Ég er fylgjandi jafnrétti. Ekki bara jafnrétti kynja, heldur jafnrétti yfir alla línuna. Jafnrétti milli trúar-, skoðana- og lífsspekihópa, kynþátta, íþrótta og svo framvegis. Ég skil í raun og veru ekki hvers vegna það þurfi yfirhöfuð að vera ræða slíka þætti, svo sjálfsagt finnst mér að slíkt jafnrétti sé við lýði.
Það sem fer hins vegar oft í taugarnar á mér er barátta kvenréttindasamtaka. Þó vissulega sé margt sem slík samtök benda sé réttmætt er annað sem flokka mætti frekar sem öfga og frekar baráttu fyrir umfram réttindum til handa konum en baráttu til að jafna réttindi kynjanna.
Eitt af því sem fer mjög lítið fyrir í allri umræðu um jafnréttindi eru kynbundin störf og þá sérstaklega þau störf sem karlmenn veljast frekar til. Kvenréttindasamtök eru dugleg að benda á, að hinar svokölluðu kvennastéttir fái almennt lægri laun, jafnvel þó viðkomandi störf kalli á sérhæfða menntun. Eins er oft bent á, að téðar stéttir verði fyrr og frekar fyrir niðurskurði þegar herðir að.
Það er ýmislegt til í þeim málflutningi, en gefur samt ekki alveg nógu heildstæða mynd af raunveruleikanum, að mínu mati. Ef skoðuð eru helstu kvennastörfin, þá koma nokkrir þættir í ljós. Langflest eru þau innistörf, fela í sér litla líkamlega áhættu (að minnsta kosti mjög afmarkaða) og mörg þeirra henta vel með fjölskyldulífi, þó vissulega megi finna þar undantekningar á, t.d. vaktavinna hjúkrunarfræðinga. Séu þessi gæði (þetta eru vissulega gæði) borin saman við helstu karlastörfin, þá kemur í ljós að mörg þeirra er ekki að finna í þeim, t.d. eru mörg týpísk karlastörf útistörf, fela í sér talverða eða mikla líkamlega áhættu og henta mörg hver illa með fjölskyldulífi. Auðvitað er þetta mikil einföldun, en mér finnst mjög oft í umræðunni gleymast þau gæði sem fylgja hverju starfi eða hverri starfstétt fyrir sig. Það er töluverður gæðamunur á starfi einstaklings sem vinnur í við byggingu stíflu upp á heiði annars vegar og hins vegar einstaklings sem vinnur á leikskóla.
Nú finnst mér mjög mikilvægt að fólk fái greidd sömu laun fyrir sömu vinnu. Mér finnst eðlilegt að tveir kennarar með sömu menntun og reynslu standi til boða sömu laun fyrir sömu vinnu, óháð því hvort þeir séu báðir af sama kyni eða ekki. Að sama skapi finnst mér eðlilegt slíkt hið sama sé uppi á teningnum í störfum sem tengjast stíflugerð. Það sem er hins vegar merkilegt að skoða, er að konur kjósa í miklum meirihluta að sinna ekki störfum sem hafa ekki þau gæði sem hin týpísku kvennastörf hafa, þ.e. þær vilja frekar innistörf sem fela í sér litla líkamlega áhættu og henta vel með fjölskyldulífi. Kannski vegna þess að samfélagið krefst þess af þeim, kannski vegna þess að þær sjá fram á að leggja líkama sinn undir barneignir og velja því störf sem henta því betur sem og umönnun og uppeldi barna.
Þetta þýðir þó, að meðalaldur karla er lægri en hjá konum. Og eru það ekki gæði? Ég held nefnilega, að stundum hafi feminísk umræða slegið svolitlu ryki í augu okkar. Við höfum verið í sífelldri umræðu um kjör, réttindi og laun, að við höfum gleymt að setja hlutina í stærra samhengi. Sem sagt, dregin hefur verið upp ákveðin tálsýn sem við sjáum stundum ekki í gegnum. Talað hefur verið um að meðallaun karla séu svo og svo miklu hærri en kvenna, en þá gleymist kannski að taka inn í myndina að karlar vinna oft lengri vinnudaga, hættulegri störf sem sum henta afar illa með fjölskyldulífi. Ég efast ekki um, að margir karlmenn myndu meira en lítið vera til í að eyða meiri tíma með fjölskyldu sinni. En samfélagið hefur þróast þannig, að margir karlmenn fórna ákveðnum gæðum til að fá hærri laun. Að sama skapi fórna margar konur ekki þessum gæðum. Þó þessi gæði séu ekki metin til launa eða sem kjarabætur, þá mættu segja að þau séu innifalin í hinni duldu launaskrá. Og framhjá henni er alltof oft litið, finnst mér.
Hvað varðar hinn punktinn, um að niðurskurður bitni oftast á þeim stéttum sem eru kvennastéttir. Ég veit svo sem ekki hvernig það lítur út í sögulegu ljósi, því geta einhverjir hagfræðingar svarað betur en ég. Hins vegar hefur verið áhugavert að fylgjast með allri umræðu um störf, niðurskurð og atvinnuleysi eftir hrunið. Við hrunið misstu mjög margir verkamenn vinnuna, bæði sérmenntaðir iðnmenn og almennir verkamenn. Hvort tveggja að miklu leyti karlastéttir. Auk þess drógu bankarnir saman seglin og var mörgum sagt upp þar, en ég reikna með að þar hafi kynjahlutfallið verið tiltölulega jafnt. Þó vissulega hafi verið mikið rætt um að skapa störf fyrir þá sem eru atvinnulausir, hefur lítið farið fyrir umræðu um kynskiptingu meðal atvinnulausra sem og hvaða stéttum þeir tilheyra. Hins vegar hefur umræða um niðurskurð í heilbrigðis- og menntakerfinu farið hátt undanfarið. Þó málefnið sé vissulega mikilvægt, er áhugavert að sjá hvernig umræða um niðurskurð hjá tveimur stórum kvennastéttum hefur farið hærra en hátt hlutfall atvinnulausra meðal stórra karlastétta. Hvort er það vegna þess að störf kvenna eru mikilvægari en karla eða vegna þess að eðlilegra sé að karlmenn velji sér störf sem eru ekki endilega alltaf örugg? Nú vil ég alls ekki gera lítið úr störfum sem tengjast þessari umræðu, heldur er ég að benda á með hvaða hætti umræðan er.
Ég held, að til að ná fram alvöru jafnrétti, þurfum við að skoða okkur sjálf, samfélagið og þetta tvennt saman með gagnrýnum augum. Það er ekki nóg, að benda bara á það sem hentar manni akúrat þá stundina. Þannig er maður hvorki heiðarlegur gagnvart sjálfum sér né öðrum.
Flokkur: Mannréttindi | Sunnudagur, 30. janúar 2011 | Facebook
Færsluflokkar
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Held að nátturan í okkur og eðli hafi aldrei ætlað okkur jafnretti en hver veit en það er allvega langt í land, það er ljóst.
Ómar Ingi, 30.1.2011 kl. 13:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.