennslustundinni reyndi ég að vekja upp umræður um morðið á Kolbrúnu, en án árangurs. Þau sátu bara og störðu á mig. Mér leið sumpart eins og ég væri innan um hóp af hundum. Krakkarnir horfðu á mig með einhvers konar glampa í augum, glampa sem ég á erfitt með að skilgreina en hef séð í augum hunda er þeir bíða þess að vera gefið að éta. Ég sendi þau út talsvert áður en kennslustundinni var lokið. Síðastur til að hverfa á braut var Snorri, hann snéri sér við í dyrunum og sagði:

- Takk fyrir tímann, Hermann kennari. Eigðu góðan dag.

Mig langaði einna helst til að öskra á drenginn. Ég veit ekki hvað það er, en ég vildi óska þess hann væri enn skítugur og illa hirtur strákspjatti sem auðvelt var að eiga við. Ekki þetta snyrtilega, stjórnsama rándýr!

Þegar allir voru farnir gróf ég upp bréfið og las það einu sinni enn yfir, til að fullvissa mig um ég hefði lesið rétt í morgun. Það breytti engu, sama hversu oft ég rýndi í það var innihaldið hið sama. Var Hólmgeir genginn af göflunum? Ég greip bréfið og rauk út úr skólahúsinu. Ég þurfti að komast að hinu sanna. Fyrsti áfangastaður minn var gamla kaupmannshúsið. Er ég stóð fyrir utan rauðmálaða tvílyfta tréhúsið þyrmdi yfir mig. Hvernig gat ég verið viss? Án þess að komast að nokkurri niðurstöðu knúði ég dyra og beið. Eftir drykklanga stund bankaði ég á nýjan leik en fékk ekki svar. Því næst ákvað ég að fara á lögreglustöðina og athuga hvort Hannes væri við. Þegar ég kom þangað var mér tjáð að hann hefði ekki sést síðan á laugardag, samt var allt dótið hans enn niðri í fangaklefanum. Ég þorði ekki þangað inn, ef vera skyldi að rottan væri þar enn. Ég fór að hótelinu til að sjá hvort hann væri þar, en Kári sagði að hann hefði ekki séð hann síðan í gær.

Ég fór aftur út af hótelinu og hneppti jakkanum að mér. Kaldur vindur blés og snjóföl fauk eftir strætinu. Hrím lá yfir öllu og það var óvenju dimmt, frostrósir sprungu út og blómstruðu lífvana á rúðum húsanna. Ég gekk út götuna án þess þó að hafa neitt ákveðið að fara, þess frekar reyndi ég að róa hugann. Hálfpartinn í móki hélt ég áfram og rankaði ekki við mér fyrr en ég stóð við baðströndina. Ég leit yfir hana, hvergi var nokkra marglyttu að sjá. Svo virðist vera sem að allar hafi þær verið hreinsaðar upp eða þá að flóðið hafi tekið þær á ný. Ég stakk hendinni í frakkavasann og tók upp bréfið. Eftir að hafa lesið það enn einu sinni sá ég að það var lítið sem ég gat gert annað en að bíða eftir rétta tækifærinu. Ég flýtti mér heim og læsti að mér.

 

Bréfið

 

Kæri vinur,

 

ég veit ekki hvort þú munir trúa því sem þú átt eftir að lesa í þessu bréfi, en ef þú gerir það ekki þá veit ég ekki hvort nokkur annar muni gera það. Lyginni líkust er frásögn mín, svo ég varla trúi þessu enn sjálfur. En gerðu það fyrir mig, gerðu það fyrir sakir áralangs vinskapar okkar. Lestu með opnum huga og reyndu að trúa mér.

Lengi taldi ég mig gæfumann, vel giftan og sigla lygnan sæ. Hvarvetna naut ég velgengni, hvort sem það var í stjórnmálum, viðskiptum eða ástum. Ég vissi nefnilega ekki hversu mikla hættu ég setti mig í er ég giftist Öldu. Hún hefur engu að síður reynst mér vel, þó síðar hafi komið í ljós að hún var ekki öll þar sem hún var séð. Alda var viljalaust verkfæri föður síns. Var, segi ég, því hún er öll! Ívar myrti hana. Ég veit ekki hvernig ég get komið orðum að því, þannig þú trúir mér, en svo ótrúleg er frásögn mín. Ég vona bara að þú teljir mig ekki sturlaðan, því lengi vel hélt ég mig hafa tapað glórunni. Ívar hefur á einhvern hátt flutt sig; sálu sína eða sinni; yfir í líkama hennar. Hann skipti um líkama við dóttur sína! Hvers vegna skil ég ekki, mig grunar þó hann viti að hann eigi skammt eftir ólifað í líkama hennar, því ekki löngu eftir umskiptin sá ég hræðileg útbrot á líkamanum. Alda, sem er nú í kroppi Ívars, getur gott sem ekkert tjáð sig, hvað þá haft stjórn á hrumum útlimunum.

Skömmu eftir giftingu okkar létust foreldrar mínir, eins og þú veist. Lengi vel stóð ég í þeirri trú að tilviljun ein hefði hagað því þannig til að þau féllu frá í sama mánuði, en ég er ekki svo viss lengur. Ívar fór að venja komur sínar oftar á heimilið og Alda varð sífellt kaldranalegri í framkomu sinni við mig eftir því sem vikurnar, mánuðirnir og árin liðu og Ívar varð sífellt stjórnsamari. Ég reyndi að láta þetta ekki á mig fá og eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að nokkuð fréttist.

Ó, Guð, hefði ég aðeins vitað hvað í vændum var!

Eftir því sem leið á fór ég að fella hug til annarrar konu, Kolbrúnar og tók að draga mig eftir henni. Eitt kvöld var sem einhver stífla brysti og augnablik náðum við saman. Við reyndum eftir fremsta megni að halda sambandi okkar leyndu, enginn mátti vita neitt.

Ég veit að það er þér ekki auðvelt að lesa þetta, ég veit hvaða hug þú barst til hennar eitt sinn og mér þykir það leitt að hafa leynt þig þessu, en hvað gat ég annað gert? Við ákváðum að gera hreint fyrir okkar dyrum og saman fórum við á fund Öldu. Þegar við komum heim var þar einhver djöfulleg athöfn í gangi. Marglyttum hafði verið raðað allt í kringum Öldu, sem lá nakin á stofugólfinu. Það logaði á nokkrum kertum hér og þar í stofunni. Áður en ég vissi af féll Kolbrún fram á gólfið og skömmu síðar hlaut ég afar þungt höfuðhögg. Rétt áður fannst mér ég sjá skugga, - skugga sem líktist engu sem ég hef séð áður. Ég get ekki útskýrt það, en skugginn var eins og eitthvað sem er svo framandi en jafnframt svo illilegt, að ekkert mannlegt tungumál á til orð sem getur lýst því. Eins og eitthvað forsögulegt, viðbjóðslegt og djöfullegt. Samstundis hataði ég skuggann en jafnframt óttaðist ég hann meira en nokkuð sem ég hef áður komist í kynni við.

Þegar ég sá Kolbrúnu í lauginni uppgötvaði ég hvað hafði gerst. Hvað möguleika átti eða á ég svo sem? Varla get ég farið til Páls og reynt að selja honum þessa sögu, hann myndi aldrei trúa mér. Þú ert búinn að vera svo hamingjusamur með Katrínu, ég hef helst ekki viljað trufla þig en ég veit að ég á skammt eftir. Eitthvað fór úrskeiðis við athöfnina sem við Kolbrún gengum inn á og virðist líkami Öldu eldast óvenjulega hratt, trúðu mér, ég þekki það að eigin raun því ég er fastur í líkama hennar. Ívar hefur rænt kroppi mínum. 

Kæri vinur, ég veit að þetta er ótrúlegt en þú verður að trúa mér. Ég segi þér sannleikann. Þetta er eins og í verstu skáldsögu, en því miður er þetta sá raunveruleiki sem ég þarf að búa við og það sem verra er, ég á ekki marga daga eftir ólifaða, líkami hennar þolir þetta ekki öllu mikið lengur. Þú verður að stöðva hann. Farðu til Páls og sannfærðu hann, þú einn getur það. Ég treysti á þig, því það er um seinan fyrir mig. Örlög mín eru í höndum Drottins.

                                                  

H.


Undrin við Lönguströnd

Elsku Sigga mín,

 

þú fyrirgefur mér vonandi ég hafi ekki skrifað eða hringt undanfarna 3 daga. Það hafa mörg vötn runnið til sjávar síðan ég skrifaði síðast og ég er ekki alveg viss um ég skilji til fullnustu merkingu alls þess sem ég hef heyrt eða orðið vitni að. Ég á erfitt með að sofna á kvöldin, myndir birtast í huga mér og ég finn fyrir miklum óróleika. Hvað er það við þetta þorp? Hvað er það við íbúa þess?

Ég er búinn að ræða við heilmarga. Það eru ekki margir sem sáu vel hvað gerðist. Ég er margsinnis búinn að spyrja Pál hvort hann hafi nokkurn grunaðan en hann segist vera kominn í öngstræti með rannsóknina. Það er skelfilegt til þess að hugsa að einhver í þorpinu hafi brennt inni hátt á þriðja tug barna og tvo fullorðna. Við skipslæknirinn fórum og skoðuðum líkin fyrir tveimur dögum, það var óskemmtileg lífsreynsla, nokkuð sem ég vil síður endurtaka. Þórarinn, læknirinn hér í Lönguströnd, tók á móti okkur. Það var heldur þungur bragur á því hjá honum, ekki furða, hann átti dreng í eldri bekknum. Samt var hann eins og svo margir aðrir í þessu þorpi, undarlegur og með óþægilega nærveru. Hann starði á mig eins og hann langaði einna helst að éta mig með augunum á meðan við skoðuðum líkin. Það er eitthvað fiskilegt við fólkið sem býr hérna, það minnir mig svo ótrúlega á eitthvað sjávarkyns. Húðin er slepjuleg og augun útstæð, næstum eins og karfar. Mér þykir leitt að grípa til svo stóryrða, en mér finnst íbúarnir hérna ógeðslegir.

Það var samt eitt sem kom fram í yfirheyrslunum, svolítið sem kom mér spánskt fyrir sjónir. Einn þeirra sem kom nokkuð snemma að eldsvoðanum sagði að hann hefði heyrt í kennara eldri bekkjanna hrópa í sífellu: - Þetta getur ekki verið. Þú átt ekki að vera hérna! Hvað ætli það merki? Hver var það sem ekki átti að vera þarna?

Ég er ekkert að ætlast til þess þú leysir málið, elskan mín. Ég er bara að hugsa á blaðið. Mér finnst það svo gott, hugsanir mínar öðlast einhvern veginn meira vægi. Þú lest bara hratt yfir þetta. Ég á náttúrulega ekkert að vera segja þér þetta, en þú þekkir starf mitt og veist að þetta er bara okkar á milli.

Takk kærlega fyrir bréfið. Mikið þótti mér vænt um að lesa söguna af Bjössa. Ég er með myndina af ykkur á litlum kolli við hliðina á kojunni minni og bréfin læt ég alltaf undir koddann minn. Þá finnst mér eins og þú sért hjá mér, bæði þú og Bjössi. Ég sakna þín ógurlega núna, ég vildi ég hefði þig til að styrkja mig og styðja. Þetta mál er mun erfiðara en ég átti von á. Það sækir á mig, hvort heldur sem er í svefni eða vöku og ég veit ekki hvort ég standi undir því. Kannski ég ætti að draga mig frá þessu.

Ég hlakka svo til að komast héðan. Það snjóar töluvert núna og það er orðið illfært um þorpið. Ég ætla að fara skoða hús kennarana og athuga hvort ég komist að einhverju þar. Mér skilst að þau hafi verið eitthvað að draga sig saman vikurnar fyrir eldsvoðann. Ég vona bara, að eitthvað fari nú að skýrast. Mér líður eins og ég vaði bara áfram í myrkri og það sé bara tilviljun ein hvort ég rekist á eitthvað.

 

  

   Þinn ástkær eiginmaður,

               Jón Einarsson

 

 

P.S. Segðu Friðriki að finna settið, ég vil síður týna því. Ef hann hefur gleymt því einhvers staðar, þá vil ég hann kaupi nýtt.


Undrin við Lönguströnd

 

25. október

 

Skóladagurinn byrjaði ósköp sakleysislega. Ég kom krökkunum af stað í hópavinnu í sögu. Allan tímann fylgdist ég með Snorra, hann lét lítið á því bera en hann er orðinn stjórnandi þeirra. Þau hlýða skipunum hans umhugsunarlaust og þó hann sé ekkert að flíka því, þá hef ég á tilfinningunni hann viti að ég sé að fylgjast með honum og njóti athyglinnar. Hann fer leynt með stjórnsemina, augngotur og hvísl næga þó til að hinir krakkarnir stökkva til í hvert skipti sem hann sýnir einhver merki. Hvað á ég að gera við hann? Í frímínútunum spurði ég hann hvort hann hafi skilað til móður sinnar að ég hafi komið. Hann svaraði mér blátt áfram: - Nei! Eins og ekkert væri sjálfsagðara. Síðan gekk hann hægt út úr stofunni. Í dyrunum leit hann á mig og glotti. Mér finnst eins og hann sé að reyna espa mig upp.

Þegar nemendurnir voru rétt að klára nestistímann var bankað laust á stofuhurðina. Ég stóð á fætur og opnaði. Mér til mikillar furðu stóð Hólmgeir á ganginum.

- Sæll, mér datt í hug að líta við og spjalla aðeins við krakkana, sagði hann. Ég kinkaði kolli og steig til hliðar. Eins og venjur segja til um, spruttu krakkarnir öll sem eitt á fætur og stóðu bein í baki fyrir aftan stólana sína. Hólmgeir sló létt á öxl mína og gekk inn í stofuna.

- Sælir, krakkar mínir, sagði hann. Þau buðu honum góðan daginn, öll saman í kór.

- Mig langaði bara til að skoða skólann og rabba aðeins við ykkur, ef það er í lagi, sagði Hólmgeir og tyllti sér á hornið á borðinu mínu. Með handabendingu gaf hann þeim leyfi til að setjast aftur, sem þau gerðu.

- Það hefur aldeilis mikið gengið á hérna hjá okkur á Lönguströnd undanfarnar vikur. Ég veit ekki hvort Hermann hafi rætt eitthvað um það við ykkur en vonandi gerir hann það við gott tækifæri, sagði hann og leit á mig. Krakkarnir gutu augum á Snorra, sem sat fyrir miðju og fylgdist áhugasamur með Hólmgeiri.

Hann ræddi við nemendur mína um skólastarfið í nokkrar mínútur og ég fékk strax á tilfinninguna að þessi heimsókn hefði annan tilgang en þann að skoða starf nemendanna. Enda kom á daginn að svo var.

- Eins og þið vitið mæta vel, þá rak hér á land mörg þúsund marglyttur og hefur ströndin okkar góða verið gott sem ónýtileg vegna þessa. Hreinsunarstarf hefur gengið hægt en það horfir til betri vegar í þeim málum. Það sem mig langar til að biðja ykkur um er, að vera ekki að væflast niður á strönd. Það er betra að þið séuð að leika ykkur hér í þorpinu. Það er ekkert að sjá niður frá. Eruð þið ekki til í að gera þetta fyrir mig?

- Já, herra Hólmgeir, við skulum gera það fyrir þig, svaraði Snorri kokhraustur.

Skyndilega skaut heimsókn Skelmis til mín fyrir nokkru upp í huga mér. Ætli hann hafi verið að sinna svipuðum erindum í gærkvöldi í kaupmannshúsinu? Hólmgeir stóð á fætur og þakkaði fyrir sig. Hann tók í hönd mína og fór síðan fram á gang. Þar, heyrði ég, hann banka á hurðina hjá Katrínu. Um leið og ég lokaði dyrunum fór Snorri að hlæja. Hlátur hans var ekki smitandi, þvert á móti var hann andstyggilegur og illkvittinn. Ég hastaði á hann en hann lét það sem vind um eyru þjóta. Það var ekki fyrr en ég var kominn alveg upp að borði hans að hann hætti.

Eftir að kennslu lauk og krakkarnir voru farnir heim á leið rölti ég yfir til Katrínar. Við ræddum saman stuttlega um heimsókn Hólmgeirs, hún var undrandi á henni og varð enn meira hissa þegar ég sagði henni frá því sem ég sá í gærkvöldi. Við ákváðum að snæða saman heima hjá henni en ég vildi samt heilsa upp á Hannes áður en að matnum kæmi. Ég flýtti mér því að ganga frá og hélt síðan af stað á lögreglustöðina.

Þegar ég kom þangað sá ég strax að Hannes var ekki við, ljósið í klefanum hans var slökkt. Ég kíkti engu að síður niður til hans. Dyrnar voru lokaðar en ólæstar. Ég hleypti sjálfum mér inn. Ég leit í kringum mig, augu mín staðnæmdust við kassann sem rotturnar voru í. Ég varð ekki var við neina hreyfingu inni í honum, svo ég opnaði hann. Það sem ég sá var ólýsanlegt. Rottan sem Hannes hafði notað í tilraunina var að éta hina rottuna. Það stóðu litlir þreifarar út úr feldi hennar. Þá notaði hún til að halda hinni fastri á meðan hún át sig í gegnum húð hennar. Hin rottan reyndi að berjast um en án árangurs. Tilraunarottan sneri höfði sínu að mér. Blik augna hennar var kalt og yfirvegað. Eitthvað við það kom mér kunnuglega fyrir sjónir. Ég hljóðaði upp fyrir mig, henti kassanum frá mér og hljóp út. Ég linnti ekki ferð fyrr en ég var kominn út á götu. Í fyrstu reyndi ég að telja sjálfum mér í trú um mér hlyti að hafa missýnst eða dreymt þetta allt saman, en ég get engan veginn sætt mig það. Ég veit að það sem ég sá gerðist í raun og veru.

Þetta var þó ekki það eina sem var furðulegt í dag, þrátt fyrir að seinni atburðurinn sé engan veginn jafn sérkennilegur og sá með rottuna. Eftir að ég hafði jafnað mig á honum fór ég til Katrínar en sagði henni þó ekki frá þessu. Bæði efast ég um að hún trúi mér og ég vil ekki vera íþyngja henni með þessu, sérstaklega eftir allt sem hefur gengið á. Hver veit nema hún hrapi að röngum ályktunum? Telji jafnvel að ég sé hreinlega genginn af göflunum. Við borðuðum saman í ró og næði, síðan settumst við inn í stofu og hlustuðum á fréttir og framhaldssöguna í útvarpinu. Í fréttum var fátt meira rætt en stríðið á Kóreuskaga. Merkilegt hve mennirnir geta endalaust fundið sér ástæður til að drepa hver annan. Ég átti samt erfitt með að einbeita að lestri sögunnar, eins og gefur að skilja. Katrín varð þess áskynja að ég var annars hugar og spurði hvort ég væri þreyttur. Ég ákvað að nýta tækifærið og drífa mig heim, því ég hafði ekki eirð í mér að sitja þarna. Það voru svo margar hugsanir sem sóttu að mér, ég þurfti næði til að vinna úr þeim.

Ég var ekki lengi að hátta mig í rúmið eftir að ég kom heim. Ég var rétt búinn að koma mér fyrir með dagbókina þegar það var bankað nokkuð ákveðið. Hikandi fór ég fram úr og klæddi mig í náttslopp. Þá var aftur knúið dyra og í þetta skipti af meiri ákefð, núna myndi ég jafnvel segja örvæntingu, en það vissi ég ekki þá. Ég klifraði niður stigann ofan af lofti og á meðan var barið á dyrnar í þriðja sinn, jafn freklega og áður. Ég kíkti út um eldhúsgluggann og sá bara útlínur karlmanns í síðum frakka fyrir utan. Inn um opinn gluggann barst mér angan af slori og salti. Ég fór fram í forstofu og opnaði örlitla rifu á dyrnar. Mér til mikillar furðu stóð Hólmgeir fyrir utan. Hann hafði þó klætt sig í frakka Skelmis. Hann leit eins og undankomulaus flóttamaður í kringum sig. Hann virtist mér viti sínu fjær. Augun voru villt og þegar hann tók eftir mér, starði hann um stund á mig eins og hann þekkti mig ekki. Mér var hreinlega ekki um sel.

- Hermann, sagði hann og ég fann strax á röddu hans að hann var ákaflega skelkaður.

- Hermann, þú verður að hjálpa mér. Þau finna mig brátt. Þú verður að hjálpa mér.

- Hver? Hjálpa þér með hvað?

- Þau finna mig. Þú verður að hjálpa mér.

- Hvað er að, Hólmgeir? Komdu inn fyrir. Stattu ekki þarna úti, sagði ég, opnaði dyrnar og steig út til hans.

- Nei, svaraði hann og ýtti mér frá sér. – Þau finna mig hér og ég vil ekki þau viti að ég hafi verið hér. Þá gæti farið fyrir þér eins og mér, eða verr.

Skyndilega leit hann til hliðar.

- Guð minn, hann kemur. Mundu bara, Hermann. Sá sem þú sérð í mér er ekki ég. Hann er líka að reyna taka yfir líkama minn.

Ég var orðlaus. Fyrir það fyrsta þá skildi ég vart hvað hann átti við og í öðru lagi þá var ekkert vit í því. Hólmgeir leit aftur í kringum sig, hallaði sér að mér og hvíslaði:

- Ég er fangi. Þú verður að hjálpa mér.

Síðan hvarf hann út í nóttina. Ég ætlaði að kalla á eftir honum, en þá heyrði ég fótatak nálgast. Ég lokaði dyrunum og reyndi að rýna í næturmyrkrið út um eldhúsgluggann en ég sá ekki neinn, þrátt fyrir að daufa birtuna frá ljósastaurunum. Ef Hólmgeir þarf á hjálp að halda, þá verð ég að gera eitthvað.

Hvað átti hann samt við? Getur verið að hann sé að tapa sér? Ætli atburðir undanfarna daga hafi haft svo sterk áhrif á hann? Ég veit til þess að menn hafi fengið taugaáfall við veigaminni tækifæri og sumir jafnvel sturlast yfir gott sem engu. Hann virtist ekki alveg með réttu ráði. Á móti kemur, hvernig ætli fólk myndi taka mér ef ég segði því frá rottunum tveimur og því sem ég sá í fangaklefa Hannesar. Hvað er eiginlega að gerast? Svo margir undarlegir atburðir og alltof margar spurningar. Hvar endar þetta eiginlega?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband