Vitringurinn og hirðfíflið

Einu sinni fyrir löngu síðan var konungur einn í ríki sínu. Átti hann eina dóttur, er þótti fögur og væn. Hafði hann hjá sér hirð mikla, þar á meðal vitring einn og hirðfífl. Vitringurinn hafði lært hjá helstu spekingum og fræðimunkum og þótti vís maður um marga hluti. Var hann konungnum til ráðgjafar um flest mál, auk þess sem hann hafði það hlutverk að kenna prinsessunni. 

Eitt ár varð mikill uppskerubrestur í ríkinu. Var konungi mjög umhugað um þegna sína og hafði af þessu þungar áhyggjur. Fékk hann mörg ráð og góð frá vitringnum. Dagarnir voru honum langir og erfiðir. Á kvöldin fékk hann hirðfíflið til að leika listir sínar og létta sér stundir. Fíflið lék á als oddi, fór handahlaup og hafði uppi hin mestu kjánalæti, við fögnuð bæði konungs og prinsessu. Fór þetta í skapið á vitringnum, er lét ekkert færi framhjá sér fara, til að gera lítið úr fíflinu. Í hvert sinn er hirðfíflið skyldi skemmta hirðinni, andvarpaði vitringurinn hátt.

- Á nú enn að líta til fíflsins og skemmta sér yfir kjánalátum? Aldrei myndi ég haga mér svona, sagði hann. Gekk svo fram eftir vetri. Á daginn sótti konungur ráð til vitringsins en á kvöldin skemmtun til hirðfíflsins. Vitringurinn varð viðskotaillri við hirðfíflið eftir því sem tímar liðu fram.

- Aðeins forheimskandi kjánalæti og bjánaháttur sem þetta fífl hefur uppi. Ekki ætla ég að fylgjast með þessari skemmtun, ef skemmtun mætti kalla, sagði hann hátt svo aðrir í hirðinni heyrðu til. Ekki lét hirðfíflið þetta á sig fá, heldur hélt uppteknum hætti og létti konungi lundina.

Dag einn gat vitringurinn ekki lengur setið á sér og gekk á fund konungs og mælti:

- Hví eyðir yðar hátign tíma sínum í að horfa á og fylgjast með fíflalátum og kjánaskap? Hafið þér engin þarfari verk að vinna?

Konungur leit til vitringsins og brosti.

- Jafnvel í allri þinni visku, sérðu ekki að bros og hlátur eru besta lækning við því er hrjáir huga og hjarta, svaraði konungurinn.

Vitringurinn firrtist við og sagði:

- Ekki kann það góðri lukku að skýra, að láta prinsessuna fylgjast með þessu framferði fíflsins í stað þess að sinna lexíum sínum, eða trúir yðar hátign því? Varla er fíflaskapurinn til eftirbreytni?

Enn brosti konungur og svaraði:

- Ég kýs heldur, að prinsessan líti upp til þeirra sem í fávisku sinni gleðja aðra, fremur en að hún líti upp til þeirra sem í visku sinni gera lítið úr öðrum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband