Besti flokkurinn

Nú er ég ekki með stjórnmálafræðimenntun eða nokkra aðra menntun á því sviði, en mig langar engu að síður að leggja nokkur orð í belg, þann sem fer sístækkandi um þessar mundir og snýr að borgarstjórnarkosningunum. Það er hart sótt að Besta flokknum úr öllum áttum, enda fjórflokkurinn að míga á sig af ótta við að missa völd sem hann virðist telja sín. Hvaðan stjórnmálamenn fá þá hugmynd, að þeim beri að hafa ákveðin völd er mér framandi, en eins og áður sagði, þá er ég ekki menntaður í þessum fræðum og botna þar af leiðir ekki mikið í hvað gengur um í kollinum á stjórnmálamönnum oft á tíðum. Segir það kannski meira um mig en þá. Mig langar engu að síður að koma nokkrum punktum á framfæri.

 

Hræðsluáróður fjórflokksins

 

Eitt af því sem mér hefur þótt einkenna tal margra forystumanna fjórflokksins undanfarna daga er þeir ráðast gegn Besta flokknum, er hræðsluáróður og ógnvekjandi mál þeirra. Skemmst er að minnast ummæla Sóleyjar Tómasardóttur, um að framtíð barna okkar væri í uppnámi kæmist Besti flokkurinn til valda. Ég veit ekki hvaðan hún dregur þá ályktun, að hún sé betur í stakk búin að fjalla um málefni barna en aðrir frambjóðendur, sér í lagi frambjóðendur Besta flokksins. Hún sjálf leyfði sér að standa í þeirri trú að það væri hræðilegt að eignast son! Hvernig á ég, sem karlmaður, að geta treyst konu fyrir málefnum barna og þá einkum drengja, þegar hún sér í þeim ógn og skelfingu svo mikla, að hún hafi talið það hræðileg örlög að eignast karlkyns barn?

Hið sama má segja um málflutning Sjálfstæðismanna, nú síðast í Morgunblaðinu í morgun fór Agnes Bragadóttir mikinn og sagði að nú væri komið nóg af brandaranum. Hvernig ættu borgarbúar að geta sætt sig við innantómt blaður, glens og grín næstu fjögur árin? Besti flokkurinn myndi aldrei geta stjórnað borginni, enda hefur enginn nokkurt vit þar á stjórnun stórs vinnustaðar, umsjón og –sýslu með mikla fjármuni. Þarna er verið að tala niður til þeirra sem hafa lagt það á sig að bjóða sig fram í nafni Besta flokksins og láta sem enginn þar innanborðs sé hæfur til að stjórna borginni.

Ég spyr: Eru þetta viðbrögð fjórflokksins við Besta flokknum? Að standa upp með hræðsuáróður, ógnanir og láta sem hér muni allt loga stafna á milli ef flokkurinn kemst til valda? Mun þá næsta kjörtímabil einkennast af tíðum meirihlutaskiptum, fjórum borgarstjórum og öðru eins bulli?

 

Óþægileg hreinskilni eða lygi?

 

Það sem mér finnst einna markverðasta og skemmtilegasta tilbreytingin við Besta flokkinn er hreinskilni talsmanna hans. Þeir ætla sér að koma félögum sínum í stjórnir og nefndir, þeir ætla sér að lifa góðu lífi af þeim launum sem eru í boði fyrir borgarráðsmenn og ota sínum tota. Loforð þeirra eru gjörsamlega út í hött, vissulega framkvæmanleg, en samt út í hött og það fer ekkert á milli mála. Þeir hafa líst því yfir að þeir muni svíkja öll loforð að loknum kosningum og þar af leiðir þurfi ég ekki að taka neitt mark á þeim, sem almennur kjósandi. Þessi hreinskilni er vissulega óþægileg, sérstaklega fyrir hina stjórnmálamennina sem vilja láta taka sig alvarlega.

Fjórflokkurinn heldur hins vegar sínu striki, þeir lofa breytingum á breytingar ofan, slá um sig með frösum og hugtökum sem enginn einn skilur eins. Besta dæmið um slíkt loforð er satýra Besta flokksins, loforð um sjálfbært gegnsæi. Fjórflokkurinn heldur áfram að strá um sig glimmeri sem er ekkert annað en máttlaus tilraun til að fegra ímynd sína. Fjórflokkurinn hefur haft mörg ár til að standa við loforð sín, en um leið og atvinnustjórnmálamennirnir komast til valda og eru minntir á loforð sín, þá hafa forsendur breyst og taka verður tillit til annarra þátta, bla, bla, bla! Já, forsendurnar sem breyttust voru að viðkomandi komst til valda.

 

 

Verður borgin betur eða verr sett með Besta flokkinn við völd?

 

Sú spurning sem hlýtur að vefjast fyrir einhverjum kjósendum og er nokkuð sem fjórflokkurinn hamrar svolítið á, er hvort borgin endi í djúpum skít með leikara og aðra listamenn við stjórnvölinn. Við henni er einfalt svar og sem er ágætt að velta fyrir sér líka. Getur þetta versnað? Mun borgin undir stjórn Besta flokksins skarta fjórum borgarstjórum? Mun Besti flokkurinn bjóða upp á REI rugl? Mun Besti flokkurinn bjóða kjósendum sínum upp á það hið sama og var í boði í Reykjavík á síðasta kjörtímabili?

Mín skoðun er sú, að sama hvað fjórflokkurinn segir og hverju og hverjum hann kennir um að svo fór sem fór á síðasta kjörtímabili, þá skiptir engu máli þó Besti flokkurinn komist til valda. Vonbrigðin sem sá flokkur mun valda verða aldrei þau hin sömu og fjórflokkurinn bauð upp á síðasta kjörtímabili.

 

Vil ég atvinnustjórnmálamenn?

 

Það sem fer hvað mest í taugarnar á mér við stjórnmálin á Íslandi í dag, er sú staðreynd að fæstir okkar stjórnmálamanna hafa í raun unnið eitthvað af viti úti á hinum almenna markaði. Nær allir koma þeir beint úr annað hvort stúdentapólitík eða ræðuliðum menntaskólanna inn á svið stjórnmála og ætla sér að hasla sér völl þar. Nægir þar að nefna til dæmis menntamálaráðaherra, Sigurð Kára, Birgir Ármanns, Guðlaug Þór, Sóleyju Tómasar, Gísla Martein og svo mætti lengi telja áfram. Hvernig getur þetta fólk, sem sumhvert hefur tekið við milljónum á milljónir ofan í styrki frá fyrirtækjum og einstaklingum, ætlast til þess að almenningur líti á það sem talsmenn sína? Hefur Sóley staðið persónulega í því að segja upp starfsfólki? Hefur Gísli Marteinn staðið í þeim sporum að horfa á fjölda samstarfsmanna sinna missa vinnuna og ná vart endum saman fyrir það? Ætli hann hafi hugsað til þessa fólks þegar hann þáði laun á meðan hann var í námi í Skotlandi?

 

 

Þegar allt kemur til alls þá er Besti flokkurinn besta uppreisn sem hægt er að hugsa sér. Hún er án ofbeldis. Hún kemur skýrum skilaboðum á framfæri við atvinnustjórnmálamennina og fjórflokkinn. Hún gefur almenningi tækifæri á að refsa þeim harkalega sem sátu að völdum í hruninu. Hún er fyndin og skemmtileg. Hún er þó umfram allt jákvæð og uppbyggjandi, svolítið annað en sagt verður um fjórflokkinn og hegðun hans þessa síðustu daga fyrir kosningar.

 

Því miður virðast nær allir gera sér grein fyrir þessu, nema allra hörðustu stuðningsmenn fjórflokksins auk hans sjálfs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband