Færsluflokkur: Bækur

Undrin við Lönguströnd

24. október

 

Ég svaf illa í nótt. Mig dreymdi í sífellu að marglyttur huldu líkama minn og smugu inn í hann. Ég hrökk upp með reglulegu millibili og er ég fór á fætur, langt fyrir allar aldir þá var ég löðursveittur. Mig dauðlangaði til að fara í sund en ég get ekki fengið mig til þess að fara ofan í laugina, ekki eftir allt sem hefur gengið á og sérstaklega þegar ekki hefur verið rannsakað almennilega hvernig marglytturnar komust þangað. Mikið vona ég að Páll fari að komast að því hver myrti Kolbrúnu. Minningarathöfn hennar var í dag og þar af leiðandi var börnunum gefið frí í skólanum. Ég klæddi mig í sparifötin, svarta ullarfrakkann og setti á mig hatt. Frakkinn er reyndar orðinn nokkuð snjáður og ég vona, ég geti verslað nýjan í vetur. Ég rölti heim til Katrínar og saman gengum við hægt að kirkjunni. Allt var hljótt utan við þunga tóna kirkjuklukknanna. Um stund fannst mér eins og þær væru að slá í takt við hjarta mitt. Ósjálfrátt leitaði hönd mín að hendi Katrínar, rétt eins og ég gerði þegar við mamma gengum upp að kirkjunni í minningarathöfnina um pabba. Ég hægði á mér. Mér fannst um stund eins og fætur mínir væru blýþungir og ég hefði ekki mátt til að lyfta þeim. Katrín leit á mig og þurrkaði tár sem runnið hafði niður kinn mína, án þess ég tæki eftir því. Hún strauk vanga minn og brosti. Ég leit í augu hennar og sá að henni var svipað innanbrjóst og mér. Hönd í hönd gengum við síðasta spölinn. Ég leit aftur fyrir mig og sá hvar íbúar þorpsins birtust á milli húsanna, tveir eða fleiri saman, og gengu í kyrrðinni upp stíginn að kirkjunni.

Hólmgeir sat ásamt öðrum fulltrúum bæjarstjórnar á fremsta bekk hægra megin, vinstra megin sat fólk sem ég hef ekki séð áður en komst að því að var fjölskylda Kolbrúnar. Ég sá hvergi Öldu en hinir voru allir ásamt eiginkonum sínum. Við Katrín fundum okkur sæti aftarlega. Athöfnin var hógvær og falleg, kórinn söng nokkra sálma og séra Tómas las úr Biblíunni ásamt því að ræða við söfnuðinn. Kistan verður grafin síðar meir í höfuðstaðnum að ósk fjölskyldu hennar.

Eftir athöfnina fóru margir á Bláu könnuna og þar á meðal við Katrín. Sem betur fer vorum við með þeim fyrstu og náðum í sæti, en margir þurftu að standa og satt best að segja var langt frá því nægt pláss inni á þessum litla stað fyrir alla. Á meðan við vorum þarna kom Páll til mín. Eftir stutt spjall hallaði hann sér að mér og hvíslaði:

- Hefurðu eitthvað hitt Hólmgeir undanfarna daga?

- Ekkert frá því við ræddum saman síðast, svaraði ég.

- Ekki ég heldur. Hann hefur lokað sig af. Mér skilst hann haldi sig einna mest heima við.

- Er ekki Alda eitthvað lasin? Vill hann ekki bara vera hjá henni?

- Ég hef ekki séð Öldu í þó nokkra daga og ég er nokkuð viss um hún er ekki heima veik.

Ég leit undrandi á Pál.

- Hvað áttu við?

Páll leit flóttalega í kringum sig.

- Ég ræddi við Sigríði gömlu, húshjálp þeirra hjóna, og hún sagði, að hún hefði ekki orðið vör við frúna í nokkra daga.

Ég starði gáttaður á Pál.

- Ekki eru öll kurl enn komin til grafar. Við þurfum að ræða aðeins saman við gott tækifæri. Ég þarf á hjálp þinni að halda. Þú þekkir Hólmgeir einna best.

Við sátum ekki lengi eftir að Páll kvaddi, við kláruðum úr kaffibollunum og héldum síðan heim á leið. Við ákváðum að fara heim til mín, við vildum hafa félagsskap hvort af öðru fremur en að sitja ein. Á leiðinni sá ég að ljósið í klefa Hannesar var slökkt og ég er því hálffeginn að hann skuli loksins hafa ákveðið að hvíla sig. Ég held, að hann hafi verið fullæstur í rannsóknum sínum, hann þarf eins og aðrir á hvíld og svefni að halda.

Þegar við vorum komin heim lögðum við okkur um stund. Það var notalegt að liggja við hlið Katrínar og finna hvernig brjóst hennar reis og hneig í takt við mitt. Ég hélt utan um hana uns ég sofnaði. Þegar ég vaknaði sat hún niðri í eldhúsi með kaffibolla fyrir framan sig og starði út um gluggann. Ég staldraði við í dyragættinni og horfði á hana, því hún vissi ekki af mér. Hún var búin að losa um hárið og það féll niður á axlir hennar, eins og foss sem um sólsetur slær gylltan blæ á. Skyndilega var sem hún yrði mín vör, því hún sneri sér snögglega að mér og brosti. Ég settist á móti henni og við ræddum saman um stund. Ég sagði henni frá því sem okkur Páli fór á milli inni á Bláu könnunni. Hún virtist ekki hissa.

- Það er svolítið sem ég hef aldrei sagt þér frá. Kolbrún tók af mér hátíðlegt loforð um ég myndi aldrei segja nokkrum manni það, sagði Katrín og velti kaffibollanum milli handa sér.

- Hún heimsótti mig af og til, enda ekki auðvelt að komast inn í þetta samfélag hérna. Það verður að segjast eins og er, að það er frekar lokað. Við komum báðar úr borginni og okkur varð ágætlega til vina. Hún treysti mér fyrir sínum leyndarmálum og ég henni fyrir mínum. Ætli ekki megi segja að hún hafi verið besta vinkona mín hérna, sagði hún og saug upp í nefið. Ég færði stól minn nær hennar og tók um hönd hennar.

- Kolbrún átti sér ástmann hér í þorpinu.

Ég hváði við. Ég vissi að margir höfðu rennt hýru auga til hennar, enda gullfalleg kona, en ég hafði ekki hugmynd um að hún væri í tygjum við einhvern.

- Hver var það, spurði ég forvitinn.

- Þú mátt alls ekki segja það neinum, Hermann. Lofaðu því, gerðu það, lofaðu að segja aldrei neinum, svaraði Katrín og starði svo undursamlega í augu mín, að ég gat ekki með neinu móti skorast undan.

- Ég lofa því, svaraði ég.

- Þú mátt alls ekki láta eins og þú vitir það eða gera nokkuð sem gæti varpað skugga á minningu Kolbrúnar.

Ég verð að viðurkenna, að þarna voru farnar að renna á mig tvær grímur. Ég vissi ekki alveg hvers vegna það var svo mikilvægt að halda því leyndu hver það var sem hún átti vingott við. Ég kinkaði hikandi kolli.

- Jæja, þú lofaðir og ég treysti þér, sagði Katrín og leit aftur á bollann á borðinu fyrir framan sig.

- Ef þú hugsar út í það, þá muntu eflaust skilja sjálfur hver það var. Hún hitti hann næstum daglega.

Ég starði á Katrínu. Í höfðinu fór ég yfir þá ungu menn í þorpinu sem hugsanlega gætu hafa átt erindi við Kolbrúnu á hverjum degi, en mér datt enginn í hug.

- Þetta var eitthvað sem gerðist. Hann er, sagði Katrín og hikaði eitt augnablik, - giftur!

Þá var eins og öll brotin kæmu saman í kollinum á mér, viðbrögð Hólmgeirs við líkfundinum, undarlegt háttalag hans og drykkja. Ég spratt upp úr stólnum, ég fann hvernig það var sem færi um mig rafstraumur.

- Alda hlýtur að hafa komist að því, hrópaði ég upp. Katrín starði á mig.

- Skilurðu ekki, Katrín? Kolbrún var myrt. Hólmgeir átti í ástarsambandi við hana og Alda hlýtur að hafa komist að því.

Um leið og ég gerði mér sífellt betur grein fyrir hvernig í þessu lá varð loforðið um að segja engum mér sífellt stærri þyrnir í augum. Katrín stóð á fætur og tók báðum höndum um andlit mitt. Það var sem hún læsi hugsanir mínar.

- Manstu, Hermann, þú lofaðir að segja engum frá. Ég veit að þetta er stór biti að kyngja, en Kolbrún vildi aldrei að þetta fréttist. Hún var ástfangin af Hólmgeiri en ég veit ekki hvort hann hafi elskað hana. Allavega minntist hún aldrei á það. Gerðu það, Hermann, gerðu það fyrir mig að segja aldrei neinum frá þessu.

Hún tók utan um mig. Ég muldraði eitthvað um ég myndi halda þessu út af fyrir mig. Samt finnst mér eins og mér beri skylda til að láta Pál vita. Ég þori því hins vegar ekki, ég vil ekki stefna sambandi mínu með Katrínu í hættu. Ætli ég geti dregið fram játningu hjá Hólmgeiri?

Klukkan var langt gengin í tíu þegar ég fylgdi Katrínu heim til sín. Eftir að ég hafði kvatt hana rölti ég aftur tilbaka og velti fyrir mér þessum nýju upplýsingum. Skyndilega snarstansaði ég. Í daufri birtunni frá götuvitunum fékk ég ekki betur séð en Skelmir færi inn bakdyramegin í gamla kaupmannshúsið. Ætli Alda sé þá heima eftir allt saman?


Undrin við Lönguströnd

23. október

 

Það er svo margt undarlegt á sveimi þessa dagana. Nemendur mínir verða sífellt sérkennilegri og þó ég geti ekki bent nákvæmlega á hvað það er, nema ef vera kynni fyrir umbreytinguna á Snorra og Bergdísi, þá finn ég það um leið og ég geng inn í kennslustofuna að eitthvað er ekki eins og það á sér að vera. Mér líður eins ég sé einn á sundi innan um hákarla eða vöðu af mannætufiskum. Það er þó langt frá því að vera það furðulegasta sem ég hef orðið vitni að. Í dag gerðist nokkuð sem ég efast um að nokkur muni trúa.

Eftir að sunnudagsmessu lauk ákvað ég að heilsa upp á dr. Hannes þar sem ég hafði ekki náð að hitta hann í gær. Þegar ég kom niður í klefann til hans kom mér nokkuð á óvart að sjá hann. Hárið var illa hirt og augun þreytuleg. Undir þeim voru dökkir baugar og ég gat mér til um hann hefði ekki sofið mikið undanfarið, ekkert frekar en ég. Hann sat undir litlum glugga, sem stóð opinn en járnrimlar hömluðu því að hægt væri að opna hann til fulls. Ég kastaði kveðju á dr. Hannes, hann hrökk við og leit aftur fyrir sig á mig. Um stund var eins og hann gerði sér ekki fulla grein fyrir hver ég væri. Loks færðist bros yfir andlit hans og blik kom í augu hans, svipað því sem ég sé stundum hjá nemendum mínum þegar þeir hafa eitthvað merkilegt að segja eða sýna.

- Ég átti ekki von á þér, sagði hann, - en það er gott þú skulir vera kominn.

- Nú, svaraði ég undrandi.

- Já, ég hef gert stórmerkilega uppgötvun, sagði hann og andlitið ljómaði af æsingi. Ég komst ekki hjá því að verða forvitinn, enda var gleði hans og spenningur einlæg en umfram allt smitandi.

- Ertu búinn að komast að því hvað varð til þess að allar þessar marglyttur rak á land, spurði ég.

- Nei, ekki enn. Þær virðast ekki vera sýktar af neinum sjúkdómi. Mér dettur einna helst í hug að eitthvað í hegðunarmynstri þeirra hafi raskast. Og þó, nokkur fjöldi sjávardýra sækir á land, þrátt fyrir að vita að það muni verða þeim að fjörtjóni. Til að mynda syndir loðna upp í fjörur til að hrygna. Reyndar ekki hérlendis, en það skiptir svo sem ekki máli. Það er ekki það sem ég hef uppgötvað, heldur allt annað og miklu stórkostlegra.

Hann benti mér á að koma nær. Í einu horni klefans var trékassi með tveimur rottum. Önnur var dökkbrún en hin var svört, eða svo sýndist mér. Feldur hennar gæti hugsanlega hafa verið blautur.

- Páll útvegaði mér þessar, sagði Hannes og teygði sig eftir þeirri svörtu. Hann lagði hana á borðið fyrir framan sig. Hann sprautaði hana með róandi lyfi, sem hann hefur eflaust fengið hjá Gunnari lækni. Það sem gerðist næst var í senn stórkostlegt og hryllilegt, meira svo en nokkuð annað sem ég hef orðið vitni að. Hannes klæddi sig í hanska og tók eina af marglyttunum úr fötunni. Hann lagði hana varlega ofan á rottuna, þrátt fyrir lyfin virtist hún, eins og gefur að skilja, verða óróleg. Hvaða dýr eða maður, ef því er að skipta, yrði það ekki í þessum aðstæðum? Loks hellti Hannes vatni úr glasi yfir marglyttuna. Eins og áður tók hún að nötra og titra öll, en í þetta skipti gerðist svolítið sem ég á aldrei eftir að gleyma.

- Fylgstu vel með, sagði Hannes og ég fékk ekki betur séð en hann væri álíka eftirvæntingarfullur og sex ára nemandi á sínum fyrsta skóladegi. Augu hans ljómuðu og allt látbragð hans minnti mig á barn.

Frammi fyrir augum mér, og megi Guð og heilagar hersveitir engla vera mér til vitnis, hvarf marglyttan inn í rottuna og virtist renna saman við hana!

Hannes leit á mig sigri hrósandi.

- Finnst þér þetta ekki stórmerkilegt!?

Ég leit upp frá borðinu, þar sem aðeins var rottan nú, og starði orðlaus á Hannes. Ég gat ekki lýst hryllingi mínum með orðum en hann virtist ekki lesa úr svip mínum hversu andstyggilegt mér fannst þetta. Ég upplifði þetta sem eitthvað skelfilegt en hann sá þetta fyrir sér sem mikla líffræðilega uppgötvun, - uppgötvun sem átti eftir að koma honum sem fræðimanni á kortið. Ég trúði vart eyrum mínum er ég hlýddi á ræðu hans um rannsóknarstyrki og fyrirlestra í háskólum hér og þar um heiminn. Hann virtist algerlega blindur á hversu illa mér leið. Ég leit aftur á rottuna, sem var aftur farinn á stjá og hljóp nú um borðið í leit að einhverju ætilegu. Um stund staldraði hún við fyrir framan mig, reisti sig upp á afturfæturna og snusaði út í loftið. Ósjálfrátt tók ég tvö skref aftur á við. Ég verð að viðurkenna, að mér hreinlega stóð ógn af henni. Hver veit hvað þetta hefur gert henni?

Ég leið einhvern veginn út úr fangaklefanum, án þess að Hannes yrði þess var. Þegar ég stóð í stiganum frammi á gangi heyrði ég hann ennþá tala um hversu þessi uppgötvun myndi breyta sýn vísindamanna á marglyttur. Það var sem ég rankaði ekki við mér almennilega fyrr en ég var kominn út á götu. Næfurþunnur úði lagðist yfir andlit mitt og það var bæði hressandi og á vissan hátt hreinsandi. Það var logn úti og örlítil þoka, ljósin í húsunum spegluðust í blautri götunni og einhvern veginn var þessi skelfilega upplifun svo fjarri mér þar sem ég stóð fyrir utan lögreglustöðina. Ég gekk af stað án þess að hafa nokkurn fyrirfram ákveðinn leiðarenda, heldur rölti ég stefnulaust um þorpið.

Eftir um hálftíma kom ég auga á litla hjallinn hennar Höllu og ákvað að sinna því sem ég ákvað fyrir nokkrum dögum, að heimsækja hana og börnin. Ég opnaði hrörlegt hliðið og gekk inn í garðinn. Enginn hefur hugsað um hann í sumar, sölnað grasið náði mér upp á miðja kálfa og eini staðurinn þar sem það var ekki svo, var í kringum þvottasnúrurnar. Ég bankaði og beið eftir svari. Snorri kom skömmu síðar til dyra.

- Sæll, Snorri minn, sagði ég og reyndi að hljóma hress. Hann starði á mig og ekki varð ég hið minnsta var við að hann gleddist eða reyndi að sýnast ánægður með heimsókn mína. Hann svaraði kveðju minni ekki og eftir stutta en afar vandræðalega þögn bætti ég við:

- Er móðir þín heima?

- Nei.

- Mætti ég spyrja hvar hún er?

- Hún er í mat.

Ég leit undrandi á hann. Hver gæti hafa boðið Höllu í mat en ekki séð aumur á börnum hennar? Ég læt hér ósagt það sem flaug um huga mér.

-Jæja, þú lætur hana kannski vita að ég hafi komið. Mig langar til að eiga við hana nokkur orð, sagði ég. Snorri lokaði dyrunum án þess að svara. Mér fannst sem það kólnaði skyndilega og ég ákvað því að drífa mig heim.


Undrin við Lönguströnd

22. október

 

Þegar ég rankaði við mér í morgun hafði hvesst töluvert og ég þurfti að klæða mig í þykkan frakka, trefil og húfu. Einhvern veginn fannst mér sá bragur á veðrinu að líklegt væri að það myndi byrja að snjóa innan skamms, en ofankoman lét á sér standa í allan dag. Skýin hafa bylt sér yfir firðinum og trén, sem eru að komin langleiðina með að fella allt lauf, svignuðu og bognuðu í rokinu. Gul, appelsínugul og rauð laufblöð dönsuðu trylltan dans út göturnar og ég átti allt eins von á því að sjá eitthvað annað rusl bætast í hóp þeirra.

Langflestir nemendur hafa nú snúið aftur í skólann. Aðeins þeir sem búa innar í firðinum voru heima í dag, ég skil það svo sem, foreldrar þeirra hafa haldið þeim inni við í dag. Ég leyfði nemendunum að vera inni í frímínútum og hafði opið fram á gang, svo ég gæti haft auga með þeim. Ég tók eftir svolitlu skrýtnu. Sífellt fleiri nemendur bætast í vinahóp Snorra. Samt virðast þau ekki vera eins og börn eiga að sér. Eitt sinn, eftir að ég hafði skotist fram í morgun, stóðu þau öll í einu horni stofunnar og fylgdust hljóð og alvarleg á svip með hinum krökkunum. Ég er farinn að fá illan bifur á þessum hópi. Ég hef einnig á tilfinningunni að hinir nemendurnir séu hræddir við hann.

Katrín bauð mér heim með sér eftir skóla, hún sagði að hún vildi elda fyrir mig og þar sem ég hafði ekkert betra að gera þáði ég boðið. Reyndar var ég himinlifandi, ég held nefnilega að eitthvað sé að gerast á milli okkar, en ég kem kannski betur að því á eftir. Við hittum Pál á leiðinni til hennar. Páll getur verið mjög sérstakur, einn daginn vill hann helst ekki vita af mér en þann næsta er honum í mun að ég sé inni í öllum hans málum. Hann stöðvaði mig og bað mig um að fylgja sér inn á lögreglustöð. Katrín gaf til kynna að sér væri það ekki á móti skapi, svo ég fór með Páli. Við flýttum okkur inn á skrifstofu til hans og hann kallaði eftir kaffi handa okkur. Síðan settist hann fyrir framan mig og horfði grafalvarlegur í augu mín.

- Hvernig er það, Hermann, hefur þú tekið eftir einhverju undarlegu í fari Hólmgeirs, spurði hann og ég fann strax á honum að eitthvað hafði komið Páli úr jafnvægi, jafnvel eitthvað sem hafði skotið honum skelk í bringu.

- Ég get ekki neitað því, svaraði ég. Reyndar þorði ég ekki að segja Páli strax frá öllu sem hefur farið í gegnum huga minn undanfarna daga, svona ef vera skyldi hann hefði einhverjar allt aðrar hugmyndir. Ég vildi ekki að hann héldi að ég væri að tapa glórunni.

- Ég leit til hans í gær og aftur í morgun. Hann hagar sér eins og hann er vanur, er kominn á fleygiferð í að skipuleggja hreinsun strandarinnar þvert ofan í óskir Hannesar. En það er eitthvað annað, ég veit ekki alveg hvað það. Ég finn það einna helst á því hve nærvera hans er breytt. Mér líður eitthvað svo asnalega í kringum hann, sagði Páll og ók sér til í sætinu.

- Ég var hjá honum í fyrradag og hann var frekar undarlegur, ég get svo sem ekki bent á eitthvað sérstakt en það var samt svo ólíkt honum.

- Já, augnaráð hans er breytt og til hins verra. Mér líður hreinlega illa þegar hann horfir á mig. Það er eitthvað svo dautt og kalt. Eins og hákarl myndi horfa á bráð sína, sagði hann og mér varð skyndilega hugsað til Snorra.

- Heldurðu að hann hafi orðið fyrir einhverju áfalli? Kannski hann sé að verða geðveikur?

- Hermann, hvað höfum við þrír þekkst lengi?

- Allt frá því við vorum börn.

- Einmitt. Heldurðu að hann myndi ekki leita til okkar ef eitthvað væri að?

- Ég vona það.

- Og heldurðu að við myndum ekki sjá það strax ef hann væri að fá áfall? Mér finnst, satt best að segja, að þetta séu ekki taugar hans sem eru að gefa sig. Það er meira eins og hann sjálfur sé ekki til staðar, heldur að þetta sé einhver allt önnur persóna. Ég meina, hann er að skipuleggja hreinsun strandarinnar og ætla að nota traktora með snúningstæki. Hannes varð svo reiður þegar hann heyrði þetta að ég var hræddur um hann myndi kýla Hólmgeir kaldan.

Við ræddum saman stutta stund í viðbót en komumst ekki að neinni niðurstöðu. Mig langaði til að kíkja á Hannes en þar sem Katrín beið eftir mér flýtti ég mér frekar til hennar. Ég get kíkt til hans á morgun. Það má mikið vera til að Páll taki það alvarlega. Hann hefur iðulega gert lítið úr umkvörtunum okkar Hólmgeirs, látið þær sem vind um eyru þjóta. Hólmgeir hefur breyst, á því leikur enginn vafi, en hvað er það sem vekur svo sterk viðbrögð hjá Páli? Hvað ætli hafi fengið viðvörunarbjöllurnar í höfði hans til að hringja? Hann sagði mér svo sem ekki hvað það hefði verið sérstaklega, nema að andrúmsloftið í kringum hann væri öðruvísi sem og augnaráðið? Eitthvað hefur samt orðið til þess hann fór að velta þessum atriðum fyrir sér.

Ég barðist í gegnum rokið heim til Katrínar. Hún hefur án efa séð mig út um eldhúsgluggann því hún opnaði dyrnar áður en ég náði að banka. Hún var með hvíta svuntu bundna um sig miðja og hafði losað um hárið. Ég var ekki lengi að koma mér inn fyrir dyrastafinn. Innan úr eldhúsi barst matarlykt en ég gerði mér ekki grein fyrir hvað hún var að elda. Hún bauð mér að setjast niður sem ég og gerði. Eldhúsið hjá henni er ekki stórt, ég settist við matarborðið sem stóð gegnt eldavélinni. Aðeins þrír stólar voru við borðið og hún hafði lagt á það auk þess að kveikja á hvítu kerti. Ég fylgdist með henni á meðan hún hrærði í pottum, af og til leit hún á mig og brosti. Ég held, að hún hafi notið þessa alveg jafn mikið og ég. Ég vona það að minnsta kosti. Eftir stutta stund var maturinn tilbúinn, lambalærisneiðar í brauðraspi og kartöflur. Við snæddum án þess að mæla orð frá vörum. Öðru hvoru mættust augu okkar og ég fann hvernig mér hitnaði í framan.

Eftir kvöldmatinn settumst við inn í stofu með kaffibolla og hlustuðum á útvarpið. Við spjölluðum saman um allt milli himins og jarðar. Þegar skólinn barst í tal minntist hún á breytinguna sem hefur orðið á sumum nemendum. Svo virðist vera sem einhverjir í yngri bekknum hafi líka umbreyst.

- Þau eru svo alvarleg, sagði Katrín og andvarpaði. – Það er eins og þau vilji ekki leika sér, vilji ekki vera börn lengur, bætti hún síðan við. Ég sagði henni frá því sem ég sá fyrr í dag og hversu slæma tilfinningu ég hefði fyrir þessum hópi í mínum bekk. Hún var mér sammála um að við þyrftum að gefa góðan gaum að honum, til að tryggja að ekkert slæmt gerist. Nóg hefur nú þegar gerst.

Þegar ég stóð í anddyrinu og ætlaði að þakka fyrir mig, gerðist svolítið skrýtið. Ég hallaði mér fram til að kyssa hana á kinnina og hún hefur ábyggilega ætlað gera hið sama. Varir okkar mættust og við kysstumst. Kossinn var örstuttur og ég hrökk við. Hún horfði í augu mín og einhvern veginn fékk ég á tilfinninguna að þetta hefði ekki verið óvart. Hún tók í hönd mína og hélt um hana með báðum höndum sínum. Ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að bera mig að, enda langt síðan ég hef verið í þessari aðstöðu. Þetta var engu að síður yndislegur koss, eins og hún sjálf er.

- Takk fyrir kvöldið, Hermann, sagði hún loks og sleppti hendi minni.

Ég var sem í leiðslu er ég gekk heim. Ætli ég geti nokkuð sofnað? Er ég að verða ástfanginn?

 

---

 

Hvað er eiginlega að gerast hérna? Klukkan er núna korter gengin í eitt eftir miðnætti. Skelmir bankaði upp á hjá mér fyrir örfáum mínútum og var langt frá því í góðu skapi. Hann hefur haft fyrir því að rífa sig af stað í rokinu sem er úti, það hefur bætt í vindinn síðan fyrr í kvöld og það syngur hátt í mæninum. Ég rumskaði við að einhver knúði frekjulega dyra. Ég klæddi mig í náttslopp, brölti niður að útidyrunum og var varla vaknaður þegar hann tróð fæti í dyragættina og öskraði á mig. Ég veit reyndar ekki hvort hann hafi gert svo af reiði eða til að yfirgnæfa vindinn, engu að síður náði hann athygli minni svo um munaði.

- Hermann, haltu krakkaskömmunum frá ströndinni! Þau eiga þangað ekkert erindi, sagði hann og starði grimmúðlegur á mig. Hann var með hettu á hausnum, eða sjóhatt, ég sá ekki almennilega hvort var, og ljósið í forstofunni endurspeglaðist í heila auganu. 

- Hvað … bíddu, hvað áttu við, spurði ég og var enn ekki búinn að ná áttum.

- Þau eiga ekkert erindi niður á strönd, segi ég og þú átt að halda þessum vitleysingum frá henni. Annars gæti farið illa, sagði hann og ég lýg því ekki, en það fór svakalega um mig því eitthvað í tón Skelmis var hreint út sagt ógnvekjandi. Áður en ég náði svara hvarf hann út í myrkrið og rokið. Ég kallaði nokkrum sinnum á eftir honum án árangurs.

Nú á ég aldrei eftir að sofna.


Undrin við Lönguströnd

 

21. október

 

Dagurinn var heldur tilbreytingarlítill. Ég mætti í vinnuna og reyndi að fylgjast með Snorra og Bergdísi. Ég fékk ekki betur séð en þau séu farin að blanda geði við hin börnin. Þórarinn var með þeim í allan dag. Katrínu er meinilla við þau eftir gærdaginn, ég veit ekki hvað hefur eiginlega gerst. Hún vill ekki segja mér meira en það sem kom fram í gær. Reyndar verð ég að viðurkenna, að mér finnst nærvera þeirra sérkennileg, eins og hún hafi breyst. Það er eitthvað sem er ekki eins og það á að vera, en samt get ég ekki komið auga á hvað það er. Jú, vissulega er ankanalegt að sjá þau mæta dag eftir dag hrein og fín í skólann, en þannig eru hinir nemendurnir alltaf og hvers vegna ætti ég að vera setja mig upp á móti því að þau séu eins og þeir?

Það var samt eitt atvik í dag, svona þegar ég fer að hugsa um það. Ég var að útskýra sterka og veika fallbeygingu lýsingarorða uppi á töflu og sneri að töflunni á meðan ég var að skrifa á hana. Þegar ég lít aftur fyrir mig fannst mér Snorri stara einbeittur á mig. Hann minnti mig á myndir af stóru kattardýrunum þegar þau eru á veiðum. Ef hann hafði haft rófu hefði hann eflaust sveiflað henni rólega fram og aftur. Augasteinarnir eins og tveir litlir kolamolar, helsvartir en einhver innri eldur brann í þeim. Hvað er það við þessi börn? Hvað er það við Snorra sem kemur mér svo spánskt fyrir sjónir?

Ég reyndi að hitta Pál eftir vinnu en hann var upptekinn. Ég held, hann hafi verið að forðast mig því ég hef heyrt að einhver hafi lekið út upplýsingum úr krufningarskýrslunni í gær. Að minnsta kosti tók ég eftir því hvernig allir laumuðust til að fylgjast með mér á meðan ég verslaði í matinn. Reyndar heyrði ég í versluninni að Alda sé eitthvað veik, hún hefur víst lítið sést undanfarna daga, kannski hún hafi fengið flensu eða jafnvel tekið morðið á Kolbrúnu inn á sig? Ég fór í göngutúr í kvöld og gekk framhjá gamla kaupmannshúsinu, sem þau Hólmgeir erfðu þegar foreldrar hans féllu frá. Mér virtist hvergi loga ljós í húsinu en þó var klukkan ekki nema rétt tæplega átta.

Ég bankaði upp á hjá Katrínu á leiðinni heim. Hún tók vel á móti mér og bauð mér upp á kaffi. Hún minntist á að henni þætti ég þreytulegur og spurði hvort ég svæfi ekki nógu vel. Ég get rétt ímyndað mér hvað aðrir þorpsbúar hugsa.

- Getur nokkur sofið vel þessa dagana, spurði ég á móti.

Hún leit í augu mín og ég fylltist mikilli depurð við það. Katrín þurfti ekki að svara, augnaráð hennar sagði mér allt sem segja þurfti. Hún hefur engu að síður reynst mér vel, þrátt fyrir allt umtalið í þorpinu þá hefur hún ekki haldið mér frá sér. Eflaust hefðu einhverjir ekki einu sinni hleypt mér inn, hvað þá boðið upp á kaffi eftir allt sem hefur gengið á. Við settumst hlið við hlið í sófann inni í stofu hjá henni. Hún dró fæturna undir sig og vafði marglitu teppi utan um axlir sínar.

- Ég hef aldrei verið myrkfælin, en núna mér finnst óþægilegt að sofna án þess að vera með kisu hjá mér, sagði hún og horfði út um gluggann á vaxandi tunglið fyrir ofan fjöllin hinum megin fjarðarins. Ég tók í hönd hennar og þá var eins og eitthvað brysti innan í henni, því hún féll í faðm minn og grét um stund. Eftir nokkrar mínútur hafði hún jafnað sig en hvíldi höfuðið enn á öxl minni. Ég hélt utan um hana og vanillulykt af hári hennar lék um vit mín.

- Ég vildi óska þess að Kolbrún væri hér enn, sagði Katrín loks.

- Já, það geri ég líka, svaraði ég.

Við sátum saman í sófanum þar til að stóra standklukkan í stofunni hjá henni sló nokkru síðar og lét okkur vita að hún væri orðin ellefu. Ég kvaddi hana og hélt heim.

Ég ætti að fara að drífa mig í rúmið, en gallinn er sá, að ég hef ekki náð að festa almennilega svefn undanfarnar nætur, eins og Katrín tók bersýnilega eftir. Ég hef dottað, bylt mér og snúið en ekki enn náð að sofna svo heitið geti. Ég veit ekki hvað það er, ég er dauðþreyttur, kannski er það undirmeðvitundin að kalla á athygli mína.


Undrin við Lönguströnd

20. október

 

Ég veit ekki alveg hvað það var, en þegar ég mætti í skólann í morgun fannst mér eins og eitthvað væri breytt. Samt var ég einn í húsinu, ekki var von á nemendum fyrr en um hálftíma síðar, engu að síður var eins og loftið væri hlaðið einshvers konar neikvæðri orku sem ég hef ekki áður fundið, spenna sem fékk hárið á höfði mínu til að rísa. Þegar krakkarnir komu var ég á nálum, ég vissi ekki hvernig ég átti að haga mér. Ég opnaði dyrnar og hleypti þeim inn, en Katrín var ekki komin. Ég fór inn á skrifstofu og hringdi heim til hennar, þar sem ég hafði ekki tíma til að fara og athuga með hana. Þar svaraði enginn. Ég tók einnig eftir því að Höllubörn voru ekki komin. Ég kom bekknum hennar af stað í lestri og setti mínum nemendum fyrir að læra landafræði. Sjálfur stóð ég á ganginum á milli kennslustofanna og fylgdist með götunni út um gluggann á útihurðinni um leið og ég hjálpaði nemendum eftir því sem þörf var á. Um hálftíma síðar sá ég hvar hún kom gangandi ásamt Höllubörnum. Ég opnaði fyrir þeim, um leið mættust augu okkar Katrínar og ég sá strax að henni var nokkuð brugðið. Snorri og Bergdís leiddu Má á milli sín. Bergdís hafði farið að fordæmi eldri bróður síns og þvegið sér vel og rækilega. Hún var í hreinum fötum og hárið var snyrtilega fléttað. Ég stóð og starði um stund á þessa fallegu stúlku sem klæddi sig úr dökkri yfirhöfninni þegjandi og hljóðalaust. Már var hins vegar eins og hann á að sér að vera, eins og þau systkinin eru venjulega til fara. Ég skil ekki hvað er eiginlega að gerast með þau. Mér finnst þetta sumpart furðulegt, því varla getur talist eðlilegt að þau sem sjá venjulega um yngri bróður sinn skuli ekki þrífa hann líka, úr því þau eru á annað borð að fara í bað.

Í hádegishléinu settumst við Katrín niður og ræddum saman. Hún sagði mér af hverju hún hafði komið of seint og var mikið niðri fyrir. Ég held, að hún hafi orðið hrædd í morgun en það vildi hún ekki viðurkenna.

- Ég var nýkomin út, sagði hún og leit í kringum sig, eins og hún væri að tryggja að enginn heyrði til hennar, - þá sá ég hvar þau systkini ganga neðar í götunni. Mér fannst nokkuð undarlegt að þau skildu ekki fara beint í skólann, því, eins og þú veist, er töluverður krókur fyrir þau að taka á sig að fara niður götuna þar sem ég bý til að komast í skólann. Ég rölti af stað en þegar ég kom að gatnamótunum þá beygðu þau út að strönd, en ekki til hægri. Ég kallaði til þeirra, en þau hafa ábyggilega ekki heyrt í mér. Ég flýtti mér á eftir þeim og reyndi að fanga athygli þeirra, en allt kom fyrir ekki. Við vorum komin langleiðina út á strönd þegar ég náði krökkunum loksins. Ég greip í hnakkadrambið á Snorra. Þau sneru sér að mér og í eitt augnablik fannst mér eitthvað undarlegt blik í augum þeirra, eins og ég væri ekki að horfa á þau, heldur aðeins líkama þeirra. Síðan var eins og þau kæmu til sjálfs sín, því þau virtust jafn undrandi á því að vera þarna úti við strönd og ég.

Katrín starði á mig, augnaráð hennar var örvæntingarfullt og ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að bregðast við þessari frásögn.

- Hvaða erindi áttu þau út á strönd, spurði ég.

- Ég hef ekki hugmynd um það, svaraði Katrín en hélt síðan áfram, - þegar við vorum á leiðinni hingað fékk ég ekki betur séð en Skelmir stæði við grjótgarðinn og fylgdist með okkur. Mér finnst hann ógeðslegur, ég fæ alltaf kuldahroll niður eftir bakinu þegar ég sé hann. Mér leið því mjög illa, með krakkana þrjá eins undarleg og þau eru og síðan með karlinn starandi á mig. Ég hefði alveg getað hugsað mér betri byrjun á deginum, ef þú skilur hvað ég á við.

Ég kinkaði kolli. Hvað ætli börnin hafi verið að gera úti á strönd? Hvers vegna var Skelmir þar? Ég þarf greinilega að finna gamla karlinn og ræða við hann. Ja, ef ég hitti ekki á hann þá fæ ég Pál til þess. Ég er sammála Katrínu í því að þetta er ákaflega furðulegt, en þetta getur allt eins haft enga merkingu. Það er svo erfitt að segja til um það. Ég ætla samt að vera á varðbergi gagnvart þeim systkinum, það er augljóslega eitthvað í gangi og ég vil vita hvað það er.

Restin af skóladeginum leið án frekari truflana. Áður en ég vissi af voru nemendurnir farnir heim til sín og ég stóð einn í skólastofunni. Eftir að ég var búinn að ganga frá leit ég inn til Katrínar, en hún var farin. Ég slökkti ljósin og læsti á eftir mér. Ég ákvað að heimsækja Hólmgeir til að athuga hvort hann væri búinn að jafna sig á þynnkunni og væri tilbúinn að spjalla við mig. Ég vonaðist til að geta rætt við hann um Kolbrúnu, svona til að heyra hvaða sögu hann hefði að segja.

Inni í ráðhúsinu var allt eins og það átti að sér að vera, nema hvað Kolbrún sat náttúrulega ekki við skrifborðið sitt. Ég fór rakleiðis inn til Hólmgeirs, dyrnar stóðu opnar og ég steig inn fyrir dyrakarminn. Hann leit upp úr einhverjum pappírum þegar hann tók eftir mér og brosti innilega. Mér brá við, því umbreytingin á honum var ótrúleg. Baugarnir undir augum hans voru horfnir, þreytan og þynnkan sem hrjáði hann síðast þegar ég hitti hann virtist í órafjarlægð. Ef eitthvað var, þá var Hólmgeir sprækari nú en fyrir morðið á Kolbrúnu. Hann bauð mér sæti.

- Hvað get ég gert fyrir…þig, spurði hann. Eitthvað við rödd hans sló mig, blærinn var ekki eins sá sem ég er vanur að heyra frá honum.

- Ja, ég ætlaði nú bara að athuga hvernig þú hefðir það.

- Fínt, ég hef það fínt, takk fyrir.

- Er Páll búinn að koma hingað?

- Já, hann kom skömmu eftir hádegi.

- Sýndi hann þér krufningarskýrsluna?

- Nei, er hún tilbúin?

Ég svaraði honum ekki strax. Hvers vegna ætli Páll hafi ekki sýnt honum skýrsluna eins og hann ætlaði sér að gera?

- Ég veit það ekki, mér datt bara í hug að athuga hvort að hún væri komin. Hann vill ekkert segja mér.

- Nei, hann hefur ekkert sagt mér. Skelfilegt mál, alveg hræðilegt. Ekki skil ég hvernig þessar marglyttur komust í laugina. Heldurðu að þær hafi farið í gegnum vatnskerfið? Ef svo er, þá gæti það þýtt að við þyrftum að loka fyrir það.

- Ég bara veit það ekki, ég hef engar skýringar á þessu, svaraði ég og reyndi að hylja undrun mína. Breytingin á Hólmgeiri var með endemum. Fyrir tveimur dögum var hann nær frávita af svefnleysi og drykkju, sjálfum fannst mér líklegra að hann hefði fengið einhvers konar taugaáfall, en þarna stóð hann og lét sem ekkert hafi í skorist og allt ætti sér eðlilegar skýringar.

- Jæja, úr því þú veist ekkert, þá ætla ég að drífa mig heim, sagði ég og stóð á fætur. Mér leið mjög sérkennilega þarna inni, eins og eitthvað væri ekki eins og það ætti að sér og mig grunaði einna helst að Hólmgeir væri farinn yfir um.

- Já, verið þér sælir, svaraði hann og brosti til mín. Um stund fannst mér eins og ég væri að horfa á allt aðra manneskju.


Undrin við Lönguströnd

19. október

 

Ég fór ekki í sund í morgun, bæði vegna þess mig hreinlega langar ekkert voðalega mikið þangað eftir allt sem hefur gerst auk þess sem laugin er lokuð. Þar af leiðir mætti ég frekar úrillur og ekki nógu vel vakandi í vinnuna. Nemendurnir voru undarlegir, eins og þeir vissu ekki alveg hvernig þeir ættu að haga sér, það er að segja þeir fáu sem yfirhöfuð mættu. Eflaust hafa þeir ekki farið varhluta af þeirri umræðu sem Páll vísaði til í skýrslutökunni í gær. Það kom mér á óvart að sjá Snorra aftur hreinan og fínan, ég held að krakkarnir hafi líka verið undrandi yfir þessari breytingu á drengnum. Systir hans var hins vegar eins og hún á að sér að vera. Skrýtið að aðeins annað þeirra virðist hafa tekið upp á því að þrífa sig. Hann var meira að segja vatnsgreiddur.

Ég reyndi að halda úti einhverju starfi en það gekk fremur illa. Krakkarnir voru á nálum og vissu hreinlega ekki hvernig þau áttu að sér að vera. Stofan var hálftóm og augljóst að þau söknuðu samnemenda sinna. Í raun gekk þetta ágætlega þar til að Sigurdís Káradóttir rétti upp hönd og spurði:

- Hvernig var að koma líkinu? Var það viðbjóðslegt?

Ég starði í blá augu hennar. Í þeim greindi ég ekkert annað en sakleysislega forvitni, þó fannst mér spurningin óviðeigandi og næstum því illgjörn. Áður en ég náði að svara kom næsta spurning, nú frá Þórarni.

- Varst það ekki þú sem sást hana síðast á lífi?

Krakkarnir sátu og störðu á mig, augljóslega mjög spennt að heyra svör mín. Ég vissi varla hvaðan á mig stóð veðrið. Mér fannst eins og næsta spurning hlyti að vera, hvort ég hafi myrt hana. Reyndar er ég ekki viss um þau viti að hún var myrt. Ætli flestir í þorpinu geri ekki ráð fyrir að marglytturnar hafi drepið hana? Ég efast um að Páll hafi látið niðurstöður krufningarinnar fara eitthvað á flakk. Í fyrstu átti ég frekar erfitt með að koma frá mér heilli setningu. Ég ræddi við þau það sem eftir lifði af tímanum um atburðina og einhvern veginn var það ákveðin hreinsun fyrir mig. Ég reyndi að útskýra fyrir þeim mína upplifun og ég fékk ekki betur séð en að mörg þeirra væru mér þakklát, því ábyggilega hefur ekki verið spjallað við þau um þessa hluti heima. Krakkarnir hafa kannski heyrt út undan sér hvað hafði gerst en enginn tekið sér tíma til að hjálpa þeim að skilja og komast yfir fréttirnar. Á meðan við ræddum saman sat Snorri teinréttur í sætinu og fylgdist alvarlegur með mér. Augu hans viku aldrei af mér og það var ákaflega óþægilegt að sitja undir augnaráði hans. Mér fannst sem eitthvað annað lægi undir, eitthvað annað og mikilvægara. Ég ætti kannski að ræða við hann í einrúmi.

Í stofunni hinum megin á ganginum lenti Katrín í svipaðri reynslu. Nemendur hennar spurðu óteljandi spurninga og hún reyndi að svara eins vel og hún gat, uns þol hennar þraut. Ég varð var við umgang frammi og leit út á gangi, ég sá hana þá hverfa inn um skrifstofudyrnar. Ég bað nemendur mína um að halda áfram með lexíur sínar og fór inn til hennar. Hún sat og huldi andlitið í höndum sér. Ég greip um axlir hennar og reyndi að hughreysta. Hún þurfti að jafna sig og gerði það nokkuð fljótt. Innan tíðar var hún staðin á fætur, slétti úr pilsi sínu og þurrkaði vota augnhvarmana. Ég strauk kinn hennar og gerði mitt besta til að brosa, ég veit ekki hvernig það kom út en hún virtist mér þakklát. Skóladagurinn rann sitt skeið að lokum og krakkarnir hlupu hver til síns heima. Við Katrín spjölluðum saman um hvernig best sé að taka á þessu með krökkunum og ákváðum að ræða við séra Tómas. Ég er nokkuð viss um, þó karlinn sé kominn til ára sinna, að hann geti skýrt þetta dauðsfall út fyrir þeim. Ég hygg að við Katrín hefðum jafnvel líka gott af því að hlusta á hann. Ég man að hann kom allavega tvisvar til að ræða við móður mína á sínum tíma og hún var honum ævinlega þakklát. Ég þarf að heyra í honum á morgun.

Eftir að Katrín var horfin á braut ákvað ég að heimsækja Hannes. Ég vildi ekki fara heim strax en hafði svo sem ekkert að gera í skólahúsinu. Ég veit ekki hvað þorpsbúar halda eða munu segja, er þeir heyra að ég mæti daglega á lögreglustöðina eftir líkfundinn. Æ, mér er sama, þeir mega eiga sig með þetta slúður, þetta er smáborgaraháttur eins og Alda sagði. Það voru ekki jafn margir í dag og í gær, í anddyrinu sátu aðeins tveir menn. Annars vegar var þar starfsmaður sundlaugarinnar, ég man aldrei hvað hann heitir, enda langt um yngri en ég og því af annarri kynslóð. Hinn var Hólmgeir. Hann brosti daufur í dálkinn til mín er ég gekk inn og ég sá strax að hann var skelþunnur. Hann hafði ekki haft fyrir því að raka sig í framan og það stafaði sterkri áfengislykt af honum, sem minnti mig á hversu langt er síðan ég varð var stækjunnar sem kemur frá ströndinni. Er ég orðinn það vanur henni að ég er hættur að finna hana? Hólmgeir horfði á mig eins og hann langaði að segja mér eitthvað en síðan var sem hann hætti við. Ég er forvitinn um hvað það gæti hafa verið. Ég reyndi að spjalla við hann en Hólmgeir bað mig um að ræða við sig síðar. Ég virti það við hann og hélt áfram niður í kjallara, þar sem fangaklefarnir eru. Hannes er búinn að koma sér ágætlega fyrir og er ég gekk inn sat hann og grúfði sig yfir smásjá. Hann leit upp er hann varð mín var og brosti.

- Mikið er ég ánægður að þú skulir vera kominn. Ég þarf að sýna þér svolítið stórmerkilegt.

Hann benti mér á að koma nær. Í hvítum bakka á borðinu lá marglytta, hún var gott sem ósýnilega ef ekki væri fyrir þrjá örmjóa fjólubláa hringi sem mynduðu eins konar þríhyrning.

- Þetta er ein af marglyttunum sem ég fjarlægði úr sundlauginni eftir að konan fannst. Þú fyrirgefur, ég man ekki hvað hún hét. Ég er skelfilegur í að muna nöfn. Stundum gleymi ég því hvað ég heiti.

- Kolbrún, sagði ég.

- Já, einmitt. Hvað um það Ég hef aldrei áður rekist á Chiropsalmus quadrigatus hér við land. Heimkynni þeirra eru hinu megin á hnettinum, þar er þessi tegund marglytta kölluð ‘Vespur hafsins’. Fá dýr á jörðinni eru eitraðri. Ef angi snertir húð manns tekur það ekki nema örfáar mínútur þar til sá hinn sami er látinn. Það sem gerir þessa tegund enn hættulegri er að hún er nokkurn veginn ósýnileg, hún syndir meðfram ströndum, sækir í staði þar sem ferskvatn rennur út í sjó og drepur allt sem hún nær til. Það sem er hins vegar undarlegt, er að venjulega er þessi tegund miklu stærri, getur náð allt að 4 metra lengd. Þessi litla marglytta er réttir 30 cm í þvermál og angar hennar voru tæpir 80 cm.

Ég leit á Hannes og vissi ekki alveg hverju ég átti að svara. Sundlaugin hafði þá verið full af baneitruðum marglyttum og ég hafði næstum kastað mér út í hana til að bjarga Kolbrúnu. Ekki veit ég hvaða verndarengill vakir yfir mér, en ég prísa mig sælan að hafa ekki látið verða af því. Ég skoðaði dýrið nánar.

- Ranka þær við sér þegar þær lenda í ferskvatni, eins og þær á ströndinni?

- Ég held ekki. Þær sem ég tók sýndu engin viðbrögð þegar ég prófaði það.

Ég stóð um stund hugsi og starði á marglyttuna. Hvernig má það vera að þessi tegund hafi birst í lauginni? Hannes velti því svo sem lítið fyrir sér, hann var æstur yfir því að vera uppgötva ný afbrigði.

- Hugsaðu þér, þessi tegund hefur aldrei fundist hér við land. Hitastig hafsins er ekki nógu jafnt, veturnir eru alltof kaldir í sjónum hér í kring.

- Bíddu, er ekki hiti hafsins nokkuð jafn, spurði ég undrandi.

- Margir halda það, en raunin er sú að hitastig sjávar getur sveiflast töluvert. Vökvi heldur varma mun betur en lofttegundir, en hann tekur einnig lengri tíma að hitna. Þetta er af því vökvi hefur meiri eðlisvarma en loft, en þetta veistu, ekki satt? Hér í kringum landið eru bæði heitir og kaldir sjávarstraumar og á veturna getur hiti sjávarins fallið allt niður í 3° - 5°C.

Ég kinkaði bara kolli, Hannes hélt áfram að tala.

- Þetta eru samt ótrúlega merkilegar lífverur. Líkami þeirra er eins einfaldur og hugsast getur, fá dýr í náttúrunni eru jafn fullkomin að gerð. Þær eru að mestu vatn, hugsaðu þér, vatn í vatni. Líkami þeirra er 95% vatn, að því leyti líkjast þær svipudýrum og öðrum örverum. Þær hafa engan heila, hvorki mænu né hjarta, aðeins maga og kynfæri. Munnarmar draga inn fæðuna sem angarnir ná í og bera í munninn. Þær lifa til að drepa og drepa til að lifa, einfaldara verður það ekki.

- Er það ekki þannig með flest dýr? Mætti kannski ekki bæta við, að þær fjölga sér til að tryggja viðgang tegundarinnar?

- Jú, auðvitað, en flest dýr eru flókin að ytri og innri gerð. Sem dæmi má nefna, að marglyttur nýtast engum öðrum dýrum sem fæða, nema kannski öðrum af sömu tegund. Þær eiga sér enga óvini í náttúrunni, ekki einu sinni maðurinn er þeim skeinuhættur nema með óbeinum hætti. Við eigum okkur marga náttúrulega óvini, því maðurinn er of flókið lífform. Ef það liggur fyrir manninum að deyja út verður það sökum þrá hans eftir einfaldleika.

Ég leit á Hannes, sem horfði dreymin á marglyttuna í bakkanum. Við ræddum saman um stund, hann sagði mér frá því sem hann ætlaði sér að gera næstu daga en þegar ég sá að klukkan var farin að nálgast sex ákvað ég að drífa mig heim. Hann virtist þó ekki á þeim buxunum, ég á alveg eins von á hann sitji ennþá í fangaklefanum og grúfi sig yfir smásjána sína.


Undrin við Lönguströnd

18. október

 

Mér leið sumpart eins og ég væri ekki vaknaður, heldur gengi í draumi um þorpið. Kannski er það vegna frásagnar Kolbrúnar, sem sækir á mig. Ég veit ekki af hverju en ég verð að komast að því. Ætli Katrín viti eitthvað meira en ég, þeim tveimur var víst ágætlega til vina? Æ, ég veit það ekki. Mér finnst eins og grundvallarlögmál hafi hnykkst til og færst úr stað. Ég hef aldrei vitað til þess að nokkur hafi látist með þessum hætti hér í þorpinu, hvað þá annars staðar. Þetta er heldur ekki einleikið, þetta með marglytturnar. Ég vona bara að Hannes fari að komast að því hvers vegna þær ráku á land.

Alls staðar er flaggað í hálfa stöng. Fréttir sem þessar þurfa engra fjölmiðla við, þær berast með morgunkaffinu, sniglast milli garða eins og læður í veiðihug. Ég var friðlaus inni við og dreif mig út eins fljótt og auðið var. Ég gat ekki einbeitt mér, ráfaði stefnulaust um þorpið og reyndi að koma einhverri stjórn á hugsanir mínar. Mynd af Hólmgeiri skaut upp í huga mér, þar sem hann stóð við laugarbakkann. Ég get ekki alveg útskýrt hvers vegna hann virtist taka þetta svo nærri sér, eftir því sem mér skilst var ekkert sérstaklega hlýtt á milli hans og Kolbrúnar. Að minnsta kosti varð ég ekki var við það í heimsóknum mínum á skrifstofur bæjarstjórnar, hann var frekar kaldur í framkomu sinni við hana ef eitthvað er.

Ég endaði við skólahúsið en þar var enginn. Ég hleypti sjálfum mér inn og settist við skrifborðið mitt, svona rétt til að öðlast frið. Ég veit ekki af hverju, en einhvern veginn líður mér ákaflega vel inni í skólastofunni minni. Ætli það sé ekki vegna þess að þar stýri ég aðstæðum, ég stjórna og er alvaldur. Nemendurnir geta vissulega komið með athugasemdir en þegar allt kemur til alls, þá ræð ég. Þar sem ég sat í stólnum mínum og með fæturna uppi á borði og reyndi að slappa af, var bankað á útidyrnar. Ég stóð upp og fór fram til að opna. Fyrir utan stóð Snorri Hölluson. Hann hafði þvegið sér og greitt dökkt hárið, sem annars virtist hreint, aldrei þessu vant. Hann starði á mig, alveg óhræddur, augnatillit hans kalt og yfirvegað. Mér fannst það fremur undarlegt, því hann er ekki vanur að horfa í augu mér. Ég opnaði útidyrnar.

- Sæll, Snorri minn. Hvað ertu að gera hér í dag?

- Ég hélt það væri skóli í dag, svaraði hann og brosti. Eða glotti öllu heldur. Eitthvað við far hans kom mér spánskt fyrir sjónir.

- Nei, karlinn minn, í ljósi atburða undanfarinna daga var ákveðið að fresta skólahaldi fram á fimmtudag.

- Jæja þá. Við sjáumst, Hermann kennari, sagði hann og rölti á brott. Ég stóð um stund og fylgdist með honum. Ætli Katrín hafi farið sjálf heim til Höllu og rætt við hana? Ég ætti kannski að reyna hitta á Katrínu á morgun og athuga það.

Um hádegisbilið gekk ég niður á lögreglustöð, því ég var nokkuð viss um að Páll vildi spjalla við mig og, - eins og Gunnar nefndi í gær, taka af mér skýrslu. Það kom mér á óvart að sjá hversu margir voru þar inni. Mér fannst eins og hálfur bærinn væri mættur og lögreglumennirnir voru önnum kafnir við að ræða við fólkið. Það var gríðarlegur hávaði og minnti mig sumpart á fuglabjargið við bæinn hans afa gamla. Þangað var ég sendur á sumrin og mér eru minnisstæðar ferðir í bjargið til eggjatöku. Um leið og ég hafði aldur til, var ég látinn síga niður og hirða úr hreiðrum fuglsins. Afi brýndi þó fyrir mér að taka aðeins eitt egg úr hverju hreiðri, nema þeim þar sem aðeins eitt var. Það var honum mikilvægt að komið væri af virðingu fram við náttúruna og taka aðeins það sem þurfti til að komast af, en ekki meira. Hann var ekki ánægður með nágranna sína, sem höfðu selt einhverjum ríkisbubbum, eins og hann kallaði þá, rétt til að veiða lax í ánni sem rann í fjörðinn.

Ég hafði ekki staðið lengi í anddyri lögreglustöðvarinnar þegar Páll tók eftir mér. Á meðan ég stóð og beið, eins og svo margir aðrir, fannst mér augu flestra viðstaddra hvíla á mér. Þau horfðu á mig eins og ég hefði gert eitthvað af mér, eins og ég væri skítugur. Ég heilsaði en fáir tóku undir kveðju mína. Páll kallaði mig til sín og bauð mér að setjast inn á skrifstofu til sín. Hann hellti kaffi í tvo bolla og settist síðan sjálfur við borðið sitt. Hann tók upp blýant og skýrslublað, horfði síðan á mig og það var sérkennilegur svipur á andliti hans. Eins og hann væri að meta mig.

- Jæja, Hemmi, við þurfum að taka af þér skýrslu þar sem það lítur út fyrir að þú hafir verið síðastur til að hitta Kolbrúnu á lífi og fyrstur til að koma að henni, sagði hann hálfdapur á svip. Það fór kvíðahrollur um mig, ég hafði ekki áður hugsað út í málið þannig.

- Já, ætli það ekki, svaraði ég.

Ég sagði honum fyrst frá gönguferð okkar Kolbrúnar og það sem okkur fór á milli og dró hvergi undan. Síðan fór ég yfir morguninn sem ég fann hana í lauginni. Hann spurði mig í þaula út í hin minnstu atriði og lét mig segja sér aftur og aftur frá þessu. Mér leið alveg skelfilega á meðan, því ég upplifði þetta samtal okkar miklu frekar sem yfirheyrslu en nokkurn tíma skýrslutöku. Í lokin, þegar hann hafði lokið við að skrifa skýrsluna, rétti hann úr sér og spennti greipar fyrir aftan hnakka. Hann horfði um stund á mig og andvarpaði.

- Nú ætla ég að segja þér nokkuð sem ég vil ekki að fari neitt lengra, skilurðu?

Ég kinkaði kolli.

- Ég fékk krufningarskýrsluna snemma í morgun í hendurnar. Svo virðist sem Kolbrún hafi verið myrt.

Ég greip andann á lofti.

- Myrt!? Hvernig þá?

- Hún var slegin með einhverju þungu aftan á höfuðið. Líklega hefur það verið nóg til að rota hana allduglega.

- Gæti hún ekki hafa dottið og rekið höfuðið í?

- Það held ég ekki, því á henni eru fleiri áverkar. Til dæmis eru sár aftan á hælum hennar sem benda til þess hún hafi verið dregin eftir hrjúfu yfirborði, eins og steinflísunum á bakkanum. Henni hefur verið hent í laugina, þar sem hún drukknaði að lokum.

- Ja, hérna megin. Morð á Lönguströnd. Hver gæti hafa framið það?

Páll svaraði ekki en starði á mig. Þá þyrmdi skyndilega yfir mig. Hann grunaði mig. Ég hafði, jú, séð hana síðastur á lífi og komið fyrstur að líkinu. Auðvitað var eðlilegt að ég væri efstur á lista yfir grunaða. Hann vissi líka að á sínum tíma hafði ég fellt hug til hennar, en það er liðin tíð.

- Páll, ég gerði það ekki, sagði ég örvæntingarfullur, - þú veist ég gerði það ekki. Þú þekkir mig. Ég gæti ekki gert flugu mein.

- Hemmi minn, vertu alveg rólegur, svaraði hann og bætti við, - ég er ekki að ásaka einn eða neinn. Hins vegar máttu alveg eiga von á því að íbúarnir hérna, ja, hagi sér undarlega svona til að byrja með. Þú þekkir hvernig lífið hérna er. Menn geta verið teknir af lífi félagslega án dóms og laga. Ég hef engan sérstakan grunaðan um verknaðinn en ég á líka eftir að ræða við töluvert af fólki. Engu að síður langar mig til að biðja þig um að vera ekki að fara neitt í burtu án þess að tala við mig fyrst. Allt í lagi?

Ég kom ekki upp orði. Ég stóð á fætur og dreif mig út. Ég vissi hreinlega ekki hvert ég átti að fara eða hvað ég gat gert. Ekki fyrir mitt litla líf þorði ég til Katrínar, ég var viss um að hún myndi skella beint á nefið á mér. Ég leið um þorpið eins og svefngengill í miðri martröð og rankaði ekki við mér fyrr en ég stóð fyrir framan ráðhúsið og tók þá eftir að ljós var í glugganum á skrifstofu Hólmgeirs. Ég fann hann inni á skrifstofu sinni. Hann spratt upp úr stólnum sínum þegar hann sá mig, mér sýndist hann hvorki hafa sofið né hirt nokkuð um útlit sitt síðan ég hafði síðast séð hann standa við laugarbakkann. Músabrúnt hárið var úfið og hvít skyrtan krumpuð. Hann hafði tekið af sér hálsbindið. Augun voru þrútin og þreytuleg, hann tók á móti mér með handabandi og bauð mér sæti. Hann náði í tvö glös og skenkti í þau koníaki, heldur fannst mér vel úti látið en ég kvartaði ekki. Hann riðaði og ég rétt náði orðaskilum.

- Merkilegt, sagði hann þvoglumæltur.

- Hvað þá?

- Að þú skulir einmitt koma, mér varð hugsað til þín rétt áður en þú steigst inn um dyrnar.

Ég þagði og horfði á hann, mér virtist hann vera mun drukknari en ég hafði nokkurn tíma áður séð hann. Hólmgeir reikaði örlítið í spori en náði að setjast í stól sinn, um leið og hann lenti í sætinu andvarpaði hann. Ég reyndi að ræða við hann en hann virtist mér of drukkinn til að ná einhverju af viti upp úr honum. Hann var byrjaður að dotta í stólnum þegar Alda kom inn. Hún var mild á svip, klædd grárri dragt og með svartan hatt á höfði. Hún heilsaði mér kurteisilega en sneri síðan athygli sinni að eiginmanni sínum.

- Jæja, Geiri minn, er ekki kominn tími á að þú komir heim, spurði hún þýðlega.

Eitthvað í svip Hólmgeirs breyttist, hann minnti mig á þá tíma er við vorum yngri, yfir hann kom einhver undarleg auðmýkt sem jaðraði við ótta. Hann leit niður, þorði vart að mæta augnaráði hennar og muldraði eitthvað sem ég greindi ekki. Hún gekk yfir að skrifborðsstól Hólmgeirs og náði í jakka hans.

- Vilduð þér vera svo vænn að aðstoða mig og styðja hann út í bíl, spurði hún mig.

Ég kinkaði kolli og gerði það sem hún fór fram á. Þegar hann var kominn í aftursætið leit hann svo undarlega á mig, næstum sem hann væri að biðja um hjálp. Hvers vegna ætli hann hafi verið hræddur? Alda bað mig um að hafa sem allra fæst orð um þetta, sérstaklega um drykkju Hólmgeirs.

- ...þér vitið hvernig fólk smjattar á svona löguðu, smásálirnar njóta að hafa þess háttar á milli tannanna.

Síðan þakkaði hún mér fyrir hjálpina og settist inn í bílinn. Ég horfði á eftir honum renna út götuna og hverfa fyrir horn. Ekki skil ég hvað er að gerast í lífi Hólmgeirs. Fjandinn hafi það, ég skil varla hvað er að gerast í mínu eigin lífi! Ég trúi því varla að fólk skuli halda að ég hafi drepið Kolbrúnu. Hvers vegna ætti ég að gera það? Æ, þetta er allt eins og ég sé staddur mitt í minni eigin martröð en geti ekki vaknað. Vonandi að morgundagurinn verði betri.


Undrin við Lönguströnd

17. október

 

Hvað er eiginlega að gerast? Það er eins og allt sé á hvolfi og enginn viti neitt í sinn haus. Fyrst þetta undur með marglytturnar, nú Kolbrún. Ég vildi óska þess ég gæti bara sofnað og gleymt þessu öllu saman, en í hvert skipti er ég loka augunum sé ég líkama hennar fyrir mér fljótandi í lauginni.

Ég vaknaði snemma í morgun. Það var svalt í veðri og héla lá á visnuðum gróðrinum. Ég flýtti mér því upp í sundlaug til að geta komist sem fyrst ofan í heitt vatnið. Ég kom á sama tíma og fyrstu starfsmennirnir, þeir hleyptu mér inn með sér enda mætti kalla mig fastagest. Skóhillurnar voru auðar og ég var ekki lengi að skipta um föt og fara í sturtu. Þegar ég kom út var allt hljótt fyrir utan suðið í hreinsibúnaði laugarinnar. Ég tók á mig stökk og hljóp að bakkanum. Þar stansaði ég augnablik og ég held, að þar hafi örlögin tekið í taumana. Einhverra hluta vegna ákvað ég að stinga mér ekki ofan í vatnið, eins og ég geri annars oftast. Kannski að guðleg forsjón hafi spilað þarna inni. Í lauginni var nakinn líkami og ég sá fljótlega að þetta var Kolbrún. Hún sneri baki mót himni og með opinn faðm, en fætur hennar voru krosslagðir. Ég hrópaði fyrst nafn hennar en síðan á hjálp af öllum lífs og sálar kröftum þegar ég fékk engin viðbrögð frá henni. Aldrei fór ég út í vatnið til að hjálpa henni. Af hverju ekki? Var það ef til vill einhver ósýnileg hönd sem stýrði mér? Skyndilega kom ég auga á hreyfingu í vatninu, örlitla gáru á yfirborðinu og ég þurfti virkilega að rýna ofan í laugina til að sjá hvað olli henni. Mér til skelfingar sá ég að laugin var morandi full af marglyttum!

Það er mér ráðgáta hvernig í ósköpunum þær komust í laugina. Ég rétt náði að halda aftur af laugarverðinum þegar hann kom hlaupandi. Innan stundar voru bæði Páll og Gunnar læknir komnir á staðinn. Ekki leið á löngu þar til Hólmgeir birtist og á eftir honum Hannes. Ég sat hálfdofinn og fylgdist með þegar laugin var tæmd vatni og lík Kolbrúnar fiskað upp úr henni. Hólmgeir stóð og starði stjarfur á herlegheitin. Hann mælti ekki orð frá vörum. Hann var náfölur, enda Kolbrún náinn samstarfsmaður hans. Ég átti erfitt með andardrátt og fannst sem það myndi líða yfir mig. Ég var látinn leggjast niður og allt hringsnerist í hausnum á mér. Hvað gæti hafa gerst? Hvers vegna var Kolbrún þarna í lauginni? Nakin í ofanálag?

Þegar ég reisti mig við til að dreypa á vatnsglasi sem mér hafði verið fært sá ég þá Hólmgeir og Pál ræðast við í lágum hljóðum. Ég fékk ekki betur séð en Páli væri töluvert niðri fyrir. Ég veit ekki hvað þeir voru að tala um. Þar sem ég lá með vatnsglasið í hendinni varð mér hugsað til marglyttanna, Kolbrúnar og uppgötvunar Hannesar og aftur fór allt fleygiferð í hausnum á mér. Ég reyndi að standa á fætur og koma mér inn á klósett en náði því ekki og kastaði upp við dyrnar inn í karlaklefann. Páll og Gunnar komu aðvífandi og ákveðið var að senda mig heim í fylgd með lögreglumanni, Gunnar ætlaði síðan að líta inn til mín seinna í dag, sem hann og gerði.

Þegar ég var loksins kominn heim lagðist ég upp í rúm og reyndi að sofna, en það var sama hvað ég gerði. Ég bylti mér og reyndi að finna þægilega stellingu en allt kom fyrir ekki. Eftir um tvo tíma gafst ég upp og settist inn í eldhús við eldavélina og hlustaði á útvarpið. Það sveif höfgi á mig innan tíðar og þannig kom Gunnar að mér. Ég rankaði við mér er ég fann hrjúfa hönd hans á enni mér. Hann sagði ekki margt svo sem, aðeins að ég hlyti að hafa fengið vægt taugaáfall og ég ætti að taka því rólega næstu daga.

- Hvað með skólann, spurði ég, -  hver á að kenna krökkunum?

Gunnar á einmitt son í bekknum mínum, Þórarinn. Hann er líkur föður sínum, með rauðan koll og sterklega vaxinn. Hendur hans minna frekar á bjarnarhramma en fíngerðar hendur manneskju. Eplið hefur ekki fallið langt frá eikinni, því ekki nóg með að þeir séu líkir í útliti heldur er atgervi þeirra gott sem hið sama. Þórarinn er rólegur og fámáll en hefur einhverja nærveru sem erfitt er að hunsa. Ég held, að hann sé leiðtogi innan nemendahópsins án þess þó að gera sér sjálfur grein fyrir því. Oft líta krakkarnir til hans eftir viðbrögðum, eða svo hefur mér sýnst.

- Ég held, svaraði Gunnar, - að Páll hafi rætt við Katrínu og þau ákveðið að gefa krökkunum frí fram á fimmtudag, svona til að byrja með að minnsta kosti. Það er ágætt, tel ég, að gefa þeim líka færi á að skilja hvað hefur gerst og ég efast ekki um að Páll vilji ræða við þig og taka skýrslu af þér. Hann bíður einmitt hér fyrir utan eftir að heyra hvernig þú hafir það.

- Hvað heldur þú að hafi gerst, spurði ég eftir andartaksþögn.

- Ég hef svo sem ekki myndað mér neina skoðun á því. Læt vísindamanninn og jafnvel Pál um að búa til kenningar og hugsmíðir um það sem hugsanlega hafi komið fyrir.

Ég horfði um stund á andlit Gunnars. Hann var sviplaus, sem hann léti sér engu varða um örlög Kolbrúnar. Hann hefur eflaust lesið í svip minn, því hann bætti við:

- Það er ekki það ég hafi ekki áhuga, en ég er læknir og fæst við raunverulega hluti. Ég veit, að það var mikið vatn ofan í henni, sem bendir til þess að hún hafi drukknað. Annars á ég alveg eftir að kryfja hana, þannig ég get svo sem ekki sagt neitt með fullri vissu.

Ég kinkaði kolli og sat hugsi eftir hann kvaddi. Ég stóð á fætur og kíkti út um gluggann. Þar stóðu þeir Páll og ræddu saman. Er hann kom auga á mig veifaði hann og ég las af vörum hans, að hann ætlaði að koma á morgun. Dagurinn leið að öðru leyti í einhverju móki, hér sit ég nú við skrifpúltið mitt og horfi út um kvistgluggann á stjörnurnar. Þessar sömu stjörnur hefur Kolbrún eflaust horft á milljón sinnum, jafnvel í gærnótt. Ég fæ ekki hrist úr mér skelfinguna frá því ég sá hana fljótandi í lauginni. Hvað gæti hafa gerst? Hvernig komust marglytturnar í laugina? Verður nokkurn tíma hægt að svara því?

Ég horfi út götuna, þangað sem kirkjan stendur einmanaleg í myrkrinu og lítur niður á þorpið með sínu dimma auga. Hvers vegna ætli Skaparinn hafi búið til marglyttur? Hvaða tilgangi þjóna þær? Hvers vegna Kolbrún? Hvað var hún að gera í sundlauginni? Æ, ef bara ég hefði svör, - vissu um að allt gæti orðið eins og það var.


Undrin við Lönguströnd

16. október

 

Ég fór út nokkuð snemma, enda vaknaði ég fyrir allar aldir af einhverjum sökum og var langfyrstur ofan í laugina. Það er ágætt að hafa hana út af fyrir sig, ekkert sem truflar og friður til að hugsa. Ekki leið nú þó á löngu áður en fleiri birtust, en þessar mínútur sem ég var einn voru ákaflega notalegar. Annars var svo sem lítið sem gerðist, hvorki Páll né Hólmgeir létu sjá sig og ég sat og spjallaði við eldri mennina í heita pottinum. Eins og svo margir aðrir í þorpinu kunnu þeir sínar skýringar á þessu öllu saman, ég lét þær sem vind um eyru þjóta enda hver annarri ótrúlegri.

Ég var því mættur tímanlega upp í skóla, enda má með sanni segja að skólastarfið byrji ekki af neinum krafti fyrr en á þriðja degi. Fyrsti skóladagurinn fer alltaf í spjall og kynningu, annan daginn nota krakkarnir til að koma sér fyrir en á þeim þriðja hefst kennslan fyrir alvöru. Nemendur mínir mættu fínir og stroknir, tilbúnir að nema nýja hluti og staðfesta þá vitneskju sem þeir höfðu fyrir. Merkilegt hve stór hluti kennslunnar fer í að tryggja að krakkarnir viti ákveðin sannindi, - sannindi sem mætti kalla almenn. Jörðin er hnöttótt, á eftir vetri kemur vor og Jesús Kristur dó á krossinum. Eitthvað sem allir vita og flest geta þau lært þetta heima hjá sér.

Ég sagði að nemendurnir hefðu mætt fínir og stroknir í skólann. Það er reyndar ekki alveg satt. Snorri Hölluson og systir hans, Bergdís, mættu seint og illa búin. Ég reyndi að láta þau ekki finna hversu leiðar mér þykja aðstæður þeirra. Halla er ein með þau þrjú, eldri systkinin og Má, sem er í bekknum hjá Katrínu. Halla er, því miður, drykkfeld og ég veit til þess að sumir karlmenn hér í þorpinu hafa leitað til hennar með þvottinn sinn, eins og það er kallað. Það hefur því komið í hlut Snorra og sumpart Bergdísar að hugsa um Má. Það er ekki nema ár á milli þeirra eldri en Már en 6 árum yngri en Bergdís. Mér sýndist þau hafa gert heiðarlega tilraun til að þvo sér í framan, en án sápu er erfitt að ná sumum óhreinindum af, auk þess var dökkur lubbinn ógreiddur nema hvað Bergdís hafði reynt að taka sítt hárið saman í fléttu sem hékk frekar máttlaus niður bak hennar. Hinir krakkarnir forðast þau líka eins og þau séu holdsveik, uppnefna þau Lúsablesana og það virðist sama hversu oft ég tala um þetta við bekkinn, virðist það ekki hafa áhrif. Mig grunar að miklu leyti megi skrifa þessa illgirni krakkanna gagnvart Höllubörnum á umræður þær sem ég ímynda mér að séu á hverju heimili eða þegar tvær, kannski þrjár húsmæður hittast yfir kaffibolla og gæta ekki að litlum eyrum.

Ég ræddi við Katrínu eftir að nemendur voru farnir heim um stöðu þessara systkina. Hún hefur svipaða sögu að segja af Má, hann virðist oftast nær illa hirtur og er hafður að háði og spotti af hinum krökkunum. Hún vill að við höfum samband við sýsluyfirvöld og látum þau vita að það sé ekki nógu vel hugsað um þau Höllubörn. Ég veit ekki með það, ég vil síður vera skipta mér um of af slíkum málum. Ég hef reynt það einu sinni og verð að teljast heppinn að hafa sloppið með líf og limi úr þeirri vitleysu. Það er nú nefnilega þannig, að í smábæ sem þessum fréttist mjög fljótt hver það var sem kallaði til yfirvöldin og það er sjaldnast vinsælt eða vel séð. Það væri nær að ég ræddi við Höllu eða Hólmgeir, svona til að athuga hvort ekki megi útvega henni einhverja aðstoð eða hvort hægt sé að koma krökkunum fyrir einhvers staðar, í það minnsta tímabundið. Katrín var ekki sátt við afstöðu mína, en ætlaði að virða hana, svona allavega fyrst um sinn og sjá hvort tillögur mínar munu hafa einhvern árangur. Ætli ég verði ekki að heimsækja Höllu í vikunni?

Á leiðinni heim hitti ég Kolbrúnu. Við gengum saman áleiðis og röbbuðum um hitt og þetta. Það er ákaflega notalegt að ræða við hana, mér líður alltaf eins og hún hafi mikinn áhuga á því sem ég er að tala um og maður finnur einhvern veginn til sín. Er það kannski ein af þeim galdraáhrifum sem hún virðist hafa á menn? Ég spurði hana út í Hólmgeir, hvort hún hefði orðið vör við að hann væri eitthvað ólíkur sjálfum sér eða ekki eins og hann á að sér að vera. Kolbrún var nú ekki viss um það, en þó viðurkenndi hún að hann hafi verið nokkuð upptekinn og fjarlægur undanfarna daga. Hins vegar vildi hún meina að það væri fyrst og fremst vegna þess hann hefði einfaldlega nóg á sinni könnu og ábyrgðin sem fylgdi starfinu mikil, því ætti ekki neinn að undra þó hann væri hugsi af og til. Ég veit ekki hvað það var, en allan tímann sem við ræddum saman um Hólmgeir fannst mér eins og hún væri að draga eitthvað undan, væri ekki að segja mér allan sannleikann. Kannski var það bara ímyndun í mér. Henni virtist allavega í mun að sannfæra mig um að þetta væri allt saman eðlilegt og ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af neinu. Ég vona að það sé rétt hjá henni.

Það var þó eitt sem hún sagði sem vakti furðu mína. Hana hafði dreymt undarlega og vildi heyra hvort ég gæti ráðið drauminn.

- Mér fannst sem ég stæði hér fyrir utan, sagði hún og benti á lágreista húsið sem hún býr í, - og við hliðið stóðu tvær beljur, kýr og naut. Það var blátt á litinn og vel hyrnt en hún fjólublá. Halar þeirra voru bundnir saman. Þau gengu hér niður eftir götunni. Skyndilega kom mikil flóðalda og virtist ætla að kaffæra þau. Nautið tók þá að naga af sér halann en kýrin, hún stóð stjörf og starði á vatnsvegginn færast nær. Nautinu tókst að losna í þann mund sem báran skall á þeim. Það náði að standa hana af sér en þurfti að horfa á eftir kúnni þar sem hún hvarf ofan í dimmbláan brekann. Eftir það sneri nautið við og gekk aftur upp strætið. Þá vaknaði ég. Hvað heldurðu að þessi draumur merki?

Ég hafði engin svör til handa henni, enda síst vel til þess fallinn að ráða drauma. Mig dreymir afskaplega sjaldan nokkuð með viti í og hef lítið hugsað út í þá. Þó var eitthvað við hvernig hún sagði frá draumnum sem fékk hárin á höfði mér til að rísa. Það færðist dreyminn svipur yfir andlit hennar og þegar frásögninni lauk, var eins og hún væri hrædd. Eins og hún óttaðist hann kynni að rætast. Ætli hún hafi upplifað drauminn sem martröð? Hún minntist ekkert á það. Ég botna hvorki upp né niður í veröldinni þessa dagana. Kannski ég geti hugsað skýrar í fyrramálið.


Undrin við Lönguströnd

15. október

 

Eftir messu bauð ég Katrínu á Bláu könnuna. Við settumst þar niður og fengum okkur pönnukökur með sultu og rjóma og drukkum heitt súkkulaði. Ég sagði henni frá bón Hannesar. Hún var ánægð fyrir mína hönd og ég fékk ekki betur heyrt en hana langi örlítið sjálfri að fá að taka þátt í rannsókninni. Kannski hefði ég frekar átt að stinga upp á henni en að taka þetta að mér, hún er nú gott sem nýútskrifuð og eflaust mun betri í svona háskólasamræðum. Hún hefur þar að auki meiri áhuga á raungreinum en ég, mér finnast tungumálin skemmtilegust.

Ég fylgdi henni heim um klukkan eitt en sá á heimleiðinni að ljósið í fangaklefa Hannesar var kveikt, þannig ég ákvað að kíkja inn til hans. Án þess ég viti nokkuð um það, þá grunar mig að hann sé trúlaus. Ég sá hann til að mynda ekki í kirkjunni og ég hef heyrt að margir vísinda- og fræðimenn þessa dagana aðhyllist trúleysi. Ég veit ekki hvort heimurinn sé nokkuð skárri án Guðs. Er ekki ágætt að vita af einhverjum eða einhverju sem tekur á móti okkur þegar við loks kveðjum þennan heim? Mér finnst það þægilegri tilhugsun en sú, að þegar þessu lífi lýkur taki ekkert við nema viðarkassi, mold og maðkar sem éta sig í gegnum rotnandi holdið. Hannes var enn að koma sér fyrir og hafði ekki haft tíma til að rannsaka marglytturnar að einhverju ráði. Hins vegar benti hann mér á nokkuð sem honum fannst óeðlilegt. Hann tók eina slíka úr fötunni og lagði á borð.

- Sjáðu hvað gerist, sagði hann.

Síðan sótti hann vatn í glas. Hann hellti úr glasinu yfir marglyttuna og innan tíðar fór hún öll að titra. Það var eins og líf kæmi aftur í hana, undarlegum bjarmi fór um hana all og hún kipptist við er hann ýtti við henni með blýanti. Ég horfði forviða á Hannes sem starði skælbrosandi á holdýrið, eins og stoltur eigandi hunds sem er nýbúinn að læra að sitja eftir skipun.

- Þær eru ekki dauðar, venjulega væru þær farnar að leysast upp eftir þetta langan tíma á þurru landi, sagði hann og leit á mig.

- Ég sé það, en er þetta ekki drykkjarvatn sem þú ert með þarna?

- Jú, ég veit ekki hvað veldur þessu. Þær liggja í saltvatni en samt sýna þær ekki sömu viðbrögð við því.

- Merkilegt! En hvers vegna í ósköpunum ætli þetta sé svona? Er þetta ekki frekar óeðlilegt?

- Þetta er í hæsta máta óeðlilegt, Hermann. Ég hreinlega veit ekki hvers vegna þær haga sér svona, en ætla mér að komast að því.

Við ræddum saman um stund en Hannes var á kafi í einhverjum kenningum og tilgátum þannig ég ákvað að láta hann einan. Ég skildi við hann þar sem hann sat við smásjána sína. Þetta atvik var mér mjög hugleikið á leið minni heim. Mér varð skyndilega hugsað til allra marglyttanna sem lágu á ströndinni í rigningunni í gær. Ætli ströndin hafi öll iðað af lífi? Mörg þúsund marglyttur sem kipptust við um leið og fyrstu droparnir tóku að falla. Mér finnst þessi tilhugsun, satt best að segja, hryllileg. Þegar ég kom heim og náði loks úr mér hrollinum, sat eftir ein hugsun. Hvað veldur þessu? Hvernig stóð á því að marglyttan lifnaði við er vatni var hellt yfir hana? Hvers vegna ætli þær bregðist ekki eins við sjó? Ég er mjög forvitinn um þetta. Hannes kemst vonandi að því hvað er að gerast með þessar marglyttur, hvort þetta sé einhver stökkbreyting eða afbrigði sem enginn hefur áður fundið, hann hlýtur að finna eitthvað út úr þessu. Ég vona það að minnsta kosti.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband