Færsluflokkur: Dægurmál

Ómetanlegur tími

Undanfarið hef ég séð nokkuð að skrifum um foreldra og þá sérstaklega um feður í svipaðri stöðu og ég. Bæði skrifaði Hlín Einars um þetta fyrir skemmstu og var henni svarað af Ölmu Geirdal. Þar sem ég tel mér málið nokkuð skylt langar mig til að segja aðeins frá því hvernig það snýr að mér. 

Við barnsmóðir mín slitum samvistum okkar árið haustið 2006 eftir nokkurra ára samband. Í kjölfarið komu upp miklar umræður, rökræður og deilur um hvernig umgengni, forræði og öllum þeim málum skyldi háttað. Dóttir mín var 3 ára á þeim tíma. Við höfðum fest kaup á íbúð um tveimur árum áður. Ég vann því mikið á þeim tíma, var bæði að kenna og þjálfa fótbolta. Einnig var ég í námi og af hreinræktaðri sjálfelsku og eigingirni eyddi ég oft frítíma mínum, þeim litla sem var, í eigin áhugamál. Það má því sannlega segja að ég hafi hrakið þær mæðgur frá mér á tveimur árum og þó að barnið mitt muni ekki eftir þeim tíma og þurfi því ekki að fyrirgefa mér það, þá gat barnsmóðir mín ekki lifað við þær aðstæður, sem ég skil mæta vel.

Hvað um það, við tókumst á um hvernig hlutum skildi háttað með stelpuna. Ég var býsna þrjóskur með að hafa þetta viku og viku fyrirkomulag. Ég bauð jafnvel barnsmóður minni að eiga allt það sem við höfðum fest á kaup saman, svo lengi sem þetta fyrirkomulag yrði ofan á. Þessi sókn mín í þetta fyrirkomulag kom henni í opna skjöldu og sagði jafnvel, að hún skildi mig ekki, þar sem ég hefði ekki sýnt dóttur okkar mikinn áhuga fram til þessa. Að lokum gaf hún þó eftir og síðan í október 2006 höfum við skipst á að hafa dóttur okkar, hvort um sig viku í senn. Undantekning er gerð á sumrin, en þá höfum við stelpuna hjá okkur í sumarfríum og hefur sú hefð skapast að ég er í fríi í ágúst en barnsmóðin mín í júlí.

Til að svona fyrirkomulag gangi þarf að vera ágætt samkomulag. Það er nokkuð langt frá því, að alltaf hafi verið gott samkomulag á milli okkar foreldranna. Við höfum vissulega haft skoðanir á því sem hinn aðilinn er að gera hverju sinni og oftar en ekki átt erfitt með að liggja á þeim. Jafnvel hefur komið til þess að mál hafa farið inn til sýslumanns. Ég held, að við séum þó bæði öll af góðum vilja gerð og viljum sjá hag dóttur okkar sem mestan og bestan. Gallinn er bara sá, að stundum erum við ekki sammála um hvaða leiðir skuli farið til að tryggja hag hennar.

Í dag, 5 árum eftir skilnað okkar, eru hlutirnir orðnir nokkuð vel smurðir og ganga vel. Er á meðan er. Dóttir okkar er hamingjusöm, enda búum við foreldrar hennar skammt hvort frá öðru og hún nýtur þess besta á báðum stöðum. Barnsmóðir mín er búin að eignast 2 börn á þessum tíma og hefur verið með sama manninum frá því nokkrum vikum eftir við skildum. Ég hef hins vegar ekki fundið mig í samböndum, þannig við dóttir mín erum bara tvö til heimilis. Hún fær því að vera með fjölskyldu sinni, systrum tveim aðra hverja viku og hins vegar fær hún að vera prinsessan mín hina vikuna. Þetta virðist henta henni vel og hún vaknar glöð og hamingjusöm hvern dag.

Dóttir mín er heppin. Hún á foreldra sem hafa tekist á um hvort þeirra fær að vera meira með henni, foreldra sem báðir vilja eyða tíma með henni og vita að þessi tími, þegar hún er barn, kemur aldrei aftur. Þessi tími er í raun ómetanlegur því á þessum árum mynda foreldrar og börn hvað sterkustu tengslin. Ég get ekki hugsað mér að fá ekki að vera þátttakandi í lífi hennar, fá ekki að taka þátt í uppeldi hennar. Það eru hins vegar ekki öll börn í þeirri stöðu. Sumir foreldrar hafa ekki jafn ríka þörf fyrir að vera með barninu sínu. Enn aðrir foreldrar hafa þá þörf, en komast ekki til að uppfylla þá löngun, t.d. vegna stirðs sambands, fjarlægðar eða annarra þátta. 

Ég held að það sem er mikilvægt að foreldrar geri sér grein fyrir, er að þeir bera sjálfir ábyrgð á sambandi sínu við barn sitt. Ég heyri títt af málum, þar sem feður og mæður berjast fyrir því að fá að hitta barnið sitt og hef ég fulla samúð með þeim, það að halda barni frá öðru foreldri sínu er mikil mannvonska og mun eflaust koma verst niður á þeim sem er gerandi í slíkum málum. Eins fær maður að heyra af foreldrum sem ekki sýna barninu sínu mikinn áhuga. Í raun kemur það á sama stað niður, það er enginn annar en ég sem ber ábyrgð á samband mínu og barnsins míns. Enda sér maður í málum þar sem umgengni er hömluð af öðrum aðilanum (sem getur verið af mismunandi ástæðum, misalvarlegar þó), að þar sækir annað foreldrið hart að fá að taka þá ábyrgð á herðar sér. Þessi mál eru þó jafn fjölbreytt og þau eru mörg og því erfitt að leggja einn og sama dóm á þau öll. 

Börn, sérstaklega á leikskóla- og barnaskólaaldri hafa hvorki þroska né getu til að halda slíku sambandi gangandi ein og óstudd. Þau finna fyrir þeirri gleði og ástúð sem maður getur veitt þeim með nærveru sinni og umhyggju. Að sama skapi finna þau fyrir höfnun og sorg þegar maður sýnir þeim ekki áhuga. Þau bregðast við því sem maður gerir. Ábyrgðin er því mín, sem fullorðins einstaklings. Ég ber ekki ábyrgð á sambandi dóttur minnar við móður sína, jafnvel ef staðan væri sú að móðir hennar sýndi henni ekki nægilegan áhuga eða vildi ekki vita af henni. Ég sem foreldri á nóg með mig og ef ég þarf að einbeita mér að því að vera bæði móðir og faðir, þá kemur það óhjákvæmilega niður á báðum hlutverkum og er það eitthvað betra?

Þessi tími er ómetanlegur. Þessi ár koma aldrei aftur. Það er jú hægt að byggja upp samband síðar meir, en þau ár þegar börn eru að þroskast, vaxa upp og verða fullorðin skipta rosalega miklu máli. Þau leita sér að fyrirmyndum og sækja helst til foreldra sinna. Þannig er foreldri sem ekki sýnir barni sínu áhuga á vissan hátt fyrirmynd líka, bara slæm fyrirmynd, en börnin læra það sem fyrir þeim er haft. Börn eiga rétt á, að þekkja foreldra sína. Það er á ábyrgð foreldra að tryggja að barnið þekki þau, hvort sem um ræðir feður eða mæður. Það er ég sem ber ábyrgð á því að barnið mitt þekki mig og geti verið með mér, enginn annar. 


Konur eru líka menn

Ég rakst á bloggfærslu á Eyjunni (http://blog.eyjan.is/gudrun/2010/12/21/eg-er-ekki-madur/) og það er nú ekki oft sem mig setur hljóðan við lestur, en þessi færsla er alveg með ólíkindum. Ég varð hreinlega svo gáttaður á henni að það hefur tekið mig nokkra daga að koma því í verk, að skrifa um hana. 

Í þessu bloggi heldur höfundur því fram, að tungumálið sé í eðli sínu karlkyns. Hann tiltekur nokkur dæmi, þ.á m. orðið maður. Í íslensku er hefð fyrir því að tala um menn og eiga þá til jafns við um konur og karla. Þetta finnst höfundi ekki gott og er sjálfur hættur að nota orðið með þeim hætti, af því að konur eru ekki menn, segir hann og tekur skýrt fram að þessi afstaða er tilkomin óháð hver orðabókarskýring orðsins sé. Auk þess finnst höfundi mjög hvimleitt að vísa til Guðs sem föðursins eða sonarins. Fyrir utan að á samkomum skuli vera stundum sagt: Við erum hér samankomnir... Að lokum segir höfundur, að erfitt sé að finna kvenfrelsi ef tungumálið er karlkyns. 

Fyrir það fyrsta, þá er ýmislegt til í því að tungumálið sé notað til að hafa áhrif á það hvernig við hugsum. Nærtækt dæmi væri notkun trúarbragða á orðum og orðfæri, sjáið t.d. hvernig ákveðin hugtök í Biblíunni birtast með greini (sannleikurinn, kærleikurinn, trúin, lífið) og í hvaða samhengi. Slíkt notkun gefur í skyn, að aðrir sannleikar eða kærleikar séu ekki hinir sönnu. Svolítið eins og ef einhver bruggverksmiðja tæki upp á því að auglýsa bjórinn! Þetta auknavægi sem ákveðinn greinir færir orðum er mjög merkingarbært.

Hins vegar, þegar rýnt er gaumgæfilega í þessi skrif viðkomandi blogghöfundar, þá finnst mér ljóst, að hann mætti kynna sér örlítið betur tungumálið og hvaða hugmyndir menn hafa um það. Í fyrsta lagi, þá er orðið maður afar slæmt dæmi hjá honum. Orðið í íslensku stendur fyrir tegund, við erum öll menn. Rétt eins og hundar eru hundar og kettir eru kettir. Þess vegna eru konur líka menn. Þær eru kvenkyns menn, eða kvenmenn. Stundum er notað orðið manneskja og vill höfundur frekar nota það orð. Kannski af því að það er kvenkyns?

Málið er bara það, að málfræðilegt kyn orða er oftast nær í engu samhengi við merkingu þeirra. Eru blokkir kvenlegar í eðli sínu? Eru skólar karlalegir? Hvernig hefur höfundur hugsað sér að leysa önnur vandamál er tengjast málfræðilegu kyni eða á þetta val hjá honum aðeins við um nafnorð? Hvað með lýsingarorð, sem geta tekið öll kyn? Sagnir í 3. persónu? Hvað með orð sem eru augljóslega í röngu kyni sé tekið mið af veruleikanum, t.d. bílvél? Mun fleiri karlar en konur vinna við bílvélar, ætti orðið því ekki að vera í karlkyni? Eða er þetta dæmi um pólitískan rétttrúnaðar hugsunarhátt, sem á fátt skylt við raunveruleikann? Og er slíkur hugsunarháttur til eftirbreytni? 

Hvað varðar kristindóminn, þá vil ég hvetja höfund bloggsins til að lesa Biblíuna. Faðirinn á sér sínar skýringar, sem og sonurinn (takið eftir greininum). Jafnvel ég, guðslaus vesalingur, veit það. Auðvitað er ekkert mál að setja út á þessa framsetningu, enda barn síns tíma, en það breytir því ekki, að þetta stendur í þessari blessuðu bók og enn fremur stendur í henni, að hver sá sem breytir því sem þar stendur muni hljóta dvöl að eilífu á Hótel Lúsífer að þessu lífi loknu.

Eins er hitt dæmið, við erum hér samankomnir... ekki gott, þar sem ræðumenn sem nota slíkt orðfæri þar sem bæði kyn (líffræðileg) eru samankomin eru augljóslega ekki að nota tungumálið rétt, eða hreinlega ekki að ávarpa þá kvenmenn sem þar eru staddir. Segir slík notkun á tungumálinu ekki meira um þann sem mælir heldur en um tungumálið? Auðvitað væri réttara að segja: Við sem eru hér samankomin, því neitar enginn, þ.e. ef tilgangurinn er ávarpa á alla gesti óháð kyni. Það verður nefnilega að skoða segðir sem þessa í réttu samhengi. Voru allir gestir karlmenn? Var verið að ávarpa alla fundargesti? Er mælandi að tala á sínu móðurmáli eða mætti skrifa þessa villu, ef villa er, á vankunnáttu? Það kemur ekki fram hjá höfundi, bara að það sé rangt að ávarpa hóp með þessum hætti. 

Nú er ég jafnréttisinni. Ég hef hins vegar litla trú á því, að jafnrétti náist með þeim aðferðum sem blogghöfundur leggur til, af ofangreindum ástæðum. Þrátt fyrir, að hægt sé að hafa áhrif á hvernig fólk hugsar með því að nota tungumálið, jafnvel nauðga því, þá er málið hins vegar nokkuð sem hefur verið í sífelldri þróun í margar aldir. Ég efast um, að þegar menn byrjuðu t.d. að nota orðið hetja, að þeir hafi gefið gaum að því hvert málfræðilegt kyn þess var. Ég efast líka um, að það hafi skipt þá máli. Jafnvel þó við myndum taka okkur til og ætla okkur að breyta tungumálinu, þurrka út karlkyn eða jafnvel allt málfræðilegt kyn, þá væri það í mínum huga eins og að reyna kæfa reyk til að slökkva eld. Til að slökkva eld er best að ráðast að rótum hans. Vandamálið er nefnilega samfélagslegs eðlis, ekki málfræðilegs.   

PS. Höfundur þeirrar bloggfærslu sem hér er um rætt er kvenmaður. Notkun mín á karlkynsorðinu höfundur er með vilja gerð en hefur ekkert með afstöðu mína til kvenna að gera.  


Að stjórnlagaþingskosningum loknum

Eitt af því sem hefur verið mjög áhugavert að fylgjast með í kjölfar kosninga til stjórnlagaþings, er hvernig hinir mismunandi fræðimenn, lærðir og sjálfsskipaðir, hafa túlkað kjörsókn. Hún var í kringum 37%, eins og eflaust flestir vita. Ég viðurkenni fúslega, að mér hefði þótt gaman að sjá fleiri mæta á kjörstað, en segi líka, að það mættu þó yfir 83.000 þúsund manns.

Ég ætla ekki að að gefa mér ég viti eða geti ráðið í af hverju hin 63% mættu ekki. Fyrir því liggja eflaust mjög margar ástæður og það að ætla sér að rýna í það, án þess að hafa nokkrar rannsóknir eða fyrri reynslu til stuðnings, er eins og að fiska í gruggugu vatni. Allar þær niðurstöður sem slíkir fræðimenn komast að, segja í raun meira um þá en nokkurn tíma raunverulegar ástæður þess að fólk mætti ekki. 

Yfir 500 frambjóðendur voru í framboði. Margir þeirra áttu og eiga fullt erindi á þetta þing. Af því sem mér sýndist þá voru flestir frambjóðendur heiðarlegir í sinni baráttu. Sjálfur kynnti ég mér stefnumál eflaust vel yfir 150 frambjóðenda og valdi á minn seðil eftir því. Ég held, að þetta sé einsdæmi í sögunni, að heil þjóð taki höndum saman með þessum hætti til að skrifa stjórnarskrá og því stórmerkileg tilraun, sem ég vona að takist vel. 

Litla systir mín var í framboði og ég tók þátt í því af fullum krafti, með tilheyrandi böggi fyrir vini og vandamenn. Mér finnst hún hafa staðið sig gríðarlega vel, hún kom vel fyrir, fór víða til að tala við frambjóðendur, t.a.m. lagði hún land undir fót og heimsótti Borgarnes, Blönduós og Akureyri, ásamt því að heimsækja menntaskóla og elliheimili. Hún lagði ríka áherslu á stefnumál sín og féll ekki í þá gryfju að gagnrýna aðra frambjóðendur. Við fjölskyldan lögðumst öll á eitt með að aðstoða hana, hvert með sínum hætti. Og óháð því hvort hún endi sem þingmaður á stjórnlagaþingi eða ekki, þá finnst mér hún vera sigurvegari og er stoltur af henni. 


Með sannleikann að vopni

Eitthvert stórkostlegasta markaðssetningarbragð sem notað hefur verið, er notkun Biblíunnar á orðinu sannleikur. Kristnir menn hafa nefnilega geta beitt fyrir sig þeim rökum, að það sem þar stendur sé ekki bara sannleikur heldur sannleikurinn. Og þessi greinir gerir alveg ótrúlega margt. Hann útilokar aðra sannleika og felur í sér, að allir þeir sem mæla gegn þeim sem hafa sannleikann hljóti að fara með rangindi, lygar eða ósannindi.

Í allri orðræðunni um hvort banna eigi trúboð í skólum, hafa trúaðir svolítið beitt fyrir sig svipaðri aðferð, þ.e. látið sem þau rök sem þeir týni til séu sannleikurinn eini og sanni og önnur rök þurfi ekki til. Kirkjunnar menn tala í upphrópunum og með vægðarlausum hræðsluáróðri, sem eins og margur annar slíkur áróður á við fá, ef nokkur, rök að styðjast. 

Mig langar aðeins að skoða þessi helstu rök þeirra og mun ég þá helst fara í gegnum ræðu hr. Karls Sigurbjörnssonar, biskups Þjóðkirkjunnar. 

Trúfrelsi er skilgreint sem útilokun trúar frá hinu opinbera rými, uppeldi og kennslu. Sem mun þó einungis stuðla að fáfræði, fordómum og andlegri örbirgð.

Trúfrelsi er hluti af mannréttindum hvers og eins. Ísland hefur skrifað undir mannréttindasattmála Sameinuðu Þjóðanna og hvað svo sem hr. Karli kann að finnast um það skjal, þá eru það lögfest réttindi allra þegna landsins að búa við trú-, skoðana-, tjáninga-, prent- og fundafrelsi. Þessi réttindi okkar eru mikilvægur þáttur í vestrænu samfélagi og það er með ólíkindum, að sjá hvernig biskup úttalar sig um þessi mikilvægu réttindi. Hvernig hann hyggst færa rök fyrir því, að frelsi til að iðka þá trú sem hverjum og einum sýnist, komi til með að stuðla að fáfræði, fordómum og andlegri örbrigð. Er það trú biskups að þeir sem trúa ekki, eða er ekki boðuð trú í opinberum rýmum, uppeldi og kennslu, búi við andlega örbrigð? 

Er þetta kannski enn sú leið sem við, sem höfum minniháttar tök á sögu Íslands og Evrópu, höfum séð kirkjuna nota í gegnum tíðina? Að fara fram með upphrópunum, fordæmingum á því sem kirkjan fær ekki að ráða eða getur ekki haft áhrif á? Er hér ekki alið á ótta fólks? Ef kirkjan fái ekki haldið hátterni sínu áfram, muni samfélagið verða enn fátækara, meiri fordómar og enn meiri fáfræði? Ég verð að viðurkenna, mér þætti mjög gaman að sjá við hvaða mælistiku hr. Karl miðar því ég hef ekki séð neinar rannsóknir sem sýnt hafa fram á, að samfélag þar sem ekki er stundað trúboð í skólum hafi hrunið að innan frá. 

Mannréttindaráð vill í nafni mannréttinda banna það að Gídeonfélagið megi afhenda grunnskólabörnum Nýja testamentið að gjöf. Á vettvangi skólans skal börnunum meinað að kynnast því riti sem er lykillinn að skilningi á listum og bókmenntum heimsins, kristinni trú og sið Íslendinga. 

Ég get tekið undir að Nýja Testamentið er lykill að skilningi á kristinni trú. Hins vegar finnst mér hr. Karl sýna fádæma fávisku er hann segir, að sú sama bók sér lykill að skilningi á listum og bókmenntum heimsins. Mig langar til að benda honum á, að bækur voru skrifaðar löngu áður en Biblían varð til, t.a.m. hafa forngrískar bókmenntir haft að mínu viti mun heilmikil áhrif á bókmenntasöguna og urðu þær til algjörlega án nokkurra áhrifa frá höfundum Biblíunnar. Auk þess er sá skilningur sem hr. Karl leggur í orðið bókmenntir afar þröngur, því bókmenntir eru svo miklu meira en bara það sem skrifað hefur verið. Við eigum t.d. alveg stórkostleg Eddukvæði; Hávamál, Völuspá o.s.frv.; sem urðu til flest án þess að kristni kæmi þar nokkurs staðar nærri (þó svo við getum þakkað kaþólskum munkum fyrir að hafa tryggt að þau hafi lifað í menningu okkar til dagsins í dag). 

Hvað viðkemur sið Íslendinga, þá þætti mér gaman að sjá skilgreiningu á þeim sið. Nú eru Íslendingar almennt séð ekki trúræknir, sé tekið mið af kirkjusókn dagsins í dag. Hvað varðar sið Íslendinga í sögulegu ljósi, þá hafa ríkt þrír siðir á Íslandi; heiðni, kaþólska og lúthersk-evanglískur siður. Á hvern þeirra varpar Nýja Testamenti Gideonsfélagsins ljós? Ekki ásatrú. Ég er auk þess nokkuð viss um, að kaþólikar leggi ekki sama skilning í þá bók og þeir lúthersk-evanglísku, þó líkindi séu mörg.

Er það ekki siður margra Íslendinga, að trúa þegar það hentar þeim? Sem eru einmitt þeir sem Kristur gagnrýndi hvað harðast, þeir sem voru hvorki heitir né kaldir. Og sættir Þjóðkirkjan sig við það? Væri ekki nær, að Þjóðkirkjan læsi sjálf Nýja Testamentið og reyndi að fá meðlimi sína til að gera slíkt hið sama og breyta eftir þeim kenningum sem þar koma fram. Mig grunar, að ef það væri Þjóðkirkjunni hjartans mál að láta lesa þennan lykil að listum og bókmenntum heimsins, að mati hr. Karls, að töluvert fleiri myndu segja sig úr Þjóðkirkjunni og ég held, að kirkjunnar menn viti það. Kvenfyrirlitningin, hrokinn og mannvonskan sem þar má finna finnst mér oft skyggja á annars ágæt skilaboð Krists.

Það hefur verið gott að sjá að fjölmargir foreldrar og skólmenn hafa andmælt þessum hugmyndum. Guði sé lof fyrir það fólk sem heldur vöku sinni. Það er vegið að rótum trúar, siðar og hefðar. Við þurfum síst á því að halda á háskatímum. 

Hér þykir hr. Karli skyndilega vænt um mannréttindi á ný. Ef þessir fjölmörgu foreldrar og skólamenn hefðu ekki rétt til að tjá sig, þá væri enginn farvegur fyrir þá að koma skoðunum sínum á framfæri. Það verður ekki bæði sleppt og haldið í þessum efnum. Annað hvort virðum við mannréttindi eða ekki. Trúfrelsi er jafn mikilvægt og tjáningarfrelsi.

Að tala um, að bann við trúboði í skólum, vegi að rótum trúar, siðar og hefðar er enn gott dæmi um gífuryrði. Hr. Karl virðist leggja að jöfnu, að trúboð í skólum sé grundvöllur trúar á Íslandi. Ef svo er, þá skil ég vel hann rjúki upp á nef sér í stresskasti og pirringi. Hins vegar er erfitt að halda slíku fram. Kirkjan ætti að vita það vel, að grundvöllur trúarinnar býr innra með hverjum og einum. Kristur virtist gera sér grein fyrir því, hann lagði mikla áherslu á að hver og einn ræktaði sína trú, að hver líkami væri musteri Guðs.

Ég hefði einmitt haldið, að áhugaleysi almennings um kristna trú og trúarlíf (sem kristallast í dræmri kirkjusókn og síauknum úrsögnum úr Þjóðkirkjunni) væri Þjóðkirkjunni mun meira áhyggjuefni. Að laga ímynd sína eftir hneykslismál undanfarinnar missera. Þetta er kannski leið þeirra til að beina athyglinni frá þeim og því getuleysi sem kirkjan virðist búa við til að taka á öllum þessum málum. Það held ég að vegi mun harðar að rótum trúar, siðar og hefðar. Ég held, að miklu fleiri hafi sagt sig úr Þjóðkirkjunni vegna þess hvernig hún hefur tekið á kynferðismálum, heldur en vegna trúboðs hennar í leik- og grunnskólum. Enn sýnist mér hr. Karl fara með hræðsluáróður sem er í engum tengslum við raunveruleikann. 

Meirihluti landsmanna er kristinn og því er eðlilegt að kristin trú sé boðuð í skólum. Virða á lýðræðið.

Hvað er eðlilegt við það? Ef meirihluti landsmanna er fylgjandi því að kynferðisbrotamenn séu húðflettir á Lækjartorgi er það þá eðlileg framkoma yfirvalda gagnvart brotamönnum? Jafn mikið og það kann að fara í taugarnar á kristnum mönnum, þá er ekki hægt að taka þessa umræðu í þessa átt og það fyrir nokkrar sakir. 

Í fyrsta lagi, þá snúast mannréttindi einmitt um, að meirihluti fái ekki tækifæri til að kúga minnihluta. Í kristnisögu er það einmitt kennt, að á fyrstu öldum kristninnar voru kristnir menn ofsóttir, kúgaðir, misþyrmt og drepnir, allt fyrir sakir trúar sinnar. Nú stöndum við frammi fyrir svipuðum hlut hérlendis, hópur trúlausra og þeirra sem iðka önnur trúarbrögð en kristni fer sífellt fjölgandi en nú sýnist mér á þessum rökum, að kristnum finnst eðlilegt að kúga þennan minnihlutahóp. Voru þá ofsóknir þær sem fjallað er um í m.a. Nýja Testamentinu, eðlilegar og réttlætanlegar? Fordæma ekki allir kristnir menn þær? Er samt í lagi að meirihluti kúgi minnihluta í dag? Ég skil ekki alveg hvernig kirkjan og kristnir ætla að halda þessu til streitu án þess að verða sjálfum sér til skammar.

Lýðræði á aldrei við þegar mannréttindi eiga í hlut. Það á ekki að vera hægt að kjósa í burtu tjáningarfrelsi, skoðanafrelsi eða hver þau önnur mannréttindi sem í umræðu eru hverju sinni. Við höfum mýmörg dæmi um það á nýliðinni öld hvernig farið getur þegar svo er gert. Skemmst er að minnast Þýskalands úr seinna stríði, Sovétríkjanna og svo mætti áfram lengi telja. Það er kannski það sem Þjóðkirkjan og kristnir ríkisborgarar þessa lands stefna að. Maður spyr sig.

Ísland hefur verið kristið í 1000 ár og eru kristin gildi grundvöllur samfélags okkar. 

Nei, á Íslandi hefur ekki ríkt einn og sami siður í 1000 ár. Það er misskilningur. Hér ríkti kaþólskur siður í 550 ár en síðan þá (í 460 ár) hefur ríkt lúthersk-evanglískur siður. Þegar Lúther setti fram siðaboðskap sinn var hann ekki kaþólsku kirkjunni að skapi og samkvæmt söguskilningi mínum, þá var kaþólska kirkjan ekki á því að kalla þann boðskap kristinn, þó svo kirkjunni hafi ef til vill snúist hugur í dag. Þannig, þessi fullyrðing um að Ísland hafi verið kristið í 1000 ár er að mínu viti frekar á gráu svæði en hitt, að hún sé sönn og hvað þá sannleikurinn. 

Hvort kristin gildi séu grundvöllur samfélags okkar, þá held ég að mörg þeirra gilda sem kristnir menn hafi eignað sér eigi sér mun eldri rætur, t.d. frá Grikklandi og Indlandi. Það er nefnilega svo, að Jesús Kristur fann ekki upp kærleikann, samúðina eða sannleikann. Sem sagt, áður en hann kom til sögunnar þá voru þessi gildi til. Jafnvel samfélög sem ekki höfðu orðið fyrir áhrifum kristni hafa sýnt af sér mikinn kærleik og samhjálp, t.a.m. voru heiðnir menn með fyrirkomulag sem tryggði þeim sem ekki gátu alið önn fyrir sjálfum sér ákveðna héraðshjálp og hefur lifað með íslensku þjóðinni allt fram til dagsins í dag. Hreppahjálpin er nefnilega mjög gamalt fyrirbæri í íslensku samfélagi. Ég hvet fólk til að kynna sér sögu hennar.

Auk þess langar mig til að benda á, að þau gildi sem svo oft er vísað til, þessi góðu grundvallar ,,kristnu" gildi, birtast að mér finnst alls ekki í þeirri hörðu afstöðu sem kristnir hafa tekið gegn þessum tillögum mannréttindaráðs. Það er lítið sem minnir á kærleika til náungans, samúð með þeim sem minni eru og virðingu. Trúlausir, eins og ég sjálfur, hafa fæstir áhuga á því að eyða kristni eða öðrum trúarbrögðum úr samfélaginu. Þvert á móti vil ég hafa sem flest trúarbrögð hérna á Íslandi. Mér finnst í fínu lagi þó fólk fari í kirkju og sunnudagaskóla, að það lesi Biblíuna og iðki sína trú í friði. Ég virði þetta fólk og þær ákvarðanir sem það tekur með trú sína í huga. Hins vegar þætti mér vænt um, að þetta sama fólk sýndi mér þá virðingu að vera ekki að boða trú í skólanum sem barnið mitt sækir. Ég vil ala upp mitt barn eftir mínum gildum, sem eru kannski ekki þau hin sömu og þeir kristnu og í skólanum má ekki myndast við-og-hinir stemning. Það er sá punktur sem flestir foreldrar óttast, hvort sem þeir eru kristnir eða ekki, hvort sem þeir tilheyra einhverjum minnihlutahópi eða ekki. Það vilja allir foreldrar að barnið sitt tilheyri hópnum í skólanum og það á ekki að setja skólann í þá stöðu, að kennarar og starfsfólk hans þurfi að aðgreina nemendur með svo skýrum hætti. Að setja barn út úr stofu á meðan trúboð fer fram, er ekkert annað en aðgreining. Og skólinn á að vera án aðgreiningar! 


England, Holland og Þýskaland í startholunum

Jæja, nú er bara spurning hvort við getum ekki farið í taugarnar á Frökkum og Bandaríkjamönnum líka? Svo Kína og Rússland?

Ég legg til að við sendum Leoncie á alheimstónleikatúr, eins og Sigurrós. Sem sérstakur sendiherra okkar gæti hún skemmt Frökkum, Könum, Kínverjum og Rússum áður en hún heldur til Mars og Júpíter og um ókannaðar geimþokur.

(Ég skil sem sagt ekki hvernig múmínálfunum í Sigurrós tókst að fara Alheimstúr þegar NASA getur varla endurtekið það að senda menn til tunglsins!)

Hvað eigum við að gera í þessu icesave/edge dæmi? Það er ljóst að reikningseigendur í þessum löndum eru ekki sáttir, ekkert frekar en við værum ef dæmið vær omvendt. Ríkið er í raun gert ábyrgt fyrir gjörðum fárra manna eða fyrirtækja, sem sagt, við og komandi kynslóðir eigum að borga brúsann!

Það er ekki eins og hér sé um stríð að ræða. Þjóðverjar voru lengi að borga upp stríðsskaðabæturnar sem voru dæmdar á þá eftir heimsstyrjaldirnar en þetta er ekki það sama. Við erum að tala um sparnað fólks sem var, í raun, rænt af þeim.

Hvað gerum við þegar svo er í pottinn búið? Að einhverju hefur verið rænt? Jú, við reynum að finna þjófinn og draga hann fyrir dóm. Nú vitum við hverjir báru ábyrgð á þessu fé og við ættum líka að geta komist að (gefið að FME standi sig) hvert það fór. Sem sagt, við ættum að geta séð hvar sökin liggur.

Er þá ekki bara spurning um að framselja hina seku til þessarra landa og segja þeim að krefja þá um peningana sína, því brot þegna eru ekki á ábyrgð ríkisins, heldur lætur ríkið þegna sína taka sjálfir ábyrgð á eigin gjörðum?

Væri þá ekki málið leyst? Ég veit að íslenska ríkið framselur ekki þegna sína til annarra landa, en getum við ekki gert undanþágu fyrir þá? Svona eins og þegar reynt var að fella niður persónulegar skuldir þeirra?

Tja, ég spyr....


Ábyrgð

Það er mikið talað um ábyrgð í fréttum núna. Ríkisstjórnin segir að nú sé ekki tími til að finna sökudólga eða draga einhvern til ábyrgðar, á meðan almenningur og fjölmiðlar heimta blóð og opinberar krossfestingar. Tja, kannski ekki alveg í eiginlegri merkingu þess, en að minnsta kosti í yfirfærðri merkingu.

Þegar ég horfi yfir sviðið þá finnst mér eins og hvert sem litið er, þá sjái maður einhvern sem þarf að taka ábyrgð, en gerir það í raun ekki. Við höfum Davíð, sem erlendir fjölmiðlar líta á sem einhvern kjána (sbr. það grín sem gert er að honum í þýskum og mig minnir líka írskum fjölmiðlum), Geir en honum hefur ekki beint tekist að afla sér vinsælda undanfarið, Árni, Björn, Össur, Björgvin, Ólafur Ragnar og svo á hinum kantinum, Valgerði og Guðna. Ég læt vera að Vinstri grænir eða Frjálslyndir séu ábyrgir fyrir þessu, enda hefur enginn viljað vera í stjórn með þeim svo árum skiptir.

Davíð tekur ekki ábyrgð á sínum þætti í þessu öllu saman. Hann skóp jú þær aðstæður sem útrásarvíkingarnir og bankarnir nýttu sér með þeim hætti sem nú er orðið. Hann fór fremstur í flokki við að einkavinavæða ríkisfyrirtækin. Er það ekki ábyrgðarhluti?

Geir fer fyrir þeirri ríkisstjórn sem lenti í þessum málum og mér hefur sýnst að flestir hagfræðingar vera á þeim brókum að hún hafi ekki staðið sig sem skyldi. Ég held, þegar litið er um öxl, þá hafi öll viðvörunarljós logað ansi lengi án þess að nokkuð hafi verið að gert. Er ekki þörf að taka ábyrgð á því?

Árni hefur gerst svo oft sekur um vanhæfni að mínu mati að það tekur ekki að minnast á það lengur, sem og Björn. Ég skil ekki hvers vegna Össur hefur ekki verið látinn sæta ábyrgð á öllu því sem hann hefur sagt eða bloggað. Svo loks Björgvin sem á að heita ráðherra bankamála og undir verksvið hans fellur FME, sem hefur svo sannarlega ekki staðið sína vakt. Þarf enginn þeirra að axla ábyrgð?

Loks eru það Valgerður og Guðni sem virðast ætla sér að nýta ástandið til að afla Framsókn fylgi, en virðast hafa gleymt því að þau eiga svo stóra sök í þessu máli. Ætla þau að axla ábyrgð eða þurftu þau að gera það með því að missa ráðherrastólana sína í síðustu kosningum?

Svo til að kóróna allt saman, þá eru verkalýðsleiðtogar líka að gerast sekir um að hafa tekið þátt í leiknum og jafnvel tekið þátt í ákvörðunum sem virðast við fyrstu sín mjög á mörkum þess siðlega. Ætla þeir að axla ábyrgð?

Nýjasta málið er svo klúður Bjarna Harðar, sem verður að segjast er í senn hrikalega fyndið og ótrúlega klaufalegt. Valgerður segir í fréttum að hún ætli ekki að krefjast þess hann hætti í stjórnmálum, heldur höfða til samvisku hans.

Nú spyr ég: Finnst henni líklegt að stjórnmálamenn, eins og hún sjálf, hafi nokkra samvisku?

Það tekur enginn stjórnmálamaður ábyrgð á því sem hann gerir. Hugtakið er þeim, og henni, framandi. Ég legg til, að Valgerður líti sér nær. Hvar er samviska hennar? Af hverju stendur hún ekki upp og sýnir gott fordæmi? Segir að sökum samvisku, þá sjái hún sig tilneydda til að segja af sér, enda hluti af ástandinu á hennar ábyrgð.

Mig grunar, að þegar allt kemur til alls, þá muni enginn stjórnmálamaður, útrásarvíkingur (að Bakkabræðrum undanskildum) eða bankabruðlari standa upp og viðurkenna eigin ábyrgð. Það væri einfaldlega til of mikils ætlast af þeim. Hins vegar virðist, miðað við viðbrögð Valgerðar, þeim finnast sjálfsagt að aðrir taki ábyrgð og hagi sér eftir því sem samviska þeirra leyfir.

Það hlýtur því að þýða, að við sitjum uppi með sama liðið á þingi, sama liðið í ráðherrastólunum og sama liðið í Seðlabankanum og FME, og enginn þeirra mun kannast við að bera nokkra ábyrgð. Enda vöruðu jú allir við þessu, ekki satt?

Þetta er kannski of mikil einföldun á málinu, ég skil kannski ekki hversu flókin stjórnmál geta verið....ég veit það ekki!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband