Fyrir nokkrum vikum fórum við barnsmóðir mín í foreldraviðtal. Var þar dóttur okkar hrósað fyrir góða frammistöðu en sett var út á, að hún ætti stundum erfitt með að sitja kyrr. Að lokum var hún beðin um að stíga fram og spurði kennarinn hvort við vildum að barnið yrði metið með tilliti til ofvirkni. Við samþykktum það þá. Síðar vorum við boðuð á fund með sálfræðingi og þá fóru að renna á mig tvær grímur. Ég hef jú unnið í skóla, ég hef áður fyllt út svona matsblöð en það sem sló mig var að sálfræðingurinn ætlaði sér ekki að hitta barnið oftar en einu sinni en var samt viss um að geta fengið úr því viðtali nægilega miklar upplýsingar (ásamt matsblöðum okkar foreldranna og kennarans) til að meta hvort barnið væri ofvirkt. Ég er ekki sálfræðimenntaður, en ég myndi telja að áður en slíkt mat eða greining er lögð fram, þá hljóti að þurfa að liggja að baki ítarlegri rannsóknir en sem nemur einum fundi og upplifun annarra á viðkomandi. Ég ræddi um þetta við barnsmóður mína og við ákváðum í framhaldinu að hafna greiningunni.
Dóttir mín er með mikla hreyfiþörf, við erum lík með það feðginin. Ég sit ekki lengi kyrr í sama sæti, ég verð að fá að standa upp öðru hvoru og hreyfa mig. Hún er eins, henni líður best ef hún fær að tjá sig með líkamanum, hún er í dansi og finnst bæði gaman að syngja og dansa og gerir mikið af því. Hún er fljót að læra nýja hluti og ef henni leiðist það sem verið er að gera, þarf að hafa sig allan við að halda henni við efnið. Rétt eins og svo mörg önnur börn þá líður henni best þegar hún hefur skýran ramma og fær skýr skilaboð um það sem er rétt og rangt. Hún er hvatvís, fljótfær, hávær og fullt annað einkennir hana sem einkennir ofvirk börn. Hún er líka klár, elskuleg, hjálpsöm, félagslega sterk, opin, hamingjusöm og hress og hefur heilan helling af öðrum kostum sem vega upp á móti göllum hennar.
Á Íslandi er um margt ágætt skólakerfi - fyrir flesta. Hins vegar ekki fyrir alla. Fyrir nokkrum árum var ég með nemanda í umsjónarbekk hjá mér sem var ekki mikið fyrir bókina. Eiginlega var bókin bara fyrir honum og áhugi hans á henni var álíka mikill og hjá bókinni á honum. Hann var hins vegar snillingur í að tengja saman raftæki, laga leiðslur og hugsa um hljóðkerfi og þess háttar. Það var hins vegar ekki kennt í skólanum. Hann valdi reyndar alltaf smíði sem valfag, en það voru kannski 2 tímar í viku. Restina af skólatímanum að leikfimi undanskilinni átti hann að sitja á rassinum og lesa í bók.
Skólakerfið, skólinn sem á að vera fyrir alla, er alls ekki fyrir alla. Hann er fyrir þá sem eiga auðvelt með að sitja á rassinum og lesa sér til upplýsingar í bók. Staðreyndin er hins vegar sú, að því fer fjarri að við endum öll í slíku starfi, þ.e. þar sem við sitjum á rassinum og lesum upplýsingar, sem við leggjum mat og bregðumst við. Stór hluti þeirra nemenda sem nú sitja í grunnskólum landsins eiga eftir að verða smiðir, bifvélavirkjar, dansarar, bilstjórar, flugmenn, leikskólakennarar, ruslamenn, götusóparar og svo mætti lengi telja. Störf þar sem málið er einmitt ekki að sitja allan liðlangan daginn og lesa úr bók eða af skjá.
Skoðum síðan hvernig skólakerfið endurspeglar þennan raunveruleika. Það þarf vissulega að kenna öllum að lesa, reikna og um menningu og sögu þessa lands. En í tíu ár er aðaláherslan lögð á að búa til þjóðfélagsþegna sem kunna fyrst og fremst að sitja kyrrir og lesa.
Hvernig fellur það síðan að þeim sem eru ofvirkir? Þeim sem hafa mikla hreyfiþörf? Þeim sem hafa mikla þörf fyrir útiveru og samvist við dýr? Þeim sem hafa mikla listræna sköpunarþörf? Hvað með þá sem fæðast með tónlist í blóðinu?
Ef við lítum til kenninga Gardners um greindir þá leggur skólakerfið fyrst og fremst áherslu á tvær greindir, kannski þrjár. Rök- og stærðfræðigreind, samskiptagreind og nú á síðastliðnum árum með aukinni umræðu um einelti, sjálfsþekkingargreind. Þeir sem eru ofvirkir, og hafa þar af leiðir margir hverjir meiri hreyfiþörf, fá ekki lengri frímínútur, fara ekki oftar í leikfimi og fá enn síður annað námsefni sem hæfir frekar þeirra greindum. Það er ekki fyrr en námsörðugleikar bætast við greininguna, sem viðkomandi fær stuðningsfulltrúa.
Það er aum afsökun að benda á einn, kannski tvo tíma, á viku sem fara í að sinna öðrum greindum, t.d. einn tími í tónmennt fyrir tónlistargreind, 1-2 í leikfimi fyrir hreyfigreind, 1 tími í myndmennt fyrir rýmisgreind. Auðvitað er hægt að flétta þetta saman við venjulegt nám, ég gerði námsefni fyrir kennslu í Gísla sögu fyrir nokkrum árum þar sem nemendur gátu valið út frá hvaða greind þeir gerðu ákveðin verkefni. Það kallaði á breytt námsmat, breytta nálgun mína á efninu og aðrar kennsluaðferðir. Og eru grunnskólar landsins tilbúnir í slíkt?
Út frá þessum hugleiðingum finnst mér í raun alveg út í hött að skólakerfið skuli yfirhöfuð kalla eftir því að ákveðnir nemendur séu greindir ofvirkir. Sérstaklega ef staðan er sú, að það mun ekki breyta neinu fyrir viðkomandi. Skólakerfið okkar er enn, því miður, ekki í stakk búið til að mæta hverjum nemenda, hvort sem hann er með ofvirkni, athyglisbrest eða ekki, út frá hans forsendum. Við erum enn að reyna troða öllum í sama mótið, í stað þess að ýta undir, hlúa að og næra þá hæfileika sem búa í hverjum og einum.
Meginflokkur: Menntun og skóli | Aukaflokkur: Vefurinn | Þriðjudagur, 12. apríl 2011 (breytt 13.4.2011 kl. 07:41) | Facebook
Færsluflokkar
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þú ættir að horfa á þetta hér: http://www.youtube.com/ted#p/search/15/iG9CE55wbtY
Rosastef (IP-tala skráð) 12.4.2011 kl. 11:22
Sæll Þorsteinn
Góð og þörf gagnrýni á skólakerfið! Hefurðu kynnt þér hugmyndir Sir Ken Robinsson? Hann hefur talað um allt sem þú varst að minnast á hér.
Hér er TED prófíllinn hans. Mæli með öllu sem hann segir
Hjalti Rögnvaldsson (IP-tala skráð) 12.4.2011 kl. 11:24
Haha já Rósa benti á nákvæmlega það sama og ég :)
Hjalti Rögnvaldsson (IP-tala skráð) 12.4.2011 kl. 11:25
Já, ég hef kynnt mér hugmyndir hans og finnst mikið til í því sem hann fjallar um :)
Þorsteinn Mar Gunnlaugsson, 12.4.2011 kl. 12:28
Sannarlega góð og þörf gagnrýni. Mín börn eru til allrar guðs lukku komin upp úr blessuðu grunnskólakerfinu, og sluppu við ofvirknisgreiningu og aðrar hremmingar, en þær virðast tröllríða öllu í dag. Ég starfa við þýðingar fyrir sjónvarp og þýddi fyrr í vetur danska þætti um eins konar líkamsræktar/lífsstílsþjálfara sem fór í danska grunnskóla til að taka krakka í gegn og fá þau til að breyta svolítið um gír. Til að gera langa sögu stutta sótti hann í smiðju til bandarísks skóla þar sem krakkar eru LÁTNIR standa upp með vissu millibili, man ekki hvort það var á korters fresti, og hreyfa sig. Virkni í tímum varð betri í danska skólanum eftir að þetta var tekið upp. Þau voru líka LÁTIN GERA LEIKFIMIÆFINGAR Í TÍMUM! Fólk áttar sig oft ekki á hreyfiþörf barna og heldur að eðlileg hreyfiþörf og lífsgleði hljóti að flokkast undir ofvirkni, en það flokkast bara allt undir ofvirkni í dag! En ég mæli eindregið með þáttunum ef þú kæmist yfir þá, mjög forvitnilegir.
Nanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 15.4.2011 kl. 10:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.