Tekið af skarið

Ég er einn af þeim sem geng um með rithöfundadraum í maganum. Mér þykir mjög gaman að skrifa og geri mikið af því. Ég fæ líka mikla ánægju út úr því að lesa og reyni að koma því við eins og mögulegt er, en undanfarin ár hefur verið sífellt minni tími fyrir slíkt. Ég hef í gegnum tíðina skrifað bæði smásögur, ljóð og skáldsögur. Sumt af því hef ég sett saman í handrit og gengið á milli útgáfna, í þeirri veiku von að fá þetta útgefið, fá einhvers konar viðurkenningu fyrir þetta strögl mitt (eru höfundar einhvern tíma ekki í leit að viðurkenningu með einum eða öðrum hætti?). Hins vegar hefur mér verið hafnað aftur og aftur, með þeim skilaboðum að þetta séu frambærileg skrif, efnileg osfrv., en henti ekki til útgáfu að svo stöddu, eða búið er að ganga frá útgáfum þessa árs og næsta, endilega hafa samband aftur síðar. Ég held ég sé búinn að heyra nær allar útgáfur af afþökkunarskilaboðum forlaganna. Eflaust vill það starfsfólk vel sem þar starfar, en hins vegar hefur mér þótt leiðinlegt að fá sum handritin nær ólesin aftur í hendurnar frá sumum útgáfunum. 

Ég viðurkenni þó fúslega að nær allt sem ég skrifaði í upphafi, þessi fyrstu þrjú, kannski fjögur, handrit sem ég fór með á útgáfurnar voru langt frá því að vera útgáfuhæf. Ég sá það kannski ekki þá, en þetta er kannski kosturinn við að þroskast og eldast, maður öðlast reynslu og verður fyrir vikið gagnrýnni á sjálfan sig og það sem maður er að gera. Hins vegar á ég tvö handrit sem eru bæði hæf til útgáfu en hef þó ekki haft erindi sem erfiði. Reyndar held ég að bölvun hvíli á öðru þeirra, því útgáfa hér í borginni hafði samþykkt að gefa það út en áður til þess kom fór hún á hausinn. Ég fór þá með handritið til annarar útgáfu, sem var mjög heit fyrir handritinu en tókst líka að láta bankann loka á sig áður en niðurstaða fékkst í það mál.

Hvað á maður þá að gera? Ég er 32 ára gamall og mig langar, fyrr en síðar, að geta unnið við að skrifa skáldskap. Því miður er ég hins vegar í þeirri stöðu, að þurfa standa við skuldbindingar mínar gagnvart bankastofnunum, eins og svo margir Íslendingar, og á engan möguleika á að fá listamannalaun eða þvíumlíkt, þar sem ég hef ekki enn fengið bók útgefna. Sem sagt, þarna er ákveðinn vítahringur en eflaust hugsaður til þess að tryggja að hver sem er sæki ekki um þessa styrki. Auk þess virðist mér sama fólkið fá þessi laun svolítið oft og einhverjir hafa bent á það, að innan þessa geira er ákveðin klíka sem klappar sér og sínum. Ég ætla þó ekki að fara út í slíkar hugleiðingar, enda hefur það ekkert upp á sig. 

Þetta er því staðan. Á maður að gefast upp eða spýta í lófanna og láta smá mótvind ekkert á sig fá? Sannast sagna þá var ég farinn að hallast að því fyrrnefnda síðasta vetur. Sumarið var hins vegar ágætt, ég fékk tvær sögur útgefnar í Furðusögum, flottu tímariti um svokallaðan genre skáldskap, þ.e. furðusögur, hrollvekjur, vísindaskáldskap, fantasíur og þess háttar. Einmitt sögur sem alla jafna sést mjög lítið af hérlendis þá eftir Íslendinga. Það selst töluvert af slíkum skáldskapi eftir erlenda höfunda en einhverra hluta vegna virðast útgáfur tregar til að gefa út þess háttar íslenskan skáldskap. Á undanförnum árum hefur aðeins ein hreinræktuð hrollvekja komið út og það var Börnin í Húmdölum eftir Jökul Valsson. Hið sama gildir um fantasíur og vísindaskáldskap, þetta sést varla hérlendis nema þá sem erlendar kiljur og í besta falli þýðingar. Auk þess að fá sögurnar birtar í Furðusögum, þá vann saga eftir mig smásagnasamkeppni Vikunnar, sem ég tók þátt í af algerri tilviljun. Þetta tvennt varð þó til að blása smá lífi í drauminn um að verða rithöfundur og að sjá bækur eftir mig á prenti. 

Eftir umtalsverða umhugsun ákvað ég, í félagi við fólk sem stendur mér nærri, að stofna mína eigin útgáfu. Hugmyndin er sú, að leggja áherslu á þessar genre bókmenntir og fara inn á markaði sem eru ekki endilega höfuðmarkaðir íslenskrar bóksölu. Ég sé t.a.m. ekki mikla möguleika fyrst um sinn fyrir litla útgáfu að takast á við jólabókaflóðið með öllum þeim tilkostnaði sem því fylgir. Nei, hugmyndin er að setja stefnuna á kiljumarkaðinn og jafnvel raf- eða netbækur. Bjóða lesendum upp á eitthvað nýtt, ekki bækur úr jólabókaflóðinu sem eru nú í kilju í stað innbundnar. Bjóða lesendum upp á öðruvísi bókmenntir, hryllingssögur, fantasíur, furðusögur, draugasögur, vísindaskáldskap og allt þarna á milli. Það eru höfundar hérlendis sem skrifa svona bókmenntir, svo mikið veit ég, en fæstir þeirra fá útgefið hjá stóru forlögunum. Þar gæti minna forlag, sérhæfðara forlag, komið inn og náð að marka sig. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta líst mér vel á!  Það er um að gera að henda sér bara í hlutina.  Ef allt fer á versta veg, þá geturðu allavega huggað þig við það að hafa reynt, annars fer ævin í að hugsa "hvað ef..." 

Margrét Nilsdóttir (IP-tala skráð) 2.2.2011 kl. 14:01

2 Smámynd: Þorsteinn Mar Gunnlaugsson

Nákvæmlega

Þorsteinn Mar Gunnlaugsson, 2.2.2011 kl. 17:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband