Möguleg afbrot skattlögð

Fyrir allnokkrum árum stóðu ákveðnir meðlimir STEF og kvörtuðu yfir því að á sumum rakarastofum hérna í Reykjavík væri kveikt á útvarpi á meðan starfsemi fór fram. Þeir héldu þeim rökum fram, að þar væri verið að dreifa tónlist og öðru höfundavörðu efni. Vissulega má það til sanns vegar færa, en á móti kemur, að Rúv greiðir býsna há STEFgjöld á hverju ári og í raun hafði þá þegar verið greitt af viðkomandi efni en þessir meðlmir vildu fá aftur greitt...fyrir sömu dreifingu í raun og veru, því ekki kusu rakararnir hvaða lög voru spiluð hverju sinni, en látum það liggja á milli hluta.

Þegar Netið varð loks að stóru fyrirbæri og í ljós kom, að notendur þess gátu deilt tónlist sín á milli stóðu meðlimir STEF aftur á fætur og kvörtuðu sáran. Nú skil ég alveg, að þeim geti sárnað að verða af heilmiklum tekjum sökum ólöglegrar dreifingar á höfundavörðu efni. Það er vissulega mikill tekjumissir af þessari starfsemi á netinu. Reyndar er ég ekki viss um að allir þeir sem hlaða niður og upp efni af netinu myndu kaupa viðkomandi efni, þannig hvort hægt sé að reikna hverja upphleðslu og niðurhleðslu sem tapaðar tekjur, finnst mér pínu hæpið. Hvað um það, STEF fékk því framgengt að allir óbrenndir geisladiskar og harðir diskar beri STEFgjöld. Rökin eru þau, að þetta er jú notað til að hlaða niður tónlist og diskarnir eru notaðir m.a. til að brenna á þá tónlist. Sem sagt, allir harðir diskar og geisladiskar, hvort þeir tengist niðurhleðslu á höfundarvörðu efni eða ekki, bera STEFgjöld, hversu sanngjarnt sem það kann að virðast. 

Þetta er þó ekki nóg, því STEF hefur lagt til að nú verði lagður sérstakur netskattur á alla netnotendur, þ.e. að þeir greiði STEFgjöld, til að milda fjárhagslegs höggs sitt (STEFS) vegna ólöglegs niðurhals. Látum vera að STEF hljómi eins og siðblindur, fégráðugur útrásarvíkingur. Látum alveg vera að 99% netnotenda hafa nú þegar greitt STEF-gjöld af hörðum diskum sínum og óbrenndum geisladiskum. Látum líka vera að því fari fjarri að allir netnotendur hlaði niður eða deili tónlist. Skoðum frekar hvaða skoðun STEF hefur á almenningi. 

STEF virðist einfaldleg ganga út frá því, allt frá dæminu um rakarana, að almenningur sé að snuða samtökin um ómælda fjármuni. Og þá fjármuni ætla samtökin sér að ná í með góðu eða illu. Oftast nær illu, því miður, því ég held að það starf sem þar er unnið er að mörgu leyti mjög mikilvægt. Hagsmunagæsla á borð við þessa er vissulega þörf og nauðsynleg, sérstaklega á þessum tímum þar sem Netið gengur út á deilingu efnis. Hins vegar eru þær aðferðir sem notaðar eru vægast sagt til þess fallnar að fá fólk upp á móti samtökunum, og sérstaklega þegar notaðar eru klisjur fengnar frá verstu fjárglæframönnum Íslandssögunnar. 

STEF er tilbúið að ganga svo langt, að stimpla alla netnotendur þjófa. Og ekki nóg með það, þeir eru í raun orðnir þjófar áður en netnotkun þeirra hefst, því þeir þurfa jú að tryggja að þeir hafi aðgang að neti áður en netnotkunin hefst. Í stað þess að eltast við hina raunverulegu sakamenn, þá sem deila tónlist og öðru höfundavörðu efni, þá fá allir þennan dóm á bakið og greiða sekt í formi netskatts, sem er ekkert annað en rangnefni eða í versta falli nýyrði yfir innheimtu STEFgjalda. Og maður hlýtur að spyrja sig, úr því ég er búinn að greiða þessi gjöld, hvað stendur þá í vegi fyrir því að ég hlaði niður tónlist? Ég er jú búinn að greiða gjöldin!

Hugsum okkur svipað dæmi en snúum því að umferðinni. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ákveður að leggja svokallaðan hraðaskatt á alla einstaklinga í Reykjavík og nágrenni sem hafa bílpróf. Skatturinn er 5.000 kr. á mánuði og er innheimtur vegna þess að allir ökumenn keyra á einum eða öðrum tíma of hratt, en það er engin leið að ná öllum sem brjóta með þeim hætti af sér. Hvernig ætli dómstólar myndu túlka það, ef mál færi fyrir dómstóla, þar sem ökumaður hefur verið tekinn fyrir að aka of hratt en segist vera búinn að greiða sektina fyrirfram? Honum var jú sendur gíróseðill í hverjum mánuði og þar sem hann hefur greitt samviskusamlega gíróseðlana, þá hafa safnast upp sektargreiðslur upp á kr. 60.000 á einu ári. Hvernig ætli dómari myndi dæma í því máli? Ekki má sekta/dæma tvisvar fyrir sama brot, ef ég skil lögin rétt. Hægt er að þyngja og draga úr dómum, en aðeins á efri dómstigum. 

Hvernig vilja STEF leysa þetta? Ætla samtökin að hætta að eltast við deilipunkta á borð við Pirate Bay, DC++, Torrent og hvað þetta allt nú heitir? Munu þau sætta sig við að allir, brotlegir og saklausir, greiði sinn internetskatt eða munu þau halda áfram að eltast við þá sem ganga hvað harðast fram í deilingu á höfundavörðu efni? Hvenær verða þau sátt við sinn árangur? Hversu langt eru þau tilbúin að ganga, úr því forsvarsmönnum þessara samtaka finnst í góðu lagi að þjófkenna heila þjóð?

Í þessu, eins og svo mörgu sem ég hef bloggað um, finnst mér skorta á hófsemi og sanngirni. Það er eins og samfélag okkar sé orðið svo gegnumsúrt af dómhörku, reiði og allir svo uppteknir að verja sitt, að fólk hefur misst sjónar á stóru myndinni, hlutir eru æ sjaldnar settir í víðara samhengi og fyrir vikið ríkir þröngsýni og oft á tíðum fáviska. Auðvitað er þetta vandamál risastórt, því neita ég ekki og það er synd að vita til þess að margir höfundar verða af háum STEFgjöldum, en að ætla sér að refsa allir þjóðinni fyrir það, er að mínu mati fáránleg hugmynd. Næstu skref í þá átt hljóta þá að vera enn meira út í hött og erum við tilbúin til þess? Erum við tilbúin að skattleggja öll möguleg, óunnin en áætluð afbrot?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband