Ég held, að Jón Gnarr, þótt ótrúlegt megi virðast, eigi eftir að hafa stórkostleg áhrif á íslensk stjórnmál og jafnvel víðar. Í viðtali í Kastljósi á RÚV tókst honum að brjóta nær allar óskrifaðar reglur stjórnmálamanna og hefur án efa valdið miklum titringi þeirra á meðal. Jón baðst afsökunar í viðtalinu, ekki bara einu sinni heldur tvisvar. Hann sagðist ekki vita allt og reyndi ekki að klóra sig út úr spurningum sem hann ekki gat svarað með einhverjum óskiljanlegum hugtakaflaumi. Hann kom einfaldalega til dyra eins og hann var klæddur og svaraði af, að því er virtist, einlægni. Hann reyndi ekki að afsaka hækkanir á útsvari með því að kenna fyrri borgarstjórnum um, en ég efast ekki um að venjulegur stjórnmálamaður hefði gert það (allar slæmar ákvarðanir sem þarf að taka í stjórnmálum eru alltaf fyrri stjórnum að kenna og óráðsíu þeirra).
Spyrillinn, eins ókurteis og ömurlega leiðinleg hún var, reyndi að koma honum úr jafnvægi, en hann hélt bara áfram að svara eins og honum er einum lagið. Hann talaði í raun meira mál almennings, fremur en tyrfða tungu stjórnmálamanna. Hann, þrátt fyrir alla sína galla, hefur náð að fá fólk í lið með sér og það fer mjög í taugarnar á þeim sem eru hallir undir ákveðna flokka, eins og má sjá glögglega á mýmörgum bloggfærslum og uppfærslum á Facebook. Í raun bíða margir eftir því að sjá honum mistakast, svo þeir geti látið í sér hlakka yfir því. Gallinn er bara sá, að ég reikna með ef hann gerir mistök, þá reynir hann ekki að kenna öðrum um, heldur tekur ábyrgð á því sjálfur og biðst afsökunar. Sem er miklu mun meira en nokkur venjulegur stjórnmálamaður myndi gera. Því, eins og allir vita, þá gera stjórnmálamenn ekki mistök. Þeir eru alvitur ofurmenni!
Mín tilfinning er sú, að með því að sýna að hann er mannlegur, sé Jón að nálgast fólk á allt annan hátt en stjórnmálamenn hafa gert hingað til. Og mér finnst það mjög jákvætt. Óháð því hvað fólki kann að finnast um Jón, Besta flokkinn eða frammistöðu þeirra, þá er þessi framkoma, þessi hegðun, til eftirbreytni. Það getur ekki verið slæmt, að stjórnmálamenn stígi niður af hinum ímyndaða, upphafna stalli sínum. Þeir hafa einmitt verið gagnrýndir fyrir að hafa misst tengsl við kjósendur. Og Jón er einmitt eins og einn af okkur, hann gefur okkur færi á að taka þátt í gleði sinni og sorgum. Ég fann amk. fyrir því við að horfa á hann, að honum þótti útsvarshækkunin, uppsagnir í OR og aðrar breytingar sem hafa áhrif á okkur, leiðinlegar og tók þær nærri sér.
Jón birtist mér sem hann sé ekki að reyna spila einhvern annan en hann er. Hann er breyskur maður, með fullt af kostum og göllum. Í stað þess að reyna fela galla sína, þá dregur hann þá fram í dagsljósið og leyfir okkur kjósendum að vega hann og meta út frá því. Það er til fyrirmyndar. Ég er því ekki að kjósa upphafna og tilbúna glansmynd, útfærðri á auglýsingastofu og inni í bakherbergjum stjórnmálaflokka, heldur lifand persónu. Einstakling sem hefur það markmið að láta gott af sér leiða, þrátt fyrir eigin takmarkanir.
Mér finnst þetta mjög jákvætt og gott. Ég held, að við Íslendingar þurfum á þessu að halda, ekki bara stjórnmálamenn. Það er í lagi að vera þú sjálfur, þó svo þú hafir einhverja galla. Og skilaboðin eru einföld: Reynum að hafa það gaman saman. Forðumst að vera leiðinleg, forðumst leiðinlega fundi sem skila engu, nema nöldri og tuði. Ég vona, að fleiri stjórnmálamenn taki þetta til fyrirmyndar. Ég held, að það sé mikilvægt á þessum tímum, þó þeir séu erfiðir, að við reynum að taka þetta á brosinu. :)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.