Eru menntamál okkar í réttum farvegi?

Ég starfaði eitt sinn sem kennari. Fór í háskóla, lærði íslensku og tók kennsluréttindi og ætlaði mér að starfa við kennslu. Enda um margt mjög skemmtilegt og gefandi starf. Það er gaman að vinna með börnum og unglingum, þau eru fersk og ómótuð og því mikilvægt að gott fólk veljist til þessa starfs. Enda komst ég að raun um, að ég var ekki síður uppalandi nemenda minna eins og foreldrar þeirra. Allir þeir sem koma að félagsmótun barna taka meðvitað og ómeðvitað þátt í uppeldi þeirra, hvort sem það eru foreldrar, ömmur og afar, kennarar og íþróttaþjálfarar.

Að undanskildum foreldrum sínum eyða börn og unglingar líklega mestum tíma með kennurum sínum. Kennarar hafa því gríðarlega mikil áhrif á líf nemenda sinna og oft myndast tengsl sem eru ævarandi. Það verður því seint ofmetið mikilvægi þess að kennarar, hvort sem þeir kenna í leik-,grunn- eða menntaskóla, séu hæfir og vel menntaðir. Ég hugsa, að fæstir foreldrar myndu senda börn sín í skóla þar sem ekki væri krafist þess að kennarar væru menntaðir að neinu leyti eða þyrftu að sýna fram á hæfi sitt með öðrum hætti. Sem sagt, við treystum kennurum af því við vitum að þeir eru vel menntaðir og hafa gengið í gegnum þá eldskírn sem slík menntun felur í sér. Við treystum þeim fyrir því sem okkur er kærast – börnunum okkar.

Nú er verið að ræða breytingar á menntakerfinu, niðurskurð á kennslu og jafnvel að fækka skóladögum. Fyrir utan hvernig þetta bitnar á börnum, að þau fái skerta kennslu frá því sem áður var (og þar af leiðir minni fræðslu), þá er þetta enn einn naglinn í líkkistu þessa starfs, að vera kennari. Ég hætti að kenna 2007, mér buðust mun hærri laun fyrir starf sem krafðist engrar menntunar. Hvað segir það okkur um kjör kennara?

Þar sem ég var að kenna var ekki bruðlað með peninga, a.m.k. varð ég ekki var við að til væru digrir sjóðir sem hægt var að ganga í eftir hentisemi. Þvert á móti var ekkert gefið að til væru peningar fyrir því sem manni datt í hug að gera, t.d. hefði ég viljað stunda mun meira þróunarstarf en færi gafst til, enda tel ég t.d. kennslu Íslendingasagna að miklu leyti á algjörum villigötum. Launin voru heldur ekkert til að hrópa húrra fyrir, en við vorum tvær fyrirvinnurnar þá á heimilinu, þannig hlutirnir redduðust. Þegar það breyttist, voru allar forsendur fyrir því að ég væri kennari horfnar, því ekki átti ég nokkra möguleika á að lifa á þeim launum sem mér buðust í því starfi.

Ef þær breytingar sem nú er verið að fjalla um, t.d. 5-4-3 leiðin, ganga eftir, þýðir það enn frekari kjaraskerðingu kennara. Það leiðir í för með sér að sífellt færri velja að gerast kennarar og þeir sem það gera, fara í kennslu annað hvort af hugsjón eða vegna þess þeir telja sig ekki eiga möguleika á öðru. Og þegar það verður skortur á kennurum þurfa skólastjórar að ráða ófaglærða einstaklinga í stað þeirra kennara sem hætta.

Hvaða skilaboð eru þetta til okkar foreldra? Hvernig á ég, sem foreldri, að túlka þessar fyrirætlanir? Skipti barn mitt svo litlu máli, að það þurfi ekki sömu menntun og sömu tækifæri og ég fékk? Að skólinn þurfi ekki að sinna því eins og mér var sinnt? Um leið og tal um að fækka tímum hjá nemendum, kemur hækkun á gjöldum vegna dvalar í dagvist. Alls staðar er reynt að nurla saman krónum og aurum.

Hvaða skilaboð eru þetta til barnanna? Til kennara? Nú eiga kennarar að kenna sama efni á minni tíma, fyrir lægri laun og með minna af efni úr að moða. Er þetta eðlilegt? Er ekki kominn tími til að einhver komi vitinu fyrir þeim sem eru að ræða þessi mál fyrir hönd okkar hinna?

Ég hlýt að setja spurningarmerki við stjórnmálamenn ogsveitastjórnarmenn okkar tíma. Þvílíkt og annað eins vanhæfi! Að hægt skuli að setja heilt samfélag á hausinn, ekki bara ríki heldur líka hvert sveitarfélagið á fætur öðru, er afrek sem verður vonandi aldrei leikið eftir.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband