Vinsælar bókmenntir og gæði þeirra

Í gær átti ég í ágætu netspjalli við Eirík Nordahl, rithöfund, um hvort vinsældir bóka sé tákn um gæði þeirra. Hann kom með marga athyglisverða punkta, en hann er þeirrar skoðunar að svo sé ekki. Ég er ekki alveg sammála honum, þar sem ég tel, að vinsældir geti stundum verið merki um gæði. 

Hann kom með ágætt dæmi, þ.e. Da Vinci Lykilinn eftir Dan Brown. Bókin varð gríðarlega vinsæl en út frá fagurfræðilegu og bókmenntalegu sjónarmiði, þá er bókin ekkert sérstök, svo vægt sé til orða tekið. Meira að segja upplýsingarnar sem í henni birtast eru lélegar. Og af því, að ekki er hægt að setja samasemmerki á milli gæða og vinsælda, þá telur Eiríkur, hafi ég skilið hann rétt, að vinsældir geti ekki sagt til um gæði.

Það er margt til í þessu. Vinsæl bók getur orðið vinsæl fyrir svo margar aðrar sakir en vegna góðs texta eða góðrar sögu, t.d. ef markaðssetning heppnast vel, rithöfundur er vel þekktur og á sér marga lesendur, umfjöllunarefni er áhugavert og svo mætti lengi telja. Sem sagt, það er margt sem spilar inn í það hvort bók verður vinsæl.

Ég spurði Eirík út frá hvaða forsendum, öðrum en huglægum og persónulegum, hann mæti gæði bókmennta. Hann sagði að slíkt mat væri alltaf byggt á huglægum og persónulegum forsendum. Einmitt í þessu tel ég fullyrðingu Eiríks ekki ganga upp. Fólk, þ.e. þeir sem kaupa bækur, kaupir bækur út frá mörgum mismunandi forsendum. Ef við gefum okkur, að fólk versli aldrei bækur út frá fagurfræðilegum forsendum, s.s. að fólk kaupi aldrei bækur sem það veit að því finnst góðar eða hefur verið sagt að séu góðar, þá gengur fullyrðingin upp.

Gallinn er bara sá, að til þess þyrftum við að þekkja ástæður kaupa hjá nær öllum. Til eru þeir sem kaupa bækur út frá gæðatengdu persónulegu og huglægu gildismati. Slíkir einstaklingar hafa líka áhrif á vinsældir bóka.

Í samfélagi sem okkar, þar sem upplýsingaflæði er mikið; fjölmiðlar, samfélagsmiðlar á netinu, allir með farsíma og þess háttar; þá hlýtur að fréttast býsna hratt hvaða bækur eru góðar. Auk þess hafa rannsóknir sýnt, að fólk treystir best sínum nánustu til að fá meðmæli með vöru, síðan ókunnugum og auglýsingum/markaðssetningu mun síðar en hinum tveimur.

Sem sagt, bók getur orðið vinsæl fyrir sakir gæða af því gæðin spyrjast út. Auðvitað gerist það ekkert alltaf, langt í frá, og margir höfundar virðast selja bækur í bílförmum óháð því hvaða sorp þeir setja á blað. Að sama skapi virðast aðrir höfundar, sem mega vart leysa vind án þess að það sé samansett í texta á snilldarlegan hátt, lítið sem ekkert selja. Ég held þess vegna, að þetta sé ekki svo einhlítt, það sé hreinlega ekki hægt að setja þetta upp sem alhæfingu eða sem svart/hvítan raunveruleika. Ergo, þó margt sé til í þessari fullyrðingu, þá gengur hún ekki alltaf upp. Væri kannski réttar að setja hana svona upp: Vinsældir segja ekki alltaf til um gæði bóka. 

Hins vegar, er mjög áhugavert að skoða hvers lags bækur ná vinsældum. Hérlendis hafa spennusögur selst gríðarlega vel, oft á kostnað fagurbókmennta. Eru það skilaboð lesenda til höfunda? Þetta er það sem við viljum lesa? Eða eru það höfundar sem eiga að skrifa og segja fólki með útgáfum á bókum sínum, hvað það á að lesa? Eiga rithöfundar að eltast við að þóknast lesendum sínum eða bara sjálfum sér?

Auðvitað eiga rithöfundar að skrifa það sem þá langar til að skrifa, hins vegar er bara ekki alltaf markaður fyrir því. Og (því miður að mörgu leyti) útgáfur hugsa á markaðsfræðilegum nótum, þ.e. þær vilja helst gefa út bækur sem eiga möguleika á að standa undir útgáfukostnaði. Varla færi útgáfa að gefa út hvern bókartitilinn á fætur öðrum sem stendur ekki undir sér, því slík útgáfa færi fljótlega á hausinn. Þannig markaðurinn er farinn að stjórna heilmiklu, hvort sem höfundum líkar betur eða verr. 

Ég hef oft velt þessu fyrir mér, þar sem ég er í þeirri stöðu að skrifa sögur sem útgáfur telja ekki henta vel til útgáfu, þ.e. hrollvekjur. Vissulega hafa komið út þannig sögur hérlendis af og til með töluverðu millibili, t.d. Börnin í Húmdölum, en sala þeirra er yfirleitt ekki mikil. Er ég þá dæmdur til að þóknast markaðsöflunum, skrifa eitthvað annað til að hljóta náð fyrir augum forlaga?

Ég veit það ekki, ég vona ekki. Ég vona, að fá gefið út. Ég vona líka, að ef svo fer og ef bókin selst vel, að það sé vegna þess hún er góð, fólk vilji lesa hana og hún veki athygli vegna þessa. Í það skipti muni vinsældir og gæði fara hönd í hönd. Það má alltaf vona.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband