Aftur til framtíðar

Undanfarna áratugi hafa orðið gríðarlega miklar breytingar á samfélagi okkar. Stundum, þegar ég hugsa til þess, þá óar mig og ég spyr mig, hvort við höfum í raun verið tilbúin og hvort við getum nokkurn tíma verið tilbúin. Þegar ég var í barnaskóla þá var ekki tölvuver í skólanum og ég man, að fyrstu ritgerðirnar sem ég skrifaði voru slegnar á ritvél, þar sem við áttum ekki tölvu heima. Ég man líka þegar við fengum netið fyrst, 56kb upphringimódem og möguleikarnir sem opnuðust fyrir manni þá. Eins hve svakalega flott þótti á sínum tíma að vera með símboða, við félagarnir vorum búnir að koma okkur upp númerakerfi, gátum komið ótrúlega miklum upplýsingum á milli með fáum númerasamsetningum. 

Í dag eru tölvur á öllum heimilum og börn í grunnskólum eiga síma, sem eru sumir hverjir álíka öflugir og litlar fartölvur. Þægindastuðull okkar og hjálpartæki hvers konar hafa gert líf okkar á margan hátt einfaldara en líka flóknara. Þessi tæki öll kalla á tækniþekkingu og um leið og netið þenst út, býr það til sífellt nýjar leiðir til að koma upplýsingum á framfæri. Ég spyr, hvernig er menntakerfið að bregðast við þessu?

Fyrir börnum og ungmennum er netið, farsímar, tölvur og þess háttar raunveruleiki sem þau sjá og upplifa alls staðar. Pappír, krítartöflur og þess háttar eru eitthvað sem þau þekkja nær eingöngu úr skólanum. Sem sagt inni í einhvers konar vernduðu umhverfi. Það hlýtur því að vera vafamál, hvort grunnskólinn sé í raun að undirbúa nemendur undir veruleikann. Í starfi mínu hef ég enn ekki þurft að skila af mér skýrslu í pappírsformi, þær sem ég þarf að senda frá mér eru geymdar í tölvukerfum, sendar með tölvupósti og oft ræddar á þeim vettvangi líka. Eru kennarar að kalla eftir slíkum vinnubrögðum frá nemendum?

Ég reikna ekki með að þess verði langt að bíða, að samfélagsmiðlar muni spila mun stærra hlutverk í innri starfsemi fyrirtækja, jafnvel að fyrirtæki verði með sína eigin samfélagsmiðla. Microsoft hefur í raun stigið ákveðið skref í þá átt, t.d. er Sharepoint með marga þætti sem minna um margt á það sem þekkist á netinu, t.a.m. sameiginleg skjalavinnsla yfir netið í anda Google docs. Eru kennarar að kenna börnum og ungmennum að umgangast og nota þess háttar tækni? Þar sem vitneskja verður sameiginleg nemendum, eins konar miðlægur gagnabrunnur, sem allir nemendur geta sótt í upplýsingar? Eða eru kennarar enn að berjast við að troða eins miklu í kollinn á hverjum og einum með aðferðum sem þau munu sjaldan ef nokkurn tíma nota?

Netið er stórkostlegur brunnur upplýsingar og aðferða, brunnur sem kostar yfirleitt ekkert að nota. Það er því ekki afsökun á þessum síðustu og versu hruntímum að fjármagn skorti til að kaupa forrit, tölvur og þess háttar. Nemendur eru með tölvurnar, þau kunna á tæknina og hugbúnaðurinn liggur á netinu. Í raun er þetta frekar spurning um hvort kennarar séu tilbúnir að snúa aftur til framtíðar, þó ekki væri nema til nútíðar, í stað þess að sitja fastir í sama fari, sömu kennsluaðferðum og voru notaðar þegar þeir voru í grunnskóla. Framtíðin er núna og ekki seinna að vænna að tileinka sér hana.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Leví Gunnarsson

Viðeigandi við þennan góða pistil er að benda á eðal viðtal við Isaac Aasimov: http://www.youtube.com/watch?v=1CwUuU6C4pk ... hann talar um að læra í gegnum tölvu árið 1988 ... talar helst um það í part 2 af þessu viðtali.

Sömuleiðis er bókin Diamond age eftir Neil Stephenson ágætis útlistun á fantasy framtíð í nýjum kennsluaðferðum.

Síðast en ekki síst þá er þessi kennsluvefur: www.beeweb.org sem ég er að vinna við að uppfæra og nútímavæða. Grunnhugmyndin er sú að tveir nemendur tengjast og búa til verkefni sem hinn á að leysa. Kennslan er á sama tíma keppni þar sem flest stig eru skoruð fyrir að velja verkefni af réttu erfiðleikastigi, ekki of létt og ekki of erfitt.

Björn Leví Gunnarsson, 13.1.2011 kl. 13:21

2 Smámynd: Þorsteinn Mar Gunnlaugsson

Takk fyrir þetta, Björn. Ég mun bókað ná mér í Diamond age. Viðtalið hef ég reyndar séð áður, en alltaf góð upprifjun. :)

Í raun er kannski stærsta áhugamál mitt í þessu, að fá kennara til að líta á þekkingu og vitneskju sem eitthvað miðlægt fyrirbæri, sem nemendur geta deilt og sótt í, rétt eins og við sækjum í gagnabrunna, netið og aðrar upplýsingaveitur í okkar störfum. Það myndi kalla á svo miklar breytingar á kennsluháttum og prófum, en væri samt nær raunveruleikanum en sú stefna sem er í gangi í dag. Í hvaða starfi þarftu að vita allt? Er nokkurs staðar gengið út frá slíku?

Þorsteinn Mar Gunnlaugsson, 13.1.2011 kl. 14:30

3 Smámynd: Björn Leví Gunnarsson

Helsta breyting til batnaðar væri að stytta námseiningarnar úr önnum í kannski tvær vikur til mánuð. Smá svona agile dót í nám... þar sem þú blandar skammtímamarkmið með langtíma í nokkurs konar "comprehensives".

Eins og er þá er námið ágætlega bútað niður í markmið og tímaeiningar. Nú þegar eru skyndipróf sem eiga að tékka á getu nemenda í hinum og þessum einingum þekkingar. Það er hinsvegar sorglegt að sjá þau próf bara hrúgast upp sem einhvers konar prósentur í annareinkunn í lokin... eitthvað sem skiptir í raun ógurlega litlu máli. Ég myndi vilja sjá eitthvað eins og 80% takk á skyndiprófum eða endurtaka efnið þangað til 80%. Námsefnið væri það "lítið" að endurtekning væri ekki mikið mál ... en þó eilítið skref afturábak.

Burt færi fyrirlestrarformið að mestu leyti og við tæki þessi miðlæga upplýsingaveita og peer to peer learning. Aðeins að stíga frá þessari árgangamerkingu takk ... hver er munurinn á einhverjum sem er fæddur 31. des og öðrum fæddum 1.jan? Annað hvort eitt ár eða einn dagur ekki satt? Hvaða þessara ætti þá að vera í öðrum árgangi en hinn? Fer það þá ekki eftir því hvort þeir eru fæddir sama ár eða sitt hvort?

Ef þeir eru fæddir sitt hvort árið þá ættu þeir að vera nokkurn vegin samferða því það munar bara degi... en ef þeir eru fæddir sama ár þá munar næstum heilu ári á aldri þeirra ...

Einstaklingsmiðaðri námskrá er "ætlað" að breyta þessu. Getur það bara ekki ein og sér.

Björn Leví Gunnarsson, 13.1.2011 kl. 16:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband