Á misjöfnu þrífast börnin best

Fyrir nokkrum dögum datt ég inn á blogg Hildar Lilliendahl, þar sem hún gagnrýnir matseðilinn í mötuneyti grunnskóla sonar hennar. Hún hefur margt til síns máls, eflaust má það til sanns vegar færa að hluti af matseðlinum er kannski ekki af hollasta tagi. Engu að síður vakti þetta mig til umhugsunar, þar sem sá matseðill sem var birtur er ekki svo ólíkur þeim sem ég kannast við heima hjá mér. Börnin mín hafa oft fengið rétti sem á seðlinum er að finna, hversu hollir sem þeir kunna að vera. Er ég þá að gera eitthvað rangt? Ætti ég að vera gefa börnunum mínum meira grænmeti, oftar speltbrauð, sojaborgara eða spínatsalat?

Á sama tíma hefur verið nokkur umræða um offitu þjóðarinnar, sem á víst að vera sú feitasta í Evrópu. Í fréttum hefur komið fram að þjóðin hafi þyngst mjög síðustu tvo áratugi, en hafi verið langt undir meðallagi í kringum 1940. Erum við að fitna vegna þess við erum ekki að gefa börnunum okkar nógu hollan mat?

Þegar ég hugsa aftur, þá man ég ekki betur en ég hafi fengið kjötbollur, fiskibollur, gúllas, bjúgu, pylsur, slátur, soðin fisk, skyr og allt þetta sem ég held að flestir Íslendingar kannist við sem hefðbundinn heimilismat. Nú þegar ítölsk matreiðsla komst í tísku þá fengum við líka spaghetti og lasagna og pasta. Margt af þessum mat er, þegar allt kemur til alls, ekkert sérstaklega hollur. Hann er fituríkur, kjötið oft salt og unnið. Hins vegar, þegar maður pælir í því, þá höfum við Íslendingar nær alltaf borðað frekar saltan mat, ekki satt? Saltur matur geymist aðeins betur en ferskur. Samt á líkaminn ekki að fá nema örlítið af salti á hverjum degi. 

Hins vegar, á sama tíma og þetta var á boðstólnum, þá var ég að stækka, á fullu í íþróttum og var grennri en góðu hófi gengdi. Þegar ég vaknaði borðaði ég morgunkorn með mjólk, oft sykrað og síðan hljóp ég eða hjólaði út á fótboltavöll og var þar allan liðlangan sumardaginn. Á veturna hnoðaðist maður með vinunum í snjónum eða fór á skíði. Auk þess var ég að æfa bæði fótbolta og handbolta. Tók strætó eða gekk á æfingar og heim aftur. Sem sagt, brennslan var sífellt í gangi hjá mér. 

Nú hin síðari ár hefur heldur betur hægt á brennslunni og hef ég fitnað til jafns við það. Börnin mín eru hins vegar á svipuðum stað og ég var á þeirra aldri. Dóttir mín æfir fimleika og jazzballet, sonur minn fótbolta og bæði borða þau hefðbundinn heimilismat á hverju kvöldi. Stundum soðið, stundum steikt, kartöflur, hrísgrjón, fiskur, kjöt, grænmeti, ávextir, gos, snakk og nammi. Hvorugt þeirra telst vera eitthvað sérstaklega feitt, eiginlega þvert á móti. Þegar þau eru að taka vaxtakippi borða þau mikið, minna þess á milli. Þau þrífast, að ég tel, ágætlega á þessu misjafna fæði. Þau eru reyndar send út daglega til að leika sér, æfa mikið og djöflast svo að brennslan er eflaust ágæt hjá þeim báðum.

Auðvitað er óhollt mataræði vandamál. Og hefðbundinn íslenskur heimilismatur er almennt fituríkur, á því leikur enginn vafi. Um leið og við höfum öðlast meiri og betri skilning á gæðum matar, þá minnkar sífellt sú hreyfing sem við stundum. Á sama tíma og þjóðin tók að fitna, urðu skólar einsetnir. Börn voru sem sagt látin sitja lengur í skólum. Skóladagurinn lengdist, en sá tími sem þau höfðu til að hreyfa sig og brenna þeirri orku sem þau innbyrtu styttist. Menntayfirvöld brugðu t.d. ekki á það ráð að fjölga þá leikfimitímum á móti, þeir eru enn jafn margir og þegar ég var í tvísetnum skóla. Störfum sem kalla á mikla setu, skrifstofustörfum og þess háttar, fjölgaði um leið. Einnig varð sprenging í fjölda skyndibitastaða. Ekki má gleyma tilkomu netsins og leikjatölva. Margir foreldrar, sérstaklega í Reykjavík, veigra sér einnig við að senda börn sín, sérstaklega þegar þau eru í yngri kantinum, út að leika, bæði af ótta við umferð sem og hljóta fréttir af barnamisnotkun og mönnum sem tæla börn upp í bíla að hafa sín áhrif.

Sem sagt, á síðustu árum hefur hreyfing barna og fullorðinna minnkað, en matarvenjurnar ekki tekið jafn örum breytingum. Þannig vandamál er ekki bara næringarfræðilegs eðlis, heldur samfélagslegs. Auðvitað er hollt fyrir okkur að taka upp betri og fjölbreyttari matseðil, en á sama tíma hljótum við að sjá, að öll þessi kyrrseta barna og fullorðinna gerir það að verkum að brennsla þeirra hefur minnkað. Við erum hætt að þurfa alla þá orku sem í hefðbundna matseðlinum fólst. Börn þurfa reyndar enn og munu alltaf á fituríkum mat að halda, sérstaklega þegar þau er að vaxa. En gæta verður þó að því, að fitan sé fjölbreytt og holl. Sú spurning sem óhjákvæmilega rís í huga mínum, er hvort ætli gagnist fólki betur að hreyfa sig meira eða borða hollari fæðu? Eða er þetta kannski beggja blands, hreyfa sig oftar og stilla óhollu mataræði í hóf?

Ég hef engar áhyggjur af því ef börnin mín fá álíka mat í skólanum hjá sér og Hildur birtir á bloggi sínu. Ég veit að þau hlaupa þessa orku af sér, enda vön því. Hins vegar gera það ekki allir. Þar liggur kannski hundurinn grafinn. Sumir fá jafnvel enn fituríkari mat þegar heim er komið, skyndibita, snakk og þess háttar. Á meðan aðrir fá eða eru vanir að borða mat sem er töluvert hollari en á matseðlinum kemur fram. Hvar liggur línan? Hvernig er hægt að brúa bilið sem er á milli þeirra sem þurfa mikla orku, brenna hverju sem er og þeirra sem þurfa litla orku? Hvernig er það hægt í jafn stóru mötuneyti og grunnskóli er?

Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér hver markmið og ráðleggingar Lýðheilsustöðvar bendi ég á þessa síðu. 


Traustur vinur

Fyrir meira en áratug kynntist ég einstaklingi sem átti síðar eftir að vera afar kær vinur minn. Eða öllu heldur vinkona mín. Kolla. Hún flutti inn til mín, þá átti ég heima í Veghúsum og við nutum þess að fara saman í göngutúra, bæði þar í hverfinu sem og á útivistarsvæðum hér í kringum borgina. Við náðum ágætlega saman, hún var vön að hlusta af athygli á það sem ég hafði segja en eyddi ekki orku sinni í að rífast við mig. 

Þremur árum eftir hún flutti inn eignaðist ég dóttur, Urði Ýr, með þáverandi kærustu minni. Kolla tók fagnandi á móti okkur þegar við snerum heim af spítalanum og tók þátt af bestu getu í uppeldinu. Það sumar, þegar dóttir mín lá úti í vagni, fór Kolla oftar en ekki einnig út og sólaði sig, um leið og hún hafði vakandi auga með vagninum. Dóttir mín eltist og óx, ekki leið á löngu þar til þær Kolla urðu hinir mestu mátar. Virtist Kolla ekki setja það fyrir sig að leika við smábarn og tók með jafnaðargeði að vera klipin, bitin og rifið væri í hár hennar.   

Við barnsmóðir mín fluttum úr Grafarvogi í Seljahverfi og fylgdi Kolla okkur. Urður tók sín fyrstu skref þar í nýju íbúðinni okkar og fylgdist Kolla með jafn stolt og við foreldrarnir. Við Kolla héldum uppteknum hætti, fórum í göngutúra þegar vel viðraði og spjölluðum saman. Hún sýndi hinu kyninu lítinn áhuga og virtist alveg sátt við hlutina eins og þeir voru.

Þegar Urður var rétt að verða þriggja ára slitum við barnsmóðir hennar sambúð okkar og fluttum hvort á sinn staðinn. Við Kolla keyptum litla íbúð í Njörvasundi. Um margt var þetta erfiður tími, mér leið illa og átti erfitt með sjálfan mig. Kolla vissi þetta og oftar en ekki kom hún til mín og faðmaði mig. Gaf mér kannski koss á kinn. Hún virtist innilega finna til með mér og gerði það sem hún gat svo mér liði betur. Stundum lá hún við hlið mér í sófanum á meðan við horfðum á einhverja bíómynd, þegjandi og hljóðalaus, en á öðrum stundum reyndi hún að hressa mig við með einhverjum fíflalátum eða reyndi að draga mig í einhvern leik. Oftar en ekki hafði þetta góð áhrif á mig, eða eins og segir í laginu: Traustur vinur getur gert kraftaverk.

Ég kynntist síðan annarri konu. Í fyrstu leist þeim Kollu ekkert hvor á aðra, en eftir því sem þær kynntust urðu þær sífellt betri vinkonur. Við keyptum íbúð í Tröllakór og fluttum þangað. Kolla flutti hins vegar inn til systur minnar, Söru, og bjó þar um hríð, en kom svo aftur til mín.

Gallinn er bara sá, að Kolla má ekki búa hjá mér, af því hún er hundur. Reglurnar í blokkinni banna allt hundahald. 

Ég stend því frammi fyrir erfiðu vali. Annað hvort þarf ég að finna heimili fyrir Kollu eða láta svæfa hana. Hún er orðin gömul, greyið, og mun eflaust eiga erfitt með að aðlagast nýju fólki, nýjum reglum og þess vegna hef ég reynt að leita til þeirra sem hún þekkir best, en aðstæður eru erfiðar og fæstir sem geta tekið henni til frambúðar. Hugsanlega tímabundið eða eftir ákveðinn tíma, en vandinn er því miður í dag og verður eflaust áfram eftir ákveðinn tíma, þannig vandanum væri bara slegið á frest. Seinni kosturinn er þá að láta svæfa hana, sem mér finnst skelfileg tilhugsun. Að fara og láta drepa þennan vin minn, sem hefur fylgt mér í gegnum súrt og sætt, er vægast sagt erfitt. Kolla er meira en 10 ára gömul, er að nálgast elliárin. Hún er reyndar ennþá spræk og liðtæk í góðan göngutúr, þó svo hún nenni kannski ekki lengur að leika við smábörn. 

Þannig mér líður svolítið eins og ég þurfi að velja milli þess að láta sparka í punginn á mér eða stinga hendinni ofan í blandara.

225056_21311692192_705122192_545864_5774_n 


Call of Cthulhu

cthulhu2

Call of Cthulhu eða Kall Cthulhu er smásaga eftir H.P. Lovecraft og kom hún fyrst út árið 1928 í tímaritinu Wierd Tales. Reyndar skrifaði Lovecraft söguna sumarið 1926 og er þetta eina sagan eftir hann þar sem lesa má um óvættina Cthulhu, sem á að hafa komið utan úr geimnum en sofi nú dauðasvefni í borginni R'lyeh, sem hvíldir á hafsbotni langt undir öldutoppum Kyrrahafsins. Upphaflega var sögunni hafnað af Wierd Tales en vinur Lovecraft ræddi við ritstjóra blaðsins og lét í veðri vaka að Lovecraft ætlaði að senda söguna í annað tímarit, sem varð til þess að ritstjórinn skipti um skoðun. 

Í sögunni er sagt frá Francis Wayland Thurston sem þarf að gera upp dánarbú frænda síns, Angells prófessors, en þar finnur hann nokkra hluti sem koma honum á slóð hryllilegs trúarsafnaðar og óvættarinnar Cthulhu. Frásagnarmátinn er í nokkurs konar skýrslustíl, Francis segir söguna og nálgast frásögn sína á svipaðan hátt og vísindamaður, reynir að segja hlutlægt frá rannsókn sinni og uppgötvunum en, eins og gefur að skilja, leggur vissulega eigið gildismat á þær persónur sem tengjast frásögninni. Frásögnin skiptir í þrjá hluta, Hryllileg leirmynd (e. Horror in the Clay), Frásögn Legrasse rannsóknarlögreglumanns (e. The Tale of Inspector Legrasse) og Martröð á hafi út (e. The Madness from the Sea). Fyrsti hlutinn er frásögn Thurstons af því sem hann hefur lesið úr skýrslu Angells prófessors, sem og segir frá því er hann hittir ungan listamann að nafni Wilcox, en sá bjó til leirmynd sem olli prófessornum miklu hugarangri. Í næstu köflum verður frásögnin marglaga, þ.e. sögð er saga innan sögu. Í fyrsta lagi er það frásögn Legrasse og hins vegar endursögn úr dagbók norsks stýrimanns.

Textinn er mjög Lovecraftískur, ef svo mætti að orði komast. Hann nýtir sér vel ríkan orðaforða sinn og eru myndlýsingar oft á tíðum hlaðnar og huglægar. Setningar eru oft langar og flóknar, eflaust til að draga enn frekar fram vísindalega nálgun aðalpersónunnar. Koma fyrir orð og orðtök sem kalla má forn eða óalgeng, jafnvel á þessum tíma, en eflaust má rekja það til áhuga hans á grískum goðsögum enda ber máls hans þess merki (þess má til gamans geta að afi Lovecraft var duglegur að halda slíku efni að barnabarni sínu og að segja honum furðusögur hvers konar, sem og gotneskar hryllingssögur í óþökk móður hans). Einnig eru vísanir í samtímalistamenn á borð við Clark Asthon Smith, Arthur Machen og jafnvel ýmsar fræðibækur, t.d. The Witch-Cult in Western Europe eftir Margaret A. Murray, en skrif hennar hafa haft áhrif á Wicca trúarbrögðin.  

Sjálfur var Lovecraft gagnrýninn á söguna, fannst hún hvorki alslæm né sérstaklega góð. Robert E. Howard, höfundur Conan, tók hins vegar sögunni fagnandi og sagði hana meistaraverk sem ætti eftir að hljóta sess meðal helstu bókmennta. Lítill vafi leikur þó á, að sagan hefur haft gríðarleg mikil áhrif, hvort sem um ræðir bókmenntir eða aðrar þætti menningarinnar. Gerð hafa verið útvarpsleikrit upp úr sögunni, hún hefur verið myndskreytt og gefin út með þeim hætti, einnig var á sínum tíma gerð kvikmynd eftir sögunni. Þungarokkshljómsveitir hafa vitnað óspart í söguna, t.d. Metallica og Cradle of Filth, en sú fyrrnefnda hefur t.d. gert lag sem heitir Call of Ktulu. Einnig hafa verið gerð spunaspil sem byggja m.a. á sögum Lovecraft en bera nafn sögunnar, ásamt því að tölvuleikir hafa verið gerðir með þessu nafni. Áhrifin hafa því verið býsna víðtæk, þá sérstaklega í Bandaríkjunum. 

Sagan er vel þess virði að lesa, hafirðu ekki gert það nú þegar. Hið hryllilega í henni er smátt og smátt lætt að lesanda og hann áttar sig á að hið hryllilega er hvorki goðsögulegt (t.d. vampírur eða varúlfar) né persónulegt (t.d. myrkfælni, geðveiki) heldur stjarnfræðileg óvætt sem ógnar öllu mannkyni. 


H.P. Lovecraft

Lovecraft

Ef ég man rétt, þá var ég nýbúinn með grunnskóla þegar ég komst fyrst í kynni við H.P. Lovecraft. Á þeim tíma vorum við nokkrir félagar duglegir að spila spunaspil og ákvað einn okkar að stjórna kerfi sem heitir Call of Cthulhu. Við spiluðum nokkur ævintýri og út frá þeim fór ég að kynna mér kerfið betur og komst að raun um að það væri byggt fyrst og fremst á skáldskap þessa höfundar. Ég sá að félagi minn, þessi sem ákvað að stjórna þessu kerfi, átti bækur eftir Lovecraft í bókahillunni hjá sér og fékk ég þær lánaðar. 

Eftir það varð ekki aftur snúið. Ég hef lesið nær allan skáldskap hans og ýmislegt meira til, þó ég hafi hingað til ekki haft það í mér að fara í gegnum öll bréfaskrif hans. Vissulega er Lovecraft ekki besti rithöfundur sem Bandaríkin hafa alið af sér, en arfleifð hans er hins vegar mikil og margir, ef ekki flestir, nútímahrollvekjuhöfundar nefna hann sem einn af áhrifavöldum sínum. Sögur hans hafa náð kannski meiri hylli á síðustu árum og t.d. skilst mér að kvikmynd sé í undirbúningi sem gera á eftir einni af lengri sögum hans, At the Mountains of Madness. Reyndar hafa verið gerðar kvikmyndir eftir sögum hans en fæstar þeirra náð vinsældum. Einna helst virðast myndir sem vísa óbeint til hans verða vinsælar, t.d. Event Horizon og In the mouth of madness, báðar með Sam Neill í aðalhlutverki.

Af hverju ætli sögur hans lifi svona góðu lífi meðal hrollvekjuunnenda? Ég tel að fyrir því séu tvær ástæður. Í fyrsta lagi þá var Lovecraft með afar frjótt ímyndunarafl og virðist hafa átt auðvelt með að sjá hið hryllilega fyrir sér. Það voru hvorki vampírur, varúlfar, draugar eða nokkur af hinum þjóðsagnakenndu verum sem jafnan einkenndu klassískar og gotneskar hrollvekjur þess tíma, heldur var hryllingur hans upphaflega meira í ætt við Poe og Algernon Blackwood. Svo þegar hann tekur að þróa Wierd-fiction þá breyttist hið hryllilega í ævafornar og illgjarnar verur utan úr geimnum, sbr. Cthulhu. Þannig gátu runnið saman í einni sögu hrollvekja, fantasía og vísindaskáldskapur. Ég held að hann, ásamt Poe o.fl., hafi þannig skapað nútímahrollvekjunni rými til að verða byggðar á einhverju öðru en klassískum og þjóðsagnakenndum hryllingi, hið hryllilega gat komið að innan (sbr. Tell-tale heart eftir Poe og Dr. Jekyll & Mr. Hyde eftir Stephenson), verið utanaðkomandi (sbr. Call of Cthulhu) eða eitthvað sem maðurinn hafði sjálfur skapað (sbr. Frankenstein eftir Shelley) og þaðan af verra. 

Í öðru lagi þá eru sögur hans í senn myndrænar og frásagnarstíllinn góður. Ég held að fæstir sem lesa t.d. Call of Cthulhu eigi erfitt með að sjá fyrir sér litlu leirmyndina, trylltan dans sértúarsafnaðarins í mýrlendinu við New Orleans eða heimsókn norska sjómannsins til R'lyeh. Lesandanum er sagt frá þessu í marglaga frásögn, þannig hann fer sífellt dýpra inn í frásögnina (nokkuð sem kvikmyndaunnendur ættu að kannast við úr myndinni Inception), þ.e. fyrst heyrum við af prófessornum, sem heyrði frásögn Legrasse rannsóknarlögreglumanns. Síðan fær aðalpersónan dagbók í hendur og þar leynist næsta frásögn. Þannig kynnist lesandinn hryllingnum í gegnum tvær frásagnir, fyrst af rannsakandanum og svo því sem hann les. Og allt sett frá á þann máta, í gegnum ríkan orðaforða og ofhlaðinn texta, að auðvelt er að sjá atburðina renna fyrir hugskotum sér.  

Sú saga sem ég held hvað mest uppá eftir Lovecraft er The Thing on the Doorstep. Í þeirri sögu er hann ekki fást við illar geimverur, heldur manneskjuna sjálfa. Sagan er kannski öllu hefðbundnari miðað við annað sem hann hefur lét frá sér, en þar koma fyrir illur seiðskratti, femme fatale og aðalpersóna sem hefur framið morð, en er að reyna réttlæta það fyrir sjálfum sér. Sjálf er hún á geðsjúkrahúsi, dæmd til að eyða árum sínum þar. Ef þú hefur ekki lesið söguna, mæli ég eindregið með henni. 

Lovecraft, sem átti afmæli í gær, þann 20. ágúst, hefur haft mikil áhrif á mig sem höfund. Ég held að það dyljist engum sem les sögurnar mínar og kannast eitthvað við Lovecraft. Mér þykir vænt um sögurnar hans og þrátt fyrir að hafa lesið þær margar aftur og aftur, þá kemur enn fyrir að ég dragi fram einhverja sögu eftir hann og lesi áður en ég fer að sofa, sérstaklega þegar tekur að hausta og nóttin fer aftur að verða dimm og drungaleg. 


Hversdagslegur hryllingur

Hið hryllilega er margslungið fyrirbæri og það getur verið svolítið erfitt að henda reiður á því hvað er hryllilegt og hvað ekki. Bæði er það persónubundið en eins getur það verið ólíkt milli menningarheima, samfélaga eða jafnvel kynja. Sem sagt, það sem fær hárin til að rísa hjá mér getur verið eitthvað allt annað en fær hárin til að rísa hjá þér. Fyrir þann sem skrifar hrollvekjur þá er það endalaus eltingarleikur að finna atriði sem höfða til sem flestra eða hafa sem víðtækasta skírskotun. 

Fyrir vikið er algengt að þess háttar höfundar taki fyrir þekkt þemu. Vampírur, varúlfar, uppvakningar og aðrar þjóðsagnakenndar verur birtast reglulega á síðum hryllingssagna. Poe og fleiri höfundar tóku hið yfirnáttúrulega til umfjöllunar, nokkuð sem Lovecraft útfærði enn frekar í wierd fiction sögum sínum. Stephen King, Shirley Jackson, Peter Wier og fleiri höfundar hafa síðan útfært hið yfirnáttúrulega enn frekar, sem og hið hversdagslega. Við þekkjum hið yfirnáttúrulega og þjóðsagnakennda úr mýmörgum verkum, t.d. úr bókunum Dracula, Darker than you think, I am legend og kvikmyndum á borð við Sleepy Hollow, Event Horison og An American werewolf in London. Auk þessara hryllingssagna ber að nefna þær sem kalla mætti sálartrylla (e. pshyco-thrillers), sögur á borð við Dr. Jekyll & Mr. Hyde, Pshyco o.s.frv.  

Þó svo að yfirnáttúruleg fyrirbæri hafi hvað víðtækasta skírskotunina, þá held ég að hverdagslegur hryllingur sé nokkuð sem tali mun sterkar til lesandans. Og í nútímahrollvekjunni, þá tel ég að hið hversdagslega sé að verða sterkara. Höfundar eru farnir að vinna þjóðsagnakennda og yfirnáttúrulega hrylling með öðrum hætti, jafnvel farnir að gera hvort um sig hversdagslegt. Hitchcock fjallaði sérstaklega vel um hið hversdagslega, t.d. í kvikmyndinni Birds. Stephen King hefur einnig gert í sínum bókum, en þar rennur oft saman hið hverdagslega og hið yfirnáttúrulega, t.d. í sögunum 8 gata Buick og Cell, hið sama gildir um margar japanskar hryllingsmyndir, t.d. The Ring. Eitthvað hefur einnig borið á því, að menn hafi reynt að gera hið yfirnáttúrlega eða þjóðsagnakennda hversdagslegt, þar fáum við að lesa eða sjá sögur t.d. sagðar af vampíru (t.d. Interview with a vampire eða sjónvarpsþáttaserían True Blood) en persónulega er ég á þeirri skoðun að slík yfirfærsla þarf að vera afar vel unnin til að ganga upp. Besta slíka yfirfærsla er að mínum dómi að finna í Frankenstein, þ.e. hvernig við fáum að kynnast því mannlega í sköpunarverkinu. Það í sjálfu sér er hryllilegt, að vera sem er fær um voðaverk og vera tilkomin af því er virðist af gott sem yfirnáttúrulegum ástæðum skuli vera fær um mannlegar kenndir en vera hafnað af samfélaginu (nokkuð sem enginn lesandi vill lenda í sjálfur). 

Við Íslendingar höfum ekki ríka hefð fyrir hinu hversdagslega í okkar annars fáu hrollvekjum í skáldsagnarlengd. Vissulega má finna sögur þar sem hið hversdagslega er hrollvekjandi eða það rennur saman við hið yfirnáttúrulega, t.d. Hrotur eftir Halldór Stefánsson eða Flugur eftir Þóri Bergsson. Í Börnunum í Húmdölum réð hið yfirnáttúrulega ferðinni, nokkurs konar Lovecraftískur hryllingur þar á ferð og í sögu Yrsu Sigurðardóttir, Ég man þig, er sagan meira í ætt við klassískar draugahússögur á borð við The hunting of House Hill eftir Shirley Jackson og The Shining eftir Stephen King. Sjálfur reyndi ég að nálgast þetta fyrirbæri á minn hátt í sögunni Dýrið, þar sem einföld sunnudagsmáltíð tekur óvænta stefnu. 

Þó svo að hversdagslegir hlutir hafi ekki jafn víðtæka skírskotun og yfirnáttúrulegir eða þjóðsagnakenndir, þá held ég að þeir hafi engu að síður sterk áhrif, sérstaklega á þann hóp sem getur hvað best sett sig í spor aðalpersónunnar. Vissulega er hættan sú, að slík saga missi marks hjá þeim sem ekki sjá sig í aðalpersónunni, en á slíkt hið sama ekki við um allar sögur? 

 


Upprisan

163731_10150135066167193_705122192_7670229_746590_n

Á undanförnum árum hafa íslenskar útgáfur verið tregar til að gefa út efni eftir íslenska höfunda sem fellur ekki að hugmyndum manna um hina íslensku skáldsögu. Spennusagan náði sem betur fer loks í gegn og síðastliðin jól hafa þess háttar bókmenntir verið stór hluti sölunnar. Og sú bylting hefur gert það að verkum, að augu útgefenda eru smátt og smátt að opnast fyrir þeim möguleika að gefa út eitthvað annað en sveitarómansa eða raunsæislegar nútímadramabókmenntir. 

Ég veit ekki hvort það er vegna þess að sífellt fleiri og betri höfundar eru farnir að halla sér að genrebókmentum. Kannski er sú raunin. Yrsa Sigurðardóttir skrifaði Ég man þig og seldist sú bók mjög vel. Reyndar var hún markaðssett sem spennubók en ég held að það dyljist engum sem lesi bókina að fyrst og fremst er um hrollvekju að ræða. Auk þess hafa tímarit á borð við Furðusögur gefið ungum höfundum færi á að sjá sögur sínar á prenti, sögur sem falla annars ekki inn í hinn fastmótaða ramma íslensku skáldsögunnar.

Gallinn er að mínu mati sá, að of lengi hefur skuggi Laxness hvílt á íslenskum rithöfundum. Hann var vissulega stórgóður rithöfundur á sínum tíma en ég held að alltof margir hafi reynt annað hvort að líkja eftir honum eða gert sitt best til að vera ekki eins og hann. Þannig hafi Laxness haft gríðarleg áhrif á menningu rithöfunda og það hafi í raun ekki verið fyrr en með tilkomu norrænu spennusögunnar hérlendis að höfundar og útgáfur sáu að hægt að var stíga fram undan skugganum og út í ljósið.

Fyrir nokkrum árum kom hrollvekjan Börnin í Húmdölum eftir Jökul Valsson út, svo síðustu jól Ég man þig og nú í vor kom út safn hryllingssagna eftir mig. Ég veit að það eru fleiri sem eru að skrifa hrollvekjur eða spennusögur með hrollvekjandi ívafi. Auk þess hefur fantasíunni vaxið ásmegin, í síðasta sunnudagsblaði Moggans var viðtal við ungan norðlenskan rithöfundum sem hefur skrifað fantasíur og mun fyrsta bók hans verða gefin út af Sögum nú í haust. Rósa Grímsdóttir er auk þess að gefa sjálf út fyrstu bókina í fantasíubókaflokki sínum. Í gegnum tíðina hafa verið gerðar tilraunir með vísindaskáldsöguna, t.d. Lovestar eftir Andra Snæ, en persónulega sakna ég þess að sjá vísindaskáldsögu sem gengur alla leið.

Ég held, að við munum sjá meira af þessu á komandi árum. Þessar genrebókmenntir eru í raun að rísa upp sem gjaldgengar bókmenntir og fyrir vikið munu bæði forlög og lesendur smátt og smátt víkka sjóndeildarhring sinn hvað lestrarefni varðar. Enda sýna sölutölur frá löndunum í kringum okkur að lesendur þar vilja þess háttar efni, t.d. eru Stephen King og Terry Pratchett með mest seldu höfundum í sínum löndum. Upprisa genrebókmennta er fyrir löngu tímabær hérlendis og vonandi mun jólabókaflóðið í ár verða enn fjölbreyttara en áður. 

Mig langar því til að hvetja sem flesta að gefa þeim bókum gaum sem út koma og falla ekki í hið klassíska form íslensku skáldsögunnar. Gefa ungum höfundum sem skrifa genre bókmenntir tækifæri. Meiri fjölbreytni í bókaskápnum getur ekki verið af hinu verra.  


Skólakerfið og ofvirkni

Fyrir nokkrum vikum fórum við barnsmóðir mín í foreldraviðtal. Var þar dóttur okkar hrósað fyrir góða frammistöðu en sett var út á, að hún ætti stundum erfitt með að sitja kyrr. Að lokum var hún beðin um að stíga fram og spurði kennarinn hvort við vildum að barnið yrði metið með tilliti til ofvirkni. Við samþykktum það þá. Síðar vorum við boðuð á fund með sálfræðingi og þá fóru að renna á mig tvær grímur. Ég hef jú unnið í skóla, ég hef áður fyllt út svona matsblöð en það sem sló mig var að sálfræðingurinn ætlaði sér ekki að hitta barnið oftar en einu sinni en var samt viss um að geta fengið úr því viðtali nægilega miklar upplýsingar (ásamt matsblöðum okkar foreldranna og kennarans) til að meta hvort barnið væri ofvirkt. Ég er ekki sálfræðimenntaður, en ég myndi telja að áður en slíkt mat eða greining er lögð fram, þá hljóti að þurfa að liggja að baki ítarlegri rannsóknir en sem nemur einum fundi og upplifun annarra á viðkomandi. Ég ræddi um þetta við barnsmóður mína og við ákváðum í framhaldinu að hafna greiningunni.

Dóttir mín er með mikla hreyfiþörf, við erum lík með það feðginin. Ég sit ekki lengi kyrr í sama sæti, ég verð að fá að standa upp öðru hvoru og hreyfa mig. Hún er eins, henni líður best ef hún fær að tjá sig með líkamanum, hún er í dansi og finnst bæði gaman að syngja og dansa og gerir mikið af því. Hún er fljót að læra nýja hluti og ef henni leiðist það sem verið er að gera, þarf að hafa sig allan við að halda henni við efnið. Rétt eins og svo mörg önnur börn þá líður henni best þegar hún hefur skýran ramma og fær skýr skilaboð um það sem er rétt og rangt. Hún er hvatvís, fljótfær, hávær og fullt annað einkennir hana sem einkennir ofvirk börn. Hún er líka klár, elskuleg, hjálpsöm, félagslega sterk, opin, hamingjusöm og hress og hefur heilan helling af öðrum kostum sem vega upp á móti göllum hennar.

Á Íslandi er um margt ágætt skólakerfi - fyrir flesta. Hins vegar ekki fyrir alla. Fyrir nokkrum árum var ég með nemanda í umsjónarbekk hjá mér sem var ekki mikið fyrir bókina. Eiginlega var bókin bara fyrir honum og áhugi hans á henni var álíka mikill og hjá bókinni á honum. Hann var hins vegar snillingur í að tengja saman raftæki, laga leiðslur og hugsa um hljóðkerfi og þess háttar. Það var hins vegar ekki kennt í skólanum. Hann valdi reyndar alltaf smíði sem valfag, en það voru kannski 2 tímar í viku. Restina af skólatímanum að leikfimi undanskilinni átti hann að sitja á rassinum og lesa í bók.

Skólakerfið, skólinn sem á að vera fyrir alla, er alls ekki fyrir alla. Hann er fyrir þá sem eiga auðvelt með að sitja á rassinum og lesa sér til upplýsingar í bók. Staðreyndin er hins vegar sú, að því fer fjarri að við endum öll í slíku starfi, þ.e. þar sem við sitjum á rassinum og lesum upplýsingar, sem við leggjum mat og bregðumst við. Stór hluti þeirra nemenda sem nú sitja í grunnskólum landsins eiga eftir að verða smiðir, bifvélavirkjar, dansarar, bilstjórar, flugmenn, leikskólakennarar, ruslamenn, götusóparar og svo mætti lengi telja. Störf þar sem málið er einmitt ekki að sitja allan liðlangan daginn og lesa úr bók eða af skjá.

Skoðum síðan hvernig skólakerfið endurspeglar þennan raunveruleika. Það þarf vissulega að kenna öllum að lesa, reikna og um menningu og sögu þessa lands. En í tíu ár er aðaláherslan lögð á að búa til þjóðfélagsþegna sem kunna fyrst og fremst að sitja kyrrir og lesa.

Hvernig fellur það síðan að þeim sem eru ofvirkir? Þeim sem hafa mikla hreyfiþörf? Þeim sem hafa mikla þörf fyrir útiveru og samvist við dýr? Þeim sem hafa mikla listræna sköpunarþörf? Hvað með þá sem fæðast með tónlist í blóðinu? 

Ef við lítum til kenninga Gardners um greindir þá leggur skólakerfið fyrst og fremst áherslu á tvær greindir, kannski þrjár. Rök- og stærðfræðigreind, samskiptagreind og nú á síðastliðnum árum með aukinni umræðu um einelti, sjálfsþekkingargreind. Þeir sem eru ofvirkir, og hafa þar af leiðir margir hverjir meiri hreyfiþörf, fá ekki lengri frímínútur, fara ekki oftar í leikfimi og fá enn síður annað námsefni sem hæfir frekar þeirra greindum. Það er ekki fyrr en námsörðugleikar bætast við greininguna, sem viðkomandi fær stuðningsfulltrúa.

Það er aum afsökun að benda á einn, kannski tvo tíma, á viku sem fara í að sinna öðrum greindum, t.d. einn tími í tónmennt fyrir tónlistargreind, 1-2 í leikfimi fyrir hreyfigreind, 1 tími í myndmennt fyrir rýmisgreind. Auðvitað er hægt að flétta þetta saman við venjulegt nám, ég gerði námsefni fyrir kennslu í Gísla sögu fyrir nokkrum árum þar sem nemendur gátu valið út frá hvaða greind þeir gerðu ákveðin verkefni. Það kallaði á breytt námsmat, breytta nálgun mína á efninu og aðrar kennsluaðferðir. Og eru grunnskólar landsins tilbúnir í slíkt?

Út frá þessum hugleiðingum finnst mér í raun alveg út í hött að skólakerfið skuli yfirhöfuð kalla eftir því að ákveðnir nemendur séu greindir ofvirkir. Sérstaklega ef staðan er sú, að það mun ekki breyta neinu fyrir viðkomandi. Skólakerfið okkar er enn, því miður, ekki í stakk búið til að mæta hverjum nemenda, hvort sem hann er með ofvirkni, athyglisbrest eða ekki, út frá hans forsendum. Við erum enn að reyna troða öllum í sama mótið, í stað þess að ýta undir, hlúa að og næra þá hæfileika sem búa í hverjum og einum.  


Ómetanlegur tími

Undanfarið hef ég séð nokkuð að skrifum um foreldra og þá sérstaklega um feður í svipaðri stöðu og ég. Bæði skrifaði Hlín Einars um þetta fyrir skemmstu og var henni svarað af Ölmu Geirdal. Þar sem ég tel mér málið nokkuð skylt langar mig til að segja aðeins frá því hvernig það snýr að mér. 

Við barnsmóðir mín slitum samvistum okkar árið haustið 2006 eftir nokkurra ára samband. Í kjölfarið komu upp miklar umræður, rökræður og deilur um hvernig umgengni, forræði og öllum þeim málum skyldi háttað. Dóttir mín var 3 ára á þeim tíma. Við höfðum fest kaup á íbúð um tveimur árum áður. Ég vann því mikið á þeim tíma, var bæði að kenna og þjálfa fótbolta. Einnig var ég í námi og af hreinræktaðri sjálfelsku og eigingirni eyddi ég oft frítíma mínum, þeim litla sem var, í eigin áhugamál. Það má því sannlega segja að ég hafi hrakið þær mæðgur frá mér á tveimur árum og þó að barnið mitt muni ekki eftir þeim tíma og þurfi því ekki að fyrirgefa mér það, þá gat barnsmóðir mín ekki lifað við þær aðstæður, sem ég skil mæta vel.

Hvað um það, við tókumst á um hvernig hlutum skildi háttað með stelpuna. Ég var býsna þrjóskur með að hafa þetta viku og viku fyrirkomulag. Ég bauð jafnvel barnsmóður minni að eiga allt það sem við höfðum fest á kaup saman, svo lengi sem þetta fyrirkomulag yrði ofan á. Þessi sókn mín í þetta fyrirkomulag kom henni í opna skjöldu og sagði jafnvel, að hún skildi mig ekki, þar sem ég hefði ekki sýnt dóttur okkar mikinn áhuga fram til þessa. Að lokum gaf hún þó eftir og síðan í október 2006 höfum við skipst á að hafa dóttur okkar, hvort um sig viku í senn. Undantekning er gerð á sumrin, en þá höfum við stelpuna hjá okkur í sumarfríum og hefur sú hefð skapast að ég er í fríi í ágúst en barnsmóðin mín í júlí.

Til að svona fyrirkomulag gangi þarf að vera ágætt samkomulag. Það er nokkuð langt frá því, að alltaf hafi verið gott samkomulag á milli okkar foreldranna. Við höfum vissulega haft skoðanir á því sem hinn aðilinn er að gera hverju sinni og oftar en ekki átt erfitt með að liggja á þeim. Jafnvel hefur komið til þess að mál hafa farið inn til sýslumanns. Ég held, að við séum þó bæði öll af góðum vilja gerð og viljum sjá hag dóttur okkar sem mestan og bestan. Gallinn er bara sá, að stundum erum við ekki sammála um hvaða leiðir skuli farið til að tryggja hag hennar.

Í dag, 5 árum eftir skilnað okkar, eru hlutirnir orðnir nokkuð vel smurðir og ganga vel. Er á meðan er. Dóttir okkar er hamingjusöm, enda búum við foreldrar hennar skammt hvort frá öðru og hún nýtur þess besta á báðum stöðum. Barnsmóðir mín er búin að eignast 2 börn á þessum tíma og hefur verið með sama manninum frá því nokkrum vikum eftir við skildum. Ég hef hins vegar ekki fundið mig í samböndum, þannig við dóttir mín erum bara tvö til heimilis. Hún fær því að vera með fjölskyldu sinni, systrum tveim aðra hverja viku og hins vegar fær hún að vera prinsessan mín hina vikuna. Þetta virðist henta henni vel og hún vaknar glöð og hamingjusöm hvern dag.

Dóttir mín er heppin. Hún á foreldra sem hafa tekist á um hvort þeirra fær að vera meira með henni, foreldra sem báðir vilja eyða tíma með henni og vita að þessi tími, þegar hún er barn, kemur aldrei aftur. Þessi tími er í raun ómetanlegur því á þessum árum mynda foreldrar og börn hvað sterkustu tengslin. Ég get ekki hugsað mér að fá ekki að vera þátttakandi í lífi hennar, fá ekki að taka þátt í uppeldi hennar. Það eru hins vegar ekki öll börn í þeirri stöðu. Sumir foreldrar hafa ekki jafn ríka þörf fyrir að vera með barninu sínu. Enn aðrir foreldrar hafa þá þörf, en komast ekki til að uppfylla þá löngun, t.d. vegna stirðs sambands, fjarlægðar eða annarra þátta. 

Ég held að það sem er mikilvægt að foreldrar geri sér grein fyrir, er að þeir bera sjálfir ábyrgð á sambandi sínu við barn sitt. Ég heyri títt af málum, þar sem feður og mæður berjast fyrir því að fá að hitta barnið sitt og hef ég fulla samúð með þeim, það að halda barni frá öðru foreldri sínu er mikil mannvonska og mun eflaust koma verst niður á þeim sem er gerandi í slíkum málum. Eins fær maður að heyra af foreldrum sem ekki sýna barninu sínu mikinn áhuga. Í raun kemur það á sama stað niður, það er enginn annar en ég sem ber ábyrgð á samband mínu og barnsins míns. Enda sér maður í málum þar sem umgengni er hömluð af öðrum aðilanum (sem getur verið af mismunandi ástæðum, misalvarlegar þó), að þar sækir annað foreldrið hart að fá að taka þá ábyrgð á herðar sér. Þessi mál eru þó jafn fjölbreytt og þau eru mörg og því erfitt að leggja einn og sama dóm á þau öll. 

Börn, sérstaklega á leikskóla- og barnaskólaaldri hafa hvorki þroska né getu til að halda slíku sambandi gangandi ein og óstudd. Þau finna fyrir þeirri gleði og ástúð sem maður getur veitt þeim með nærveru sinni og umhyggju. Að sama skapi finna þau fyrir höfnun og sorg þegar maður sýnir þeim ekki áhuga. Þau bregðast við því sem maður gerir. Ábyrgðin er því mín, sem fullorðins einstaklings. Ég ber ekki ábyrgð á sambandi dóttur minnar við móður sína, jafnvel ef staðan væri sú að móðir hennar sýndi henni ekki nægilegan áhuga eða vildi ekki vita af henni. Ég sem foreldri á nóg með mig og ef ég þarf að einbeita mér að því að vera bæði móðir og faðir, þá kemur það óhjákvæmilega niður á báðum hlutverkum og er það eitthvað betra?

Þessi tími er ómetanlegur. Þessi ár koma aldrei aftur. Það er jú hægt að byggja upp samband síðar meir, en þau ár þegar börn eru að þroskast, vaxa upp og verða fullorðin skipta rosalega miklu máli. Þau leita sér að fyrirmyndum og sækja helst til foreldra sinna. Þannig er foreldri sem ekki sýnir barni sínu áhuga á vissan hátt fyrirmynd líka, bara slæm fyrirmynd, en börnin læra það sem fyrir þeim er haft. Börn eiga rétt á, að þekkja foreldra sína. Það er á ábyrgð foreldra að tryggja að barnið þekki þau, hvort sem um ræðir feður eða mæður. Það er ég sem ber ábyrgð á því að barnið mitt þekki mig og geti verið með mér, enginn annar. 


Bókaþjóðin mikla

Við Íslendingar teljum okkur trú um að við séum mikil bókaþjóð, enda blundar rithöfundur í að minnsta kosti hálfri þjóðinni. Svona meira eða minna. Hins vegar kemst ég ekki hjá því stundum að hugsa um hversu mikið þessi ágæta þjóð les í raun og veru, og þá sérstaklega þær kynslóðir sem eru að vaxa nú úr grasi. Auðvitað eru einhverjar bókmenntir, valdar af kostgæfni sem aðeins gæðir bókmennta- og íslenskufræðinga, lesnar í grunn- og menntaskólum, en bók sem þú lest af skyldurækni, er hún jafn ítarlega lesin og bók sem þú velur þér sjálfur eða þér einfaldlega finnst þú þurfa að lesa?

Ég hef nefnilega á tilfinningunni að lestur bóka fari minnkandi, hef reyndar ekkert fyrir mér í þeim efnum, engar sölutölur eða þannig (enda er vart hægt að segja að seld bók sé lesin bók). Ástæðan fyrir þessari upplifun, tilgátu eða hvað menn vilja kalla það, er tvíþætt. Annars vegar er sú hneigð fjölmiðla að matreiða hlutina sífellt einfaldar og knappar, helst þannig að hægt sé að segja fréttir í 160 stafabilum (sem mér skilst að sé meðal SMS lengd) og hins vegar sú, eftir að hafa starfað sem kennari í grunnskóla í nokkur ár, þá sýnist mér tilfinning fólks fyrir texta fara versnandi. Og það sem verra er, ekki bara ungs fólks, heldur líka þeirra sem eldri eru (ég undanskil ekki sjálfan mig).

Ef við byrjum á fyrra atriðinu, þessari SMS hneigð, þá hafa samfélagsmiðlarnir fært okkur margt ágætt, en þar hafa líka orðið ákveðin vatnaskil er varða samskipti fólks. Nær allir af þessum nýju miðlum; SMS, Facebook, Twitter, osfrv.; eru með staðlaða lengd á skilaboðum, t.d. stöðuuppfærslum. Fyrir fólk sem er ekki endilega að skrifa mikið meira á hverjum degi, en þá texta sem það lætur inn á slíka vefi eða í smáskilaboð, þá mótast mjög hugsunin og tilfinningin fyrir texta af því. Sér í lagi, ef það er einnig þeir nær einu textarnir sem lesnir eru. Þetta er farið að birtast manni í ýmsum myndum, t.d. eru leiðbeiningar orðnar mjög krappar oft á tíðum. Sem dæmi mætti nefna leiðbeiningar með spilinu Alias, þar er sérstaklega haft fyrir því að setja fram leiðbeiningarnar í styttri útgáfu og mér sýnist að þær myndu passa nokkurn veginn inn í Facebook status, eins undarlega og það hljómar. Ef framleiðendur þessa spils hefðu gengið út frá því, að tilvonandi leikmenn myndu lesa reglurnar, þá væri engin þörf á þessari styttu útgáfu af reglunum. Þess má til gamans geta, að reglurnar, sem eru mjög einfaldar, rúmast á hálfri annarri A4 blaðsíðu. Hið sama gildir um leiðbeiningar með hugbúnaði, t.d. bandarískum hugbúnaði, og maður finnur á netinu. Textinn er knappur og mjög einfaldur. Það er sem sagt í raun verið að venja málnotendur á þess háttar texta.

Þá er það seinna atriðið (hér kemur stutt heimur-versnandi-fer raus). Tilfinning okkar fyrir málinu fer versnandi. Ég held að flestir geti verið sammála um, að kröfurnar um hraðan fréttaflutning, sífelldar uppfærslur og meira krassandi fréttaefni geri það að verkum, að þeir sem skrifa inn á vefi og í tímarit gæta oft ekki að því, að það sem þeir skrifa sé málfræðilega rétt. Og þetta á ekkert bara við um fréttavefi eða tímarit. Þó margt megi segja ágætt um marga þá vefi er prófarkarlestri þar tilfinnanlega ábótavant. Orðatiltæki, málshættir og blæbrigði málsins eru einhvern veginn að hverfa ofan í pitt meðalmennsku og ég hef áhyggjur af því, ef fram heldur sem horfir muni vaxa upp kynslóðir Íslendinga sem hafa orðaforða upp á kannski 3000-4000 orð. Til dæmi hefur nokkuð verið rætt um á undanförnum misserum um það, hvort viðtengingarháttur sé að hverfa úr málinu. Hvernig ætlar kynslóð sem ekki hefur tök á viðtengingarhætti að lesa bókmenntir frá okkar tímum eða eldri?

Og hvað verður þá um bókaþjóðina miklu? Munu einstaklingar sem hafa afar fábreyttan orðaforða nenna að lesa bækur þar sem þeir skilja ekki þriðja hvert orð? Bækur þar sem þeim líður eins og þeir séu að lesa annað tungumál? Mig grunar nefnilega, að það sé upplifun margra unglinga í dag er þeir lesa Íslendingasögurnar, þrátt fyrir að orðaforði þeirra sagna sé frekar takmarkaður. Ég get ekki séð hvernig það sé jákvætt. Auðvitað þarf tungumálið að fá að þróast, auðvitað þarf það að fá að dafna og vaxa eftir því sem samfélagið breytist, en ég fæ ekki séð hvernig það getur verið góð þróun þegar við erum hætt að geta lesið bækur sökum skilningsleysis og skorts á orðaforða. Það hlýtur þá að hafa í för með sér að annað hvort verða bækur skrifaðar með þetta litlum orðaforða eða að ör- og smásögur verði ríkjandi form sagnalistarinnar.

Ég er kannski bara forn í hugsun eða svona gamaldags, en ég vil vernda íslensku. Mér finnst ég verða of oft var við áhrif frá ensku, jafnvel þó að verið sé að reyna halda sig við okkar ylhýra, þá skín ensk hugsun, jafnvel ensk máltæki, í gegn. Um daginn var ég að ræða við mann sem hafði verið að gelta upp í rangt tré. Í starfi mínu fæ ég alltof oft að sjá afleitar þýðingar á enskum slagorðum og sannast sagna, hryggir það mig að sjá hversu lítil tilfinning virðist sitja eftir hjá okkur fyrir tungumálinu okkar. Af þessum sökum hef ég áhyggjur, ég held að þetta sé ekki góð þróun. Mér finnst, að við ættum að gefa gaum að þeim breytingum sem eru að verða á tungumálinu og ef fram heldur sem horfir, þá munu barnabörn okkar hafa yfir mun fábreyttari orðaforða að skipa. 


Tekið af skarið

Ég er einn af þeim sem geng um með rithöfundadraum í maganum. Mér þykir mjög gaman að skrifa og geri mikið af því. Ég fæ líka mikla ánægju út úr því að lesa og reyni að koma því við eins og mögulegt er, en undanfarin ár hefur verið sífellt minni tími fyrir slíkt. Ég hef í gegnum tíðina skrifað bæði smásögur, ljóð og skáldsögur. Sumt af því hef ég sett saman í handrit og gengið á milli útgáfna, í þeirri veiku von að fá þetta útgefið, fá einhvers konar viðurkenningu fyrir þetta strögl mitt (eru höfundar einhvern tíma ekki í leit að viðurkenningu með einum eða öðrum hætti?). Hins vegar hefur mér verið hafnað aftur og aftur, með þeim skilaboðum að þetta séu frambærileg skrif, efnileg osfrv., en henti ekki til útgáfu að svo stöddu, eða búið er að ganga frá útgáfum þessa árs og næsta, endilega hafa samband aftur síðar. Ég held ég sé búinn að heyra nær allar útgáfur af afþökkunarskilaboðum forlaganna. Eflaust vill það starfsfólk vel sem þar starfar, en hins vegar hefur mér þótt leiðinlegt að fá sum handritin nær ólesin aftur í hendurnar frá sumum útgáfunum. 

Ég viðurkenni þó fúslega að nær allt sem ég skrifaði í upphafi, þessi fyrstu þrjú, kannski fjögur, handrit sem ég fór með á útgáfurnar voru langt frá því að vera útgáfuhæf. Ég sá það kannski ekki þá, en þetta er kannski kosturinn við að þroskast og eldast, maður öðlast reynslu og verður fyrir vikið gagnrýnni á sjálfan sig og það sem maður er að gera. Hins vegar á ég tvö handrit sem eru bæði hæf til útgáfu en hef þó ekki haft erindi sem erfiði. Reyndar held ég að bölvun hvíli á öðru þeirra, því útgáfa hér í borginni hafði samþykkt að gefa það út en áður til þess kom fór hún á hausinn. Ég fór þá með handritið til annarar útgáfu, sem var mjög heit fyrir handritinu en tókst líka að láta bankann loka á sig áður en niðurstaða fékkst í það mál.

Hvað á maður þá að gera? Ég er 32 ára gamall og mig langar, fyrr en síðar, að geta unnið við að skrifa skáldskap. Því miður er ég hins vegar í þeirri stöðu, að þurfa standa við skuldbindingar mínar gagnvart bankastofnunum, eins og svo margir Íslendingar, og á engan möguleika á að fá listamannalaun eða þvíumlíkt, þar sem ég hef ekki enn fengið bók útgefna. Sem sagt, þarna er ákveðinn vítahringur en eflaust hugsaður til þess að tryggja að hver sem er sæki ekki um þessa styrki. Auk þess virðist mér sama fólkið fá þessi laun svolítið oft og einhverjir hafa bent á það, að innan þessa geira er ákveðin klíka sem klappar sér og sínum. Ég ætla þó ekki að fara út í slíkar hugleiðingar, enda hefur það ekkert upp á sig. 

Þetta er því staðan. Á maður að gefast upp eða spýta í lófanna og láta smá mótvind ekkert á sig fá? Sannast sagna þá var ég farinn að hallast að því fyrrnefnda síðasta vetur. Sumarið var hins vegar ágætt, ég fékk tvær sögur útgefnar í Furðusögum, flottu tímariti um svokallaðan genre skáldskap, þ.e. furðusögur, hrollvekjur, vísindaskáldskap, fantasíur og þess háttar. Einmitt sögur sem alla jafna sést mjög lítið af hérlendis þá eftir Íslendinga. Það selst töluvert af slíkum skáldskapi eftir erlenda höfunda en einhverra hluta vegna virðast útgáfur tregar til að gefa út þess háttar íslenskan skáldskap. Á undanförnum árum hefur aðeins ein hreinræktuð hrollvekja komið út og það var Börnin í Húmdölum eftir Jökul Valsson. Hið sama gildir um fantasíur og vísindaskáldskap, þetta sést varla hérlendis nema þá sem erlendar kiljur og í besta falli þýðingar. Auk þess að fá sögurnar birtar í Furðusögum, þá vann saga eftir mig smásagnasamkeppni Vikunnar, sem ég tók þátt í af algerri tilviljun. Þetta tvennt varð þó til að blása smá lífi í drauminn um að verða rithöfundur og að sjá bækur eftir mig á prenti. 

Eftir umtalsverða umhugsun ákvað ég, í félagi við fólk sem stendur mér nærri, að stofna mína eigin útgáfu. Hugmyndin er sú, að leggja áherslu á þessar genre bókmenntir og fara inn á markaði sem eru ekki endilega höfuðmarkaðir íslenskrar bóksölu. Ég sé t.a.m. ekki mikla möguleika fyrst um sinn fyrir litla útgáfu að takast á við jólabókaflóðið með öllum þeim tilkostnaði sem því fylgir. Nei, hugmyndin er að setja stefnuna á kiljumarkaðinn og jafnvel raf- eða netbækur. Bjóða lesendum upp á eitthvað nýtt, ekki bækur úr jólabókaflóðinu sem eru nú í kilju í stað innbundnar. Bjóða lesendum upp á öðruvísi bókmenntir, hryllingssögur, fantasíur, furðusögur, draugasögur, vísindaskáldskap og allt þarna á milli. Það eru höfundar hérlendis sem skrifa svona bókmenntir, svo mikið veit ég, en fæstir þeirra fá útgefið hjá stóru forlögunum. Þar gæti minna forlag, sérhæfðara forlag, komið inn og náð að marka sig. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband