Færsluflokkur: Bækur
Kl. 04:20
Íbúðin var myrk fyrir utan herbergið sem Njörður notaði sem skrifstofu, þar logaði á lampa og birtan féll mjúklega yfir skrifborðið sem hann sat við og las. Á borðinu stóð tómur kaffibolli og glósurnar hans ásamt Bók hinna dauðu, sem hann hafði fengið lánaða á Háskólabókasafninu. Hann hafði setið við og lesið, reynt að finna fleiri upplýsingar um Anpu, eitthvað sem gæti gagnast lögreglunni. Það voru liðnir sjö tímar síðan Fjalar fór og Njörður hafði varla staðið upp, ekki nema rétt til að hella kaffi í bollann. Hann var orðinn mjög þreyttur en samt gat hann ekki hugsað sér að fara að sofa strax. Hann hallaði sér aftur í stólnum og teygði úr sér. Anpu eða Anubis hafði verið guð hinna dauðu, sá sem kenndi Egyptum að smyrja lík og var verndari múmíanna. Kona Gríms, Védís, hafði talað um að hún hefði séð veru sem var að hálfu úlfur eða hundur og að hálfu maður, með dýrahöfuð og klær. Sú lýsing átti frekar við um guðinn sjálfan en nokkurn venjulegan mann. Anpu var sýndur á mörgum myndum í bókinni og á flestum þeirra með höfuð sjakala, en þetta með klærnar stóðst þó ekki. En hvað var þá hér á ferð? Geðsjúklingur? Varúlfur? Og hvernig tengdist þetta allt saman þessu skipi? Þokan hafði komið um leið og það, morðin hófust eftir að einhverjir höfðu farið um borð. Kannski að þessu hafi verið svipað farið í Frakklandi á sínum tíma? En það hlutu fleiri að hafa farið um borð en þeir sem nú þegar höfðu verið myrtir. Varla voru það bara Ámundi og Leifur sem fóru yfir í skipið úr Þór á laugardaginn var. Þeir voru eflaust líka fleiri úr lögreglunni sem höfðu verið í skipinu. En hvers vegna voru sumir myrtir en aðrir ekki? Voru kannski einhver tengsl á milli þeirra sem hann vissi ekki af? Var kannski eitthvað sem Fjalar var ekki að upplýsa hann um?
Njörður stóð á fætur og gekk að herbergisglugganum. Hann dró frá og starði út í niðdimma þokuna. Hún var ótrúlega þétt og það í janúar og hafði hvorki létt né hreyft í viku. Njörður hafði gengið um stræti Lundúnaborgar að haustlagi og upplifað hvernig þokan kom utan af Norðursjó og lagðist yfir þá fornu borg. En þokan sem huldi borgina við Sundin var í engu lík þeirri ensku. Það var sem borgin hefði verið numin brott af landinu í Norður-Atlantshafinu og skellt einhvers staðar niður til geymslu, svona eins og til málamynda, rétt á meðan beðið er eftir nýjum stað, svona hvorki né. En hvað með hann sjálfan? Hvar var hann þá staddur? Að reyna setja saman ólík brot í undarlegu púsli þar sem honum voru aðeins fengin örfá stykki af heildarmyndinni. Á meðan sinnti hann hvorki starfi né sjálfum sér, svaf lítið og át minna. Í glugganum sá hann andlit sitt speglast, svart hárið ógreitt og augun líflaus og dimm, eins og uppvakningur sem þráir ekkert frekar en frið grafarinnar. Var hann kannski í sömu sporum og slík vera? Var borgin kannski líka í þeim? Hvorki lífs né liðin, milli svefns og vöku og vissi hvorki í þennan heim né annan. Eins og nokkurs konar vökudraumur, hvorki raunverulegur né alvöru draumur, eins konar ódraumur, hvorki heitur né kaldur.
Njörður sneri sér frá glugganum og skaust fram í eldhús til að fylla aftur í bollann. Síðan settist hann aftur við skrifborðið og las áfram í bókinni. En hann átti erfitt með að einbeita sér að lestrinum, klukkan var tekin að síga í fjögur og það var töluvert liðið síðan hann hafði sofnað. Hann hallaði sér aftur í stólnum og lygndi aftur augum. Njörður fann hvernig þungur svefnhöfgi kom yfir sig og hann geispaði. Skyndilega var þó eins og hann yrði einhvers var. Augun glenntust upp og um stund sat hann grafkyrr.
-Hvað sagði Fjalar aftur að skipið héti, spurði hann sjálfan sig. Njörður fletti hratt í gegnum glósurnar sínar uns hann fann nafnið. Der Sturmmädchen, talið hafa sokkið árið 1922 undan ströndum Portúgals. Skip í eigu þýska ríkisins og í siglingu fyrir Ägyptisches Museum þegar það hvarf. Hann tók upp gömlu ljósmyndina sem hafði fundist í skipinu.
-Þú ert dr. Berger, sagði hann sigrihrósandi við myndina. Njörður tók aftur fram stækkunarglerið og skoðaði vel annan mannanna, þann er augljóslega var ekki Egypti. Þrátt fyrir að myndin væri komin til ára sinna fór það ekkert á milli mála. Þetta var dr. Berger. Skyndilega kom á andlit hans undarlegur svipur.
-Það hlýtur þá að vera satt. Sagan hlýtur að vera sönn.
Bækur | Þriðjudagur, 26. ágúst 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28. janúar
Kl. 07:45
Borgarspítalinn var eins og miðaldakastali, umvafinn mistri og þögn. Fjalar ók inn að aðalinngangnum. Hann fann hvernig kaldur sviti spratt fram á bakinu og hversu tak hans á stýrinu þéttist. Innan nokkurra augnablika hafði hann lagt lögreglubifreiðinni og drepið á henni. Um leið og hann steig út fann hann hvernig sér sortnaði fyrir augum og Fjalar varð að styðja sig við bílhurðina. Var hann virkilega orðinn svona þreyttur? Hann fann hvernig æðarnar í höfði voru við það að springa, fyrir eyrum hans suðaði og hann óskaði þess að fá að sofna, bara örskamma stund og vakna án þess að þessi skelfilegi höfuðverkur gerði vart við sig.
Svefninn hafði látið á sér standa í nótt, eirðarlaus vafraði Fjalar um íbúð sína og reyndi að koma einhverri stjórn á hugrenningar sínar. En hvernig sem hann reyndi þá gat hann það ekki, hugsanirnar þutu um höfuð hans eins og gulnuð laufblöð í fyrstu haustlægðinni. Auk þess var í honum einhver hrollur, einhver ókyrrð, eins og hjá manni sem bíður sinnar hinstu stundar og veit að hann á von á henni í bráð. Á meðan þutu brotakenndar hugsanir um höfuð hans og héldu fyrir honum vöku. Honum hafði tekist að dotta smá dúr, varla meira en klukkustund. Hann vaknaði hins vegar í sófanum fullklæddur, eins og hann hefði hreinlega búist við símtalinu í svefni og gert sig kláran, svo hann gæti lagt strax af stað. En Fjalar hafði ekki sofið mikið undanfarið, ásýnd líkanna ásótti hann, hvernig sem hann reyndi gat hann með engu móti hrist þær af sér. Hvernig gat hann komið í veg fyrir þessi morð? Hvernig gat hann komið í veg fyrir að hann yrði næstur?
Kenningar Njarðar veittu honum litla sem enga von. Þær voru álíka trúverðugar og hver önnur barnasaga. Voru tengsl á milli verunnar og þessa egypska guðs, Anpu? Voru veran og guðinn eitt og hið sama? Fjalar gat ekki með neinu móti séð hvernig það mátti vera, þrátt fyrir rökstuðning Njarðar þá gat hann ekki skilið hvernig þetta tvennt gat staðist. Ætli Njörður sé ekki líka genginn af göflunum, eins og Guðbjörg? En kannski var sökin hans, hvers vegna hafði hann verið að blanda þessu fólki í rannsóknina? Var ekki blóð Gríms á höndum hans, því það hafði jú verið Fjalar sem boðaði hann í skipið?
Það kom Fjalari ekki á óvart þegar síminn hringdi. Hann var heldur ekki undrandi á að heyra hvað hafði gerst. Nú var hann kominn á spítalann og þurfti Fjalar enn og aftur að horfast í augu við að einhver sem hann hafði boðað í skipið hafði verið myrtur. Hann gekk að tröppunum, í hvert skipti sem hann steig niður fannst honum sem fætur hans sykkju ofan í jörðina. Óraunveruleikatilfinning helltist yfir hann, honum fannst sem hann væri staddur á milli vídda, á landamærum þess raunverulega og hins skáldaða. Við dyrnar stóð lögreglumaður og opnaði fyrir honum, þeir kinkuðu kolli hvor til annars án þess að segja orð. Hann gekk beint inn að deild A2, aldrei þessu vant stóðu dyrnar inn á geðdeildina opnar og hvítklæddar hjúkrunarkonur voru í óða önn að flytja forviða sjúklinga á brott. Fjalar staldraði við þegar hann var kominn inn fyrir dyrastafinn og horfði inn myrkvaðan ganginn. Innan úr honum barst Fjalari endurómur radda.
-Guð minn góður, Guð minn góður, Guð minn góður ... , endurtók í sífellu móðursýkisleg kvenmannsrödd.
-Svona nú, Sigríður, reyndu að anda djúpt að þér og slaka svolítið á, svaraði önnur kona.
Hann gekk inn ganginn. Í litlu herbergi sat feitlagin kona og reri fram í gráðið. Hún hélt á kaffibolla báðum höndum en hafði ekki drukkið mikið úr honum. Augnaráð hennar var starandi og augun þrútin. Við hlið hennar var ung, ljóshærð kona. Hún var með teppi og reyndi að breiða það yfir axlir hennar. Við dyrnar inn í herbergið stóð lögregluþjónn, hann gaut augum á Fjalar þegar hann nálgaðist en sagði ekkert. Fjalar hélt áfram inn ganginn, alveg að innstu herbergjunum. Hann lokaði augum og dró andann nokkrum sinnum djúpt. Vissi hann ekki hvað beið hans? Hafði hann ekki séð þetta áður? Hvers vegna var þetta svona erfitt nú? Hann opnaði augun og steig inn í herbergið þar sem Páli hafði verið komið fyrir eftir áfallið.
Skömmu síðar gekk hann aftur fram. Ósjálfrátt leit hann niður fyrir sig og tók eftir litlum bletti á svörtum skónum. Fjalar dró upp bláan vasaklút, beygði sig niður og þurrkaði óhreinindin af. Hann starði á skóna sína, eins og hann vildi tryggja að ekki væri fleiri rauðir blettir. Hann var enn að skoða skóna þegar eldri maður í hvítum slopp kom fram úr herberginu. Fjalar leit á hann, maðurinn var gráhærður og augu hans drógust niður undan þungum kinnum. Áður en maðurinn náði að segja nokkuð spurði Fjalar lágt:
-Hjartað, sástu hvort hjartað var enn á sínum stað?
-Nei, ég tók ekki eftir því.
Eftir stutta þögn bætti læknirinn við:
-Hvað hver gæti hafa hvað hefur rifið sig í gegnum brjósthol hans? Hver gerir
Fjalar sneri sér undan og gekk á brott. Hann staldraði augnablik hjá lögreglumanninum sem stóð yfir hjúkrunarkonunum og sagði honum að ganga frá öllu. Síðan flýtti hann sér út og hljóp út að bílnum. Þegar Fjalar kom að honum rak hann í rogastans. Litli guli hundurinn sat við bílstjóradyrnar og horfði á Fjalar. Hann fann hvernig allir vöðvar í líkamanum stirðnuðu og hann þorði sig hvergi að hræra. Hundurinn stóð á fætur og gekk hægt að honum. Fjalar skaut augum að spítalanum. Tveir lögreglumenn stóðu við innganginn en hann gat ekki kallað til þeirra, hann gat ekki komið upp orði. Hundurinn þefaði af skóm Fjalars og sleikti þá. Þá leit hann upp og starði í augu Fjalars. Síðan sneri hundurinn sér við og tók á stökk út í þokuna.
Bækur | Mánudagur, 25. ágúst 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kl. 21:40
Þegar Fjalar var farinn hvarf Njörður aftur inn á skrifstofuna sína. Hann tók fram stækkunargler og leit á myndina sem Fjalar hafði látið hann hafa. Einhverra hluta vegna hafði hann gleymt að sýna Nirði myndina þrátt fyrir að hafa haft hana undir höndum síðast þegar þeir hittust. Myndin, sem hafði fundist um borð í skipinu, var af tveimur mönnum við einhvers konar steinhellu inni í helli. En Fjalar hafði komist að fleiru, honum hafði tekist að finna út hvað skipið hét: Der Sturmmädchen. Samkvæmt upplýsingum þýska sendiráðsins hafði það verið í eigu þýska ríkisins og notað einna helst af Ägyptisches Museum í Berlín. Það hvarf undan ströndum Portúgals árið 1922 á leið sinni frá Kaíró og talið var að það hefði sokkið. Það fannst 30 árum síðar við Frakkland og skömmu síðar hafði hrina morða farið af stað og henni linnti víst ekki fyrr en búið var að binda endi á líf morðingjans og skipinu hafði verið sökkt. En hvernig stóð á því að skipið birtist skyndilega á Faxaflóa hátt í þrjátíu árum eftir að franska strandgæslan sprengdi gat á skrokk þess og horfði á djúpið gleypa það?
Njörður sneri sér aftur að myndinni. Hún var gömul en óvenjulega vel farin. Ef hann vissi ekki betur mætti halda að hún hefði ekki verið tekin fyrir meira en viku, í mesta lagi tíu dögum, þetta þótti honum enn undarlegra í ljósi þess að hún hafði legið um borð í skipi sem vindur og saltur sjór átti nokkuð greiða leið um. Mennirnir á myndinni voru af ólíkum uppruna, annar var dökkur og með svart hár, klæddur í hvítan kufl og með einhvers konar túrban á höfðinu. Hinn var eflaust evrópskur, með ljóst hár og kringlótt hornspangargleraugu, klæddur í stuttbuxur og hvíta skyrtu. Njörður skellti næstum upp úr, ef hann hefði verið beðinn um að ímynda sér fornleifafræðing í Egyptalandi á millistríðsárunum hefði mynd mjög svipuð þessum manni komið upp í huga hans.
Þegar hann beindi athygli sinni að steinhellunni kom nokkuð furðulegt í ljós. Á henni voru áletranir. Og þó ekki beint áletranir, heldur voru á henni alls kyns merki sem áttu lítt skylt við híróglífur. Hann rýndi í gegnum stækkunarglerið og reyndi að finna einhverja merkingu með öllu þessu. Fyrir miðri steinhellunni var eitt merki hinum stærra og það innihélt myndletursrúnir hinnar fornu þjóðar. Hann rissaði það upp.
Hann teygði sig í bók Faulkners og tók að þýða hvað rúnirnar þýddu. Sú efsta var mynd af manni með veldissprota og hann var ekki lengi að komast að því hún stóð fyrir faraó. Hann fór vinstra megin niður hringinn og þýddi hverja rún fyrir sig uns hann hafði fundið út fyrir hvað þær stóðu. Njörður raðaði saman orðunum uns þau mynduðu merkingabæra setningu.
Faraó nauðugur bundinn til eilífs lífs.
Njörður leit upp úr bókinni. Ætli þetta hafi verið gröf einhvers konungs sem hafði fundist? Á þessum tíma voru enn að finnast grafhýsi í Dal konunguna, jafnvel víðar. Ætli steinhellan séu þá dyr ofan í grafhýsi? Varla var þetta veggur á musteri, allavega ekki hluti af broddsúlu, til þess var steinhellan of breið. Hvað skyldi pentagramið merkja? Vissulega var það algengt í til forna að nota pentagröm í galdra, jafnvel var það enn talið hafa mikil varnaráhrif. Mörg leynifélög höfðu stjörnu eða pentagram í merkjum sínum, jafnvel Konstantín I keisari notaði það í innsigli sínu. Í gegnum tíðina hafði það hlotið hin ýmsu nöfn, drýslakross, endalausi hnúturinn, nornafótur og djöflastjarna. Elstu heimildir sem til voru um notkun þess voru frá Mesópótamíu, frá um 3500 f. kr. Þrátt fyrir að á undanförnum áratugum hafi það einkum verið tengt hinu illa þá notuðu kristnir menn þetta merki einnig á sínum tíma og tengdu það fimm sárum Krists. Mjög margir höfðu tengt merkið manninum, enda líkist það mjög manni með fætur í sundur og arminn útbreiddan, í bók Tycho Brahes Calendarium Naturale Magicum Perpetuum var mynd af líkama manns inni í fimm arma stjörnu. Nornir nútímans notuðu merkið og var það þekkt innan hópa Wicca galdramanna. Nirði minnti, að það væri notað til að sýna fram á mismunandi stöðu einstaklinga innan hvers Wicca-hóps fyrir sig. Keltar trúðu því að það væri merki Morrigan, drottingar undirheimanna. Fyrir nokkrum árum var pentagramið óhjákvæmilega tengt Satan, þegar Anton Sandor Lavey gerði það að sínu, sneri því á haus og kom fyrir höfði Baphomet inni því. Einhvers staðar hafði hann heyrt talað um að Lavey hafi í raun fengið merkið frá Eliphas Levi Sahed, sem var dulnefni kaþólsk prests að nafni Alphonse Louis Constant og var uppi löngu fyrir tíð Lavey. En hvernig tengdist þetta tákn Egyptum? Og hver var merking þess á steinhellunni á gömlu myndinni?
Hann fletti í fljótheitum í gegnum bók Faulkners á nýjan leik en sá ekkert í henni um pentagramið. Njörður horfði yfir bókahilluna og tók fram tvær bækur, annars vegar um tákn og merkingu þeirra, hins vegar um galdra. Klukkan var langt gengin í miðnætti þegar hann leit upp aftur. Bókin um galdra hafði komið að litlu gagni, en hin hafði að geyma ýmsar ágætar upplýsingar. En að lokum hafði Njörður ákveðið að fletta á ný í gegnum bókina um híróglífur, hann hafði komist að því að fimm arma stjarna innan í hring var í raun myndtákn hjá Forn-Egyptum. Samkvæmt táknfræðibókinni merkti það stjörnu en samt passaði það engan veginn inn í þá merkingu sem hann hafði þegar fengið út úr merkinu. Hann blaðaði í gegnum bókina og staldraði um stund við táknið, upplýsingarnar voru þær sömu og fræðimaðurinn hafði nú þegar fundið. Njörður andvarpaði og ýtti frá sér opinni bókinni. Hvað nú? Var þetta enn eitt öngstrætið? Þurfti hann að enn og aftur að þræða sig í gegnum aðra gátu í leit að merkingu eða tilgangi þessara morða? Kannski var enginn tilgangur, engin merking heldur geðsjúklingur sem hafði tekist að slá ryki í augu lögreglunnar. Eina vandamálið var þá frásögn Védísar, eiginkonu Gríms.
-Æ, þetta er nú meira helvítið, sagði hann við sjálfan sig og stóð á fætur. Hann dró gluggatjöldin frá og starði út í kolsvart þokumyrkrið. Hvernig stóð á þessu eiginlega? Einhvern veginn var þetta allt saman svo óraunverulegt. Mannlaust skip finnst og um leið kemur undarleg þoka yfir borgina, þoka sem virðist ekkert á förum og ef eitthvað var, þá var hún frekar þykkari í dag en í gær. Líkin hrönnuðust upp og ekki var laust við að Nirði fyndist hann vera staddur í einhverjum undarlegum draumi, einhvers staðar á milli svefns og vöku, - eða milli lífs og dauða.
Hann sneri sér aftur að skrifborðinu og teygði sig í bókina sem hann hafði verið að leita í. Svarið hlyti að vera þar að finna, öll hin táknin voru augljóslega híróglífur. Hann fletti áfram og staldraði við.
-Augnablik, sagði hann og hallaði sér fram. Á miðri blaðsíðunni var fimm arma stjarna og við hlið hennar útskýring. Þar kom fram að táknið stæði fyrir ríki hinna dauðu.
-Ríki hinna dauðu, sagði Njörður hugsi. Það féll mun betur við setninguna sem hann hafði þegar þýtt. En hvers vegna hringurinn í kringum stjörnuna? Ætli það sé einhvers konar varnargarður eða verndarbaugur? Skyndilega var sem það rynni upp fyrir Nirði ljós.
Faraó nauðugur bundinn til eilífs lífs og varnað inngöngu í ríki hinna dauðu.
Ætli þetta sé rétt þýðing, hugsaði Njörður með sér. Skyldi vera einhver faraó sem ekki hafi verið grafinn eftir siðum og venjum, heldur ætlað að lifa að eilífu? Hvers vegna ætli Forn-Egyptar hafi búið svo um hnútana? Þjóð sem trúði ákaflega sterkt á framhaldslífið, hví vildi einhver ekki að þessi faraó héldi áfram inn í sal dómsins, þar sem hjarta hans yrði vegið á móti fjöður sannleikans?
Bækur | Föstudagur, 22. ágúst 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kl.19:20
Klukkan var langt gengin í átta þegar Fjalar þrýsti á svartan takka inni í grárri blokk í vesturbænum. Hann hafði leitað af Nirði út um allt, hringt heim til hans nokkrum sinnum í dag og reynt að ná í hann í vinnunni. En allt kom fyrir ekki, ekkert svar og enginn virtist vita hvar hann var niðurkominn. Fjalar hafði ákveðið að koma við heima hjá honum á leiðinni heim til sín, en var ekkert allt of bjartsýnn á hann væri þar. Það voru ekki liðnar nema um tuttugu mínútur síðan hann hringdi þangað síðast.
Skyndilega var svarað og Fjalar kynnti sig. Innan tíðar var hann kominn upp í íbúð Njarðar.
-Hvar hefur þú haldið þig í dag, spurði Fjalar.
-Ég hef verið á bókasafninu.
-Og? Hefurðu komist að einhverju nýju?
-Já, það hef ég.
Fjalar starði á Njörð, sem virtist hafa gaman af því að draga þetta á langinn.
-Nú, já? Einhverju gagnlegu kannski, spurði hann.
-Viltu ekki fá þér sæti, svaraði Njörður og benti Fjalari á stofusófann.
-Ég ætla að sækja glósurnar mínar, bætti hann síðan við áður en hann hvarf inn á skrifstofu.
Fjalar settist niður. Íbúð Njarðar var einföld, litmjúk og búin fáum húsgögnum. Það var fínt og hreint inni hjá honum, allt í röð og reglu. Á veggjunum voru ódýrar eftirprentanir af málverkum sem hann kannaðist við en Fjalar hafði aldrei lagt það á sig að læra nöfnin á þeim. Einna helst mundi hann nöfn á bókum og að sjálfsögðu lögum. Það minnti Fjalar enn og aftur á að hann hafði ekki komist á síðustu kóræfingu. Hann horfði í kringum sig, húsgögnin voru vel flest í dekkri kantinum, stofuborðið virtist nokkuð vandað, brúnn viður og í miðju þess voru lagðar gular leirflísar skreyttar með brúnum blómum. Sófasettið var karrílitað og flauelklætt. Í glerskáp stóðu hvítar og gráar styttur af börnum auk þriggja hljómplatna sem stóðu einmanalegar í neðstu hillunni og nokkurra bóka. Hann stóð á fætur og gekk að hillunni, ósjálfrátt leituðu augu hans að bókunum. Hann las nöfn þeirra af kilunum. Hann kannaðist ekki við neina þeirra. Hann tók eina þeirra úr hillunni og fletti í gegnum hana, hún virtist honum fjalla um galdra.
-Þessi bók er hluti af ritsafni Aleister Crowley, sem var leiðtogi Ordi Templi Orientis. Seinna meir gaf hann út The Book of the Law, sem innihélt meðal annars útgáfu hans af Thelema reglunum.
Fjalar leit undrandi á Njörð, sem teygði sig í svarta bók í hillunni.
-Ef þú hefur áhuga á göldrum þá er þessi alveg ágæt, hún kom út í fyrra.
Fjalar tók við bókinni og leit á hana. Framan á henni var fimm hyrnd stjarna og á forsíðunni stóð Magickal formulary spellbook I. Bókin var eftir Herman Slater.
-Ert þú á kafi í þessu? Kukli og svoleiðis? spurði Fjalar Njörð.
-Ja, þetta hefur verið áhugamál mitt í mörg ár, svaraði hann. Fjalar rétti honum bókina, sem Njörður lét síðan aftur upp í hillu ásamt bók Crowleys. Fjalar settist aftur í sófann. Njörður dró hægindastól nær stofuborðinu, settist og breiddi úr glósunum sínum fyrir framan sig.
-Eftir ég var búinn að þýða rúnirnar þurfti ég bara að komast að því hvaða tungumál sá sem skrifaði þær notaði. Ég svaf varla dúr og reyndi að komast til botns í því en sama hve ég reyndi þá virtust öll sund mér lokuð. Nú, svo ég ákvað að skreppa upp í skóla og á leið minni þangað sá ég hund. Hann var svolítið líkur hundum sem eru á svo mörgum forn-egypskum myndum. Þá sá ég að mér hafði sést yfir tungumál þeirra. Ég sneri við og flýtti mér aftur hingað. Og þá lét svarið ekki á sér standa. Tep-tu-F þýðir: Hann sem á hæð sinni stendur. Ég vissi ekkert hvað þetta þýddi en ákvað að drífa mig upp á bókasafn Háskólans, því þar er að finna mun fleiri bækur um Egyptaland en ég á hér heima. Ég er búinn að sitja þar í allan dag og lesa en það var ekki fyrr en fyrir rétt um klukkutíma að ég skildi loks hvað þetta þýðir. Þessi setning vísar til guðsins Anpu, það er einmitt hann stendur á hæð og horfir yfir ríki hinna dauðu. Sem leiðir okkur að húðflúrinu. Merkið var í raun ekki neitt sérstakt merki, heldur tvær híróglífur. Egyptar gátu skrifað niður og upp og frá hægri til vinstri og öfugt. Það fór í raun eftir því hvernig leturtáknin sneru. Nú, þessi tákn stóðu fyrir N og P!
Fjalar horfði á Njörð og var ekki viss um hvort hann ætti að segja eitthvað. Njörður horfði á hann sigrihrósandi, er að því virtist.
-N og P? Hvað segir það mér, spurði Fjalar.
-Anpu!
-Guðinn sem þú varst að tala um?
-Já.
-En hvernig tengist þetta morðunum?
Njörður sagði ekki neitt í fyrstu en yppti síðan öxlum.
-Ég er ekki alveg viss. En mér þætti gaman að fá að sjá höfuðið. Ég hef á tilfinningunni að þar leynist hluti svarsins.
-Það er ekki hægt. Eins og þú veist þá var það sent út til rannsóknar.
Njörður andvarpaði og byrjaði að tína saman glósur sínar. Hann staldraði við eitt blaðanna.
-Manstu hvernig kona Gríms lýsti morðingjanum, spurði hann annars hugar.
-Svona nokkurn veginn. Af hverju spyrðu?
-Hvernig var lýsingin?
-Hálfur maður, hálfur úlfur. Með beittar klær og úlfahöfuð.
-Eða höfuð sjakala!
Njörður leit upp frá glósunum. Það kom undarlegur svipur yfir andlit hans.
-En þetta var ekki eina ástæðan fyrir því ég er búinn að reyna ná í þig í allan dag.
-Nú?
-Ég hef loksins fengið upplýsingar um skipið. Þýskararnir svöruðu okkur í morgun.
-Þýskararnir?
-Já, var ég ekki búinn að segja þér frá því? Þeir á tæknideildinni komust að því að vélin í skipinu var þýsk og við sendum fyrirspurn til vestur-þýska sendiráðsins.
-Og hvað sögðu þeir?
Innan tíðar hafði Fjalar greint Nirði frá sögu skipsins. Þeir ræddu saman um stund uns Fjalar stóð á fætur og bjó sig að halda á brott. Þegar hann stóð í dyragættinni sneri hann sér að Nirði og sagði:
-Hvaða ljóð er það sem byrjar: Vei, vei? Ég var að reyna muna það í dag, en kom því ekki fyrir mig. Manstu hvaða ljóð það er og kannski eftir hvern það er?
-Vei, vei, yfir hinni föllnu borg?
-Já, einmitt það ljóð.
-Það heitir Sorg og er eftir Jóhann Sigurjónsson.
Fjalar kinkaði kolli.
-Þakka þér fyrir, sagði hann síðan og kvaddi Njörð.
Bækur | Fimmtudagur, 21. ágúst 2008 (breytt kl. 08:42) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kl. 16:40
Njörður lagði bókina frá sér og geispaði. Lítill svefn og næringarskortur sáu til þess að hann hélt varla augunum opnum. Hann var rétt hálfnaður að blaða í gegnum Bók hinna dauðu, hann var svo sem ekki að lesa hvern kafla af mikilli dýpt heldur skimaði yfir hverja síðu í leit að svörum. Þetta var mikið verk og langsótt, enda hátt á annað hundrað kaflar, eða öllu heldur galdrar. Samkvæmt siðum Forn-Egypta átti hinn látni að hafa með sér hjartað yfir í sal dómsins, þar sem það var vegið á móti fjöður sannleikans. Reyndist hjartað léttara fékk sá hinn sami að halda áfram inn í undirheimana, annars var honum kastað eða fórnað í gin djöfla. Njörður stóð á fætur og teygði úr sér, tók kaffibrúsann og gekk út af bókasafninu. Það yrði gott að geta farið heim að sofa þegar þessu yrði lokið. Hann fór fram í anddyri og steig út fyrir bygginguna. Njörður settist í efstu tröppurnar fyrir framan Háskólann og horfði út yfir túnið, þangað sem styttan af Sæmundi fróða og Kölska að slást stóð. Eftir að hafa hellt í lokbolla kaffibrúsans veiddi hann sígarettupakka upp úr jakkavasanum. Hann kveikti sér í einni og saug að sér.
Þokan smaug á milli húsanna og þó Njörður gæti séð styttuna nokkrum metrum fyrir framan sig, sá hann ekki yfir að Norræna húsinu, sem stóð einmanalegt í miðri mýrinni við hlið flugvallarins. Hann hafði oft velt því fyrir sér hvers vegna þessu húsi hafi verið valin þessi sérstaki staður. Hinum megin við íþróttahúsið stóð Árnagarður og þar inni hvíldu djásnin, handritin góðu. Reyndar var enn töluverður fjöldi íslenskra handrita í Danmörku og Svíþjóð, einna verst þótti honum að vita til þess að öll bestu galdrahandritin voru þar en ekki hér. Hann hafði ósjaldan heimsótt mörg mismunandi söfn í leit að rúnagöldrum, oftar en ekki árangurslaust því sumpart voru mörg þessi handrit eftirgerðir eldri handrita og mörg innihéldu því sömu eða svipaða galdra.
Njörður kláraði sígarettuna og skvetti dreggjunum úr bollanum. Þegar hann hafði gengið frá brúsanum stóð hann á fætur og hélt aftur inn á bókasafnið. Hann teygði sig í annan stól og kom sér vel fyrir, lét fæturna hvíla á öðrum stólnum og hallaði sér aftur í sætinu. Njörður átti von á því að þurfa eyða lunganum úr deginum þarna inni, þrátt fyrir syfju og svengd, en hann hungraði frekar eftir svörum en mat.
Eftir um þriggja tíma lestur fann Njörður að augnlokin voru farin að þyngjast. Hann nuddaði augun og renndi aftur yfir blaðsíðuna sem hann hafði verið að lesa.
-Bíddu nú við, sagði hann stundarhátt við sjálfan sig. Á miðri síðunni stóð orðið Anpu. Hann leit á glósurnar sínar, tók upp penna og krotaði í þær.
A E I O U
N
P
A E I O U
-Þetta gengur upp.
Hann las aftur yfir setninguna þar sem hann hafði fundið orðið. Njörður skrifaði hjá sér um leið íslenska þýðingu.
Ég hefi þvegið hendur mínar í sama vatni og guðinn Anpu þvoði sér er hann hafði framkvæmt skyldur sínar, smurt og bundið um hinn látna.
Anpu, sá sem hafði umsjón með smurningu og bindingu hins látna. Hann teygði sig í aðra fræðibók, sem fjallaði um guði og trúarbrögð Forn-Egypta. Hann var ekki lengi að fletta upp nafni guðsins. Njörður las í gegnum kaflann og punktaði hjá sér nokkur atriði. Anpu hafði verið guð hinna dauðu hjá Forn-Egyptum, hann leiddi þá látnu í gegnum sal dómsins. En samkvæmt bókinni stóð hann einnig vörð yfir undirheimunum, enda var ítrekað heitið á hann í bókinni. Tilbeiðsla á honum var ævaforn og höfðu egypskir fræðimenn rakið sögur allt til upphafs ríkidæmis Forn-Egypta af dýrkun á Anpu af einhverju tagi. Hunddýrið sjakali var guðinum nátengt, til að byrja með hefur Anpu eflaust verið einhvers konar sjakalaguð en dauðraríki færst undir stjórn hans, kannski sökum þess hversu sjakalar voru algengir í kringum grafhýsi og grafreiti. En Grikkir til forna áttu annað nafn yfir hann og kölluðu Anubis, Njörður þekkti guðinn undir því nafni.
Hann hallaði sér aftur. Hann hafði oft heyrt um Anubis. Samkvæmt því sem hann hafði lesið þá var Anpu guð sem hafði svipuðu hlutverki að gegna og hin gríska Hekate, gyðja hinna myrku afla undirheimanna. Hann var eftirlitsmaður látins fólks og gætti þeirra í ríki sínu. En hvernig tengdist hann þessum málum? Hvers vegna var verið að ákalla hann í þessum morðum?
Hann lagði frá sér bókina um guðina og hélt áfram að lesa í Bók hinna dauðu. Kannski var svarið við seinni gátunni einnig að finna í henni.
Bækur | Miðvikudagur, 20. ágúst 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kl.14:20
Þokan virtist þynnri í kringum Kristskirkju. Klukkurnar voru hættar að hringja en kirkjan var uppljómuð. Fjalar staldraði við eitt augnablik áður en hann gekk inn fyrir og virti fyrir sér bygginguna. Hann hafði ótal sinnum ekið framhjá henni án þess að gefa henni nokkurn gaum. Dökk kirkjan var í gotneskum stíl, gluggarnir langir og mjóir. Turninn reis kuldalegur upp í mistrið og það hefði ekki komið Fjalari á óvart ef hann hefði séð nokkrar grimmilegar ufsagrýlur kíkja út yfir þakskeggið. Einhverra hluta vegna virtust sumar kirkjur byggðar með þeim formerkjum að vekja upp ótta eða hræðslu meðal þeirra sem á þær horfðu. Eflaust var á því einföld skýring, eins og þær væru gerðar með þessum hætti til að halda djöflum frá, en Fjalar var ekki trúaður á þess háttar. Til þess var hann of jarðbundinn og hafði orðið fulloft vitni að því hversu vond og illgjörn mannskepnan gat verið. Nei, hann var viss um það væri ekki til Guð. Hann tók hvítan lögregluhattinn niður og steig inn fyrir.
Meðfram öllum bekkjum var búið að tendra á hvítum kertum og sátu nokkrar nunnur í fremstu sætisröðinni. Við altarið stóð aldraður maður ber að ofan, hann var engu að síður klæddur hempu en hafði flett efri hluta hennar yfir þann neðri. Á bringu hans voru fjölmörg sár og láku rauðir taumar úr þeim. Fjalar sá að nokkur sáranna voru í krossmynd, en önnur voru svo blóðug og djúp að erfitt var að greina lögun þeirra. Presturinn stóð og las upp úr þykkri, gullsleginni bók en Fjalar skildi ekki hvað hann var að segja. Hann benti lögreglumönnunum tveimur sem höfðu komið með honum að bíða. Sjálfur gekk hann hægt þangað sem nunnurnar sátu og fékk sér sæti. Ein þeirra leit til Fjalars, andlit hennar var þrútið og augun grátbólgin. Hann reyndi að hughreysta hana með blíðu brosi.
-Komdu sæl, voruð það þið sem hringduð á lögregluna, hvíslaði hann. Hún hristi höfuðið neitandi og bar hvítan klút upp að öðru auganu.
-Þær inni gera það, svaraði nunnan. Fjalar átti erfitt með að koma fyrir sig þykkum hreimnum. Áður en hann náði að spyrja aftur bar nunnan vísifingur upp að vörum sínum og benti síðan á prestinn. Fjalar kinkaði kolli og hallaði sér aftur í sætinu. Hann leit í kringum sig, þessi kirkja var ólík öllum öðrum kirkjum sem hann hafði komið inn í. Hún var hlaðin skrautmunum og myndum af Jesú, Maríu og öllum hinum dýrðlingunum sem hann kunni ekki að nefna. Þessi kirkja var mun líkari þeim sem hann hafði séð myndir af og hafði verið sagt að stæðu við Miðjarðarhafið. Kaþólski söfnuðurinn í Reykjavík var nokkuð stór miðað við aðra sértrúarsöfnuði og í honum var meðal annars Halldór Laxness, uppáhaldsrithöfundur Fjalars. Reyndar hafði nóbelsskáldið ekki náð að heilla hann með nýjustu bókum sínum, eins og hann gerði hér í eina tíð þegar Fjalar var ungur, sér í lagi eftir að hann skrifaði Kristnihaldsómyndina. Hann hrökk upp úr þessum hugleiðingum sínum um bókmenntir þegar nunnan við hlið hans sló létt á öxl hans og benti honum á að standa upp og fylgja sér. Síðan gekk hún sem leið lá fram í anddyri og hann elti. Á meðan þau gengu fram uppgötvaði Fjalar að presturinn var að lesa aftur upp sömu rullu og hann hafði heyrt er hann kom fyrst inn. Hann áminnti sjálfan sig að spyrja nunnuna út í þetta. Þegar þau voru komin út sneri hún sér að honum og sagði:
-Faðir Michael vera eitthvað veikur. Ég skilja ekki, hann vakna í morgun með svona sár og vilja ekki við gera neitt.
-Bíddu, vaknaði hann svona, spurði Fjalar. Með látbragði sýndi hann öðrum lögreglumannanna að hann ætti að skrifa niður frásögn konunnar. Sá flýtti sér að veiða upp litla svarta skrifblokk og penna.
-Já, og hann tala um vondur draumur. Lúsifer vera heimsækja hann í draumur.
-Vaknaði hann þá með þessi sár? Veistu hvort nokkur hafi veitt honum þau?
-Nei, hann bara vakna með þau.
-Hvers vegna var hann að hringja kirkjuklukkunum?
-Ég sjá hann bara hringja. Faðir Michael vilja ekki segja okkur, við bara sitja og hlusta á revelation.
-Opinberunina, sagði annar lögregluþjónanna. Fjalar leit af konunni á manninn og setti í brýnnar.
-Er það sem hann er að lesa aftur og aftur þarna inni?
-Já, hann lesa um Babýlon.
-Og hvað er hann að segja um Babýlon?
-Ég sækja Biblíu, sagði hún og flýtti sér inn. Fjalar horfði á eftir henni. Ekki leið á löngu þar til hún kom aftur út og hélt á lítilli svarti bók. Hún fletti hratt og fimlega í gegnum hana, þar til hún kom að 18. kafla í Opinberunarbókinni. Fjalar tók við bókinni úr höndum nunnunnar og las.
-...fallin er Babýlon hin mikla og orðin að djöfla heimkynni og fangelsi alls konar óhreinna anda og fangelsi alls konar óhreinna og viðbjóðslegra fugla.
Lögreglumennirnir litu hvor á annan.
-...Vei, vei, borgin mikla, Babýlon, borgin volduga, á einni stundu kom dómur þinn.
Fjalar leit upp og horfði framan í nunnuna.
-Er hann að lesa þetta upp?
-Já, hann lesa allur kafli aftur og aftur.
-Ég sá að það lak enn úr sárum hans, þarf ekki að láta líta á þetta?
-Já, en hann vilja það ekki. Bara vilja standa í kirkju og lesa úr Biblía.
Fjalar sneri sér að lögreglumönnunum og sagði:
-Farið inn og náið í prestinn. Færið hann síðan upp á bráðamóttöku og látið líta á hann. Þú ert kannski til í að hjálpa þeim, spurði hann nunnuna, sem kinkaði kolli. Þegar þau voru öll farin inn hélt Fjalar áfram að lesa.
-Vei, vei, borgin mikla, sem allir þeir, er skip eiga á sjónum, auðguðust vegna auðæfa hennar. Á einni stundu var hún í eyði lögð.
Fjalar horfði á opna bókina í höndum sér.
-Er ekki eitthvað ljóð sem byrjar á svipaðan hátt, spurði hann sjálfan sig.
Bækur | Mánudagur, 18. ágúst 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kl. 13:15
Njörður stóð upp frá skrifborðinu. Hann sem á hæð sinni stendur. Hvað þýddi þetta? Þetta hlaut að tengjast Forn-Egyptum á einhvern hátt, en á hvaða hátt og hvernig hann gat komist að því. Eftir því sem hann best vissi var enginn af sagnfræðingunum upp í Háskóla vel menntaður í egypskum fræðum. En einhvers staðar er svarið að finna, þannig er það alltaf, sannfærði fræðimaðurinn sjálfan sig um. Hann gekk að bókaskápnum sínum, sem náði frá gólfi og upp í loft, horna á milli í herberginu. Njörður hafði safnað bókum svo lengi sem hann mundi eftir sér, faðir hans hafði verið mikill bókaunnandi og fékk Njörður safn Torfa að gjöf frá móður sinni þegar hann flutti suður. Bækurnar sem voru í skápnum voru þó aðeins þær bækur sem hann notaði og las hvað mest þegar hann var heima, þær sem hann þurfti í vinnunni geymdi hann á skrifstofu sinni í Háskólanum en aðrar geymdi hann í kössum niðri í geymslu. Hann renndi yfir bækurnar um sagnfræði, fyrir utan bókina eftir Faulkner voru ekki margar sem fjölluðu beint um Egyptaland. Hann mundi reyndar ekki hvernig hann hafði eignast þá bók eða hvenær, en einhverra hluta vegna hafði hún endað þarna upp í hillu og staðið þar óhreyfð í nokkur ár. Hann gekk fram í eldhús. Hann sem á hæð sinni stendur. Við hvern var átt? Á meðan hann velti þessu fyrir sér hellti Njörður upp á kaffi.
Skyndilega datt honum svolítið í hug. Hann hafði gleymt húðflúrinu. Skyldi bók Faulkners geta hjálpað honum þar? Hann dreif sig aftur inn í herbergið og dró fram myndina af húðflúrinu. Njörður fletti hratt í gegnum bókina uns hann hafði fundið svarið.
-Þetta gat ekki verið einfaldara, sagði hann stundarhátt við sjálfan sig. Hvers vegna datt mér þetta ekki í hug fyrr, hugsaði hann með sér um leið og hann skrifaði niður svarið.
Efra merkið stóð fyrir bókstafinn N en hið neðra fyrir P. En hvað merkti þetta? Nú þegar hann var loksins búinn að þýða bæði rúnirnar og húðflúrið, stóð hann frammi fyrir enn fleiri gátum. Hann sem á hæð sinni stendur og NP.
NP. Var þetta skammstöfun eða dæmi um orð þar sem búið var að henda í burt öllum sérhljóðum? Í raun voru möguleikarnir töluvert margir og það myndi taka langan tíma að vinna úr þeim og finna rétt svar. Ósjálfrátt skrifaði hann niður á blað möguleikana.
A E I O U
N
A E I O U
P
A E I O U
Það sem verra var að hann vissi ekki hvort það væri einn sérhljóði fyrir framan stafina eða tveir, hvort það var yfir höfuð sérhljóði fyrir aftan þá eða hvort stæði sérhljóði á milli þeirra. En eitt var víst, þeir hefðu verið látnir standa með orðinu ef þeir hefði verið merkingargreinandi. Hann starði á blaðið og reyndi að raða saman stöfum og fá út orð sem hann kannaðist við en til einskis. Hann var ekki vel að sér í máli Forn-Egypta, hafði í raun aldrei haft áhuga á að læra það enda var tungumál þeirra ekki skylt þeim indó-evrópsku. Njörður hafði lagt stund á latínu, hebresku, norrænu og forn-grísku, sá grunnur virtist honum ekki koma að miklu gagni nú. Hann tók blöðin saman og stakk ofan í töskuna sína.
Njörður fór aftur fram í eldhús, slökkti á kaffikönnunni og hellti svörtum vökvanum í hitabrúsa. Síðan klæddi hann sig í og fór út í bíl. Ekki leið á löngu þar til að hann var staddur við innganginn að Háskólabókasafninu í aðalbyggingu Háskólans.
-Ef ég finn ekki svarið hér, þá finn ég það ábyggilega aldrei, í það minnsta ekki hér á landi, sagði Njörður lágt við sjálfan sig. Bókasafnið hýsti yfir 300 þúsund titla og hlaut að eiga einhverjar bækur um egypsk fræði. Njörður heilsaði sköllóttum bókasafnverði kumpánlega og bað hann um aðstoð við að finna bækur í þessum efnisflokki. Að hálftíma liðnum settist hann niður með ágætan stafla af bókum fyrir framan sig. Hann fletti nokkuð hratt í gegnum þær fyrstu og sá fljótlega að þær myndu ekki koma að miklu gagni, því flestar fjölluðu almennt um menningu og sögu þessarar fornu þjóðar. Eftir um tveggja klukkutíma leit og lestur kom hann að bók sem hét The Egyptian Book of the Dead eftir E. A. Wallis Budge. Hann hafði heyrt um bók hinna dauðu en aldrei lesið hana, hann vissi að hún var rangnefnd bók hinna dauðu því Forn-Egyptar höfðu mjög ákveðnar hugmyndir um lífið eftir dauðann. Hún átti víst að innihalda ýmsa galdra sem egypskir prestar til forna notuðu til að undirbúa lík fyrir inngöngu þess í undirheimana, eða ríki hinna dauðu. Bókarkápan var gul og framan á henni var mynd af manni með höfuð svarts hunds.
Bækur | Fimmtudagur, 14. ágúst 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kl. 13:40
Fjalar lagði tólið á. Hvar gat Njörður verið? Fjalar hafði reynt að ná sambandi við hann síðan í morgun en án árangurs. Svo virtist vera sem Njörður væri horfinn, hann var ekki í vinnunni og svaraði ekki símanum heima hjá sér. Varla færi hann að álpast niður að höfn? Nei, það gat ekki verið, Njörður hafði aldrei komið um borð, hann var ennþá hreinn, ósnertur af hinu illa andrúmslofti sem virtist fylgja skipinu. En það voru fleiri sem höfðu verið um borð, strákarnir á tæknideildinni höfðu eytt dágóðum tíma þar á meðan þeir voru að rannsaka skipið. Fjalar hefði reynt að hafa upp á þeim í gær, en komst að því að þeir höfðu farið á námskeið í Noregi, - saman. Hann skildi þetta ekki, sama hversu lengi sem hann myndi reyna. Svona lagað var ekki vel liðið innan lögreglunnar, þetta var eitt af þessum málum sem allir vissu um en enginn ræddi. Nei, þetta yrði eitthvað sem hann myndi aldrei skilja, - eins og þessi trúbador þarna sem hann mundi aldrei hvað hét. Þetta var bölvuð ónáttúra og ekkert annað. En hann mátti ekki vera að því að velta sér upp úr þessu núna, hann þurfti að finna Njörð sem fyrst.
Fjalar var loksins búinn að komast að því hvað skipið hét. Þýska sendiráðið hafði sent þeim símskeyti snemma í morgun. Hann var viss um að Nirði þætti upplýsingarnar nokkuð áhugaverðar, vonandi hjálpuðu þær honum að leysa þessa gátu. Svo virtist vera sem þetta skip ætti sér langa og áhugaverða sögu. Der Sturmmädchen var í fyrstu talið hafa sokkið úti fyrir ströndum Portúgals 1922 en fannst nokkrum árum síðar mannlaust á reiki við strendur Frakklands. Þar var það dregið til hafnar og borin kennsl á það. Á sama tíma fann franska lögreglan fyrsta líkið, þeim átti eftir að fjölga eftir því sem leið á vetur og öll átti þau það sameiginlegt að búið var að fjarlægja hjartað úr þeim. Morðinginn fannst um borð í skipinu og reyndi að komast undan lögreglunni. Hann var skotinn á flótta. Hafnaryfirvöld í Frakklandi létu sökkva skipinu nokkrum dögum síðar.
Fjalar stóð á fætur og gekk í kringum skrifborðið. Hann var orðinn þreyttur og hálfslappur. Höfuðverkurinn sem hafði plagað hann undanfarna daga var aftur farinn að gera vart við sig og sannast sagna, þá kveið Fjalar fyrir nóttinni. Hann þráði að sofna en jafnframt óttaðist það, martraðirnar sem ásóttu hann ágerðust og urðu raunverulegri með hverri nóttu sem leið.
Hann hélt á penna og notaði hann eins og trommukjuða á rúðuna um leið og hann starði út í litlaust síðdegið. Hvar var Njörður? Hann hringdi aftur heim til hans. Enginn svaraði.
-Andskotinn er þetta, sagði hann og skellti á. Fjalar stóð aftur á fætur og tók símskeytið frá sendiráðinu upp af borðinu. Hann las það yfir.
-Hvernig í fjandanum hefur skipið endað hérna? Ætli vélin hafi verið hirt úr skipinu á sínum tíma og sett í annað skip, spurði hann sjálfan sig. Fjalar henti blaðinu aftur á borðið og tók upp kaffibollann sinn. Um leið og hann sá merkið á bollanum bölvaði Fjalar sjálfum sér.
-Ég vissi að ég gleymdi einhverju, sagði hann svekktur, um leið og hann mundi eftir kóræfingunni sem hann hafði misst af kvöldið áður. Hann lét sig falla niður í stólinn og tók upp símann. Fjalar hringdi í Háskólann og bað um Njörð. Eftir stutta stund lagði hann aftur á. Hvar gat Njörður eiginlega verið? Ætli eitthvað hafi komið upp á hjá honum?
Hann hrökk upp úr hugleiðingum sínum þegar bankað var á hurðina hjá honum og Jóhanna stakk höfðinu inn um dyragættina.
-Það var verið að hringja frá Landakotsspítala.
-Nú?
-Presturinn þar er víst eitthvað að gera þau vitlaus.
-Hvers vegna kemur það okkur við?
-Hann hringir í sífellu kirkjuklukkunum. Hefurðu ekki heyrt í þeim?
Fjalar leit aftur fyrir sig. Glugginn var lokaður hjá honum. Hann sneri sér aftur að Jóhönnu.
-Hvers vegna ertu að trufla mig með þessu? Sendu bíl á vettvang, þú veist alveg hvað þú átt að gera.
-Já, en ...
-Já, hvað?
-Þú sagðir að við ættum að láta þig vita ef við yrðum var við eitthvað sem tengdist kannski þessum morðmálum?
-Já?
-Hjúkrunarkonan sem hringdi sagði að presturinn hagaði sér mjög undarlega. Röflaði víst einhverja vitleysu um djöfla og stæði alblóðugur í kirkjunni og læsi upp úr Biblíunni. Hann er víst búinn að láta hringja kirkjuklukkunum gott sem stanslaust síðan snemma í morgun.
Bækur | Miðvikudagur, 13. ágúst 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kl. 11:00
Njörður nuddaði augun. Hann hafði verið vakandi alla nóttina og unnið við að ráða gátuna. Hvernig sem hann reyndi þá fékk hann ekki botn í þetta. Hann var búinn að raða öllum mögulegum sérhljóðum fyrir framan og aftan orðin án árangurs. Engu að síður var hann búinn að komast að því að þetta voru ekki latnesk, forn-grísk eða hebresk orð. Það var ágætt út af fyrir sig, því með þessu móti tókst honum að fækka möguleikunum. Útilokunaraðferðin var oftar en ekki eina leiðin til að finna hvaða tungumál átti í hlut. Hann stóð á fætur og gekk inn í eldhús. Það var töluvert síðan hann hafði hellt upp á, eflaust ekki síðan skömmu fyrir tvö og svartur drykkurinn var orðinn staðinn og kaldur. Hann settist við eldhúsborðið og horfði út. Þokan var þétt sem fyrr, þetta kynngimagnaða mistur sem birgði alla sýn. Fyrir utan heyrði hann í kirkjuklukkum, ósjálfrátt leitt Njörður á armbandsúr sitt. Hún var ekki nema ellefu. Hvers vegna ætli verið sé að hringja, spurði Njörður sjálfan sig.
Hann saup úr kaffibollanum og stóð á fætur. Hann geispaði og velti því fyrir sér hvort hann ætti að leggja sig. Sem betur fer átti hann ekki að kenna á föstudögum, reyndar var viðtalstími hans í hádeginu en nemendur Háskólans voru ótrúlega latir við að nýta sér hann. Oftast voru það einungis þeir sem voru að skrifa lokaritgerðirnar sínar sem heimsóttu hann. Njörður geispaði aftur og ákvað að kíkja í skólann, þó ekki væri nema til að vera við skyldi einhverjum útskriftarnemana detta í hug að banka upp á. Hann burstaði tennur í flýti og fór síðan út í bíl. Hann ók út á Miklubraut og þaðan að Háskólanum. Á meðan hann beið eftir því að komast inn á hringtorgið á gatnamótum Suðurgötu og Miklubrautar tók hann eftir litlum, móbrúnum, íslenskum hundi í taumi og eftir honum tölti gamall maður. Hundurinn var með sperrt eyru og frekar langt trýni, miðað við hundana fyrir vestan, og hann minnti Njörð á fornar, einvíðar myndir af egypskum hundum, eins og þær sem hann hafði svo oft séð á síðum sagnfræðihefta og bóka sem fjölluðu um þetta merkilega land í Norður-Afríku. Njörður gat ekki varist brosi þegar hann sá hvernig hundurinn togaði þann gamla áfram, sem átti í stökustu vandræðum með að halda í við hundinn. Þegar Njörður var aftur lagður af stað og kominn inn á hringtorgið var sem það rynni upp fyrir honum ljós.
-Hvernig gat mér sést yfir þetta, sagði hann við sjálfan sig og barði með krepptum hnefa á stýrið. Hann fór heilan hring á torginu og hélt aftur tilbaka. Hann trommaði með fingrunum á gírstöngina. Hann ók nokkuð greitt heim til sín og var kominn þangað á skömmum tíma. Hann flýtti sér upp, tók tvær tröppur í hverju skrefi. Á stigapallinum fyrir neðan íbúðina sína mætti hann Halldóru, roskinni nágrannakonu sinni, þar sem hún var að vökva plönturnar í sameigninni.
-Mikið ertu að flýta þér, Njörður minn, sagði hún.
-Já, svaraði hann og reyndi að smeygja sér framhjá henni. En hún virtist ekkert á því að ætla að sleppa honum.
-Vissirðu að ungu hjónin á fyrstu hæð eru með kött?
-Nei, er það?
-Já, þau eru með grábröndóttan fresskött.
-Nei, veistu ...
-Ég veit ekki betur en það standi skýrum stöfum í húsreglunum að það sé bannað að vera með gæludýr. Þau hafa ekki bankað upp á hjá okkur og spurt okkur gömlu hjónin hvort okkur sé sama, eins og venja er til.
-Heyrðu, ég er ...
-Manstu hérna eftir honum Sigurði, hann átti heima uppi á efstu. Hann var bæði með hund og kött en hann var nú svo kurteis og almennilegur að banka upp á hjá okkur öllum og fá leyfi fyrir þeim. Það voru nú líka svo yndisleg dýr, alveg hreint unaðslega blíð og góð.
-Halldóra mín, ég er að flýta mér. Ég má bara ekki vera að þessu, sagði Njörður ákveðið og steig framhjá feitlaginni konunni. Hann leit yfir öxlina á sér þegar hann var kominn að dyrunum inn til sín og sá hvar hún hvarf niður stigann.
Hann klæddi sig ekki úr skónum heldur fór beint að bókahillunni inni á skrifstofunni, sem hann hafði búið sér í öðru herbergjanna. Hann dró fram litla bók sem hét: A Concise Dictionary of Middle Egyptian eftir Raymond O. Faulkner. Hann settist við skrifborðið og fletti upp í bókinni. Eftir um hálftíma var hann búinn að þýða setninguna:
Hann sem á hæð sinni stendur.
Hvað þýddi þetta? Var þetta enn ein gátan? Njörður horfði gáttaður á blaðið fyrir framan sig. Hann sem á hæð sinni stendur, um hvern var verið að tala? Njörður sat hugsi og varð ekki var við að síminn hringdi.
Hins vegar leit hann upp skömmu síðar þegar hann varð var við að kirkjuklukkurnar hringdu enn.
Bækur | Mánudagur, 11. ágúst 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kl. 05:10
Fjalar stóð við símaborðið heima hjá sér og hélt tólinu upp að hægra eyranu. Hann hafði ekki náð að festa svefn að neinu ráði, í þann stutta tíma sem hann hafði dottað í stofusófanum dreymdi hann svo furðulegan draum að hann var dauðfeginn þegar hann vaknaði við símhringinguna. En aldrei þessu vant var hann ekki með höfuðverk.
-...virðist hafa farið um borð í skipið og fundið hjartað þar.
-Hver var á vakt við skipið?
-Hannes.
-Ég skil. Og konan komst óséð framhjá honum?
-Já, mig grunar nú að hann hafi dottað.
-Er þessi kona niðri á stöð?
-Já.
-Og hefur hún sagt til nafns?
-Nei, ekki enn. Hún er alveg stjörf. En einhverjir hérna könnuðust við hana.
-Nú?
-Hún heitir Guðbjörg Anna Ingimundardóttir, blaðamaður á ...
-Morgunblaðinu, botnaði Fjalar hugsi. Hvað í fjáranum hefur hún verið að gera þarna?
-Heyrðu, ég er á leiðinni, bætti hann síðan við.
Síðan lagði hann á og klæddi sig í úlpu. Fjalar horfði á eiginkonu sína, þar sem hún sat við eldhúsborðið og snæddi morgunverð. Hann kyssti hana létt á kinnina og kvaddi. Um leið og hann startaði bílnum vonaði hann að ekki væri fleira að frétta af þessu máli með skipið. Á meðan ekki finnast fleiri myrtir ...
Hann ók sem leið lá niður á Hverfisgötu. Ekki voru nema um fimmtán mínútur liðnar frá því Fjalar sleit símtalinu þar til hann var kominn niður á stöð. Hann lagði fyrir aftan húsið og fór inn bakdyramegin. Hann gekk inn að yfirheyrsluherbergjunum. Það tók hann örskamma stund að komast að því í hvaða herbergi Guðbjörg var. Hann bankaði létt á hurðina áður en hann opnaði dyrnar. Hún sat við lítið borð og starði út um mjóan glugga. Fyrir framan hana var ungur lögreglumaður, sá hinn sami og hafði hringt í Fjalar. Á borðinu lá upptökutæki og lítill hljóðnemi. Fjalar heilsaði manninum og benti honum á að stíga aðeins með sér fram fyrir.
-Hvernig er hún, spurði Fjalar þegar þeir voru komnir fram á gang.
-Alveg stjörf. Ekki sagt stakt orð.
-Ertu búinn að láta hringja upp á Borgarspítala?
-Já, þeir lofuðu að senda geðlækni með sjúkrabílnum. Hún hefur fengið svakalegt áfall þarna.
-Ég get rétt ímyndað mér það.
-Hvað ...
-Ekki einu sinni spyrja, ég hef ekki hugmynd um það. Ef ég vissi það væri ég fyrir löngu búinn að gera eitthvað í málinu.
Lögreglumaðurinn kinkaði kolli.
-Gerðu mér greiða, náðu fyrir mig í vatnsglas. Eða kannski kaffi. Ég ætla að setjast þarna inn hjá henni og athuga hvort að ég nái einhverju upp úr henni.
Fjalar sló létt á öxl lögreglumannsins og brosti til hans. Hann sá að manninum var órótt yfir þessu og hann vissi sem var að ef einhver þurfti að halda ró sinni og yfirvegun þá var það hann sjálfur, hann þurfti að vera undirmönnum sínum til fyrirmyndar. Fjalar horfði á eftir honum. Rétt áður en hann hvarf inn um dyrnar við enda gangarins kallaði Fjalar:
-Hvar er Hannes?
-Ég sendi hann heim. Hann var alveg miður sín, greyið karlinn, tók þetta mjög nærri sér. Ég spjallaði við hann, en hann hefur eflaust verið steinsofandi á vaktinni, þó svo hann hafi ekki viljað viðurkenna það.
-Allt í lagi, svaraði Fjalar og sneri sér við. Hann opnaði inn til Guðbjargar. Hann fékk sér sæti við borðið. Hann starði um stund á Guðbjörgu. Hún virtist ekki vita af honum, heldur starði enn út um gluggann og í augum hennar var ákveðið tómlæti, engin bjarmi, aðeins myrkur. Hvað ætli hafi gerst um borð í skipinu? Skyndilega sneri hún sér að Fjalari með undarlegt blik í augum, næstum geðveikislegt, og sagði:
-Hann vildi að ég fengi það, hann gaf mér það.
-Hver? Gaf þér hvað?
-Andinn í skipinu gaf mér hjartað. Hann sagði mér að hann vildi ekki eiga það.
-Er andi í skipinu?
Guðbjörg leit á Fjalar og eitthvað við svip hennar skaut honum skelk í bringu.
Bækur | Þriðjudagur, 5. ágúst 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar