Færsluflokkur: Bækur
14. október
Hvað hefur skaparinn gert yndislegra en rigningu?
Í dag hefur rignt sem hellt sé úr fötu. Breytingin er kærkomin, því loftið er ferskara eftir úrhellið. Vatnið hreinsar og þrátt fyrir að stækjan rísi að nýju, þá er samt eins og ofankoman hafi endurnært þorpið og ekki síst mann sjálfan. Það var ósköp notalegt að finna dropana falla á höfuðið á meðan ég synti í morgun. Aldrei þessu vant mætti Hólmgeir í laugina en var langt frá því að vera jafn hress og í gærkvöldi. Hann minntist ekkert á að hafa hitt mig og þegar ég þakkaði honum fyrir síðast, kom undarlegur svipur á andlit hans, eins og hann myndi ekki alveg hvenær það hafði verið. Ég sagði honum frá gærkvöldinu en hann kannaðist ekki við neitt. Hann reyndi að slá þessu öllu upp í létt grín en eitthvað við augu hans sló mig. Það var eins og í þeim væri einhver skelfing, grunur um eitthvað hræðilegt. Ég veit ekki hvað það var, en ég er nokkuð viss um hann hafi orðið mjög hvekktur við að heyra frásögn mína, eins og hún fæli í sér einhverja uppgötvun eða staðfestingu. Ég veit ekki af hverju ég hef þetta á tilfinningunni. Mér þykir hegðun hans í hæsta máta undarleg, því hann er vanur að koma til dyra eins og hann er klæddur. Það er langt frá því líkt honum að vera í einhverjum feluleikjum. Við höfum þekkst frá því við vorum smápollar, hvers vegna ætti hann að þurfa þess? Ég vona bara að hann jafni sem fyrst, en ég er mun sannfærðari nú en áður að eitthvað bjátar á. Ég ætla að heimsækja Öldu á morgun og ræða við hana, kannski kann hún einhverjar skýringar á þessu.
Fyrsti alvöru skóladagurinn var ánægjulegur. Krakkarnir iðuðu í sætunum og gátu vart hamið sig af gleði yfir því að kennslan skuli loksins vera byrjuð aftur. Skólaárið er umtalsvert styttra hér en til að mynda í höfuðstaðnum. Á því eru eðlilegar skýringar, krakkarnir sinna ýmsum störfum og foreldrar þurfa á þeim halda uns sumarleyfistíminn er liðinn. Við Katrín þurfum hins vegar að vera þeim mun duglegri að ýta á eftir þeim og tryggja að þau komist yfir álíka mikið efni og aðrir grunnskólanemendur, enda kennum við ennþá á laugardögum þrátt fyrir að það hafi verið afnumið á flestum öðrum stöðum. Við náðum ekki að spjalla mikið saman í dag, enda var svo sem í nægu að snúast, en engu að síður minnti Katrín mig á að fara og ræða við Hannes.
Ég leit því við á lögreglustöðinni á leið minni heim. Ég byrjaði á því að kíkja inn til Páls, hann sat við dökka skrifborðið sitt - skrifborðið sem ég man að faðir hans sat oft við og reykti pípu og fletti í gegnum fréttablöðin. Bæjarpósturinn var nú þynnra lagi í dag, eins og venjulega á veturna en blaðið úr höfuðborginni var þykkt. Páll tók vel á móti mér og bauð upp á kaffi og kleinur. Ég sagði honum frá gærkvöldinu og ég sá ekki betur en hann hafi glott þegar ég sagði honum með hverjum ég hefði verið. Hann var nú samt ekkert að stríða mér, eins og hann hefði eflaust gert fyrir nokkrum árum. Páll gat dregið mann sundur og saman í háði, en samt var hann aldrei meinfýsinn eða rætinn. Hann gat verið svo fyndinn að maður komst vart hjá því að hlæja sjálfur. Hins vegar hefur hann ekki sýnt þá hlið á sér í langan tíma. Ég hygg að eftir hann tók við af föður sínum þá hafi hann fullorðnast og ákveðið að slík hegðun ætti ekki við lögreglustjóra. Með hverjum degi sem líður líkist hann sífellt meira og meira föður sínum. Ég bíð bara eftir því hann taki upp á því að reykja pípu.
Eftir stutt spjall þá sýndi Páll mér hvar Hannes hafði komið sér fyrir. Fangaklefinn er ekki stór en einhvern veginn hafði lögreglumönnunum tekist að koma þar fyrir löngu borði og stól. Hannes hafði sett upp alls kyns tilraunaglös og smásjá á því auk skriffæra og stílabókar. Hann var ekki við þegar ég kom, Páll sagði að hann hefði rölt út á strönd til að safna sýnum. Ég mætti honum hins vegar í dyrunum er ég var að fara.
- Sæll, sagði ég, - þú ert bara strax byrjaður.
- Já, er eftir nokkru að bíða, svaraði hann glaður í bragði, klæddur í svört stígvél og með rauða vatnsfötu. Í fyrstu hélt ég hann hefði fyllt fötuna af vatni en þegar ég gáði betur kom í ljós að í henni voru þrjár marglyttur. Ég fylgdi honum inn í klefa og við reyndum að finna góðan tíma fyrir heimsókn Hannesar í skólann. Þegar það hafði gengið eftir þakkaði ég honum fyrir og gerði mig líklegan til að hverfa á braut.
- Þú kennir líffræði, ekki satt, spurði Hannes.
- Jú, svona í og með, eins og flest annað. Hér er ekki alveg sama form á greinakennslu og í borginni, svaraði ég.
- Ertu ekki til í að aðstoða mig í þessa rannsókn? Gætir kannski kíkt á mig eftir kennslu og hjálpað mér? Það er svo þægilegt að hafa einhver til að spjalla við, einhvern sem hefur örlítið vit á líffræði. Mér sýnist þú vera einna líklegastur hér í plássinu til að geta orðið mér innan handar.
Ég var svo upp með mér að ég gat ekki neitað honum. Það er líka ágætt að vera í innsta hring, þurfa ekki að reiða sig á frásagnir annarra af framvindu málsins. Ég hlakka strax til morgundagsins. Ætli hann vinni á sunnudögum? Best að fara drífa sig að sofa, svo ég verði nú útsofinn og viðræðuhæfur.
---
Ég get ekki sofið, það er einhver óeirð í mér. Mér líður eins og vikuna sem pabbi dó. Ég man ennþá, eins og það hafi gerst í gær, þrátt fyrir ég hafi bara verið fimm ára þá, þegar séra Tómas og Dagbjartur, faðir Páls, komu heim með fréttirnar. Pabbi var sjómaður, eða öllu heldur trillukarl, eins og svo margir karlmenn í þorpinu. Veðrið hafði farið snarversnandi allan daginn og trillurnar skiluðu sér seint en þeir sem komu inn síðastir báru heim þær fréttir að þeir hefðu séð brotsjó skella á fleyinu hans pabba og draga það niður. Þeir gátu ekkert gert til að hjálpa honum. Mamma hélt utan um mig og stóð í anddyrinu á meðan hún hlustaði á mennina tvo. Fyrir utan hringdu kirkjuklukkurnar. Eyra mitt lá upp að kvið mömmu. Ég heyrði hvernig hjarta hennar sló ótt og títt. Ég leit upp og sá að neðri vörin titraði örlítið, en augnaráð hennar var kalt sem stál. Þeir vottuðu okkur samúð sína, Dagbjartur klappaði á koll minn og brosti hughreystandi til mín. Ég reif mig lausan og hljóp út. Leiðin lá niður á bryggju. Ég settist á einn bryggjustaurinn og sat þar í rigningu og hávaðaroki og beið eftir pabba, eins og ég hafði gert svo oft áður. Þegar Dagbjartur fann mig var ég holdvotur og hríðskalf.
Alla næstu viku mætti ég vongóður niður á bryggju og settist á þennan sama staur. Hinir strákarnir í þorpinu hlupu hlæjandi í faðm feðra sinna. Stundum köstuðu vinir pabba á mig kveðju en ég sat sem fastast, horfði út að fjarðarmynninu og svaraði:
- Ég er að bíða eftir pabba, hann fer alveg að koma.
Skömmu síðar var haldin minningarathöfn. Það var í fyrsta og eina skiptið sem ég sá móður mína gráta. Eftir hana hætti ég að fara og setjast á staurinn minn og bíða eftir pabba.
Mér líður samt stundum eins og ég sitji ennþá á þessum bryggjustaur.Bækur | Mánudagur, 22. september 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Elsku Sigga,
ég kom hingað í morgun með varðskipinu. Ferðin sóttist ágætlega, sjólag var með ágætum og skipstjórinn talaði um að það væri óvenjulegt miðað við árstíma. Það er þó langt frá því óvenjulegasta sem ég upplifði, verð ég að viðurkenna. Ég stóð í stafni er við sigldum síðasta spölinn. Yfir þessu litla þorpi fyrir miðjum firðinum var einhver sorg. Reykjarmökkur lá yfir öllu, eins og einhvers konar mara. Ég sá rústir skólahússins þar sem ég stóð, kolsvartar skáru þær sig frá snæviklæddum húsunum. Þau eru flest lágreist og standa í hlíðinni fyrir ofan eyri sem skagar út í fjörðinn. Fyrir utan hana er síðan baðströndin. Aðeins þrjú hús standa upp úr svo kalla mætti, það fyrsta er kirkjan sem trónir efst í hæðinni, þak hennar er rautt en sjálf byggingin er hvít. Þá ber að nefna hótelið en það hvíldi eitthvað myrkur yfir því er við komum, hvergi logaði ljós í glugga, á hvorugri hæðinni. Að lokum ber að nefna ráðhúsið, það er einfalt en glæsilegt, ber vitni um gamla tíma. Að mestu hlaðið steini að neðan en efri hæðin er byggð úr viði. Ég held, að þær myndi líka við það, því gluggapóstar og dyrakarmar hafa verið skreyttir útskurði og fallega málaðir. Ég varð hins vegar ekki var við neitt fólk á ferli.
Þegar við lögðum að stóð lögreglumaður á bryggjunni. Hann heitir Páll og á að aðstoða mig við rannsóknina. Það er tvennt sem ég ætla að minnast á, áður en lengra er haldið, til að gefa þér betri mynd af þorpinu. Það fyrra er lyktin. Hér er afskaplega óþægilegur óþefur. Brunalykt og stækjan af koluðum líkömum þeirra sem fórust í eldsvoðanum, en það er samt einhver undirliggjandi fnykur sem ég kem ekki fyrir mig. Eitthvað sem er mun viðbjóðslegra en hitt tvennt, þótt ótrúlegt megi virðast. Hitt sem mig langar til að nefna er þögnin. Þrúgandi og kæfandi þögn sem ekkert virðist geta rofið. Jafnvel þegar ég hitti Pál á bryggjunni talaði hann í lágum hljóðum og ég þurfti að hafa mig allan við til að heyra almennilega í honum.
Hann gerði mér stuttlega grein fyrir því sem hann hafði komist að. Ég ætla ekkert að vera ræða það sérstaklega hér, ég veit hversu illa þér er við þennan hluta starfs míns. Ég fékk úthlutaðri káetu í varðskipinu og ákvað að gista þar fremur en að vera trufla eiganda gistihússins. Mér skildist á Páli að hann hefði, ásamt svo mörgum hér, misst barn í eldinum.
Ég sakna þín. Ég hefði frekar kosið að vera áfram í borginni hjá ykkur Bjössa. Hann stækkar svo hratt, mér þykir alger synd að þurfa að vera hér vitandi af þér einni. Þú verður bara að vera duglega að hafa samband við mömmu og Sissu, ekki loka þig af. Leyfðu þeim að aðstoða þig með Bjössa litla, ég veit að mamma hefur afskaplega gaman af því.
Jæja, ég ætla að fara að halla mér. Það er langur dagur á morgun og nóg að gera. Ég ætla að athuga hvort ég fái ekki að hringja hjá skipstjóranum í þig, en það er ekki ætlast til þess, þannig ég geri mér engar vonir.
Þinn elskandi,
Jón Einarsson.Bækur | Sunnudagur, 21. september 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
VI
13. október
Jæja, hvar á ég eiginlega að byrja? Þetta hefur verið viðburðarríkur dagur, svo ekki sé nú minna sagt. Það verður reyndar alltaf upplit á þorpsbúum þegar við fáum gesti fyrir utan sumarleyfistímann. En hvað er ég að rausa, ætli sé ekki best að hefja frásögnina á byrjuninni.
Eins og flesta morgna gekk ég upp í sundlaug eftir morgunmat. Þar hitti ég fyrir meðal annarra Pál, eins og ég hafði vonað. Við komum okkur vel fyrir í pottinum og ræddum saman í lágum hljóðum um Hólmgeir. Ég gerði honum grein fyrir áhyggjum mínum og sagði honum frá því sem ég hafði upplifað fyrir nokkrum dögum. Þetta virtist ekki koma Páli á óvart, hann kinkaði bara kolli dapur í bragði og svaraði:
- Ég hef líka tekið eftir því að eitthvað virðist hrjá hann, en hvað getum við svo sem gert? Ef hann leitar ekki til okkar, eigum við þá eitthvað að vera hnýsast í hans mál? Heldurðu að hann yrði sáttur við það?
- Ég er efins um það. Hann er hins vegar augljóslega alveg útkeyrður, á barmi taugaáfalls. Hann þarf að taka sér frí eða reyna að slappa aðeins af. Allavega meðan hann er að vinna úr sínum málum. Mig grunar, að Alda hafi líka tekið eftir þessu því ég mætti henni sama dag, hún arkaði út úr ráðhúsinu og virtist töluvert niðri fyrir. Ég veit ekki, hvort þetta tengist áhyggjum okkar, en mér finnst það mjög líklegt. Ég ætti náttúrulega ekki að vera slúðra þetta, ég hef bara áhyggjur af Hólmgeiri. Ætli það sé góð hugmynd að ræða við Öldu?
- Eflaust. Þó ekki væri nema til að athuga hvort hún hafi orðið vör við það sama, svaraði Páll og starði um stund fram fyrir sig annars hugar. Síðan bætti hann við: - Hún gæti hins vegar tekið því illa. Þú veist hvernig hún er. Farðu mjög varlega að henni, annars er hætt við að hún móðgist.
Skömmu síðar kvaddi hann mig og stóð upp úr pottinum. Sjálfur sat ég örlítið lengur og tók þátt í umræðum dagsins. Enn og aftur var marglyttumálið til umfjöllunar. Margir af sjómönnunum telja að marglytturnar drepi fiskinn hér í firðinum, fjöldi þeirra sé slíkur að ekki sé hugsanlegt að nokkurt annað líf þrífist. Mér finnst þær skýringar alveg jafn góðar sem hverjar aðrar.
Í dag komu nemendurnir. Ég fylgdist rólegur með hópnum streyma inn í stofuna. Að venju voru allir spariklæddir og ég laumaðist til að kíkja út um stofugluggann. Ég gat ekki komist hjá brosi, sumt breytist aldrei. Fyrir utan stóðu flestar mæðurnar prúðbúnar og biðu álíka eftirvæntingarfullar og börnin. Ég dreifði til þeirra stundaskránum og þeim fáu bókum sem ég hafði. Börnin sátu spariklædd og stillt á meðan ég fór yfir skólareglurnar og minnti þau á að ástunda nám sitt vel. Sama ræða og ég fór með í fyrra og árið þar áður. Ætli þau taki ekki eftir því? Í það minnsta þau elstu. Eftir um klukkustund kvaddi ég nemendurna og þau hlupu út þar sem mæður þeirra tóku á móti þeim. Næst myndi skarinn halda í verslunina til Gróu að kaupa skriffæri og stílabækur. Sumar venjur er þess virði að halda í. Ég held, að þetta sé ein þeirra. Ég gekk frá í stofunni og kíkti síðan inn til Katrínar. Hún var klædd í dökkan kjól og hvíta blússu, hún hafði sett hárið upp og varalitað sig. Hún sat í kennarastólnum, gleraugu hennar lágu á borðinu fyrir framan hana og það var eins og ég væri að sjá hana í alveg nýju ljósi. Ég stóð um stund í dyrunum og starði á hana, mér virtist hreinlega geisla af henni. Birtan sem barst inn á milli gluggatjaldana myndaði eins konar sólstaf sem baðaði hana í fölu ljósi og það virtist draga fram einstaka fegurð hennar. Ég ræskti mig og hún hrökk við.
- Guð minn góður, ég tók ekki eftir þér, Hermann, sagði hún og brosti um leið og hún setti upp gleraugun. Ég fann hvernig mér hitnaði í framan og reyndi því að afsaka mig einhvern veginn. Ég sneri því talinu strax að komu vísindamannsins og hvernig við gætum notfært okkur veru hans hér í skólastarfinu. Hún varð strax mjög hrifin af hugmynd minni og var fljótt komin á flug með ýmsar útfærslur á henni. Ég stóð bara og hlustaði hugfanginn á hana. Þegar klukkan tók að nálgast eitt og við vorum búin að snæða hvort okkar nesti bauð ég henni að koma með mér niður á höfn. Von var á strandferðaskipinu skömmu síðar og mig langaði til að vera viðstaddur er vísindamaðurinn kæmi til þorpsins. Ég er nefnilega ekki svo ólíkur húsmæðrunum, mér finnst gaman að sjá nýtt fólk og geta spjallað um nýjustu atburðina í þorpinu við fólk. Kannski er ég búinn að vera of lengi innan um börn. Úff, ef Katrín myndi heyra í mér, hún væri vís til að taka af mér höfuðið. Hún hefur ekki lítið agnúast út í gamaldagshugmyndir okkar hérna í þorpinu um hlutverk karla og kvenna. Seinasta vetur reyndi hún að halda fund í skólahúsinu fyrir konur til að kynna fyrir þeim nýjustu stefnurnar í kvennafræðum, eins og hún kallaði það. Því miður mættu ekki nema örfáar og flestar voru þær í yngri kantinum. Ætli Langaströnd sé nokkuð tilbúin fyrir nýjar hugmyndir í þeim efnum?
Við röltum rólega niður að höfn þegar við urðum vör við skipsflautu strandferðabátsins. Svart stefnið klauf sléttan hafflötinn og mér varð skyndilega hugsað til allra marglyttanna sem tættust í stundur í skrúfunni. Það var eitthvað við tilhugsunina sem olli mér ónotakennd, vitandi það að fjörðurinn var fullur af þessum undarlegu lífverum þótti mér frekar ógeðfelld hugsun. Samt var erfitt að koma auga á þær. Marglytturnar voru ósýnilegar undir kyrrlátu yfirborðinu. Við settumst á kassa skammt frá bryggjunni þar sem skipið leggur venjulega að. Ég tók fljótlega eftir þeim Páli og Hólmgeiri, þeir stóðu og ræddu saman í hálfum hljóðum. Mér sýndist Hólmgeir gjóa til mín augum og ég fékk á tilfinninguna að þeir væru að ræða um mig. Hann tók eftir að ég var að fylgjast með þeim og heilsaði mér, en mér virtist þeir ekkert áfjáðir í að spjalla við mig, þannig ég sat bara sem fastast við hlið Katrínar.
Ég verð nú samt að viðurkenna að vísindamaðurinn kom mér nokkuð á óvart. Skipið kom að bryggjunni skömmu eftir að við settumst og innan tíðar var búið að tryggja festarnar og landgangurinn kominn upp. Eftir nokkrar mínútur birtist dr. Hannes og þeir Hólmgeir og Páll flýttu sér til hans. Ég átti von á að hann væri virðulegur karlmaður í eldri kantinum, en undrun mín var þó nokkur þegar ungur, strákslegur spjátrungur kom í ljós. Hann var klæddur eftir nýjustu tísku, með hatt og staf og í ljósbrúnum frakka. Hann virtist þó ekki haltra eða þurfa stafsins við að öðru leyti en því að benda hafnarstarfsmönnunum á koffortin sín og til að skipa þeim fyrir. Hann heilsaði félögum mínum með handabandi og brosti svo breitt að það skein í hvítar tennurnar. Töskur og pinklar vísindamannsins var komið fyrir í bifreið lögreglunnar, en hann var samferða Páli og Hólmgeiri upp að hóteli. Á meðan þeir gengu þangað sveiflaði vísindamaðurinn priki sínu, eins og hann ætti þorpið og brosti til stúlknanna sem höfðu komið í forvitnisferð niður að höfn, líkt og ég, og bauð þeim góðan dag. Flestar flissuðu bara og roðnuðu. Ég skaut augum að Katrínu, sem fylgdist undarleg á svip með háttalagi hans. Eitthvað við svipinn á andliti hennar fór í taugarnar á mér.
Þegar þeir voru horfnir inn á hótel stóðum við loks á fætur og héldum aftur upp í skóla. Á leiðinni ræddum við um hvernig best væri að fá hann til að kíkja á nemendur okkar og leyfa þeim að kynnast honum. Rétt áður en við komum aftur að skólahúsinu stal ég hansarós úr garði einum og kom fyrir í hári hennar. Hún fór að hlæja og spurði hvað ég væri að gera. Ég var búinn að hugsa upp mjög gott svar, en náði bara að stama eitthvað um blómarósir. Hvers vegna ætli ég verði svona taugaveiklaður í návist kvenfólks? Sérstaklega þegar ég ætla mér að vera góður eða geri eitthvað fallegt fyrir þær? Það er eins og allt snúist á haus í kollinum á mér og ég kem varla upp orði. Ég fann að mér hitnaði í framan svo ég flýtti mér og faldi mig inni í stofunni minni. Það sem eftir lifði dags sat ég við skrifborðið mitt og reyndi að koma einhverju í verk, en ég er hræddur um að það litla sem ég gerði hafi verið heldur mikið dútl. Skömmu áður en ég fór heim bankaði Katrín þó upp á og spurði hvort ég vildi ekki borða með sér á hótelinu í kvöld.
- Jú, svaraði ég, - hvað stendur til?
- Ég er að vonast til að við gætum kynnst vísindamanninum, svaraði hún og hallaði sér að dyrastafnum.
- Nú, já, en ég get ábyggilega komið því í kring, með því að tala við Hólmgeir. Hann hlýtur að geta séð til þess.
- Já, en það er ekki jafn persónulegt. Ég vil heldur að við gerum þetta sjálf. Ertu kannski ekki til í að koma með mér?
- Jú, jú, ég skal koma. Klukkan hvað?
Við ákváðum að hittast um klukkan sjö í anddyri hótelsins. Ég flýtti mér heim og lagðist í heitt bað. Ég reyndi eins og ég gat að slaka á, en það er eins og eitthvað sé í farvatninu. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvað það er, en mér finnst eins og ég sé að upplifa lognið á undan storminum. Það er eitthvað sem bíður handan við mörk örlaganna og á eftir að gerast. Eins og exi sem bíður þess að falla með öllum sínum þunga á háls fórnarlambsins. Ég vona bara að það eigi eftir að koma mér vel. Samt er í mér einhver geigur, einhver undarlegum grunur um að það sem mun gerast á næstu dögum þurfi að gerast og muni gerast, án þess ég fái nokkuð við ráðið.
Katrín var komin á undan mér, hún stóð við afgreiðsluborðið og spjallaði við Sigurdísi, dóttur Kára hóteleiganda. Hún var í bláum kjól sem náði rétt niður fyrir hné og hafði leyft hárinu að falla niður á axlir. Ljóst hárið myndaði eins konar gylltan ramma um fíngert andlitið. Ég fann hvernig ég svitnaði í lófunum og mér leið eins og ég væri strengdur upp á þráð. Inni í matsalnum, sem var þéttsetinn, litu allmargir upp þegar hún tók eftir mér og heilsaði með því að kyssa mig á kinnina. Ég tautaði einhverja afsökun en hún virtist láta sér í léttu rúmi liggja að ég skyldi hafa komið seinna en hún. Innan tíðar vorum við sest og mér leið örlítið betur þá, enda gat ég grúft mig ofan í matseðilinn. Skömmu eftir að við vorum sest sparkaði Katrín laust í fótlegg minn undir borðinu. Ég leit upp úr matseðlinum hálfhissa en hún brosti bara og benti mér með höfuðhreyfingu á hvar vísindamaðurinn gekk inn í matsalinn. Hann hafði skipt um föt og kominn í dökkar buxur og ljósa skyrtu. Ég hálfskammaðist mín fyrir að vera í lúnu jakkafötunum, sem eiga þó að heita spariklæðin mín. Hann kinkaði kurteisilega kolli til gestanna á borðunum í kring. Eftir að hann var sestur var sem alda færi yfir gestahópinn, óvenju margir hölluðu sér að borðfélögum sínum til að sýna að þeir væru inni í nýjasta slúðrinu. Það var samt eins og Katrín læsi hugsanir mínar, því hún lagði hönd sína á mína og strauk blíðlega yfir hana.
- Hafðu ekki áhyggjur, Hermann minn, mér finnst þú mjög fínn í kvöld. Auk þess skiptir útlitið ekki jafn miklu máli og hjartalag manns, sagði hún og horfði um stund í augu mér. Síðan bætti hún við með laumulegt bros á vörum.
- Bláu augun þín eru líka mun fallegri en hans.
Á svipuðum tíma og Tinna bar fram kvöldverð okkar birtist Hólmgeir í dyrunum. Hann fór rakleiðis að borði vísindamannsins og bauð sjálfum sér sæti. Þeir ræddu saman á meðan vísindamaðurinn borðaði, Hólmgeir pantaði sér hins vegar koníaksglas og kaffi og dreypti á hvoru tveggja á meðan hinn át. Þegar hann hafði lokið úr glasinu og bollanum stóð hann á fætur. Hann rak augun í mig og sá Katrínu við borðið hjá mér. Hann brosti út í annað og kom yfir til okkar. Hann sló létt í öxl mína og sagði:
- Nei, sæll og blessaður, Hemmi minn. Eruð þið kennararnir að fagna við upphaf nýs skólaárs?
- Ja, ætli ekki megi segja það, svaraði ég hálfkindarlegur, enda vissi ég varla hvernig ég átti að taka á móti honum. Mér datt einna helst í hug að hann væri drukkinn, sérstaklega eftir að ég fann hversu ramma áfengislykt lagði frá honum.
- Það er ágætt. Gott fyrir ykkur að lyfta ykkur upp endrum og eins. Ég er annars á hraðferð, má ekkert vera að því að spjalla við ykkur, þótt glaður vildi, sagði hann og kvaddi. Ég leit á Katrínu og gat ekki varist brosi. Við ræddum saman um heilmargt á meðan við snæddum og ég naut þess að vera í félagsskap hennar.
- Hann heitir Hannes, sagði hún eitt sinn er vísindamanninn bar á góma og gaut augum að honum.
- Ég veit, svaraði ég og bætti síðan við: - Hólmgeir var búinn að segja mér það, ég bara gleymdi að láta þig vita.
Annars var kvöldið virkilega skemmtilegt. Upp úr hálfellefu ákváðum við þó að ljúka þessu og stóðum á fætur. Á leið minni að afgreiðsluborðinu gaf ég mig á tal við Hannes og kynnti mig. Ég gerði honum grein fyrir hugmyndum okkar Katrínar og hann tók nokkuð vel í þær. Hann bað mig um að minna sig á samtal okkar og sagði mér hvar hann væri að finna. Svo virðist vera sem hann hafi fengið annan fangaklefa lögreglustöðvarinnar til afnota sem rannsóknarstofu. Kannski ekki furða, ég efast um að Kári hafi viljað lána herbergi til þeirra starfa og skólahúsið er upptekið. Það gistir hvort eð er aldrei neinn í þessum fangaklefum, ef eitthvað kemur fyrir þá er viðkomandi oftast bara látinn sitja heima hjá sér. Það er helst að strákarnir gerist full duglegir í drykkjunni þegar böll eru á sumrin, en á veturna er hér yfirleitt allt með kyrrum kjörum.Bækur | Föstudagur, 19. september 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
V
12. október
Merkilegt hvað mörgum finnst óþægilegt að vera í þoku. Mér finnst það einmitt ákaflega notalegt. Þá er eins og hægist á öllu, fólk fer hljóðlega um og næstum að maður fái á tilfinninguna að ekki megi raska ró þokunnar. Öll hljóð verða svo ankannaleg og fjarlæg, líkt og þau eigi sér enga uppsprettu, þar sem ekki verður komið auga á hvaðan þau koma. Þegar ég vaknaði í morgun lá hnausþykkt mistur yfir öllu, það var eins og þorpið hefði verið vafið inn í bómull. Húsin minntu frekar á skugga þeirra sjálfra og hið sama má segja um íbúa Löngustrandar. Það sást vart á milli húsa og þegar ég kom út fann ég hversu kalt var. Örsmáar ísnálar svifu um og strukust öðru hvoru við vanga minn, líkt og frosnir fingur. Allt var dauðahljótt er ég rölti út í sundlaug, hvergi var sála á ferli og ég glotti með sjálfum mér, því þessi stund var eins og hún hefði verið klippt úr draumi. Engu að síður var einhver rafmögnuð spenna í loftinu. Ég áttaði mig ekki alveg á hvað það var en mér leið eins og eitthvað væri að, eitthvað væri breytt. Mér fannst eins og ég væri ekki einn, ég leit um öxl nokkrum sinnum til að sannreyna að enginn væri að elta mig. Ég kom ekki auga á neinn. Þetta var í rauninni í fyrsta sinn sem ég hef fundið fyrir ónotakennd í þoku.
Í allan dag hefur skýfallið legið yfir þorpinu. Sólarupprás dró lítillega úr þykkt þokunnar en virtist mér jafnframt auka á dulúðina sem henni fylgdi. Skuggar húsa virtust dökkna og dýpka, styttur fengu á sig undarlegan og fjarlægan blæ. Eftir því sem leið á daginn létti örlítið meira til en aldrei hvarf þokan að fullu. Kannski vegna þess að það hefur verið logn, vind hefur vart hreyft að ráði. Við höfnina stóðu sjómennirnir er ég átti þar leið framhjá um hádegisbilið og spjölluðu saman. Enginn þeirra hafði farið út í dag. Ég rabbaði við þá um stund og komst að því að hér í firðinum er ekki hægt að fiska nokkurn skapaðan hlut, marglyttur vefjast um veiðafærin og þeir fáu fiskar sem koma á annað borð upp eru dauðir. Þetta kemur heim og saman við það sem Páll talaði um í pottinum í morgun. Hann sagði, eftir að hafa kíkt út á baðströnd, að hann hafi komið auga á hræ fiska í aðstreyminu og í fjörunni. Hvers vegna ætli þeir hafi ekki verið þegar við komum fyrst?
Það er samt eins og þokan hafi magnað upp stækjuna frá ströndinni. Þessi súra rotnunarlykt hefur aukist og ég sá þó nokkra sem gengu um með einhvers konar vörn, sumir voru með andlitsgrímur en aðrir smurðu lyktsterku kremi undir nef sér, ég held að það sé einhvers konar mentólsmyrsli, kannski ég ætti að fá mér þannig? Þessi óþefur er skelfilegur og mér verður hreinlega flökurt við að koma út á morgnana. Kannski er það bara sú áminning sem hann ber með sér, sýninni af marglyttunum skýtur upp í huga mér um leið og ég finn hann. Mikið væri nú gott að fá örlitla golu, til að feykja þessum daun á haf út.
Ég sat fram eftir kvöldi í skólahúsinu og las mér til um marglyttur. Ég var þar aleinn því Katrín hafði fyrir löngu farið heim. Það er mér svo sem engin nýlunda að vera einn í húsinu, en mér leið hálfkjánalega áðan. Ég veit ekki af hverju, en þessi tilfinning læddist engu að síður að mér. Ég dró fram allar þær líffræðibækur sem ég fann og fletti fram og aftur í þeim. Því miður var ekki mikið á þeim að græða, ekki nema örfáar myndir og latnesk heiti þeirra tegunda sem voru sýndar. Mér er hugleikið hvers vegna þetta hafi gerst? Getur verið að eitthvað í umhverfinu, sjónum, hafi breyst? Orðið til þess að vistkerfið hrundi? Ég komst hins vegar ekki að neinni niðurstöðu, enda hef engar forsendur til þess. Ég er bara kennari.
Á morgun kemur vísindamaðurinn. Það verður gaman að heyra hvort hann kunni einhverjar skýringar á þessu. Mér heyrðist hins vegar á Hólmgeiri, að þessi maður hafi ætlað sér að rannsaka þennan atburð. Ég ætti kannski að tala við hann og reyna fá hann til að spjalla við krakkana í skólanum, þau hefðu ábyggilega gaman af því að ræða við alvöru vísindamann. Katrín verður eflaust ánægð með þessa hugmynd mína, hún er svo mikið fyrir svona lagað. Ég fæ vonandi fallegt bros frá henni. Á morgun tökum við Katrín líka á móti krökkunum í fyrsta sinn þennan vetur. Þau munu koma til að taka við námsbókum og stundaskrám. Ég vildi óska þess ég gæti látið alla hafa bækur, en það er því miður ekki hægt. Ég get hreinlega ekki látið nemendur fá bækur sem hanga varla saman eða vantar á kápuna og einhverjar opnur. Ég hef reynt að skipuleggja það þannig, að systkini eru saman um bækur eða nágrannar. Þannig vona ég að bækurnar nýtist sem best.
Á leið minni heim tók ég eftir að enn logaði ljós á skrifstofu Hólmgeirs og ég fékk ekki betur séð en hann væri enn þar við vinnu. Ég vona að hann ofgeri sér nú ekki. Honum hættir til að taka starf sitt full hátíðlega. Ég veit hann hefur í mörg horn að líta en ég get ekki horft framhjá heimsókn minni fyrr í vikunni. Ég hef áhyggjur af honum. Honum virtist líða illa og hann hefur ekkert mætt í sund undanfarna daga. Ég veit ekki hvort ég eigi að vera hnýsast eitthvað í einkamál hans. Myndi ekki sannur vinur gera það? Hann kannski biður um aðstoð þegar hann þarf á henni að halda. Ég ætla að ræða þetta mál við Pál á morgun í sundlauginni. Hann veit hvað gera skal.
Bækur | Fimmtudagur, 18. september 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
IV
11. október
Dagurinn var frekar tilbreytingarlítill. Ætli íbúar Löngustrandar séu ekki farnir að venjast óþefnum eða búnir að fá nóg af því að ræða þennan undarlega atburð? Allavega er ég gott sem hættur að velta stækjunni fyrir mér. Fyrst þegar ég kom út í morgun fann ég hvernig hún myndaði sviða í andlitinu en síðan var eins og ég yrði annað hvort ónæmur fyrir henni eða svo dofinn í nefinu vegna áreitisins að lyktarskynið fór í verkfall. Hvort heldur sem var, þá er ég feginn að þurfa ekki lengur að finna þennan fnyk. Skrýtið samt hve maður getur vanið og sætt sig við ótrúlega margt. Þúsundir marglytta liggja úldnar í fjörunni og stækjan eftir því, samt heldur maður áfram eins og ekkert hafi í skorist. Það virðist sama hvaða aðstæður mannskepnan kemst í, sama hve umhverfi hennar er óvistlegt, alltaf finnur hún leið til að komast af. Í þurrustu eyðimörkum jafnt sem köldustu heimskautasvæðum. Svo sem ekkert draumalíf á þessum stöðum, en samt hafa flokkar fólks fundið leið til að búa þar. Hefur nokkur dýrategund slíka yfirburði? Þvílíka fjölhæfni?
Ég eyddi deginum í skólahúsinu og reyndi að koma einhverju lagi á bókakostinn. Það er alveg deginum ljósara að kaupa þarf tölvert af bókum, þó ekki væri nema fyrir önnina eftir jól, þá myndi það strax vera mun skárra. Ég vil síður að börnin séu tvö til þrjú um hverja bók, eins og ég þurfti að hafa skipulagið í fyrra. Samt læðist að mér sá grunur að bæjarfélagið láti það liggja milli hluta, eins og síðasta vetur, að versla inn það sem vantar upp á. Hvernig er hægt að vinna við þessar aðstæður? Ég hef oft rætt þetta við Hólmgeir og þó hann sé allur af vilja gerður, þá ræður hann þessu víst ekki einn. Stundum finnst mér eins og ég eigi að ausa vitneskjunni upp úr mér og nemendurnir eigi bara að læra það sem ég segi. Kjafturinn og krítin, kallaði þetta einhver, en þannig er þetta bara ekki. Við verðum að hafa bækur.
Katrín mætti til vinnu í dag og var nokkuð hress. Við spjölluðum saman í hádeginu og ákváðum að reyna halda skólaskemmtun í fyrra fallinu þetta árið. Það dróst of lengi í fyrra. Hún vill að við setjum upp leikrit, það gæti verið gaman. Af hverju er ég ekki lengur jafn hugmyndaríkur og hún? Mér finnst, eins og ég sé fastur í einhverjum skrifstofustörfum, einhvern veginn orðinn að svona blók sem hugsar meira um umbúðirnar en innihaldið. Er það svo? Ég var ekki þannig. Einhvern tíma hefði það ekki skipt mig máli hvort allir hefðu bækur eða ekki. Hefur reynslan þá haft jákvæð eða neikvæð áhrif?
Eftir kvöldmat gekk ég niður að baðströnd. Það kom mér nokkuð á óvart að rekast á Skelmi þar. Hann sést vanalega ekki þeim megin í þorpinu, þar sem kofaræksni hans er alveg hinum megin og hann heldur sig eiginlega bara þar, nema þegar hann vantar eitthvað innan úr þorpi. Eftir því sem mér skilst á þeim sem til þekkja, þá er honum meinilla við ströndina og alla þá gesti sem hún dregur að sér. Hann var ennþá í sama frakka og er ég hitti hann síðast, ég gat næstum fundið óþefinn af honum þar sem ég stóð. Mér finnst ég geta enn fundið lýsislyktina af fingrum mínum, það er sama hve ég skrúbba hendur mínar og þvæ, af vill hún ekki. Kannski er þetta bara í nösunum á mér. Skelmir sat á stóru, sjóbörðu grjóti neðarlega í varnargarðinum og horfði yfir ströndina, næstum dreyminn á svip. Ef ég hefði ætti að ráða í látbragð hans myndi ég segja að hann hefði líklega í fyrsta skipti sýnt af sér einhverja tilburði í áttina að því að vera hamingjusamur. En ég þekki hann ekki neitt og get ekki dæmt um hvort svo hafi verið í raun og veru. Sólin var að síga niður fyrir sjóndeildarhringinn og kastaði fölbleikum bjarma á allt. Geislarnir spegluðust í glæru formi úldnandi marglyttanna, ströndin virtist öðlast bleikt líf í aftanskærunni. Ég heilsaði Skelmi, hann leit á mig en svaraði engu. Við fylgdumst í þögn með sólinni hníga til viðar. Er hún var sest stóð Skelmir á fætur, teygði sig í staf sem lá við hlið hans og sneri sér að mér.
- Vissirðu að marglyttur eru að mestu vatn, spurði hann og starði á mig. Það var eitthvert blik í auga hans sem ég átti erfitt með að átta mig á.
- Ja, erum við ekki öll að mestu vatn, svaraði ég og reyndi að hljóma hress, eins og nærvera hans hefði engin áhrif á mig.
- Láttu ekki eins og kjáni.
Eftir stutta stund bætti hann síðan við:
- Hugsaðu þér blöðru, fulla af lofti en hún er lifandi, bæði grimm og hættuleg. Hún ræðst gegn þér og tekur þig af lífi með eitri og rafmagni. Samt er hún úr lofti, að mestu úr lofti og það er nóg af því umhverfis okkur, ekki satt? Þannig eru marglyttur, lifandi vatn í vatni . . . vatn í vatni, grimmara en þú getur nokkurn tímann gert þér hugarlund.
Eitthvað við röddu hans smaug í gegnum merg og bein og náði ísköldu taki á meðvitund minni. Hún var hrjúf og gróf, djúpur tónn hennar barst í gegnum rökkrið og fangaði athygli mína. Ég hef aldrei hugsað mikið um þessar lífverur, nema núna rétt síðustu daga af augljósum ástæðum. Þegar hann hafði lokið máli sínu gekk hann á brott. Eftir stóð ég og starði með skelfingu á þær þúsundir marglytta er lágu lífvana á ströndinni.
Ég er enn að reyna hrista þessa mynd úr höfðinu.
Bækur | Miðvikudagur, 17. september 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
III
10. október
Líklega er fátt meira rætt meðal bæjarbúa en hið furðulega náttúrufyrirbrigði. Ég fór, eins og venjulega, í sundlaugina í morgun. Þar hitti ég fyrir Pál og Kára, en Hólmgeir lét ekki sjá sig. Við ræddum málið fram og aftur en komumst í raun að engri niðurstöðu. Enda svo sem ekki hægt að ætlast til þess, enginn af okkur er menntaður í slíkum fræðum og við getum því bara dregið yfirborðskenndar ályktanir af þeim upplýsingum sem við höfum. Það er erfitt að komast hjá því að hugsa um þennan atburð, maður er sífellt minntur á hann þegar út er komið, slíkur er fnykurinn.
Það rigndi þegar ég kom út úr sundlaugarhúsinu. Ég staldraði við í anddyrinu til að klæða mig í úlpuna mína og setja upp hattinn en kom þá auga á Skelmi. Gamli maðurinn stóð við horn á hvítmáluðu húsi neðar í götunni og starði til mín með sínu eina heila auga. Í fyrstu hélt ég að hann væri að fylgjast með mér. Skelmir er um margt sérkennilegur. Hann fluttist hingað fyrir mörgum árum en hefur aldrei náð að festa hér rætur. Þeir eru fáir íbúarnir sem sýna honum og uppátækjum hans umburðarlyndi og ég man hversu faðir minn blótaði alltaf kæmi hann auga á hann einhvers staðar nálægt sér. Það er eitt af því fáa sem ég man um föður minn. Sem barni var mér hótað því að ef ég hagaði mér ekki vel, þá yrði ég sendur til Skelmis. Ég man að ég lá sumar nætur andvaka af ótta við að móðir mín myndi láta verða af því. Í raun heitir hann Ívar en hefur alla tíð þurft að bera þetta ljóta uppnefni og ég efast um að margir muni hvert raunverulegt nafn hans er. Með honum kom Alda dóttir hans, hún er tveimur árum yngri en við Páll en jafnaldra Hólmgeirs. Ég flýtti mér út en er hann sá mig snerist hann á hæli og haltraði í burtu. Ég tók á mig stökk og náði honum fljótt. Ég greip í frakkakraga hans, en ég hefði betur látið það ógert. Hönd mín var þakin hreisturflögum og angaði af lýsi, lykt sem ég hef ekki náð að þvo almennilega af mér. Það er alltaf hálfundarlegt að hitta Skelmi. Andlit hans er gott sem afmyndað, langt ör nær frá hárrótum og niður yfir vinstra augað allt að munnvikum. Ég veit ekki hvernig hann náði í það, held reyndar að enginn hér í þorpinu viti það. Nema kannski Alda. Ég hef aldrei haft það mikil samskipti við hann, að ég hafi vanist því að horfa inn í tóma augntótt. Ég skil ekki af hverju hann notar ekki lepp eða gerviauga, hann gæti að minnsta kosti látið ganga betur frá tóttinni en nú er. Honum virðist hins vegar vera sama, jafnvel þó fólki pískri og börn atist í honum þegar hann gengur hjá. Eins og gefur að skilja hafa spunnist margar sögur um hann, mislífseigar þó, en líklega hefur enginn lifað jafn lengi og sú, að hann stundi kukl ýmis konar.
- Sæll, Skelmir, sagði ég og reyndi að hljóma nokkuð eðlilegur.
- Hvað vilt þú, svaraði hann rámur og virtist frekar pirraður. Hann kippti að sér hendinni og losaði frakkann úr taki mínu. Ég ræskti mig og gerði mér skyndilega grein fyrir hversu fáránleg þessi aðstaða var. Mér varð svarafátt í fyrstu en ákvað að spyrja hann, eins og ég hef spurt svo marga íbúa, út í marglyttumálið.
- Mig langaði bara til að heyra hvað þér finnst um fundinn á baðströndinni. Þú hefur heyrt af honum, ekki satt?
Það hnussaði í honum. Skelmir snerist á hæli og haltraði í burtu, muldrandi eitthvað sem ég átti erfitt með að greina. Ég stóð eins og glópur úti á miðju stræti, lafmóður eftir hlaupin og horfði á eftir honum hverfa út götuna. Ég dreif mig af stað og gekk niður að ráðhúsi. Mig vantaði heimild til að panta nýjar bækur í skólann. Þar sem ég hef kennt hér lengur en Katrín gegni ég hlutverki nokkurs konar skólastjóra, þrátt fyrir að hún væri eflaust betur til þess fallin en ég. Er ég kom inn á Aðalstræti sá ég hvar Alda, dóttir Skelmis, gekk í fússi út úr ráðhúsinu. Það kom þorpsbúum algerlega í opna skjöldu þegar það spurðist út að hún og Hólmgeir væru að draga sig saman. Mörgum fannst sem þar væri hann að taka niður fyrir sig en ég skil hann ágætlega. Alda er viðkunnanleg og einkar elskuleg heim að sækja. Hún hefur lagt sig fram um að kynnast okkur vinum hans, en hún ræðir hins vegar aldrei um föður sinn eða uppvöxt sinn, í það minnsta ekki svo ég hafi heyrt til. Hún er afskaplega ólík föður sínum, hann grófbyggður og að því er virðist illa farinn, ef svo mætti til orða taka, en hún fíngerð og smábeinótt. Ég hef aldrei hitt hana án þess hún hafi að minnsta kosti sett upp hárið, hún hefur sig alltaf til og fylgist vel með nýjustu tísku. Augu hennar eru græn og seiðandi, Hólmgeir talaði um það á sínum tíma að hann gæti horft í þau endalaust. Þegar samdráttur þeirra komst í hámæli voru margir sem göntuðust við hann og líktu sambandi þeirra við ævintýrinu um Öskubusku. Öldu virtist vera nokkuð mikið niðri fyrir er við mættumst. Ég tók ofan og heilsaði henni. Svipur hennar mýktist örlítið og hún svaraði:
- Komið þér sælir, Hermann.
Þrátt fyrir að þau hafi verið gift í hátt í 15 ár og við þekkst umtalsvert lengur hefur hún ekki vanið sig af því að þéra okkur vini Hólmgeirs. Hún segist vilja halda í góða siði og almenna kurteisi þegar við höfum farið fram á að hún þúi okkur. Við höfum fyrir löngu lært að það þýðir lítið að fá hana ofan af því, það sem hún á annað borð ákveður eða bítur í sig, heldur hún fast í. Við skiptumst ekki á fleiri orðum. Alda hélt sína leið áður en ég náði að svara henni og gaf sterklega til kynna að hún hefði ekki áhuga á að spjalla við mig. Ég fór því inn í ráðhúsið.
Kolbrún, ritari Hólmgeirs, sat við skrifborðið sitt og grúfði sig yfir einhverja pappíra er ég gekk inn. Klukkan var svo sem ekki margt og fáir mættir til vinnu. Hún leit upp er ég nálgaðist og ég tók eftir að hún hafði verið að brynna músum. Í annað skipti í þessari viku kem ég að konu sem hefur nýlega grátið. Hún brosti og bauð mig velkominn, sagði að Hólmgeir sæti inni hjá sér um leið og hún stóð upp og hvarf inn á klósett. Ég horfi á eftir henni uns dyrnar höfðu lokast. Kolbrún er ein af þessum kvenmönnum sem ekkert þurfa að hafa fyrir að öðlast athygli karlmanna. Ljóst hárið, rauðar varirnar og munúðarfullar hreyfingar hennar tryggja að ekki eingöngu menn líta við er hún gengur hjá. Hún flutti hingað fyrir þremur árum, í fyrstu vann hún á hótelinu hjá Kára en þegar það losnaði staða í ráðhúsinu bauð Hólmgeir henni hana.
Hólmgeir stóð við skenk sem er undir glugga og horfði út yfir Aðalstræti. Hinum megin við rúðuna hímdu húsin grámygluleg í haustinu, eins og þeim væri jafn mikil eftirsjá í sumrinu og okkur íbúunum. Mér sýndist hann halda á glasi með gulbrúnum vökva í, hann kláraði í fljótheitum úr því er hann sá mig. Um leið og hann kyngdi drykknum gretti hann sig. Hann hefur eflaust áttað sig á svipnum á andliti mínu, því hann brosti og sagði afsakandi:
- Það er margt sem sækir að mér þessa dagana, maður verður að róa taugarnar, þú skilur.
Ég var ekki viss um hvernig ég ætti að taka þessu. Ég átti erfitt með að ímynda mér að þetta marglyttumál geti verið svo taugastrekkjandi að hann þurfi bleyta upp í sér fyrir klukkan tíu að morgni til. Ætli eitthvað bjáti á hjá þeim Öldu? Ég hefði kannski átt að ganga á lagið og spyrja hann út í hvað væri að angra hann. Eflaust hefðu svör hans varpað einhverju ljósi á háttalag hans undanfarna daga. Mér fannst það bara ekki við hæfi. Einkamál manns eru einkamál hans.
- Er nokkuð að frétta af málinu, spurði ég. Hólmgeir virtist skyndilega koma til sjálfs sín, það birti yfir andliti hans og hann flýtti sér að dökku skrifborðinu. Hann rótaði um stund á borðinu uns hann fann það sem hann var að leita að. Hann lyfti litlum, hvítum miða. Ég myndi segja að hann hafi verið sigri hrósandi en það er kannski full sterkt til orða tekið. Hann var þó sýnilega ánægður.
- Já, ég hafði samband í gær í háskólann í höfuðborginni og þeir ætla að senda hingað vísindamann, svaraði hann loks.
- Veistu hvað hann heitir eða hver það er sem þeir ætla að senda?
- Já, dr. Hannes Thoroddssen, sjávarlíffræðingur. Ég ræddi við hann um stund í gær og hann var mjög áhugasamur um að koma og rannsaka þetta fyrirbæri.
- Hvað með hreinsun? Á ekkert að skola þessum hræum í burtu? Stækjan er svo sem ekki jafn slæm í dag og hún var fyrir tveimur dögum. Ég veit ekki hvort það er vegna þess ég er farinn að venjast henni.
- Já, ég er nú í óða önn að skipuleggja hana. Þetta ætti að skýrast á næstu dögum, svaraði hann.
Við ræddum þetta um stund uns ég ákvað að koma mér að erindinu. Hólmgeir tók ágætlega í bón mína og sagðist ætla að skoða hvað hann gæti gert fyrir okkur Katrínu. Ég þurfti að minna hann á að hann væri í raun ekki að gera þetta fyrir okkur heldur fyrir nemendurna. Það er skrýtið að hugsa til þess, að jafnvel stjórnmálamenn, sem eiga nú að hafa vit fyrir fjöldanum, sjá stundum ekki skóginn fyrir trjánum. Sérstaklega þegar kemur að menntamálum. Ég hef hlustað á umræður þingmanna í útvarpinu og verð að viðurkenna að sumt af því sem sagt er þar, er hreinasta vitleysa. Sleggjudómar sem hent er fram af vankunnáttu og þekkingarleysi. Einna verst finnst mér þó hversu sjaldan þeir sem stjórna skilja að sá peningur sem lagður er í menntun er fjárfesting til framtíðar.
Ég fór upp í skóla eftir að hafa lokið erindum mínum í ráðhúsinu. Ég kom þó litlu í verk, því náttúran og fyrirbrigðið með marglytturnar áttu hug minn allan. Ætli vísindamaðurinn geti komist að því hvað hefur orðið til þess að allar marglytturnar hafi endað á baðströndinni? Sama hversu ég brýt um það heilann því undarlegra finnst mér það. Hvernig ætli standi á þessu? Hvaða skýringu er að finna á þessu furðulega fyrirbrigði? Ég læt þetta vera lokaorðin í kvöld.
Bækur | Þriðjudagur, 16. september 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
II
9. október
Ég hrökk upp með andfælum þegar eitthvað þungt skall á húsþakinu. Er ég leit út um svefnherbergisgluggann sá ég hvernig veðrið hamaðist, sjórinn gekk yfir hafnargarðinn og kastaði smábátunum til og frá. Öskrandi vindurinn þeytti spýtnabraki og rusli hátt í loft, sem fiður væri. Áður en nóttin var úti átti ég eftir að heyra fleiri hluti lenda í húsinu mínu. Ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að fara út. Ég lá uppi í rúmi og hlustaði á veðurofsann kyrja sinn myrka söng. Það hvein í mæninum og undir sænginni óskaði ég þess að krafturinn rifi ekki þakið hreinlega af. Undir morgun rann á mig svefnhöfgi og ég hvarf inn um hlið Morfeusar. Ég veit ekki hvort það hafi einfaldlega verið óveðrið, en mig dreymdi ákaflega illa og þegar ég vaknaði fannst mér ég varla hafa hvílst neitt að ráði. Mér fannst sem ég væri á kafi í vatni og ætti mér engrar undankomu auðið, einhvers staðar handan við sjónmörk mín var ég viss um að eitthvað fylgdist með mér, - eitthvað sem kveikti með mér ugg.
Jafn skelfilegt og veðrið var síðustu nótt var morguninn fagur. Þar sem ég stóð við eldhúsgluggann og starði út yfir fjörðinn, fannst mér eins og einhver undarlegur friður væri yfir öllu. Nokkrir sólstafir teygðu sig niður og snertu gáraðan hafflötinn og örfáir geislar léku sér í skógivaxinni hlíðinni hinum megin fjarðarins. Gult, rautt og appelsínugult laufþykknið kallaðist á við skugga og ljós, myndaði seiðandi sjónarspil birtu og lita. Um stund óskaði ég þess að vera listmálari, til að geta fangað þetta augnablik en hæfileikar mínir á því sviði eru víst af frekar skornum skammti. Ef ég ætti nógu fögur orð, líkt og skáldin hér áður fyrr, þá hefði ég ort um þetta augnablik ljóð. Ég myndi kalla það Eilíft andartak að hausti. En ég verð seint flokkaður í hóp skálda, þrátt fyrir máttlitlar tilraunir mínar. Það að fá tvö ljóð birt í bæjarblaðinu telst vart til afreka á sviði ritlistarinnar.
Eftir ég lauk við morgunmatinn tók ég til sundfötin mín. Þegar ég kom út varð ég var við skelfilega stækju. Eins og eitthvað dragúldið væri skammt frá mér. Ég leit í kringum mig en tók ekki eftir neinu. Ég hélt í humátt að sundlauginni og viðraði í allar áttir, til að komast að hvaðan fnykinn bæri að. Hvar sem ég mætti öðrum íbúum var ekki um annað rætt en þessa ógeðfelldu lykt. Ég ákvað að fara ekki í sund, mig hreinlega hryllti við að vera úti. Eins og mér hafði fundist morguninn fagur. Mig langaði heldur að vera inni og loka að mér. Sundfötunum skilaði ég aftur heim og sá þá hvar tveir menn gengu nokkuð rösklega út að baðströnd. Mér sýndist annar þeirra vera Páll, en hann er nokkuð auðþekktur á dökkum einkennisklæðnaði sínum og af því hann er hærri en flestir menn í þorpinu.
Ég flýtti mér að elta þá. Þeir hurfu úr sjónmáli skömmu áður en ég kom inn á Strandgötu en eftir stutta leit sá ég hvar mennirnir stóðu á grjótgarðinum fyrir ofan baðströndina. Ég greikkaði sporið og náði þeim innan skamms. Vissulega var annar þeirra Páll en það kom mér á óvart að sjá Hólmgeir, bæjarstjóra, með honum. Stækjan var mun sterkari og mér fannst næstum ólíft þarna við ströndina. Ég fann hvernig tár þrýstu sér fram í augnkrókana og ég þurfti að hafa mig allan við að kúgast ekki. Líkt og við Páll ólst Hólmgeir upp hér á Lönguströnd en hann er samt af ólíku sauðahúsi. Foreldrar hans voru kaupmannshjónin hér í plássinu og hann var alltaf á ákveðinn hátt hafinn yfir okkur. Kannski að virðingin sem foreldrar okkar báru fyrir hjónunum hafi smitast á okkur. Eftir að foreldrar hans féllu frá tók hann við versluninni en seldi hana nokkrum mánuðum síðar og hellti sér út í bæjarpólitíkina. Það kom okkur Páli svo sem ekki á óvart - reyndar kom það fæstum sem þekkja hann á óvart - því hann var alltaf framarlega í félagslífinu í skólanum á sínum tíma og á kafi í ungmennafélagsstarfinu. Ég kastaði kveðju á þá en þegar þeir sneru sér að mér, fannst mér eins og þeim væri illa við að ég truflaði þá. Augnaráð Hólmgeirs var flöktandi og hann forðaðist eins og heitan eldinn að horfast í augu við mig. Þeir tóku fremur þurrlega í kveðju mína. Ég kíkti yfir öxlina á þeim en var ekki búinn undir þá sýn sem mætti mér.
Ströndin var þakin marglyttum. Ég sá hvernig öldurnar skoluðu sífellt fleiri á land. Þær hlutu að vera mörg þúsund talsins. Þeir Páll og Hólmgeir mæltu ekki orð frá vörum. Ég starði líkt og þeir í orðlausri undrun á rót stækjunnar. Hvað í ósköpunum gæti hafa ollið þessu?
- Guð sé oss næstur, sagði ég og sneri mér aftur að vinum mínum. Andlit Páls var sem meitlað í stein, kalt, hugsandi en ákveðið. Hólmgeir virtist hins vegar ekki vita sitt rjúkandi ráð. Ég varð var við sérkennilegt blik í bláum augum hans, fjarrænt óttaleiftur og ég er hreinlega ekki viss um hvort það eða sýnin af marglyttunum situr ofar í huga mér. Hólmgeir hefur alla tíð verið fullur sjálfstrausts og ráðagóður, en þarna á grjótgarðinum var sem hann ætti ekkert svar. En hvað er ég svo sem að rausa, sjálfur hef ég ekki hugmynd hvers vegna marglytturnar hafa flotið þúsundum saman upp á ströndina. Ætli andlit mitt hafi ekki verið eitt spurningarmerki?
- Hvað gæti hafa gerst sem orsakaði þetta, spurði ég og leið strax hálfkjánalega á eftir. Hvernig gat ég ætlast til að þeir vissu það?
- Ég veit það ekki, Hermann, svaraði Páll og bætti síðan við: - Mig grunar þó að þetta megi rekja til óveðursins í nótt.
Hólmgeir leit upp til Páls en sagði ekki neitt. Við stóðum um stund og horfðum á fyrirbrigðið. Ég var furðu lostinn og get enn ekki ímyndað mér hvers vegna svona gerist. Ég hef vissulega heyrt um grindhvali sem synda í torfum upp í landsteina eða fiska sem hrygna á þurru landi, en hvort tveggja gerist í fjarlægum löndum. Marglyttur er líka svo einkennileg dýr, ég get ekki séð fyrir mér það búi mikil hugsun í þeim. Þær eru gott sem ekkert nema vatn.
- Ætli ég þurfi ekki að hringja eftir hjálp úr höfuðborginni, sagði Hólmgeir. Rödd hans brast í fyrstu en síðan var eins og hann manaði sig upp. Hann hélt síðan áfram, ögn ákveðnari: - Við þurfum að minnsta kosti fá aðstoð við að hreinsa svæðið. Ekki látum við hræin liggja þarna og úldna, það verður ekki búandi hér í Lönguströnd ef það gerist.
Páll kinkaði kolli. Við snerum aftur inn í þorpið og á leiðinni ræddu þeir um að reyna halda þessu frá fjölmiðlum, svona til að koma í veg fyrir að ímynd bæjarins sem ferðamannastaðar yrði fyrir skakkaföllum. Mig langaði til að benda þeim á að það væri skylda bæjarstjórnar að upplýsa íbúa og tilvonandi gesti af svona atburðum, ef vera kynni vegna ofnæmis, fyrir heilbrigðissakir eða jafnvel vegna hugsanlegrar mengunar, en ég lét það ógert þar sem ég var nokkuð viss um að þau ummæli mín hefðu fallið í fremur grýttan jarðveg. Hólmgeir flýtti sér inn á skrifstofur bæjarráðs en við Páll gengum saman að lögreglustöðinni, sem er þar skammt frá. Páll var áhyggjufullur, það kom mér hins vegar á óvart að marglytturnar virtust ekki vera rót þess.
- Ég veit ekki hvað hefur komið yfir hann, sagði Páll og átti við Hólmgeir. - Það er eitthvað meira sem liggur þarna að baki en virðist við fyrstu sýn. Undanfarnar tvær, þrjár vikur hefur hann verið æði undarlegur í hegðun, fjarrænn og fáskiptinn. Hefurðu ekki tekið eftir því? Ég þekki ekki ástæður þessa, stundum er sem hann sé ekki hann sjálfur. Sem betur vara þessar stundir stutt, oft ekki lengur en örfáar mínútur. Kannski hann sé að fara yfir um, hann vann eins og berserkur í allt sumar, oft langt fram eftir, oftar en ekki sá ég ljós loga á skrifstofu hans þegar ég var á leið heim seint á kvöldin.
Áður en ég náði að svara kvaddi Páll mig. Á leiðinni upp í skóla hugsaði ég um þetta. Páll hefur rétt fyrir að því leyti að Hólmgeir hefur unnið mjög mikið í sumar. Hann hefur oftar enn sleppt morgunsundinu okkar og þegar hann hefur mætt hefur hann verið þreyttur og sljór til augnanna. Ég hef svo sem ekki velt fyrir mér af hverju, en mig grunar að Páll hafi bara rétt fyrir sér. Hólmgeir er orðinn þreyttur, kannski að hann hafi séð fram á rólegri tíma nú þegar sumrinu er lokið. Varla að svo muni verða þó í bráð vegna þessara marglytta.
Ég hitti Katrínu í kvöld og bauð henni út að borða á Bláu Könnunni. Hún var öllu hressari en í gær. Hún sagði mér frá sambandi sínu og þessa manns sem hafði ætlað að flytja til hennar. Mér virðist hann vera óttalegur skúrkur. Ég reyndi að eyða talinu og spurði hana út í komandi vetur. Hún þurfti litla hvatningu, eins og oftast, til að ræða um skólastarfið. Ég naut þess að hlusta á hana skeggræða hinar og þessar hugmyndir, ég man þegar ég var svona. Eldhuga myndi móðir mín kalla Katrínu. Ætli það fari svona fyrir öllum kennurum? Byrjum við kannski æstir, tilbúnir í slaginn og viljum umbylta kerfinu sem við ólumst upp við en komumst síðan að raun um að það skiptir engu máli hvað við gerum? Góðir nemendur halda áfram að vera góðir nemendur en slæmir nemendur eru áfram slæmir. Má kannski segja það sama um okkur kennarana?
Hún virtist samt óvenju hress miðað við hvernig henni leið í gær. Kannski hún hafi ósjálfrátt vitað í hvað stefndi og verið búin að sætta sig við það. Annars veit ég það ekki, fyrir mér er kvenfólk ein stærsta ráðgáta þessa lífs. Mér virðist ekki takast að vinna þær á mitt band, jafnvel í kennslunni á ég erfitt með að halda athygli þeirra. Ég veit að móðir mín skilur ekki hvers vegna ég, kominn á fertugsaldur, skuli enn ekki hafa fært henni barnabörn. Ætli það gerist nokkurn tíma? Katrín er hins vegar yndisleg og margt í stúlkuna spunnið. Mér líður alltaf mjög vel í kringum hana. Hvers vegna ætli standi á því? Er ég að verða ástfanginn á gamals aldri?
Bækur | Mánudagur, 15. september 2008 (breytt kl. 10:39) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
I
8. október
Það er stormur í vændum. Ég finn hvernig loftið er hlaðið orku sem bíður eftir því að finna útgönguleið, eins og klakabundin á sem þráir að brjótast undan breða og ís. Úti fyrir mynni fjarðarins eru illúðlegir skýjabakkar, þeir bylta sér og skríða hægt en ákveðið nær þorpinu. Í morgun var logn en um hádegi tóku trén að sveigjast örlítið og golan bar með sér saltan keim. Eftir því sem liðið hefur á daginn hefur hún sótt í sig kraft og nú dansa gulnuð laufblöð um í vindinum, eins og haustlituð fiðrildin sem fyrir nokkrum vikum flögruðu á milli garða. Það er einnig tekið að kólna, þegar ég steig fram úr rúmi mínu í morgun námu fætur mínir við kalt gólfið. Um stund fannst mér eins og ég hefði farið aftur í tímann, væri að vakna í miðjum maímánuði. Sumarið hefur verið óvenju hlýtt og ég hef ekki þurft að kynda húsið að neinu ráði. Ætli ekki sé kominn tími til að kveikja upp í kamínunni?
Eins og flestir íbúar Löngustrandar fór ég niður á höfn í dag og fylgdist með er strandferðaskipið lagðist að. Síðustu sumargestirnir stigu um borð og eftir um klukkustund eða svo var skipið aftur komið af stað og á leið út fjörðinn. Ég leit í kringum mig. Á andlitum íbúanna mátti greina sama svipinn, eflaust hefur mitt andlit verið líkt þeirra. Sumrinu er formlega lokið. Það er alltaf ákveðin eftirsjá en jafnframt léttir þegar síðustu ferðamennirnir hverfa á brott með bátnum. Þorpið byggir afkomu sína að einhverju leyti á þjónustu við þá og er vorar hópast fólk hingað. Ströndin er vinsæll ferðamannastaður og margir vilja eyða sumrinu við hafið. Ég hef svo sem aldrei skilið þessa þörf hjá sumum, mig langar helst til fjalla er vorar. Kannski að satt sé það sem mælt er. Það sem er ókeypis og hversdaglegt kann maður síst að meta.
Ég horfði á eftir strandferðaskipinu sigla á brott með síðustu sumarleyfisgestina. Við Páll, lögreglufulltrúi, stóðum saman á bryggjunni og störðum á eftir fleyinu þar til það var horfið út í bláleitan fjarskann. Þetta minnti mig á liðna daga og er ég leit á Pál sá ég glettnilegt blik í gráum augum hans, ég held hann hafi upplifað sömu tilfinningu og ég. Við höfum þekkst síðan við vorum smápattar og þau eru ófá haustin sem við höfum einmitt staðið í þessum sömu sporum og horft á eftir skipinu út fjörðinn. Það hefur margt breyst síðan þá. Ætli hótelið og fjallvegurinn séu ekki mestu umskiptin? Á meðan vagnaslóðinn var eina leiðin yfir heiðina ferðuðust sumargestirnir einkum sjóleiðina en eftir að umferðargatan var lögð hefur þeim farið sífellt fjölgandi sem koma akandi. Engu að síður halda íbúar þorpsins í þá hefð að fylgja síðustu gestunum sem fara með strandferðaskipinu niður á höfn og miðast vertíðarlok við brottför þeirra. Ekki er þó hægt að segja að það sé einhver ákveðin dagsetning sem miðað er við, en yfirleitt hefur dregið úr straumi gesta fram eftir september uns þeir síðustu kveðja í lok mánaðarins.
Eftir að hafa rætt um stund við Pál kvaddi ég hann og hélt sem leið lá upp í skóla. Ég þurfti að undirbúa kennsluna sem á að hefjast í næstu viku. Jafnvel skólinn hér í Lönguströnd tekur mið af ferðamannastraumnum, því allir sem vettlingi geta valdið eru látnir vinna. En þegar sumrinu lýkur fellur allt aftur í sitt ljúfara og hefðbundnara far. Í skólanum eru tveir bekkir, annar fyrir yngri nemendur en hinn fyrir þá eldri eða lengra komna. Ég sé um þá eldri en Katrín Sæmundsdóttir yngri bekkinn. Hún fluttist hingað frá höfuðborginni seinasta sumar þá nýútskrifuð. Hún tók við af Sigdísi Hansen, sem hafði sökum veikinda hætt veturinn áður. Ég þurfti að kenna báðum bekkjum í nokkra mánuði á meðan bæjarráðið var að finna og ráða nýjan kennara. Katrín er ung og ennþá uppfull af þeim eldmóði sem einkennir marga nýútskrifaða kennara. Það kemur stundum fyrir að ég gleymi mér við að hlusta á hana ræða hugmyndir sínar um nýbreytni í skólastarfinu, kannski vegna þess hún minnir mig á sjálfan mig. Samt er ég ekki nema örfáum árum eldri en hún, en þessi ár virðast vega þungt. Auk þess, er nokkuð svo nýtt undir sólinni?
Hún sat inni í stofunni sinni þegar ég kom. Hún var klædd í sumarlegan, rauðan kjól og ljóst hár hennar féll slétt niður bakið. Hún hafði tekið tvo lokka og vafið í fléttu, um hana var bundin þunnur, rauður borði. Hún virtist ekki hafa orðið mín vör, svo ég kastaði á hana kveðju. Er hún sneri sér að mér þar sem ég stóð í dyragættinni, tók ég eftir að augun voru þrútin og rauð. Ég gekk inn til hennar og spurði hvort nokkuð bjátaði á. Á borðinu fyrir framan hana lá bréf, en ég gætti mín á að kíkja ekki á hvað í því stóð. Hún þurrkaði sér um augun og reyndi að brosa.
- Nei, ekki svo, svaraði hún og leit niður. Ég tók fram vasaklút og rétti henni. Hönd hennar skalf örlítið er hún tók við honum.
- Jæja, sagði ég og bætti síðan við: - Þú veist nú samt hvar mig er að finna, ef þú vilt tala við einhvern.
Hún leit upp til mín og brosti. Í þetta skipti var brosið einlægt og ég fann að hún var mér þakklát. Katrín hefur ekki náð að laga sig vel að lífinu hér í þorpinu. Henni hefur reynst erfitt að eignast vini, kannski vegna þess að hún er utanaðkomandi. Ég held að við, sem höfum alið okkar daga hér í Lönguströnd, séum frekar lokað samfélag þegar allt kemur til alls.
- Æi, sagði hún og snökti. Ég var að vona, að Ásgeir myndi koma til mín. Ég hef sagt þér áður frá honum, ekki satt? Þegar við kvöddumst síðast töluðum við um, að hann myndi flytja hingað til mín þegar hann væri búinn í sínu námi. Hann kláraði í vor en frestaði sífellt að koma. Núna var hann að skrifa mér og sagði í bréfinu, að hann hefði
Hún náði ekki að klára setninguna, hún þurfti þess ekki. Ég sá í augum hennar brostnar vonir og einmanaleika. Ég gekk yfir til hennar og strauk henni um bakið.
- Katrín mín, ég held þú ætti bara að drífa þig heim og slappa örlítið af, sagði ég og fékk hana til að standa á fætur. Hún kinkaði kolli. Ég hjálpaði henni í kápuna og fylgdi henni heim til sín. Áður en við kvöddumst tók ég af henni loforð um hún myndi borða kvöldverð með mér á morgun.
Eftir að ég hafði snúið aftur í skólann og lokið verkum mínum þar gekk ég heim. Er ég horfði niður Miðstræti sá ég hvar starfsfólk Hótels Löngustrandar var í óða önn að hreinsa úr herbergjum og búa hótelið undir veturinn. Fyrir utan hótelið stóðu tvær konur og voru að viðra sængur og teppi. Kári, hótelstjóri, var ásamt syni sínum, sem er einmitt nemandi minn, að negla fyrir alla glugga á efri hæðinni. Hótelið er gott sem ekkert nýtt á veturna, þar sem hingað koma fáir gestir. Hins vegar er hægt að fá ágætan mat á hótelinu allan ársins hring og það notfæra heimamenn sér óspart. En þar hefur Kári samkeppni frá kaffihúsinu Bláu könnunni sem Hugrún, systir hans, rekur. Það er í raun táknrænt, að sjá þegar Kári tekur að negla fyrir gluggana á efri hæðinni. Það staðfestir þá tilfinningu mína að sumarið er liðið og veturinn sé í nánd. Hótelið er stærsta húsið í þorpinu og er að stórum hluta til hulið myrkri allan liðlangan veturinn. Á sumrin er það bjart og iðar af fjöri og látum. Jafnvel húsin í kring virðast fá á sig kaldhranalegri blæ á veturna. Svona hefur þetta verið svo lengi sem ég man eftir mér og verður eflaust um ókomna tíð.
Ég lít út um gluggann sem ég sit við og skrifa. Skýjabakkarnir dragast enn nær þorpinu og hafið, sem í morgun var fagurblátt, er nú sem frussandi iðupottur eða rándýr sem bíður þess að geta rifið bráð sína á hol. Það hefur algerlega skipt um ham frá því fyrr í dag og ég vona bara að engum af trillukörlunum okkar hafi látið sér detta í hug, að liggja úti í nótt. Ég ætti kannski að leggja frá mér pennann og athuga hvort allir gluggar séu ekki kyrfilega festir aftur. Það stefnir í hið versta veður í nótt. Ætlar veturinn að boða koma sína með ofsa?
Bækur | Laugardagur, 13. september 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þá er komið að næstu sögu, Undrin við Lönguströnd. Þessi er líkt og Þoka skrifuð sem hrollvekja og gengur jafnvel enn lengra í átt að Wierd fiction stílnum, en áðurnefnd saga.
Einnig langar mig til að monta mig af því, að nú stefnir allt í að saga eftir undirritaðan komi út með vorinu, en sú heitir Dántúr. Það er reyndar ekki hreinræktuð hrollvekja, þó svo hún innihaldi margra þætti þeirrar bókmenntategundar.
Njótið vel!
Undrin við Lönguströnd
Af virðingu við þá sem létust og þátttakendur í atburðarás þeirri er á síðum bókar þessarar má finna, hefur nöfnum og staðháttum verið breytt.
- Útgefandi
Kæri útgefandi,
fyrir nokkrum mánuðum síðan féll móðir mín, Sigríður Karlsdóttir, frá. Það er nú vart í frásagnir færandi, nema fyrir þær litlu sakir að þar með fékk ég loksins frið fyrir tuðinu í henni. Nokkrum dögum eftir jarðarförina varð ég að taka til í íbúðinni hennar, því ég ætlaði mér að selja hana. Hún bjó enn í sömu blokk og þau pabbi keyptu í fyrir um 40 árum eða svo. Ég man ekki nákvæmlega hvenær þau eignuðust íbúðina, enda skiptir það engu máli.
Ég fann hins vegar nokkuð í geymslu þeirra sem er mikilvægt og þú getur fundið það allt í þessum kassa sem ég sendi þér. Í honum ættu að vera bréf föður míns, Jóns Einarssonar, til móður minnar, ásamt 5 litlum, bláum stílabókum sem eru dagbækur Hermanns Karlssonar, kennara á Lönguströnd. Ég vona, að allt sé til staðar þegar þér berst pakkinn.
Ég veit ekki hvort þú sért nógu gamall til að muna eftir eldsvoða sem varð fyrir um fjórum áratugum í Lönguströnd. Foreldrar mínir voru nýbyrjaðir að búa saman, ég var rétt kominn í heiminn og pabbi starfaði þá í rannsóknarlögreglu ríkisins. Eldsvoði þessi var í skólahúsi þorpsins og fórust allir nemendur skólans í honum ásamt kennurum sínum. Það var fjallað töluvert um þennan skelfilega atburð í fjölmiðlum á sínum tíma. Pabbi var sendur á staðinn til að rannsaka tildrög óhappsins. Í dag muna ekki margir eftir þessum atburðum.
Ég man að mamma talaði oft um að pabbi hefði aldrei jafnað sig almennilega á þessari rannsókn. Hún sagði, að hann hefði oftar en ekki vaknað með martraðir og sumar nætur hefði hann vart getað sofið. Hann vildi samt aldrei tala um störf sín eða reynslu sína í þorpinu. Stundum kom yfir hann svipur, sem mér fannst lýsa mikilli sorg en samt var hann alltaf hress, eða þannig minnist ég hans. Hann lést fyrir um 10 árum, reykti eins og strompur alla tíð og það kom því fáum á óvart þegar hann greindist með krabbamein. Það fór bara eins og það fór.
Ég ætlaði nú ekkert að vera eyða pappír í að tala um foreldra mína, en hvað um það. Ástæða þess ég sendi þér þetta allt saman er einföld. Ég vil að þú gefir þetta út. Hér er að finna ótrúlega sögu, frásögn sem flestum mun eflaust þykja allt að því súrrealísk og framandi. Það er eðlilegt, er ég las dagbækurnar fyrst þá fannst mér það einnig. Hins vegar mun hver sá, sem leggst í svipaða vinnu og ég hef gert á undanförnum mánuðum komast að raun um, að í þeim býr annar og meiri sannleikur en flest okkar munum nokkurn tíma kynnast. Við, mannfólkið, erum nefnilega blind en gerum okkur ekki grein fyrir því. Flestir blása á allar sögur af miðlum og þeim sem eru gæddir skyggnigáfu en hvað ef allir hefðu slíka hæfileika? Ég held, að það megi líkja okkur við villuráfandi sauði í myrkum helli, annars slagið lenda örfáir í ljóskeilu sem gefur okkur augnabliks innsýn í heiminn eins og hann er í raun og veru. Hver veit nema einhver taki upp þráðinn þar sem ég skyldi við hann og rannsaki þetta mál frekar?
Mér er það hins vegar ómögulegt vegna þess ég hef bara ekki lengur heilsu til slíkra verka. Ég fór til Löngustrandar og kynntist þorpinu af eigin raun. Ég get ekki sagt það hafi verið góð lífsreynsla. Það er eitthvað að fólkinu þar, eitthvað stórkostlegt en jafnframt hræðilegt. Ekki bara útlitslega séð, því þau eru stórfurðuleg mörg hver, augun útstæð og einhver sérkennilegur húðsjúkdómur virðist hrjá þau mörg. Líka hvernig þau haga sér, þau ganga flest álút og dragast einhvern veginn áfram sem knúin af annarlegum kröftum. Ég veit ekki hvernig ég get komið orðum að því, án þess þú dragir sömu ályktun og geðlæknarnir hér, að ég þjáist af ranghugmyndum og ofsjónum. Það er hins vegar ekki rétt hjá þeim, ég veit bara betur en þetta lið.
Lestu bækurnar með opnum huga. Ekki líta á þær sem eitthvað kjaftæði eða þvælu, það sem þær geyma grunar mig sterklega sé það sem gerðist í raun og veru. Reynsla mín hefur kennt mér, að ég hafi ekki ástæðu til að efast um það sem kom fyrir Hermann.
Björn Jónsson
Bækur | Fimmtudagur, 11. september 2008 (breytt kl. 08:15) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Síðasta færslan í þessari sögu!
3. febrúar
Kl. 13:30
Allt var hvítt.
Guðbjörg gekk inn á stofuna þar sem Njörður lá. Hann virtist friðsæll þar sem hann lá sofandi. Umvafinn þeirri kyrrð sem einkennir oft spítala. Hún kom sér fyrir í gluggakistunni og starði á Njörð. Sárabindi höfðu verið vafin um háls hans og hægri fótleggurinn var í gifsi.
Allt var hvítt. Veggirnir, rúmfötin og jafnvel náttborðið við hlið rúmsins. Rautt hár Njarðar stakk því í stúf við koddann. Húð hans var fölleit og undir augunum voru dökkir baugar. Hún vissi að hún átti ekki að vera þarna, en þar sem hún kannaðist við lögreglumanninn sem sat við dyrnar hafði henni reynst auðvelt að komast inn. Hún hafði brosað fallega til hans og blikkað, hann leyfði henni að kíkja inn í smástund. Ótrúlegt hve karlmenn féllu oft fyrir smá daðri.
Þegar hún heyrði að lögreglan hafði fundið Njörð meðvitundarlausan marandi í hálfu kafi úti fyrir Kollafirði og að skipið væri horfið tengdi hún strax þessa atburði saman. Hún gat ekki beðið eftir því að heyra hvaða sögu hann hefði að segja. Sjálf hafði hún verið útskrifuð af sjúkrahúsinu tveimur dögum áður. Áfallið hafði ekki verið eins alvarlegt og í fyrstu var talið. Hún jafnaði sig furðu fljótt. Guðbjörg reyndi að hugsa ekki um það sem hafði gerst, en það var erfitt. Fréttirnar voru fullar af alls kyns og misgáfulegum útskýringum blaðamanna. Ótrúlegustu kenningar höfðu skotið upp kollinum. En hún vissi að engin þeirra átti við nein rök að styðjast. Það vissi enginn um það sem var ofan í skipinu, nema þeir sem þangað höfðu komið. Enginn nema hún og hann, sem lá fölur fyrir framan hana.
Í fréttum útvarpsins hafði komið fram að Njörður væri enn sofandi og hefði verið síðan hann kom á sjúkrahússið fyrir nokkrum dögum. Það höfðu fundist undarlegir brunasár á hálsi hans, sem læknar og vísindamenn gátu ekki útskýrt. Sumir þeirra voru þó þeirrar skoðunar að þau mætti rekja til marglyttna, en hún trúði því ekki.
-Þú hvað ert hvar er ég, spurði Njörður lágt um leið og hann opnaði augun hægt.
-Þú ert á Landspítalanum.
-Hvernig
-Þeir fundu þig meðvitundarlausan úti á Kollafirði, svaraði hún og settist í gluggakistuna. Fyrir aftan hana grillti í Esjuna inn á milli hríðarbylja. Njörður andvarpaði og lygndi aftur augum.
-Hvað gerðist eiginlega?
Njörður svaraði engu í fyrstu en sagði loks svo lágt að það var næstum ógreinilegt:
-Við fórum um borð.
Guðbjörg starði um stund á Njörð, eins og hún tryði honum ekki. Eftir stutta stund spurði hún:
-Sástu himnuna?
Njörður opnaði augun og sneri höfði sínu að Guðbjörgu. Svipurinn á andliti hans var jafngildi samþykkis.
-Já, ég sá hana, svaraði Njörður dauflega og sneri sér undan augnaráði hennar.
Guðbjörg leit á hann. Dökkur skuggi hvíldi yfir augum hans.
-Hvað gerðist? Hvað varstu að gera um borð?
-Við ég reyndi að ég veit ekki hvað við vorum að gera þarna. Þvílíkir bjánar sem við vorum.
-Við!? Varstu ekki einn?
-Nei, Fjalar var með mér.
Guðbjörg starði hissa á Njörð. Ekkert hafði verið talað um það í fréttunum að Fjalars væri saknað, það hafði heldur ekki neitt komið fram um það í blöðunum.
-Og hvað? Segðu mér frá þessu.
Njörður gerði tilraun til að setjast upp í rúminu. Á andlit hans kom gretta og hann teygði sig niður að vinstra lærinu. Augu Guðbjargar fylgdu hendinni ósjálfrátt og hún tók þá eftir að það var vafið í sáraumbúðir. Njörður sagði henni í fljótu bragði hvað hafði gerst um borð. Guðbjörg sat og hlýddi á frásögnina sem dáleidd.
-Ég veit ekki hvaða vera þetta var. Þó tel ég eitt víst, þetta var ekki sá sem ég hélt að þetta myndi vera. Fjalar, Mentuhotep IV eða hvað þetta var. Ég veit það ekki. Rúnirnar, rúnirnar ... þær sneru ekki öfugt, þær sneru rétt. Hann skrifaði þær eins og hann sá þær speglast í rúðunum. Var hann að reyna gefa okkur einhverja vísbendingu?
-Var að þá veran komin inn í Fjalar og búin að taka stjórn á honum?
-Ég veit það ekki. Ætli það ekki. Eða var þetta hann sjálfur sem myrti alla? Ég er ekki viss. Kannski að eitthvað hafi tekið stjórn á honum, eitthvað illt, eitthvað komið inn í hann. Það ... ég held, að hann hafi ekki verið með sjálfum sér. Það var svo undarlegt, svo andstyggilegt ... angar, þræðir út um munninn á honum ... á hálsinn á mér. Ég held, hann hafi ætlað að rífa úr mér hjartað. Ég var næstur.
Guðbjörg starði á Njörð. Hann varð enn fölari við að rifja þetta upp. Eins og allt blóð væri dregið úr honum. Það fór um hana hrollur þegar hún reyndi að gera sér í hugarlund í hverju Njörður hafði í rauninni lent.
Skyndilega var hnippt í hana. Við hlið Guðbjargar stóð ung hjúkrunarkona og hún bað Guðbjörgu um að leyfa sjúklinginum að hvíla sig. Guðbjörg stóð á fætur.
-Mér þætti vænt um að heyra í þér þegar þú losnar héðan, sagði hún. Njörður kinkaði kolli. Hún stóð á fætur og lét á sig húfu. Hún reyndi að brosa til Njarðar og gekk fram.
Þegar hún kom út var hún fegin að finna ískaldan norðanvindinn blása í andlitið. Hríðarbylir og snjókóf gengu öðru hvoru yfir bílastæðið. Á leið sinni yfir það mætti hún eldri hjónum. Konan, sem var klædd í ljósbrúna kápu, ríghélt í handlegg mannsins og hélt um rauða húfu á höfði sínu. Er þau mættust heyrði Guðbjörg konuna segja:
-Sem betur fer er þokan horfin. Aldrei bjóst ég við ég myndi fagna norðangarranum, en allt er nú skárra en þessi leiðinda þoka.
Guðbjörg brosti dauft. Hún gerði sér skyndilega grein fyrir hversu sterk áhrif þokan hafði haft á lífið í borginni. Hún virtist hafa skilið fólk í sundur, hver og einn aleinn með sjálfum sér, slitinn úr samhengi við samfélagið. Hún hafði vart hugsað um annað en þetta skip áður en hún var lögð inn á spítalann. Eins og allir hafi verið staddir í einhvers konar millibilsástandi þar sem ekkert virðist geta bægt hinum andlega doða frá.
Hún gekk áfram upp Skólavörðuholtið og velti fyrir sér frásögn Njarðar. Hvaða andi var það þá sem hún varð vör við í skipinu? Ætli það tengist eitthvað þessum atburðum í Frakklandi sem hann hafði talað um? Hver var það sem leiddi hana þangað? Hvernig ætli skipið tengist þessu? Hvað hafði orðið um það? Skyldi það finnast einhvern tíma aftur? Guðbjörg gekk áfram út á Skólavörðustíg. Hálfbyggð kirkjan stóð eins og illa reist varða, næstum því brothætt í nöprum vetrarvindinum. Hún staldraði við og horfði á kirkjuna. Hvar var Guð á svona stundum? Hvers lags Guð var það sem leyfði mönnunum að myrða hvern annan?
Hún sneri sér frá kirkjunni og gekk niður að Aðalstræti. Hún hafði frétt að skrifa.
Bækur | Miðvikudagur, 10. september 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar