Ef bróðir minn gætir mín, hver gætir hans?

Núna þegar eftirlitsstofnanir eru komnar á fullt við að rannsaka þrotabú gömlu bankanna, þá er ýmislegt að koma upp á yfirborðið sem má kalla skít. Það er ljóst að töluvert af drasli og viðbjóð hefur verið sópað undir teppið síðustu dagana fyrir hrun, sbr. fréttir af afskriftum lána og millifærslum upp á milljarða á óþekkta reikninga í löndum þar sem erfitt er að komast að því hver á þá reikninga.

Í allri þeirri umfjöllun er alltaf sagt að Fjármálaeftirlitið sé að rannsaka málið sem og skilanefndir. Auk þess er komin óháð rannsóknarnefnd að rýna í þessar afskriftir. Þetta er allt gott og blessað, þótt fyrr hefði verið segi ég nú bara. Ég hefði haldið að það væri nú bara hlutverk Fjármálaeftirlitsins að fylgjast með þessum málum og upplýsa rétta aðila (og almenning, vona ég) þegar eitthvað misjafnt á sér stað.

Ég verð samt að viðurkenna að mér þykir nokkuð undarlegt að láta stofnun sem ég fæ ekki betur séð en hafi ekki sinnt hlutverki sínu og í raun staðið sig nokkuð illa, rannsaka hrunið og í raun rannsaka um leið sjálfa sig og hvernig hún hefur staðið sig á undanförnum árum. Ef í ljós kemur að ekki var allt með felldu innan bankanna á síðustu árum, þá hlýtur FME að hafa átt að hafa eftirlit með því og koma upp um það.

Ef stofnunin upplýsir um stórfellt misferli er hún þá ekki um leið að fella dóm um eigin hæfi og störf á sama tíma?

Því sit ég uppi með þá spurningu, hver hefur eftirlit með eftirlitsstofnunum? Hver fylgist með því að FME sópi ekki líka undir teppið einhverju misjöfnu í starfi bankanna, sem er áfellisdómur á starf stofnunarinnar?

Ég held, að þörfin á því að fá erlenda rannsóknaraðila sé ansi sterk en um leið er það erfitt, því viðkomandi hafa ekki sömu þekkingu og FME á íslensku fjármálalífi. Þetta er með sönnu ákveðin dilema sem við stöndum í.

Er kannski bara spurning um að fá þingið til að rannsaka þetta? Er það einhverju skárra?

Ég veit það ekki. Ég held, að það verði margt í þessu sem muni ekki koma upp á yfirborðið og þurfum við, almenningur, að vera vel á verði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiður Helgadóttir

Mikið rétt hjá þér, greinilega er mikið rusl undir teppinu

Heiður Helgadóttir, 6.11.2008 kl. 18:17

2 Smámynd: Ómar Ingi

Fósturbróðurinn ?

Ómar Ingi, 6.11.2008 kl. 19:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband