Færsluflokkur: Bækur

Sumarfrí

Þar sem ég er í sumarfríi (þegar þetta er skrifað í 17 stiga hita, logni og hálfskýjuðu í Ásbyrgi) þá er sagan í pásu allt fram til mánudagsins 14. ágústs.

Með fyrirfram þökk,
Þorsteinn Mar


Þoka

Kl. 04:35

 

Skyndilega rankaði Hannes við sér. Hann hafði sofnað á vaktinni. Hann nuddaði augun og rétti úr sér. Hann vissi vel að það yrði ekki vel séð að hann skyldi hafa sofnað, en það var ekkert að gerast. Í raun hafði ekkert gerst hér niður við höfn síðan þetta skip kom og hann skildi ekki hvers vegna þeir voru látnir vakta það. Ekki eins og fólk hefði einhvern áhuga á því að skoða þennan bölvaða dall. Honum leiddist að sitja yfir skipinu og ekki bætti á að þurfa vera þarna að nóttu til. Einhverra hluta vegna leið honum ekkert sérstaklega vel niðri við höfn á þessum tíma sólarhrings. Hann ræsti bílinn og kveikti á framljósunum.

-Hver andskotinn, hrópaði Hannes upp fyrir sig, um leið og ljósin lýstu fram fyrir bílinn. Í ljóskeilunni stóð ung dökkhærð kona. Hún hélt á blóðugum, kringlóttum hlut, skalf og starði opinmynnt fram fyrir sig.

 

Kl. 05:10

 

Fjalar stóð við símaborðið heima hjá sér og hélt tólinu upp að hægra eyranu. Hann hafði ekki náð að festa svefn að neinu ráði, í þann stutta tíma sem hann hafði dottað í stofusófanum dreymdi hann svo furðulegan draum að hann var dauðfeginn þegar hann vaknaði við símhringinguna. En aldrei þessu vant var hann ekki með höfuðverk.

-...virðist hafa farið um borð í skipið og fundið hjartað þar.

-Hver var á vakt við skipið?

-Hannes.

-Ég skil. Og konan komst óséð framhjá honum?

-Já, mig grunar nú að hann hafi dottað.

-Er þessi kona niðri á stöð?

-Já.

-Og hefur hún sagt til nafns?

-Nei, ekki enn. Hún er alveg stjörf. En einhverjir hérna könnuðust við hana.

-Nú?

-Hún heitir Guðbjörg Anna Ingimundardóttir, blaðamaður á ...

-Morgunblaðinu, botnaði Fjalar hugsi. Hvað í fjáranum hefur hún verið að gera þarna?

-Heyrðu, ég er á leiðinni, bætti hann síðan við.

Síðan lagði hann á og klæddi sig í úlpu. Fjalar horfði á eiginkonu sína, þar sem hún sat við eldhúsborðið og snæddi morgunverð. Hann kyssti hana létt á kinnina og kvaddi. Um leið og hann startaði bílnum vonaði hann að ekki væri fleira að frétta af þessu máli með skipið. Á meðan ekki finnast fleiri myrtir ...

Hann ók sem leið lá niður á Hverfisgötu. Ekki voru nema um fimmtán mínútur liðnar frá því Fjalar sleit símtalinu þar til hann var kominn niður á stöð. Hann lagði fyrir aftan húsið og fór inn bakdyramegin. Hann gekk inn að yfirheyrsluherbergjunum. Það tók hann örskamma stund að komast að því í hvaða herbergi Guðbjörg var. Hann bankaði létt á hurðina áður en hann opnaði dyrnar. Hún sat við lítið borð og starði út um mjóan glugga. Fyrir framan hana var ungur lögreglumaður, sá hinn sami og hafði hringt í Fjalar. Á borðinu lá upptökutæki og lítill hljóðnemi. Fjalar heilsaði manninum og benti honum á að stíga aðeins með sér fram fyrir.

-Hvernig er hún, spurði Fjalar þegar þeir voru komnir fram á gang.

-Alveg stjörf. Ekki sagt stakt orð.

-Ertu búinn að láta hringja upp á Borgarspítala?

-Já, þeir lofuðu að senda geðlækni með sjúkrabílnum. Hún hefur fengið svakalegt áfall þarna.

-Ég get rétt ímyndað mér það.

-Hvað ...

-Ekki einu sinni spyrja, ég hef ekki hugmynd um það. Ef ég vissi það væri ég fyrir löngu búinn að gera eitthvað í málinu.

Lögreglumaðurinn kinkaði kolli.

-Gerðu mér greiða, náðu fyrir mig í vatnsglas. Eða kannski kaffi. Ég ætla að setjast þarna inn hjá henni og athuga hvort að ég nái einhverju upp úr henni.

Fjalar sló létt á öxl lögreglumannsins og brosti til hans. Hann sá að manninum var órótt yfir þessu og hann vissi sem var að ef einhver þurfti að halda ró sinni og yfirvegun þá var það hann sjálfur, hann þurfti að vera undirmönnum sínum til fyrirmyndar. Fjalar horfði á eftir honum. Rétt áður en hann hvarf inn um dyrnar við enda gangarins kallaði Fjalar:

-Hvar er Hannes?

-Ég sendi hann heim. Hann var alveg miður sín, greyið karlinn, tók þetta mjög nærri sér. Ég spjallaði við hann, en hann hefur eflaust verið steinsofandi á vaktinni, þó svo hann hafi ekki viljað viðurkenna það.

-Allt í lagi, svaraði Fjalar og sneri sér við. Hann opnaði inn til Guðbjargar. Hann fékk sér sæti við borðið. Hann starði um stund á Guðbjörgu. Hún virtist ekki vita af honum, heldur starði enn út um gluggann og í augum hennar var ákveðið tómlæti, engin bjarmi, aðeins myrkur. Hvað ætli hafi gerst um borð í skipinu? Skyndilega sneri hún sér að Fjalari með undarlegt blik í augum, næstum geðveikislegt, og sagði:

-Hann vildi að ég fengi það, hann gaf mér það.

-Hver? Gaf þér hvað?

-Andinn í skipinu gaf mér hjartað. Hann sagði mér að hann vildi ekki eiga það.

-Er andi í skipinu?

Guðbjörg leit á Fjalar og eitthvað við svip hennar skaut honum skelk í bringu.


Þoka

Kl. 02:10

 

Guðbjörg vaknaði. Hún var ekki viss en henni fannst eins og einhver hafi sagt nafn hennar. Hún leit í kringum sig en sá engan inni í myrku svefnherberginu. Hún fór á fætur, kveikti ljós og klæddi sig í sömu föt og hún hafði verið í daginn áður. Hún læddist fram í eldhús. Augu hennar stöldruðu við hilluna, þar sem hún geymdi allar kattastytturnar sínar; þeim hafði hún safnað frá barnsaldri; en þær veittu henni ekki þann frið sem þær gerðu venjulega og hún þráði nú, - frið til að sofa og komast í gegnum nóttina. En hver hafði sagt nafn hennar? Ætli einhver hafi kallað til hennar, einhver sem stæði fyrir utan? Var hana kannski bara að dreyma? Hún kíkti út um eldhúsgluggann en sá ekkert nema rauðan Volkswagen og steypt grindverk, sem var í kringum húsið. Þokan var enn þykk og hvíldi eins og dúnsæng yfir borginni, klæddi hana draumkenndri móðu. Hún lét gluggatjöldin falla aftur fyrir rúðuna og sneri sér við. Hvað hafði vakið hana? Hún leit á veggklukku sem hékk fyrir ofan dyrnar inni í eldhúsi, vísarnir sýndu að klukkan var ekki nema rúmlega tvö. Guðbjörg opnaði ísskápinn. Um leið og hún teygði sig eftir mjólk staldraði hún við. Þá fannst henni hún heyra kallað til sín aftur. Röddin kom að utan. Hver var þetta? Hún kannaðist við hana en það var samt eitthvað sem olli henni óþægindum, næstum ótta. Hún fór aftur að glugganum en kom ekki auga á neina hreyfingu. Hún reyndi að sannfæra sig um að þetta hlyti að hafa verið ofheyrn.

Hún opnaði ísskápinn á nýjan leik og tók fram mjólk, brauð, ost og smjör. Guðbjörg lét tvær sneiðar í brauðrist og hellti uppá kaffi. Þegar hún var sest niður og byrjuð að borða morgunmatinn heyrði hún kallað aftur. Eins og hvísl sem berst með hægri golu, nafn hennar sagt ískaldri karlmannsrödd, - röddu Gríms en samt einhvern veginn breytt. En þetta var rödd hans, hún var handviss um það. Hún hafði heyrt hann svo oft segja nafn hennar. Samt var hún einhvern veginn breytt, óþægilegur undirtónn, eins og bergmál í grafhýsi, fékk hjarta hennar til að hægja á sér og um stund fannst henni eins og tími stæði í stað. Ósjálfrátt stóð hún á fætur. Hvað var eiginlega að gerast? Enn heyrði hún kallað á sig. Skyldi Grímur vera fyrir utan? Eða var þetta bara ímyndun hennar?

Áður en hún vissi af var hún komin út á inniskónum. Hún leit í kringum sig og kallaði:

-Grímur, ertu þarna? Grímur?

Í fyrstu fékk hún ekkert svar. Hún var komin hálfa leið inn þegar röddin barst henni aftur. Guðbjörg sneri sér við og hljóp út á götuna. Hvar var Grímur? Hún heyrði í honum en sá hann hvergi. Guðbjörg starði út í þokuna. Allt í einu fannst henni hún sjá móta fyrir hreyfingu, skuggamynd sem líktist Grími. Gat virkilega verið að hann væri þarna? Hún flýtti sér þangað sem hún sá móta fyrir Grími, en hann var þar ekki. Hún snerist í hringi og kallaði nafn hans út í næturmistrið. Enn heyrði hún hann kalla nafn sitt. Guðbjörg hljóp aftur af stað.

Áður en hún vissi af stóð hún niðri við höfn. Hún hafði gengið alla þessa leið án þess að gefa því nokkurn gaum, aðeins hugsað um að finna Grím. Fyrir framan hana lá skipið bundið við bryggjuna. Það var eins og svart auga sem fylgdist með henni, sogaði hana til sín. Eins og blóðsuga sem nærist á blóði fórnarlambs síns virtist skipið drekka í sig nærveru hennar, það reis og hneig tignarlega í takt við hraðan andardrátt hennar og hún var sannfærð um að skipið vissi af henni. Hún starði hugfangin á þennan undarlega hlut, sem hafði skotið upp kollinum án þess að nokkur kynni á því einhverja skýringu. Það var eitthvað við skipið sem fangaði athyglina, eitthvað spennandi, eitthvað sem var dró hana til sín þrátt fyrir ömurleika sinn. Kannski var það einmitt það, kannski var það þetta hrörlega útlit sem heillaði hana og dró vitund hennar í sig, eins og svarthol í vitund hennar. Guðbjörgu fannst sem hún væri þegar komin um borð, væri djúpt í myrkum lestum þess, samt stóð hún við einn bryggjulallann. Hún heyrði rödd Gríms kalla til sín neðan úr skipinu, hann var svo nálægt, - hann var svo raunverulegur.

Guðbjörg gekk dreymin á svip og með undarlegt bros á vör að landganginum. Lögreglubíll stóð þar en maðurinn sem átti að gæta skipsins sat sofandi inni í bifreiðinni. Hún strauk fingrum varfærnislega eftir bílrúðunni þar sem hann svaf en hélt síðan áfram. Hún fór sér í engu óðslega. Hún var viss um að Grímur biði hennar um borð, - og hann biði aðeins eftir henni.


Þoka

27. janúar

 

Kl. 01:45

 

Klukkan í mælaborði bifreið Fjalars sýndi  01:45. Fyrir utan var almyrkt og þoka svo þykk að hann sá vart á milli ljósastaura. Honum leið sumpart eins og hann væri að keyra um Hellisheiði síðla hausts, þegar skýin eru svo þétt og þung að þau leggjast á heiðina og sama hversu rýnt er, þá sést ekki nema örfáa metra fram fyrir bílinn. Fjalar var einn á ferð, hann kom hvergi auga á bíl eða annað fólk. Hann ók varlega áfram og fylgdist grannt með veginum. Hann hallaði sér fram á stýrið, honum fannst hann sjá betur út þannig.

Fjalar óskaði þess að vera kominn heim og lagstur upp í rúm, ónotaleg kennd fór um hann er hann ók auðar göturnar. Ekki ósvipuð þeirri sem hann fann þegar hann kom fyrst um borð í skipið, einhver yfirgnæfandi tilfinning um að einhver væri að fylgjast með honum. Þrúgandi höfuðverkur greip hann, eins og það brynni eldur í huga hans og eirði engu. Þrátt fyrir þokuna og auðu göturnar fannst honum hann ekki vera einn, - Fjalar vissi að hann var ekki einn. Hann trúði hvorki á drauga né afturgöngur, fyrir honum heyrðu slíkar verur til þjóðsagna. En það var samt eitthvað, - eitthvað þarna úti sem hann kom ekki auga á en fann fyrir. Kannski var það bara frásögn Védísar sem fékk hárin til að rísa. En samt var það eitthvað annað, einhvers konar ónáttúruleg spenna. Eins og sú sem hleðst upp skömmu fyrir óveður, spenna sem er áþreifanleg og minnir á þá hættu sem steðjar að.

Skyndilega snarhemlaði Fjalar. Á veginum sat gulleitur hundur og horfði á hann. Hann var smávaxinn, með sperrt eyru og langt nef, sat grafkyrr og fylgdist með bíl Fjalars færast nær. Hann reyndi eins og hann gat að komast hjá því að lenda á hundinum. Honum fannst bíllinn vera mjög lengi að nema staðar þrátt fyrir að hann hafi ekki verið á mikilli ferð. Hundurinn færði sig ekki fet. Bíllinn stoppaði skammt frá honum. Fjalar starði fram fyrir sig. Hvers vegna færði hann sig ekki? Hvað var að honum? Fjalar ætlaði að stíga út úr bílnum þegar hundurinn stóð á fætur. Um stund horfðust þeir í augu. Fjalari fannst sem hundurinn væri ekki að horfa á sig, heldur inn í sig, næstum í gegnum sig, eins og eitthvað væri fyrir aftan hann. Ásjóna hans gróf sig djúpt í vitund hans og það var eitthvað undarlegt og óþægilegt við það. Eins og hundurinn þekkti hann, jafnvel betur en hann sjálfur gerði. Ósjálfrátt læsti Fjalar að sér. Um leið tók hann eftir að það hafði drepist á bílnum. Hundurinn gekk rólega í kringum hann. Fjalar fylgdist með dýrinu í speglunum þar til það hvarf aftur fyrir bílinn. Síðan sá hann hundinn koma fram eftir bílnum hans megin. Hann stóð upp á afturfæturna og hallaði sér að bílrúðunni hjá Fjalari. Hann gat ekki gert annað en horft á móti. Augnaráðið var í senn seiðandi og hættulegt, það dró til sín vitund Fjalars og hann fann hvernig allir vöðvar í líkama sínum stífnuðu upp. Hann reyndi að bera hönd fyrir augu sín en gat það ekki. Greipar hans voru læstar um handfangið á hurðinni annars vegar og hins vegar á gírstönginni. Hundurinn hallaði sér að rúðunni og Fjalar var viss um að hann hafi séð rauðan glampa í augum hans.  

Eftir drykklanga stund steig hundurinn niður og hvarf út í þokuna. Er Fjalar horfði á eftir honum fannst honum eins og hundurinn rynni saman við mistrið. Þrátt fyrir að hann væri horfinn Fjalari sýnum fannst honum eins og ásjóna hans hvíldi enn á sér. Eins og hann væri allt í kringum sig, líkt og þokan sjálf.  Hvert sem hann leit fannst Fjalari sem hann sæi hundinum bregða fyrir út undan sér.  Að lokum lét Fjalar ennið hvíla á stýrinu og varpaði öndu léttar.

-Ég hlýt að vera missa vitið, sagði hann og hló að sjálfum sér. Samt var honum langt frá því að vera hlátur í huga. Hann nuddaði á sér gagnaugun í von um að losna við ímynd hundsins úr kollinu og eins til að losa aðeins um höfuðverkinn, sem skall aftur á með fullum þunga nú er hundurinn var horfinn á brott.


Þoka

Kl. 16:05

 

Þegar Guðbjörg var farin í fylgd tveggja lögreglumanna litu mennirnir hvor á annan. Eftir að hún hafði sagt þeim frá sambandi þeirra Gríms fór Fjalar fram á að hún færi heim og legði sig, hún var augljóslega mjög taugastrekkt og úrvinda. Það virtist hafa tekið á hana að ræða um þessi mál við þá og bauðst Fjalar til að útvega henni far heim.

-Ja, hérna, sagði hann og andvarpaði.

-Skelfilegt að lenda í svona löguðu. Ég finn virkilega til með henni. Að sitja svona og hlusta á hana, þetta minnti mig um margt á dagana skömmu eftir að mamma lést.

Fjalar leit á Njörð og kinkaði kolli. Hann klóraði sér á hausnum og saup úr bollanum. Aumingja Guðbjörg, hugsaði hann með sér. Það hlyti að vera erfitt að lenda í þessari aðstöðu, vilja helst syrgja Grím en mega það ekki, þurfa að gæta að fjölskyldu hans, því samband þeirra var forboðið og eitthvað sem enginn mátti vita um. Hún gat ekki einu sinni fylgt honum til grafar. Enda brotnaði hún algerlega niður hjá þeim, trúði mönnunum tveimur fyrir ótrúlega miklu þrátt fyrir að þekkja hvorugan þeirra vel. Hann fann til með Guðbjörgu, sorg hennar var mikil og aðstæður erfiðar. Fjalar benti á segulbandstækið og spurði:

-Kláraðirðu að hlusta sá spóluna?

-Nei.

-Gerðu það. Ég þarf aðeins að skreppa aftur fram.

Þegar Fjalar sneri aftur stóð Njörður við gluggann og starði út. Hann virtist ekki hafa tekið eftir að dyrnar að skrifstofunni opnuðust.

-Jæja, sagði Fjalar. Hann sá að Njörður kipptist við.

-Hvað finnst þér?

-Hreint ótrúlegt.

-Já, þar get ég verið sammála þér. En var hún ekki að lýsa nákvæmlega því sem þú varst að tala um? Varúlfi?

Það kom smá hik á Njörð.

-Já og nei. Varúlfur er samkvæmt goðsögninni maður sem getur skipt um ham og breytt sér í úlf. Oft er það tengt fullu tungli, þá neyðist varúlfurinn til að fara út og skipta um form. Í sumum sögnum getur varúlfurinn farið í einhvers konar hálfform, það er haldið ákveðnum eiginleikum beggja forma, til dæmis gengið á afturfótunum. Það sem mér finnst undarlegt við frásögn eiginkonu Gríms er þetta með fálmarana. Ég hef hvergi heyrt um slíkt. Hefur hún ekki bara fengið svo slæmt áfall að hún hefur búið sér til eitthvað? Mér finnst þetta með öllu svo fáránlegt að ég veit ekki hvað ég skal halda. Auk þess var ekki fullt tungl í nótt og samkvæmt goðsögninni þá skipta varúlfar eingöngu um ham þá.

-Já, ég skil hvað þú átt við, svaraði Fjalar og settist við skrifborðið.

-En svo við snúum okkur að öðru. Þú varst með einhverjar fréttir handa mér, ekki satt? Ertu búinn að ráða hvað þessa rúnir merkja, spurði Fjalar.

-Já, alveg rétt, sagði Njörður og opnaði töskuna sína. Hann tók upp úr henni skrifblokkina sína, myndirnar og bók Agrippa.

-Sjáðu nú til, ég sat inni á Landsbókasafni og reyndi að ráða í þetta en það gekk alveg skelfilega illa. Enda engin furða, þar sem að rúnirnar sneru öfugt. Þetta  voru náttúrlega alger byrjendamistök hjá mér að sjá ekki í gegnum þetta strax, enda tíðkaðist þess háttar fyrr á öldum. Þegar ég uppgötvaði þetta sá ég fljótlega að um þebískar rúnir var að ræða. Þess lags letur hefur verið þekkt meðal galdramanna og norna í gegnum aldirnar.

Njörður opnaði rit Agrippa.

-Hér er að finna lykil að þessum rúnum. Sjáðu hérna, sagði hann og benti á hvar rúnirnar stóðu. Fjalar gaf Nirði merki um að halda áfram með höndinni.

-Ég hef ekki mikinn áhuga á þessu fræðilega dóti í kringum þetta. Ég vil hins vegar fá að vita hvað stendur þarna og hvað það merkir.

Njörður lokaði bókinni.

-Samkvæmt þeim lykli sem hér er að finna, sagði hann og benti á lokaðan doðrantinn á borðinu, -þá stóð á veggnum heima hjá Leifi: Tep tv f.

-Tep tv f?

-Já.

-Og hvað merkir það?

-Ég veit það ekki ennþá, en ég ætla mér að komast að því.

Fjalar tók fram skýrsluna um morðið á Grími fram. Hann fann miðann sem fannst heima hjá dýrafræðinginum og rétti Nirði.

-Tep tú fha, sagði Njörður og starði á miðann.

-Hjálpar þetta eitthvað?

-Hvar fannst þetta?

-Heima hjá Grími. Konan hans er viss um að hann hafi sjálfur skrifað þetta. Svo fundust svona rúnir, sagði Fjalar og benti á opna bókina, -ristar í rúðu stofagluggans þar sem Grímur fannst. Ég lét bera þær saman við myndina af þeim sem fundust hjá Leifi. Þær voru alveg eins.

-Ja, v er stundum ritað í stað u í þebísku, rétt eins og í gömlu handritunum okkar, sagði Njörður hugsi.

-Hvað?

-Ég er bara að hugsa upphátt. Ef Grímur skrifaði þetta, gæti hann þá ekki hafa heyrt einhvern segja þetta? Hann skrifar setninguna niður eins og hann heyrði hana borna fram, eða það myndi ég ætla. Það þýðir að sá sem skrifaði rúnirnar sleppir þeim sérhljóðum sem eru ekki merkingarbærir, sagði Njörður. Hann greip bókina af borðinu og skrifblokkina sína, lét hvort tveggja aftur ofan í töskuna og stóð á fætur.

-Merkingarbærir?

-Ég verð að fara á bókasafnið.

Síðan var hann rokinn út um dyrnar. Fjalar horfði undrandi á eftir honum.


Þoka

Kl. 14:50

 

Um leið og Fjalar steig út um dyrnar mættu honum Jóhanna og Guðbjörg. Jóhanna átti í fullu fangi með að halda aftur af Guðbjörgu því henni virtist mikið niðri fyrir. Hún var æst, hrinti Jóhönnu frá sér og krafðist þess að fá að tala við Fjalar.

-Ég vil fá að vita hvað gerðist, sagði Guðbjörg. Fjalar benti Jóhönnu á að fara en sjálfur settist hann niður á eitt skrifborð. Hann krosslagði handleggina og horfði þögull á Guðbjörgu. Hún var rauðeygð og í kinnum hennar voru rauðir dílar.

-Hvernig hvað gerðist, spurði hann og reyndi að hljóma eins yfirvegaður og hann gat.

-Hvernig Grímur...

Rödd hennar brast og Guðbjörg leit niður á tær sér. Fjalar fylgdist með henni og velti fyrir sér hvers vegna hún tæki dauða Gríms svo nærri sér. Ætli þau hafi þekkst, spurði hann sjálfan sig. Skyndilega röðuðust brotin saman í huga hans og myndin varð skýrari. Guðbjörg var fréttakvendið sem Védís talaði um á hljóðsnældunni! Hvers vegna uppgötvaði hann þetta ekki fyrr? Þau Grímur höfðu átt í ástarsambandi.

Fjalar stóð á fætur og tók um axlir Guðbjargar. Hann opnaði dyrnar að skrifstofu sinni og bauð henni að stíga inn fyrir. Njörður leit upp og köld birtan frá loftljósinu bjó til skugga undir augum hans. Hann slökkti á segulbandinu.

-Fáðu þér sæti og reyndu að slappa af. Ég skal láta sækja eitthvað heitt handa okkur að drekka, sagði Fjalar. Þegar hún var sest kallaði hann á Jóhönnu og bað hana um að útvega sér kaffi og nokkra bolla.

-Ég trúi þessu ekki, sagði Guðbjörg þegar Jóhanna var farin. Mennirnir tveir litu hvor á annan en sögðu ekki neitt.

-Einhvern veginn var þetta allt svo ótrúlegt, eins og í draumi. Nú er eins og ég hafi vaknað upp af slæmum draumi og komist að hann væri raunverulegur. Hvað er eiginlega að gerast? Hvers vegna Grímur?

-Ég veit það ekki, svaraði Fjalar.

-Ég meina, var sá sami að verki og myrti hina tvo? Hvers vegna Grímur, spurði Guðbjörg klökk.

Í sömu mund kom Jóhanna með kaffið. Hún hélt á bollum í annarri hendi en könnu í hinni og lagði allt saman á borðið. Guðbjörg notaði tækifærið og náði í bréfþurrku úr töskunni sinni. Á meðan hellti Fjalar kaffi í þrjá bolla. Njörður tók tvo þeirra og rétti Guðbjörgu annan. Um leið og Jóhanna var aftur horfin út um dyrnar sagði Fjalar:

-Ég veit svo sem ekki hvernig þetta tengist allt saman. Eini þráðurinn sem liggur á milli allra mannanna er skipið.

-Skipið!? Af því þeir höfðu allir verið um borð, ekki satt, spurði Guðbjörg.

Fjalar gaut augum að segulbandstækinu. Njörður gerði slíkt hið sama. En hvorugur sagði nokkuð.


Þoka

Kl. 14:35

 

Njörður brosti til afgreiðslustúlkunnar og bað hana um að láta Fjalar vita að hann væri kominn. Hann hafði verið fljótur að taka saman kennslugögn sín eftir fornmálstímann í Háskólanum. Hann hljóp við fót út í bíl og ók sem leið lá niður á lögreglustöðina í Hverfisgötu. Ákveðinnar eftirvæntingar gætti hjá honum, hann hafði vart getað sofið, þessa gáta sótti svo á hann. Njörður var handviss um hann gæti leyst hana, þetta var bara spurning um tíma. Hann var kominn á sporið, hann fann það og var sumpart stoltur að því.

Hún stóð á fætur, gekk að skrifstofu Fjalars og bankaði laust á hurðina. Eftir örskamma stund benti hún Nirði á að hann mætti fara inn til Fjalars. Hann þakkaði stúlkunni fyrir. Fyrir alla glugga var dregið inni hjá Fjalari og engin ljós kveikt. Þó var ekki almyrkt þar inni, því grá birta lak inn á milli gluggatjaldanna og undir þau. Hann sat í stólnum sínum með segulbandstæki á skrifborðinu fyrir framan sig, eitt stundarkorn fannst Nirði sem Fjalar væri ekki annað en skuggamynd sjálfs síns, fölur og virtist orkulítill. Hann stóð seint á fætur og tók í útrétta hönd Njarðar, Fjalar bauð honum sæti um leið og hann kveikti ljósin.

-Ég heyrði fréttirnar í morgun, - hræðilegt. Hvenær ætli þessu ljúki, sagði Njörður.

-Ég veit það ekki. Hreinlega skil hvorki upp né niður í þessu, svaraði Fjalar og í rödd hans var uppgjafartónn.

-Þú hefur ekki komist að því hver var myrtur í morgun, er það nokkuð? Það hefur ekki verið tilkynnt á kaffistofunni þarna niðri í Háskóla, bætti hann við.

-Á kaffistofunni? Nei, það er reyndar ekki nein sérstök kaffistofa þar sem allir kennarar hittast, enda skólinn í nokkrum húsum.

-Er það, já? Hvernig ætti ég svo sem að vita það? Hef aldrei komið þarna inn.

-En hver var það?

-Viltu fá að vita það? Það má ekki fara lengra, í það minnsta ekki strax. Ekki einu sinni fréttastofurnar hafa fengið nafnið staðfest. Er það skilið?

-Já.

-Grímur Pálsson, líffræðingur.

-Hvað? Ég trúi þér ekki.

-Ég held nú að þeim bita í þessari fáránlegu sögu sé hvað auðveldast að kyngja, sagði Fjalar, dæsti og hristi höfuðið.

-Er Grímur dáinn? Af hverju hann?

-Ég veit það ekki, satt best að segja. Mig grunar að það tengist þessu skipi, en mér finnst það einhvern veginn svo ótrúlegt. Ég á hreinlega í vandræðum með að fella mig við það.

-Hvað áttu við?

-Sjáðu nú til, það sem ég ætla að segja þér núna má alls ekki fara lengra, er það skilið?

Njörður kinkaði kolli.

-Fyrst Ámundi, síðan Leifur. Báðir voru þeir um borð í skipinu á meðan það var dregið til hafnar. Þegar því var komið í okkar hendur fór ég um borð ásamt manni frá rannsóknarlögreglunni. Ég lét kalla til lækni annars vegar og Grím hins vegar. Ragnar Guðmundsson, læknirinn, framdi sjálfsmorð í nótt og Grímur var myrtur. Sá sem kom frá rannsóknarlögreglunni fékk taugaáfall eftir að hann fann líkið af Leifi. Af þeim sem hafa eytt einhverjum tíma um borð er aðeins ég og þeir hjá tæknideildinni einir eftir sem erum heilir á geði og líkama, - svona meira eða minna.

-Ég skil.

-Ég veit þetta hljómar eins og skáldsaga, en þetta eru staðreyndir. En sagan er ekki öll sögð.

-Nú?

-Þegar ég var að hlusta á þetta, sagði Fjalar og benti á tækið, -varð mér hugsað til þín og þess sem þú sagðir hérna í fyrradag. Þetta um varúlfa.

Fjalar spólaði tilbaka og kveikti aftur á segulbandinu. Hann stóð síðan á fætur og sagði:

-Hlustaðu á þetta. Ég ætla að ná mér í kaffi. Má bjóða þér?

Njörður hallaði sér fram og hlustaði á frásögn Védísar.  


Þoka

Kl. 14:10

 

Fjalar tók á ný upp spóluna og horfði á hana um stund. Á ég að hlusta á hana? Hann reyndi að finna einhverja ástæðu til að komast hjá því, en hann vissi sem var að fyrr eða síðar þyrfti hann að hlýða á eða komast að með einum eða öðrum hætti hvað var á henni. Líklegast var best að hlusta á spóluna strax og ljúka því af. Illu er víst best aflokið, sagði hann við sjálfan sig og teygði sig í lítið og gamalt segulbandstæki, sem hann geymdi alltaf í gluggakistunni. Hann lét spóluna í tækið og ýtti á PLAY. Rödd Védísar var svolítið eintóna en samt ekki eins og við mátti búast, hann hafði yfirheyrt margt fólk eftir viðlíka lífsreynslu og tveir áratugir við lögreglustörf höfðu kennt Fjalari að eiginkona Gríms hafði líklega fengið dágott taugaáfall.

-Ég vaknaði. Veit eiginlega ekki af hverju, því allt var hljótt. Kannski var það þess vegna. Ég er orðin svo vön umferðarniði, bílflautum og hrotum. En allt var hljótt. Svo undarlega hljótt. Eins og í draumi. Og kalt, það var jökulkalt. Ég man, að vatnsglasið mitt, það sem ég hef ávallt á svefnborðinu við hlið rúmsins, vatnið í því, það var komin vök í það efst í glasinu. Það var svo kalt. Og hljótt. Kalt og hljótt.

Hér kom stundarþögn á bandinu og mátti heyra dyr opnar. Síðan var eitthvað lagt á borð, eflaust kaffibolli ályktaði Fjalar og eitthvað sagt lágri röddu en hann greindi ekki hvað.

-Ég fór fram úr og klæddi mig í sloppinn sem Grímur gaf mér í jólagjöf í fyrra. Mér fannst svo undarlegt að ganga, teppið var öðruvísi viðkomu. Það brakaði svo hátt þegar ég steig niður. Eins og ég gengi alls ekki á teppinu, heldur mörg hundruð þúsund iðandi ormum, bjöllum eða einhverjum öðrum skordýrum. Mér leið strax betur þegar ég var komin fram á gang þar sem er parket. Þá varð ég var við umgang niðri, Grímur var vakandi. Ég heyrði hann lokaði glugganum í stofunni, þar sem hann hefur sofið undanfarna daga. Ég vildi ekki hafa hann hjá mér eftir að ég komst að ... komst að því hann hélt framhjá mér. Ég ætlaði að snúa aftur upp í rúm þegar mér skildist að hann var ekki einn. Var það þess vegna sem ég læddist fram á stigapallinn? Af hverju gerði ég það? Hvað var það sem togaði mig áfram?

Þarna var gert hlé á upptökunni. Fjalar leit á tækið. Áður en hann náði að gera nokkuð hélt hún áfram.

-Það er í lagi með mig. Afsakaðu. Þetta er bara svo...

Þá breyttist rödd Védísar. Hún talaði sem hún væri í leiðslu, eins og hún væri ekki lengur stödd á lögreglustöðinni heldur komin heim og sá atburðina gerast ljóslifandi fyrir framan sig. Eftir stutta þögn hélt hún áfram.

-Ég læddist niður að stigapallinum. Þar settist ég, því ég hafði útsýni þaðan inn í stofu. Ég heyrði að Grímur gekk um neðri hæðina og lét meðal annars vatnið renna inni í eldhúsi. Þegar hann sneri aftur settist hann niður, en þá sá ég að hann var ekki einn. Ekki einn segi ég. Það var enginn með honum en hann var ekki einn. Ég sá engan, - ekkert annað en fölan skugga sem færðist úr takt við birtuna frá loftljósunum. Mér lék hugur á að vita hver væri þarna með honum, þannig ég lét lítið fyrir mér fara. Í fyrstu datt mér í hug að hann hefði fengið fréttakvendið í heimsókn, að hann væri virkilega svo óforskammaður, æ, ekkert hefði komið mér á óvart, - nema … Skyndilega stóð Grímur á fætur og gekk að stofuglugganum. Hann hrökklaðist þó frá honum skömmu síðar. Ég veit ekki hvað það var sem hann sá. Þegar hann sneri sér við sá ég hana, veruna. Guð minn eini! Guð minn! Hún er fyrir aftan þig, Grímur! Guð minn. Ég ... ég ... Nei, passaðu þig. Nei ... Ó, Jesús.

Fjalar ýtti á stopp. Hann fann að hendurnar á sér skulfu. Hvaða vera skyldi þetta hafa verið? Hann opnaði skýrsluna sem fylgdi með spólunni. En lögreglumaðurinn hafði ekki fyllt hana alla út, heldur hafði  skrifað: Sjá meðfylgjandi gögn. Fjalar bölvaði og lofaði sjálfum sér því að áminna viðkomandi við fyrsta tækifæri. Hann spólaði aðeins áfram og kveikti svo aftur á tækinu.

-... ef ég hefði staðið upp, ef ég hefði bara gert eitthvað ...

Þögn.

-Ég hef aldrei áður séð aðra eins veru. Að hálfu maður, mennskur líkaminn var alsettur undarlegu húðflúri eða merkjum, handleggir eins og framfætur hunds eða úlfs, beittar klær. Sýnu verst var þó höfuðið. Ó, guð, ég trúi ekki að þetta hafi í raun gerst. Er ég að verða geðveik? Höfuðið var ólýsanlegt, ekki eins og á hundi eða úlfi, ekki eins og á manni, en samt með eiginleika hvoru tveggja. Á miðju enninu virtust glóa gylltir stafir en ég sá ekki hvað stóð þar. Veran gerði ekkert, opnaði bara munninn og út úr honum kom einhver konar fálmarar. Þeir skutust í bringu Gríms og drógu þaðan út … guð minn góður, hvað er eiginlega að gerast? Hvað var þetta? Hvað? Hvers vegna Grímur?

Fjalar slökkti aftur á tækinu. Hálfur maður, hálfur úlfur? Gat það verið? Hafði Njörður þá rétt fyrir sér eftir allt saman? Einhvers konar goðsagnakennt skrímsli á ferð í Reykjavík? Hvernig stoppar maður slíkt? Hann leit aftur á skýrsluna. Lögreglumaðurinn hafði talið upp það sem fundist hafði á vettvangi og mátti tengja við glæpinn. Þar á meðal fannst miði og á honum stóð: Tep tú fha. Að öðru leyti voru kringumstæður svipaðar og heima hjá Leifi. Rúnir, álíkar þeim sem voru á veggnum fyrir ofan líkið af hásetanum, fundust ristar í rúðuna á stofuglugganum. Fjalar dæsti, þetta mál var farið að verða allt of umfangsmikið, of erfitt að ná utan um það og honum fannst óþægileg að vera ekki við stjórnvölinn.

Þá var bankað á dyrnar hjá honum.


Þoka

Kl. 13:25

 

Klukkan var farin að nálgast hálftvö þegar Guðbjörg kom til vinnu í Aðalstræti. Hún hafði ákveðið að sofa lengur, hún var orðin þreytt eftir gott sem sleitulausa vinnu undanfarna daga. Guðbjörg hafði steinsofnað eftir að hún kom heim í gærkvöldi og ekki vaknað fyrr um ellefuleytið. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins var sagt frá enn öðru morði. Illa leikið lík hafði fundist í Þingholtunum. Guðbjörg var þó ekkert að drífa sig af stað, hálft í hvoru langaði hana til að leggjast aftur undir sæng og sofna. Engu að síður var hún nú komin að Morgunblaðshöllinni.

Þegar hún kom inn á fréttastofuna sló undarlega þögn á mannskapinn. Hún horfði hissa í kringum sig. Hvað var eiginlega á seyði? Karlmennirnir reyndu sitt besta til að horfa ekki á hana en þær fáu konur sem voru þarna brostu til hennar með meðaumkunarsvip á andlitinu. Það fór sérkennilegur seyðingur um Guðbjörgu, því hún vissi ekki alveg hvernig hún átti að haga sér. Hún gekk hægt að skrifborðinu sínu og settist. Hún var ekki fyrr búin að klæða sig úr kápunni þegar Magnús kom til hennar og bað hana um að eiga við sig orð inni á skrifstofu. Hún stóð aftur á fætur og um leið og Guðbjörg fylgdi yfirmanni sínum tók hún eftir að gott sem allir á fréttastofunni litu upp og horfðu á eftir þeim.

-Fáðu þér sæti, sagði Magnús eftir að hann hafði lokað dyrunum.

-Er ekki allt í lagi, spurði hún og ekki var laust við að í röddu hennar væri smá skjálfti. Þessar móttökur voru henni framandi og eitthvað í fari Magnúsar vakti með henni ugg. Henni leið sumpart eins og þegar hún var yngri og hafði gert eitthvað af sér, faðir hennar hafði verið strangur við þau systkinin og óspar á refsingar af öllum toga ef þau höfðu gert eitthvað af sér.

-Hefurðu heyrt fréttir í dag, spurði Magnús um leið og hann settist niður í stól við hlið hennar.

-Já.

-Þú hefur þá heyrt af morðinu í Þingholtum.

-Já, svaraði Guðbjörg og ekki var laust við að á magann kæmi hnútur. Hún fann svita spretta fram undir höndunum og henni leið hálfskringilega.

-Ég var að vonast til að þú þyrftir ekki að heyra það frá mér...

-Heyra hvað, spurði Guðbjörg skelfd.

-Sá sem var myrtur í nótt er Grímur Pálsson.

Guðbjörg starði á Magnús. Hún fann sig sundlaði eitt augnablik. Síðan kom henni fyrsti vinnudagur sinn í hug. Hún snöggreiddist og langaði einna helst að slá Magnús utan undir. Hvernig átti hún að bregðast við þessu? Hvers vegna var hann að segja henni frá þessu? Hafði hann vitað af sambandi hennar og Gríms? Hún spratt á fætur og kreppti hnefana. Hún fann hvernig sig verkjaði í lófunum undan fingurnöglunum.

-Mér finnst þetta grín ykkar ógeðslegt, hvæsti hún milli samanbitinna tanna, hún sló Magnús þéttingsfast utan undir og rauk síðan út. Hún skellti hurðinni svo fast á eftir sér að fólkið frammi hrökk við. Eftir að hafa gripið kápuna sína af skrifborðsstólnum arkaði hún út.

Hún æddi út á umferðargötuna án þess að gæta að eigin öryggi og hlaut að launum bílflaut og bölvanir ökumanna sem þurftu að negla niður. Hún var svo reið Magnúsi að hún náði ekki upp í nefið á sér. Hvernig datt honum, - þeim í hug að nota þennan atburð til að atast í henni? Áttu vinnufélagar hennar ekki til snefil af virðingu? Hún fór sem leið lá yfir Austurvöll og framhjá Jóni Sigurðssyni þar sem hann stóð klæddur hvítu mistri og horfði stoltur inn að Alþingishúsinu. En hvað ef Magnús hafði ekki verið að grínast? Hún fann hvernig hjartað seig, það var sem það hætti að slá og yrði að níðþungum steinklumpi í brjósti hennar. Nei, það gat ekki verið, svona atburðir gerðust aldrei fyrir neinn sem hún þekkti, aldrei neitt svona slæmt hafði hent hana. Nei, vitleysingarnir sem höfðu sent hana út í Gróttu á sínum tíma voru örugglega að gantast í henni. Helvítis fíflin. Það var samt einhver efarödd, - rödd sem hljómaði neðan úr myrkrinu en hún neitaði að hlusta á hana. Nei, bjánarnir eru að fíflast í mér, sagði Guðbjörg við sjálfa sig. Hún rölti áfram í þokunni. Það voru ekki margir á ferli, aðeins örfáir bílar og einstaka hræður. Innan tíðar sá hún móta fyrir Fríkirkjunni. Hún staldraði við á tjarnarbakkanum og horfði um stund á bárujárnsklædda kirkjuna. Hún hafði aldrei fengið sig til að trúa. Hún var engu að síður fermd og skráð í Þjóðkirkjuna, eins og svo margir, en trúuð var hún ekki. Fyrir löngu síðan hafði hún reynt að lesa Biblíuna en gefist mjög fljótlega upp, fannst bókin hreinlega full af ofbeldi og reiði. Ekki það sem hún hafði átt von á, að minnsta kosti ekki í samhengi við það sem henni hafði verið kennt sem barni. Foreldrar hennar höfðu verið ströng við þau systkynin og kennt þeim muninn á réttu og röngu, þó hún hafi ekki alltaf breytt rétt í seinni tíð, eins og samband hennar og Gríms var til vitnis um. Hún hélt áfram göngu sinni og fór upp í Þingholtin.

Allt var hljótt, þögn eins og sú sem einkennir oft jarðarfarir; áþreifanleg, sorgmædd og þung; lá eins og nýfallinn mjöll yfir öllu og virtist bíða þess eins að vera rofin. Hún hélt áfram þar til hún var komin upp á Óðinsgötu. Er hún horfði inn eftir Týsgötu sá hún móta fyrir húsi Gríms. Fyrir utan voru tvær lögreglubifreiðar og húsið hafði verið girt af með gulum borða.

-Nei ... nei ... þetta getur ekki verið satt, sagði Guðbjörg og greip með vinstri hendi í steinrið.


Þoka

26. janúar

 

Kl. 02:30

 

Fjalar hrökk við. Einhvers staðar úti í myrkrinu hringdi sími. Hann þurrkaði svita af enni sínu og stóð á fætur. Fjalar sundlaði og hann þurfti að styðja sig við herbergisvegginn áður en hann komst fram að símanum. Hann tók upp tólið og svaraði. Eftir nokkrar mínútur lagði hann aftur á. Fjalar fann hvernig sviti spratt enn fram á enni hans. Var hann að verða veikur? Eða voru þetta draumarnir? Honum fannst sem höfuð sitt væri að springa. Hann fór inn á klósett og skellti sér í sturtu. Síðan klæddi hann sig og fór út í bílinn sinn og ók af stað í Þingholtin.

 

Kl. 08:45

 

Um leið og Fjalar gekk inn á skrifstofuna sína á lögreglustöðinni tók hann eftir spólu sem lá sakleysislega á borði hans. Hún var svört en á henni var hvítur miði. Á hann hafði verið skrifað: Védís Hilmarsdóttir, 26.01.81. Undir spólunni var skýrsla lögreglumannsins sem hafði yfirheyrt konu Gríms. Fjalar hafði vísvitandi komið sér undan því verkefni. Honum var enn ferskt í minni andlit hennar þegar hann kom að húsi þeirra hjóna. Það var sem einhver hefði málað það á höfuðið, ekki ósvipað og á postulínsbrúðu. Hún starði undarlega á Fjalar þegar hann kom á vettvang. Augun tóm og köld, þau minntu hann á augun í líkum. Munnurinn myndaði mjótt rautt strik í hvítu andlitinu, ljóst hárið eins og rammi í kringum þessa líflausu mynd. Honum hafði fundist eins og hún vildi segja etithvað við hann, en gæti það ekki. Hann reyndi að hughreysta hana, en það var sem um hana færi hrollur er hann talaði til hennar.

Fjalar settist niður og tók upp spóluna. Ætti ég að hlusta á hana, spurði hann sjálfan sig. Það var nokkuð dimmt inni á skrifstofunni, hann vildi ekki kveikja ljós og hafði enn ekki dregið frá glugganum, en það gerði hann ekki vegna þess að þokan fór í taugarnar á honum. Hann var að gefast upp á henni, sem virtist smjúga alls staðar inn. Það var sem hún hefði sjálfstæðan vilja, væri lifandi og honum hugnaðist ekki sú tilfinning sem magnaðist í brjósti hans hvert skipti sem hann þurfti að standa einn úti umvafinn hvítu mistrinu.

Dyrnar opnuðust og Jóhanna gekk inn með bunka af blöðum og skýrslum. Hún lét hluta þeirra á borðið hjá Fjalari en hélt síðan út aftur. Fjalar lagði spóluna frá sér og teygði sig í bunkann. Hann fletti nokkuð hratt í gegnum hann og renndi í fljótheitum yfir það sem honum fannst merkilegt. Allt í einu kom skelfingarsvipur á andlit Fjalars. Hann dró eitt blað út úr bunkanum, sem féll úr hendi hans og dreifðust blöðin um gólfið. Hann bærði varirnar um leið og hann las.

-Ragnar dáinn? Sjálfsmorð, sagði hann stundarhátt. Hvernig mátti það vera? Bæði Grímur og Ragnar sömu nóttina? Fjalar las aftur nafnið í skýrslunni til að tryggja að hann hafi ekki lesið vitlaust. Hann opnaði dyrnar og kallaði á Jóhönnu.

-Hvenær kom þetta, spurði Fjalar og rétti henni skýrsluna. Hún skoðaði hana.

-Í morgun, held ég, svaraði Jóhanna.

-Af hverju var ég ekki látinn vita?

-Ég taldi það ekki vera nauðsynlegt. Viltu fá að heyra af öllum sem fremja sjálfsmorð, spurði hún hissa.

Fjalar þagði en bölvaði afgreiðslustúlkunum í hljóði. Hann rak Jóhönnu út og skellti á eftir henni. Hvers vegna drap Ragnar sig? Fyrst eru mennirnir tveir sem stóðu vakt í skipinu myrtir, þá Grímur sem rannsakaði förin og nú hafði læknirinn sem hafði verið fenginn til að rannsaka handlegginn framið sjálfsmorð. Einu tengslin voru þau að allir höfðu verið um borð í skipinu. Skyldi það tengjast þessu? Ætli einhver geðsjúklingur hafi vitað hverjir höfðu farið um borð? Hvernig mátti þetta vera? Hann var viss um að hann hafi fundið fyrir nærveru einhvers seinast þegar hann fór um borð í þetta bölvaða skip, en hvernig átti hann að færa sönnur á það? Þetta var jú bara tilfinning.

Fjalar velti þessu fyrir sér. Hann reyndi að koma auga á önnur tengsl en þau voru ekki sýnileg. Honum var ekki kunnugt um hvort Grímur og Ragnar höfðu þekkst áður, hvað þá þeir Ámundi og Leifur. Kannski var þetta bara óheppileg tilviljun, kannski var það bara tilviljun að Ragnar skyldi taka eigið líf sömu nótt og Grímur var myrtur. Fjalar var gott sem búinn að sannfæra sjálfan sig um að svo hefði verið þegar því laust skyndilega niður í huga hans: Þeir höfðu allir verið um borð í skipinu. Hann sjálfur hafði líka verið um borð í skipinu. Páll hafði einnig komið um borð auk mannanna í tæknideildinni. Hvað með þá?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband