Færsluflokkur: Bækur

Þoka

Kl. 22:25

 

Njörður kippti skálinni upp úr falsinum. Um leið skall hlerinn aftur. Hann flýtti sér að snúa sveifinni. Hvað hafði eiginlega gerst? Hvað hafði farið úrskeiðis? Hvernig mátti þetta vera? Var Fjalar morðinginn eftir allt saman? Hann sneri sér við og hraðaði sér út myrkvaðan ganginn. Þá heyrði hann ískur fyrir aftan sig, eins og klær væru dregnar eftir hörðu yfirborði. Hann leit yfir öxlina. Dyrnar inn í lestina opnuðust hægt og reykur skreið upp með loftinu að Nirði. Rauð skíma lak út og lýsti upp þröngan ganginn. Í dyrunum stóð Fjalar og horfði á Njörð. Hann var alblóðugur. Glyrnurnar brunnu af reiði og Nirði fannst um stund hann ekki eiga sér neinnar undankomu auðið. Hann vildi einna helst fá að leggjast niður og loka augum. Vakna og uppgötva að þetta var allt saman bara slæmur draumur. Martröð engu lík. En hann vissi að svo var ekki. Hann var fastur í þessu skipi. Innilokaður, umlukinn rauðu himnunni og kæfandi stækjunni. Fjalar lyfti annarri hendinni. Hann hélt á einhverjum rauðum, kringlóttum hlut. Blóð lak milli fingra hans. Njörður þurfti ekki að horfa lengi til að gera sér grein fyrir hvað þetta var. Þá mælti hann eitthvað sem Njörður skyldi ekki. Fjalar kreisti hjartað, svo það draup enn hraðar úr því. Njörður starði sem dáleiddur væri. Það var eitthvað sem var svo óeðlilegt, í raun svo ójarðneskt að í stað þess að hlaupa í burtu fannst Nirði hann tilneyddur að fylgjast með. Reykur fyllti nú ganginn svo að það byrgði honum sýn. Njörður steig eitt skref nær til að sjá betur. Þá kreppti Fjalar hnefann og hjartað sprakk í hönd hans, eins og skyrpoki. Blóð sprautaðist á milli fingranna og slettist á veggina í kring. Himnan tók að glóa þar sem blóðið lenti, sem virtist sjúga blóðið í sig, eins og hún væri að nærast á því. Njörður tók eftir þráðum í himnunni, þráðum sem var hægt að lýsa sem eins konar æðum, ekki ósvipuðum þeim sem er að finna í laufblöðum. Með þeim færðist rauði bjarminn út ganginn, nær Nirði.

Njörður fann hvernig maginn herptist saman og hann kúgaðist. Hryllingarsvipur kom á andlit hans um leið og hann sá Fjalar leggja af stað í áttina að sér. Hann snerist þegar á hæli og hljóp af stað. Njörður klifraði upp stigann inn á annan gang, þann sama og messinn var í. Þaðan myndi hann komast upp á þilfar. Hann leit aftur fyrir sig. Fjalar var kominn að stiganum og horfði upp á eftir Nirði. Hann steig aftur fyrir sig en rann. Njörður heyrði þegar Fjalar steig í fyrsta þrepið, síðan það næsta. Hann stökk aftur á fætur. Það var erfitt að sjá fram fyrir sig þarna uppi. Allt var myrkt. Hann lét aðra höndina hvíla á veggnum. Þannig fetaði hann sig áfram út ganginn að næsta stiga. En áður hann náði þangað fann hann Fjalar stíga inn á ganginn. Hann heyrði ekki í honum, en vissi einhvern veginn af honum fyrir aftan sig, návist hans var yfirþyrmandi og kúgandi. Hann fann hvernig augu Fjalars hvíldu á sér, yfir hann helltist sú tilfinning að hann væri ekkert annað en bráð rándýrs. Njörður lét höndina falla af veggnum og hljóp af stað eins hratt og fætur toguðu. Njörður þaut áfram inn ganginn í algeru myrkri. Hann rétt náði að stöðva sig áður en hann skall á handriði stigans. Móður hóf hann sig upp í fyrsta þrepið og tók að klifra upp stigann til að komast upp á þilfar.  

Skyndilega fann hann nístandi sársauka í vinstri fætinum. Njörður leit aftur fyrir sig. Fjalar stóð fyrir aftan hann. Hann hafði slegið til Njarðar. Buxurnar voru rifnar og blóð fossaði úr fjórum djúpum skurðum á kálfanum. Njörður lét þunga líkama síns hvíla á hægri fætinum. Síðan sparkaði hann aftur fyrir sig eins fast og hann mögulega gat. Hann fann hælinn lenda á einhverju hörðu. Það heyrðist hár smellur, eins og þegar bein brotnar. Hann heyrði Fjalar gefa frá sér ergilegt urr. Njörður steig í næsta þrep. Um leið og hann steig niður fannst honum sem vinstri fóturinn myndi gefa eftir. Það var sem enginn kraftur væri eftir. Engu að síður beitti hann sig viljastyrk og neyddi sjálfan sig til að halda áfram. Fjalar stökk á eftir honum. Hann læsti klónum í jakka Njarðar og reyndi að toga hann niður, en Njörður ríghélt í handriðið. Sársaukinn í fætinum óx og hann fann blóð leka niður ökklann. Hann barðist við að halda sér uppi. Njörður heyrði hvernig klær Fjalars rifu í sundur klæði jakkans. Þunginn var svo mikill að hann var viss um að vöðvarnir í öxlum hans myndu rifna. Handleggirnir stífnuðu upp. Jakkinn var farinn að gefa eftir. Klæðið réð ekki við álagið. Njörður var ekki viss um að ná að halda þetta út. Fjalari var að takast að ná honum niður. Njörður vissi að þá myndi fara fyrir honum eins og Grími og öllum hinum. Honum var farið að sortna fyrir augum.

Þá gaf vinstri fóturinn sig. Hann missti allt afl. Um leið rak hann hnéð í stigann. Njörður beit á jaxlinn og einbeitti sér að því að halda sem fastast í handriðið. Hann færði þungann yfir á hægri fótinn. Hnykkurinn sem varð af þessu olli því að jakkinn rifnaði enn frekar. Njörður reyndi að koma undir sig vinstri fætinum. Fjalar teygði sig eftir betra taki. Um leið og Njörður fann slakna örlítið á smeygði hann ofurfljótt öðrum handleggnum úr jakkanum. Fjalar virtist gera sér grein fyrir þessu því hann sleppti annarri hendinni og reyndi að slá til Njarðar. Höggið kom aftan á lærin. Klærnar skáru í gegnum buxur og djúpt inn í holdið og Njörður öskraði af sársauka. Fjalar kippti í jakkann. Við það rifnaði hann svo Fjalar missti það tak sem hann hafði. Um leið og Njörður fann að hann var laus virtist allur sársauki og þreyta gleymd. Hann togaði sig upp. Í einu hendingskasti klifraði Njörður upp síðustu þrepin að dyrunum. Hann flýtti sér út og skellti hurðinni á eftir sér.

Hann horfði í kringum sig um leið og hann kastaði mæðinni. Nirði verkjaði í allan líkamann, sérstaklega axlirnar og hann fann hvernig heitur vökvi lak niður eftir fótleggnum úr sárinu á lærinu. Hann leit í kringum sig og tók eftir að grunur sinn reyndist á rökum reistur. Skipið var komið á ferðina. Það lá ekki lengur bundið við Reykjavíkurhöfn. Ég er fastur, hugsaði Njörður með sjálfum sér um leið og hann lokaði hleranum og lagðist upp að honum. Hann reyndi í snarhasti að rifja upp hvort hann hefði tekið eftir björgunarbátum eða nokkru slíku áður um borð. Hann skannaði í fljótheitum þilfarið en kom ekki auga á neitt sem gæti komið að gagni.  Þá skall eitthvað þungt á hleranum. Hann hentist frá og skall harkalega á ryðguðu þilfarinu. Njörður reyndi að standa á fætur en var örmagna, flóttinn hafði reynst honum erfiður. Hleranum var hrundið upp. Fjalar steig út og horfði grimmilega á Njörð, þar sem hann lá gott sem bjargarlaus á þilfarinu. Njörður tók eftir að það vantaði eina af vígtönnunum. Úr sárinu blæddi dökkur vessi. Njörður reyndi að skríða undan. Fjalar greip í hálsmál Njarðar og lyfti honum upp. Hann reyndi að berjast um. Fjalar var honum miklu sterkari. Njörður sparkaði frá sér en Fjalar hélt honum nægilega langt frá sér. Hann starði grimmur á svip á Njörð. Eins og hann væri að meta hann. Njörður forðaðist að mæta augnráði hans. Hann hafði einu sinni fundið fyrir dáleiðandi áhrifum þess og vildi umfram allt ekki lenda í því aftur. Fjalar opnaði munninn. Í ljós komu hvítu þræðirnir. Njörður barðist um af öllu afli. Hann reyndi að nýta síðustu kraftana til að losna úr heljargreipum Fjalars. En allt kom fyrir ekki. Angarnir skriðu fram og tóku að fálma út í loftið. Njörður fylgdist með hryllingi er þykkir þreifararnir komu í ljós. En það var sama hvað hann reyndi, hann náði ekki að losa sig. Angarnir vöfðust um háls hans. Njörður fann hvernig hann sveið undan þeim. Eins og undan slæmu brunasári. Þeir hertu að. Njörður átti erfitt með andardrátt. Þreifararnir urðu sífellt lengri og stefndu í átt að brjósti Njarðar. Hann fann að hann gat sér enga björg veitt. Það er út um mig, hugsaði Njörður með sjálfum sér um leið og hann fann rotnunarstækjuna magnast í kringum sig.

Um leið og þreifararnir snertu brjóst hans skar hvítur blossi í gegnum kvöldmyrkrið. Njörður átti erfitt með gera sér grein fyrir hvað var að gerast. Hann sá illa fram fyrir sig. Blossinn hafði verið svo sterkur að það tók augun drykklanga stund að jafna sig. Hann fann að hann skall með þungum dynki á þilfarinu. Njörður reyndi að skríða í burtu en rak höfuðið í eitthvað. Hann heyrði Fjalar gefa frá sér skrækt, hátóna öskur. Njörð verkjaði í eyrun undan því, hann hafði aldrei heyrt jafn ómennskt hljóð. Hann reyndi að horfa í kringum sig en sá allt í móðu. Fyrir framan sig greindi Njörður Fjalar. Hann virtist engjast um af kvölum. Angarnir og þreifararnir leituðu villt út í loftið. Njörður stóð hægt á fætur. Hann var farinn að sjá aðeins skýrar. Þá fann hann hve hann verkjaði í brjóstið. Njörður fletti skyrtunni frá og tók eftir að trékubburinn á hálsmeninu var brotinn. Undir honum var blóð. Rúnin hafði brennt sig í gegnum húðina og skilið eftir flakandi sár.

Njörður horfði í kringum sig. Það var ekkert þarna sem hann gat notað til að bjarga sér. Ekkert nema ryðgaðir járnhlutir sem voru á einn eða annan hátt fastir. Fjalar virtist enn ekki hafa tekið eftir því að hann var staðinn á fætur. Hann öskraði enn ákafar en áður. Njörður gekk að borðstokknum. Fyrir neðan var kolsvartur sjórinn. Hann var lygn, aðeins skipið gáraði hafflötinn.  

Þá hætti Fjalar skyndilega að öskra. Njörður leit aftur fyrir sig og sá hvar Fjalar stóð á fætur. Hann horfði í kringum sig uns hann sá hvar Njörður stóð. Augu hans brunnu enn heitar en áður af hatri og reiði. Njörður steig í flýti upp á borðstokkinn og kastaði sér fram af.


Þoka

Kl. 23:50

 

Njörður leit inn í lestina. Eitthvað undarlegt hljóð hafði náð athygli hans. Eins og þegar trjágrein brotnar. Fjalar sneri baki í hann og stóð grafkyrr hinum megin við eldhringinn, við opinn kassa. Hann hafði klætt sig í einhvers konar hanska með löngum klóm og var í þann mund að setja á sig undarlega lagaðan hjálm eða hatt, sem minnti Njörð einna helst á höfuð hunds eða úlfs. Njörður reyndi að kalla til hans en Fjalar virtist ekki heyra í honum. Hvað gekk að Fjalari? Skyldi hann hafa orðið einhvers var? Njörður gekk fram fyrir eldinn í miðju hringsins.

-Hvað …

Fjalar starði á hendur sínar. Það var eins og hann gerði sér ekki alveg grein fyrir því sjálfur hvað hann var að gera, eins og hann hefði ekki fulla stjórn á sjálfum sér. Hann hafði klætt sig úr skyrtunni og stóð ber að ofan. Á húð hans voru að myndast einhvers konar ör eða merki, eins og þau væru í senn dregin á og rist ofan í húðina. Það var erfitt að greina hvort var. Á enni hans brunnu gylltar þebískar rúnir, eins og þær sem höfðu fundist við lík mannanna fjögurra, nema þær sneru rétt. Augun voru þó sýnu verst. Eins og tveir örsmáir, logandi blóðdropar. Fjalar sneri sér hægt við. Efri vörin lyftist örlítið og hann urraði að Nirði, sem vildi helst öskra af ótta og flýja í burtu en hann gat það ekki. Var þetta virkilega Fjalar?

Hvað hafði hann eiginlega gert? Hafði hann kallað fram þessa skelfilegu veru í líkama Fjalars? Hafði særingin mistekist svona illa? Eða hafði Fjalar myrt mennina? Hafði hann misst vitið og framið morðin?

-Fjalar, náði Njörður loks að segja. Rödd hans brotnaði. Hann fann hvernig það var sem þróttur hans væri rifinn úr honum. Hvað var þetta eiginlega? Var þetta Mentuhotep IV? Var þetta Fjalar? Hvað hafði eiginlega gerst? Gat verið að hann hafi haft rétt fyrir sér í upphafi? Le Myth du Loup-Garou. Hélt Fjalar að hann væri varúlfur? Hvernig gat það staðist? Hvernig tengdist skipið þessu öllum saman? Hvað gerði hann við hjörtun? Hugsanir þutu um kollinn á Nirði á margföldum ljóshraða. En hann þurfti svör, ekki fleiri spurningar.

Fjalar opnaði munninn meira. Út um annað munnvikið lak það sem virtist vera hvítur, örmjór ormur. Fleiri fylgdu í kjölfarið. Þeir iðuðu eins og maðkar út í loftið. Skömmu síðar kom í ljós þykkari angi, einna helst minnti þetta Njörð á marglyttu. Þræðirnir snerust í kringum munninn á Fjalari. Allt um kring virtist himnan taka við sér. Rauðleit birtan var enn sterkari nú en áður. Þrátt fyrir reykinn frá eldunum var birtan svo skær að Njörður varð að skýla augunum. Stækjan magnaðist upp og var kæfandi, eins og hún væri að bregðast við Fjalari, sem steig nær og teygði hvítu þræðina og armana að Nirði. En um leið og Fjalar kom að eldhringnum var eins og hann ræki sig á ósýnilegan vegg. Hann öskraði í bræði. Skyndilega var sem Njörður kæmi til sjálfs sín, hann gerði sér nú grein fyrir því hvert næsta fórnarlamb var. Hann sjálfur.

Hvað gat hann gert? Hvað átti hann að gera? Út undan sér sá hann jakka Fjalars. Upp í huga hans skaut sýnina af skammbyssunni hans. Hann varð að stöðva Fjalar. Njörður stökk af stað og kastaði sér á gólfið. Fyrir aftan hann heyrði hann lágt urr koma frá Fjalari. Njörður tók upp jakkann. Hann opnaði vinstri vasann og stakk hendinni ofan í hann. Vasinn var tómur. Njörður sá út undan sér Fjalar opna munninn enn frekar og enn fleiri hvítir þræðir og armar birtust og leituðu út í loftið. Gríðarleg rotnunarstækja fyllti vit hans. Njörður opnaði hægri vasann. Hann fann hvernig kalt stálið nam við fingurgóma sína. Hann hrópaði upp af gleði. Um leið fann hann hvernig eitthvað vafðist um háls sér, eitthvað slímugt og hann sveið undan því. Hann reyndi að losa sig en allt kom fyrir ekki. Njörður náði að snúa sér við og munda byssuna. Hann reyndi að sjá Fjalar þar sem hann stóð handan eldhringsins. Síðan hleypti Njörður af.  Skothvellurinn bergmálaði í lestinni. Hann heyrði engu að síður Fjalar öskra af bræði og um leið losnaði takið sem hann hafði á Nirði. Njörður sneri sér við og spratt á fætur. Hann lyfti byssunni á nýjan leik. Hann lokaði augum og skaut. Fjalar kipptist til er kúlan hæfði hann. Njörður hleypti aftur af. Síðan aftur og aftur uns hann heyrði ekki lengur skothvelli. Fjalar féll fram fyrir sig.     

Njörður hljóp af stað og út um dyrnar. Í hamaganginum rauf hann ómeðvitað eldhringinn. Er hann kom að hleranum leit hann aftur fyrir sig og sá hvar Fjalar reis hægt á fætur. Hann beraði beittar tennurnar og stökk af stað eftir Nirði.  


Þoka

Kl. 22:10

 

Fjalar stóð um stund og fylgdist með Nirði. Þegar Njörður settist og byrjaði að skera út rúnina sneri Fjalar athygli sinni annað. Hann beygði sig niður og skoðaði þessa undarlegu himnu. Hún var volg viðkomu og nokkuð hrjúf, samt var eins og hún gældi við fingur hans. Hann reyndi að skera í hana, en einhverra hluta vegna virtist himnan harðari hér en inni í messa. Þá fann Fjalar fyrir svolitlu sérstöku. Hann rétti úr sér og leit á Njörð, sem var niðursokkinn í verk sitt. Hann virtist ekki hafa tekið eftir neinu. Fjalar lokaði augum og einbeitti sér. Jú, þarna var það aftur. Það var eins og skipið risi og hnigi, bara örlítið, næstum ekki merkjanlegt. Ætli það sé loksins tekið að blása, hugsaði Fjalar með sér. Vindur sem ýfi upp öldur, sem síðan renna sér inn í höfnina og hreyfa við öllum bátum og skipum þar? Það væri óskandi, mikið væri gott að losna við þessa árans þoku, sagði Fjalar við sjálfan sig. En engu að síður kviknaði grunur í huga hans. Hvað ef skipið hefði losnað frá bryggjunni?

Skyndilega hrökk Fjalar upp úr þessum hugleiðingum sínum. Þeir voru ekki lengur einir. Einhver staðar úti í dimmrauðu rökkrinu heyrði hann í hundinum. Hvernig klærnar skullu í hörðu gólfinu. Hvar var hann? Var hundurinn einhvers staðar þarna frammi og beið þeirra? Sat hann kannski fyrir þeim? Fjalar tók upp byssuna. Hendur hans skulfu og höfuðverkurinn ágerðist. Hann gekk eins langt og hann gat í átt að dyrunum, án þess þó að fara út fyrir hringinn. Þá hvarf hljóðið skyndilega. Varð hundurinn hans var? Fann hann kannski lyktina af honum? Fjalar reyndi að sjá út um opnar dyrnar, en það var of mikið myrkur til að hann gæti greint nokkuð, auk þess sem reykur frá eldinum var farinn að stíga upp. Kannski var hann að láta ímyndunaraflið hlaupa með sig í gönur. Hann reyndi að slappa af. En það var erfitt. Hjartað barðist um í brjósti hans. Hundurinn var þarna úti og beið hans. Óumflýjanlegur, eins og dauðinn sjálfur. Hvar var hann? Fjalari hitnaði og sviti spratt fram. Var þetta flensan að hrjá hann?

Þá hafði hann heyrt hann annað hljóð, þrátt fyrir eintóna söng Njarðar, sem virtist koma innan úr lestinni. Eins og einhver drægi andann mjög þungt. Sviti spratt fram á efri vörinni. Hann gekk ofurvarlega nær hljóðinu. Hvað gat þetta verið? Gæti hundurinn hafa sloppið óséður inn? Var hann kannski þarna og lék sér að því að hræða Fjalar? Hann steig varfærnislega framhjá Nirði og rýndi út í rautt myrkrið. Einhvers staðar þarna, djúpt niðri í lestinni, var eitthvað. Eldurinn hafði nú brunnið í nokkrar mínútur og reykur var farinn að safnast upp. Fjalari var farið að svíða í augun. Hann reyndi engu að síður að rýna fram fyrir sig og sjá hvað olli þessu óhugnanlega hljóði. Hvað var þarna úti? Var þetta hundurinn? Var það hann sem dró andann svo þungt, eins og risastór, særð skepna?

Hann steig varfærnislega yfir eldinn og læddist lengra inn í lestina. Fjalar var ekki viss, en honum fannst sem einhver væri þarna í myrkrinu en hann gat ekki séð hver það var. Hann rýndi fram fyrir sig en allt kom fyrir ekki. Þá varð hann var við krafs í viðarkassa við hliðina á sér. Viðurinn var fúinn og það var Fjalari auðvelt að opna hann.

Skyndilega var sem reykurinn drægist í sundur ofan í kassanum. Í ljós kom litli, guli hundurinn. Hundurinn starði á hann og í augum hans þóttist Fjalar óseðjanlegt hungur og grimmd. Litli hundurinn steig upp úr kassanum og um leið tók þessi smávaxni líkami undarlegum breytingum. Vöðvarnir tútnuðu út og rifu húðina utan af honum. Það heyrðust tveir lágir smellir um leið og hundurinn reis á afturlappirnar, smellir eins og þegar kjúklingabein er brotið. Hundurinn virtist stækka allur og verða meiri. Fjalar kom ekki upp orði. Hundurinn hélt áfram að taka breytingum, framlappirnar lengdust og höfuðið stækkaði. Hundurinn steig nær. Andlitið var hulið að mestu í skugga en augu hans voru eldrauð og brunnu í myrkrinu, eins og tveir kolamolar, í andliti hans, sem að öðru leyti var hulið myrkri. Í þeim sá Fjalar meira hatur en hann hafði nokkurn tíma áður orðið vitni að. Samt var eins og hann gæti séð í gegnum veruna, eins og hún væri kvikmynd sýnd af sýningarvél.

Hann starði á hundinn. Í senn var hann heillaður af einkennileika þessa en um leið óttaðist Fjalar hann meira en hann hræðst annað nokkurn tíma áður. Hundurinn stóð nú hinum megin við logana. Hann einblíndi á Fjalar, sem gat ekki komið upp orði. Hann reyndi að kalla á Njörð en var ekki viss um hvort hann gæti heyrt í sér. Sjálfur heyrði Fjalar ekkert annað en þungan andardrátt hundsins. Sá ekkert annað en þessi skelfilegu, dáleiðandi augu.

Síðan tók hundurinn stökk fram. Fjalar ætlaði að stíga eitt skref aftur en fann hvernig fætur sínir voru sem rótfastur við gólfið í lestinni. Skelfingu lostinn starði Fjalar á hundinn dragast nær. Á enni hans brunnu svipaðar rúnir og fundist höfðu hjá þeim  myrtu, samt var eitthvað sem var öðruvísi. Nú stóð hundurinn aðeins örfáa metra frá honum og þá fyrst kom Fjalar auga á andlitið.

Fjalar horfðist í augu við sjálfan sig! Andlitið var hans eigið.


Þoka

Kl. 21:20

 

Njörður stóð á fætur og horfði á dyrnar fyrir framan sig. Á þeim var að finna alveg eins innsigli og hafði verið á dyrunum sem dr. Berger stóð við á myndinni. Hann vissi reyndar ekkert um hvernig það hafði verið gert eða hvort það væri í raun einhvers konar galdratákn. Njörður hafði reyndar ekki skorið það í hurðina en hann vonaði að efnin sem hann hafði látið í seyðinn væru nógu kröftug til að halda aftur af verunni.

Hann sneri sér við. Fyrir aftan hann stóð Fjalar og hélt á lítilli, svartri byssu. Fjalar starði út dimman ganginn. Skammbyssan hélt sex skot og var frekar einföld að gerð. Njörður hafði vanist því að umgangast byssur á bænum hjá afa sínum. En honum leið aldrei vel innan um þær. Hann kunni illa við þá tilfinningu sem helltist yfir hann er hann handlék þær.  

-Hvað …

-Uss, sagði Fjalar hvasst.

Eftir nokkra stund leit Fjalar á Njörð og hvíslaði:

-Ég heyri ekki lengur í honum. Hann hlýtur að hafa villst. Eða hann bíði þarna í myrkrinu eftir okkur. Bíður eftir að við hættum að fylgjast með honum.

-Hver?

-Hundurinn. Hann var að leita að okkur. Ég hélt hann myndi birtast í ganginum hvað úr hverju. Ertu búinn?

-Hundurinn!? Um hvað ertu að tala?

-Litla, gula hundinn.

Njörður starði um stund á Fjalar. Hann var ekki viss um að Fjalar væri með réttu ráði. Það var eins og hann væri í allt öðrum heimi.

-Ertu búinn, spurði Fjalar.

-Já, með hurðina, nú þurfum við að fara inn í lestina og lokka veruna fram. Hvar fékkstu þessa byssu?

Fjalar leit á litla, svarta hlutinn í hönd sinni eins og hann gerði sér ekki grein fyrir því hann væri þar.

-Betra að vera við öllu búinn, sagði hann loks og stakk byssunni aftur í vasann. Njörður horfði um stund á Fjalar og velti því fyrir sér hvort hann ætti að senda hann aftur upp á þilfar.

Njörður ákvað að hugsa ekki meira út í það að svo stöddu, heldur sneri sér aftur að dyrunum og bjóst til að opna þær. Þá var sem skipið hallaði skyndilega óþægilega mikið, svo hann varð að grípa í sveifina á hurðinni til að halda jafnvægi.

-Hvað var þetta eiginlega, spurði Fjalar.

Njörður svaraði honum engu. Það læddist að honum skelfilegur grunur og hann vissi, ef hann myndi deila honum með Fjalari væri allar líkur á því að hann myndi missa stjórn á sér.

-Við skulum flýta okkur, sagði hann og sneri sveifinni. Hlerinn opnaðist inn í lestina og við þeim blasti sérkennileg sýn. Lestin var öll þakin þessari undarlegu rauðu himnu. Hún lá eins og þykkt teppi yfir öllu. Um leið gaus upp sami fnykur og þeir höfðu fundið í messanum, stækja sem kallaði fram myndir af kirkjugörðum og rotnandi líkömum marrandi í hálfu kafi í maðkétnum, fúnum kistum. Hún kæfði vit þeirra og um stund fannst Nirði sem hann næði ekki andanum.

-Guð minn eini, sagði Fjalar og greip fyrir andlit sitt. Úr augum hans skein hversu viðbjóðsleg honum þótti þessi sýn. Undarlega birtu stafaði frá himnunni og jók enn á þann sjúklega blæ sem yfir öllu var. Hvað ætli hafi gerst hérna, hvað er þetta eiginlega, hugsaði Njörður með sjálfum sér.

Hann lokaði augum og dró andann djúpt. Þetta þurfti að gera, sama hvað allri lykt leið. Hann herti upp hugann, beygði sig niður og lét tóma skálina milli stafs og hurðar. Síðan steig hann yfir dyrakarminn. Fjalar fylgdi í humátt á eftir honum og saman gengu mennirnir inn í miðja lestina. Þar opnaði Njörður bakpokann og dró upp úr honum stóran poka með svörtu dufti og annan svipaðan minni.

-Hvað er þetta, spurði Fjalar.

-Mulin grillkol og brennisteinn. Ég ætla biðja þig um að taka kolin og búa til ágætan hring með þeim. Það væri ágætt ef þú skærir bara lítið gat á pokann og létir renna nokkuð jafnt úr honum. Það skiptir hins vegar gríðarlega miklu máli að hringurinn sé hvergi brotinn. Gættu samt að því að geyma örlítið eftir, ég þarf líka að nota kolin í annað. 

-Ekkert mál, svaraði Fjalar og tók við pokanum. Hann gerði eins og Njörður bað um. Sjálfur fór Njörður ofan í kolahringinn með brennisteininum. Hann lét síðan afganginn úr hvorum poka í haug í miðjum hringnum. Því næst tók hann upp síðustu hlutina úr bakpokanum, kveikivökva, gamalt dagblað, kveikjara, egg, hrafnsfjöður, trébút, útskurðarhníf, sprautunál og sprautu. Allt lagði hann snyrtilega fyrir framan sig. Þegar hann tók eftir svipnum á andliti Fjalars gat hann ekki varist brosi og sagði:

-Ekki einu sinni spyrja, það tekur of langan tíma að útskýra þetta allt saman.

Hann tók upp kveikilögurinn og rétti Fjalari.

-Ertu ekki til í að bleyta vel í kolunum?

Án þess að svara tók hann við brúsanum. Á meðan Fjalar sprautaði eldfimum vökvanum yfir duftið vakti Njörður sér blóðs í öðrum lófanum og lét dropa í dufthauginn í miðjunni. Síðan tók hann upp sprautuna og nálina og fyllti hana blóði sínu. Þá teygði hann sig í eggið og ofurvarlega boraði gat á skurnina með nálinni. Hann fann undir eins breytingu á lyktinni í kringum hann, sterkan og fúlan óþef lagði úr egginu. Því næst sprautaði hann blóðinu í eggið, en gætti þess að gera það ekki of hratt svo að skurnin myndi nú ekki brotna. Þegar Njörður hafði lokið þessu sá hann hvar Fjalar stóð fyrir aftan hann og fylgdist með. Á andliti hans var undarleg gretta, sem gaf greinilega til kynna hversu honum fannst um aðfarir Njarðar, sem lét sér hins vegar fátt um finnast og benti á dagblaðið.

-Taktu blaðið og kveikjarann. Þú þarft að kveikja upp í haugnum en byrjaðu fyrst á því að bera eld að hringnum. En sama hvað gerist, og hlustaðu nú vel, sama hvað gerist þá máttu ekki fara út fyrir hringinn fyrr en ég gef þér merki. Skilurðu þetta, sama hvað gerist, sagði hann ákveðið.

-Já, svaraði Fjalar og náði í hlutina sem Njörður hafði sagt honum að nota. Innan tíðar logaði eldur glatt allt í kringum þá. Njörður kastaði egginu í þann sem brann í miðjunni. Samstundis fengu logarnir á sig grænleitan blæ en litur þeirra lifði stutt. Hins vegar steig upp undarlega sætur ilmur og hékk yfir mönnunum tveimur. Njörður náði í trébútinn og útskurðarhnífinn. Hann settist á hækjur sér við eldinn og tók að skera út í viðinn flókinn en kraftmikinn galdrastaf. Hann lét spænina falla í eldinn og þuldi um leið vísu sem eignuð var Agli Skallagrímssyni.

-Skalat maðr rúnar rista,

nema ráða vel kunni.

Það verðr mörgum manni,

er of myrkvan staf villist.

Sá eg á telgdu tálkni

tíu launstafi ristna.

Það hefr lauka lindi

langs oftrega fengið.

Hann vandaði sig við að skera út galdrastafinn. Hann samanstóð af þremur mjög kröftugum rúnum og hann þurfti að vekja kraft hverrar fyrir sig. Fyrst ákallaði hann þursinn.

-Þurs er kvenna kvöl

og klettabúi

og varðrúnar ver.

Saturnus þengill.

Njörður fann hvernig það var sem kaldur gustur færi um hann. Hann fylltist spennu og það spratt fram sviti á enni hans. Næst var að draga fram kraft ássins.

-Óss er aldingautur

og Ásgarðs jöfur

og Valhallar vísi.

Júpíter oddviti.

Hárin á hnakka Njarðar risu og hann fékk gæsahúð. Hann var viss um að stafurinn sem var að myndast á trébútnum væri byrjaður að draga í sig kraft. Þursinn og ásinn tókust á og við það losnuðu gríðarleg öfl úr læðingi. Þá var komið að síðustu rúninni, þeirri sem Njörður vonaði að ljóðmælandi Hávamála hafði notað til að vekja upp virgilnáinn, rúnina Tý.

-Týr er einhendur áss

og úlfs leifar

og hófa hilmir.

Mars tiggi.

Rúnin var tilbúin.

 

run2

 

Hann skoðaði galdrastafinn um stund en teygði sig síðan í hrafnsfjöðrina og stóð á fætur. Hvoru tveggja hélt hann yfir eldinum og þuldi síðasta kvæðið, en jafnframt öflugustu særingu sem hann hafði fundið:

-Þurr sárriþu,

þursa dróttinn,

fliú þú nú!

Fundinn estu.

 

Haf þǽr þríarr

Þráarr, ulf!

Haf þǽr níu

Ńøþirr, ulf!

 

Hann reyndi eins og hann gat að bera fram orðin rétt, en það var erfitt enda veit enginn með vissu hvernig mörg þessara orða voru borin fram til forna.

Loks lét Njörður trébútinn falla í eldinn ásamt hrafnsfjöðrinni. Eldurinn brann glatt og loftið í lestinni var orðið mettað reyk. Hann sneri sér við til að láta Fjalar vita að hann væri búinn.

-Fja...Jesús Kristur!


Þoka

Kl. 20:40

 

Fjalar leiddi Njörð niður að dyrunum í lestina. Þegar þeir fóru að færa sig neðar í skipið varð stækjan sterkari og meira kæfandi. Allt var dauðahljótt, nema ef vera skyldi bergmál fótataka þeirra.

Hann teygði sig í sveifina sem hélt hleranum inn í lestina aftur, en Njörður stoppaði hann. Njörður tók af sér bakpokann og opnaði. Upp úr honum tók hann pokann sem Fjalar hafði fengið hjá Blóðbankanum. Fjalar mundi vel eftir þeim tíma þegar blóðið var geymt í flöskum, áður en plastpokarnir leystu þær af hólmi. Móðir hans hafði verið ein af hjúkrunarfræðingunum sem unnu með dr. Níels Dungal þegar Blóðbankinn opnaði fyrst í kjallara Landspítalans. Fjalar hristi höfuðið, það voru mörg síðan hann hafði hugsað til móður sinnar. Hann hafði farið og lagt kerti á leiði hennar á jólum og öðrum hátíðisdögum, finndi hann til þess tíma. Það hafði reyndar ekki gerst í nokkur ár og því kom það í hlut eiginkonu hans að sinna því hlutverki. Minning móður hans náði á undraverðan hátt að leiða huga Fjalars að einhverju öðru en því verkefni sem lá frammi fyrir mönnunum tveimur. Hann vissi af gula hundinum uppi á dekki og sú vitneskja nagaði hann, dró úr honum allan mátt þegar hann hugsaði til þess, honum leið eins og eitthvað slökkti á hugsun hans, tilfinningum og vöðvum. Hvað var það við þennan hund? Hvernig stóð á því að þetta pínulitla hundspott skelfdi hann svo?

Njörður var sestur niður og lét blóð renna hægt í litla skál. Fjalar hafði litla sem enga hugmynd um hvað Njörður ætlaði sér að gera, það skipti svo sem ekki höfuðmáli. Það sem var mikilvægt, var að lokka fram geðsjúklinginn eða hvað það var nú sem stóð fyrir þessu öllu saman, - morðingjann eða veruna. Hann hafði hugsað sér að binda endahnút á rannsóknina, ef Nirði tækist að draga fram hvern þann sem stæði fyrir þessu, og sá hnútur yrði rammlega hnýttur.  

Fjalar leit aftur fyrir sig. Hann hafði sterklega á tilfinningunni að einhver væri nú þegar á hælum þeirra. Eftir að þeir yfirgáfu messann hafði hann einu sinni heyrt eitthvað undarlegt hljóð, ekki ósvipuðu því sem hann heyrði uppi á þilfari. Honum fannst sem það léki kaldur gustur um líkama hans þegar hann hugsaði út í þetta. Var þetta sami hundur og hann hafði séð fyrr í vikunni? Skyldi Guðbjörg hafa einnig séð hann? Hvers vegna óttaðist hann svo þennan hund? Hvað með það þó Guðbjörg hafi rekið augun í svipaðan hund áður en hún hvarf ofan í skipið? Skyldu hinir myrtu hafa orðið varir við eitthvað svipað?

-Jæja, þá er þetta klárt, sagði Njörður og virtist frekar vera að tala við sjálfan sig en Fjalar. Njörður var búinn að tæma úr blóðpokanum í skálina. Fjalar tók eftir nokkrum kekkjum í rauðum vökvanum.

-Hvað er þetta?

-Ég lét konsentrat, - eða öllu heldur safa úr blöðum Belladonna út í blóðið ásamt muldu kjálkabeini úr ketti.

-Muldu kjálkabeini úr ketti? Hvar komstu yfir það?

Njörður virtist ekki heyra spurningu Fjalars, heldur tók upp hvítan trélit. Hann teiknaði á dyrnar fyrir framan sig einhver undarleg tákn, meðal annars það sem hann hafði séð á myndinni úr skipinu. Fjalar fylgdist hljóður með. Þegar hann hafði lokið við að teikna merkin tók hann fram skálina. Blóðið var ekki lengur rautt í henni, heldur hafði tekið dekkri lit, var nú orðið rauðfjólublátt. Fjalar leit undrandi á Njörð, sem hélt ótrauður áfram.

-Elon, Elon lamazabatani, Deus meus, Deus meus, ut quid dereliguisti, et M agios theos Maria me hael, cherubim et seraphim benedi, þuldi Njörður upp um leið og hann lét vísifingur ofan í skálina. Síðan dró hann fingurinn eftir hvítu strikunum á hurðinni. Fyrst byrjaði hann á einhverju undarlegu stafarugli, sem hann hafði skrifað efst á hægra horn hlerans.

 

S A T O R

A R E P O

T E N E T

O P E R A

R O T A S

 

Um leið söng hann og tónaði eins og prestur:

-Sathan operator te, operator te Sathan.

Um leið og hann sleppti síðasta orðinu kipptist skipið til og skrokkur þess nötraði allur og skalf. Fjalar féll aftur fyrir sig og skall í hörðu gólfinu. Hann stóð fljótlega aftur á fætur og fullvissaði Njörð um að það væri í lagi með sig.

Þegar skjálftinn var liðinn hjá hélt Njörður áfram. Fjalar hallaði sér upp að öðrum veggnum og nuddaði á sér hnakkann, hann hafði skollið óþægilega niður og rekið höfuðið í. Hann renndi fingrunum yfir hnakkann. Þegar hann leit á þá tók hann eftir að þeir voru blóðugir.  

Skyndilega heyrði hann hljóðið aftur. Það nálgaðist. Einhver var að koma. Hann heyrði hvernig það var sem væri gengið á fótum með hvössum klóm eftir járngólfinu. Allt í einu var sem höfuð hans ætlaði að springa, æðarnar þöndust út og höfuðverkurinn skall með fullum þunga. Fjalar greip um höfuð sitt, honum fannst sem það myndi bresta eða jafnvel springa eins og blaðra. Hann varð að gera eitthvað, varð komast út. Hundurinn var að koma!

-Hann er að koma, fljótur, sagði hann.

Njörður dýfði enn fingri ofan í vökvann og dró hann eftir táknunum sem hann hafði teiknað á hurðina.

 

P

A

A        T         O

E

R

PATERNOSTER

O

S

A        T         O

E

R

 

Um leið söng hann:

-Consumatum est Eloy Eloy lama zabatani Deus meus Deus meus ut qui dereliquisti me Sator arepo tent opera rotas Christus vincit Christus regnat Christus imperat In nomine pater et fili et spiritus sankti.

Aftur fór mikill skjálfti um skipið. Fjalari var hætt að standa á sama. Hann heyrði enn hljóðið nálgast. Hundurinn fór ekki hratt yfir en hreyfing skipsins hafði ekki mikil áhrif á hann. Njörður var í eins konar leiðsluástandi. Hann sat sem fastast og ekkert virtist geta truflað hann.

-Flýttu þér, sagði Fjalar og leit óttafullur aftur fyrir sig. Hann var viss um að á hverri stundu myndi hundurinn koma í ljós. Hann reyndi að leiða hugann að einhverju öðru en höfuðverknum og hundinum, en það gekk illa, hann átti allt eins von á því að heili sinn myndi þá og þegar þröngva sér út um eyru hans og leka niður á axlir hans svo ákafur var verkurinn.

Njörður hrærði upp í skálinni og dýfði vísifingri á ný ofan í hana. Þá dró hann fingurinn eftir síðasta merkinu, sem var það sama og var á myndinni af dr. Berger.

 

stjarna

Fjalar sneri sér við og fylgdist með hinum enda gangarins. Hljóðið færðist hægt en ákveðið nær. Hann tók skammbyssuna upp úr vasanum. Í fljótheitum athugaði hann hvort skotin væru ekki örugglega öll enn á sínum stað. 

-Ego sum Alpha et Omega principum et finis dicit Dominus Deus qui est et qui erat et qui venturus est Omnipotens, söng Njörður fyrir aftan hann. Um leið og hann sleppti síðasta orðinu varð allt hljótt. Fjalar hélt niðri í sér andanum og beið drykklanga stund. Hvað ætli hafi orðið um hann, hugsaði Fjalar með sér. Ætli hann bíði þarna úti í myrkrinu? Sitji og stari á okkur sínum kolsvörtu augum? Bíði eftir fullkomnu tækifæri til að ráðast gegn þeim?

Fjalar hristi höfuðið og reyndi að telja sjálfum sér í trú um að þessi ótti hans væri ekki á rökum reistur og í raun kjánalegur. Hann gæti vel tekist á við hundræksnið, svona lítill hundur og hann hafði nú áður þurft að fást við lausa hunda. En það var samt eitthvað við þennan hund, eitthvað svo framandi og skelfilegt en samt ævafornt. Grimmd hans var gott sem áþreifanleg og einhvern veginn vissi Fjalar að ef hann myndi hitta hundinn fyrir aftur myndi hann ekki sleppa jafn auðveldlega og síðast. Þetta vissi hann en hann hafði ekki hugmynd um hvernig.  


Þoka

Kl. 20:10

 

Um hvað er hann að tala, hugsaði Njörður með sjálfum sér um leið og hann reyndi að heyra þetta hljóð. En hann varð ekki var við neitt nema daufan umferðarnið í fjarska. Hann leit á Fjalar, sem var óvenjulega fölur, hafði tekið svo nábleikan hörundslit að bláar æðar voru sýnilegar undir kjálkabeininu, varirnar þunnar og blóðlitlar, sjáöldrin útþanin og augun blóðhlaupin, starandi augnaráðið tryllingslegt. Kannski var ekki sniðugt að hafa Fjalar með, hann var auðsýnilega ekki nógu vel á sig kominn andlega. Eflaust hafði rannsóknin og atburðir undanfarna daga náð til hans, kannski sú tilhugsun að vera einn af fáum eftir sem höfðu eytt einhverjum tíma um borð í þessu skelfilega skipi. Þá vitneskju eina og sér er eflaust ekki auðvelt að bera, hvað þá rannsókn sem þessa, á herðum sér. 

-Jú, það er þarna ennþá, sagði Fjalar og Njörður fann hvernig óttafullur rómur hans lék um eyru sín eins og nákaldar krumlur.

-Guð minn góður!

Njörður leit þangað sem Fjalar starði en sá ekkert. Hvað skaut honum svo miklum skelk í bringu? Hann ætlaði að spyrja Fjalar en er hann sneri sér að honum sá Njörður hvar Fjalar hvarf inn í skipið.

-Heyrðu, bíddu eftir mér.

Hann hljóp á eftir Fjalari en átti erfitt með að fóta sig í bröttum stiganum sökum þess hve lengi augu hans voru að venjast myrkrinu sem þar var. Er hann kom niður á ganginn sá hann hvar ljósgeisli stóð út um einar dyr. Hann flýtti sér þangað og fann Fjalar þar, inni í messanum. Hann stóð stjarfur og starði upp í loftið.

-Hvers vegna hljópstu á undan mér, spurði Njörður en Fjalar svaraði honum engu. Njörður gekk að honum og leit upp í loftið fyrir ofan hann. Loftið var þakið einhvers konar rauðri þekju.

-Hvað er þetta, spurði Njörður. Þessi rauða himna var ólík öllu sem hann hafði nokkurn tíma séð eða heyrt um. Það var sem einhvers konar hreistur eða húð af einhverju tagi hefði myndast á járninu.

-Ég veit það ekki. Þetta var ekki svona síðast, svaraði Fjalar tómlega. Það var sem hann væri í einhvers konar leiðslu, hann einblíndi upp fyrir sig og rödd hans var eintóna og hljómlaus, í augum hans var einhver grá slikja. Njörður steig upp á bekk og tók fram húslyklana. Síðan dró hann einn þeirra eftir rauðu himnuna. Um leið lék allt á reiðiskjálfi í skipinu. Njörður mátti hafa sig allan við til að halda jafnvæginu. Fjalar, sem virtist hálfpartinn koma til sjálfs sín, leit undrandi á Njörð.

-Hvað gerðist eiginlega, spurði hann. Njörður svaraði engu, heldur starði þangað sem lykillinn hafði skorið í himnuna. Svörtum, þykkum og slímkenndum vökva blæddi úr sárinu. Sterkan fnyk lagði úr því, eins og frá rotnandi hræi. Njörður fann hvernig honum vöknaði um augun og ósjálfrátt bar hann hönd að vitum sínum. Hann leit á Fjalar sem hristi höfuðið og benti honum á að koma út. Njörður ákvað þó að taka sýnishorn af vökvanum. Hann teygði sig aftur upp og lét lítinn dropa falla á einn lyklanna. Honum til mikillar undrunar virtist vökvinn brenna sig í gegnum lykilinn, áhrifin voru ekki ósvipuð þeim sem sterk sýra hefur.

-Hvað er þetta eiginlega, spurði Fjalar þegar Njörður skilaði sér út úr messanum. Njörður skaut augum aftur þangað inn.

-Ég veit það ekki, hef sannast sagna ekki hugmynd um það.

Eftir stutta umhugsun bætti hann síðan við:

-Ég veit það bara ekki. Þetta skip er stórfurðulegt, svo ekki sé meira sagt. Hvað svo sem það er, þá kallar það fram mjög undarlegar tilfinningar. Það er eitthvað sem er ekki eins og það á að vera, eitthvað ónáttúrulegt. Þetta er ekki eðlilegt, langt frá því.

-Ég skil hvað þú átt við.

Njörður leit upp og tók þá eftir að svipað var farið þar og inni í messa. Blóðrauð himna lá í loftinu og náði á sumum stöðum niður veggina einnig. Hann hnippti í Fjalar og benti honum á þetta.

-Hvað ætli þetta sé eiginlega, sagði Njörður og færði sig nær. Hann renndi fingri yfir hrjúft yfirborðið.

-Það er næstum eins og skipið sé búið að mynda einhvers konar húð, bætti hann síðan við.

-Húð?

-Já, þetta er einhvers konar húð. Ég skar í þetta með lykli áðan og það lak úr sárinu slímkenndur vökvi. Þú sást það, ekki satt?

-Jú.

-Þekkirðu eitthvað til plantna? Gæti þetta verið einhver plöntutegund? Kannski einhvers konar mosi?

Fjalar reyndi að brosa.  

-Nei, ég get ekki sagt það.

-Ég hef reyndar ósköp lítið vit á slíku, það getur vel verið að þetta sé einhver undarlega mosaflækja eða einhver tegund sem við höfum ekki hér á landi. Ég hef að minnsta kosti ekki séð neitt þessu líkt áður.

Þeir stóðu um stund og þögðu. Njörður var nokkuð viss um að þetta væri ekki einhver planta, það gat bara ekki verið. Njörður kúgaðist þegar hann hugsaði aftur til lyktarinnar og það fór hrollkippur um líkama hans. Fjalar virtist taka eftir því.

-Er ekki í lagi með þig, spurði hann.

-Jú, höldum bara áfram.


Þoka

Kl. 20:25

 

Fjalar tók fram vasaljós og kveikti á því. Hann fann hvernig það var sem maganum á honum hefði verið snúið á hvolf, kaldur sviti spratt fram á líkama hans og höfuðverkurinn, sem hafði ásótt hann undanfarna daga, var að æra hann. Uppi á þilfarinu var svipað umhorfs og fyrir tæpri viku síðan. Flest sem ryðgað gat var fyrir löngu búið að taka rauða litinn. Aðeins einstaka skella hér og þar sem gaf til kynna hvernig skipið hafði litið út þegar það var upp á sitt besta. Um leið og þeir stigu um borð í skipið var sem borgin hyrfi, aðeins eitt og eitt ljós náði í gegnum móðuna sem umlukti það og borgina. Ljósin minntu Fjalar á fljótandi augu, sem störðu á hann og fylgdust með hverju skrefi hans.

Skyndilega helltist yfir Fjalar svipuð tilfinning og þegar hann lenti í atvikinu með hundinn. Eins og eitthvað væri þarna úti í þokunni, eitthvað óeðlilegt og ónáttúrulegt, - eitthvað handan þessa heims. Hann snerist í kringum sjálfan sig og reyndi að lýsa út í mistrið en kom ekki auga á neitt óvenjulegt. En einhvers staðar þarna úti, hulið, beið það, eins ógnvænlegt og óumflýjanlegt og hauslausi reiðmaðurinn í sögu Washington Irving. Var hann þá í svipuðum sporum og Ichabod Crane? Vinstri hönd Fjalars leitaði að hálsmeninu sem Njörður hafði látið hann hafa, ósjálfrátt strauk hann yfir ópússaðan viðinn og fann hvernig fingurgómarnir gældu við grófar rúnirnar.

Fjalar gekk yfir þilfarið að borðstokkinum. Sjórinn lá kolsvartur og lygn fyrir neðan, litur hans minnti hann á blóð í tunglsljósi. Einhver kuldahrollur gagntók Fjalar er hann sá fyrir sér skipið fljóta í risastórum blóðpolli. Hann hafði eitt sinn komið að líki ungs manns sem hafði kastað sér ofan af þaki háhýsis, höfuð hans hafði hálfpartinn sprungið við að lenda á gangstéttinni og heilinn hreinlega lekið út ásamt ótrúlegu magni af blóði. Það var um miðja nótt og blóðið fékk á sig undarlega dökkan lit í björtu mánaskininu.

-Er ekki allt í lagi, spurði Njörður.

-Hvað? Jú, ég var bara að hugsa, svaraði Fjalar og sneri sér við.

-Eigum við ekki að drífa okkur niður?

Fjalar jánkaði. Hann renndi annarri hendinni niður eftir síðunni uns hann fann móta fyrir hörðum hlut í jakkavasanum. Fjalar gekk í humátt á eftir Nirði á meðan fingur hans gældu við hlutinn í vasanum. Honum leið sumpart betur af því að handfjatla hann, viðarklætt skaftið og hlaupið veittu honum ákveðið öryggi. Hann var ekki vanur að ganga með skotvopn á sér en Fjalar ætlaði sér að ganga úr skugga um að morðinginn eða veran kæmist ekki undan. Það var eitthvað við frásögn Njarðar og Vigdísar, konu Gríms, sem ollu honum heilabrotum. Hvers vegna ekki, hafði hann spurt sjálfan sig. Þar sem allt annað hafði brugðist, þær fáu vísbendingar sem höfðu fundist voru villandi og leiddu ekkert nýtt í ljós, hvers vegna ekki þá að reyna eitthvað nýstárlegt, eitthvað öðruvísi? Sérstaklega í ljósi þess að ýmislegt hafði gerst undanfarna daga sem hann gat ekki útskýrt á neinn vitrænan hátt fyrir sjálfum sér, til dæmis þetta með þennan hund. Kannski að Nirði tækist að lokka fram morðingjann. Það er óskandi, hugsaði Fjalar með sér, að þetta gangi upp. Hann var illa sofinn, hann fann hvernig orka sín varð minni með hverjum degi. Hvert sem Fjalar leit sá hann undarlega skugga og var viss um að hver sem morðinginn væri þá yrði hann næsta fórnarlamb, - nema hann yrði einfaldlega fyrri til. Hann hafði búið svo um hnútana að þrír lögreglubílar biðu merkis frá honum. Ef morðinginn léti sjá sig ætlaði hann ekki að láta þetta tækifæri sér úr greipum renna, en skyldi ekkert verða úr þessu þá varð þetta þó tilraunarinnar virði. Þrátt fyrir að hugmynd Njarðar væri fáránleg og í raun út í hött, þá vonaði hann engu að síður að þetta tækist. Því þegar allt kom til alls þá hafði franska lögreglan á sínum tíma fangað morðingjann um borð og ef einhvern lærdóm væri hægt að draga af óröklegri frásögn Guðbjargar var hann sá að hún hafði komist í tæri við morðingjann eða veruna um borð.   

Skyndilega heyrði hann undarlegt hljóð. Eins og þegar einhver gengur á mannbroddum yfir ísilagða braut. Taktfast og nálgaðist hægt. Hann leit í kringum sig.

-Heyrirðu þetta, hvíslaði hann að Nirði. Njörður leit á Fjalar.

-Hvað áttu við? Heyri ég hvað?

-Suss. Hlustaðu.

Þeir stóðu þögulir og horfðu hvor í sína átt út í þokuna. Fjalar heyrði hljóðið enn nálgast.

-Heyrirðu það ekki?

-Ég veit ekki um hvað þú ert að tala. Hvað er það sem ég á að heyra?

-Hljóðið. Það er einhver þarna úti sem nálgast.

-Ég heyri ekkert, sagði Njörður og starði með undrunarsvip á Fjalar.

-Jú, það er þarna ennþá.

Fjalar steig ósjálfrátt eitt skref aftur fyrir sig. Það var einhver þarna úti, hulinn þoku. Hann reyndi að rýna út í mistrið en allt kom fyrir ekki. Sama hve hann reyndi þá gat hann ekki séð hver var þarna. Hljóðið nálgaðist. Fjalari fannst sem því fylgdi einhver kunnugleg tilfinning, blanda af ótta og undrun. Hann snerist í kringum sjálfan sig og beindi vasaljósinu út í myrkrið. Síðan var eins og sá sem var þarna úti hægði á sér. Þá var eins og það rynni upp fyrir Fjalari. Hundurinn.

-Hann er að koma, sagði hann lágt. Fjalar hljóp eins hratt og fætur toguðu inn í skipið.


Þoka

Kl. 20:05

 

Ljósastaurarnir vörpuðu fölri birtu niður á höfnina en megnuðu ekki að skína í gegnum þokuna nema rétt í kringum sig. Birta þeirra myndaði einmanalegar keilur og í einni þeirra stóð Njörður og beið eftir Fjalari. Þeir höfðu sammælst um að hittast við skipið um klukkan átta. Hafnarbakkinn virtist yfirgefinn og enginn var á ferli í kvöldmyrkrinu. Hvorki mávahlátur né kattabreim rauf þá grafarþögn sem virtist umlykja skipið, þar sem það lá bundið. Hann leit á armbandsúr sitt órólegur, það hafði hann fengið í stúdentsgjöf frá móður sinni. Klukkan var sjö mínútur yfir, Fjalar var of seinn þó ekki munaði nema örfáum mínútum. Nirði líkaði illa að bíða eftir fólki. Í hvert sinn sem Njörður andaði frá sér var sem reykjarský myndaðist við vit hans, ský sem síðan rann saman við hvítt þokumistrið. Hann fann hvernig kuldinn skreið upp eftir bakinu, engu að síður fann Njörður að hann var farinn að svitna. Hvað ef þetta gengur ekki upp, spurði hann sjálfan sig.

Loks mátti greina dauft fótatak einhvers staðar í mistrinu og innan tíðar tóku útlínur Fjalars að greinast frá þokunni, urðu fyrst að dökkum skugga sem dróst nær uns hann var orðinn sýnilegur. Njörður leit aftur á úrið.

-Tíu mínútur, sagði hann lágt við sjálfan sig og reyndi að láta þessa töf ekki fara í taugarnar á sér. Hann beygði sig niður og tók upp rauða bakpokann, sem lá við fætur hans.

-Þú ert seinn, sagði hann við Fjalar.

-Já, þú afsakar, svaraði Fjalar. Hann var klæddur í dökkan jakka og gallabuxur og hélt á ómerktum hvítum plastpoka. Njörður hafði aldrei séð hann án þess að vera í lögreglubúninginum og ef hefði ekki verið fyrir bústinn líkamsvöxt hans hefði Njörður eflaust ekki séð strax hver var þarna á ferðinni.

-Fékkstu allt?

-Já, en það var ekki auðvelt. Það er einmitt þess vegna sem ég er seinn. Það tók heillangan tíma að sannfæra þau í Blóðbankanum.

-Hvað létu þau þig hafa mikið?

-Einn lítra.

-Það ætti að nægja.

Fjalar rétti Nirði plastpokann, sem opnaði hann og kíkti ofan í. Ofan í pokanum lá annar poki, fullur af blóði.

-Þori ég að spyrja hvað þú ætlar að gera við allt þetta, spurði Fjalar.

-Nei, svaraði Njörður blátt áfram en bætti síða við:

-Því minna sem þú veist, því betra. Þú þarft að hjálpa mér, ég segi þér til um hvert þitt hlutverk er þegar þar að kemur en það væri mun fljótlegra og betra ef þú létir allar spurningar bíða þar til við erum búnir.

Fjalar horfði um stund á Njörð en kinkaði síðan kolli. Njörður reyndi að brosa til hans. Hann beygði sig niður og opnaði bakpokann. Upp úr honum dró hann hálsmen, sem samanstóð af leðuról og litlum trébúti. Á trébútana höfðu verið ristar tvær rúnir.

 

 

merki2

 

 

-Þetta eru verndarrúnir. Ef þú verður verunnar var, reyndu að sjá til þess að þú sjáir hana áður en hún sér þig, sagði Njörður. Fjalar tók við hálsmeninu og setti á sig. Án þess að segja orð gengu þeir að landganginum, þar sem þeir stöldruðu við. Skipið virtist bíða þeirra og einhverra hluta vegna var Njörður sannfærður um það vissi mæta vel af þeim, hvernig svo sem það mátti vera. Það var bara eitthvað við þetta dökka og skuggalega skip sem var undarlegt og ólíkt öllu sem hann hafði nokkurn tíma séð, heyrt eða upplifað. Þegar hann horfði á það leið honum eins og hann hefði fundið mánaðargamlan matarbita, löngu gleymdan og myglaðan langt umfram að hægt væri að bera nokkur kennsl á hann, ekkert eftir nema grænn, viðbjóðslegur klumpur. Eins og þetta skip.

-Ertu trúaður, hvíslaði Njörður að Fjalari.

-Ja, eins og mér er unnt. Af hverju spyrðu?

-Gott. Ég ætla biðja þig um að hafa eftir mér þulu.

Fjalar samþykkti það.

-Jesus Christus, Emanuel: pater et Domine. Deus meus Zebaoth, Adonaí, Unitas, Trinitas, Sapientia,: via, vita, manus, Homo, usiono, Caritas et terus, Creator, Redemtor, Suos, Finis, unigienitus, Fons, Spes, imas et tu Ergomanus, Splendor, Lux, Grammaton, Flos, Mundus, imasio, paracletus, Columba, Corona, prophetas, Humilas, Fortissimus, Atanatos, Kÿrias, Kÿrios, Kÿrieleison. Imas, Lux tua, Grammaton, Caput, Alpha et primo Genue, isus, Agnus, ovis, Vitulos, Serpens, Leo, Vermus, unus Spiritus Sanctus, Helio, Heloj, Lamasabactani, Consummatum est, inclinate capite, Spiritus, Jesus vincet, Jesus imperat, Redemtor, Deus Abraham, Deus Isaac, Deus Jacob.

Uriel, Tobiel, Geraleel, Raphael, Michael, Cherubin, Cheraphin, Caspar, Fert miram, Melciorus, Balthasar, Aurum, et triva nomi, quis Super pontativ, Solvetor, Avisibet, petate, Adam, Eva, Jesus Nazarenus, Rex judiorum, Jesus Christus fili Dei, Misere mei.

Petrus, Andrias, jacobus, johannes, Philippus, Bartholomeus, Simon, judas, Matthias, Lucas, Paulus, Barnabas. Qui me Defendit a Canibus, in manus Comentuum Spiritum meum, Redemisti meum Verita tue Amen.

Þegar þeir höfðu lokið að þylja þetta upp leit Fjalar á Njörð og spurði:

-Hvaða þula var þetta?

-Henni er ætlað að verja okkur. Við vorum að kalla Guð, engla hans og alla lærisveinana til liðs við okkur og fara fram á hjálp þeirra.

Fjalar kinkaði kolli og þeir héldu áfram upp landganginn.


Þoka

Jæja, nú fer að líða að undir lok sögunnar. Mér telst til að rétt um 10 færslur séu eftir. 

 

Kl. 15:40

 

Þegar Fjalar sneri aftur á lögreglustöðina beið Njörður hans frammi í anddyri. Fjalar benti honum að fylgja sér inn á skrifstofu. Fjalar fékk sér sæti við skrifborðið og horfði á Njörð loka dyrunum og setjast á móti honum. Fjalari virtist Nirði vera nokkuð niðri fyrir, hann var eins og smástrákur sem gat ekki beðið eftir því að segja móður sinni frá því sem hafði gerst í skólanum. Fjalar hallaði sér aftur í stólnum.

-Jæja, hvernig gengur?

-Ég held, sagði Njörður, en kláraði ekki setninguna. Hann starði um stund þögull á Fjalar. Að lokum sagði hann:

-Ég heyrði í útvarpsfréttum að einhver hafi myrtur í nótt?

Fjalar kinkaði hægt kolli og lokaði augunum.

-Hver?

-Einn úr rannsóknarlögreglunni.

-Lögreglunni!?

-Já.

-Hvernig … ég meina, hvers vegna? Tengist það þessu?

-Já.

-Jesús minn eini, ætlar þessu aldrei að linna?

Fjalar svaraði engu en leit á Njörð. Honum virtist nokkuð brugðið og örsmáar svitaperlur höfðu sprottið fram á enni hans.

-Hvernig?

-Hvernig hvað, svaraði Fjalar.

-Hvernig tengist þetta morðmálinu?

-Á sama hátt og öll hin morðin. Allir hinir myrtu hafa komið um borð í þetta bölvaða skip.

-Ja, hérna. Vitið þið hverjir hafa farið um borð?

-Já, svona nokkurn veginn.

-Og vaktið þið ekki þá einstaklinga?

-Jú, þeir eru undir eftirliti. Reyndar flestir úr lögreglunni eða Landhelgisgæslunni. Þór er kominn langt norður fyrir land og þar um borð eru flestir þeirra sem fóru fyrst um borð, afgangurinn er að undanskilinni Guðbjörgu lögreglumenn og það hefur verið rætt við þá og félaga þeirra.

-Guðbjörg, þarna fréttakonan, er það ekki? Hefur hún farið um borð líka?

-Já.

-En hún er ennþá á lífi, ekki satt?

-Jú, jú. Hún er reyndar á spítala eins og er.

-Merkilegt, sagði Njörður hugsi.

Fjalar stóð á fætur og greip kaffibollann sinn af borðinu. Hann gekk fram, fyllti bollann af kaffi og annan til. Þegar hann sneri aftur inn á skrifstofuna rétti hann Nirði annan bollann en settist aftur í sætið sitt og saup á heitum vökvanum.

-Mér sýndist þér ekki veita af einum bolla eða svo.

Njörður þakkaði fyrir og fékk sér sopa.

-Jæja, snúum okkur aftur að þér og rannsóknum þínum, Njörður. Segðu mér nú frá hvers þú hefur orðið vísari.

Njörður lagði bollann frá sér á borðið og tók upp skrifblokk úr töskunni sinni. Hann opnaði hana og tók fram myndina, sem fundist hafði um borð í skipinu og glósurnar sínar.

-Jú, sjáðu nú til. Eins og ég var búinn að komast að og segja þér, þá vísar Tep-tu-f til Anpu eða Anubis, sjakalaguðsins sem gætir ríkis hinna dauðu. Eitt og sér gagnast sú vitneskja lítið, í raun ekki neitt, því það segir ekki neitt um morðingjann. Er hann að ákalla guðinn? Er þetta kannski bara eitthvað sem hann gerir til að afvegaleiða ykkur í lögreglunni? Hins vegar sú staðreynd að hann notast við þebískar rúnir bendir til þess að hér er lærður einstaklingur á ferð, ef hann er ekki með einhverja akademíska menntun að baki þá hefur einhver skólað hann í ,,hinum myrku fræðum”, ef svo má að orði komast, það er göldrum, nekrómansíu og slíku. Reyndar er til fullt af fólki sem kann þebískar rúnir og notar á jákvæðan hátt, en ég er nokkuð viss um að sá sem hér um ræðir noti þessar rúnir ekki með þeim hætti. Til að byrja með þá ristir hann þær öfugar, ekki réttar heldur speglar þær. Í öðru lagi eru þær ristar við losun gríðarlegra krafta, - í rauninni má kalla morðin nokkurs konar fórnir og eflaust ætlaðar til að magna upp seiðinn sem bundinn er í rúnunum. Og rúnirnar snúa öfugt, eins og ég sagði áðan og það gæti haft tvær merkingar. Annars vegar er þeim ætlað að vera enn ákafari, enn öflugri eða að þetta er einhvers konar útúrsnúningur á öðrum galdri.

Fjalar kinkaði kolli.

-Ertu þá að segja að morðinginn sé einhver snarruglaður vitleysingur sem heldur að hann geti galdrað?

-Já og nei. Ég var farinn að hallast að þeirri skoðun þar til þú komst með myndina, svaraði Njörður og tók upp myndina. Hann rétti Fjalari hana og hélt síðan áfram:

-Hefurðu heyrt um dr. Berger?

Fjalar hristi höfuðið.

-Dr. Berger var fornleifafræðingur og titlaði sig sem sérfræðing í egypskum fræðum. Hann var reyndar mjög umdeildur og mistækur, svo ekki sé meira sagt. Margar kenningar hans voru algerlega út í bláinn og oftar en ekki varð hann athlægi starfsbræðra sinna.

-Hvernig tengist hann þessu máli?

-Jú, sjáðu til. Þessi mynd er af honum, að ég held. Ég hef reyndar bara séð eina mynd af dr. Berger, en ég er nokkuð viss um að þetta sé hann.

-Ég skil. En hvernig tengist þetta allt saman því sem við erum að fást við hérna?

-Mér var eitt sinn sögð sú saga af dr. Berger að hann hafi ætlað sér að finna grafhýsi Mentuhotep IV, en það hafa fundist afar fáar vísbendingar eða fornleifar sem staðfesta tilvist þess faraós, þar sem hann ríkti á einu stormasamasta tímabili í sögu Egyptalands til forna. Reyndar eru ekki allir fræðimenn sannfærðir um að hann hafi verið til, en samkvæmt Turin listanum eru sjö ár á milli þess að Mentuhotep III fellur frá og Amenemhat I tekur við, en þessi skil marka einmitt mærin á milli fornríkisins og miðríkisins. Á þeim tíma risu margir smákonungar og aðalsmenn og reyndu að sölsa undir sig völd, auðæfi og landsvæði. Sumir hafa haldið því fram, og þeirra á meðal var dr. Berger, að á þeim tíma hafi Mentuhotep IV ríkt. Það hefur fundist ein vísbending um það, steinplatti þar sem bæði nöfn Mentuhoteps og Amenemhat koma fram. En hvað um það, dr. Berger fór sem sagt til Egyptalands 1920 og ætlaði sér að finna grafhýsið. Ekki fer neinum sögum af þessari leit hans, en hann hvarf 1922 og ekkert hefur spurst til hans síðan. Ekki fyrr en nú. Sé það rétt að þetta skip hafi verið í flutningum fyrir þýska Egyptalandssafnið, þá tel ég ekki ólíklegt að hann hafi verið í einhverju sambandi við það, úr því að myndin af honum fannst um borð. Og ef við gerum ráð fyrir því, þá hlýtur þetta skip hafa verið að flytja muni til Þýskalands, er þá nokkuð óeðlilegt að áætla að hann hafi fundið grafhýsið?

Fjalar hristi höfuðið. Hann var ekki alveg viss um hvert Njörður væri að leiða hann, en ákafinn í röddinni og áhugi hans var smitandi.

-Skoðaðu myndina vel. Taktu eftir steinhellunni sem mennirnir standa við.

-Já, hvað með hana?

-Sérðu merkið sem er á henni miðri?

Fjalar hallaði sér fram og rýndi í myndina.

-Merkið!? Þessar ógreinilegu rákir hérna, spurði hann.

-Já. Hérna, notaðu þetta, svaraði Njörður og rétti Fjalari stækkunargler úr töskunni sinni, Fjalar grúfði sig yfir myndina til að skoða hana betur. Með hjálp stækkunarglersins sá hann merkið betur. Fimm arma stjarna og einhverjar myndrúnir. Hann leit upp á Njörð, sem brosti og iðaði í sætinu af spenningi.

-Og ég geri þá ráð fyrir að þú vitir hver merking þessa er?

-Já. Sjáðu nú til, híróglífan stjarna innan í hring merkir venjulega stjarna á himni, en í þessu tilfelli er það ekki svo. Fimm arma stjarna án hrings merkir nefnilega ríki hinna dauðu, ríki Anubis, og ég tel að hringurinn tákni einhvers konar vörn eða landamæri, sem sá sem í grafhýsinu lá gat ekki komist yfir. Híróglífurnar umhverfis stjörnuna þýða: Faraó nauðugur bundinn til eilífs lífs. Vörnin umhverfis stjörnuna segir okkur því að hann hafi ekki komist í ríki hinna dauðu, hvað svo sem olli því. Fyrir vikið er sá látni fastur á milli tveggja heima, milli okkar heims og þess næsta.

-Allt í lagi, en ég er samt ekki að ná því hvernig þetta tengist morðunum hér.

-En bíddu nú hægur. Nú er ekki öll sagan sögð og geymdi ég það besta þar til í lokin. Á svipuðum tíma og Amenemhat I var að taka við völdum í Egyptalandi var sagan af Neferti spámanni skráð. Þó að sagan sé skráð á tímum Amenemhat ættarinnar, þá er henni sett svið miklu fyrr, á tímum 4. konungsættar. Neferti var kallaður fyrir Snefru faraó og átti að skemmta konungnum með sögum. Þess í stað spáði hann til um framtíðina. Í spádómi Neferti er Egyptalandi lýst og lýsingin er vægast sagt skelfileg. Níl þornuð upp, útlendingar ráða ríkjum, óreiða ríkir, allt á hvolfi. Ríkið logar í illdeilum, hinir dauðu lifna við og svo mætti lengi telja. En Neferti spáir líka fyrir um það muni koma fram bjargvættur, að nafni Ameny, og hann muni draga ríkið fram úr skugganum. Ameny er stytting á Amenemhat. Ef við gefum okkur það að þessi spádómur eigi við einhver rök að styðjast, hvort sem þetta er sönn saga eða fabúleruð af hirðskáldum Amenemhats, þá felast í henni ákveðin skilaboð um hvernig umhorfs hefur verið í Egyptalandi á valdatíma Mentuhoteps IV. Óreiða og alls kyns illindi ráðandi. Og sú staðreynd, að hann hefur verið grafinn með þeim hætti að varna honum inngöngu í ríki hinna dauðu bendir til þess að þeir sem tóku við af honum, hvort sem það var gert með valdi eða ekki, vildu þeir alls ekki að hann færi lengra. Í raun bjuggu þeir honum fangelsi niðri í þessu grafhýsi. Hann varð í raun nokkurs konar lifandi dauður. Kannski að Amenemhat hafi sjálfur staðið fyrir þessu, kannski að aðalsættin hafi gert uppreisn gegn Mentuhotep  og komið Amenemhat til valda. Hver veit, ég er ekki alveg nógu vel að mér í sögu Egyptalands.

-Já, en hvernig tengist þetta morðunum, spurði Fjalar aftur og var farinn að hungra eftir skýringum.

-Forn-Egyptar trúðu því, að hjartað geymdi sálina og til að komast í ríki hinna dauðu var hjarta manns vegið á móti hvítri fjöður sannleikans. Ef það reyndist léttara þá var viðkomandi hleypt inn, annars var hinn látni étinn af djöflum. Ég held, að til þess að koma í veg fyrir að Mentuhotep IV kæmist inn í ríki hinna dauðu hafi hjartað verið fjarlægt úr líkama hans og hann grafinn án þess. Með því móti gæti hann ekki stigið inn í dómssal Ósírisar, því enginn dauðlegur maður komst þangað án þess að hafa hjartað meðferðis. Þess vegna safnar hann hjörtum núna. Mentuhotep leitar að hjarta sem passar.

Fjalar starði hissa á Njörð.

-Fyrirgefðu, en ertu til í að segja þetta síðasta einu sinni enn?

-Mentuhotep leitar að hjarta sem passar.

-Þannig að við erum að eltast við einhverja múmíu. Er það vísindaleg niðurstaða þín, spurði Fjalar og fann hvernig reiðin kraumaði í sér. Hafði hann virkilega látið þennan svokallaða fræðimann teyma sig áfram á asnaeyrunum?

-Já og nei, svaraði Njörður og virtist ekki láta neinn bilbug á sér finna. -Ég held, að það sem er eftir af Mentuhotep IV sé að leita að hjarta sem getur komið honum inn í ríki hinna dauðu. Hvort það sé múmía, -æ, veistu, mér finnst það ólíklegt, allavega ekki í þeirri mynd sem er venjulega er dregin upp af þeim í bandarískum kvikmyndum. Lýsing Védísar er líka langt frá því að vera af manni vafinn í lín, hún á frekar við um Anpu. Reyndar bar Anpu höfuð sjakala, en ekki hunds. Það er reyndar ekki mikill munur á þessum tegundum, skilst mér, hvor sín hliðin á sama peninginum.

-Hvernig líta sjakalar út?

-Litlir, með mjótt trýni og stór eyru.

-Hvernig eru þeir á litinn?

-Ég er ekki viss, gulir að mig minni. Gulir og svartir. Ég er annars ekkert sérstaklega vel að mér í dýrafræðum.

Fjalar horfði um stund á Njörð. Það var eitthvað við frásögn hans sem greip hann og þó hann vildi einna helst kasta Nirði á dyr fyrir að eyða tíma sínum í slíka vitleysu. Kannski er ég orðinn of þreyttur, eða einfaldlega of gamall fyrir þetta, sagði hann við sjálfan sig.

-Litlir, gulir og með mjótt trýni?

-Já, af hverju spyrðu?

Fjalar fann hvernig sviti spratt fram á baki sér og hann vildi helst geta látið sig hverfa. Var það litla kvikindið sem hann var alltaf að rekast á? Gat verið að Njörður væri kominn á rétta slóð?  

-En hvers vegna ætti ég ekki bara að láta sökkva skipinu? Það virtist leysa málið í Frakklandi á sínum tíma? spurði Fjalar og reyndi að láta á engu bera.

-Leysti það málið? Skaut það ekki bara vandamálinu á frest?

-Svo virðist vera, svaraði hann og sat hugsi um stund. Ef Njörður hafði rétt fyrir sér, hvernig áttu þeir að ráða niðurlögum þessarar veru? Hvað var hægt að gera?

-Hvað leggur þú til að við gerum?

Njörður sat um stund hljóður og horfði rannsakandi á Fjalar.

-Tja, þegar stórt er spurt er fátt um svör. Ég veit það ekki, en einhvern veginn verður að stöðva þessi morð. Svo virðist vera sem franska lögreglan hafi náð að hrekja þennan morðingja á brott með því að sökkva skipinu. Engu að síður er það nú komið hingað, um það bil þrjátíu árum seinna. Eftir því sem ég kemst næst þá hefur dr. Berger eflaust hleypt þessari veru út, það er að segja ef sagan af honum er sönn. Þá hefur hún verið læst inni svo árþúsundum skiptir. Ég held, að við þurfum að gera eitthvað svipað því sem var gert þarna til forna. Lokka veruna fram og læsa hana inni með hjálp einhverja galdra. Lengi vel voru galdrar vísindi og ég tel, að það sé sú lausn sem við stöndum frammi fyrir núna.

-Galdrar, sagði Fjalar hugsi en bætti síðan við: -Ef þú hefðir sagt mér þessa sögu fyrir viku hefði ég látið taka þig höndum og fært upp á Klepp til rannsóknar. En miðað við atburði undanfarna daga þá er einhvern veginn allt þess virði að prófa það. Hvað hefurðu eiginlega í huga og hvernig get ég orðið þér til aðstoðar?

Njörður skýrði honum frá hugmynd sinni.

Eftir að Njörður var farinn sat Fjalar eftir í rökkvuðu herberginu. Hann hálfpartinn vonaði að Nirði tækist ætlun sín. Ef Njörður hefði rangt fyrir sér, þá væri aldrei að vita nema hann næði að lokka fram morðingjann og Fjalar gat látið nokkra lögreglubíla vera viðbúna kalli frá sér. Svo var hin hliðin á þessu, hefði Njörður rétt fyrir sér þá gæfist Fjalari tækifæri til að koma höndum yfir þennan hund eða sjakala. Náttúrulega var sá möguleiki fyrir hendi að þetta væri allt saman bull og vitleysa, en samt var eitthvað sem sagði Fjalari að þeir væru á réttri leið. Kannski var það bara von hans.  


Þoka

Kl. 14:05

 

Fjalar reyndi að einbeita sér að fundinum sem hann sat ásamt nokkrum mönnum úr rannsóknarlögreglunni og frá tæknideildinni. Vísar veggklukkunnar siluðust áfram en Fjalari fannst sem þeir færðust frekar aftur en áfram. Hún var rétt orðin tvö og Fjalar vissi að svona fundir gátu dregist langt fram eftir degi. Hann hafði setið ótal svipaða fundi og allir snerust þeir um það eitt að skipuleggja hvernig rannsókn mála skyldi háttað og hverjir skyldu sjá um hvaða verk. Fundirnir vegna þessa máls voru orðnir hátt í tuttugu talsins en lítið hafði þokast og sama hvaða brögðum var beitt kom ekkert upp úr krafsinu. Engin fingraför, engin vitni ef frá var talin Védís, sem Fjalari skyldist að væri ekki viðræðuhæf, hún röflaði víst stanslaust um skrímsli og heimsendi. Lítið á því að græða, hugsaði hann með sjálfum sér um leið og sköllóttur maður frá tæknideildinni talaði um muninn á feldi hinna mismunandi heimilisdýra. Ein helsta vonin var að Njörður myndi komast að einhverju sem væri hjálplegt, eitthvað sem myndi ekki leiða rannsóknina niður enn eitt öngstrætið. Hann hallaði sér aftur í stólnum og teygði úr sér. Það var samt kominn annar og örvæntingarfyllri tónn í alla, margir höfðu þeir átt erfitt með að fela geðhrif sín þegar þeim var tjáð hver það var sem hafði verið myrtur þar um nóttina. Nú var þessi rannsókn komin á persónulegra stig og fyrir vikið voru allir ákafari í að finna hinn seka, hver svo sem það var.

-…og þá sjáið þið hversu undirfeldhárin eru fínni. En eins og þið eflaust getið sagt ykkur sjálfir, þá er ekki um undirfeldhár að ræða hér …

Fjalar andvarpaði og lygndi aftur augum. Hann hafði lesið skýrslu tæknideildarinnar, oftar en einu sinni en ekki séð nokkra hjálp í henni. Þar kom ekkert fram sem Grímur hafði ekki þegar sagt honum og Fjalar sett í sína skýrslu. Ætli þeir á tæknideildinni lesi ekki aðrar skýrslur en þeirra eigin, spurði hann sjálfan sig og leit á sköllótta manninn. Hann hét Baldur og þótti um margt undarlegur í háttum. Til að mynda virtist hann gersamlega ónæmur á samdrátt undirmanna sinna. En Baldur mátti eiga það, hann vann sitt verk af alúð og ótrúlegri samvisku. Orðið smáatriði öðlaðist algerlega nýja merkingu eftir að Fjalar kynntist þessum sérstaka manni.

Skyndilega skaut Guðbjörgu upp í huga Fjalars. Hann hafði ekki heyrt af afdrifum hennar, annað en að hún hafi farið með sjúkrabíl upp á Landspítala og verið lögð inn á geðdeild. Kannski hann ætti að senda einhvern upp eftir? Það var aldrei að vita nema að hún væri búin að ná sér og gæti kannski sagt örlítið frá því sem hafði gerst. Hvað skyldi hún hafa séð um borð? Hvað ætli hafi gerst og hvers vegna var hún með þetta hjarta?

Fjalar hrökk upp úr þessum hugleiðingum sínum þegar hurðin inn í fundaherbergið féll að stöfum og hann tók eftir að hann sat einn eftir. Hann stóð á fætur og gekk fram á gang og niður á skrifstofuna sína, sem var á hæðinni fyrir neðan. Hann klæddi sig í úlpu og tók lyklakippuna sína af skrifborðinu.

Eftir um tíu mínútur var hann kominn upp á spítalann þar Guðbjörg var vistuð. Hann gekk inn og fór með lyftu upp á þriðju hæð. Eins og venjan var, þá voru dyrnar inn á deildina sem hún var vistuð á læstar og þurfti hann að bíða drykklanga stund áður en það var opnað. Gangurinn var dimmur, þrátt fyrir að í loftinu héngu neonljós þá var birta þeirra köld og ófullnægjandi. Veggirnir voru steingráir og handriðið í stiganum appelsínugult. Furðulegt litaval, sagði Fjalar við sjálfan sig. Hann hafði svo sem aldrei sett sig inn í arkitektúr eða nokkuð því um líkt, hann vissi bara hvað sér þótti fallegt og hvað ljótt og honum þótti grár litur veggjanna ekki passa við handriðið.

Þá voru dyrnar opnaðar og í þeim stóð kraftalegur karlmaður um fertugt. Hann hafði eflaust einhvern tíma verið sjómaður, því framhandleggir hans voru skreyttir missmekklegum húðflúrum. Maðurinn var töluvert stór og með nokkuð mikið hár, sem í voru gráir taumar. Hann hafði ekki haft fyrir því að greiða sér í morgun.

-Já, hvað vilt þú, spurði hann. Fjalar var næstum búinn að skella upp úr, því rödd mannsins var ekki í neinum samræmi við líkama hans. Hún var þýð og lá nokkuð hátt uppi. Hann gæti vel sungið sópran, hugsaði Fjalar með sér um leið og hann kynnti sig og bar upp erindi sitt á geðdeildina. Maðurinn hleypti honum inn og benti á að fylgja sér.

Guðbjörg sat inni í einu herbergjanna og horfði út um glugga. Það var ekki mikið að sjá, þokan lá enn eins og mara yfir borginni og virtist ætla að kæfa hana. Hún leit ekki upp þegar Fjalar steig inn til hennar og heilsaði. Hann settist á rúmið.

-Hvernig hefurðu það, Guðbjörg?

Hún leit á hann og yppti öxlum. Lokkur úr dökku hári hennar féll fram fyrir augun, hægt rétti hún upp vinstri hönd og lagði lokkinn á ný aftur fyrir eyra. Hún sneri sér aftur að glugganum.

-Mig langar til að ræða við þig um það sem gerðist þegar þú fórst um borð, ef þú treystir þér til þess. Hver veit nema þú hafir tekið eftir einhverju sem gæti varpað nýju ljósi á þetta mál.

-Það er ekkert að ræða um.

-Nú, af hverju segirðu það?

-Ég man ekki hvað gerðist.

-Manstu ekkert?

-Nei, eiginlega ekkert.

-Veistu af hverju þú fórst um borð?

-Já, Grímur kallaði á mig og vildi að ég kæmi til sín.

-Og þú fórst þá bara um borð? Hvernig komstu framhjá lögreglumanninum sem var á vakt?

-Hann var sofandi.

-En þú hlýtur að muna eitthvað, er það ekki? Eitthvað örlítið?

-Ég man ég gekk upp landganginn og þegar ég sneri mér við og leit aftur fyrir mig, þá sá ég lítinn gulan hund. Hann horfði svo undarlega á mig. Svona eins og hann þekkti mig, - eða eins og hann væri að horfa inn í mig.

Eitt augnablik sá Fjalar eftir því að hafa komið. Hann stóð á fætur og ætlaði að ganga út.

-Hann drap aftur í nótt, er það ekki, spurði Guðbjörg. Hún horfði enn út um gluggann.

-Jú. Hvernig veist þú það?

-Ég bara veit það. Mig dreymdi það.

-Dreymdi þig morðið?

-Já, mig dreymdi það.

-Og hvað? Hver er morðinginn?

-Andinn í skipinu lætur myrða fyrir sig.

Fjalar starði forviða á Guðbjörgu. Andinn lætur myrða fyrir sig, hafði hún sagt en hann trúði vart sínum eigin eyrum. Var hún gengin af göflunum?

-Hvernig þá? Hvernig lætur hann myrða fyrir sig?

-Hann fer inn í fólk. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband