Í gær lenti ég í umræðu um Wikileaks - umræðu þar sem mjög ólíkar skoðanir komu fram. Í megindráttum var rætt um hversu réttlætanlegt er, að birta stolin gögn. Hvenær eru lögbrot réttlætanleg og hvenær ekki? Hver er það sem metur slíkt? Hvaða upplýsingar eru svo mikilvægar, að réttlætanlegt er að fremja lögbrot til að komast yfir þær? Hvenær er ofbeldi; efnislegt, líkamlegt, kynferðislegt eða sálrænt; réttlætanlegt, og þá jafnvel út frá hagsmunum almennings?
Ég er mjög efins um tilgang og markmið Wikileaks, úr því þessi fréttaveita er tilbúin að styðja lögbrot. Hún hefur birt stolin gögn m.a. úr íslenska bankakerfinu. Er það réttlætanlegt? Af því þær upplýsingar varða almanna hagsmuni? Eða er slík upplýsingaveita réttlætanleg meðan það gagnast okkur persónulega?
Skoðun mín er sú, að það sé afskaplega hættulegt að bera fyrir sig almanna hagsmunum. Um leið er verið að gefa sér, að vitað sé hverjir þessir hagsmunir eru. Ég hef hvergi séð nokkra skilgreiningu á þeim, hvorki innlenda né alþjóðlega. Þetta hugtak er því notað til réttlætingar á, oft á tíðum, lögbrotum, mannréttindabrotum og jafnvel ofbeldi.
Það eru margar ríkisstjórnir sem bera fyrir sig almanna hagsmunum, þegar t.d. eru teknar ákvarðanir um að loka fyrir aðgang almennings að internetinu. Eru það almanna hagsmunir að loka fyrir slíka upplýsingaveitu sem netið er? Eða eru það hagsmunir ríkisins? Og er fólkið þá ekki ríkið? Hver er það sem skilgreinir þessa almanna hagsmuni í þessu tilfelli? Og hver er það sem metur það hjá Wikileaks, hvað varðar almanna hagsmuni? Er það kannski bara huglægt mat forsvarsmanna samtakanna hverju sinni? Mér þætti mjög gaman að sjá, rökstuðning þeirra fyrir því að birta lánabók Kaupþings á sínum tíma, sem og samskipti starfsmanna sendiráða við starfsmenn ráðuneyta hérlendis í partýum fyrir mörgum árum. Hvaða almanna hagsmunir voru þar í húfi?
Eflaust skilgreina margir almanna hagsmuni sem mannréttindi. Sérstaklega hér á Vesturlöndum. Ég vil þó minna á, að hvergi í mannréttindasáttmála Sameinuðu Þjóðanna stendur, að ríkjum beri að upplýsa þegna sína um allt það er fram fer innan ríkisstofnanna og ráðuneyta. Það eru ekki mannréttindi okkar. Ég er því þó mjög fylgjandi að leynd sé ekki eitthvað sem ríki og stofnanir þess eigi að viðhafa í sínum störfum, en geri mér þó grein fyrir að stundum er hún nauðsynleg, rétt eins og í starfi fyrirtækja eða jafnvel í daglegu lífi fólks. Hitt væri þó æskilegra og ég kýs það umfram leyndina, að allt ríkistengt starf sé uppi á borðum og öll gögn aðgengileg þegnum, á hvaða tíma sem er.
Sem færir okkur að þeim sem kalla má flautublásara. Um leið og það nauðsynlegt, að tryggja að flautublásarar hafi lögvernduð réttindi, ef þeir verða áskynja um lögbrot í fyrirtækjum eða stofnunum, þá verða þeir líka að gera sér grein fyrir því, að lögbrot á að tilkynna til réttra aðila. Auðvitað geta komið upp aðstæður, sem gera flautublásurum erfitt fyrir, en það réttlætir ekki, að lögbrotum sé hampað sem góðum og gildum, hvorki þeim sem ríki eiga hlut í né þeim sem ætla sér að koma upp um brot. Vigilantes, Hrói Höttur og svipaðar fígúrur fremja lögbrot en í göfugum tilgangi. Eru lögbrot réttlætanleg þá? Eða er þetta svolítið undir áhrifum frá ofurhetjusögum og bandarískum spennumyndum, þar sem ofurhetjan/aðalsöguhetjan myrðir fullt af vondum körlum, en í göfugum tilgangi. Hvernig myndi okkur verða við, ef einhver tæki upp á því að haga sér með þeim hætti í dag? Væri viðkomandi ekki bara stungið inn? Og ef við erum tilbúin að réttlæta slík lögbrot gegn ríkinu, af hverju ætti ríkið ekki að geta svarað í sömu mynt? Ef almenningur virðir ekki lögin, af hverju ætti ríkið að gera það?
Ég neita að trúa því, að fólk sé tilbúið að styðja lögbrot og mæla með þeim. Ég neita að trúa því, að þjófnaður sé gerður að einhverju öðru en hann er. Ég neita að trúa því, að kaup á þýfi séu réttlætanlega út frá óskilgreindum almannahagsmunum og enn síður, að réttlætanlegt sé að flagga þýfinu sigri hrósandi. Ef ríki eða fyrirtæki ástunda leynistarfsemi og baktjaldamakk, þar sem brotið er á réttindum almennings, þá er það enginn vindur í segl þeirra sem berjast gegn slíku, að brjóta þau lög sem gilda. Það dregur bara úr annars göfugu markmiði. Rétt eins og um leið og samtök sem berjast fyrir sjálfstæði einhverja landa eða héraða nota ofbeldi; mannrán, sprengingar, morð, vopnuð átök; þá umbreytast þau í hryðjuverkasamtök.
Tveir af helstu baráttumönnum síðustu aldar, einstaklingar sem talið er að hafi haft gríðarleg áhrif með baráttu sinni, voru Ghandi og Martin Luther King. Hvorugur mælti með ofbeldi. Báðir mæltu með borgaralegri óhlýðni, þ.e. að brjóta þessar óskrifuðu reglur og viðmið, til að vekja athygli á því sem barist var fyrir, s.br. þegar svartir menn settust í sæti merkt hvítum í strætisvögnum. Ég held, að nær væri að taka slíka menn til fyrirmyndar og baráttuaðferðir þeirra, en að hygla lögbrotum, því afleiðingar þess gætu orðið alvarlegri en okkur grunar.
Flokkur: Bækur | Miðvikudagur, 29. desember 2010 (breytt kl. 13:38) | Facebook
Færsluflokkar
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.